« Ritningarlesturinn 20. október 2006Ritningarlesturinn 19. október 2006 »

19.10.06

  08:48:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 513 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

10. Níudagabæn (novena) hins Alhelga Hjarta Jesú

10. Alhelga hjarta

Guðdómlegi Jesús! Þú sagðir „Biðjið og yður mun gefast; knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.“ Horfðu til mín þar sem ég krýp nú niður við fætur þína fullur lifandi trúar og trúnaðartrausts á guðdómlegum fyrirheitum þíns Alhelga Hjarta og sem féllu af þínum lofsverðu vörum. Ég kem til þín til að biðja þig um að (Nefnið bónarbæn ykkar í hljóði).

Hvert get ég snúið mér annað en til Hjarta þíns sem er uppspretta allrar náðar og verðskuldunar? Hvert get ég snúið mér annað en til þess fjársjóðs sem felur í sér allt ríkidæmi gæsku þinnar og miskunnar? Hvar get ég knúið á nema á þær dyr þar sem Guð gefst okkur og við gefumst Guði? Ég leita skjóls hjá þér, Hjarta Jesú.

Í þér öðlast ég huggun þegar ég er mæddur, vernd þegar ég er ofsóttur, styrk á stund þolrauna og ljós á stundum efasemda og myrkurs.

Elsku Jesús! Ég trúi því óhagganlega að þú veitir mér þá náð sem ég bið um, jafnvel þó að hún nái einungis fram að ganga sökum kraftaverks. Þú þarft einungis að vilja og þá nær bæn mín fram að ganga. Ég játa að ég er óverðugur náðar þinnar, en þetta er engin ástæða til að glata voninni. Þú ert Guð miskunnseminnar og því sárbæni ég þig og þá mun gæskuríkt Hjarta þitt sjá ástæðu til að verða við bæn minni í eymd minni og vanmætti.

Æ, Alhelga Hjarta! Hvert sem svar þitt verður hvað áhrærir bæn mína, mun ég aldrei láta af því að tilbiðja þig, elska, lofa og þjóna. Jesús minn! Megi það vera þér velþóknanlegt að virða hlýðni mína gagnvart boðum lofsverðs Hjarta þíns sem ég þrái að nái fram að ganga í mér og fyrir minn atbeina og í allri sköpun þinni að eilífu.

Alhelga Hjarta Jesú! Ég veit að það er aðeins eitt sem er þér um megna: Að auðsýna þeim ekki miskunn sem þjást og líða angist. Ég bið þig að horfa til mín, kæri Jesús, og uppfylla þá bæn sem ég bið þig um af fyllstu auðmýkt fyrir atbeina Flekklaus Hjarta þinnar sorgmæddu Móður. Þú hefur falið mig henni á hendur sem einu barna sinna og fyrirbænir hennar eru almáttugar frammi fyrir þér. Amen!

BÆN:

Megi hið Alhelga, tilbeiðsluverða, leyndardómsfulla
og ósegjanlega Nafn Guðs ætíð vera lofað, blessað,
elskað tilbeðið og vegsamað á himni sem á jörðu
og undir jörðinni af allri sköpun Guðs og í hinu
Alhelga Hjarta Drottins Jesú Krists í hinu
heilaga altarissakramenti (Gullna örin).

Næst: 11. Hin tólf heiti okkar frammi fyrir hinu Alhelga Hjarta Jesú í Guðslíkamahúsinu.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er fögur bæn og hrífandi. T.d. eru fyrstu setningarnar í málsliðnum sem byrjar á: “Elsku Jesús!” í senn hugaropnandi, trúarhvetjandi og vonarörvandi – gefa heitri bæninni líf og styrk.

Okkar lúthersku bræðrum mun kannski þykja (of) mikið sagt hér um Maríu Guðsmóður undir lokin, einkum þetta: “og fyrirbænir hennar eru almáttugar frammi fyrir þér.” – Þarna datt mér sjálfum í hug: Var ekki nóg að segja: “máttugar"? – En svo, þegar ég fer að hugsa um það, þá biður María Jesúm einskis án þess að fá bænheyrslu (jafnvel í brúðkaupinu í Kana, Jóh.2, þar sem fyrsta svar hans virtist ekki ætla að gangast inn á að fara að bón hennar – en svo gerði hann það í raun). Hún, sem er upphafin til himna, biður engra rangra bæna, og hennar réttu og heitu bænir eru heyrðar og uppfylltar. Því eru þær eðlilega kallaðar almáttugar, en eru auðvitað bænir fyrir því, og það er ekki hún sem slík sem er almáttug, heldur Guð einn. – En ég þakka þér aftur, Jón.

20.10.06 @ 00:41
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Vissulega eru bænir hinnar blessuðu Meyjar almáttugar frammi fyrir Guði vegna þess að hún er full náðar. Hún heyrir því sífellt andvörp Andans „Abba, Faðir“ í eigin hjarta.

Bænir heilags Jósefs eru einnig almáttugar. Því biðjum við í Karmel daglega:

Heilagur Jósef og vinur hins Alhelga Hjarta, bið þú fyrir oss! Heilagur Jósef, flekklaus eiginmaður Maríu, bið þú fyrir oss! Blíða Hjarta Maríu, kom oss til hjálpar“ (Flos Carmeli).

Jesús gerir allt sem heil. Jósef biður hann um að gera. Rétt eins og hann hlýðnaðist honum ávallt sem föður sínum á jörðu, getur hann ekki neitað honum um neitt á himnum.

Okkar eigin bænir verða einnig máttugar ef við göngum með Meymóðurinni daglega upp á Fórnarhæð krossins og látum dýrlegt og háheilagt blóð heilags Sonar hennar drjúpa yfir okkar eigin hjörtu.

En til þess verðum við að þjást mikið og bera fram miklar fórnir og þetta er það sem Jesús þráir að sem flest systkina sinna geri.

Þetta á sérstaklega við núna á endatímanum þegar ógnir hinna þriggja nátta nálgast óðum.

Jesús vill að við gerumst þátttakendur í endurlausnarverki sínu og að við þjáumst og berum fram fórnir vegna allra þeirra sálna sem glatast daglega og til að leysa sem flestar sálir úr hreinsunareldinum meðan tími náðarinnar er enn að starfi.

Hann leggur verðskuldun fórna okkar og þjáninga við sína eigin verðskuldun ef við gerum þetta full gleði og þakklætis.

Það er þetta sem heil. Páll átti við þegar hann sagðist uppfylla það sem enn skorti á þjáningar Krists í kirkjunni.

20.10.06 @ 07:59
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér kröftugan vitnisburð, Jón bróðir.

20.10.06 @ 10:33