Blaðsíður: 1 ... 35 36 37 38 ...39 ... 41 ...43 ...44 45 46

25.03.06

  14:26:21, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1760 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Um “neyðargetnaðarvörn” – rangfærslum og lögleysu mótmælt

Grein þessi birtist í samanþjappaðri mynd í Mbl. 20. des. 2000, því að frumgerð hennar var sögð of löng fyrir blaðið. Hér er hún birt í upprunalegri, ýtarlegri gerð. Taka má fram, að Mbl.greininni [1] var ekki svarað í blaðinu.

Ekki verður hjá því komizt að andmæla fullyrðingum og áróðri heilbrigðisyfirvalda um verkun svokallaðrar neyðargetnaðarvarnarpillu. Áberandi dæmi um þetta er málflutningur dr. Reynis Tómasar Geirssonar í Mbl. 25. okt. 2000 og Sóleyjar Bender í sama blaði 11. nóv. s.á. Bæði boða þau “neyðargetnaðarvörn” (skammst. NGV) sem úrræði í takmörkun barneigna, en verður fótaskortur á sannleikanum í ofurkappi sínu að koma þessum pillum á framfæri.

Hér á eftir verður sýnt fram á (1) að sumar helztu staðhæfingar þeirra eru byggðar á sandi, jafnvel rangfærslu á alkunnum vísindalegum staðreyndum, og (2) að sú notkun á “NGV”, sem þau leggja til að tekin verði upp, er í reynd ólögmæt, þar sem hún er andstæð lögum nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar o.fl.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  10:47:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 563 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Guð mun vel fyrir sjá

Í barnslegu trúartrausti sínu trúði sóknarpresturinn í Ars [1] á forsjá Guðs í öllum efnum. Enginn gerði sér ljóst hvernig hann fór að því, en hann rak stórt heimili fyrir munaðarlausar stúlkur, alls 60. Og vitaskuld nefndi hann þennan griðarstað sinn „La Providance“ (Forsjónina).

Árið 1829 var svo komið að allt kornið var því sem næst gengið til þurrðar, einungis ein handfylli korns var eftir. Þetta voru erfiðir tímar þar sem uppskeran hafði brugðist. Þeir sem höfðu séð sóknarprestinum fyrir korni voru orðnir þreyttir á kvabbinu í honum og hann veigraði sér við að fara enn einu sinni á fund þeirra. Satt best að segja var sóknarpresturinn jafnvel búinn að ganga fram af verndardýrlingum sínum með látlausum bænum sínum. Ástandið var orðið svo alvarlegt að það hvarflaði jafnvel að sóknarprestinum að senda stúlkurnar sínar á brott.

Þá datt honum allt í einu í hug að snúa sér til hl. Francis Regis sem hann bar djúpstæða lotningu fyrir. Meðan þessi heilagi maður lifði á jörðinni hafði hann hvað eftir annað séð hinum snauðu fyrir fæði með kraftaverkum, þannig að engin ástæða var til þess að ætla, að hann myndi ekki halda því áfram af himnum.

Sóknarpresturinn fór upp á kornloftið og sópaði því litla korni sem eftir var í haug, faldi helgar menjar hins heilaga manns undir korninu og lét síðan stúlkurnar sínar biðja. Að nokkrum stundum liðnum sagði hann Jeanne-Marie Chanay sem sá um eldhússtörfin og ofninn að fara upp á loft og ná í það litla sem eftir var af korninu.

Hún varð við beiðni hans, þrátt fyrir að hún gerði sér ljóst „að það væri með öllu tilgangslaust.“ Þegar hún reyndi að ljúka hurðinni upp stóð hún föst, engu var líkara en að þungt farg hvíldi á henni að innanverðu. Loksins þegar hurðin lét undan átti Jeanne-Marie erfitt með að trúa eigin augum. Kornið flæddi út og niður stigann og herbergið var fullt af korni upp í þakrjáfrið. Hún hljóp niður stigann og greindi sóknarprestinum frá því sem borið hafði að höndum.

Hann varð hálf hissa, reyndar ekki svo mjög, og sagði við litlu munaðarleysingjana sína: „Ég treysti ekki á gæsku Guðs, elsku smælingjarnir mínir og ætlaði að fara að senda ykkur í burtu. Vissulega hefur hann veitt mér ráðningu.“ Fólk sagði að kornið hefði verið óvenjulegt á litinn. Þannig fyllir trúin geymslur manna með hinni himnesku uppskeru.

GUÐ MUN VEL FYRIR SJÁ!

[1]. Fullu nafni hét hann Jean Baptiste Marie Vianney (1786-1859). Hann var fæddur í Lyonhéraðinu. Þar sem „gáfnaljósin“ sem stóðu að baki frönsku byltingarinnar höfðu bannað fólki að biðja, fór hann iðulega með foreldrum sínum í hlöðu eina til að vera við messu. Allir prestar voru í felum og þegar þeir náðust voru þeir umsvifalaust hálshöggnir. Það var þá sem Jean Baptiste litli tók þá ákvörðun að gerast prestur.

  09:19:33, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 261 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hún var ekki skítug lengur

Eitt sinn var ungur munkur sem átti erfitt með að muna það sem hann las úr Biblíunni. Hann fór því til gamals og viturs munks og sagði honum frá vandamáli sínu. Ungi munkurinn lauk máli sínu með því að segja að kannski væri best að hætta að lesa Biblíuna úr því að hann gleymdi sífellt orðum hennar.

Gamli munkurinn rétti honum gamla og leka könnu sem var skítug að innan.

„Farðu og náðu í vatn í þessa könnu og komdu með það hingað,“ sagði gamli munkurinn.

Ungi munkurinn gerði eins og honum var sagt en eins og gaf auga leið hafði allt vatnið lekið úr könnunni þegar hann kom aftur.

„Fylltu hana á ný,“ sagði gamli munkurinn.

Og ungi munkurinn fyllti hana aftur en allt fór á sömu leið, vatnið lak úr könnunni.

„Fylltu hana á ný,“ sagði gamli munkurinn.

Og ungi munkurinn fyllti könnuna aftur þriðja sinni og enn aftur lak vatnið úr könnunni.

Þá sagði ungi munkurinn: „Áður en þú sendir mig á ný til að ná í meira vatn ættirðu að vita að þessi gamla skítuga kanna lekur.“

Þá brosti gamli munkurinn og sagði: „Gott og vel, líttu í könnuna og segðu mér hvað þú sérð.“

Ungi munkurinn leit í könnuna og sá að hún var ekki skítug lengur.

Þá sagði gamli munkurinn: „Þetta á einnig við um þig, orð Biblíunnar leka stöðugt út en þau hreinsa þig!“

  03:17:20, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2424 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Bænamál

Sigurviss bæn fyrir ófæddum

Í dag er dagur ófæddu barnanna. Við skulum hugsa til þeirra og til skyldu okkar að undirbúa þennan heim fyrir komu þeirra og móttöku meðal okkar. Við skulum beygja kné okkar í iðrun og örvæntingu yfir því, að við höfum brugðizt í því hlutverki okkar að standa vörð um líf hinna ófæddu – að flæma burt af landi þessu hinn illa anda fósturdeyðingarhyggjunnar og "auðveldra lausna" sem allar eru á kostnað ófædda barnsins og móður þess, sem oftast verður að bera afleiðingarnar. En örvæntum ekki um sjálf okkur nema til þess eins að festa hug okkar þá þegar á Drottni Guði Föður okkar, sem annast eitt og sérhvert okkar af óumræðilegri elsku sinni. Sigur trúarinnar er í raun þegar unninn: allt sem við getum gert er að samverka með Guði í verki hans, og kenning trúarinnar veitir okkur fullvissu um að við getum borgið lífi margra ófæddra barna, íklædd hertygjum Heilags Anda, hvers 'vopn' er bænin. "En trú vor, hún er siguraflið sem hefur sigrað heim-inn" (I.Jóh. 5.4) – það er hún sem gefur okkur þessa sigurvissu djörfung.

