« Nicaragua-þjóð svipt þróunaraðstoð frá Íslandi vegna femínískt-pólitískrar andstöðu ÞSSÍ gegn fósturvernd?Miðstöð samkynhneigðra í Los Angeles viðurkennir að AIDS sé einkum þeirra sjúkdómur »

31.10.06

20. ártíð Hinriks biskups Frehen – Persónuleg minning

Biskup Frehen  Í dag eru 20 ár liðin frá andláti herra Hinriks H. Frehen Reykjavíkurbiskups. Hans verður minnzt í messu, sem sungin verður kl. 18:00 í basiliku Krists konungs í Landakoti í dag. http://www.vortex.is/catholica/Frehen1.jpg Það var mikill fengur að komu dr. Hinriks biskups til Íslands, svo gefandi, andlegum föður, lærðum í helgum fræðum. Þó naut hans allt of skamma stund fyrir okkar litla söfnuð (sem var á þeim árum um 16–18 hundruð á öllu landinu). Hann þjónaði samt kirkjunni hér í heil 18 ár. Ber kunnugum saman um, að henni hafi þá stefnt til heilla fram á veg.

Hinrik Hubertus Frehen var fæddur 24. janúar 1917 í Waubach í Suðaustur-Hollandi, gekk í menntaskóla Montfort-presta, gerðist sjálfur meðlimur reglu þeirra (S.M.M.) 1937, stundaði nám í heimspeki og guðfræði í Oirschot í Hollandi og var vígður prestur 18. des. 1943. Eftir það tók hann doktorspróf með ritgerð um Kristsfræði við hinn virta háskóla í Louvain í Belgíu.

Hann gegndi tveimur prófessorsembættum, fyrst í Biblíufræðum og síðar í trúfræði og trúarlífssögu. Hann var kallaður til meiri þjónustu í Montfort-reglunni og var framkvæmdastjóri trúboðsstöðvar í Róm, þegar hann var útnefndur biskup kaþólskra á Íslandi 1968. Þar þjónaði hann kirkju okkar til dánardags, 1986.

Kynni okkar hófust árið 1973. Eftir að ég, sem þá var í guðfræðinámi, sótti í mig veðrið að heimsækja hann – og jafnan boðinn velkominn aftur – nokkru eftir að hafa fengið mína fyrstu lifandi fræðslu í kaþólskri trú hjá séra Franz Übaghs, sóknarpresti (rector) í Kristskirkju, átti ég margar góðar stundir með honum við spjall um trú og guðfræðina. En talið barst líka að öðrum málum, svo sem heilsufari og mikilli trú hans á gildi ólífuolíunnar, að bakgrunni hans í Hollandi og Belgíu, reynslu fjölskyldu hans af stríði og að kúguninni í Þýzkalandi nazismans. [1]

Hann sýndi mér samstöðu og hvatningu í málum lífsréttar hinna ófæddu, sem þá var ógnað af lagafrumvörpum og endanlega brotið á með freklegum hætti með lögunum nr. 25/1975. Útvegaði hann mér greinaefni um það sem annað, en meðal þess efnis var yfirlýsing hinna kaþólsku biskupa á Norðurlöndum, Fóstureyðingar og kristin ábyrgð [2], sem Hinrik biskup átti fullan hlut að með starfsbræðrum sínum.

Í stofu biskups var jafnan var borið á borð fyrir okkur kaffi og meðlæti, og á allan hátt fann maður fyrir föðurlegri umhyggju og gestrisni húsráðandans.

Á næstu árum vann ég að sérefnisritgerð minni í guðfræði, 'Þáttum um þekkingarfræðilega raunhyggju og frumforsendur vísinda skv. fræðum heil. Thómasar af Aquino' (Rv. 1978), og þáði þá af honum hjálp, sem ég mat mikils, með bókalánum, ábendingum um heimildir og umræðum vítt og breitt um efnið, og hef ég tjáð honum þakkir mínar í eftirmála þess rits.

Það var sérstakur sjarmi og blær virðingar og alvörugefinnar íhugunar yfir fyrirlestrum biskups um Biblíuna, sem haldnir voru í húsi St Franziskus-systra í Stigahlíð, en í Biblíufræðum var hann afar vel að sér, eins og sjá má af ýmsum greinum hans í Merki krossins, sem var þá sem nú tímarit kaþólsku kirkjunnar. Minnir mig, að um 25–30 manns hafi verið að sækja þá fyrirlestra hjá okkar gestrisnu Franziskanasystrum.

Hinrik biskup var afskaplega hjartahlýr, laus við allt yfirlæti, en þeim mun sannari maður meðbræðrum sínum, það sást í öllu hans viðmóti. Margoft skildi ég við hann á tröppunum við hús hans í Egilsgötu, þar sem hann, brosandi og uppörvandi, bað mér og mínum blessunar og velfarnaðar í bak og fyrir. Það gerði hann líka, þegar ég var erlendis við nám, og þakka ég hér og nú fyrirbænir hans allar.

