« Samtal um nóttRitningarlesturinn 26. október 2006 »

26.10.06

  13:43:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1102 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

15. Erzebet Szanto: „Náð loga elsku hins Flekklausa Hjarta míns mun blinda Satan.“

Theotokos

Í Fatíma sagði Guðsmóðirin að við lifum á endatímanum og því æðir Satan um heimsbyggðina og hremmir andvaralausar sálir vegna þess að hann gerir sér ljóst að tími hans er að renna út. Þetta er sá boðskapur sem hin blessaða Mey bar Erzsebet Szanto (1913-1985), ungverskri konu og sex barna móður með náðarríkum loga elsku Guðsmóðurinnar, þess sama loga elskunnar og geislar út frá Hjarta hinnar guðlegu miskunnar á mynd Faustínu Kowalska. Sjálf var Erzebet að sligast undan byrðum hins daglega lífs og trú hennar fór ört dvínandi, í reynd svo mjög, að trúarneisti hennar var að slokkna fyrir fullt og allt.

Þetta var á valdatímum ógnar-stjórnar kommúnismans og fjölmargir prestar og reglufólk var þvingað til að segja skilið við köllun sína. Viðbrögð Trúmálaskrifstofu kommúnistaflokksins voru því hörð þegar Erzebet – Elísabet Kindelmann – en það var giftingarnafn hennar, tók að flytja boðskap Drottins og Guðsmóðurinnar til hrjáðra landa sinna í Ungverjalandi. Henni var meinað að tala, skrifa og ferðast til útlanda. Það var ekki fyrr en tök kommúnista á ungversku þjóðinni tóku að slakna skömmu fyrir hrun Sovétríkjanna að umheiminum fór að berast fréttir af opinberunum hennar.

Rétt eins og gilti um Faustínu Kowalska bað Drottinn hana að halda dagbók yfir samtöl hennar við sig og heilaga Móður sína. Dagbókin nær yfir árabilið 1962-1981 og var alls 600 blaðsíður og útdráttur úr þeim hefur verið gefin út á fjölmörgum tungumálum og einnig á íslensku. Í sem fæstum orðum er hann þessi:

„Öll kirkjan er í mikilli hættu og þið getið ekki komið neinu til leiðar með jarðneskri viðleitni. Einungis Alhelg Þrenning og hin blessaða Mey í samvinnu við heilaga engla, hina heilögu og þeirra sálna sem þú hefur hjálpað, geta bjargað kirkjunni.“

Í einni opinberananna frá 19. maí 1963 víkja þau Jesús og María að stormi samtíðarinnar:

Jesús: „Þú sérð að heimurinn er líkt og sjálf náttúran núna áður enn fárviðrið skellur á. Hann er eins og eldfjall sem komið er að því að springa sem kæfir allt með eldinum sem logar í iðrum þess, deyðir, blindar og leggur allt í auðn. Þetta er hið skelfilega ástand sem ríkir á jörðu nú um stundir. Það kraumar í eldgíg hatursins. Með deyðandi ösku sinni vill hann umhverfa mannssálinni sem sköpuð er í mynd Guðs svo að hún glati lit sínum.“

Nú heyrði ég hina Alhelgu Mey tala: „En logi elsku minnar er tekinn að skína. Ég, hinn bjarti árdegisroði, mun blinda Satan. Ég mun bjarga mannkyninu frá reykjarbrælu syndugs hraunstraums syndarinnar. Þannig mun engin deyjandi manneskja fara til vítis. Logi elsku minnar er þegar tekinn að ljóma. Útvaldar sálir verða að berjast við höfðingja myrkursins. Skelfilegt stormviðri mun skella á líkt og fellibylur sem mun leggja allt í auðn. Og það sem er alvarlegra er að hann [Satan] hefur í hyggju að tortíma trúnni og öllu trúnaðartrausti hjá hinum útvöldu. Ég mun verða með ykkur þegar fárviðrið nálgast. Ég er Móðir ykkar. Ég get og mun hjálpa ykkur. Þið munið finna og sannreyna alls staðar leiftur loga elsku minnar sem mun uppljóma reikular og myrkvaðar sálir.

Hvað eftir annað endurtaka þau Jesús og María Guðsmóðir að logi elsku Flekklaus Hjarta hennar mun blinda Satan og þetta sé forboði hinnar Nýju hvítasunnu, náðartíma sem aldrei hafa sést áður á jörðinni:

„Við munum slökkva eld með eldi. Ásamt þér mun ég gera slíkt kraftaverk að það mun vekja furðu meðal fræðimanna þessa heims. Einungis speki hreinna og einfaldra sálna sem elska Guð geta skilið þetta vegna þess að það eru þær sem búa yfir leyndarmáli Guðs. Já, dóttir mín! Við munum slökkva eld með eldi – eld haturs með eldi elskunnar. Eldur hatur Satans logar svo glatt að hann trúir því að sigurinn sé hans, en logi elsku minnar mun blinda hann.

„Ég færði þér kyndil loga elsku Hjarta míns í hendur sem brátt mun berast um þá braut sem honum er ætlað að fara. Logi elsku minnar mun slökkva vítislogana. Logi elsku minnar mun endurvarpa ósegjanlegu ljósi og yl til heimsins. Dóttir mín! Ég þarfnast fórna þinna og fórna margra ann­arra, þannig að þeir hugir sem loga nú í hatri Heljar muni í stað þessa taka að loga í mildu ljósi elsku minnar (6. desember 1964).

Eitt sinn spyr Elísabet: „Hvað er logi elskunnar?“ Jesús svaraði: „Logi elsku Meymóður minnar er ykkur það sem örkin var Nóa!“ Og hin blessaða Mey svaraði: „Logi hins Flekklausa Hjarta míns er sjálfur Jesús Kristur!“ Og Jesús biður okkur að biðja:

Heil sért þú María, full náðar . . .
Bið þú fyrir oss syndugum mönnum
og úthelltu náð loga elsku þinnar
yfir allt mannkynið,
nú og á dauðastund vorri.

Allur endurspeglast þessi sannleikur í bæninni sem Páll páfi VI gaf persónulegt samþykki sitt til að biðja í nóvember árið 1973:

Af barnslegri trú áköllum við þig María mey svo að logi elsku hins Flekklausa Hjarta þíns sem Heilagur Andi hefur glætt tendri í vanmegna hjörtum okkar eld fullkominnar elsku á Guði og öllu mannkyninu, þannig að við elskum Guð og náunga okkar af einu hjarta ásamt þér.

Hjálpaðu okkur til að miðla þessum heilaga loga til allra manna sem hafa góðan vilja svo að logi elskunnar slökkvi eld hatursins alls staðar á jörðinni, þannig að Jesús, Konungur friðarins, verði einnig Konungur allra hjartna í sakramenti elsku sinnar á hásæti hjartna okkar. Amen.

Rit Elísabetar „Logi elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu“ hefur þegar verið gefið út á íslensku á Vefrit Karmels. Nú er unnið að undirbúningi stofnunar Íslandsdeildar Alþjóðasamtaka Loga elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu.

Blessaða Mey og Guðsmóðir María. Bjarga okkur. Megi logi elsku Flekklaus Hjarta þíns blinda Satan og svartengla hans sem skjótast á Íslandi!

No feedback yet