Gakktu nú til bæna þinna í því hugarfari og þeirri fullvissu, að með hverju einasta hrópi á hjálp fyrir líf og heill hinna ófæddu verði a.m.k. einu ófæddu barni borgið.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

24.03.06

  22:08:12, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 624 orð  
Flokkur: Skírnin

Kenningin um Limbó kvödd

Róm, 24 jan. 2006 (Zenit.org).-
Jóhannes Páll II. páfi fór þess á leit árið 2004 að guðfræðileg staða óskírðra látinna barna yrði skýrð. Séra Cantalamessa prestur í Páfagarði skrifaði:

„Sumir hafa haft samband við mig vegna skrifa minna um að sálir óskírða barna endi ekki í Limbó heldur fari til himna. Jesús stofnaði sakramentin sem sérstaka náðarfarvegi. Venjulega eru þau nauðsynleg og fólk sem getur meðtekið þau en vill það ekki þarf að svara fyrir þessa afstöðu gagnvart Guði. En Guð takmarkaði sig ekki við þau. Jafnvel um Altarissakramentið sagði Jesús: „Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður.“ (Jh. 6:35), en þetta þýðir ekki að allir þeir sem hafa aldrei meðtekið sakramentið séu glataðir.

Þráð en óframkvæmd skírn sem og hátíð hinna heilögu sakleysingja staðfesta þetta. Í Matteusarguðspjalli segir Jesús líka „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ (Mt. 25,40). Kenningin um Limbó hefur aldrei verið skilgreind sem kennisetning kirkjunnar. Hún var guðfræðileg tilgáta sem að mestu hvíldi á kenningu hl. Ágústínusar um erfðasyndina en var hafnað sem boðun fyrir löngu og guðfræði nútímans hafnar henni.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  15:33:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 702 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son

Guðspjall Jesú Krists þann 25. mars (Boðunardags Maríu og Dags hinna óbornu barna) er úr Lúkasarguðspjalli 1. 26-38

En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“ En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður Sonur hins Hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“ Og engillinn sagði við hana: „Heilagur Andi mun koma yfir þig og kraftur hins Hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, en Guði er enginn hlutur um megn.“ Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.

Hugleiðing
Í þessum pistlum mínum á Kirkjunetinu hef ég nokkru sinnum minnst á kraftaverk. Ég hef minnst á kraftaverkið í Hiroshima þegar jesúítarnir lifðu af kjarnorkusprenginguna án þess að veikjast nokkru sinnum af hvítblæði eins og svo fjölmargir aðrir (100.000 manns). Ég hef minnst á þær hl. Margréti og hl. Bernadettu frá Lourdes, en jarðneskir líkamar þeirra hafa verið upphafnir yfir lögmál líffræðilegrar hrörnunar. Ég vék einnig að efkarístíuundrinu í Lancíano og ofurmættinum sem vísindamennirnir mældu í opinberunarkapellunni í Medjugorje. EN ÖLL ÞESSI KRAFTAVERK FÖLNA Í SAMANBURÐI VIÐ ÞAÐ KRAFTAVERK ÞEGAR NÝTT BARN ER GETIÐ!

Guð hefur fyrirbúið okkur öllum ráðsályktun „áður en heimurinn var grundvallaður“ (Ef 1. 4). María var óaðskiljanlegur hluti þessa draums Guðs, draumi sem hann opinberaði spámönnum hins Gamla sáttmála:

„Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel (Guð með oss)“ (Jes 7. 14).

Hin nýja öld hjálpræðisins hefst með getnaði Jesú í lífi Maríu. Sérhvert barn sem getið er á þessari öld hjálpræðisins er heilagt eins og ávöxtur Maríu: Barn Guðs. María var ung að árum og átti engan eiginmann, einungis fjórtán ára gömul, en hún veit að Guð mun vel fyrir sjá. Svar Maríu skírskotar því til allra ungra mæðra:

„Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum“ (Lk 1. 38).

Guð gefur sérhverri móður mikla náð þegar barn er getið og væntir þess að hún svari af sama fúsleika og trúnaðartrausti og María. Þegar við uppfyllum óskir Guðs veitir hann okkur hjálp og styrk og opnar áður ókunnar leiðir og möguleika. Við getum annað hvort brugðist við náð hans eða hafnað henni. Trúið þið á fyrirheit Guðs, ungu mæður og feður, og bregðist þið rétt við náð hans?

Látum þetta vera bæn okkar á Degi hinna ófæddu barna: „Hjálpa þú okkur til að lifa lífi fullu náðar eins og María með því að trúa á fyrirheit þín og ráðsályktun. Kenndu okkur að svara ávallt með „jái,“ þegar þú knýrð dyra í lífi okkar. Miskunna þú öllum mæðrum í takmarkalausri gæsku þinni!“

  10:03:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 76 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Guð einn er nóg!

Lát þú ekkert trufla þig,
ekkert hræða þig;
allir hlutir eru hverfulir,
en Guð er ávallt óumbreytanlegur;
þrautseig þolinmæði
nær hverju og einu marki;
hann sem á Guð er í engu ávant;
Guð einn er nóg.

Hl. Teresa af Jesú
(Tkk 227)

Nada te turbe;
nada te espante;
todo se pasa;
Dios no se muda,
la paciencia
todo lo alcanza.
Quien a Dios tiene,
nada le falta.
Solo Dios basta.

Santa Teresa de Jesús

23.03.06

  11:13:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 187 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels

Ljóð andans (Cantico espiritual) eftir Jóhannes af Krossi á íslensku

Nú er þýðingu Ljóðs andans eftir Jóhannes af Krossi lokið og má finna ritið á Vefrit Karmels.

TENGILL

Sú þýðing sem liggur hér fyrir á íslensku er gerð eftir San Juan de la Cruz: Obras Completas, 5. Edicion, Edicion Critica sem gefin er út af Editorial de Espiritualidad, Madrid, 1993. Auk þess hef ég haft hliðsjón af enskri þýðingu föður Kieran Kavanoughs Ocd. Athugasemdirnar eru úr ensku útgáfunni. Til samræmis við spænsku útgáfuna hef ég sett númer erindanna úr „Ljóði A“ innan sviga.
Þýðing þessi er tileinkuð öllum þeim körlum og konum í rómversk kaþólsku kirkjunni og Rétttrúnaðarkirkjunni á Íslandi sem kosið hafa að ganga veg vaxtartakmarks Kristsfyllingarinnar (Ef 4. 13) í helgun sakramentis hjónabandsins.

Nýverið barst mér í hendur íkona hl. Jóhannesar af Krossi sem karmelsysturnar í Sýrlandi gerðu í tilefni 400 ára aldarminningar hans og má nú sjá í Karmelklaustrinu í Sevilla. Hugmyndin er sú að myndskreyta Ljóð andans með henni þegar skönnun íkonunnar er lokið.

Stutt æviágrip hl. Jóhannesar af Krossi má einnig finna á Vefrit Karmels í ritinu Regla Karmels Teresu (2. kaflanum).

TENGILL

  10:16:16, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 120 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hann einn hlaut frelsi

Einu sinni fóru tveir menn upp á fjall að veiða fugla. Þeir notuðu net. Lögðu það og fóru heim.

Næsta dag var netið fullt af dúfum. Annar maðurinn sagði:

„Þetta er góð veiði.“
En hinn maðurinn sagði: „Nei, þessir fuglar eru of horaðir. Það er ekki hægt að selja þá á markaðinum. En kannski gætum við alið þá og fitað.“

Svo þeir ólu fuglana. Allir fuglarnir átu nema einn. Hann át ekki, svo hann horaðist á meðan hinir fitnuðu. Að lokum, komu mennirnir til að flytja þá til markaðarins, og selja. En fuglinn sem forðaðist matinn, slapp úr netinu. Hann einn hlaut frelsi!

