Blaðsíður: 1 ... 13 14 15 ...16 ... 18 ...20 ...21 22 23 ... 46

29.01.08

  11:48:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 864 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Einingarkirkjan á Norðurlöndunum verður reist við Östenbäckklaustrið í Svíþjóð

Um árabil hefur sænska Þjóðkirkjan staðið fyrir rekstri klausturs í Östenbäck skammt frá Stokkhólmi. Faðir Ceasarius hefur gegnt stöðu ábóta frá upphafi. Fyrir skömmu kom sænski arkitektinn Bo Svalby með líkan af væntanlegri kirkju við klaustrið. Þann 8. janúar s.l. komu síðan nokkrir leiðtogar hinna ýmsu kirkjudeilda á Norðurlöndum saman í Östenbäckklaustrinu til að fagna væntanlegum framkvæmdum. Hér er sameiginleg yfirlýsing þeirra:

Þar sem við komum hér saman um þá sýn að reisa Einingarkirkjuna við Östenbäckklaustrið viljum við nota þetta tækifæri til að tjá sameiginlegt samþykki okkar á náð klausturlífsins. Það er verk Anda Guðs meðal okkar og víðsvegar um heiminn að glæða margvíslegar kallanir og snúa að nýju til kirkjudeilda sem snéru baki við klaustursamfélaginu fyrir hart nær 500 árum síðan.

Það er með gleði sem við játum opinberlega mikilvægi þess klausturs sem biskupar sænsku kirkjunnar ákváðu að stofna fyrir 18 árum. Hér snýst málið fyrst og fremst um hina andlegu íhugun. Líf í hjarta Guðs er grundvallarforsenda trúverðugs kristins vitnisburðar í heiminum. Það er frá hjartanu sem blóðið streymir. Með sama hætti miðlar klausturhreyfingin lífi til hinna ýmsu lima hennar með óaflátanlegri bæn. Köllunin til klausturlifnaðar hefur spásagnargildi. Með því að benda á veginn til hins ferska vatns glæða samfélögin lífsafstöðu þegar sérdrægni neysluhyggjunnar leiðir til einstaklingsbundinna fjötra og upplausnar mennskra samskipta.

Read more »

28.01.08

  19:40:28, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 99 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Filippseyjar: 20 biskupar hitta stjórnina til að ræða vanda fátækra

Vefsetrið Asianews.it greinir frá því að 20 biskupar á Filippseyjum hafi fundað með leiðtogum landsins í forsetahöllinni til að ræða áhyggjur þeirra fyrrnefndu af vaxandi bili milli ríkra og fátækra í landinu. Um 10% þjóðarinnar ná að taka til sín meira en þriðjung þjóðarteknanna á meðan um 60% draga fram lífið undir fátæktarmörkum. Meðaltekjur fjölskyldu á Filippseyjum eru núna um 12 dollarar á dag og fáar fjölskyldur ná að leggja nokkuð fyrir.

Sjá: http://www.asianews.it/index.php?l=en&art=11342&geo=39&size=A

27.01.08

  12:17:33, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 552 orð  
Flokkur: Trúarpælingar

Um friðarboðskap kristninnar 6. hluti: Gullna reglan

Eitt merkasta framlag kristninnar til siðfræði og því innri og ytri friðar er hennar útgáfa af Gullnu reglunni svokölluðu en hún er sett fram á tveim stöðum í Nýja testamentinu. Fyrri staðurinn er í Matteusarguðspjalli, 7. kafla, 12. versi:

Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.

og hinn síðari er í Lúkasarguðspjalli 6. kafla, 31. versi þar sem segir:

Og eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.

Read more »

20.01.08

  20:45:57, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 158 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Fréttamolar úr heimi kaþólsku kirkjunnar

Páfi aflýsti áður fyrirhugaðri ræðu við setningu 'La Sapienza' háskólans í Róm vegna mótmæla sem 67 prófessorar höfðu staðið fyrir. Mótmælin voru að sögn vegna orða páfa sem hann lét falla sem kardínáli árið 1990 um að réttarhöldin yfir Galíleó hefðu á sínum tíma verið 'réttlát'. Vegna þessa dreif mikinn mannfjölda og háskólastúdenta, um 200 þúsund manns að sögn asianews.it til Péturstorgsins til að lýsa stuðningi sínum við páfa sjá hér. Ræðan sem hann hafði ætlað að halda er hér. Sjá einnig hér.

Tveir kaþólskir prestar urðu nýlega fyrir skotárásum. Einn á Filippseyjum sjá hér og hinn í Guatemala sjá hér.

Nýr yfirmaður Jesúítareglunnar hefur verið valinn. Sjá hér.

13.01.08

  18:23:06, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 189 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Tony Blair gengur í kaþólsku kirkjuna

Tony Blair fyrrum forsætisráðherra Bretlands gekk í kaþólsku kirkjuna hinn 21. desember síðastliðinn. Það var Cormac Murphy-O'Connor kardínáli sem framkvæmdi athöfnina.

Blair hafði sótt messu reglulega ásamt konu sinni Cherie og börnum þeirra. Áhugi hans á kaþólskri trú hefur komið skýrt í ljós á undanförnum árum og orðrómur um hugsanleg skref hans í þessum málum blossuðu upp í júní síðastliðnum þegar hann hitti Benedikt páfa XVI á einkafundi rétt áður en hann sagði af sér embætti.

Nýjar tölur frá Bretlandi sýna að flestir af þeim sem sækja kirkju reglulega þar í landi eru kaþólskir. Um 860 þúsund kirkjugesta sækja kaþólskar messur en 852 þúsund sækja messur anglíkana. Þetta gerist þrátt fyrir að messusókn meðal kaþólskra hafi fallið úr um 2 milljónum á 7. áratugnum. Innflutningur fólks frá kaþólskum löndum hefur þó snúið þessari þróun eitthvað við. Kirkjusókn anglíkana hefur á sama tíma hrapað stöðugt.