Hrífandi fagur þótti mér Gregorssöngur biskups, þegar hann hóf upp raust sína í messunni með orðum Níkeujátningarinnar: Credo in unum Deum ... Það var eitthvað innilega hreint og fallegt við tón hans og hreim, en hann lærði einnig allnokkuð í íslenzku og flutti predikanir sínar á því máli.

Trú hans var einlæg og fölskvalaus, hann verður jafnan lifandi dæmi og fyrirmynd um sannan og gefandi lærisvein Krists. Þjáningar sínar, eftir að hann veiktist af krabbameini, bar hann af þolinmæði og hetjulund. Hann andaðist í St Jósefsspítala í Landakoti 31. október 1986, 69 ára að aldri.

Ég vil, þótt seint sé, þakka þessum velgjörðamanni mínum, áhrifamanni um mótun lífs míns og föðurlegum fræðara og ítreka það með bæn um hans eilífa velfarnað. Megum við öll finnast á ný frammi fyrir náðarhásæti Drottins. Blessuð sé minning hins sanna og góða manns, Hinriks biskups Frehen.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

NEÐANMÁLSGREINAR:

[1] Hinrik biskup upplýsti mig t.d. um það, að í síðustu “frjálsu” kosningunum í Þýzkalandi var hikstalaust beitt kosningasvikum. Í hinum kaþólsku Rínarhéruðum var mikil andstaða við nazismann, en beinlínis njósnað um það, hvernig menn greiddu atkvæði, með því að koma manni fyrir undir borðdúk, sem breiddur var yfir borðið, þar sem kjörkassinn stóð, en opið niður úr kassanum, svo að útsendari nazista, sem þar fól sig, gat lesið á kjörseðilinn, þegar hann féll niður. Þetta vitnaðist á þeim svæðum. – Svo eru sumir fjölmiðlar hér á Íslandi á 21. öld enn að reyna að telja okkur trú um, að Hitler hafi komizt til valda á lýðræðislegan hátt! Því fór víðs fjarri, bæði að þessu leyti, og eins var beitt fölsunum og bolabrögðum í kosningabaráttunni, jafnvel skefjalausu ofbeldi gegn vissum flokkum og ekki sízt í kringum þá atburði þegar þýzka þjóðþingið var skorið niður, blekkt og kúgað til að fela ríkisstjórn Hitlers afar víðtæk og ólýðræðisleg völd á hendur 23. marz 1933. (Sjá um það merka og spennuþrungna grein eftir Einar Laxness: ‘Fjörbrot lýðræðis – Svipmyndir frá endalokum Weimarlýðveldis’, í Söguslóðum, afmælisriti helguðu Ólafi Hanssyni sjötugum, Sögufélag, Rvík 1979, bls. 77–111; greinin mun einnig vera endurprentuð í afmælisriti Einars sjálfs). – Mér þykir vænt um að geta komið þessum upplýsingum áleiðis ásamt með mínum fátæklegu minningarorðum um Hinrik heitinn biskup, því að hann var eftirminnilegur vitnisberi um andstöðu við ómennsku nazismans.

[2] Fóstureyðingar og kristin ábyrgð (júlí 1971, 23 s.). (Fekk ég leyfi biskups til að birta valda kafla úr því biskupabréfi í þættinum ‘Á Drottins degi’ í Morgunblaðinu, ásamt inngangi mínum, en hvort tveggja var því miður skorið allnokkuð niður við birtingu, vorið 1975. Fyrri hlutinn birtist þar 27. apríl.)

31.10.06 @ 14:06
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vegna einlægs áhuga Hinriks heitins Frehen á lífsvernd hinna ófæddu vil ég bæta því við, að til er nýrri bæklingur með yfirlýsingu norrænna biskupa: Vernd lífsins. Hirðisbréf kaþólskra biskupa Norðurlanda um gildi hins ófædda barns, 2002 (32 bls.), útgefandi: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Torfi Ólafsson þýddi eftir sænska textanum: Att vårda livet. Herra Jóhannes Gijsen Reykjavíkurbiskup er einn þeirra tíu Norðurlandabiskupa, sem tóku það skjal saman. Sá bæklingur mun fást í kaþólsku bóksölunni, sem opin er frá því um 11.40–13.00 hvern sunnudag í safnaðarheimili Landakotskirkju við Hávallagötu. En Vernd lífsins má einnig nálgast í heild á vefsíðu Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og á vefsetri Lífsverndar, sem er rómversk-kaþólskt lífsverndarfélag.

05.11.06 @ 21:01
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blogsoft