« Ritningarlesturinn 11. október 2006Ritningarlesturinn 10. október 2006 »

10.10.06

  07:56:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1356 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

3. Logi elsku hins Alhelga Hjarta Jesú í dulúð kirkjunnar

Sá logi ástarfuna elskunnar sem yljað hafði hjarta kirkjunnar frá upphafi vega tók að brjótast út með sýnilegum og áþreifanlegum hætti hjá hinum heilögu á tólftu öld innan Vesturkirkjunnar og nokkru síðar eða á þeirri þrettándu í Austurkirkjunni þegar sífellt fleiri feðranna á hinu heilaga Aþosfjalli tóku að leggja rækt við bæn hjartans. Ekki er unnt að kalla þessa þróun annað en andlega umskurn hjarta kirkjunnar og ávöxt Kristselskunnar sem þróast í elsku á náunganum og fyrirbæn fyrir öllu mannkyninu. Þannig er lögð áhersla á þessa þróun með þeirri viðbót sem kemur við Ave María (Heil sért þú . . .) – sem með réttu má nefna Jesúbæn Vesturkirkjunnar [1] – með orðunum: Heilaga María Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastund vorri. Og samofin miskunnarbæn Austurkirkjunnar er Maríubænin: Alhelga Mey og Guðsmóðir, bjarga oss. Eins og áður hefur verið sagt er hið Alhelga Hjarta Jesú bendill til djúpstæðari sanninda verundar Krists og það sama má segja um hið heilaga Nafn innan Austurkirkjunnar. En í báðum tilvikunum er um sömu hjartabænina að ræða.

Allt eru þetta ummerki þess að kirkjan hafði vaxið í heilagri þekkingu á hjálpræðinu á hinum myrku miðöldum. Eða með orðum heil. Gregoríosar frá Nazíanzos (330-390):

Gamla testamentið opinberaði Föðurinn með ljósum hætti, en Soninn einungis óljóst. Nýja testamentið opinberaði Soninn og gaf til kynna Guðdómstign Heilags Anda. Í dag dvelur Andinn meðal okkar og opinberar sig með fyllri hætti. Það var ekki talið tímabært að opinbera Soninn meðan Guðdómur Föðurins var ekki viðurkenndur með beinum hætti, eða að leggja byrðar Andans á herðar okkar (ef ég má tjá mig með svo djörfum hætti) meðan Sonurinn hafði enn ekki verið meðtekinn . . . heldur var þetta gert í stigvaxandi mæli og eins og Páll sagði með vexti og framförum frá dýrð til dýrðar svo að ljós Þrenningarinnar mætti skína á þá sem voru betur upplýstir . . . Frelsari okkar sagði að um ýmislegt annað væri að ræða sem lærisveinar hans gætu ekki borið að sinni (þrátt fyrir að þeir væru margs vísir) . . . Og enn að nýju sagði hann að Andinn myndi uppfræða okkur um allt þegar hann kæmi til að dvelja með okkur. Meðal þessa tel ég að hafi verið Guðdómur sjálfs Andans sem yrði ljósari þegar frá liði þegar slík þekking væri orðin tímabær og unnt væri að meðtaka slíkt eftir að Sonurinn hefði verið viðurkenndur og þannig yrði Guðdómstign hans kunn. [2]

Með þessum sífellda vexti í guðdómlegri þekkingu hefur sjálf kirkjan aukið kærleiksríka þekkingu sína í aldanna rás á ráðsályktun Guðs undir leiðsögn Heilags Anda. Hinar trúfræðilegu skilgreiningar á þessum trúarleyndardómur hafa ekki verið settar fram fyrr en ytri aðstæður hafa krafist þess, þrátt fyrir að sannleikurinn að baki trúarsetninganna hafi lifað í hjarta kirkjunnar sem guðrækileg afstaða hennar og iðkun frá upphafi.

Hver votturinn eftir annan kemur nú fram í Vesturkirkjunni á tólftu öld og ber hinu Alhelga Hjarta Jesús lof með heilögu líferni sínu. Andinn helgi tekur nú að leggja sífellt meiri áherslu á orð Páls postula: „Vitið þér eigi að þér eruð musteri Guðs og að Andi Guðs býr í yður“ (1Kor 3. 16). Í skírninni glæðir Heilagur Andi neista hinnar guðdómlegu elsku í musteri mannssálarinnar svo að hann geti logað þar Guði til dýrðar. Þetta merkir hlutdeildina í hinu guðdómlega lífi. Þetta guðdómlega líf ummyndar okkur í heilagan eignarlýð í hinu konunglega prestafélagi hins Nýja sáttmála. Þetta gerist sökum hinnar helgandi náðar sem streymir út frá hinu Alhelga Hjarta Jesú. Í kirkjunni er hið Alhelga Hjarta Jesú sú fórn sem borin er fram á altarinu á sérhverjum degi um alla heimsbyggðina í sérhverri messu og í leyndardómi messunnar verður það mannshjarta að musteri Drottins sem opnar sig fyrir náð hans í fullkominni auðmýkt og þannig verður mannsandinn að hásæti Guðs á jörðu.