(CWNews.com) http://www.cwnews.com/news/viewstory.cfm?recnum=55541

10.01.08

  10:27:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 856 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um skyldur og ábyrgð kaþólskra útgefenda og þýðenda í löndum mótmælenda

Skyldur og ábyrgð kaþólskra útgefenda og þýðenda í þeim löndum þar sem mótmælendur eru ríkjandi er mikil vegna þess að allt verður að vega og meta í ljósi hinnar heilögu arfleifðar kirkjunnar. Rétt eins og gilti um kommúnistaríkin fyrrum er hugtakafölsun veraldarhyggjunnar afar víðtæk í kirkjulegum skilningi. Við skulum taka sem dæmi orðið lýðræði sem kommúnistar gáfu nýtt merkingarinntak: Orðið „alþýðulýðveldi“ sem í reynd fól í sér einræði flokksins.

Hið sama má segja um veraldarhyggjuna (secularism) sem er í engri samhljóðan við afstöðu kirkjunnar. Við skulum taka orðið „guð“ sem dæmi. Samkvæmt skilgreiningum málvísindamanna veraldarhyggjunnar er orðið „guð“ samheiti sem skrifa ber með litlum staf og þetta er það sem við sjáum einmitt í fjölmiðlum í dag. Hryggilegt er að sjá hvernig mótmælendur hafa látið undan veraldarhyggjunni í þessum efnum í útgáfustarfsemi sinni.

Read more »

08.01.08

  10:48:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1957 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Evkaristían er ein og algjör: Líkami Krists í einingu Heilags Anda

Evkaristía kirkjunnar – sakramenti elskunnar – er ein og algjör, allur algjörleiki Krists sem Guðs og manns. Hún er brauð lífsins sem nærir alheimslegt samfélag kirkjunnar. Út frá kaþólsku sjónarhorni felur orðið „þjóðkirkja“ í sér þversögn. Fyrir siðaskiptin var rómversk kaþólska kirkjan á Íslandi hluti hins alþjóðlega samfélags kirkjunnar. Þetta blasir meðal annars við sjónum í fornleifauppgreftrinum á Skriðuklaustri. Þar fundu hinir sjúku og umkomulausu sér friðarathvarf: Líknarheimili (hospicio). Það var rekið á sama grundvelli og sambærilegar stofnanir á meginlandinu. Sama gilti um alla Guðs kristni. Til að mynda hafði verið rekið 600 manna líknarheimili í bænum Maldon í Essex á Englandi. Öll lagðist þessi starfsemi niður á þeim svæðum þar sem áhrifa mótmælenda urðu ríkjandi. Konungsvaldið sölsaði undir sig eigur kirkjunnar og slíkur rekstur var ekki „arðbær“ að mati lénsmanna konungsvaldsins.

Read more »

03.01.08

  09:11:09, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 212 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni, Þjóðfélagsrýni, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Páfinn

Forsætisráðherra fer lofsamlegum orðum um kaþólsku kirkjuna í áramótaávarpi

Forsætisráðherra Geir Haarde fór lofsamlegum orðum um kaþólsku kirkjuna í áramótaávarpi sínu sem sjónvarpað var á gamlárskvöld kl. 20. Í ávarpinu greindi hann m.a. frá ferð sinni til Páfagarðs síðastliðið haust og sagði:

Á liðnu hausti átti ég þess kost, ásamt konu minni, að heimsækja páfagarð. Það varð okkur ákaflega minnisstæð ferð. Ekki það eitt að eiga fund með páfanum, þeim sem nú fer með embættisstaf sjálfs Péturs postula og er trúarleiðtogi um þúsund milljóna manna, heldur líka að ganga um gáttir þess veraldarundurs sem Vatikanið og hallir þess eru. Þar snertir maður söguna við hvert fótmál. Kaþólska kirkjan er tæplega 2000 ára gömul stofnun og oft hefur um hana blásið. En henni hefur líka fylgt mikil blessun, hún er sterk og á djúpar rætur. Margir landar okkar eru kaþólskir og hafa hér öflugan söfnuð, sem margt gott hefur látið af sér leiða. Við heilsum nýjum kaþólskum biskupi, sem vígður var fyrr í þessum mánuði, og óskum honum heilla í starfi.[1]

[1] http://www.forsaetisraduneyti.is/radherra/raedurGHH/nr/2830

02.01.08

  15:32:54, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 161 orð  
Flokkur: Forvarnir

Er kirkjusókn og trúariðkun holl?

Svo virðist ef marka má nýlega frétt sem birtist á mbl.is þar sem segir m.a.: „Trúariðkun er einnig til bóta. Konum sem hættu trúariðkun reyndist mun hættara við kvíða og misnotkun áfengis.“ [1] Fréttin er byggð á heimild af vefnum livescience.com [2]. Í þeirri heimild var einnig vísað í aðra rannsókn frá 2006 þar sem kemur fram að andardráttur þeirra sem sækja kirkju er léttari en hinna og ekki var hægt að skýra þetta út frá reykingum eða íþróttaiðkun. [3]. Þar er svo aftur vísað á þriðju könnunina frá því í apríl 2006 en í henni kom fram tengsl milli kirkjusóknar og lengra lífs. [4]

[1] http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2008/01/02/truaridkun_og_hjalplegur_eiginmadur_draga_ur_streit/
[2] http://www.livescience.com/health/080101-women-stress.html
[3] http://www.livescience.com/health/061129_church_breathe.html
[4] http://www.livescience.com/health/060403_church_good.html

01.01.08

  02:07:53, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 281 orð  
Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kaþólskir Íslendingar

Gleðilegt ár! – og af frumkvæði Nonna í sjúkrahúsmálum

Lesendum Kirkjunetsins færum við óskir okkar um blessun Guðs á nýju ári, frið og hjálpræði öllum mönnum til handa.

Í nýbirtri Moggabloggs-grein eftir Gunnar Skúla Ármannsson lækni er sagt frá athyglisverðum þætti séra Jóns Sveinssonar, Nonna, í heilsugæzlumálum hérlendis. Ugglaust þekkja margir kaþólskir til þessa, en vert er að þetta varðveitist hér ásamt með vísan til framhalds hjá höfundinum.