22.03.06

  18:54:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 470 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Dagur ófæddra barna er 25. mars (Boðunardagur Maríu Guðsmóður)

Noticias Globales, Lima, Perú, 21. mars 2006. Í tilefni þess að hinn 25. mars hefur verið valinn sem Dagur ófæddra barna, vill Biskuparáð Perú kunngera eftirfarandi:

Að frumkvæði Páfastóls hafa fjölmörg ríki ákveðið að gera þann 25. mars að Hátíð dags ófæddra barna. Svo er Guði fyrir að þakka að land okkar hefur ákveðið að verða við þessum óskum.

Eins og blasir hefur við sjónum hrekkur þessi hátíð ekki til að verja hið saklausa líf, en hún getur orðið verðugt tilefni til að kynna perúsku þjóðinni gildi og helgi lífsins við getnað. Með því að innleiða þessa hátíð gefst tilefni til að boða guðspjall lífsins og berjast gegn lögum sem hvetja til fóstureyðinga með því að grípa til aðferða efnafræðinnar til að lítilsvirða lífið með því að hafna gildi þess við getnað.

Ekki er unnt að komast hjá því að minnast á fjölmarga fjölmiðla sem kosið hafa að fylgja siðrænni afstæðishyggju og það sem verra er, að hvetja til fóstureyðinga. Auk þess verður að vekja athygli á því að fjölmörg fyrirtæki hafa ákveðið að leggjast á sveif með því að fóstureyðingar verði lögleiddar í landi okkar.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  16:28:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 593 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir

Guðspjall Jesú Krists þann 23. mars er úr Lúkasarguðspjalli 11. 14-23

Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist - fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á, en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu. Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

Hugleiðing
Jesús gerir okkur það ljóst hér tæpitungulaust að enginn getur verið hlutlaus eða afstöðulaus. Annað hvort skipum við okkur í flokk með Jesú, eða í flokk andstæðinga hans. Hér er ekki um neina málamiðlun að ræða. Annað hvort berjumst við fyrir ríki Guðs eða berjumst gegn því. Ríkin eru einungis tvö: Guðsríkið eða ríki Satans. Ef við höfnum því að hlýðnast boðorðum Krists, ljúkum við upp hliðinu fyrir valdi syndarinnar og Satans. Ef við viljum öðlast frelsi frá syndinni og Satan verður það að vera Jesús sem er húsbóndinn í okkar eigin húsi eða hjarta þar sem hann er Drottinn okkar og Frelsari. Hver er húsbóndi yfir þínu hjarta kæri lesandi?

En það sem út fer af munninum, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi (Mt 15. 18, 19).

Margir nútímamenn bera betur skyn á illa anda sem „isma.“ Við greinum skjótt hvort sú afstaða sem birtist í „ismunum“ er komið frá Jesú eða ekki. Er einhver sem getur haldið því fram í fullri alvöru að fóstureyðingar séu komnar frá Jesú? „Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.“

En þetta hefi ég boðið þeim: Hlýðið minni raust, þá skal ég vera yður Guð og þér skuluð vera mín þjóð, og gangið jafnan á þeim vegi, sem ég býð yður, til þess að yður vegni vel. En þeir heyrðu ekki og lögðu ekki við eyrun, en fóru eftir vélráðum síns illa hjarta, og snéru við mér bakinu, en ekki andlitinu (Jer 7. 23- 28)

VEGIRNIR ERU AÐEINS TVEIR: VEGUR LÍFSINS OG VEGUR DAUÐANS OG ENGINN GETUR GENGIÐ ÞÁ BÁÐA SAMTÍMIS

  10:38:14, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 93 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hér eru engin fátækrahverfi

Eitt sinn sagði Móðir Teresa:
"Um daginn dreymdi mig að ég stæði við hlið himnaríkis en heilagur Pétur sagði við mig:
"Farðu aftur til jarðarinnar, hér eru engin fátækrahverfi".

OPINBERUNARBÓK JÓHANNESAR 21
"Hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði. Hún hafði dýrð Guðs.
Og stræti borgarinnar var af skíru gulli sem gagnsætt gler."

21.03.06

  22:33:18, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 290 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Á aldrei að kasta perlum fyrir svín?

Í Matteusarguðspjalli kafla 7. versi 6 stendur skrifað:

Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum, og þeir snúa sér við og rífa yður í sig.

Síðar í sama guðspjalli er svipuð eða sama hugsun færð í orð í frásögninni af kanversku konunni (Mt. 15, 21-28):

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda." En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum." Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt." Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!" Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana." Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra." [Leturbr. RGB]
Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Fleiri dæmi mætti tína til þar sem hann sýnir hinum auðmýktu og útskúfuðu sérstaka náð. Svo virðist sem um ákveðna þróun sé að ræða frá fyrstu tilvitnuninni. Líklega mun enginn kasta perlum fyrir svín í eiginlegri merkingu en þegar andleg verðmæti eru annars vegar má greinilega gera undantekningar.

RGB

  15:31:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 309 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Lögmál lífsins Anda (Rm 8. 2)

Guðspjall Jesú Krists þann 22. mars er úr Matteusarguðspjalli 5. 17-19

Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.

Hugleiðing
Hver er afstaða okkar til boða Drottins? Getum við tekið undir orð Heilags Anda eins og þau opinberast í 119 Davíðssálminum: „Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta“ (2). Jesús talaði tæpitungulaust þegar hann vék að lögum síns himneska Föður, BOÐORÐUM LÍFSINS sem verður að fylgja: Að virða Guð, að bera virðingu fyrir foreldrum sinum, að lifa af sjálfsvirðingu gagnvart sjálfum sér og náunga sínum, að virða lífsrétt annarra.

Þegar við virðum boðorð Guðs lærist okkur að ganga Veg elskunnar, að elska Guð og meðbræður okkar. Það er Guð sem gefur okkur náð til að elska, að fyrirgefa eins og hann fyrirgefur, að hugsa eins og hann hugsar. Drottinn elskar réttlætið og hatar illskuna. Okkur ber að elska boðorð hans og hata syndina. Þetta kennir hann okkur einnig vegna þess að Heilagur Andi hans hatar syndina vegna þess að hún leiðir manninn til dauða og stríðir þannig gegn lífslögmáli hans. Drottinn, kenn okkur að elska boðorð þín á þessum degi!“

  08:20:20, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 105 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Ég er góði hirðirinn

Sumar af elstu táknmyndum kristinna manna, sem málaðar eru á veggi í Katakompunum í Róm, eru af Jesú sem ungum skegglausum fjárhirði þar sem hann heldur á sauð á öxlum sér. Augljóslega var "góði hirðirinn", mjög vinsælt meðal fyrstu kristinna manna.

Eins og við vitum þá eru guðspjöllin uppfull af dæmum um kærleika Jesú:

• "Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrgðar, og ég mun veita yður hvíld." (Mt11:28)

• "Ég er góði hirðirinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina." (Jh10:11)

20.03.06

  23:09:29, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 293 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Að skilja leyndardóma Guðs

Til er saga um tvo menn. Báðir voru andlega sinnaðir og miklir hugsuðir.
Dag einn gengu þeir meðfram sjávarströnd. Á göngunni ræddu þeir
leyndardóma Guðs. Hvor um sig var sannfærður um, að útskýringar hins á því hvað Guð þýddi fyrir hann, væru lélegar. Þeir fundu hugmyndum hvor annars um Guð, allt til foráttu.

Skyndilega gengu þeir fram á lítinn dreng sem var að leika sér í vatnsborðinu. Hann hafði grafið litla holu í sandinn og hljóp í sífellu niður að sjónum og dýfði leikfangafötunni sinni í vatnið og hljóp aftur upp ströndina til að hella vatninu í holuna. Þeir horfðu á hann nokkra stund þar sem hann hljóp fram og aftur og tæmdi og fyllti fötuna sína.

