Blaðsíður: 1 ... 33 34 35 ...36 ... 38 ...40 ...41 42 43 ... 46

04.05.06

  22:34:09, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 113 orð  
Flokkur: Bænir

Fagna þú, drottning himinsins, allelúja.

Fagna þú, drottning himinsins, allelúja.
Því að hann, sem þér veittist sú náð að ganga með, allelúja.
Hann er upprisinn, svo sem hann sagði, allelúja.
Bið þú Guð fyrir oss, allelúja.
Fagna þú og gleðst, heilaga María mey, allelúja.
Því að Drottinn er vissulega upprisinn, allelúja.

Látum oss biðja: Guð, þú sem af miskunn þinni hefur látið upprisu Sonar þíns, Drottins vors Jesú Krists verða heiminum til fagnaðar, unn oss þeirra náðar, að við sakir fyrirbæna hinnar heilögu meyjar, Móður hans, fáum að njóta fagnaðar eilífa lífsins. Fyrir hinn sama Krist, Drottin vorn. Amen.

03.05.06

  23:19:36, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 333 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hvernig hefur Guð látið menn vita að hann væri til?

Guð hefur látið menn vita, að hann væri til:
1. með hinum sýnilega heimi;
2. með rödd samviskunnar;
3. en einkum með yfirnáttúrlegri opinberun.

1. Hús getur ekki byggt sig sjálft. Miklu síður getur hin mikla alheimsbygging með sínum dásamlega útbúnaði hafa orðið til af sjálfu sér. Alvitur og almáttugur skapari hlýtur að hafa gjört hana. Þess vegna kemst heilög ritning svo að orði:

"Himnarnir segja frá Guðs dýrð og festingin kunngjörir verkin handa hans." (Sám.18,2).

"En spyr þú skepnurnar og þær munu kenna þér, fugla loftsins og þeir munu fræða þig, eða jörðina og hún mun svara þér og fiskar hafsins munu segja þér það: Hver þekkti ekki á öllu þessu, að hönd Drottins hefur gjört þetta." (Job.12,7).

"Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til." (Sálm.13,I)

2. Í hverri mannssál er rödd, sem segir okkur hvað gott sé og hvað illt. Ef við gerum eitthvað gott hrósar hún okkur, en ef við höfumst eitthvað illt að ávítar hún okkur. Þessa rödd nefnum við samvisku. Við höfum eigi gefið okkur samviskuna sjálfir, og getum heldur eigi látið hana hætta að segja okkur til þó við vildum, að minnsta kosti ekki að fullu og öllu. Hvaðan kemur hún? Hún kemur frá Guði, sem hefir ritað lögmál sitt í hjörtu okkar manna. Þess vegna segir hl. Páll postuli um heiðingjana:

"Þeir sýna, að verk lögmálsins er ritað í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber vitni." (Róm.2,15)

3. Í opinberuninni fáum við fullkomna þekkingu á Guði, þess vegna segir hl. Jóhannes guðspjallamaður:

"Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eingetni, sem er í skauti Föðurins hefur lýst honum." (Jóh. I,18).

Guð hefur staðfest opinberunina með óteljandi kraftaverkum.

  00:06:33, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 112 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

SAMVISKAN

1776. "Djúpt í samvisku sinni uppgötvar maðurinn lögmál sem hann hefur ekki sett sér sjálfur en er knúinn til að fylgja. Rödd þess, sem ætíð hvetur hann til að elska og að gera það sem gott er og forðast hið illa, hljómar í hjarta hans þegar þess er þörf…. Því maðurinn hefur í hjarta sér lögmál ritað af Guði…. Samviskan er leyndasti kjarni mannsins og helgidómur hans. Þar er hann einn með Guði sem lætur rödd sína óma í djúpum hans." [47]

___

47 GS 16.
___

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

02.05.06

  18:24:30, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 659 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net

Hin ótrúlega auðlegð greinarskrifa Jóns Rafns

Mestu og dapurlegustu tíðindin í ritunarsögu Kirkjunetsins á þessu vori eru án alls efa þau, sem lesendur urðu áskynja um við lestur á grein Jóns Rafns Jóhannssonar: Kveðjuorð – en óvenjulítil virkni í skrifum hefur ríkt hér síðan þá. Það eru greinileg umskipti frá því sem var.

Þegar menn fara inn á greinayfirlit Jóns Rafns á Kirkjunetinu, verður þeim kannski fyrst fullljós sú ótrúlega auðlegð sem hann hefur látið hér eftir sig. Á því yfirliti – sem er um leið handhægur lykill að öllum skrifum hans hér – er að finna hvorki fleiri né færri en 149 greinar frá því að hann byrjaði þann 23. janúar á þessu ári 2006 (með grein, sem bar hið táknræna nafn: Hin heilaga arfleifð). 149 greinar á 95 dögum, þótt helgarnar séu taldar með!

