« Frjósemi hjónabandsinsAllra heilagra messa - 1. nóvember »

17.11.10

  16:12:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 402 orð  
Flokkur: Prédikanir

33C - Að leita að hinum sönnu verðmætum

Hvers konar hlutir vekja hrifningu hjá okkur? Hvað er það sem fær okkur til þess að líta aftur og aftur á suma hluti? Ef til vill lítum við tvisvar á dýran bíl eða við dáumst að fínu og skrautlegu heimili? Kannski kemur það fyrir að við öfundum líkamlegt atgerfi einhvers?

Svipað átti sér stað á dögum Jesú. Eitt sinn var fólk að dást að hinu fallega musteri í Jerúsalem, með marmara og gullskreytingum sínum. En Jesús sagði þeim að allt þetta yrði rifið niður. Í sögubókum má lesa að innan 40 ára urðu orð Jesú að veruleika. Árið 70 eftir Krist jöfnuðu rómverskir hermenn musterið við jörðu þegar þeir sigruðu Jerúsalemborg og drápu mörg þúsund íbúa hennar.

En, við getum sagt að svipuð örlög bíði ýmissa hluta sem við höfum í kringum okkur. Fíni bíllinn, sem við dáumst að í dag, verður ef til vill innan fárra ára ryðguð járnhrúga. Eftir nokkra áratugi þarf nýja húsið ef til vill nýtt þak og málningu. Og maðurinn sem var einu sinni með íþróttamannslega útlitið, verður skvapkenndur.

Margir hlutir í lífinu endast ekki lengi. Við njótum þeirra ef til vill í einhvern tíma. Þannig er háttað með frægðina. Hetja dagsins í dag gleymist fljótt. Kynslóðir koma og kynslóðir fara Við sem uppi erum í dag vitum lítið um þá hluti sem fyrri kynslóðir mátu mikils. Guðspjall dagsins minnir okkur á að einskorða sjónir okkar ekki við skammvinn markmið þessa jarðneska lífs. Við verðum að leita að hinum sönnu verðmætum sem eru eilíf.

Til er saga um ríkan mann sem fór fótgangandi í pílagrímsför til frægs helgistaðar. Á leið sinni kom hann við í litlu klaustri þar sem mjög heilagur munkur bjó. Ríki maðurinn og hinn heilagi munkur tóku tal saman. Ríki maðurinn var undrandi að sjá engin húsgögn að frátöldum einföldum borðum og stólum í klaustrinu.
"Bróðir," spurði ríki maðurinn, "hvar eru öll húsgögnin þín?"
"Ég gæti spurt þig sömu spurningar," svaraði munkurinn.
"Ég er ekki með nein húsgögn núna af því að ég er á pílagrímsför," sagði ríki maðurinn. "Ég er pílagrímur og á bara leið hér um."
Munkurinn brosti og sagði: "Það er ég líka."

Öll erum við pílagrímar sem eigum leið hjá. Ákvörðunarstaður okkar er himnaríki. Þess vegna verðum við að gæta okkar á því að ánetjast ekki af hlutum sem ekki hafa varanlegt gildi. Hins vegar skyldum við gefa meiri gaum að hlutum sem hafa eilíft gildi, svo sem trú, von og kærleika ...

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fallegur, vel skrifaður og fyrst og fremst lærdómsríkur pistill og góð áminning hverju og einu okkar. Hjartans þakkir, séra Denis.

18.11.10 @ 03:26