Þeim fannst þetta fyndið svo að þeir gengu til hans og spurðu hvað hann væri að gera. Drengurinn benti í átt að sjónum og sagði þeim alvarlega, að hann ætlaði að taka allt vatnið úr honum og hella því í holuna sem hann hafði grafið í sandinn. Mennirnir tveir brostu og héldu fram göngu sinni og ræddu áfram um Guð.

Skyndilega stansaði annar þeirra og sagði: "Veistu að rétt áðan fannst okkur það fyndið, þegar drengurinn sagði okkur frá því sem hann var að reyna að gera. En umræða okkar um Guð hefur verið alveg eins. Það er jafn ómögulegt fyrir okkur að skilja leyndardóma Guðs, eins og það er fyrir drenginn að hella öllu vatni sjávarins í þessa holu. Hugir okkar eru eins og þessi hola en veruleiki Guðs er eins stór og hafið."

  16:00:40, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 570 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Fyrirgef oss vorar skuldir

Guðspjall Jesú Krists þriðjudaginn 21. mars er úr Matteusarguðspjalli 18. 21-35

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö. Því að líkt er um himnaríki og konung, sem vildi láta þjóna sína gjöra skil. Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður, er skuldaði tíu þúsund talentur. Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt.' Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn, sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: ,Borga það, sem þú skuldar!' Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér.' En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi, uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: ,Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?' Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum. Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.“

Hugleiðing
Við Íslendingar höfum vanist því á síðari árum að heyra háar fjárhæðir nefndar í fjölmiðlum. Ekki er óalgengt að fjárupphæðir sem teljast í milljörðum króna falli þeim í skaut á einni nóttu sem stunda kauphallarviðskipti. Í dæmisögunni víkur Jesús að slíkum manni. Hann skuldaði óhemjumikla fjárhæð, svo mikla, að hún nam hærri upphæð en nam landsgjöldum af heilu héraði: Þetta var upphæð sem talin væri í milljörðum króna á okkar tímum. Samt sem áður gat hann ekki gefið skuldunaut sínum upp fjárupphæð sem nam einungis einum þúsundasta af þeirri upphæð sem hann þurfti ekki að standa skil á.
En engin upphæð, hversu há sem hún kann svo að vera, jafnast á við þá skuld sem við eigum Guði að gjalda! Ef Guð hefur fyrirgefið okkur, verðum við einnig að fyrirgefa öðrum eins og okkur eru fyrirgefnar okkar skuldir. Jesús segir ekki sjö sinnum heldur sjötíu og sjö sinnum, sem er eitt og hið sama og að segja í sífellu. Þetta getum við ekki gert nema ákalla Föður okkar á himnum um hjálp:

Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum!

19.03.06

  16:04:21, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 97 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Jesús horfir á mig og ég horfi á hann

Að venju fór sr. Jean–Marie Vianney reglulega á daginn í kirkju sína til að lesa þar tíðarbænir sínar. Hann tók oft eftir bónda nokkrum sem stóð í anddyri kirkjunnar. Hann var hvorki með bænabók né rósakrans heldur spennti hann aðeins greipar sínar og horfði fram á við í átt til háaltarisins þar sem guðslíkamahúsið var.

Dag nokkurn spurði presturinn hann hvað hann væri eiginlega að gera allan þann tíma.

Bóndinn svaraði:
„Jesús horfir á mig og ég horfi á hann.“

  15:48:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 438 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Sá sem hatar umvöndun er heimskur (af þessum heimi)

Guðspjall Jesú Krists mánudaginn 20 mars er úr Lúkasarguðspjalli 4. 24-30

Enn sagði hann: „Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu, og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi. Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur.“ Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta, spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan. En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.

Hugleiðing
Jesús hikaði ekki við að atyrða samtíðarmenn sína sökum vantrúar þeirra. Hann reitti þá til reiði með því að segja, að jafnvel útlendingarnir hefðu meiri trú til að bera en þeir. Þetta voru þung orð í garð Gyðinganna sem töldu sig vera hina „útvöldu þjóð“ landsins og fyrirlitu útlendingana heilshugar. Þau varnaðarorð sem Jesús mælti til þeirra sökum vantrúar þeirra fylltu þá heift.
Texti dagsins er Íslendingum nútímans umhugsunarefni. Þeir deyða afkvæmi sín í stórum stíl og brjóta þannig boðorð Drottins. Þannig sjáum við orð hans rætast fyrir augum okkar. Guð varaði Ísraelsmenn við að saurga ekki landið eins og fyrri íbúar höfðu gert „svo að landið spúi yður ekki“ (3 M 18. 29). Þetta sjáum við gerast fyrir augum okkar með vaxandi straumi innflytjenda sem virða boðorð Drottins betur. Rétt eins og Gyðingar fylltust fjandskap í garð Jesú, bregðast Íslendingar nútímans við. Gyðingarnir hröktu hann út úr borginni og hefðu unnið honum mein ef þeir hefðu verið þess umkomnir. Í okkar ágæta landi er hann útilokaður frá allri umræðu og hafður að háði og spotti af því að hann brýtur í bága við rétthugsun samtímans. Drottinn býður okkur frelsi og fyrirgefningu synda okkar, en einungis ef hann verður okkur „vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn“ (1 Kor 1. 30). „Sá sem elskar aga, elskar þekking, en sá sem hatar umvöndun er heimskur“ (Ok 12. 1).

  08:40:09, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 640 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Sporaleikur

Nú ekki alls fyrir löngu síðan var ég með engli í mikilli sandauðn. Þeir eru að ýmsu leyti eins og börnin og því sagði hann við mig:

„Eigum við ekki að koma í sporaleik?“

Ég átti síst von á þessu og hann veitti því strax athygli hversu hissa ég varð og sagði:

„Ég skal sýna þér hvernig við förum að! Þetta er enginn vandi!“

Skyndilega birtust spor í sandinum. Í upphafi voru þau örsmá, greinilega eftir léttstígt barn. Smám saman stækkuðu þau og mörkuðust betur í sandinn og bilið á milli þeirra varð lengra og greinilegt að sá sem hlut átti að máli hljóp hraðar og hraðar. En alltaf urðu þau beinni, uns þau hurfu alls óvænt. Engillinn sagði íbygginn á svip:

„Þetta eru sporin hans Palla.“

Þá minntist ég orða heilags Páls. „Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust“ (1 Kor 9. 24).

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

18.03.06

  23:38:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 143 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Ertu búinn að fyrirgefa?

Á meðal þeirra hluta sem Jesús hefur beðið okkur að gera, er að elska óvini okkar — trúlega einn af þeim erfiðustu hlutum sem hann hefur óskað af okkur.

Einu sinni ætlaði fyrrverandi fangi að heilsa upp á vin sinn, sem hafði einnig verið í sama fangelsi. Þeir töluðu saman um stund um reynslu sína í fangelsinu og Þá spurði annar maðurinn hinn:

"Ertu búinn að fyrirgefa Því fólki sem sá til Þess að við værum settir á þennan hræðilega stað?"

"Já. Það hef ég gert," svaraði hinn maðurinn.

"Jæja, ekki ég," sagði sá fyrri. "Ég ber ennþá brennandi hatur til þeirra."

"Fyrst það er þannig," sagði vinur hans, "þá halda þeir þér enn í fangelsi."

Óvinir okkar eru ekki þeir sem hata okkur, heldur frekar þeir sem við hötum.

