« HIV-nýsmit í hópi danskra homma um 300 sinnum algengara en meðal gagnkynhneigðra, danskra kvenna : rök gegn málflutningi í ísl. fjölmiðumHve margir eru kristnir menn á Íslandi? »

28.09.06

  13:51:33, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 361 orð  
Flokkur: Trúarbrögð í innbyrðis samskiptum og við veröldina, Kenning kaþólskrar kirkju, Islam og múslimar

2. Vatíkanþingið um islamstrú

Páfagarður hefur fyrir nokkrum dögum ítrekað orð 2. Vatíkanþingsins (1962–1965) sem lúta að trú múslima og virðingu fyrir henni, þ.e. í kirkjusamþykktunum Lumen Gentium og einkum í Nostra ætate.

Í 16. grein samþykktarinnar Lumen Gentium* (sem fjallar að mestu um kristna kirkju) segir, eftir að rætt hefur verið um kristna menn og Gyðinga:

"En hjálpræðisáætlun [Guðs] felur einnig í sér þá, sem játa trú á Skaparann. Í fremsta sæti meðal þeirra eru múslimir, sem lýsa því yfir að þeir hafi trú Abrahams og dýrka einn og miskunnsaman Guð, sem á efsta degi muni dæma mannkynið."


Í 3. gr. samþykktarinnar Nostra ætate** segir:

"Kirkjan lítur líka með virðingu til múslima. Þeir tilbiðja einn Guð, lifandi, ævarandi, miskunnarfullan og almáttkan, sem skapað hefur himin og jörð og talað til mannanna. Þeir leitast við af öllu hjarta sínu að gefa sig undir hans órannsakanlegu úrskurði, rétt eins og Abraham, sem islamstrúin gleðst yfir því að tengjast. Þótt þeir viðurkenni ekki Jesúm sem Guð, virða þeir hann sem spámann. Þeir heiðra einnig Maríu, meymóður hans, og ákalla hana stundum með trúnaðartrausti. Þar að auki bíða þeir dómsdags þar sem Guð muni gefa hverjum manni hans útmælda hlut eftir að hafa reist hann upp. Þeir virða þess vegna siðlegt líferni og dýrka Guð einkanlega með bæn, ölmusugjöf og föstu.

Þótt margar deilur og fjandskapur hafi komið upp milli kristinna manna og múslima í rás aldanna, þá hvetur þessi heilaga samkunda alla til að láta þá fortíð gleymda og keppa einlæglega eftir gagnkvæmum skilningi. Vegna alls mannkyns ættu þeir að gera sér þann málstað sameiginlegan að tryggja og efla félagslegt réttlæti, siðferðisleg gildi, frið og frelsi."

––––––
Það er rétt að þessir textar komi hér fram í tilefni af þeim umræðum, sem orðið hafa eftir fyrirlestur Benedikts XVI páfa í Regensburg 13. september sl. Tekið skal fram, að þetta er ekki opinber þýðing Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, heldur mín eigin frá í dag. JVJ.

* Páfabréf og kirkjulegar yfirlýsingar ganga frá miðöldum yfirleitt undir því nafni sem fyrstu tvö eða þrjú orð þeirra mynda. Oftast er þar um latínutexta að ræða (nema t.d. í skjalinu Mit brennender Sorge, stuttu fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldar). Lumen gentium = ljós þjóðanna.
** Nostra ætate = á okkar ævi eða aldri.

6 athugasemdir

Hallgrímur Viðar Arnarson

Mjög áhugavert. Hafði ekki vitneskju um þessar ályktanir. Takk fyrir gott inlegg.

28.09.06 @ 20:47
Kristinn Ásgrímsson

Kæri Jón.
Ég er nú ekki alveg að skilja hvað þú er að fara núna.(En hjálpræðisáætlun [Guðs] felur einnig í sér þá, sem játa trú á Skaparann)Skiptir þá ekki máli,hvort við treystum á Múhameð eða Krist?

28.09.06 @ 21:06
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Að sjálfsögðu skiptir það öllu máli, minn kæri bróðir í trúnni. Þarna mun alls ekki átt við þá eiginlegu hjálpræðisáætlun Guðs sem birtist í hans eigin, ofanskipuðu trúarbrögðum sem eru trúarbrögð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Móse og spámannanna og svo hins vegar fylling trúarinnar í kristindóminum. Ég hygg heldur ekki átt þarna við, að trúarbrögð, sem byggi á náttúrlegri opinberun (sbr. orð Páls postula í Róm.1 og 2), séu beinlínis trúarbrögð sem Guð hafi búið til (eins og hann “bjó til” hina Biblíulegu trú), heldur tel ég, að þarna sé verið að segja, að ef einhver trúi á einn almáttugan og miskunnsaman Guð, skapara himins og jarðar, þá geti það gefið viðkomandi möguleika til hjálpræðis, já til frekara hjálpræðis, til að læra í bæninni og tengjast lífi Guðs á innilegan hátt og í hlýðni. Vissulega hljóta viðkomandi menn, þegar þeim er boðuð kristni með þeim hætti, að skilningur þeirra getur opnazt gagnvart sannleika hennar, að ganga “frá [sinni ófullkomnu] trú til [meiri og fyllri og gleðiríkari] trúar” – þ.e. að meðtaka kristindóminn sem hið eiginlega hjálpræðisverk og fullkomnu hjálpræðisáætlun Guðs. En svo eru líka þessar leifar kristindóms í islam, sem ekki má líta fram hjá, hin lánuðu sannindi og réttu siðferðislegu atriði. Með því að segja þetta er ekki verið að halda því fram, að allt sé þar frá Kristi komið og því rétt.

28.09.06 @ 22:56
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Með hjálpræði getur verið átt við eilífa sáluhjálp, en ég notaði orðið í víðtækari merkingu, sem hér einskorðaðist meira við hjálpráð, hjálp, til einhverra dýrmætra hluta. Trúin er t.d. hjálpráð fyrir siðferðið, fyrir áframhaldandi siðlegt og kærleiksríkt líf mannsins hér á jörðu – og er svo reyndar frumskilyrði fyrir því, að hann fái inn gengið í ríki Guðs eftir dauðann. Þó hafa ómálga börn helguð Guði líka þann Guðsbarnarétt.

28.09.06 @ 23:00
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Hallgrímur Viðar, fyrir orð þín.

28.09.06 @ 23:03
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vegna greinar minnar í Lesbók Morgunblaðsins í dag, ‘Rétt og rangt í máli Manúels í Miklagarði’, vek ég aftur athygli á textunum úr Lumen Gentium og Nostra ætate hér ofar.

07.10.06 @ 07:13
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog tool