Blaðsíður: 1 ... 35 36 37 ...38 ... 40 ...42 ...43 44 45 46

05.04.06

  15:09:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 729 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Áður en Abraham fæddist, er ég.“

Guðspjall Jesú Krists þann 6, apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 8. 51-59

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja.“ Þá sögðu Gyðingar við hann: „Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja. Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?“ Jesús svaraði: „Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist.“ Nú sögðu Gyðingar við hann: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!“ Jesús sagði við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég.“ Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.

Hugleiðing
„Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir“ (Heb 13. 8). Í viðræðum sínum við Gyðingana orðaði Jesú þetta á annan hátt: „Áður en Abraham fæddist, er ég.“ Svona kemst enginn maður að orði um sjálfan sig, heldur einungis sá Guð sem varð maður. Þyrstir þig eftir að læra að þekkja Guð, að þekkja hann persónulega og að njóta elsku hans og speki? Þetta er einungis unnt með því að Faðir okkar vegsami okkur eins og Jesú. Orðið að vegsama einhver þýðir það sama og að gera einhvern dýrlegan. Þegar við gerum Jesú dýrlegan, gerum við það Föður hans til dýrðar.

Einhvert elsta varðveitta afbrigði Dýrðarbænar kirkjunnar hljóðar svo: „Dýrð sé Föðurnum í Syninum fyrir Heilagan Anda.“ Og í Efesusbréfi sínu kemst Páll postuli svo að orði: „Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun TIL VEGSEMDAR DÝRÐ HANS OG NÁÐ, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni“ (Ef 1. 4-6). Það er einn hinna heilögu Austurkirkjunnar, hinn mikli býsanski guðfræðingur, Símon nýguðfræðingur, sem leiðir okkur fyrir sjónir hvernig við getum vegsamað dýrð náðar hans:

Við skulum íhuga og fræðast um það hvernig við getum gert Guð dýrlegan. Eina leiðin til að gera hann dýrlegan er með þeirri dýrð sem Sonurinn gerði hann dýrlegan. En með því sem Sonurinn gerði Föðurinn dýrlegan gerði Faðirinn Soninn dýrlegan. Við skulum því leitast við að gera það sem Sonurinn gerði til að gera okkar himneska Föður dýrlegan, eins og honum þóknaðist að kalla sjálfan sig, og vegsamast sjálfir af honum í dýrð Sonarins „sem“ Sonurinn „hafði hjá honum, áður en heimurinn varð til“ (Jh 17. 5). Þetta er krossinn – að deyja heiminum, að líða þjáningar, freistingar og aðrar píslir Krists. Með því að bera þennan kross af fullkomnu þolgæði öðlumst við hlutdeild í píslum Krists og gerum þannig Guð Föður dýrlegan sem synir hans í náðinni sem samarfar Krists

.

Það er í Heilögum Anda sem við gerum Föðurinn dýrlegan í Syninum eins og hann sagði okkur í kveðjuorðum sínum áður en hann hvarf frá jörðinni: „En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur HJÁLPARINN ekki til yðar“ (Jh 16. 7). Og hann bætti við orðum sínum til áherslu: „En þegar hann kemur, Andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann“ (Jh 16. 13).

  13:49:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 254 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Menningargervingurinn er hin raunverulega hætta

BARCELONA, Spáni, 4, apríl 2006 (Zenit.org).- Varaforseti Evrópuþingsins varar við því, að innan 10 ára mun ekki lengur gæta „átaka milli menningarviðhorfa,“ heldur verði „menningargervingur“ orðinn allsráðandi.

Mario Mauro vék að þessum möguleika þegar hann ávarpaði fyrstu Ráðstefnu kaþólskra um opinbert líf sem haldin er í Barcelona á vegum Abit Oliva háskólans. Ávarp Mauros fjallaði um „Alræði afstæðishyggjunnar og áhrif á framtíð Evrópu.“

Takmark afstæðishyggjunnar felst í því að afneita sannleikanum,“ komst hann að orði í fyrirlestri sínum.

Í þessu sambandi vék Mauros að ummælum Benedikts páfa XVI um að „sannleikurinn sé til“ og um að ekki megi draga sannleikann í efa á sviðum eins og hvað áhrærir lífið, fjölskylduna og menntun.

Þessi embættismaður Evrópuþingsins sagði að pólítísk skoðanaskipti verði að viðurkenna gildi sannleikans. Að öðrum kosti verði afstæðishyggjan að hugmyndafræði sökum þess að hún snúist um alræði sem grundvallist á valdi í öllum efnum.

Mauro áminnti áheyrendur sína á að feður Evrópu hefðu verið kaþólskir: „Þegar ráðist er að kristnum rótum Evrópu er litið á það sem vanvirðingu við minninguna um feðurnar, en það sem við vanvirðum í raun sé framtíð barna okkar.“

Þannig óttast Mauro að „menningargervingurinn“ liggi í loftinu. Fyrsta orrustan sem verði að vinna sé orrustan um að sannleikurinn njóti viðurkenningar.

ZE06040421/JRJ

  10:37:02, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 209 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hann var leiður á sífelldu tali um kross Jesú

Einu sinni, sagði maður nokkur frá því, að dag einn hafi hann átt tal við vin sinn um trúmál. Segist hann að lokum hafa sagt við þennan vin sinn, að hann væri orðinn leiður á þessu sífellda tali um kross Jesú, enda skildi hann það alls ekki.

En um nóttina dreymdi hann að hann væri á leiðinni heim til konu sinnar, sem hann þó vissi í svefninum, að var dáin. Hann kom að djúpu sýki. Hinum megin við sýkið sá hann konuna sína. En hann hafði engin ráð til að komast til hennar yfir sýkið. Hvað ætti hann að gera?

Þá sér hann að hún bendir og heyrir hana kalla: „krossinn, krossinn!“

Þá sér hann á bakkanum skammt frá sér liggja krosstré. Hann gengur að því, reisir það upp og lætur það síðan falla yfir sýkið. Hann gengur yfir það og fellur í faðm konu sinnar.

Draumurinn varð ekki lengri. Frá þeirri stundu segir maðurinn, að hann hafi skilið, að ekkert nema sú trú, sem byggir á Jesú Kristi krossfestum og upprisnum, geti hjálpað sér til þess að ná fundi konunnar sinnar, handan við gröf og dauða.

  09:01:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1568 orð  
Flokkur: Bænalífið, Faðirvorið

Faðirvorið og hin andlega tjaldbúð hjartans

Hl. Katrín frá Genúa komst svo að orði: „Hjartað verður að tjaldbúð Guðs og hann innblæs fjölmörgum náðargjöfum í það sem bera undursamlega ávexti. Maðurinn ber himininn hið innra með sér.“ Og einn hinna heilögu Austurkirkjunnar, hl. Silúan frá Aþosfjalli, sagði: „Drottinn er vegsamaður í heilagri kirkju . . . En það er betra að hjörtu okkar verði að musteri Drottins. Hjarta þess sem biður er musteri og andi hans er hásæti vegna þess að Drottinn elskar að gera sér bústað í hjarta og anda mannsins.