Nonni 150 ára og Landspítalinn
Jón Sveinsson eða Nonni er 150 ára um þessar mundir. Allir þekkja bækur hans og glæstan ritferil. Ég var að lesa um daginn Landspítalabókina sem Gunnar M. Magnússon tók saman. Þar kemur fram að Nonni hafði safnað fé í Evrópu til að byggja holdsveikraspítala á Íslandi. Áður en til þess kom að nýta samskotafé Nonna höfðu danskir Oddfellowar tekið verkið að sér. Þennan sjóð fengu síðan St. Jósefssystur til að byggja Landakotsspítala sem opnaður var 1902. Sjóður Nonna gerði þeim kleift að reisa spítalann á mettíma og þannig ná forystu í spítalarekstri á Íslandi.

Read more »

30.12.07

  14:44:15, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 400 orð  
Flokkur: Páfinn, Jólin

Páfi fordæmir vopnagný og ofbeldi

Í Urbi et orbi (til borgarinnar og heimsins) boðskap sínum á jóladag fordæmdi páfi m.a. síendurtekna beitingu vopna á hinum ýmsu ófriðarsvæðum heimsins sem og hryðjuverk og ofbeldi. Sjá hér: [Tengill]

Segja verður að boðskapur páfa er sem fyrr tímabær og þarfur. Ef horft er á hina vestrænu menningu þá verður að viðurkenna að vopnadýrkun og ofbeldisdýrkun er áberandi, sumir myndu segja of áberandi. Afþreyingarefni, bæði tölvuleikir og myndefni byggir gjarnan á ofbeldi og vopnabeitingu til að byggja upp spennu. Oft - allt of oft er réttlætið sýnt sem afleiðing af vopnabeitingunni. En friður dauðans er ekki það sama og hinn sanni friður hjartans sem byggir á innri sátt og fyrirgefningu.

Read more »

29.12.07

  09:26:21, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1230 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Jólasjónvarpið - hugsað upphátt

Þó sá sem hér heldur á penna hafi oft gagnrýnt RÚV sjónvarpið fyrir hitt og annað þá verður að segjast að dagskráin á aðfangadagskvöld jóla var ein sú allra besta með tilliti til trúarlegra dagskrárliða sem þessi ritari man eftir. Á eftir hefðbundum upplestri Helga Skúlasonar á 'Nóttin var sú ágæt ein' og söng Sigríðar Ellu kom dagskrárliður með völdum jólalögum úr dagskrá sjónvarpsins frá liðnum árum. Þarna var efni sem greinilega var vel tímabært að endurflytja og þó fyrr hefði verið.

Þar á eftir kom upptaka með söng Mormónakórsins og Sissel Kyrkjebø ásamt hljómsveit á jólatónleikum. Upptakan og öll umgjörð þeirra tónleika sem og listrænn flutningur var með einstökum glæsibrag. Sissel sýndi þarna að hún er sérlega sterkur listamaður og segja má að hún sé á hátindi frægðar sinnar. Tónleikarnir voru liðlega klukkustund og af þeim tíma var hún í nærmynd stóran hluta tímans - að vísu þó með dálitlum frímínútum. Þrátt fyrir þetta var túlkun hennar lýtalaus og stórkostleg án afláts og krafturinn að því er virtist ótakmarkaður. Hún söng þarna nokkra af hinum vinsælustu og þekktustu jólasálmum.

Read more »

28.12.07

  18:37:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 635 orð  
Flokkur: Prédikanir

Jólaprédikun 2007

• „Ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs“ (Lk 2:10-11).

• Kæru bræður og systur í Kristi.

• Mig langar að bjóða ykkur öll velkomin til kirkjunnar á þessari hátíðarstundu.

• Þetta er dagurinn sem við minnumst að Sonur Guðs gerðist maður. Sá sem getinn var sem maður í skauti Maríu frá Nasaret, af Heilögum Anda, er enginn annar en eilífi Sonur Föðurins, önnur persóna hinnar heilögu þrenningar.

Og hann kom til að frelsa okkur. Jesús lagði líf sitt í sölurnar til að frelsa okkur frá synd. En fæðing hans og dauða hans er, ein og sér, ekki nægileg okkur til sáluhjálpar. “Einungis þegar Jesús er myndaður í okkur verður leyndardómur jólanna uppfylltur í okkur.” (Tkk 526.) Guð hefur gefið okkur frjálsan vilja. Það merkir að við stöndum frammi fyrir vali. Við getum tekið á móti Guði eða hafnað honum og Guð virðir ákvörðun okkar - jafnvel um alla eilífð. Þ.e.a.s. að sérhvert jáyrði eða neiyrði hefur áhrif á eilífa velferð okkar!

Mig langar að segja ykkur stutta sögu:
Eitt sinn kom lítil stúlka að dyrum prestbústaðarins og spurði: "Getur þú sagt mér hvar Guð býr?" Presturinn benti á kirkjuna. Stúlkan þakkaði fyrir og fór í kirkjuna. Hún hafði greinilega eitthvað í höndunum. Klukkustund síðar fór presturinn í kirkjuna. Þegar hann kom inn í hana varð hann undrandi að sjá sælgæti og kexkökur á altarinu. Þar lá einnig miði sem á stóð: "Kæri Guð, hér er lítil gjöf handa þér. Ég elska þig mjög mikið, Svala."

Við vitum að elskendum finnst gaman að gefa hvort öðru gjafir. Fyrstu jólanóttina sýndi Guð elsku sína til okkar með því að gefa okkur eitthvað fallegt - þ.e.a.s. hann gaf okkur Jesú. Og um hver jól gefum við líka þeim sem við elskum og þykir vænt um, gjafir. En mig langar að spyrja: hvað ætlum við að gefa Guði núna í dag?