  17:45:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 245 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Um Lífsvernd

Ég vil vekja athygli fólks á samtökunum Lífsvernd. Félagið var stofnað í apríl 2004 í safnaðarheimili Maríukirkju í Breiðholti af nokkrum kaþólskum áhugamönnnum um lífsvernd. Það er von okkar sem stöndum að félaginu, að sem flestir verði 'Pro Life' og að þeir sem eru 'Pro Life', gangi í félagið og gerist virkir í þessari baráttu. Sú barátta er ekki endilega hávær, en eitthvað sem við getum gert á hverjum degi. Í fyrsta lagi að biðja lífsverndarbænarinnar daglega. Í öðru lagi að láta aðra vita að við séum 'Pro Life', til dæmis vinnufélaga okkar og vini. Spyrja þá hvort þeir hafi áhuga á að ganga í 'Pro Life' félag. Í þriðja lagi að koma á bænastundirnar og taka þátt í því sem félagið er að reyna að gera með félagsmönnum.

Bæn um stöðvun fóstureyðinga
Himneski Faðir! Við biðjum fyrir þeim ófæddu börnum sem með fóstureyðingu er ætlað að láta líf sitt í þessari viku. Bjarga þeim frá dauða. Breyttu viðhorfum foreldranna og gefðu þeim nýja von, svo að ekki komi til þessa örvæntingarfulla verknaðar. Teldu hughvarf þeim sem framkvæma fóstureyðingar. Kenndu okkur hvernig bregðast skuli við þessum blóðsúthellingum meðal okkar.
Þess biðjum við fyrir son þinn Jesú Krist. Amen.

http://lifsvernd.com/umlifsvernd.html

  15:17:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 666 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Hinn heilagi Kristur reiðinnar

Guðspjall Jesú Krists á Drottins degi þann 19. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 2. 13-15

Nú fóru páskar Gyðinga í hönd, og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá, er seldu naut, sauði og dúfur, og víxlarana, sem sátu þar. Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra, og við dúfnasalana sagði hann: „Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð.“ Lærisveinum hans kom í hug, að ritað er: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“ Gyðingar sögðu þá við hann: „Hvaða tákn getur þú sýnt oss um það, að þú megir gjöra þetta?“ Jesús svaraði þeim: „Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum.“ Þá sögðu Gyðingar: „Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum, og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!“ En hann var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Jesús hafði talað. Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans, því þeir sáu þau tákn, sem hann gjörði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn, því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki, að neinn bæri öðrum manni vitni; hann vissi sjálfur, hvað í manni býr.

Hugleiðing.
Ofurfrjálslyndisguðfræðin dregur upp sína eigin mynd mennskra hugsmíða af Kristi. Þetta er mynd af frjálslyndum og umburðarlyndum „krataforingja“ sem vill vera öllum til hæfis. Þannig gera menn Guð að eins konar páfagauk í búri. Slík afstaða felst í því að gott sé að eiga þennan „guð“ að þegar við þurfum að skæla við öxl hans, en getum síðan lokað inn í búri sínu þess á milli og gleymt honum, eins konar plástursguð. Og hann lætur sér í léttu rúmi liggja hvernig við breytum á jörðinni vegna þess að þessi „guð“ setur okkur engin boðorð.

En hin sifurtæra lind Orðsins dregur upp aðra mynd hér í guðspjalli dagsins: AF KRISTI REIÐINNAR. Þetta er sá Guð sem hefur vald á himni sem jörðu og ríkir sem Konungur eða Höfuð yfir kirkjunni. Rétt eins og fræðimenn Gyðinga afneitar ofurfrjálslyndisguðfræðin slíkum Guði. Þessi Drottinn kom til jarðar og grundvallaði kirkju sína sem lifandi líkama sinn: „Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum.“ Hér skírskotaði hann til píslardauða síns á krossinum til að kaupa okkur frjáls undan ógnarvaldi syndarinnar. Hann sætti okkur ekki einungis við Guð Föður, heldur fyllir hann okkur af Heilögum Anda og gerir okkur að lifandi musteri Guðs (1 Kor 6. 19-20). Það er Heilagur Andi sem lifir í kirkjunni, upplýsir hugi okkar og hreinsar hjörtu okkar svo að við berum Guði Föður þóknanlegir fórnir og fyllir okkur heilagri vandlætingasemi vegna húss Guðs: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“ Eftir Holdtekju Drottins á jörðu er öll mannanna börn orðin að húsi hans. Gefum gaum að orðum Ágústínusar kirkjuföður á þessum degi Drottins:

Ég er fæða fullvaxinna og þú skalt nærast á mér. Og ekki ert það þú sem munt umbreyta mér, líkt og hinni holdlegu fæðu í þig sjálfan, heldur munt þú ummyndast í mig. [1]

[1]. Játningar, 7. 10.

  11:16:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 889 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Tíu svör til stjórnmálamanna sem styðja fóstureyðingar

Faðir Frank Pavone, framkvæmdastjóri Priests for Life:

Ef þú hefur skrifað bréf til stjórnmálamanns um réttinn til lífsins, muntu að öllum líkindum fá svarbréf þar sem gripið er til einhverra af eftirfarandi mótrökum sem gengið hafa sér til húðar. Við skulum íhuga þessi svör hér dálítið nánar.

1. „Ég virði afstöðu yðar, en er jafnframt fulltrúi alls almennings.“ Svar okkar: „Það er einmitt þetta sem við erum að reyna að koma á framfæri við yður. Ef þér hirðið ekkert um óborin börn eruð þér ekki fulltrúi alls almennings. Dómur hæstaréttar í máli Roe gegn Wade svipti þau allri lagavernd (1973). Við krefjumst þess að þau njóti hennar. Þjónn almennings getur ekki horft fram hjá ákveðnum hluta almennings sem er tortímt.

2. „Persónulega er ég andstæðingur fóstureyðinga, en get ekki þröngvað afstöðu minni upp á aðra.“ Svar okkar: Spurningin snýst ekki um afstöðu, heldur ofbeldi. Lögum er ætlað að vernda mannslíf, þrátt fyrir afstöðu þeirra sem vilja tortíma mannslífum.

3. „Stjórnvöld eiga ekki að blanda sér inn í eins persónulegt málefni sem fóstureyðing er.“ [1] Svar okkar: Stjórnvöld „blönduðu“ sér í fóstureyðingar þegar þau lýstu því yfir að þau hefðu vald til að svipta ákveðinn hóp einstaklinga lífinu. Stjórnarskráin mælir svo fyrir að stjórnvöldum sé ætlað að tryggja þau réttindi sem Skaparinn hefur sett, Þegar einhver „ákveður“ að tortíma lífi einhvers annars, þá er þessi ákvörðun auk þess ekki lengur einungis einkamál hvers og eins.

4. „Löggjafarvaldið á ekki að hafa afskipti af læknisfræði.“ Svar okkar: Við erum ekki að fara þess á leit við yður að stunda læknisfræði. Læknisfræðinni er gert að lúta margvíslegum lögum til verndar lífi sjúklinganna. Allt sem við förum fram á er að óborin börn njóti þessarar lagaverndar.

5. „Fóstureyðingar eru lögbundnar.“ Svar okkar: Landslögum er unnt að breyta, rétt eins og þeim var breytt hvað varðar þrælahald og kynþáttamismunun. Forysta á sviði stjórnmála er fólgin í því að koma auga á það óréttlæti sem aðrir eru beittir og að hvetja fólk til að grípa til þeirra ráða sem nauðsynleg eru til að breyta lögum. [2]

6. „Ég styð kvenréttindi og rétt kvenna til heilbrigðisþjónustu.“ Svar okkar: Það er einmitt af þessum sökum sem við verðum að kanna staðreyndir málsins, þá staðreynd að fóstureyðingar eru skaðlegar heilsu kvenna. Okkur ber að hlusta á þann vaxandi hóp kvenna sem hafa beðið líkamlegt tjón sökum fóstureyðinga. Það er af þessum ástæðum sem þér ættuð að hyggja að því, hvernig fóstureyðingariðnaðurinn heldur áfram að blekkja konur og misnota með ófullnægjandi og varhugaverðum fóstureyðingarstöðvum.