Hinir heilögu Karmels voru einhuga um þennan sama leyndardóm trúarinnar. Hl. Jóhannes af Krossi sagði meðal annars: „Þegar Guð dregur þær nær sér finna þær [sálirnar] að þetta myrkur stendur honum nærri, rétt eins og hér sé um tjaldbúð hans að ræða. Og hl. Teresa frá Avíla: „Hérna öðlast hin særða hind gnægtir vatns. Hérna gleðjumst við í tjaldbúð Guðs.“

Allur þessi sannleikur endurómar í orðum hl. Ísaks sýrlendings sem uppi var á sjöundu öld þegar hann vék að leyndardómi helgidóms tjaldbúðar hjartans sem Jakobsstiga til himna og brú á milli Guðs og manna:

Leitast við að ganga inn í fjárhirsluna hið innra og þannig verður hún að himneskri fjárhirslu. Báðar eru þær eitt og hið sama og einn og sami inngangurinn opinberar þær báðar. Stiginn sem liggur til konungsríkisins er hulinn hið innra með þér, það er að segja í sálinni. Hreinsaðu þig af syndinni og þú munt koma auga á rimar stigans sem leiða þig þangað

.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

04.04.06

  20:38:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 601 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Þrýstingur samtaka samkynhneigðra á Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna

Reykjavík, 4. apríl 2006 (kirkju.net) Þann 27. mars til 3. apríl s. l. hélt ILGA (International Lesbian and Gay Assocition) heimsráðstefnu í Genf í Sviss í samvinnu við hin Svissnesku landssamtök samkynhneigðra. Ráðstefnan var haldin á sama tíma og Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (CHR) var haldin í borginni til að leggja áherslu á kröfu ILGA um að orðunum „kynhneigð“ og „frelsi til að tjá kynmynd sína“ verði sett inn í ákvæði mannréttindaákvæðanna.

Árið 1993 fékk ILGA sæti í svonnefndri NGO nefnd (Comittee on Non Governmental Organizations) sem fellur undir ECOSOC (the Economic and Soical Council). NGO er skipuð 19 fulltrúum sem kjörnir eru með hliðsjón af heimsálfunum: 5 fulltrúar frá Afríku, 4 frá Asíu; 2 frá Austurevrópu; 4 frá Suðurameríku og Karabíska hafinu og 4 frá Evrópu og öðrum ríkjum. Kjörnir fulltrúar eru valdir til fjögurra ára í senn.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  20:15:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 145 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Guð biður okkur að gera heiminn betri

Dag einn kom kennari með skæri með sér inn í kennslustofuna. Hún sagði að sig langaði til að tala um Guð og fólk. Hún skrúfaði skærin sundur og tók annan hlutann sér í vinstri hönd og hinn í hægri, hélt þeim á lofti og sagði:

"Sjáið þið, hálf skæri gera ekkert gagn. En þegar ég skrúfa helmingana aftur saman verða úr þeim skæri sem geta gert mikið gagn og klippt marga metra af efni."

Eins er, með Guð og okkur, fólkið hans. Með okkar hjálp, vill hann koma blessun sinni til skila til alls fólksins í heiminum, sem hann elskar. Hann hefur falið okkur að gæta heimsins. Hann biður okkur um að nota huga okkar og hönd til að gera heiminn betri.

  15:36:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 526 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Með eldrúnum þíns Heilags Anda, Drottinn!

Guðspjall Jesú Krists þann 5. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 8. 31-42

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Þeir svöruðu honum: „Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir'?“ Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, Sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef Sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir. Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður. Ég tala það, sem ég hef séð hjá Föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá Föður yðar.“ Þeir svöruðu honum: „Faðir vor er Abraham.“ Jesús segir við þá: „Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams. En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei. Þér vinnið verk föður yðar.“ Þeir sögðu við hann: „Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð.“ Jesús svaraði: „Ef Guð væri Faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig.“

Hugleiðing
Hugmyndir heimsins eiga ekkert sameiginlegt með því frelsi sem Jesús heitir okkur. Hverjar eru hugmyndir heimsins um frelsið? AÐ GERA ÞAÐ SEM MÉR ÞÓKNAST! Þegar betur er að gáð er þetta ekkert annað en gríma til að leitast við að leyna hömlulausum ástríðum sínum og græðgi eftir þessa heims gæðum. Jesús býður lærisveinum sínum hið sanna frelsi, frelsi frá skaðlegum og varhugaverðum ástríðum og undan valdi syndarinnar. Fagnaðarerindið felst í því að Kristur hefur frelsað okkur undan valdi syndarinnar. Hvernig? Með náðargjöfum og krafti Heilags Anda getum við gengið VEG LÍFSINS við hlið Jesú í elsku og heilagleika. Þessi vegur á ekkert sameiginlegt með vegi DAUÐAMENNINGARINNAR miklu sem lifir í stjórnleysi eða anarkisma höfundar síns: Satans. Undir leiðsögn Heilags Anda er Vegur lífsins auðrataður og enginn mun villast, „JAFNVEL EKKI FÁRÁÐLINGAR“ (Jes 35. 8). Þessum sannleiksorðum verða margir sárreiðir, rétt eins og Gyðingarnir: Sannleikanum verður hver sárreiðastur sem ekki iðrast gerða sinna.

„Drottinn! Skrifa þú orð elsku þinnar og sannleika á hjartaspjöld okkar sem þú hefur skapað úr lifandi holdi með eldrúnum þíns Heilags Anda. Amen.“

  07:44:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 805 orð  
Flokkur: Bænalífið, Faðirvorið

Faðirvorið og fastan í hinni fornu íslensku bænaarfleifð

Fjórverutáknið, sem jafnframt hefur varðveist í íslenska skjaldarmerkinu, hefur ávallt skipað sérstakan sess á þessari eyju í Norðuratlansthafinu sem keltnesku paparnir gerðu að hinni egypsku eyðimörk sinni, [1] Það gegndi þannig mikilvægu hlutverki í guðrækni íslensku kirkjunnar til forna.

Faðirvorið skipaði öndvegissess líkt og meðal egypsku abbanna í bænalífinu sem samofið var tíðagjörðinni sem óaflátanleg bæn. Hinni andlegu föstu var skipt í þrisvar sinnum fjóra imbrudaga sem ætlað var að glæða hina andlegu föstu hjartans:

Fernir imbrudagar merkja boðorð fjögurra guðspjalla. Þrír imbrudagar fjórum sinnum haldnir merkja Þrenningartrú þá, er oss er sýnd á fjórum guðspjöllum. Tólf samtaldir imbrudagar merkja kenningu tólf postula. Sá heldur andlega imbrudaga, er varðveitir Þrenningartrú og gerir hlýðinn boðorðum fjögurra guðspjalla og kenningum tólf postula. En það er fasta, dag og nótt að varna við allri heimságirni rangri í farsælum og sjá við óþolinmæði í meinum. [2]

Hinn ókunnu höfundur heldur áfram og útskýrir að imbra að vetri sé haldin til að „Guð færi þela úr jörðu, svo að sáð megi niður komast . . . að Guð færi úr brjósti óru grimmleiks frost og öfundar þel“ svo að sæði Orðsins fái að dafna í hjörtunum. Það tekur að dafna þegar við þráum að hlíða á andlega uppfræðslu og forðumst að gera eitthvað sem illt getur talist.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

03.04.06

  20:17:17, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1490 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Önnur trúarbrögð

Viðhorf íslam til trúskiptinga

Eftirfarandi viðtal tók Bernardo Cervellera við prófessor Francesco Zannini fyrir fréttavefinn Asianews.it. Viðtalið er þýtt og birt hér með leyfi Asianews.it.

27 mars, 2006 Asianews.it
Boð um að taka trúskiptinga af lífi er ekki að finna í Kóraninum heldur er um að ræða sterka skoðun margra
eftir Bernardo Cervellera.

Guðfræðingar harðlínumanna hafa komið þeirri skoðun að hjá fólki að trúskipti grafi undan einingu ummah, hins múslímska samfélags. En prófessor Francesco Zannini sem kennir við stofnun Páfagarðs sem rannsakar arabísku og íslam segir að málefnið sé umdeilt meðal múslima.

Hið nýlega mál Abdul Rahman, kristins trúskiptings frá íslam sem hótað var dauðarefsingu hefur opnað að nýju umræðuna um að krefjast dauðarefsingar fyrir trúskipti í löndum múslima. Francesco Zannini, prófessor í nútímaíslam við Stofnun Páfagarðs um arabísk og íslömsk fræði (PISAI) segir að dauðarefsingar sé ekki krafist í Kóraninum, jafnvel þó fólk leggi trú á það. Ljóst er þó að harðlínumennirnir kynda undir í þessu máli og ríkisstjórnir múslima reyna að styggja þá ekki.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  15:58:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 599 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Í þessum spegli skal sérhver skoða sín verk!