"Að verða eins og barn í samskiptum við Guð er skilyrði fyrir því að komast inn í himnaríki. Því er það nauðsynlegt að auðmýkja sig og gerast lítill gagnvart honum. Og það sem meira er, til að verða “Guðs börn” verðum við að “fæðast að nýju” eða vera “af Guði fædd”. Einungis þegar Kristur er myndaður í okkur verður leyndardómur jólanna uppfylltur í okkur." (Tkk. 526.)

Þessi kærleikur Guðs til okkar krefst viðbragða af okkar hálfu. Við megum ekki gleyma að Guð er kærleikur og það hefur verið sagt að einungis kærleikur getur endurgoldið kærleika. Þess vegna erum við beðin um að “Elska Drottin Guð, af öllu hjarta.”

• Við skulum gefa okkur smá tíma núna að horfa á Jesúbarnið í jötunni. Hvað er það sem þig langar helst að segja við hann í dag?

• Mig langar að enda þessa prédikun með bæn.

“Drottinn, vér höfum fyrir fagnaðarboðskap engilsins orðið þess vísari, að Sonur þinn er maður orðinn. Vér biðjum þig, úthell náð þinni í hjörtu vor, svo að sakir milligöngu hinnar heilögu meyjar og fyrir þjáningar Krists og kross verðum vér leiddir til upprisu dýrðarinnar. Fyrir Krist, drottin vorn. Amen.”

• Kæru bræður og systur í Kristi, ég óska ykkur gleðilegra jóla!

25.12.07

  12:03:50, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 172 orð  
Flokkur: Helgir menn, Páfinn, Jólin

„Jólin eru hátíð hinnar endurreistu sköpunar“

Þetta kom m.a. fram í jólapredikun Benedikts páfa XVI sem hann hélt í Péturskirkjunni í gærkvöldi. Þar lagði hann út af túlkun hl. Gregoríusar af Nyssa á jólaguðspjallinu en samkvæmt henni táknar jatan heiminn. Páfi spurði hvað hl. Gergorius hefði sagt hefði hann séð ástand heimsins í dag t.d. vegna misnotkunar á orku. „Koma Krists endurvekur fegurð og virðingu sköpunarinnar og heimsins“ sagði páfi og bætti vð að jólin væru því hátíð hinnar endurreistu sköpunar. „Hvort sem við erum fjáhirðar eða 'vitringar' þá er ljósið og þau skilaboð sem það flytur að fara og hitta Drottin og tilbjiðja hann. Við tilbiðjum hann með því að opna heiminn fyrir sannleikanum, fyrir hinu góða, fyrir Kristi, í þjónustu við þá sem settir eru til hliðar og það er í þeim sem hann bíður okkar.“

Sjá nánar á slóðinni: http://www.zenit.org/article-21389?l=english

21.12.07

  09:29:02, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 545 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Önnur trúarbrögð

Trúin og skólinn

Á bloggsíðu séra Svavars Alfreðs Jónssonar sóknarprests í Akureyrarkirkju hafa nýverið spunnist talsverðar umræður um presta og heimsóknir þeirra í leik- og grunnskóla landsins. Sjá hér: [Tengill]. Sitt sýnist hverjum eins og gjarnan vill verða þegar umræður um skólamál eru annars vegar. Í stuttu innleggi sem ég lagði fram í athugasemdakerfinu þá kom ég því sjónarmiði á framfæri að umræðan snérist fyrst og fremst um skólamál þ.e. hvað eigi að gera í skóla og hvað ekki.

Read more »

19.12.07

  18:02:46, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 187 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúin og menningin

Merki krossins 2. hefti 2007 er komið út

2. hefti þessa árs af Merki krossins er komið út. Meðal efnis er grein eftir Pétur Pétursson prófessor: Endurskoðun afhelgunar Evrópu. Einnig eru greinarnar Leiðarlýsing og áfangastaðir Nikulásar ábóta á leið frá Róm til Jerúsalem eftir Örn Bjarnason, grein um norræna menn í Norður-Ameríku eftir Edward Booth O.P, viðtal við Monsignor Georg Ganswein, einkaritara Benedikts páfa XVI og frásögn af predikun sem ekki mátti flytja í Landakoti á fyrstu árum kaþólsku kirkjunnar hérlendis.

Read more »

16.12.07

  05:54:31, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 341 orð  
Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar

Habemus episcopum!*

Hjartanlega fögnum við Kirkjunetsmenn tilkomu nýs biskups kaþólskra á Íslandi, herra Péturs Bürcher, en hann var settur inn í embætti í Kristskirkju í gær. Var athöfnin öll hin hátíðlegasta og naut þar m.a. fagurs kórsöngs [Karmelsystra í Hafnarfirði]. Kirkjan var skreytt fánaborðum Vatíkansins, Kaupmannahafnarbiskup gegndi þar leiðandi hlutverki, og einnig var okkar fráfarandi biskup, herra Jóhannes Geijsen, meðal þeirra helztu, sem töluðu, en þar voru fleiri biskupar viðstaddir (þótt veður hamlaði, að nokkrir kæmust í tæka tíð) og allnokkur fjöldi presta og reglufólks, þ.e. kaþólskra systra af ýmsum reglum og munka frá klaustrinu í Reyðarfirði. Ennfremur voru þar, auk fullrar kirkju leikmanna, biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, herra Geir H. Haarde forsætisráðherra, a.m.k. tveir aðrir meðlimir ríkisstjórnarinnar og borgarstjóri Reykjavíkur. En Reykjavíkurbiskup er hið opinbera starfsheiti herra Péturs Bürcher.

Maðurinn sjálfur er afar ljúfmannlegur, laus við öll stíf formlegheit, það sást vel á hans brosmildu framgöngu í prócessíu um dómkirkjuna og þegar hann vék af leið sinni til að klappa á kollinn á litlu barni sem stóð þar hjá.

