« Ritningarlesturinn 26. október 2006Ritningarlesturinn 25. október 2006 »

25.10.06

  09:22:57, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1368 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

14. Heilög Faustína Kowalska og náð geisla Hjarta hinnar guðlegu miskunnar

miskunn

Engin umfjöllun um tilbeiðslu á hinu Alhelga Hjarta er fullkomin án þess að geta Faustínu Kowalska (1905-1938). Í predikun sinni í messunni þegar hún var tekin í tölu hinna heilögu þann 30. apríl árið 2000 kallaði Jóhannes Páll páfi II hana: „Gjöf Guðs til samtíma okkar.“ Páfi komst svo að orði: „Guðleg miskunn streymir til mannanna um hið krossfesta Kristshjarta“ og hann vitnaði til orða þeirra sem Jesú mælti til hennar: „Dóttir mín! Segðu að ég sé elskan og miskunnin persónugerð“ (Dagbók, bls. 374).

Heilög Faustína er nú kunn um allan heim sem „postuli hinnar guðlegu miskunnsemi.“ Opinberun hennar er bæði gleðirík, en felur jafnframt í sér alvarlega viðvörun til mannkynsins um að miskunn hins Alhelga Hjarta Jesú séu takmörk sett af syndinni. Einungis tug kílómetra frá Lagienwnikiklaustrinu í Krakow í Póllandi þar sem hún varði síðustu þrettán árum ævi sinnar risu útrýmingarbúðir í Ausch­witch upp skömmu eftir andlát hennar.

Það er þetta sem Frelsarinn áminnir okkur sífellt á vegna þess að hann kom til jarðarinnar til að uppfræða okkur um veginn til guðlegrar miskunnar Föður okkar á himnum með því að boða iðrun. Hann boðaði okkur að iðrast og trúa á fagn­aðarerindið vegna þess að guðsríkið væri hið innra með okkur sjálfum:

„Verið miskunnsamir, eins og Faðir yðar er misk-unnsamur“ (Lk 6. 36).

Við eigum því ekki að freista miskunnar Guðs. Að hafna miskunnseminni eða vilja ekki fyrirgefa náunga okkar er að syndga gegn hinni guðdómlegu miskunnsemi. Okkur ber að minnast dæmisögunnar af konunginum sem vildi láta þjón sinn gjöra skil, sjá Mt. 18. 21-35:

Bar þér ekki að einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum . . . Þannig mun og Faðir minn himneskur gjöra við yður“ (Mt 34, 35).

Þetta eru viðvörunarorð! Sýnið hyggni og keppið ekki eftir auði og völdum þessa heims eða öllu því sem er ykkur sjálf-um til framdráttar eða sem fullnægir girndum ykkar. Þið skul­uð ekki treysta á fyrirgefningu miskunnar Guðs þegar þið bætið einni syndinni ofan á aðra gegn boðum hins himn-eska Föður. Þetta var það sem nasistarnir gerðu og þrátt fyrir að glæpir þeirra væru ógnvænlegir blikna þeir í samanburði við barnamorð DAUÐAMENNINGAR veraldarhyggjunnar (secularism) í dag sem myrt hefur einn milljarð barna á tveimur áratugum.

Drottinn bað Faustínu að láta mála mynd af sér: Láttu mála mynd til samræmis við þá fyrirmynd sem ég sýni þér með orð­unum: Jesús, ég treysti þér.“ Ljósgeislarnir tveir sem skína frá hinu guðlega Hjarta tákna blóð og vatn. Bláleiti geislinn táknar vatn náðarinnar sem réttlætir sálina. Rauði geislinn táknar blóðið sem er líf sálarinnar: „Þessir tveir ljósgeislar brutust fram úr djúpi ljúfrar miskunnar minnar þegar angistarfullt Hjarta mitt laukst upp þegar spjótið gegnumnísti það á krossinum.

Helena Kowalska fæddist í pólska þorpinu Glogowiec þann 25. ágúst 1905. Hún var þriðja barnið í röðinni í guðrækinni og hjartahlýrri fjölskyldu sem var bláfátæk af efnislegum gæðum, en auðug í trú og elsku á Guði. Allt frá barnæsku þráði hún að gefast Jesú með einhverjum hætti. Eftir tímabil þar sem hún leitaðist við að njóta veraldlegrar gleði eins og að dansa, opinberaðist Jesús krossfestur henni og spurði hana að því hversu lengi hann yrði að umbera hana svona.