Guðspjall Jesú Krists þann 4. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 8. 21-30

Enn sagði hann við þá: „Ég fer burt, og þér munuð leita mín, en þér munuð deyja í synd yðar. Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist.“ Nú sögðu Gyðingar: „Mun hann ætla að fyrirfara sér, fyrst hann segir: ,Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist'?“ En hann sagði við þá: „Þér eruð neðan að, ég er ofan að. Þér eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi. Þess vegna sagði ég yður, að þér munduð deyja í syndum yðar. Því ef þér trúið ekki, að ég sé sá sem ég er, munuð þér deyja í syndum yðar.“ Þeir spurðu hann þá: „Hver ert þú?“ Jesús svaraði þeim: „Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi. Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig, er sannur, og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.“ Þeir skildu ekki, að hann var að tala við þá um Föðurinn. Því sagði Jesús: „Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem Faðirinn hefur kennt mér. Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.“ Þegar hann mælti þetta, fóru margir að trúa á hann.

Hugleiðing
Illskan er jafn áþreifanleg í heiminum í dag eins og á tímum Jesú. Hér í pistlinum að framan má sjá eina birtingarmynd hennar í ásókn siðlausra markaðsafla, en hér vík ég að bókinni: „Marketing of Evil.“ Önnur birtingarmynd hennar er fóstureyðingarstóriðjan sem veltir milljörðum dala árlega með því að nota líkama konunnar sem hverja aðra „sorptunnu“ og myrðir 124.000 börn daglega í taumlausri græðgi sinni eftir ávinningi. Dapurlegt er til þess að hugsa að ótrúlegur fjöldi svo kallaðra „menntamanna“ hafa selt henni sálu sína til að réttlæta slíkt með „fræðimennsku“ sinni. Stundum segir fólk: „Ég get ekki trúað því að Guð sé til vegna þess að ef hann væri til, léti hann það ekki gerast að kjarnaorkusprengju væri varpað yfir fólk í Japan!“ Það gerir sér ekki ljóst að Guð hefur skapað manninn í sinni mynd og virðir FRJÁLSAN VILJA HANS. Í þessum ritningarlestri segir Jesús okkur, að við verðum að taka afleiðingum gjörða okkar og þær geta orðið skelfilegar fyrir þá sem virða ekki boðorð Guðs.

Jesús varaði Gyðingana við og sagði við þá að ef þeir héldu áfram að afneita sér „munuð þér deyja í syndum yðar.“ Orð Jesú enduróma þau varnaðarorð sem Drottinn gaf einum spámanna Gamla testamentisins, Esekíel, þar sem sagt er, að sá sem beitir kúgunarvaldi og tekur frá öðrum með ofbeldi og gerir það sem ekki er gott, hljóti að deyja fyrir gerðir sínar (sjá Esk 18. 18). Á einum stað líkir hl. Páll mannkyninu við jörð og þeim sem breyta illa við ófrjósama jörð: „Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd“ (Heb 6. 8). Í þessum spegli skal sérhver skoða sín verk!

  12:11:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 490 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Markaðssetning illskunnar (The Marketing of Evil)

Ég vil vekja athygli lesenda á bók sem kom út í Bandaríkjunum í ágúst s. l. og heitir „Marketing of Evil“ og er eftir David Kupelian. Hann er framkvæmdastjóri WorldNetDaily.com, stærsta óháða fréttavefsins á netinu og helsta driffjöðrin að baki tímaritsins Whistleblower sem kemur út mánaðarlega.

Í bókinni fjallar Kupelian um það hvernig viðhorf sem voru Bandaríkjamönnum hreinasta viðurstyggð áður fyrr, hefur verið vafið inn í umbúðir álitlegra gjafapakkninga og bókstaflega seldar sem eitthvað sem hefur mikið gildi. Da Vinci lykillinn er gott dæmi um slíka markaðssetningu, en á Íslandi seldist þetta rit sem eru hreinustu bábiljur í 40.000 eintökum! Sérþjálfaðir markaðssérfræðingar sjá þannig um að koma á framfæri ranghugmyndum og afskræmingu sannleikans undir yfirskini umburðarlyndis og langlundargeðs almenningsálitsins.

Kupelian minnist á fjölmörg dæmi í bók sinni. Hér skal einungis drepið á nokkur þeirra. Fá okkar gera sér grein fyrir því að hinn „virti“ upphafsmaður kynlífsbyltingarinnar átti við alvarleg geðræn vandamál að stríða og hvatti til útbreiðslu barnaníðingsháttar (pedófílíu).

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  11:13:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 125 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvað myndir þú segja?

Saga er sögð um mann, sem var týndur í eyðimörk. Seinna, þegar hann var að lýsa því sem gerðist fyrir vini sínum, þá lýsti hann því hverning hann kraup á kné og bað Guð að hjálpa sér.

"Og hjálpaði Guð í raun og veru?" spurði vinur hans.

"Nei, nei, alls ekki. Áður en hann gat hjálpað mér, kom landkönnuður og sýndi mér leiðina."

* Sumir munu segja að það hafi verið tilviljun að landkönnuðurinn kom á þessum tíma.

* En aðrir, munu segja að Guð hafi á sinn hátt komið því þannig fyrir að landkönnuðurinn rakst á týnda manninn, svo sem af tilviljun.

* Hvað myndir þú segja?

  08:22:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 286 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels, Trúarljóð

Llama de amor viva eða „Logi lifandi elsku“ eftir Jóhannes af Krossi

Erindin sem sálin hefur yfir í innileika
sameiningarinnar við Guð.

Ó logi lifandi elsku
sem særir sál mína ljúflega
í dýpstu miðju hennar!
Þar sem þú íþyngir ekki lengur,
ef þú vilt sjálfur, svipt nú burt
blæju þessara ljúfu endurfunda.

Ó ljúfi sviði!
Ó milda sár!
Blíða hönd! Sæta snerting,
keimur eilífs lífs
sem geldur alla sekt!
Deyðir og umbreytir dauða í líf.

Ó eldlegu lampar
sem með dýrð ykkar
opinberið hella skynhrifanna
áður blindu hulda
sem með framandi birtu
veitið Ástmögurnum yl og ljós.

Hversu mildilega og elskuríkt
vakir þú ekki í hjarta mínu,
þar sem þú dvelur einn í leynum!
Í sætum andblæ þínum
þrungnum gæsku og dýrð,
hversu elskar þú ekki í ljúfleika þínum!

Canciones que hace el alma en
la intima unión con Dios

¡Oh llama de amor viva,
que tiernamente hieres
de mi alma en el más profundo centro!.
pues ya no eres esquiva,
acaba ya, si quieres;
rompe la tela de este dulce encuentro

¡Oh cauterio suave!
¡Oh regalada llaga!
¡Oh mano blanda! ¡Oh toque delicado,
que a viva eterna sabe,
y toda deuda paga!;
matando, muerte en vida la has trocado.

¡Oh lámparas de fuego,
en cuyos resplandores
las profundas cavernas del sentido,
que estaba oscuro y ciego,
con extraños primores
calor y luz dan junto a su Querido!

¡Cuán manso y amoroso
recuerdas en mi seno,
donde secretamente solo moras!
Y en tu aspirar sabroso,
de bien y gloria lleno,
¡cuán delicadamente me enamoras!

Nú er ég að þýða ritskýringar Jóhannesar af Krossi við þetta undurfagra ljóð. Væntanlega verður þýðingunni lokið miðsumars.

TENGILL

  00:08:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 269 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Að finna það bænaform sem hentar best

Til er falleg saga um biskup í trúboðslandi.