Read more »

10.12.07

  23:09:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 294 orð  
Flokkur: Trúarleg tónlist og textar

Ljómi barnsins - nýr jólatexti við þekkt lag

Flestir muna eftir eða kannast við Procol Harum lagið 'A whiter shade of pale'. Hægt er að skoða það á YouTube hérna. Lagið er bæði dramatískt og hátíðlegt og í því má merkja ákveðið ris sem nær hámarki í sérlega grípandi og fagurri laglínu sem varð heimsfræg 1967 í flutningi hljómsveitarinnar þar sem leikur á Hammond orgel var áberandi. Þannig vildi til að fyrir nokkrum vikum hafði ég veður af því að það vantaði íslenskan texta við lagið og í framhaldi af því bjó ég til texta sem á sunnudagskvöldið var frumfluttur og sunginn á aðventutónleikum í Selfosskirkju af Gunnari Guðna Harðarsyni við undirleik strengjasveitar Tónlistarskóla Árnessýslu og Esterar Ólafsdóttur sem lék á orgel. Stjórnandi var Greta Guðnadóttir

Read more »

03.12.07

  07:57:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 85 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – stutt athugasemd

Ég vil vekja athygli lesenda á því að fyrstu þrjár greinarnar (kaflarnir) í Prestkonungum Adamskynslóðarinnar hafa verið auknar og endurbættar bæði hvað varðar textann og myndræna framsetningu.

Meðan á verkinu hefur staðið hef ég safnað að mér miklum upplýsingum um efnið og mun þannig endurskoða hverja greinina (kaflann) eftir aðra.

Nú er Inngangurinn að verkin – síðbúinn – loksins kominn á kirkju.net!

JRJ.

TENGILL Á INNGANGINN
TENGILL Á FYRSTU GREININA
TENGILL Á AÐRA GREININA
TENGILL Á ÞRIÐJU GREININA

01.12.07

  02:55:15, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 309 orð  
Flokkur: Kristindómur og menning, Kaþólskir Íslendingar

Jón Sveinsson, Nonni, í lifandi myndum!

Allir, sem þekkja Nonna af hinum elskuðu bókum hans, munu hafa fundið til nýrrar, óvæntrar og fagnaðarríkrar tengingar við hann, þegar hann birtist á kvikmyndarbút í Kastljósþætti í gærkvöldi. Það var eins og að fá aftur að sjá gamlan, nákominn ættingja eftir langar fjarvistir. Og jafnvel þótt hann stæði fyrst allfjarri (en síðar í nærmynd) og væri á þessum myndum greinilega kominn á efstu ár, þá leyndi sér ekki hlýja hans, andleg reisn og hvernig hann dró ósjálfrátt til sín bæði börn og fullorðna.

Ég gladdist í hjarta mínu, gamli Nonnastrákurinn, sem las bækur hans upp til agna og get þakkað foreldrum mínum það, að þau keyptu fyrir mig allt ritsafn hans í 12 bindum, það sem þá var fáanlegt. Að því bjó ég sem barn. Hversu mikið er það, sem þessi óvenjulegi maður hefur gefið svo ótalmörgum!

Kvikmyndabúturinn varðveittist í Valkenburg í Hollandi. Gömul, þýzk kona hafði vitað af honum í búi foreldra sinna og sagði frá honum við komuna í Nonnasafn á Akureyri. Í Kastljósþættinum skýrði Brynhildur safnvörður frá því, að nýlega hefði þeirri sömu konu tekizt að finna upptökuna á háalofti húss síns og að hún hefði látið breyta henni í DVD-disk. Og nú er hann kominn til Akureyrar, reyndar einungis um 10 mínútna myndskeið (sem ekki var allt sýnt í Kastljósinu), en afar mikils virði fyrir alla unnendur þessa frábæra rithöfundar. Þetta verður enn ein gersemin, sem hinir fjölmörgu safngestir, flestir erlendir, geta átt aðgang að í Nonnasafni til frambúðar.

Es wurde hier erzählt, daß neulich ein (der einzige) Film mit dem Verfasser Nonni, Vater Jón Svensson, in Holland entdeckt geworden ist und auf dem isländischen Fernsehen gestern abend kundgetan. Der Film währt um 10 Minuten und wird mit dem Schätzen des Nonni-Museum in Akureyri (Nordisland) bewahrt und den tausenden jährlichen Gästen dargestellt. Es war dem heutigen Schreiber ein herzlich Wiedersehen, diesen wunderbaren Film des Nonni zu betrachten.

25.11.07

  11:52:48, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1285 orð  
Flokkur: Trúarpælingar

Um friðarboðskap kristninnar - 5. hluti: Hin kinnin

Ekki er hægt að fjalla um friðarboðskap kristninnar án þess að skoða eindregna boðun Jesú Krists um hvernig bregðast skuli við ofbeldi og yfirgangi eins og lesa má í Lúkasarguðspjall 6:27-29.

Elskið óvini yðar, gerið þeim gott sem hata yður, blessið þá sem bölva yður og biðjið fyrir þeim er misþyrma yður. Slái þig einhver á kinnina skaltu og bjóða hina og taki einhver yfirhöfn þína skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka.

Read more »

  11:14:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 870 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

STELLA VITAE (Stjarna lífsins) – Betlehemsstjarnan. Hugleiðing í upphafi aðventu

"Sjá meðfylgjandi mynd

Í eldgamladaga meðan ég starfaði enn sem kortagerðarmaður kom ég nokkrum sinnum til Zeissverksmiðjana í Oberkochen í Þýskalandi. Þar starfa miklir hagleiksmenn (og konur að sjálfsögðu). Áratugum saman hafa Zeissverksmiðjurnar verið leiðandi í hönnun og smíði alls kyns tóla og tækja til landmælinga, stjörnufræðiathugana og rannsóknartækja innan læknisfræðinnar. Til marks um álit það sem Zeiss nýtur hafa verksmiðjurnar framleitt flesta þá spegla sem notaðir eru í stórum stjörnuathugunarstöðvum víðsvegar um heimsbyggðina og í Hubble og lögðu Bandríkjumönnum í té margvísleg sérhæfð mælitæki og myndavélar í tunglferð þeirra forðum.

