« Ritningarlesturinn 21. október 2006„Logi elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu“ kominn á íslensku. »

21.10.06

  04:14:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 814 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

12. Fyrstu föstudaga tilbeiðslan

12, fyrstu föstudagarnir

Það var sjálfur Frelsarinn sem kaus fyrsta föstudaginn í 9 mánuði samfellt sem sérstakan dag til að vegsama hið Alhelga Hjarta sitt. Þar sem takmark þessarar guðrækni er að glæða brennandi elsku á Drottni og til að gera iðrun og yfirbót sökum allrar þeirrar skelfilegu vansæmdar sem honum hefur verið auðsýnd verðskuldar hann stöðugrar elsku okkar. Sífellt er honum auðsýnd vansæmd, fyrirlitning og vantrú í sakramenti elsku sinnar – Evkaristíunni – og þannig iðrumst við og gerum yfirbót fyrir annarra hönd í fyrstu föstudagaguðrækninni.

Okkur ber þannig að tilbiðja Jesús í háleitum leyndardómi sakramentisins og tjá honum elsku okkar í Guðslíkamahúsinu, þakka honum fyrir að hafa gefið okkur þennan leyndardóm og tjá honum hryggð okkar og sorg sökum vanrækslu fólks. Þannig eigum við að dvelja sem oftast hjá honum einum og yfirgefnum sökum fólks sem blindað er af gæðum hins jarðneska heims. Þátttaka í heilagri messu er besta leiðin til að vegsama og elska hið Alhelga Hjarta Jesú.

Yfirbótin

Alhelga Hjarta Jesú! Brennandi í þrá til að bæta fyrir þá ámælisverðu vansæmd sem þér er stöðugt auðsýnd krjúpum við niður frammi fyrir hásæti miskunnar þinnar og tjáum þér elsku okkar og trúfestu fyrir hönd alls mannkynsins!
Þess meira sem leyndardómum þínum eru lastmælt, þess meira munum við trúa á þá af meira stöðuglyndi, ó, Alhelga Hjarta Jesú!
Þess meira sem guðsafneitunin leitast við að uppræta von okkar um ódauðleika, þess meira setjum við traust okkar á Hjarta þitt, hina einu von mannkynsins!
Þess meira sem mannshjörtun berjast gegn guðdómlegu aðdráttarafli þínu, þess meira munum við elska þig, ó, þú óumræðilega elskuríka Hjarta Jesú!
Þess meira sem guðsafneitunin ræðst gegn Guðdómstign þinni, þess meira munum við tilbiðja þig af djúpstæðri auðmýkt, ó, guðlega Hjarta Jesú!
Þess meira sem heilög lög þín eru brotin og smánuð, þess meiri verður gleði okkar að framfylgja þeim, ó, Alhelga Hjarta Jesús!
Þess meira sem sakramentin eru fyrirlitin og þeim hafnað, þess oftar munum við meðtaka þau af ást og lotningu, ó, örláta Hjarta Jesú!
Þess meira sem menn neita að líkja eftir dyggðum þínum og gleyma þeim, þess ákafar munum við leggja rækt við þær, ó, Alhelga Hjarta, fyrirmynd allra dyggða!
Þess meira sem djöfulinn leitast við að tortíma sálunum, þess meira mun þrá okkar til að bjarga þeim vaxa, ó, Hjarta Jesú, ákafur Ástmögur sálnanna!
Þess meira sem syndin og saurlifnaðurinn spillir ímynd Guðs í manninum, þess meira munum við leitast við að verða að lifandi musteri Heilags Anda í hreinleika lífsins, ó, Hjarta Jesú!
Þess meira sem heilög kirkja er fyrirlitin, þess meira munum við leitast við að vera trúföst börn hennar, ó, ljúfa Hjarta Jesú!
Þess meira sem staðgengill þinn á jörðu er ofsóttur, þess meira munum við heiðra hann sem hið óskeikula höfuð heilagrar kirkju, auðsýna honum trúfestu og biðja fyrir honum, ó, Konungshjarta Jesú!
Ó Alhelga Hjarta! Megum við í krafti náðar þinnar verða að postulum í spilltum heimi og að kórónu þinni í konungsríki himnanna. Amen.

Fyrirheit hins Alhelga Hjarta Jesú til þeirra sem leggja rækt við þessa iðrun og yfirbót

1. „Ég mun veita þeim alla þá náð sem þeir þarfnast í aðstæðum sínum.“
2. „Ég mun glæða frið á heimilum þeirra.“
3. „Ég mun hugga þá í þolraunum þeirra.“
4. „Ég vil vera þeim öruggt skjól í lífinu, en um fram allt í dauðanum.“
5. „Ég mun blessa allt sem þeir taka sér fyrir hendur.“
6. „Syndarar munu finna takmarkalaust úthaf miskunnar í Hjarta mínu.“
7. „Áhugalausar sálir munu verða brennandi í trúnni.“
8. „Áhugasamar sálir munu skjótt rísa upp til mikils fullkomleika.“
9. „Ég mun blessa alla þá staði þar sem mynd af Hjarta mínu er sett upp og heiðruð.“
10. „Ég mun veita prestum þá náðargjöf að snerta við harðsvíruðustu hjörtum.“
11. „Þeir sem stuðla að útbreiðslu þessarar guðrækni fá nafn sitt ritað í Hjarta mitt þaðan sem það verður aldrei afmáð.“
12. „Ég gef ykkur það fyrirheit að í óþrjótandi gnægtum miskunnar minnar mun almáttug elska mín veita öllum þeim sem meðtaka Evkaristíuna á fyrstu föstudögunum í níu mánuði samfellt, náð endanlegrar yfirbótar. Þeir munu ekki deyja sviptir náð minni eða án þess að meðtaka sakramentin. Guðlegt Hjarta mitt mun verða þeim öruggt skjól á þeirra hinstu stundu.

Næst. 13. Bænaband hins Alhelga Hjarta Jesú

No feedback yet