Þegar í stað hóf hún leit sína að vilja Guðs henni til handa og gekk í klaustur samkvæmt orði Drottins. Hún gekk í Reglu systra miskunnsemi Vorrar Frúar. Hér varði hún lífi sínu til æviloka. Hún var alkunn fyrir kyrrlátt líf sitt, auðmýkt og kærleika í garð hinna snauðu. Sumar systranna gáfu henni gælunafnið „lögmaðurinn“ vegna þess að hún hafði til siðs að sveifla höndunum til máli sínu til áherslu.

Systurnar gerðu sér ekki ljóst að hún átti náið samfélag við Jesú og að hann opinberaðist henni reglulega með boðskap sinn um hina guðlegu miskunn. Hann sagði henni jafnframt að hann þráði að kirkjan minntist miskunnar sinnar með sérstakri hátíð á öðrum sunnudegi eftir páska. Jóhannes Páll páfi annar innleiddi þessa hátíð árið 2000 fyrir alla heimskirkjuna.

Eftir að hafa gengið í gegnum miklar þjáningar, sum-ar líkamlegar, en aðrar andlegar og yfirskilvitlegar – hlutdeildina í píslum Drottins – andaðist systir Faustina 33 ára gömul þann 5. október árið 1938 í Lagienwniki-klaustrinu í Krakow. Smám saman gerðu systurnar sér ljóst að Jesús hafði opinberað henni boðskapinn um hina guðlegu miskunn. Margir voru þrumulostnir vegna þess að systir Fástína var svo „venjuleg“ manneskja. Systir Faustína var tekin í tölu blessaðra þann 18. apríl 1993 og á fyrsta sunnudeginum eftir páska – á sunndudegi hinnar guðlegu miskunnar þann 30. apríl árið 2000 hóf Jóhannes Páll páfi II hana upp á altarinu og leiddi til samfélags hinna heilögu.

Guð kenndi henni einnig að biðja sérstakt bænaband tileinkað hinni guðlegu miskunn og sérstakt bænaákall til hinnar guðlegu miskunnar. Skriftafaðir hennar bauð henni að halda sérstaka dagbók um samfélag sitt við Drottinn sem hún gerði. Hún var gefin út að henni látinni og telst nú til einna höfuðrita hins andlega bókmenntaarfs kirkjunnar. Hún greinir frá Djúpstæðum sannindum um Guðdómseðlið sem er sjálf misk-unnsemin og elskan. Sjálf var hún sannfærð um að trúboð sitt hæfist ekki fyrr en að henni láinni og Guð hyggðist nota hana sem verkfæri sitt til að útbreiða boðskap hinnar guðlegu miskunnsemi. Jesús sagði henni að hann sendi hana sem postula miskunnar sinnar til heimsins áður en dómsdagur rynni upp. Hann sagði henni að „hún myndi undirbúa heiminn fyrir aðra komu sína.“

Bænaband hinnar guðlegu miskunnsemi
(Beðið á hefðbundnum rósakrans)

Upphafið:
Faðirvorið . . . Heil sért þú María . . . Trúarjátningin.

Á stærri perlunum í upphafi hverrar deildar:

Eilífi Faðir! Ég fórna þér líkama og blóði, sál og Guðdómi þíns hjartfólgna og eingetna Sonar, Drottins okkar Jesú Krists, sem friðþægingu sökum synda okkar og alls heimsins.

Á litlu perlunum tíu:

Sökum hörnulegra písla hans miskunna þú okkur öllum og öllum heiminum.

Í lokin (endurtekið þrisvar sinnum):

Heilagi Guð, heilagi Sterki,
heilagi Ódauðlegi,
miskunna þú okkur
og öllum heiminum.

Bæn klukkan þrjú síðdegis

Jesús, þú dóst, en uppspretta lífsins streymdi fram fyrir sálirnar ásamt úthafi miskunnarinnar heiminum til handa. Ó, uppspretta alls lífs, ósegjanlega guðlega miskunn, hyldu alla jörðina og streymdu yfir okkur sjálf. Ó blóð og vatn sem streymdir fram úr Hjarta Jesú sem uppsprettu miskunnar okkur til handa: Ég treysti á þig!