Read more »

23.11.07

  10:46:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6457 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 16

16. FRÁ ÍRSKAHAFINU TIL GULAHAFSINS

Sjá myndir 16. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Hér að framan hefur verið leitast við að rekja slóð prestkonunga Adamskynslóðarinnar frá frumheimkynnum þeirra í Gan Eden (grein 1). Í grein 2 er vikið að fjórverutákninu sem var samofið „me“ eða endurspeglun hins guðdómlega réttlætis á jörðu í uppljómun erkienglanna. Í grein 3 var fjallað um það hvernig nafn Guðs breiddist út um hið semíska málsvæði og í grein 4 um þá frumtrú sem ríkjandi var á meðal frumbyggjasamfélaga um allan heim til forna. Í grein 5 er athyglinni beint að fráfallinu frá Guði og enn frekar í grein 6 með hinum blóðugu barnafórnum Kanaaníta. Í greinum 7 og 8 er fjallað um þá eingyðistrú sem prestkonungarnir báru með sér til Fornegyptalands og í grein 9 frá helgisiðahring þeim sem kenndur er við Enok spámann og var samofinn konungsvaldinu og velferð hins mennska samfélags í Austurlöndum nær.

Read more »

18.11.07

  09:51:12, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 355 orð  
Flokkur: Trúin og menningin

Zontakonur minnast Nonna - sýning opin til áramóta

Það voru ekki bara þýskir Jesúítar sem minntust Nonna í fyrradag. Konur í Zontaklúbbi Akureyrar minntust þess að þá voru 50 ár liðin síðan framsýnar konur í klúbbnum opnuðu Nonnahús á Akureyri, fyrsta höfundasafn landsins. Þá var sýningin "Pater Jón Sveinsson - en kallaðu mig Nonna" sem opnuð var í Þjóðarbókhlöðunni 8. september sett upp í Amtsbókasafninu á Akureyri og opnuð 10. nóvember sl. og mun hún standa til áramóta.

Þegar forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, opnaði sýninguna í Þjóðarbókhlöðunni þá þakkaði hann m.a. konum í Zontaklúbbi Akureyrar fyrir að hafa unnið sýningu um Nonna og heiðrað minningu hans í þau 50 ár sem Nonnahús hefur starfað. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri opnaði svo sýninguna á Akureyri hinn 10. nóv. síðastliðinn að viðstöddu fjölmenni.

Read more »

16.11.07

  19:46:24, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 121 orð  
Flokkur: Trúin og menningin

Þýskir Jesúítar minnast Nonna

Jón Sveinsson - Nonni fæddist hinn 16. nóvember 1857 á þeim degi sem eins og kunnugt er hefur verið valinn dagur íslenskrar tungu og Jónas Hallgrímsson fæddist á 50 árum fyrr árið 1807. Í ár eru því 150 ár liðin frá fæðingu Nonna. Hann gekk í Jesúítaregluna 22. ágúst 1878 og lést í Köln 16. október árið 1944. Þýskir Jesúítar minntust Nonna í dag með sérstakri þakkargjörðarmessu í St. Fanziskus-Hospital í Köln svo sem sjá má á vefsetri þeirra hér: http://www.jesuiten.org/aktuell/index.htm. Nonni ritaði flestar bækur sínar á þýsku en þær náðu mikilli útbreiðslu og hafa verið þýddar á yfir 30 tungumál. Kvikmynd byggð á þekktasta verki hans "Nonni og Manni" var gerð árið 1988.

15.11.07

  21:46:43, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 482 orð  
Flokkur: Grein eftir Sr. Frans van Hooff (dó 1995)

María og Eva (Grein eftir Sr. Frans van Hooff (dó 1995))

Í kennslu kirkjunnar eru oft borin saman Adam og Kristur, Eva og María. Adam er fyrsti maðurinn og faðir allra, Kristur er hinn nýi Adam - hinn fyrsti í nýsköpuninni. Eva stendur við hlið Adams og María stendur við hlið Krists.

Guð hafði skapað Adam og sagt við hann: "Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta. Með því skaltu viðurkenna að ég, Guð, er hinn æðsti." Hið sama boðorð gilti fyrir Evu.

En Eva hlýddi ekki. Hún hugði sig vera sterka og hreina, hún þyrfti ekki boðorð Guðs. Hún var drottning paradísar, og ekkert gat skaðað hana. Hún fór til trésins. Hjá trénu fann hún freistarann.

Hann sagði: "Heldur þú að hér sé hið illa? Alls ekki. Guð langar aðeins að sjá þig undirgefna sem þræl, sem beygir sig og krýpur í bæn. Ertu ekki drottning alheimsins?"

Og hann bauð henni að borða. Hún gerði það og síðan fór hún til Adams sem át einnig.

Með Maríu er allt andstætt. Hún sá fyrir ljós Guðs að óhlýðni Evu hafði sárt Guð, og vildi bæta fyrir þetta. Hún var hlýðin í öllu. Guð bað hana að verða móðir Messíasar og móðir Guðs. Og hún hlýddi og svaraði: "Ég er ambátt Drottins, verði mér eftir orði þínu."

Það var sem henni væri gefin fögur rós, en rósin var með þyrnum. Einn þyrnanna var að hún, yrði í augum Jósefs sem ótrú og sek. En hún fól það Guði í hendur að hugga og kenna heilögum Jósef. Annar þyrninn var að hún vissi að sonur hennar yrði maður þjáninga. En á móti þessu kom sú fullvissa að hún gat sagt mannkyninu: "Grátið ekki, bráðum mun ég fæða ykkur frelsarann." Hún gat jafnvel gert Guð glaðan, því að með hlýðni sinni gerði hún yfirbót fyrir óhlýðni Evu.

María var jarðvegur þar sem nýtt¸ tré óx, krosstré, þar sem Jesús hékk á. Jesús þekkti allt hið illa, því hann þjáðist mikið af völdum þess. Hann þekkti einnig allt hið góða sem hann vildi öllum gefa.

María var full náðar. Hún þekkti einnig allt hið góða og lifði samkvæmt því. Hún vísaði hinu illa á bug, því það er til einskis að þekkja hið illa.