Þar sem þessi biskup var trúboði þurfti hann að ferðast mikið með skipi til að heimsækja hinar ýmsu sóknir. Dag einn, stöðvaði skipið hjá fjarlægri eyju. Biskupinn ákvað að nýta tímann vel og fór í land. Hann gekk eftir ströndinni og hitti þar þrjá fiskimenn, sem voru að hreinsa net sín. Þeir sögðu biskupinum að hundrað árum áður hefðu trúboðar kristnað eyjaskeggja og þess vegna spurði biskupinn þá hvort þeir gætu beðið Faðirvorið.

„Nei!“, sögðu þeir.

„Hvernig biðjið þið þá?“, spurði biskupinn.

„Þegar við biðjum, segjum við við Guð: „Við erum þrír, þú ert þrír, miskunna þú okkur.“

Biskupinn ákvað að þetta væri ekki nógu gott. Og þess vegna hóf hann að kenna þeim Faðirvorið. Þeir voru lengi að læra það en að lokum kunnu þeir það utanbókar.

Mánuðum seinna varð biskupinn að ferðast á ný til hinnar ýmsu sóknar, af því að hann var ennþá trúboði. Í þetta sinn kom skipið ekki við á eyju fiskimannanna þriggja. Biskupinn stóð uppi á þilfari og leit til eyjarinnar. Þá sá hann skyndilega hvar fiskimennirnir þrír komu gangandi á sjónum, í átt að skipinu. Biskupinn trúði varla sínum eigin augum. Það gerði skipsstjórinn ekki heldur og stöðvaði skipið.“

„Biskup“, sögðu fiskimennirnir þrír; „Við sáum að skip þitt sigldi hjá og flýttum okkur til að biðja þig um svolítið. „Við höfum gleymt Faðirvorinu, getur þú kennt okkur það aftur.“

En í stað þess, að kenna þeim bænina aftur, svaraði biskupinn:

„Farið aftur heim kæru vinir og í hvert sinn sem þið biðjið skuluð þið segja: „Við erum þrír, þú ert þrír, miskunna þú okkur.

02.04.06

  16:35:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 460 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Syndga ekki framar.“

Guðspjall Jesú Krists þann 3. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 8. 1-11

En Jesús fór til Olíufjallsins. Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: „Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, herra.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“

Hugleiðing
Þetta atvik segir okkur mikið um afstöðu Jesú til syndugra manna. Fræðimennirnir og farísearnir leituðust við að leiða hann í gildru. Þeir komu með konu til hans sem staðin hafði verið að hórdómi, en Jesús snéri dæminu við og beindi því að þeim sjálfum. Í reynd sagði hann: Haldið áfram og grýtið hana! En „sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.“ Hann felur þeim að dæma hana í ljósi samvisku sinnar. Þegar konan var orðin ein eftir með honum opinberaði Jesús henni miskunn sína, en varaði hana einnig alvarlega við að syndga ekki framar. Fræðimennirnir vildu kveða upp dóm, en Jesús að fyrirgefa og græða þá sem hafði syndgað. Afstaða hans fól í sér tvo VALKOSTI: Snúðu annað hvort til baka til þíns fyrra og synduga lífs og dæmdu þig til dauða, eða gakk nýjan veg lífs og hamingju með mér og: „Syndga ekki framar.“ Það sama segir hann enn í dag í gegnum kirkju sína, hver svo sem hin drýgða synd er. Fyrirgefning hans er því skilorðsbundin, hver svo sem á hlut að máli: „Syndga ekki framar.“

  09:27:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1886 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Fóstureyðingar hafa geðræn vandamál í för með sér

Rannsóknir á Nýjasjálandi gætu orðið til þess að læknar framkvæmi færri fóstureyðingar

LifeSiteNews.com – 10. febrúar 2006. Rannsóknir á Nýjasjálandi sem fylgdust með 500 konum frá fæðingu til 25 ára aldurs hafa staðfest, að ungar konur sem ganga undir fóstureyðingar verði að horfast í augu við hærri sjálfsmorðstíðni, þunglyndi, samskiptaörðugleika, kvíðaköst og aðra geðræna kvilla.

Athyglisverðustu niðurstöður langtímarannsókna „Christchurch Health and Development Study“ undir stjórn prófessors David M. Fergussons [1] leiða í ljós að hærri tíðni geðrænna vandamála væri ekki unnt að útskýra með neinum mun á geðrænni heilsu fyrir þungun, en rannsóknirnar hafa staðið yfir í 25 ár.

NIÐRSTÖÐURNAR KOMA ÞEIM SEM STYÐJA VALFRELSI (PRO-CHOICE) Á ÓVART

Eftir því sem Fergusson segir voru rannsóknirnar gerðar til að renna stoðum undir þá skoðun, að unnt væri að staðfesta, að öll vandamál eftir fóstureyðingu mætti rekja til geðrænna vandamála sem hefðu verið fyrir hendi, áður en til fóstureyðingarinnar kom. Í upphafi virtist allt benda til þess að gögnin (data) myndu renna stoðum undir þessa tilgátu. Gögnin sýndu að konur sem verða þungaðar fyrir 25 ára aldur væru líklegri til að hafa reynt fjölskylduvandamál og aðlögunarerfiðleika, væru líklegri til að hafa horfið að heiman á unga aldri og að hafa lifað í sambúð.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

01.04.06

  22:18:10, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 211 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Ljósið sem hún kveikti í lífi mínu logi ennþá

Eitt sinn heimsótti Móðir Teresa gamlan mann, en enginn virtist hafa hugmynd um að hann væri til. Herbergið sem maðurinn bjó í var í algjörri óreiðu. Þar hafði ekki verið þrifið árum saman. Ekkert rafmagn var þar og gluggarnir voru huldir, þannig að maðurinn var í stöðugu myrkri.

Móðir Teresa fór að þrífa og taka til. Í fyrstu mótmælti maðurinn, en hún hélt áfram og þegar hann sá breytinguna, leyfði hann henni að halda áfram.

Skyndilega fann Móðir Teresa olíulampa. Hún tók hann upp, þreif hann og lagaði, setti olíu á hann og...

"Nei, ekki kveikja á honum!", hrópaði maðurinn.

"Hvers vegna ekki?" spurði Móðir Teresa.

"Vegna þess að ég kann vel við myrkrið og enginn kemur nokkurn tíma að heimsækja mig."

"En ef nokkrar systranna minna koma að heimsækja þig, viltu þá kveikja á honum?"
"Já, það skal ég gera", svaraði maðurinn.

Og svo fóru systurnar að heimsækja manninn og þá var kveikt á lampanum. Nokkrum mánuðum seinna sendi maðurinn þessi skilaboð til Móður Teresu: "Segið henni að ljósið, sem hún kveikti í lífi mínu, logi ennþá."

  16:20:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 742 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Guð er mestur allra stjarneðlisfræðinga

Guðspjall sunnudagsins 2. apríls er úr Jóhannesarguðspjalli 12. 20-33

Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni. Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: „Herra, oss langar að sjá Jesú.“ Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú. Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra. Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu: Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!“ Þá kom rödd af himni: „Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.“ Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“ Jesús svaraði þeim: „Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

Hugleiðing
Það er vel við hæfi að í dag, þann 1. apríl, gellur raust eins hinna miklu krataforingja þessa lands, Jóns Baldvins Hannibalssonar, á síðum Blaðsins. Hér fer mikill trúmaður mikinn og efast ekki um trú sína: „Ertu að biðja mig um að trúa á 2000 ára gamlar þjóðsögur Gyðinga og afneita þróunarkenningunni eða stjarneðlisfræðinni? Hvað er verið að biðja mig um að trúa á?“ Svarið við þessari spurningu er einfalt: Jesús biður okkur um að trúa á sig. Hann biður okkur ekki um að afneita stjarneðlisfræðinni, heldur að horfa til himins. Jesús dregur upp mynd af „hveitikorninu“ til að leiða okkur fyrir sjónir lögmál lífsins Anda. Sáðkorn getur ekki alið líf af sér sjálfu. Fyrst verður að sá því í frjósama jörð svo að það geti borið ávöxt. Hvað er það sem Jesús skírskotar til með þessari dæmisögu? Þetta er einungis hulin tilvísun til hans eiginn dauða, til krossins og upprisunnar.

