« Þrír kaþólskir menn teknir af lífi í IndónesíuHin óþrjótandi virðing »

17.09.06

  20:54:06, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 235 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Kaþólska kirkjan á Íslandi

20. krossgangan að krossinum í Riftúni

Í dag, sunnudaginn 17. september var gengin hin árlega krossganga að krossinum í Riftúni í Ölfusi. Ganga þessi er gengin sem næst krossmessu á hausti. Krossgöngurnar hófust árið 1986 en þá var gengið alla leið frá Landakotskirkju í Riftún. Einhverju sinni var gengið frá hinum gömlu Þrengslavegamótum um Þrengsli og a.m.k. einu sinni frá vegamótum í Ölfusi þar sem komið er niður úr Þrengslum. Hin síðustu ár hefur verið gengið frá vegamótum Suðurlandsvegar við Hveragerði þar sem nú er komið hringtorg. Þetta er um eins til eins og hálfs tíma ganga.

Í dag var lagt af stað um kl. 14.30. Þátttakendur í göngunni voru 14. Séra Denis O'Leary sóknarprestur í Maríukirkju í Breiðholti leiddi gönguna ásamt krossberum sem skiptust á um að bera göngukrossinn. Veður var þungbúið en það hélst þurrt alla leið. Talnabandsbænin var beðin á göngunni og sálmar sungnir. Í Riftúni bættust fleiri í hópinn og gengu með upp að krossinum á hamrinum fyrir ofan bæinn. Þar veitti sr. Denis viðstöddum blessun krossins. Alls voru 27 í hópnum við krossinn. Síðan var gengið niður að Riftúni og presturinn söng hl. messu. Þegar göngufólkið gekk niður af hömrunum og inn í húsið féll nokkur himnesk dögg á hina síðustu, dögg sem fljótlega breyttist í alíslenska rigningu.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í fyrstu göngunni árið 1986 var gengið frá vegamótum Þrengslavegar. Þátttakendurnir voru um 30, meðal þeirra fransiskanasysturnar. Þá var sjálfur krossinn sem nú er staðsettur á klettinum fyrir ofan Riftún borinn. Hann var þungur og gengu fjórir undir honum á vixl.

Eitt atvik er minnistætt úr þessari göngu. Þegar við nálguðumst Krossfjöllin nam bifreið staðar og fullorðinn maður sté út. Hann var hágrátandi. Þetta var mótmælandi, en hann varð svo djúpt snortinn af því að keyra svona fram á kross Krists, að hann gat ekki haldið aftur af tárunum. Þetta varð mér minnistætt.

Fjallað var um þetta í Morgunblaðinu ásamt myndum. Síðan hafa tímarnir breyst, líklegast myndu þeir þaga þetta í hel, eins og svo margt annað sem lýtur að guðsdýrkun núna.

Fjölmiðlar landsins tíunda í löngu máli mannaskipti á fjölmiðlunum sjálfum og allt sem varðar rekstur þeirra.

En þeir þegja Omega í hel sem er í reynd langmerkilegasta sjónvarpsstöð landsins og varpar nú sendingum sínum að minnsta kosti til 80 landa. Þetta teljast ekki vera fréttir í fjölmiðlaheiminum.

18.09.06 @ 07:35
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þessa athugasemd Jón. Varðandi lengd fyrstu göngunnar 1986 þá tek ég fram að ég var ekki með í henni. Heimild mín fyrir því sem þarna stendur er maður sem var með í göngunni í gær sem sagði að gengið hefði verið frá Landakoti.

18.09.06 @ 16:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Jón, athugasemdina um Omega og ekki síður frásögnina úr krossgöngunni.

18.09.06 @ 20:40