Við biðjum: Guð, send þú okkur frelsarann, fæddan af Maríu Mey.

11.11.07

  22:06:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 185 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

"Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða."

"Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða." (Lk 6:38)

Til er saga um konu nokkra sem vön var miklum munaði. Eftir dauða sinn kom hún til himna. Engill var sendur til að leiða hana að vistarveru hennar þar. Á leiðinn fóru þau fram hjá mörgum reisulegum húsum og var konan mjög hrifin. Hún hlakkaði til að sjá sína hús.

Skömmu seinna tók konan eftir því að húsin urðu alltaf minni og minni. Og áfram héldu þau þar til þau að lokum komu að örlitlu kofaskrifli.

"Þetta er húsið þitt", sagði engillinn.

"Hvað segirðu!", sagði konan, "Þetta! Ég get ekki búið í þessu. Ég vil stórt hús."

"Því miður", sagði engillinn, "þetta er allt sem við gátum byggt fyrir þig úr því efni sem þú hefur sent okkur upp."

08.11.07

  09:44:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6602 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 15

15. DYSJARNAR OG STEINHRINGARNIR Í EVRÓPU OG REITASKIPTING LANDS

Sjá myndir 15. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans.

Ég bið lesandann að hverfa nú með mér 4800 ár aftur í tímann í huganum eða til ársins 2800 f. Kr. Litli drengurinn sem vakti yfir geitahjörðinni í fjallinu fyrir ofan þorpið sitt á suðurströnd Spánar skammt vestan Almería nútímans, varð furðu lostinn þegar hann skreið undan skinninu í morgunkulinu og leit til hafs. Hann sá það sem aldrei hafði sést áður þar um slóðir: Flota risastórra svartra skipa sem stefndu að landi. Drengurinn var í senn undrandi og skelkaður og því hljóp hann niður í þorpið og greindi föður sínum frá því sem borið hafði honum fyrir sjónir. Faðir hans varð jafn undrandi og eftir að hafa hlustað á frásögn hans fór hann þegar í stað til öldungsins í þorpinu sem skipaði öndvegi í ráðinu og greindi honum frá skipunum ókunnu og furðulegu sem nálguðust heimaslóðir þeirra. Sjálft stóð þorpið í um 250 metra hæð yfir sjávarmáli því að enn var fólki í fersku minni flóðið mikla sem komið hafði óvænt og hrifið mér sér allt sem var á vegi þess. Öldungarnir sögðu að það hefði verið sökum þess að hinn Æðsti hefði fyllst bræði vegna synda mannanna. Öldungaráðið var þegar í stað kvatt saman með því að blása í gjallarhornið og ákveðið í skyndi að gera út sendinefnd valinkunnra manna til að kanna málið enn frekar. Þegar þeir nálguðust flæðarmálið höfðu sum skipanna þegar náð landi og skipverjarnir kepptust við að draga þau á þurrt land. Eitt skipanna var sýnu stærst og í stafni þess mátti sjá fugl sem sendimennirnir sáu þegar í stað að var fálki.

Read more »

04.11.07

  20:51:34, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 611 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúarpælingar, Þjóðfélagskenningin

Um friðarboðskap kristninnar - 4. hluti - höfnun drambsins

Ekki er hægt að fjalla um friðarborðskap kristninnar án þess að víkja að höfnun hennar á drambseminni eða hrokanum, mannlegri tilhneygingu sem veldur vanlíðan og tortryggni og er því rót ófriðar í samfélagi manna. Kaþólska kirkjan flokkar drambið sem hina fyrstu af höfuðsyndunum eða dauðasyndunum sjö. Þessar syndir eru nefndar "höfuðsyndir eða dauðasyndir vegna þess að hver þeirra verður löngum orsök og undirrót annarra synda." [1] Sjá líka Síraksbók (10,7.15).

Vjer verðum sekir um drambsemi þegar vjer höfum of mikið álit á oss sjálfum, en gefum eigi Guði þá vegsemd er honum ber, eða fyrirlítum náunga vorn. [2]

Read more »

02.11.07

  11:45:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 661 orð  
Flokkur: Bænalífið

Allra sálna messa

Í dag er Allra sálna messa og í því tilefni birti ég hér hugleiðinguna með ritningarlestri dagsins sem er Mattesus 25. 31-46.

Heil. Kýprían (um 200-258), byskup í Karþagó og píslarvottur,
Umfjöllun um dauðann, Patrologia latina 4, 596 og áfr.:

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi“ (Jh 11. 25)

„Við ættum ekki að gráta vegna þeirra bræðra okkar sem raust Drottins hefur kallað úr þessum heimi sökum þess að við vitum að þeir eru ekki glataðir heldur sporgöngumenn okkar: Þeir hafa yfirgefið okkur líkt og ferðamenn eða sæfarendur á undan okkur. Við ættum fremur að öfunda þá en að úthella tárum vegna þeirra og eigum ekki að íklæðast svörtum klæðum þegar þeir eru íklæddir hvítum kyrtlum í upphæðum. Við skulum ekki gefa heiðingjunum tækifæri til að álasa okkur með réttu þegar við syrgjum þá sem við fullyrðum að lifi hjá Guði, rétt eins og þeir hafi verið upprættir og séu glataðir. Við bregðumst von okkar og trú ef það sem við boðum virðist vera blekkingar og ósannindi. Það er tilgangslaust að andmæla með hugrekki og afneita sannleika orða okkar síðan í verki.

Read more »

  10:10:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 247 orð  
Flokkur: Innlendar fréttir

Nýr Reykjavíkurbiskup skipaður

Þann 30. október 2007 útnefndi Benedikt páfi XVI

herra Pétur Bürcher

í embætti Reykjavíkurbiskups. Nýi biskupinn verður settur í embætti laugardaginn 15. desember við hátíðlega messu í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti í Reykjavík. Athöfnin hefst kl. 10.30
Við bjóðum nýja biskupinn hjartanlega velkominn!

