« Ritningarlesturinn 10. október 2006Ritningarlesturinn 9. október »

09.10.06

  08:19:55, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1105 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

2. Ástarfuni hins Alhelga Hjarta í umfjöllun kirkjufeðra fornkirkjunnar.

Sá ástarfuni sem hið Alhelga Hjarta Jesú ber til sköpunar sinnar og hin djúpstæða þrá þess til að leiða mannkynið inn í kyrrðarríki elsku Þrenningarinnar opinberast á fórnarhæð krossins:

„En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans, og rann jafnskjótt út blóð og vatn. Sá er séð hefur, vitnar þetta, svo að þér trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit, að hann segir satt“ (Jh 19. 34. 35).

Það er heil. Jóhannes sem festi þessi orð á blað og hann varð vottur að því sem gerðist í dauðastríði Drottins á fórnarhæð krossins. Hann er staddur á krosshæðinni ásamt Maríu Guðmóður og þegar spjótslagið gekk inn í síðu Krists gekk það skáhallt upp í gegnum hið helga hold og nam staðar í hjartastað. Og í guðspjalli hans lesum við: „Og rann jafnskjótt úr blóð og vatn“ (Jh 19. 35). Hér er um beina tilvísun til skírnarsakramentisins að ræða. Þannig er hinu háheilaga blóði úthellt yfir mannkynið til friðþægingar syndanna og vatnið skírskotar til vaxtarins í lífi náðarinnar og skírnar sjálfs Drottins í Heilögum Anda í ánni Jórdan.

Skírn Jesú í Jórdan er skírn í Heilögum Anda. Þarna er hann opinberaður sem Sonur Guðs. Með bæn sinni í Jórdan er hann smurður í Heilögum Anda og með náðargjöfunum . . . Ef skírn Jesú er skilgreining á kristinni skírn, þá felur það í sér að varpa skugga á ákveðinn þátt kristinnar skírnar þegar gert lítið úr skírn hans og minningunni um hana. [1]

Sú hjartnæma mynd sem dregin er upp af Jóhannesi við síðustu kvöldmáltíðina þar sem hann hallar sér að hjarta Drottins verður þannig að innblæstri fyrir íkonuskrifarana þegar þeir draga upp mynd af þessu atviki. Með íkonunni er lögð áhersla á að heil. Jóhannes sé andhverfa Júdasar sem trúði líkt og djöflarnir: „Án elsku“ (Jk 2. 19). Trú án elsku er andvana trú og það er náð Heilags Anda sem gæðir trúna elsku.

Þessi mynd var ástfólgin fyrstu kirkjufeðrunum líkt og þeim Ignatíusi frá Antíokkíu (d. 107) og Polýkarpusi frá Smyrnu (69-155). Þeir lifðu í Jesú, með Jesú og fyrir Jesú og dóu fyrir hann og staðfestu þar með elsku sína á honum með kórónu píslarvættisins. Eyðimerkurfeðurnir lögðu rækt við bæn hjartans vegna þess að þeim var ljóst að í verundardjúpi þeirra var Andinn hulinn sem hrópaði í sífellu „Abba, Faðir“ og það væri því hlutverk mannsins að heyra og taka óaflátanlega undir þessa bæn.

Það voru einkum hl. Ambrosíus (d. 397) og heil. Jóhannes Chrysostomos (d. 407) sem fjölluðu um blessun síðusárs Drottins til að glæða hina guðdómlega elsku. Hl. Ágústínus (d. 430) og hl. Pálínus frá Nóla (d. 431) studdust hins vegar fremur við ímyndina af Jóhannesi þar sem hann hallar sér að hjarta Drottins við kvöldmáltíðina.

Iðkun bænar hjartans var samofin ljúfleika þeim sem ætíð er samfara hinum guðdómlega ástarfuna, þeim ljúfleika sem gagntekur mannshjartað þegar það verður aðnjótandi sætleika Guðs og feðurnir nefndu „katanyxis“ á grísku. Það er þessi sætleiki ljúfleikans sem lærisveinarnir skynjuðu á veginum til Emmaus: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur“ (Lk 24. 32). Ljúfleiki sætleika Kristshjartans fær mannshjartað til að brenna í Kristselskunni. Hl. Ísak sýrlendingur (d. 790) víkur þessum orðum að bruna Kristselskunnar í mannshjartanu:

„Sá sem hefur öðlast slíkt hjarta getur ekki séð eða hugsað um skapaða veru öðru vísi en að augu hans fyllast tárum sökum þeirrar ósegjanlegu miskunnar sem gagntekur hjarta hans sem hefur mýkst og getur ekki hlustað á það þegar aðrir þjást, jafnvel einungis þegar um minnstu þjáningu er að ræða sem hið skapaða verður að líða. Það er af þessum ástæðum sem slíkur maður hættir aldrei að biðja, einnig fyrir dýrum, fyrir óvinum Sannleikans og fyrir þeim sem gera honum illt, þannig að allt megi frelsast og hreinsast.“ [2]

Tilbeiðsla hins Alhelga Hjarta Jesú var samofin hreinleika mannshjartans – að mannshjartað hreinsist í ástarfuna Kristshjartans, hins Alhelga Hjarta Jesú. Og rétt eins og lærisveinarnir gátu séð Drottinn í hreinleika hjartans, leggur sá sem er hið Alhelga Hjarta áherslu á hið sama: „Sælir eru hjartahreinir. því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8). Heil. Hesychíus frá Jerúsalem hvatti því samtíðarmenn sína til að vaka yfir hreinleika hjarta síns og vísaði til æðsta prests hins Gamla sáttmála, forgildi Krists:

Hin einstæðu skrúðklæði æðstaprests hins Gamla sáttmála voru tákn hreinleika hjartans sem hvetja okkur til að beina athyglinni að brjóstskyldi okkar eigin hjartna, ef hann á ekki að myrkvast af völdum syndarinnar og við hröðum okkur ekki til að hvítþvo hann með iðrunartárum og bæn. [3]

Kjarni þessarar guðrækni logaði þannig í hjarta fornkirkjunnar og takmarkið eitt og hið sama og kemur fram í Dagbók heil. Fástínu Kowalska fjölmörgum árhundruðum síðar:

„Jesús minn. Gef að ég megi öðlast elsku, samúð og miskunnsemi gagnvart öllum sálum. Ó, Jesús minn! Sérhver þinna heilögu endurspeglar einhverja dyggða þinna. Ég þrái að fá að endurspegla samúð Hjarta þíns sem er fullt miskunnar. Ég vil gera það dýrlegt. Ó Jesús! Gef að miskunn þín markist líkt og innsigli í hjarta mitt og sál og að þetta verði brennimark mitt í þessu og komandi lífi. Að gera miskunn þína dýrlega er eina takmark lífs míns“ (1242).

BÆN:

„Jesús! Gef að hjarta mitt verði eins og þitt, eða fremur ummyndaðu það í þitt eigið Hjarta svo að ég megi skynja neyð annarra hjartna, einkum þeirra sem eru harmþrungin og þjást. Megi geislar miskunnseminnar skína í mínu eigin hjarta“ – Fástína Kowalska (Dagbók, 514).

[1]. Kilian McDonnel og George T. Montague: Christian Initiation and Baptism in the Holy Spirit, bls. 307.
[2]. Mystic treatise, ed. A. J. Wensinck, bls. 179.
[3]. Greinar um árvekni og bæn, 195.

Næst: 3. Logi ástarfuna hins Alhelga Hjarta Jesú brýst út í kirkjunni

No feedback yet