« Ritningarlesturinn 28. október 2006Ritningarlesturinn 27. október 2006 »

28.10.06

  08:18:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1117 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

16. Hið Alhelga Hjarta Jesú – lokaorð

resurrection

Ekki er of sterkt að orði kveðið þegar sagt er að guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú sé einn af dýrmætum gullhlekkjum hinnar heilögu arfleifðar sem varðveist hefur í hjarta kirkjunnar allt frá tímum postulanna. Því kemur heldur ekki á óvart að við getum leitað til eyðimerkurfeðranna á fjórðu öld til að leggja sem best rækt við hana vegna þess að afstaða þeirra er sú eina og sama og kemur fram hér að framan í grein 11: „Hin tólf heiti okkar frammi fyrir hinu Alhelga Hjarta.“

Við getum skipt þeim í hina ytri og innri viðleitni. Hinir heilögu fornkirkjunnar nefndu hina ytri viðleitni praktiki. Hún fólst í sameiginlegum siðferðislegum gildum í hinu samfélagslega lífi. Þá innri nefndu þeir politeia, eða stjórn hinna andlegu tilhneiginga sálarinnar. Þetta var alþekkt orð í hinum forna menningarheimi og þegar Platon samdi rit sitt „Politeia “ (Ríkið), átti hann ekki einungis við stjórnmál ríkisins, heldur stjórn mannsandans á akrapolis sálarinnar. „Politeia“ feðranna í bænalífinu miðaðist við að skapa hið rétta andrúmsloft fyrir bænina sem þeir nefndu katastasis efches eða bænastöðuna. Það gerðu þeir með því að leggja sífellda rækt við mneme theou eða endurminninguna um Guð.

Til þess að glæða endurminninguna um Guð iðkuðu þeir stutt bænaáköll sem endurtekningarbænir. Greint er frá því að meðan Ágústínus kirkjufaðir var enn kennari í mælskulist í Mílanó – áður en hann gerðist kristinn – hafi kunningi hans komið frá Trier (sem þá var höfðuðborg Rómaveldis) og fært honum eintak af þýðingu sem tileinkuð var Martin ábóta frá Dumium af verkum eyðimerkurfeðranna. Vinur hans varð afar undrandi þegar hann sá að Ágústínus var einmitt á þessum tíma að lesa Korintubréf Páls postula. Ágústínus hreifst mjög af verkinu og síðar tjáði hann Proba í bréfi – en hún var einhver menntaðasta konan í Rómveldi á þessum tíma – frá hrifningu sinni á eyðimerkurfeðrunum.

Í bréfi sínu sínu til Propa skrifaði hann orð sem síðar urðu víðfræg í kirkjusögunni: „Sagt er að bræðurnir í Egyptalandi noti mjög stuttar bænir, sem þeir svo að segja skjóta frá sér (quodammodo iaculatas).“ Þessi orð Ágústínusar hafa fætt af sér hugtakið skotbæn. Bænaáköllin voru eins og örvar sem skotið var í hjarta Guðs. Eyðimerkurfeðurnir notuðu einkum orðin „Kyrie eleison – Drottinn miskunna oss“ eða Guð, kom og frelsa mig, skunda mér til hjálpar (Sl 70. 2).

Mörgum öldum síðar komst heil. Teresa frá Avíla svo að orði í Ritskýringunum við Ljóðaljóðin þegar hún vék að slíkum skotbænum:

Ég veit satt best að segja ekki hvort ég komist hér heimskulega að orði. En mér virðist að elskan sé eins og ör sem viljinn skjóti frá sér. Ef hún þýtur um loftið með öllum þeim mætti sem viljinn býr yfir og óháð öllu hinu jarðneska og stefnir til Guðs eins, þá hlýtur hún í raun og veru að særa hans Hátign. Þegar hún hittir þannig í mark í Guði sjálfum sem er elskan, held ég að hún feli í sér mikinn ávinning þegar Guð skýtur henni til baka. Svona held ég að þessu sér varið (6, 5).


Þetta þarf alls ekki að koma á óvart vegna þess að sjálf lét hún eina systranna lesa fyrir sig úr verkum eyðimerkurfeðranna á hverju kvöldi áður en hún fór að sofa. Þannig fetaði hún í fótspor ótaldra forvera sinna í kirkjusögunni sem sífellt leituðu í rit Jóhannesar Kassíans (360-435) sem nefnist Collationes eða Viðræðurnar. Hann dvaldist á meðal feðranna í egypsku eyðimörkinni um fjórtán ára skeið, en var ættaður frá Suðurgallíu og varð upphafsmaður reglulifnðarins í Evrópu. Sífellt leituðu reglustofnendur sífellt í verk hans sér til innblásturs.

Í riti sínu Nome de Christ hefur Irénée Hausherr týnt til fjölmörg dæmi úr lífi hinna heilögu allt fram á okkar tíma sem studdust við slíkar skotbænir í bænalífi sínu. Og nú erum við komin að kjarna málsins. Eyðimerkurfeðurnir iðkuðu bæn hjartans og með skotbænum sínum glæddu þeir krypte melete eða hina huldu íhugun hjartans, rétt eins og María Guðsmóðir sem „geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það (Lk 2. 19). Þegar við skjótum kærleiksáköllum okkar til Guðs svarar hann þeim umleiðis þar til hjörtu okkar verða eitt flakandi sár í ástarfuna elsku hins Alhelga Hjarta Jesú.

Hvers eðlis eru slíkar skotbænir? Engar skotbænir eru eins hollar kristinni sál og þær sem teknar eru úr helgisiðabænum hins Alhelga Hjarta Jesú, bænir líkt og: Hjarta Jesú, Guðs hús og himinshlið, miskunna þú oss syndugum mönnum“ eða þá „Hjarta Jesú, logandi arin kærleikans, miskunna þú oss.“ Efniviðurinn er óþrjótandi. Eða þá að við getum valið einhver orðanna í ákallinu til hins Alhelga Hjarta Jesú:

Miskunnsami Jesú, ég helga líf mitt þínu
Alhelga Hjarta í dag og ávallt.
Alhelga Hjarta Jesú, ég sárbæni þig um að
ég elski þig sífellt meira.
Alhelga Hjarta Jesú!, ég treysti þér!
Alhelga Hjarta Jesú, miskunna þú oss!
Alhelga Hjarta Jesú, ég trúi á elsku þá
sem þú auðsýnir mér.
Jesús, auðmjúkur og lítillátur af hjarta.
Megi hjarta mitt verða sem þitt Hjarta.

Mikillar náðar njótum við kaþólsku systkini! Allt okkar líf getum við þakkað Guði fyrir þá kirkju sem hann hefur gefið okkur. Heilagur Andi lifir í kirkjunni og á hverjum einasta degi stígur Drottinn sjálfur til jarðar í sérhverri messu sem sungin er á jörðinni í eilífri endurkoma sinni undir mynd hinna helgu efna. Hann hefur gefið okkur sakramentin sjö og ef við skynjum að náðin fer dvínandi getum við gengið til skrifta samkvæmt hinni postullegu erfikenningu og játað syndir okkar og fengið aflát í skriftasakramentinu. Þá rætast orð Drottins:

Sælir eru hjartahreinir, því að þeir
munu Guð sjá (Mt 5. 7).

No feedback yet