Heilagi Guð, heilagi Sterki,
heilagi Ódauðlegi,
miskunna þú okkur
og öllum heiminum (3x).

Jesús, Konungur miskunnseminnar! Við treystum á þig.

Þeir náðarríku geislar sem streymdu út frá hinu Alhelga Hjarta Jesú á mynd þeirri sem hann bað Faustínu að láta gera tóku að skína út frá hinu Flekklausa Hjarta Maríu 24 árum eftir andlát hennar og nú í Ungverjalandi eins og vikið verður að í næstu grein.

Næst: 15. Náð loga elsku hins Flekklausa Hjarta míns mun blinda Satan

10 athugasemdir

Lárus Viðar Lárusson

Eftir tímabil þar sem hún leitaðist við að njóta veraldlegrar gleði eins og að dansa, opinberaðist Jesús krossfestur henni og spurði hana að því hversu lengi hann yrði að umbera hana svona.

Er það ekki gott að dansa?

25.10.06 @ 09:54
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ungur maður kom eitt sinn í heimsókn til heilags Nikulásar frá Flüe (1417–1487) og vildi fá að vita, hvernig hann bæðist fyrir. Nikulás svaraði: „Guð getur komið því til leiðar að það verði jafn unaðsríkt að biðja eins og að dansa. Hann getur einnig hagað því svo til, að bænin verði eins og vígvöllur.“
Ungi maðurinn varð afar undrandi þegar svo heilagur maður gat tekið sér í munn annað eins orð og dans, þannig að Nikulás endurtók:
„Jú, jú, eins unaðsríkt og að dansa.“

Hér er að sjálfsögðu vikið að rótleysi æskuáranna. Heil. Silúan frá Aþos var mikill gleðimaður í þorpinu sínu sem ungur maður og gat drukkið þrjá brúsa af vodka á einu og saman kvöldinu. Eitt sinn þegar hann var að vakna úr „rotinu“ einn morguninn kom Guðsmóðirin til hans og sagði áminnandi:
„Símon (það var borgaralegt nafn hans), mér fellur þungt að sjá hvernig þú hagar þér!“

Eftir að hafa lokið herþjónustunni í lífverðinum í St. Pétursborg hvarf hann til Aþos og lifði þar sem munkur alla ævi og varð afar heilagur maður. „Að hugsa sér hversu vel hún hugsar um okkur“ hafði hann til siðs að segja, „hún kom til mín til að forða mér frá glötun.“

25.10.06 @ 10:19
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Góð frásögn, Jón, og vel við hæfi sem svar.

25.10.06 @ 11:25
Lárus Viðar Lárusson

Ég er í raun engu nær um það hvort að dans sé í lagi eða ekki.

25.10.06 @ 11:35
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Dans er í lagi – lestu Davíðssálma. Að einhvers staðar séu til ósiðlegir dansar, gerir ekki alla dansa ósiðlega. Abusus non tollit usum.

25.10.06 @ 12:09
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já, rétt nafni, gott svar. Davíð dansaði í kringum örkina og svo dansa sumir aðrir á hálum ís líka! Og svo dansa dúkkur:

Dansi dansi dúkkan mín,
dæmalaust er stúlkan fín.

Ég dansaði aldrei mikið vegna þess að fólk á að gera það vel sem það tekur sér fyrir hendur að gera.

25.10.06 @ 12:35
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ennþá betra svar hjá þér, nafni. – Má nú ekki ljóst vera, Lárus minn, að við göngum ekki með hausinn ofan í maga af áhyggjum af þessum dansmálum?

25.10.06 @ 13:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Otto Frankl lét þá líka leika dansmúsik í Auschwitz. Þar var um ljótan dans að ræða: DAUÐADANS!

25.10.06 @ 13:28
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Veraldarhyggjan dansar sama hrunadans heljar eins og þeir þarna í Auschwitz. Eini munurinn er sá að nú er hann enn trylltari: Dönsum meðan nóttin endist, enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér! Dönsum meðan dugur gefst!

25.10.06 @ 14:24
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Svo eru líka til trúarlegir dansar. Ég hef heyrt að einhverju sinni hafi dansflokkur sett upp slíka athöfn í Landakotskirkju.

25.10.06 @ 17:36