7. Fóstureyðingar eru einungis hluti stærra máls. Ég aðhyllist siðgæðisafstöðu sem er sjálfri sér samkvæm í grundvallaratriðum.“ Svar okkar: Grunnur hús er einungis hluti byggingarinnar, en nauðsynlegur svo að hinir hlutarnir geti risið. Því hafa kaþólsku biskuparnir endurtekið í sífellu, að í ósamkvæmri siðgæðisafstöðu krefjast fóstureyðingar „knýjandi forgangsathygli.“

8. Áhersluþættir mínir í stjórnmálum snúast ekki um fóstureyðingar.“ Svar okkar: Afstaða yðar til fóstureyðinga segir mikið um almenna afstöðu yðar. Ef þér eruð ekki reiðubúnir til að verja réttindi barna, hvað þá um réttindi okkar hinna?

9. „Við skulum vera sammála um að vera ósammála.“ Svar okkar: Við virðum afstöðu þeirra sem eru okkur ósammála. En þegar fórnardýr sæta misþyrmingum, þá setjumst við ekki niður til „að vera sammála um að vera ósammála“ kúgaranum. Miklu fremur grípum við til okkar ráða fórnardýrinu til varnar. Fóstureyðingar snúast ekki um afstöðu, heldur blóðsúthellingar. Þeir sem þarfnast verndar þarfnast hennar þrátt fyrir að aðrir kunni að vera slíku ósammála.

10. Að endingu skuluð þið nota það ráð sem gefst alltaf best: Ég er kjósandi!

[1]. Þetta er meðal annars afstaða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, þrátt fyrir að hún sé kaþólsk.
[2]. Fyrsta landið í Evrópu sem afnumdi að nýju rétt til fóstureyðinga af hagkvæmisástæðum er Pólland. Má furðu sæta hversu lengi stjórnvöld í ríkustu löndum heims hafa velt af sér félagslegri ábyrgð sinni gagnvart mæðravernd með fóstureyðingum, fordæmi sem finna má hjá ríkjum sósíalfasismans og Þriða ríkis Hitlers þar sem jafnvel andlega fötluðu fólki var fyrirkomið. Allt ber þetta vott um framsókn nýheiðninnar (new-paganism) meðal kristinna þjóða.

  08:27:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 534 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Aðferðir sem gripið er til við fóstureyðingar

Hér að framan hef ég minnst á NFP aðferðina við fjölskylduáætlanir þar sem hjónin ákveða sjálf hvenær barn fæðist. Í fóstureyðingarstóriðjunni eru konur hins vegar hafðar að fórnardýrum og margvíslegra langvarandi hliðaráhrifa gætir. Einkum geta afleiðingarnar orðið alvarlegar þegar stuðst er við aðferð (3) hér að neðan: Útvíkkunaraðferðina. Fóstureyðingarlæknirinn víkkar út legöngin á 30 til 60 sekúndum í stað 12 tíma eða lengur við náttúrlegar aðstæður og veldur tjóni á vöðvunum. Ef konan verður vanfær á ný, er legopsvöðvarnir orðnir miklu veikara fyrir en áður og geta opnast óvænt svo að um fósturlát verður að ræða.

Auk þessarar áhættu er um aðra þætti að ræða fyrir konur sem gengist hafa undir slíka meðferð.

(a) Á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu eru tvisvar sinnum meiri líkur á fósturmissi.

(b) Á næstu þremur mánuðunum verða líkurnar tífaldar.

(c) Líkur á fyrirburafæðingu aukast þrefalt.

(d) Líkurnar á því að barnið deyi að fæðingu lokinni aukast tvöfalt.

Taka ber fram að á Íslandi er aðferðum (4) og (5) ekki beitt eftir minni bestu vitund.

Lýsing á aðferðum við fóstureyðingar

Fóstureyðingar á fyrstu stigum meðgöngu eru framkvæmdar með svo nefndri legtæmingu

(1) Sogaðferðin – framkvæmd allt að 12. viku meðgöngu. Sogdæla tætir barnið í sundur. Þeir sem framkvæma fóstureyðinguna hreinsa síðan legið af þeim leifum sem verða eftir af barninu.

(2) Úvíkkun og sundurlimun – framkvæmd allt að 12. viku meðgöngu. Bogmyndaður stálhnífur er notaður til að lima barnið í sundur.

(3). Útvíkkun og tæming – framkvæmd frá 12 til 16 viku meðgöngu. Leggöngin eru þanin út og barnið limað í sundur með töng. Mikil blæðing er þessu samfara og hryggjarsúlan er brotin með spennutöng. Barnið finnur til mikils sársauka án nokkurrar deyfingar. Höfuðkúpan er brotin til þess að unnt sé að fjarlægja hana.

(4) Eitruð saltvatnsupplausn – aðferð sem beitt er á 16 viku meðgöngu og lengur. Fóstureyðingalæknirinn dælir eiturupplausn inn í legið. Barnið andar að sér eitrinu og deyr smám saman með krampakippum (sem móðirin skynjar). 2 til 3 stundir líða uns barnið deyr sem kemur niður leggöngin 24 stundum síðar, stundum enn lifandi.

(5) Hormónalyf (prostalglandín) – aðferð sem gripið er til eftir 14. til 15. viku meðgöngu. Hormónunum er komið fyrir í leghálsinum í formi skeiðarstíls (stikkpillu) sem framkalla síðan ákafan samdrátt í leginu og fósturlát er þannig framkallað. Barnið fæðist lifandi.

(6) Með skurðaðgerð (hysterotomy), oft nefnt „litli keisaraskurðurinn.“ Legið er opnað með skurðaðgerð og læknirinn sker á naflastrenginn og tekur síðan barnið og leggur það í fat þar sem það er látið deyja, eða því er hreint og beint drekkt eða kæft.

TENGILL

17.03.06

  22:03:13, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 367 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Enginn vildi réttlæti

Kennari nokkur í framhaldsskóla einum sagði nemendum sínum í upphafi skólaársins að í lok hvers mánaðar yrðu þeir að skila skrifaðri ritgerð. Ef ritgerðinni yrði ekki skilað á réttum tíma, táknaði það núll í einkunn fyrir ritgerðina. Og þetta skyldu nemendurnir; engin ritgerð þýddi núll í einkunn.

Í lok fyrsta mánaðarins vantaði fimm ritgerðir og nemendurnir báðu kennarann um meiri tíma, sem þeir og fengu. "Látið þetta ekki gerast aftur", sagði kennarinn.

Í lok annars mánaðarins höfðu tíu ritgerðir ekki skilað sér og aftur báðu nemendurnir kennarann um meiri tíma, sem hann veitti þeim. "Látið þetta ekki gerast aftur", sagði kennarinn.

Í lok þriðja mánaðarins hafði kennarinn ekki fengið fimmtán ritgerði og nemendurnir sárbændu kennarann um meiri tíma.

"Adam, hvar er ritgerðin þín?" spurði kennarinn.
Adam svaraði: "Vertu rólegur, kennari, þú færð hana í næstu viku".
"Adam, þú færð núll í einkunn", sagði kennarinn. Adam varð mjög reiður.

"Eva, hvar er ritgerðin þín?"
Eva svaraði: "Engan æsing, kennari, þú færð hana í næstu viku."
"Eva. Þú færð núll í einkunn". Eva varð líka mjög reið.

"Þetta er ekki sanngjarnt", hrópaði Adam. "Þetta er óréttlátt!"
Þá brosti kennarinn og sagði: "Allt í lagi Adam, vilt þú réttlæti?"
"Já, ég krefst réttlætis," öskraði Adam.

Kennarinn sagði þá: "Gott og vel, ef ég man rétt varst þú líka of seinn að skila þinni ritgerð í síðasta mánuði. Er það ekki rétt hjá mér?"
Hann svaraði játandi.

"Allt í lagi, ég mun líka breyta einkunn þinni frá síðasta mánuði í núll", sagði kennarinn. "Eru einhverjir fleiri hér sem vilja réttlæti"?