Hvað felur það í sér að „deyja“ sjálfum sér? Það þýðir að það sem gengur þvert á vilja Guðs í okkur sjálfum verður að „krossfesta“ eða „deyða.“ Þegar svo er komist að orði „að við hötum eitthvað“ felur það í sér að meta það minna en áður og loks að hafna því að fullu og öllu. Með þessu er Jesús að segja okkur að ekkert megi standa í vegi fyrir því að við getum elskað hann og Föður hans á himnum, ekki einu sinni stjórmálayfirlýsingar málglaðra stjórnmálamanna. Von okkar er ekki jarðbundin, heldur stefnir til himins eins og hl. Páll áminnir okkur um: „Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd“ (1 Kor 15. 43). Setur þú von þína á Jesú, eða horfir þú á hann sem hvert annað 1. aprílgabb? Eða óttast þú kannski að honum sé illa við að þú leggur stund á stjarneðlisfræði? Einstein trúði ætíð á Guð, nokkuð sem Niels Bohr gat ekki fallist á vegna þess að hann trúði á óreiðukenninguna. Sá listasmiður sem skóp alheiminn úr engu fyrir 14 milljörðum ára í totum simul eilífðarandataks sendi sinn eingetna Son til jarðar svo að við tryðum á sig. Guð hefur ekkert á móti stjarneðlisfræði vegna þess að hann er mestur allra stjarneðlisfræðinga!

31.03.06

  21:24:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 225 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Koma Krists færði þeim frið og góðvild

Jólakvöld, árið 1914, á fyrsta ári heimsstyrjaldarinnar fyrri, lagðist einkennileg kyrrð yfir vesturvígstöðvarnar. Hermennirnir í einni skotgröfinni voru að tala um það hvað þeir væru að gera ef þeir væru heima hjá fjölskyldum sínum um jólin.

Eftir svolitla stund heyrðu þeir söng óma frá óvinaskotgröfunum. Allir hlustuðu. Þetta var jólasálmur! Þegar honum var lokið fóru þessir hermenn líka að syngja jólasálm. Seinna þegar hópur hermanna fór að syngja sálminn "Hljóða nótt", tóku andstæðingarnir undir og hundruðir radda sungu saman á tveimur tungumálum!

"Einhver er að koma!" hrópaði hermaður. Og það reyndist rétt. Hermaður úr óvinahernum var að koma. Hann gekk mjög hægt, veifaði hvítum klút með annari hendinni en hélt á súkkulaðistykkjum í hinni. Hægt og rólega fóru menn að koma upp úr skotgröfunum og heilsa hver öðrum. Þeir deildu með sér súkkulaðinu og tóbaki. Þeir fóru að sýna myndir af ástvinum sínum heima. Þeir skipulögðu meira að segja fótboltaleik.

Þetta jólakvöld var það koma Krists sem megnaði að færa þessum hermönnum frið og góðvild hver í annars garð.

  16:19:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 463 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“

Guðspjall Jesú Krists þann 1. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 7. 40-53

Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum, sem hlýddu á þessi orð: „Þessi er sannarlega spámaðurinn.“ Aðrir mæltu: „Hann er Kristur.„ En sumir sögðu: „Mundi Kristur þá koma frá Galíleu? Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?“ Þannig greindi menn á um hann. Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann.
Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: „Hvers vegna komuð þér ekki með hann?“ Þjónarnir svöruðu: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ Þá sögðu farísearnir: „Létuð þér þá einnig leiðast afvega? Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum? Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!“ Nikódemus, sem kom til hans fyrrum og var einn af þeim, segir við þá: „Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?“ Þeir svöruðu honum: „Ert þú nú líka frá Galíleu? Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu.“

Hugleiðing

Hér sjáum við Nikódemus farísea skjóta aftur upp kollinum. Áður hafði hann talað við Jesú í kvöldkyrrðinni um leyndardóma Guðsríkisins. Viðbrögð Nikódemusar voru allt önnur en hinna faríseanna. Hjarta hans sagði honum að halda uppi vörnum fyrir Jesú, en höfuðið að hann ætti ekki að taka slíka áhættu. Greinilega hefur hjarta hans sigrað að lokum vegna þess að það var hann sem eftirlét Drottni grafhýsi sitt síðar eftir píslir krossfestingarinnar og dauða. Iðulega ber við að við verðum að skipa okkur við hlið Jesú og guðspjallanna í daglegu lífi. Þetta getur orðið öðrum tilefni til hláturs eða jafnvel geðillskukasta. Stundum hafa hinir heilögu orðið að leggja allt í sölurnar fyrir Drottin og úthella blóði sínu eins og prestarnir 200.000 á tímum ógnarstjórnar Stalíns í Rússlandi. Allir verða fyrr eða síðar að taka ákvörðum um að þjóna annað hvort Jesú og konungsríki himnanna eða verða að þrælum syndarinnar og Satans. Við skulum forðast þau dapurlegu örlög að verða að vegaprestum í lífi náðarinnar. Eða eins og þeir sögðu á miðöldum: Eins og prestarnir sem benda á veginn, en ganga hann svo ekki sjálfir.

30.03.06

  21:29:16, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 230 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvers vegna skildu svo fáir Jesú?

Til er saga um mann sem kom í heimsókn til klausturs nokkurs.

Gesturinn spurði einn munkanna þessarar spurningar: "Hvers vegna skildu svo fáir Jesú? Farísearnir og fræðimennirnir voru stöðugt á móti honum. Lærisveinar hans virtust oft ruglaðir á kenningu hans. Og enn aðrir álítu hann haldinn illum anda. Jafnvel nokkrir í hans eigin fjölskyldu höfðu áhyggjur af andlegri heilsu hans."

Hinn aldni og hyggni munkur hugsaði sig um eitt augnablik, en svaraði síðan:

"Eitt sinn voru brúðhjón sem réðu bestu tónlistarmenn landsins til að leika í brúðkaupsveislunni sem haldin var á lóð hótels nokkurs. Tónlistarmennirnir léku og allir dönsuðu.

Einmitt þá óku tveir menn framhjá. Gluggar bílsins voru lokaðir og útvarpið var hátt stillt. Mennirnir gátu ekki heyrt tónlistina sem barst frá lóð hótelsins. Allt og sumt sem þeir sáu, var fólk sem hoppaði um og hegðaði sér einkennilega.

"Hvílíkt samsafn fáráðlinga" sagði annar maðurinn við hinn þegar þeir óku framhjá. "Þau hljóta að vera brjáluð öll saman."

Munkurinn stoppaði augnablik en sagði svo: "Þetta er sú niðurstaða sem sumt fólk kemst að þegar það heyrir ekki tónlistina, sem annað fólk dansar við."

  18:36:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6256 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Níu rök gegn fóstureyðingum

Bandarískur höfundur þessarar umfjöllunar, Israel Steinmetz, var svo vinsamlegur að leyfa okkur að birta hana í íslenskri þýðingu á Kirkjunetinu. Hún varpar ágætu ljósi á þá hugarfarsbreytingu sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum hvað áhrærir fóstureyðingar. Talsmenn fóstureyðinga hér heima gefa iðulega í skyn, að það séu einungis „öfgamenn“ og „ofstækismenn í trúmálum“ sem berjist gegn fóstureyðingum í Bandaríkjunum. Hér má ljóslega sjá hversu fjarri þetta er öllum sanni.

