« Heilagur Antoníus frá PadúaSMURNING SJÚKRA EÐA SAKRAMENTI SJÚKRA »

13.03.08

  21:05:09, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 520 orð  
Flokkur: Prédikanir

23. sunnudagur almennur, textaröð B

Veikindi og þjáningar hafa alltaf verið meðal stærstu vandamála, sem fólk hefur orðið að horfast í augu við í lífinu. Þegar við erum alvarlega veik, verðum við fljótt vanmáttug og auðsæranleg. Við verðum hrædd. Og þegar við erum veik, finnum við stundum fyrir návist dauðans.

Vanheilsa getur gert okkur reið, þunglynd og bitur. Stundum snúumst við gegn Guði þegar við erum veik, vegna þess að við sökum hann.

En vanheilsa getur líka haft gagnstæð áhrif. Hún getur hjálpað okkur til að þroskast, svo að við sjáum skýrar hvað er mikilvægt og hvað ekki í lífi okkar. Mjög oft getur vanheilsan hvatt okkur til að ………

……… leita að Guði og snúa okkur til hans.

Í guðspjallinu í dag (23B) sjáum við Jesús lækna mann, sem var heyrnarlaus og mállaus. Tengslin við fyrsta ritningarlesturinn eru skýr. Í báðum ritningarlestrunum heyra heyrnarlausir og mállausir tala. Þessir tveir kaflar úr ritningunni sýna okkur að Guð hefur mikinn áhuga á okkur.

Samúð Jesú með hinum sjúku og hinar mörgu lækningar hans eru tákn um það að Guð vakir yfir okkur og lætur sér annt um okkur. Frelsari okkar læknar ekki aðeins líkamann með því að taka burt sjúkdóma. Hann læknar líka sálir okkar með því að taka burt syndina. Samúð hans gagnvart öllum sem þjást gengur svo langt að hann gerir jafnvel þeirra þjáningar að sínum eigin: "Ég var sjúkur og þér vitjuðuð mín."

Samúð Jesú með hinum sjúku hefur varðveist um aldir í Kaþólsku kirkjunni. Fyrst í klaustrunum, þar sem hinir sjúku fundu skjól. Seinna helguðu margar presta — og nunnureglur sig því að annast sjúka. Til að finna dæmi um það þurfum við ekki að leita mjög langt. Við þurfum aðeins að minnast þess að þrjú af sjúkrahúsunum hér á Íslandi voru í mörg ár rekin af Sankti Jósefs systrum og Fransiskus systrum. Þessar systur og þúsundir fleiri víðsvegar um heim hafa helgað æfi sína því að hjálpa sjúkum. Þær feta í fótspor Jesú. Og þetta er ástæða þess sem við gerum sem kaþólskt fólk. Við fetum í fótspor Jesú. Jesús heldur áfram að kenna, lækna og þjóna — í gegnum okkur!………

………Þekking okkar og trú á Guð getur stundum byggst á lausnum og svörum, sem aðrir hafa fundið, frekar en okkar eigin persónulegu spurningum um reynslu og baráttu lífsins. Ef trú okkar á hinn bóginn er árangur mikils erfiðis, munu nýir örðugleikar leiða til nýrra spurninga og þá koma nýjar lausnir og svör og þannig mun trú okkar þroskast. Vanheilsa getur oft verið slíkir örðugleikar.

Megi Guð vernda okkur fyrir öllum veikindum. En ef við skyldum veikjast megi það verða okkur tækifæri til að vaxa í trú okkar og trausti á Guð.

No feedback yet