Enginn annar vildi réttlæti.

Kæru vinir! Guð er miskunnsamur, en ekkert okkar á rétt á þeirri miskunn. Hún er ávallt og með öllu ókeypis gjöf Guðs til okkar. Við skulum ekki ganga að því sem vísu.

  15:15:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 504 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Hann hefur ætlað okkur öllum hverju og einu ákveðið hlutverk á jörðinni

Guðspjall Jesú Krists laugardaginn 18. mars er úr Matteusarguðspjalli 1. 16-24

Og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.
Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists. Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af Heilögum Anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af Heilögum Anda. Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.“ Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins: „Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss. Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín.

Hugleiðing:
Rétt eins og María var Jósef gullinn hlekkur á milli Gamla sáttmálans og hins Nýja í ráðsályktun Guðs. Hjá honum haldast í hendur trú á orð Guðs og hlýðni við boðorð hans. Þau Jósef og María eru fyrirmynd allra kristinna manna í trú og réttlæti. Guð treysti þessum þögla, auðmjúka og réttláta manni til að gegna einstæðu hlutverki í hjálpræðisverki alls mannkynsins og hann brást hlutverki sínu ekki: Að verða að fósturföður Jesú.
Guð færir okkur öll börn að gjöf og felur okkur uppfóstrun þeirra og að auðsýna þeim alla okkar elsku, blíðu og umhyggju. Hann hefur ætlað okkur öllum hverju og einu ákveðið hlutverk á jörðinni. Ert þú tilbúin(n) að verða við kalli hans, eða viltu fremur leita leiðsagnar talsmanna fóstureyðingarstóriðjunnar sem sjá ekkert athugavert við að fyrirfara því lífi sem Guð hefur falið okkur á hendur til varðveislu? Guð Faðir hefur ekki sleppt af okkur hendinni, heldur gefið okkur sinn eingetna Son sem Frelsara. Og eftir Holdtekju hans er sérhvert mannslíf helgað. Skortir þér ef til vill trú? Þá skaltu biðja Drottin um að auka þér trú og trausti á orði Guðs. Jesús sagði:

„Grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar“ (Lk 23. 28).

16.03.06

  21:04:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1613 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hin stríðandi kirkja og heimurinn

Við hér á Kirkjunetinu höfum ekki farið varhluta af því orðbragði sem einkennir málflutning samkynhneigðra og stuðingsmanna þeirra. Hér er einungis tekin nokkur dæmi um slík gífuryrði: „Hreinræktuð heimska,“ „deyjandi menningarkimi,“ „forneskjuleg hirðingjahugsun,“ „trúarofstopi,“ „ómerkilegur útúrsnúningur,“ „þvælusálgreining,“ „della,“ „að skemmta skrattanum, „hommahatur,“ „óþol á samkynhneigðum,“ „ofstækismenn,“ „öfgafull, ósanngjörn og óumburðarlynd kristin trú,“ „að sverta mannorð samkynhneigðra, gera úr þeim sjúk og hættuleg skrímsli og hafna tilverurétti þeirra.“ Og heilög Ritning fer heldur ekki varhluta af þessu og boðskapur hennar dæmdur sem „réttlæting á þrælahaldi, þjóðarhreinsunum og kvennakúgun.“ Í reynd hefur atgangur þessa fámenna hóps verið slíkur á undanförnum árum að margir veigra sér við að lenda í orðaskaki við þessa menn. Í Laugarnesskólanum í gamla daga hefði Marínó kennari tekið í eyrað á þeim nemenda sinna sem gripið hefðu til slíks munnsafnaðar og leitt þá fram á gang og látið þá standa þar fram að frímínútunum.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  20:10:55, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 133 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Kraftaverk

Til er saga um mann, sem hafði verið mikill drykkjumaður, en í lok gerðist trúmaður og reglumaður um leið.

Nokkrum mánuðum síðar mætti hann gömlum drykkjufélaga sínum.

"Nú ert þú víst orðinn svo trúaður, að þú trúir á kraftaverk", sagði hann háðslega.

"Já, ég trúi á kraftaverk", svaraði hinn.

"Þú getur þá líklega skýrt það út fyrir mér, hvernig Jesús breytti vatni í vín, í Kana."

Hinn svaraði: "Jesús er Guð og Guð getur gert svona. En gerðu svo vel að ganga heim með mér. Þá skal ég sýna þér annað kraftaverk, sem hann hefur gert. Jesús hefur breytt áfengi í húsgögn, góð föt og hamingjusama fjölskyldu."

  16:03:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 645 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ert þú samstarfsmaður Drottins?

Guðspjall Jesú Krists þann 17. mars er úr Matteusarguðspjalli 21. 36-46

Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn. En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja. Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá. Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: „Þeir munu virða son minn. Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.' Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?“ Þeir svara: „Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma.“ Og Jesús segir við þá: „Hafið þér aldrei lesið í ritningunum:

Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu,
er orðinn hyrningarsteinn.
Þetta er verk Drottins,
og undursamlegt er það í augum vorum.

Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.]“ Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir, að hann átti við þá. Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.

Hugleiðing
Þegar Jesús sagði þessa dæmisögu á sínum tíma tók hann mið af ríkjandi aðstæðum í Galíleu og skírskotaði til vínekranna. En hvað segir þessi dæmisaga okkur nútímafólki, er hún ekki orðin úrelt? Nei, fjarri því! Hún greinir okkur frá mikilvægum sannleika um Guð og hvernig hann umgengst okkur mennina. Í fyrsta lagi greinir hún okkur frá gjafmildi Guðs og örlæti okkar í garð. Fyrirtæki okkar og heimilisrekstur gengur einkar vel. Þetta á sértaklega við um Ísland, einhverja auðugustu þjóð í heiminum. En öll þessi velgengni er Guðs gjöf segir Jesús okkur í dæmisögunni. Guð hefur auðsýnt okkur það traust að fela okkur þetta allt á hendur. Rétt eins og í dæmisögunni erum við einungis leiguliðar hans. Hann gefur okkur frelsi til að haga lífinu að vild. Jesús segir okkur líka að Guð Faðir sé þolinmóður og réttlátur. Hann er reiðubúinn til að fyrirgefa okkur hvað eftir annað sem leiguliðum eigna sinna. En þegar leiguliðarnir fara að láta reyna á þolrif hans til hins ítrasta kemur að lokum að dómsorði hans, rétt eins og í Baugsmálinu.

Hann trúir okkur fyrir náðargjöfum sínum og felur okkur að starfa í víngarði lífsins, líkama Krists, kirkjunni. Hann hefur gefið okkur fyrirheit um að verk okkar verði ekki til einskis ef við stöndumst í trú allt til enda (sjá 1 Kor 15. 58). Við getum átt von á þolraunum og ofsóknum, en að lokum rennur sigurstundin upp. Ert þú samstarfsmaður Drottins og lifir þú í fagnaðarríkri væntingu um sigurstundina og sigurlaunin? Eða viltu fremur tilheyra hinni útskúfuðu rót, þeirri sem hafnar ljósi Krists, líkt og farísearnir?

15.03.06

  23:12:48, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 179 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Hvað hefur þú gert í dag ástin mín?

Dag einn kom eiginmaður heim úr vinnu að öllu í óreiðu. Börnin voru enn í náttfötunum, úti að leika sér í drullunni. Tóm matarílát og umbúðir voru út um allt.

Þegar hann kom inn í húsið kom hann að jafnvel enn meiri óreiðu. Óhreinir diskar, hundamatur á gólfinu, brotið glas undir borðinu og sandur við bakdyrnar. Leikföng og föt út um allt og lampi sem hafði oltið á gólfið.

Maðurinn klofaði yfir leikföngin og flýtti sér upp tröppurnar, í leit að eiginkonunni. Hann var áhyggjufullur þar sem hann hélt að hún væri veik.