INNGANGUR

Planned Parenthood hefur samið 9 rök fyrir því að fóstureyðingar séu lögverndaðar. Svar mitt er þetta: Ég hef skrifað 9 rök sem leiða í ljós að fóstureyðingar ættu að vera ólöglegar. Í reynd hef ég hlegið með sjálfum mér sökum þess hversu auðvelt er að andmæla þeim. Þetta er ekki sök Planned Parenthood vegna þess að það eru engin haldbær rök til sem réttlæta fóstureyðingar aðrar en alvarlegt heilsufarsástand móður og barns. Auk þess tel ég að Planned Parenthood sinni mörgum nytsömum málaflokkum. Ég samþykki margt af því sem samtökin gera. En ég er algjörlega á öndverðu máli við þau hvað áhrærir fóstureyðingarnar.

Ég kaus að beina gagnrýni minni að þeim sérstaklega vegna þess að samtökin eru a) Stór stuðningssamtök fóstureyðinga sem starfa á breiðum grundvelli og b) Samtökin hafa birt lista og baráttuaðferð mín kemur vel heim og saman við slíkan lista. Ég bið ykkur að lesa eftirfarandi gagnrýni af opnum huga og vega og meta rök og gagnrök hinna ólíku skoðana. Ef þið rekist á rangfærslur í staðreyndum mínum vona ég að þið gerið mér viðvart: MrData@mail.com

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  16:31:23, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 368 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Annað hvort stöndum við honum við hlið eða EKKI.

Guðspjall Jesú Krists þann 31. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 7. 1-2, 10, 25-30

Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans. Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin . . . Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun . . . Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: „Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta? Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur? Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er.“ Jesús var að kenna í helgidóminum, og nú kallaði hann: „Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki. Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig.“ Nú ætluðu þeir að grípa hann, en enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin.

Hugleiðing
Við getum ekki látið þá kröfu sem Jesú gerir til okkar sem vind um eyru þjóta. Annað hvort stöndum við honum við hlið eða EKKI. Hér er ekki um neina málamiðlun að ræða eða að bera kápuna á báðum herðum. Við getum reynt að móta Jesú eftir eigin hugsmíðum og kenjum, eða þá meðtekið orð hans sem frelsa okkur úr viðjum fáfræði, heimskulegs stærilætis og tálsýna. Samþykkið þið allt það sem Jesús boðaði og gerði fyrir okkur í trú og af lotningu, eða horfið þið til þessa alls af vantrú og fyrirlitningu? Ákvörðun ykkar og afstaða hefur í för með sér afdrifaríkar afleiðingar bæði í þessu lífi og að eilífu.

29.03.06

  15:40:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 659 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Drottinn! Forða okkur frá því að verða að skrópurum í Skóla lífsins

Guðspjall Jesú Krists þann 30. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 5. 31-47

Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur. Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér. Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni. Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast. Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans. Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem Faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að Faðirinn hefur sent mig. Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans. Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi. Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig, en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið. Ég þigg ekki heiður af mönnum, en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs. Ég er kominn í nafni Föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum. Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði? Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir Föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér. Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað. Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?"

Hugleiðing
Ágústínus kirkjufaðir sagði: „Hlutverk okkar kristinna manna felst í því að taka daglegum framförum á vegferð okkar til Guðs. Pílagrímsganga okkar á jörðu er skóli þar sem Guð er eini kennarinn og skólinn gerir kröfu til nemenda sinna, ekki þeirra sem skrópa. Í þessum skóla lærum við eitthvað nýtt á hverjum degi. Við lærum eitthvað af boðorðunum, eitthvað af fordæmi annarra, og eitthvað af sakramentunum. Þessi námskrá er smyrsl á sár okkar og sjálft námsefnið sem lagt er fyrir okkur.“ Vandamál faríseanna og fræðimannanna fólst í því að þeir trúðu því í raun og veru ekki sem Móses hafði skrifað, fremur enn svo fjölmargir nútímamenn. Þeir bjuggu sér því til eigin hugsmíðar í stærilæti sínu því að það var jú einu sinni starf þeirra að uppfræða aðra og tekjur þeirra voru ágætar og þeir bjuggu við gott viðurværi á mennska vísu. Og auk þess og það vóg þyngst, þá nutu þeir virðingar manna fyrir þessa þokkaiðju sína. Sama má segja um marga falsboðendur Orðsins á okkar dögum sem eru þess ekki umkomnir að skilja Orð Guðs vegna þess að þeir hafa glatað hreinleika hjartans. Hroki þeirra og stórmennska kemur í veg fyrir að þeir geti heyrt raust Guðs. Guð opinberar sig einungis hinum lítillátu, þeim sem sitja á skólabekknum í lífsins skóla og hlusta ákafir á raust kennarans og þannig gagntekur Guð hjörtu þeirra og hugi af hlýðni elskunnar. Skrópurunum er hins vegar vísað úr þessum skóla, rétt eins og jarðneskum skólum. „Drottinn! Fyll hjörtu okkar af þínum Heilaga Anda svo að við hlustum af athygli á orð þín og hlýðnumst þeim full gleði.“
 

  10:48:59, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 298 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels, Trúarljóð

Hin myrka nótt sálarinnar eftir Jóhannes af Krossi

Í myrka nótt
í angist og brennandi elsku
– ó sæluríka stund –
gekk ég óséð af öllum
því hús mitt hvíldist.

Í myrkri og öryggi
gekk ég dulbúin leynda stigu
– ó sæluríka stund –
hvarf óséð öllum
því hús mitt hvíldist.

Í hinni sælu nótt
óséð af öllum
og ósjáandi
án nokkurs ljóss eða skímu
en þeirrar sem brann í hjarta mér.

Þetta ljós leiddi mig
öruggar en hádegissólin
þar sem sá vænti mín
sem gjörþekkti mig
á stað óséðum öllum.

Ó nótt sem leiddi mig
Ó nótt ljúfari en dagur!
Ó nótt sem sameinaði
hinn Elskaða ástvininum
breytti ástvininum í hinn Elskaða!

Í blómskrúði brjósts míns
honum einum ætlað
hvíldist ég
og strauk hárlokka hans
og blær sedrusviðarins veitti svölun.

En una noche oscura,
con ansias, en amores inflamada,
¡oh dichosa ventura!,
salí sin ser notada,
estando ya mi casa sosegada.

A escuras, y segura,
por la secreta escala, disfrazada,
¡oh dichosa ventura!,
a escura y en celada,
estando ya mi casa sosegada.

En la noche dichosa
en secreto, que naide me veía,
ni yo miraba cosa,
sin otro luz y guía,
sino la que en el corazón ardía.

Aquésta me guiaba
más cierto que la luz del mediodía,
adonde me esperaba
quien yo bien me sabía,
en parte donde naide parescía.

¡Oh noche que quiaste!
¡Oh noche amable más que el alborada!
¡Oh noche que juntaste
Amado com amada,
amada en el Amado transformada.

En mi pecho florido,
que entero para él solo se guardaba,
allí quedó dormido,
y yo le regalaba,
y el ventalle de cedros aire daba.

TENGIILL

  09:36:39, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 420 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvers vegna varð Guð maður eins og við?

Einu sinni var maður sem elskaði dýrin mjög, en hafði ekki mikinn tíma fyrir Guð. Einkanlega átti hann erfitt með að skilja allt það sem fólk gerði á jólunum. Hann gat ekki skilið hvernig Guð gerðist maður. Þess vegna fór hann aldrei í kirkju, ekki einu sinni á jólum. En um síðustu jól gerðist eitthvað sérstakt sem breytti öllu lífi hans. Guð veitti honum sérstaka náð, náð sinnaskipta. Og þannig gerðist það.

Það var áliðið jólanótt og fjölskylda mannsins var farin til miðnæturmessu í kirkjunni. Hann var einn í húsinu. Veðrið hafði verið stillt en skyndilega skall á snjó stormur. Eftir smástund heyrðist einkennilegur hávaði við útidyrnar. Maðurinnleit út um gluggan og sá að nokkrir fuglar voru að reyna að leita skjóls undan storminum.