Á tólftu öld má minnast á William frá St. Thierry (d. 1148), Heil. Bernard frá Clairvaux (d. 1153), og Richard í St. Victor (d. 1173). Á þrettándu öld eru það heil. Frans frá Assisí (d. 1226) og heil. Klara (d. 1253), heil. Boneventura (d. 1274), heil. Mecthilde frá Magdeburg (d. 1297) og Gertrude hin mikla (d. 1301). Á þeirri fjórtándu , heil. Katrín frá Síena (d. 1360) og Rúdolf frá Saxlandi (d. 1378) og síðar Dominic frá Treves (d. 1461), Lanspergius (d. 1539), Louis de Blois (d. 1566), blessaðan Jóhannes frá Avila (d. 1569), heil. Teresa frá Avíla (d. 1582), heil. Jóhannes af Krossi (d. 1592) og heil. Frans Borgia (d. 1622). Heil. Frans Borgia markar þannig þáttaskilin, en á sautjándu öldinni koma fram enn aðrir vottar elsku hins guðdómlega hjarta sem áttu eftir að marka djúp spor í þróun guðrækni kirkjunnar.

Frá tólftu fram á sautjándu öld var um einstaklingsbundna guðrækni að ræða sem lögð var rækt við meðal Fransiskana, Dóminíkana, Karþúsa og Karmelíta. Hér var um einstaklingsbundna guðrækni að ræða sem enn hafði ekki tekið á sig mynd sem almenn guðrækni innan kirkjunnar. Hér var enn um dulúð að ræða sem var þó smám saman að taka á sig ákveðna mynd með bænum og sérstakri iðkun. Það er síðan heil. Jóhannes af Krossi sem leggur guðfræðilegan grundvöll að guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í ljóði sínu og riti Loga lifandi elsku. Eins og hann kemst sjálfur að orði er hér um að ræða „útskýringar á erindunum sem fjalla um hina innilegu og háleitu sameiningu og ummyndun sálarinnar í Guð:

Ó logi lifandi elsku
sem særir sál mína ljúflega
í dýpstu miðju hennar!
Þar sem þú íþyngir ekki lengur,
fullkomna verk þitt, ef þú vilt sjálfur,
sviptu burt blæju þessara ljúfu endurfunda.

Ó ljúfa sviðasár!
Ó milda und!
Blíða hönd! Sæta snerting,
keimur eilífs lífs
sem geldur alla sekt!
Deyðir og umbreytir dauða í líf.

Ó eldlegu lampar
sem með dýrð ykkar
opinberið hella skynhrifanna
áður blindu hulda,
og með framandi birtu
veitið Ástmögurnum yl og ljós.

Hversu mildilega og elskuríkt
vakir þú ekki í hjarta mínu,
þar sem þú dvelur einn í leynum!
Í sætum andblæ þínum
þrungnum gæsku og dýrð,
hversu elskar þú ekki í ljúfleika þínum! [3]

Iðkun dulúðar hins Alhelga hjarta Jesú innan Vesturkirkjunnar verður best lýst með orðum heil. Jóhannesar sjálfs: „Það er engin ástæða að undrast að Guð skuli gefa þeim sálum sem hann ákveður að auðsýna velþóknun hlutdeild í svo háleitum og undursamlegum náðargjöfum í ósegjanlegri elsku og gæsku sinni. Sjálfur sagði hann að Faðirinn, Sonurinn og Heilagur Andi myndu gera sér bústað í þeim sem elska hann með því að gera þeim kleift að lifa lífi Guðs og dvelja í Föðurnum, Syninum og Heilögum Anda (Jh 14. 23), eins og sálin vekur athygli á í þessum erindum.“ [4].

BÆN:
Alhelga Hjarta Jesú sem brennur í elsku til mín. Gef að hjarta mitt megi loga í elsku til þín!

Næst: 4. Þróun guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú frá dulúð til almennrar guðrækni í kirkjunni.

[1]. Rainer Scherschel: Der Rosenkranz – das Jesusgebet des Westens.
[2]. Patrologia Greaca, XXXVI, 161-4.
[3]. Llama de amor viva (heil. Jóhannes af Krossi).
[4]. Ibid, Inngangur 2.

No feedback yet