Hann fann hana í svefnherberginu, í rúminu að lesa bók. Hún brosti og spurði hann hvernig dagurinn hefði verið.

Hann horfði ringlaður á hana og spurði:
"Hvað gerðist hér í dag?"

Hún svaraði brosandi:
"Á hverjum degi þegar þú kemur heim úr vinnunni, spyrð þú mig hvað ég hafi gert í dag?"

"Já," svaraði hann.

"Í dag gerði ég það ekki!"

  17:00:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 947 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Nafnið Lasarus þýðir Guð er mín hjálp

Heilagt guðspjall Jesú Krists þann 16. mars er úr Lúkasarguðspjalli 16. 19-31

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: „Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.“ Abraham sagði: „Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.“ En hann sagði: „Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.“ En Abraham segir: „Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.“ Hinn svaraði: „Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.“ En Abraham sagði við hann: „Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.“

Hugleiðing
Öll erum við fötluð með einum eða öðrum hætti. Þetta ræðst af því hvert gildismat okkar er. Áður hef ég sagt að fólk með Down einkenni stendur hjarta mínu nær en þeir miklu í augum dýrðar holdsins. Þetta er sökum þess að þetta fólk kann að elska og er glaðvært. Það sefur vel á nóttinni þó að verðbréfin falli. „Ertu fatlaður eða hvað?“ heitir grein sem Þórhildur Elín Elínardóttir skrifar í Bakþönkum Fréttablaðsins þann 15 mars. Þar lýsir hún þeirri reynslu sinni hvernig margir bregðast furðulega við þegar hún ekur um borgina með fatlað barn sitt í hjólastól. Í heimi falskra gildismata slær fatlað barn sumt fólk „út af laginu!“

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  10:20:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 917 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Quo vadis – hvert ætlarðu?

Í guðspjalli dagsins stefndi Jesú för sinni til Jerúsalem: „Jesús hélt nú upp til Jerúsalem, og á leiðinni tók hann þá tólf afsíðis og sagði við þá: „Nú förum vér upp til Jerúsalem.“ (Mt 20. 17). Þessi texti guðspjalls dagsins er athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Í andlegri merkingu leiðir Jesú okkur fyrir sjónir hvernig við komumst til hinnar himnesku Jerúsalem, borgar Guðs á himnum. Það gerum við einungis í leyndardómi krossins og af fyllstu auðmýkt, annars missum við marks, förum villu vegar.

Í gamla daga meðan skipin voru ekki eins fullkomin og í dag og seinni í förum var stefnan tekin í hásuður út af Reykjanestánni og siglt sem svarar 500 sjómílum. Þá var komið í lygnan sjó, eða eins og kallarnir sögðu okkur strákunum: „Þar er hægt að róa á baðkari allan ársins hring!“ Eftir það var svo stefnan tekin til þeirrar heimsálfu sem takmark ferðarinnar miðaðist við hverju sinni.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

14.03.06

  17:39:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 655 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Að þjóna er að ríkja með Kristi

Heilagt guðspjall Jesú Krists þann 15. mars er úr Matteusarguðspjalli 20. 17-28

Jesús hélt nú upp til Jerúsalem, og á leiðinni tók hann þá tólf afsíðis og sagði við þá: „Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum, að þeir hæði hann, húðstrýki og krossfesti. En á þriðja degi mun hann upp rísa.“ Þá kom til hans móðir þeirra Sebedeussona með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar. Hann spyr hana: „Hvað viltu?“ Hún segir: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús svarar: „Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?“ Þeir segja við hann: „Það getum við.“ Hann segir við þá: „Kaleik minn munuð þið drekka. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið af Föður mínum.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við bræðurna tvo. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“

Hugleiðing: Hver eða hvað á að vega þyngst í lífi okkar? Eigingjarn metnaður knýr okkur áfram á undan öðrum. Jeremía spámaður kvartaði við Guð þegar aðrir hugðust koma honum fyrir kattarnef. Í stað þess að fyllast gremju bað hann fyrir óvinum sínum. Þegar tveir af lærisveinunum vildu verða öðrum fremri gerði Jesús hið óhugsanlega! Hann sagði þeim að vegurinn til dýrðarinnar væri í gegnum þjáningar krossins. Hann lagði áherslu á að þeir legðu líf sitt í sölurnar fyrir aðra. Allt sem ekki er þrungið sjálfsfórn er eigingjörn þjónusta. Jesús greip til sterkra orða til að tjá hvaða fórn hann ætti við. Lærisveinar hans yrðu að bergja á hans eiginn kaleik ef þeir gætu vænst þess að ríkja með honum í konungsríki himnanna.

Kaleikur sá sem hann hafði í huga var afar beiskur og fól í sér krossfestingu. Hvaða kaleik hefur Drottinn fyrirbúið okkur? Fyrir suma lærisveina hans felur þessi kaleikur í sér líkamlegar þjáningar og jafnvel sársaukafullt píslarvætti. En fyrir aðra felur hann í sér hina löngu pílagrímsgöngu hins kristna lífs með öllum sínum daglegu fórnum, vonbrigðum, áföllum, baráttu og freistingum. Lærisveinn Krists verður að vera reiðubúinn til að leggja líf sitt í sölurnar í píslarvætti hins daglega lífs með sínum litlu eða stóru fórnum. Einn hinna fornu kirkjufeðra dróg kenningar Jesú saman með svofelldum orðum: AÐ ÞJÓNA ER AÐ RÍKJA MEÐ KRISTI. Við öðlumst hlutdeild í ríki Guðs með því að fórna lífi okkar í þjónustunni við hvert annað í dýpstu auðmýkt. Ert þú reiðubúin(n) til að leggja lífið í sölurnar fyrir aðra með sama hætti og Jesús?

  16:28:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 94 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Biðjið og yður mun gefast

Það er til saga um prest sem tók eftir konu sem sat ein í kirkjunni og bað til Jesú í guðslíkamahúsinu.

Klukkustund seinna, sá presturinn að hún var þar enn.

Önnur klukkustund til viðbótar leið og enn var hún þar í bæn.

Þegar þar var komið, gekk presturinn til konunnar og spurði hvort það væri eitthvað sem hann gæti gert fyrir hana.

„Nei, þakka þér fyrir, faðir“, svaraði hún.
„Ég hef fengið alla þá hjálp sem ég þarf á að halda frá Jesú.“

1 ... 35 36 37 38 ...39 ... 41 ...43 ...44 45 46

Síðustu athugasemdir

Síðustu pistlar

Kirkju.net er óháð vefrit sem inniheldur aðallega efni tengt kaþólskri trú en einnig um trúmál almennt. Markmiðið er að miðla fróðleik og stuðla að skoðanaskiptum og umræðu innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi sem og að kynna kaþólsku kirkjuna fyrir þeim sem utan hennar eru. Aðalsíða vefritsins sækir pistla inn á bloggsíður og skrifa höfundar hvers bloggs pistla sem hafa kaþólskt eða annað trúarlegt efni sem meginþema. Skoðanir settar fram í pistlunum eru höfundanna sjálfra og ber ekki að túlka þær sem skoðanir trúfélaga eða annarra bloggara. Höfundar bera ábyrgð á efni sem þeir birta á sínu bloggi. Athugasemdir við pistlana eiga að vera á íslensku, málefnalegar og fullt nafn höfundar á að koma fram. Athugasemdum er ritstýrt af höfundi hvers bloggs fyrir sig. Gestapennar innan eða utan kaþólsku kirkjunnar eru einnig velkomnir að senda inn greinar sem eru birtar undir „Ýmsir höfundar.“

Leit

Flokkur

Sr. Denis O'Leary

Kirkjuvefbók Ragnars

Jón Valur Jensson

Ýmsir höfundar

Jón Rafn Jóhannsson

Kirkju.net

No Item object found. Cannot display widget "Item Info Line".
blog engine