Þar sem honum þótti vænt um dýrin fann hann til með þeim og velti fyrir sér hvernig hann gæti hjálpað þeim. Hann ákvað að fara út um bakdyrnar og opna bílskúrsdyrnar. Hlýtt var í bílskúrnum og þar myndu fuglarnir vera öruggir. Hann fór út, opnaði bílskúrsdyrnar og fór aftur inn í húsið. Er hann leit aftur út um gluggann varð hann fyrir vonbrigðum því fuglarnir höfðu ekki hreyft sig.

Af því að hann unni dýrum, gafst hann ekki upp. En hvað átti hann að taka tilbragðs? Þá datt honum í hug að setja fugla fræ í bílskúrinn. Að því loknu kom hann aftur til þess að sjá hvað gerast myndi, en hann varð enn fyrir miklum vonbrigðum þar sem fuglarnir höfðu enn ekki hreyft sig. Kuldinn var farinn að sverfa að þeim.

En hvað gat maðurinn gert til þess að hjálpa þeim? Í þeirri von að fuglarnir færu yfir í bílskúrinn opnaði maðurinn dyrnar varlega. En hvað gerðist? Þegar hann opnaði dyrnar flugu fuglarnir auðvitað hver í sína áttina en enginn í bílskúrinn.

Maðurinn sagði þá í algerri örvæntingu: "Ef ég gæti nú bara orðið fugl eins og þeir í smástund gæti ég sýnt þeim leiðina til öryggis."

Á því augnabliki hringdu kirkjuklukkurnar og maður þessi áttaði sig skyndilega á því hvers vegna Guð varð sú sköpun sem hann skapaði - hvers vegna Guð varð maður eins og við.

28.03.06

  18:16:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 74 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Verið ávallt glaðir í Drottni!

Þegar heilagur Tómas More var að ganga upp þrepin til aftöku staðarins þá bauðst böðulinn til þess að aðstoða hann.

Tómas svaraði: "Ég er einfær um að komast upp. En vel kann að vera að ég þurfi á hjálp að halda við að komast aftur niður!"

"Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir." BRÉF PÁLS TIL FILIPPÍMANNA 4:4

  16:06:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 715 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Drottinn blás okkur auðmýkt og hlýðni í brjóst

Guðspjall Jesú Krists þann 29. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 5. 17-30

En hann svaraði þeim: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“ Nú sóttu Gyðingar enn fastar að taka hann af lífi, þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina, heldur kallaði líka Guð sinn eigin Föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.
Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur Sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér Föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir Sonurinn einnig. Faðirinn elskar Soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðu lostnir. Eins og Faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og Sonurinn þá, sem hann vill. Enda dæmir Faðirinn engan, heldur hefur hann falið Syninum allan dóm, svo að allir heiðri Soninn eins og þeir heiðra Föðurinn. Sá sem heiðrar ekki Soninn, heiðrar ekki Föðurinn, sem sendi hann. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs Sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa. Eins og Faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt Syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur. Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins. Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.

Hugleiðing
Ef við viljum vita hvernig Guð bregst við syndinni er texti þessa dags holl lesning. Guð Faðir bregst við syndsamlegum aðstæðum lífs okkar og ef við viljum fræðast nánar um hvernig okkur ber sjálfum að bregðast við, skulum við horfa til Jesú. Sérfræðiálit vega þungt í nútímanum og áður en veigamiklar ákvarðanir eru teknar leita menn sér sérfræðiálits. Það finnum við hjá Jesú og honum einum, en ekki hjá sjálfskipuðum sérfræðingum „úti í bæ“ sem nú á dögum vita jafnvel allt betur en Guð sjálfur. Hugur Jesú er hugur sjálfs Guðs og orð hans eru orð sjálfs Föðurins.
Jesús segir að sambandi sitt við Föðurinn felist í hlýðninni undir merkjum elskunnar. Jesús gerði aldrei neitt annað en það sem Faðirinn vildi að hann gerði. Hlýðni hans fólst ekki í þrælsótta heldur elsku. Samband Jesús og einingarband við Föðurinn er sjálf elskan. Köllun okkar á þessari pílagrímsgöngu á jörðu er að fela líf okkar Guði á hendur af sömu elsku og hlýðni og Jesús auðsýndi Föðurnum. Eruð þið reiðubúin til að fylgja Drottni og snúa baki við öllu því sem brýtur gegn boðorðum hans, eða ætlið þið að leggja ykkar eigið líf að veði til að þjóna höfðingja þessa heims í öllu því sem gengur þvert á boðorð Drottins himins og jarðar?

„Drottinn blás okkur auðmýkt og hlýðni í brjóst svo að hjörtu okkar verði eitt með þínu Alhelga hjarta svo að við gerum einungis það sem er þér velþóknanlegt.“

  08:44:31, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 987 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hin holdlegu augu og það andlega (sjá Jb 42. 5 og Lk 24. 45)

Þessi hugleiðing fæddist fyrir mörgum árum síðan og var samin á ensku undir heitinu „From Illu-Zion to Reality“ og birtist í bandarísku kirkjublaði. Kalla mætti hana „Hin holdlegu augu og það andlega“ á íslensku.

Eitt sinn dvaldi ég í trappistaklaustri í nokkrar vikur. Ég og einn munkana höfðum til siðs að fara „niður að teinunum“ (down to the track) eftir morguntíðirnar af og til. Þar biðum við í nokkrar mínútur, stundum allt að hálfri stundu þar til járnbraut birtist. Yfirleitt voru þetta einungis flutningalestar, en einstaka sinnum duttum við í lukkupottinn. Það var þegar hinar silfurlituðu Amtrak-lestar brunuðu fram hjá í allri sinni dýrð.

Járnbrautir búa yfir einhverju leyndardómsfullu aðdráttarafli, já, ég þori að segja yfirskilvitlegu. Þær hafa alveg einstakt aðdráttarafl á karlmenn (eftir minni bestu vitund ekki á konur). Járnbrautir hafa bókstaflega yfirþyrmandi áhrif á menn, geta jafnvel beint okkur inn í sjálft totum simul: Eilífð Guðs þar sem allur tími og rúm renna saman í einum punkti.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

27.03.06

  22:26:40, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 143 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Þessi kolamoli fór að kulna

Fyrir nokkrum árum ákvað maður að hann ætlaði ekki framar að fara í messu á sunnudögum. Sú ástæða, sem hann gaf var að hann gæti alveg eins beðist fyrir heima.

En nokkrum vikum seinna, kom sóknarprestur hans í heimsókn á heimili hans. Þeir sátu í setustofunni, þar sem brann eldur á arni. Þeir töluðu um ýmis mál en alls ekki um mikilvægi þess að fara í messu á sunnudögum.

Eftir nokkra stund tók presturinn kolatöngina og tók brennandi kolamola út úr eldinum og setti hann til hliðar. Þessi kolamoli hætti fljótlega að brenna og fór að kulna. En hin kolin héldu áfram að brenna í ljósum logum.

Presturinn sagði ekkert en það gerði maðurinn: "Ég ætla að koma til messu næsta sunnudag", sagði hann.

  15:44:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 594 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Tak rekkju þína og gakk!

Guðspjall Jesú Krists þann 28. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 5. 1-16

Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur, og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!'“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk'?“ En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann. Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi.

