« Tvær villur fara ávallt samanRitningarlesturinn 11. október 2006 »

11.10.06

  08:43:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1223 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

4. Þróun guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú frá dulúð til almennrar guðrækni í kirkjunni.

4. Alhelga hjarta

Í upphafi sautjándu aldar var það heil. Jean Eudes (1602-1680) sem stuðlaði mikið að því að útbreiða tilbeiðslu hins Alhelga Hjarta Jesú og hins Flekklausa Hjarta Maríu. Hann skrifaði fyrstu bókina um hjartaguðræknina: „Le Cœur Admirable de la Très Sainte Mère de Dieu," og innleiddi sérstaka hátíð til heiðurs hins Alhelga Hjarta Jesú árið 1672. Árið 1903 gaf Leó páfi XIII honum heiðursnafnbótina „Höfundur helgisiðatilbeiðslu hins Heilaga Hjarta Jesú og hins heilaga Hjarta Maríu.“ Meðal annarra boðbera tilbeiðslu hins Alhelga Hjarta Jesú voru heil. Frans frá Sales (1572-1622), jesúítarnir Alvarez de Paz, Luis de la Puente, Saint-Jure og Nouet og varðveist hefur ritsmíð eftir föður Druzbicki (d. 1662) sem hann nefndi „Meta Cordium, Cor Jesu.“ Einnig má minnast á heil. Frans Borgia, blessaðan Pétur Canisius, heil. Aloysius Gonzages og hl. Alphonsus Rodriguez, bl. Marina de Escobar á Spáni (d. 1633) og bl. Marguerite af hinu blessaða Sakramenti en hún var Karmelíti. Myndin af hinu Alhelga hjarta tók einnig að njóta almennra vinsælda, einkum sökum þess að Jesúítarnir höfðu til siðs að setja hana á forsíðu útgefinna rita sinna og á veggi kirkna sinna.

Það var svo hl. Margaret Marie Alacoque (1647-1690) sem Kristur útvaldi til að opinbera hið Alhelga hjarta með einstæðum hætti sem blés nýju lífi í tilbeiðslu þess. Hún meðtók fyrstu sýnina af hinu Alhelga Hjarta í Paray-le-Monial í Frakklandi þann 27. desember árið 1673. Tvær aðrar opinberanir fylgdu í kjölfarið í uppafi árs 1674 og enn að nýju 2. júlí sama árs. Þetta gerðist ávallt þegar hún var að tilbiðja hið heilaga sakramenti. Fjórða opinberunin átti sér stað þann 16. júní árið 1675. Það var meðan á þessari opinberun stóð sem Jesús bað Margrétu að hann æskti þess að sérstök hátíð yrði innleidd til heiðurs hinu Alhelga Hjarta á fyrsta föstudeginum eftir Kristslíkamahátíðina (Corpus Christi í júní).

Í þessum opinberunum leiddi Jesús henni Hjarta sitt fyrir sjónir logandi í elsku til alls mannkynsins og krýnt þyrnum sem táknuðu syndir þess og gegnumníst spjóti vanþakklætis mannanna. Jesús sagði: „Sjáðu Hjartað sem elskað hefur mannkynið svo heitt og fær ekkert annað sem endurgjald en þetta vanþakklæti.“ Jesús bað Margréti einnig að gera yfirbót sökum þessa vanþakklætis og af hversu mikilli fyrirlitningu syndugur menn brygðust við elsku hans.“

Smám saman breiddist tilbeiðslan á hinu Alhelga Hjarta út um allt Frakkland. Helstu hvatamennirnir að baki þessa auk Margrétar sjálfrar voru jesúítaprestarnir Claude de la Columbière og Jean Croiset. Tilbeiðsla hins Alhelga Hjarta tók einnig að breiðast út um önnur lönd í Evrópu og skaut sérstaklega djúpum rótum í Póllandi. Tilbeiðsla hins Alhelga Hjarta hefur orðið fjölmörgum innblástur og leitt þá til mikils heilagleika. Allir hinna heilögu báru sérstaka elsku í brjósti til hins Alhelga Hjarta og upplifðu með áþreifanlegum hætti hvernig Kristselskan tók að loga í þeirra eigin hjörtum.