Read more »

31.10.07

  16:47:02, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 594 orð  
Flokkur: Ólafur Haukur Árnason

Páfi útnefnir patríarka Kaldeakirkjunnar í Írak kardínála

Eftir Ólaf Hauk Árnason

Þann 17. október síðastliðinn tilkynnti Benedikt XVI páfi um val sitt á 23 nýjum kardínálum. Athygli vekur að meðal þeirra er patríarki Kaldeakirkjunnar, en hún er kirkja margra kristinna manna í Írak, Íran, Sýrlandi og Líbanon. Hinn áttræði Mar Emmanúel III Delly, sem var kjörinn patríarki árið 2003, á að baki áratuga starf sem biskup í þágu kirkjunnar og kristinna manna í Mið-Austurlöndum. Hann er afar vel menntaður (með doktorsgráður bæði í heimspeki og guðfræði), talar reiprennandi sex tungumál og leggur mikla áherslu á góð samskipti við múslima.

Read more »

30.10.07

  12:01:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 4277 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 14

SÚLA ENOKS SPÁMANNS OG VIKNASPÁDÓMUR

Sjá myndir 14. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans.

Árið 1012 f. Kr. barst Akhenaten faraó í Egyptalandi eftirfarandi bréf frá Abimilku konungi í Týros: „Til konungsins, sólar minnar, guðs míns, guða minna. Boð Abimilku, þjóns yðar . . . Höllin í Ugarít varð eldi að bráð eða [fremur] helmingur hennar er horfin. [1] Af einskærri heppni sem er afar fágæt innan fornleifafræðinnar fannst brunasviðin fleygrúnatafla í litlu hliðarherbergi við inngang hallarinnar í Ugarít sem nefnd hefur verið KTU-1.78. Hún er úr svo nefndu „Vestrabókasafni“ og má nú sjá í fornleifasafninu í Damaskus. Mynd 14.1

Á framhlið hennar má lesa eftirfarandi orð:

Á nýju tungli í Hiyyaru var dagurinn hafður að háði er sólar (gyðjan) settist með Rashap að hliðverði sínum.

Á bakhlið töflunnar má lesa varnaðarorð musterisprests sem varar við því að mikil ógæfa muni steðji að Ugarít eftir að lömbum var fórnað og lifrin úr þeim skoðuð:

Tvær lifrar skoðaðar: Hætta!

Read more »

27.10.07

  21:40:37, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 907 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúarpælingar

Um friðarboðskap kristninnar - III. hluti - höfnun ágirndar og öfundar

Fleiri innri kenndir mannsins geta valdið ytri ófriði en reiði og meðal þeirra má nefna öfundina og ágirndina sem líta má á að séu brot á sjöunda, níunda og tíunda boðorðinu. Enginn getur hamið neina aðra öfund eða ágirnd en sína eigin enda hefur það sýnt sig að það eitt getur verið ærið verkefni hverjum manni. Ef þið lesendur góðir viljið því berjast fyrir betri heimi þá er verkefnið sannarlega bæði brýnt og ærið en það þarf ekki að fara langt til að byrja og góður vilji er allt sem þarf. Ekki er nauðsynlegt að bylta þjóðskipulagi eða menningu heldur fyrst og fremst sínu eigin hugarfari og hegðun. Jöfnuður samfélagsins verður að vera afleiðing innri sáttar en ekki einfalds ytra réttlætis Hróa hattar. Og sem leiðsögn í þessum málum er vart hægt að finna betri texta um þessi mein en umfjöllun trúfræðslurits kirkjunnar þar sem segir:

Read more »

25.10.07

  17:13:51, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 262 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Hvar eru kaþólikkarnir?

Í nýlegri greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að um 22.000 skráðir erlendir ríkisborgarar eru nú búsettir á landinu. Langflestir þeirra sem koma til starfa hingað til lands frá ríkjum utan gamla evrópska efnahagssvæðisins koma frá Póllandi [1] Í nýlega útgefnu Merki krossins tímariti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi kemur fram að í árslok 2006 er heildarfjöldi kaþólskra sagður 7.283. [2] Ef hlutfall kaþólskra meðal hinna erlendu verkamanna er varlega áætlað um 50% sem er ekki fráleitt því margir þeirra koma frá Póllandi þá ættu kaþólikkarnir samt að vera um 11.000 en nú er vitað að í landinu er fyrir margt kaþólskt fólk sem er ríkisborgarar. Það er því ekki fráleitt miðað við þessar tölur að giska á að í landinu séu að minnsta kosti 10.000 kaþólikkar jafnvel enn fleiri.

Read more »

1 ... 13 14 15 ...16 ... 18 ...20 ...21 22 23 ... 46

Síðustu pistlar

Kirkju.net er óháð vefrit sem inniheldur aðallega efni tengt kaþólskri trú en einnig um trúmál almennt. Markmiðið er að miðla fróðleik og stuðla að skoðanaskiptum og umræðu innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi sem og að kynna kaþólsku kirkjuna fyrir þeim sem utan hennar eru. Aðalsíða vefritsins sækir pistla inn á bloggsíður og skrifa höfundar hvers bloggs pistla sem hafa kaþólskt eða annað trúarlegt efni sem meginþema. Skoðanir settar fram í pistlunum eru höfundanna sjálfra og ber ekki að túlka þær sem skoðanir trúfélaga eða annarra bloggara. Höfundar bera ábyrgð á efni sem þeir birta á sínu bloggi. Athugasemdir við pistlana eiga að vera á íslensku, málefnalegar og fullt nafn höfundar á að koma fram. Athugasemdum er ritstýrt af höfundi hvers bloggs fyrir sig. Gestapennar innan eða utan kaþólsku kirkjunnar eru einnig velkomnir að senda inn greinar sem eru birtar undir „Ýmsir höfundar.“

Leit

Flokkur

Sr. Denis O'Leary

Kirkjuvefbók Ragnars

Jón Valur Jensson

Ýmsir höfundar

Jón Rafn Jóhannsson

Kirkju.net

  XML Feeds

blog engine