Hugleiðing
Sú saga er sögð að eitt sinn hafi einn hinna heilögu komið í Páfagarð og sagt: „Hér skortur hvorki silfur né gull.“ Páfi leit á hann og sagði: „Rétt er það, en við segjum heldur ekki lengur eins og forðum: TAK REKKJU ÞÍNA OG GAKK!“ Vatnið gegnir mikilvægu hlutverki í þessari frásögn. Það skírskotar til móðu lifsvatnsins sem streymir frá hásæti Guðs og Lambsins (sjá Opb 22. 1-2). Þetta vatn ummyndar allt sem það kemst í snertingu við, lífgar og græðir. Jesús býður okkur sjálfan sig sem uppsprettu þessa lifandi vatns sem hann úthellti yfir lærisveina sína með náðargjöfum Heilags Anda. Við laugina í Betesda lá hjálparvana maður ofurseldur miskunn og mætti Guðs á vald. Og Jesús spyr hann: „Viltu verða heill?“ Dæmisagan víkur að aðstæðum okkar sjálfra. Hl. Teresa sagði að afar lærður maður hafi eitt sinn sagt við sig, að þeir sem legðu ekki rækt við bænina væru farlama eða bæklaðir.“ Viltu í raun og veru verða heill, lesandi góður? Drottinn alls lífs mun alls ekki bregðast þér, fremur en manninum við laugina: „Tak rekkju þína og gakk! . . . „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra.“

26.03.06

  19:31:24, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 122 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Saga um þrjá lærlinga djöfulsins

Hér er saga um þrjá lærlinga djöfulsins sem voru sendir til jarðarinnar til að leiða fólk til heljar. Áður en þeir lögðu af stað, var lagt fyrir þá spurningu um hvaða aðferð þeir mundu nota til að fá fólk til heljar.

• Fyrsti svaraði: "Ég mun fá fólk til þess að trúa að það sé enginn Guð til."

• Annar svaraði: "Ég mun fá fólk til þess að trúa að það sé ekkert helviti."

• Sá þriðji svaraði: "Ég mun fá fólk til þess að trúa því að það þurfi ekki að flytja sér að iðrast.

(Á ensku: No God, no hell, no hurry!)

  16:59:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 522 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Sonur þinn lifir.“

Guðspjall Jesú Krists þann 27. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 4. 43-54

Eftir þessa tvo daga fór hann þaðan til Galíleu. En sjálfur hafði Jesús sagt, að spámaður væri ekki metinn í föðurlandi sínu. Þegar hann kom nú til Galíleu, tóku Galíleumenn honum vel, þar eð þeir höfðu séð allt sem hann gjörði á hátíðinni í Jerúsalem, enda höfðu þeir sjálfir sótt hátíðina. Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki.“ Konungsmaður bað hann: „Herra, kom þú áður en barnið mitt andast.“ Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“ Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi. Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Þetta var annað táknið, sem Jesús gjörði, þegar hann kom frá Júdeu til Galíleu.

Hugleiðing
Setjum okkur fyrir sjónir að þetta atvik sem greint er frá í ritningarlestri dagsins hefði átt sér stað á Íslandi í dag. Konungsmaðurinn lagði á sig 35 kílómetra ferðalag til að koma á fund Jesú. Hvernig myndi þetta hljóma á forsíðu DV í dag (bætum við 100 km á bílaöld): Bæjarstjórinn ók 135 km til að biðja trésmið um að lækna son sinn! Líklega ætti þessi sami bæjarstjóri sér ekki viðreisnar von í næstu sveitastjórnarkosningum, hann væri álitinn vera sem hvert annað fífl.

En þessi konungsmaður hafði þetta hugrekki til að bera og braut odd af oflæti sínu og hirti ekkert um háð samborgara sinna. Þrátt fyrir þetta lét Jesú reyna á trú mannsins og gekk úr skugga um einlægni hans. Konungsmaðurinn trúði og stóðst prófið og var reiðubúinn að hverfa heim í trú og sá að sonur hans var á lífi. Iðulega reynir Jesú okkur með þessum hætti enn í dag, yfirleitt til að reyna á trú okkar. Ert þú reiðubúin[n] að trúa orðum Jesú og gera það sem hann býður þér að gera?

  07:56:15, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1366 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Lífsvernd og skuggi nasismans

Eftirfarandi grein, „Lífsvernd og skuggi nasismans,“ var samin af ítalskri konu sem starfar sem prófessor við „La Sapienza háskólann í Róm. Hér dregur hún saman kenningar Romano Guardini (1885-1968) um lífsvernd og tæknifrjóvganir.

Grein sína skrifaði hún sökum þess að þann 12. júní 2005 var lagt fram breytingarákvæði við lög númer 40/2004 sem takmörkuðu mikið rétt til tæknifrjóvgana á Ítalíu. Breytingarákvæðin miðast einnig við víðtæka útvíkkun réttarins til fóstureyðinga.

Benedikt páfi XVI hefur einmitt lagt áherslu á það við ótalmörg tækifæri að kenningar Romano Guardinis hafi haft djúpstæð áhrif á sig og hann hafi svo að segja mótast af kenningum hans ásamt kenningum þeirra Möhlers, Newmans, Scheebens, Rosminis, de Lubacs, og von Balthasars.

Þann 7. maí 2005, eða sama daginn og Benedikt páfi XVI var settur inn í embætti mátti sjá endurútgáfu á einum fyrirlestra Romanos í hillum ítalskra bókaverslana: „Rétturinn til lífs fyrir fæðingu.“

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

25.03.06

  15:18:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 383 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

En armar krossins merkja ást Guðs

Guðspjall Jesú Krists sunnudaginn 26. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 3. 14-21

Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf Son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki Soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann. Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur, því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs Sonarins eina. En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð."

Hugleiðing
En þá er krossinn er upp reistur, þá stendur hann sumur fastur í jörðu, en sumur er hann í lofti, því að Kristur samtengdi himneska hluti og jarðlega, þar er hann sætti jarðlega menn við sig og engla sína. Rétti hann frá sér báðar á krossinum, því að hann býður faðm miskunnar sinnar öllum þeim, er hann elska. Ina hægri hönd rétti hann, því að hann leysti alla sína vini úr helvíti og laðaði þá með sér til eilífrar dýrðar. Ina vinstri hönd rétti hann, því að hann kallar marga óverða til sinnar miskunnar og hreinsar þá fyr iðrun. Sá hlutur krossins, er upp var frá höfði Drottins, merkir von, er vér skulum vætta upp frá oss til himna og umbunar fyr allt gott, það er vér gerum. En armar krossins merkja ást Guðs og menn.
Sá hluti krossins, er efstur er, merkir enn Guðs ást, en armarnir náunga elsku, bæði við vini og við óvini. [1]

[1]. Hómilíubók, De sancta cruce, bls. 52-53.

1 ... 35 36 37 ...38 ... 40 ...42 ...43 44 45 46

Síðustu athugasemdir

Síðustu pistlar

Kirkju.net er óháð vefrit sem inniheldur aðallega efni tengt kaþólskri trú en einnig um trúmál almennt. Markmiðið er að miðla fróðleik og stuðla að skoðanaskiptum og umræðu innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi sem og að kynna kaþólsku kirkjuna fyrir þeim sem utan hennar eru. Aðalsíða vefritsins sækir pistla inn á bloggsíður og skrifa höfundar hvers bloggs pistla sem hafa kaþólskt eða annað trúarlegt efni sem meginþema. Skoðanir settar fram í pistlunum eru höfundanna sjálfra og ber ekki að túlka þær sem skoðanir trúfélaga eða annarra bloggara. Höfundar bera ábyrgð á efni sem þeir birta á sínu bloggi. Athugasemdir við pistlana eiga að vera á íslensku, málefnalegar og fullt nafn höfundar á að koma fram. Athugasemdum er ritstýrt af höfundi hvers bloggs fyrir sig. Gestapennar innan eða utan kaþólsku kirkjunnar eru einnig velkomnir að senda inn greinar sem eru birtar undir „Ýmsir höfundar.“

Leit

Flokkur

Sr. Denis O'Leary

Kirkjuvefbók Ragnars

Jón Valur Jensson

Ýmsir höfundar

Jón Rafn Jóhannsson

Kirkju.net

No Item object found. Cannot display widget "Item Info Line".
blog engine