Opinberun heil. Katrínar Labore, eina systranna í samfélagi Kærleikssystra St. Vincent de Paul í París stuðlaði enn frekar að útbreiðslu tilbeiðslunnar. Þetta gerðist árið 1830 og fyrsta opinberunin átti sér stað þann 18, júlí, sú önnur 27. nóvember og sú þriðja skömmu síðar. Í annarri opinberuninni birtist hin blessaða Mey henni þar sem hún stóð á tungli og hélt á hnetti í hendinni. Ofurskær birta barst frá hringum á hendi hennar sem greyptir voru eðalsteinum. Hún sagði Katrínu að þeir táknuðu þá náð sem hún myndi úthella yfir allar þær sálir sem bæðu um náðargjafirnar. Systir Katrín greindi einnig frá því að umhverfis Guðsmóðurina birtist eggmyndaður ljóshjúpur þar sem sjá mátti gullna stafi og orðin: „Ó María, getin án syndar, bið fyrir oss sem leitum ásjár þinnar.“ Á bakhliðinni mátti sjá bókstafinn M í krossi með þverstriki að neðan og undir þeim hin heilögu Hjörtu Jesús og Maríu og hið Alhelga Hjarta Jesú umvafið þyrnum og gegnumníst sverði.

Guðsmóðirin bað um að kraftaverkamen yrði gert samkvæmt þessari fyrirmynd og það fyrsta leit ljós í París þann 30. júní 1832 og síðan breiddust þau skjótt út um alla Evrópu. Einhver athyglisverðasta frásögnin í sambandi við kraftaverkamenið tengdist Gyðingi einum í Strassborg, Alphonse M. Ratisbonne. Vinur hans hafði reynt að snúa honum til kristindómsins án árangurs, en hann samþykkti þó að bera menið. Skömmu síðar þegar hann var staddur í Róm gekk hann af tilviljun inn í kirkjuna Sant’ Andrea della Fratte og sá Guðsmóðurina nákvæmlega eins og hún er sýnd á meninu. Hann snérist samstundis til trúar og afturhvarf hans nýtur kirkjulegrar blessunar og er minnst í helgisiðunum í sambandi við kraftaverkamenið.

Meðal hinna heilögu sem lögðu sérstaka rækt við tilbeiðslu hins Alhelga Hjarta Jesú á síðari tímum voru: Píus páfi IX (1792-1878), heil. Jóhannes Bosco (1815-1886), heil. Theresa af Jesúbarninu (1873-1897), heil. Píus páfi X (1835-1914), heil. Fástína Kowalska (1905-1938), Padre Pio (1887-1968) og loks Erzsbet Szsanto (1913-1985).

BÆN:
Þessa bæn fór Padre Pio daglega með fyrir hönd allra þeirra
sem leituðu fyrirbæna hans.

I. – Ó Jesús minn! Þú sagðir sannarlega: „Biðjið og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upplokið verða“ (Mt 7. 7). Ég kný á, leita og bið um þá náð . . .
Faðir vor, Heil sért þú María, Dýrðarbænin. Alhelga hjarta Jesú, ég set allt mitt traust á þig.
II. – Ó Jesús minn! Þú sagðir sannarlega: „Og hvers sem þér biðjið Föðurinn um í mínu nafni, það mun hann gjöra“ (sjá Jh 14. 13). Sjá, í þínu nafni bið ég Föðurinn um þá náð . . .
Faðir vor, Heil sért þú María, Dýrðarbænin. Alhelga hjarta Jesú, ég set allt mitt traust á þig.
III. – Ó Jesús minn! Þú sagðir sannarlega: „Þar til himinn og jörð líða undir lok munu orð mín ekki líða undir lok“ (sjá Mt 5. 18). Sjá, hvattur af ófallvöltum orðum þínum bið ég nú um þá náð . . .
Faðir vor, Heil sért þú María, Dýrðarbænin. Alhelga hjarta Jesú, ég set allt mitt traust á þig.
Ó Alhelga Hjarta Jesú sem aðeins eitt er ómögulegt, það er að segja að hafa ekki samúð með hinum þjáðu. Miskunna þú okkur aumkunarverðum syndurunum og veittu okkur þá náð sem við biðjum um fyrir sorgmætt og Flekklaust Hjarta Maríu, blíðlyndrar móður þinnar og okkar.

Síðan fylgir Salve Regina og hl. Jósef, fósturfaðir Jesú, bið fyrir oss.

Næst: 5. Afstaða Páfastóls til útbreiðslu guðrækninnar á hinu Alhelga Hjarta Jesú og hinu Flekklausa Hjarta Maríu.

No feedback yet