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

01.05.06

  23:11:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 193 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

Trú og vísindi

159. (283, 2293) Trú og vísindi: “Enda þótt trúin sé ofar skynseminni getur aldrei verið um að ræða neitt raunverulegt ósamræmi milli trúar og skynsemi. Úr því að það er hinn sami Guð sem setur í mannlegan huga ljós skynseminnar og opinberar leyndardóma og gefur trúna, getur Guð ekki afneitað sjálfum sér, og sömuleiðis getur sannleikur ekki andmælt sannleika.” [37] “Kerfisbundin rannsókn á öllum sviðum þekkingar, sé hún gerð á sannan vísindalegan hátt og virðir grunnreglur siðferðis, getur aldrei strítt á móti trúnni vegna þess að það sem heyrir til heiminum og það sem heyrir til trúnni á rætur að rekja til hins sama Guðs. Sá sem er auðmjúkur og þolinmóður í rannsóknum sínum á leyndarmálum náttúrunnar er á vissan hátt, þrátt fyrir hvað hann sjálfur gerir, svo að segja undir handleiðslu Guðs, því það er Guð, verndari allra hluta, sem gerði þá að því sem þeir eru.” [38]
__

37 Dei Filius 4: DS 3017.
38 GS 36 § 1.
__

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

  16:33:34, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1846 orð  
Flokkur: Samfélagsréttindi, kjaramál, Nýbúar og innflytjendur

Til hamingju með daginn, 1. maí – Verkalýðsbarátta og frjálst flæði vinnuafls

Öllu launafólki á Íslandi eru hér með sendar heilla- og hamingjuóskir í tilefni dagsins, 1. maí. Sá dagur hefur lengi verið hátíðisdagur verkalýðsins, sem fylkir þá liði til samstöðu, til eflingar bræðralags vinnandi stétta og til að bera fram baráttukröfur sínar fyrir mannsæmandi kjörum og betra þjóðfélagi. Hyggjum nú að ýmsu sem um er rætt og deilt í þessu sambandi, en víkjum fyrst nokkrum orðum að afstöðu kaþólsku kirkjunnar til verkalýðsbaráttunnar.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  07:34:10, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 181 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Filippseyskir biskupar skrifa vefbækur

Nokkrir fillippseyskir biskupar halda úti vefbókum þar sem þeir færa inn hugleiðingar sínar. Mgr. Jose R. Manguiran, biskup í Dipolong heldur úti vefritinu „The Meaning“, „Viewpoints“ er dagbók mgr. Oscar V. Cruz, erkibiskups í Lingayen-Dagupan. „Tidbits“ heitir svo vefbók mgr. Leonardo Medroso, biskups í Borongan. Vefsíðu biskuparáðs Filippseyja má finna á vefslóðinni http://www.cbcponline.net/, en á þeirri síðu má m.a. finna hugleiðingar forseta ráðsins Angel N. Lagdameo erkibiskups í Jaro. Hann er einnig með vefbók á slóðinni http://abplagdameo.blogspot.com/. Fleiri biskupar eru einnig með vefbækur. Þar má nefna erkibiskupinn Orlando B. Quevedo, O.M.I. á vefslóðinni http://abpquevedo.blogspot.com/. Á slóðinni http://archbishopcapalla.blogspot.com/ má svo finna vefbók Capalla erkibiskups.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

27.04.06

  09:02:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 128 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Kveðjuorð

Kæru lesendur! Sökum bágs heilsufars og að ráði læknis læt ég nú af skrifum mínum hér á kirkju.net. Þá fáu mánuði sem skrif mín hafa staðið yfir hafa þau óhjákvæmilega krafist bæði tíma og orku, og þannig haft truflandi áhrif á meginverkefni mitt sem er að þýða rit hina heilögu Karmels. Ég óska kirkju.net alls velfarnaðar í framtíðinni.

Ég vil nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þakklæti til þeirra sem sent hafa mér hlý orð og hugsanir vegna skrifa minna. Framvegis mun ég birta greinar og hugleiðingar um lífsverndarmál á Vefrit Karmels.

Guð blessi ykkur öll,

Jón Rafn Jóhannsson ocds.

26.04.06

  23:11:49, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 510 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

LEIÐIR TIL AÐ KOMAST TIL ÞEKKINGAR Á GUÐI

31. Sköpuð í mynd Guðs og kölluð til að þekkja hann og elska uppgötvar sú persóna sem leitar Guðs vissar leiðir til að komast til þekkinga á honum. Þær eru einnig kallaðar sannanir fyrir tilveru Guðs, ekki að þær séu sannanir líkt og fást í náttúruvísindum, heldur í merkingu “samstæðra og sannfærandi röksemda” sem gera okkur kleift að öðlast vissu um sannleikann. Þessar “leiðir” til að nálgast Guð í sköpunarverkinu hafa tvo útgangspunkta: efnisheiminn og hina mannlegu persónu.

32. (54, 337) Heimurinn: út frá hreyfingu, tilurð, óvissu og skipulagi og fegurð heimsins getur maður komist til þekkingar á Guði sem upphaf og sem endir alheimsins. Eins og heilagur Páll segir um heiðingjanna: Það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. Guð hefur birt þeim það. Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. [7] Og heilagur Ágústínus varpar fram þessari áskorun: Spyrjið fegurð jarðarinnar, spyrjið fegurð hafsins, spyrjið fegurð loftsins sem þenst og blæs, spyrjið fegurð himinsins… spyrjið allt þetta. Öll svara þau: “Sjáið hve fögur við erum.” Fegurð þeirra er játning [confessio]. Þessar fegurðir eru háðar breytingum. Hver gerði þær ef ekki sá hinn Fagri [Pulcher] sem ekki er breytingum háður? [8]

33. (1730, 2500, 1776, 1703, 366) Hin mannlega persóna: Í einlægni gagnvart sannleika og fegurð, í skynjun sinni fyrir því sem er siðferðilega rétt, í frelsi sínu og fyrirrödd samvisku sinnar, í löngun sinni eftir hamingjunni og því óendanlega, spyr maðurinn sjálfan sig um tilveru Guðs. Í öllu þessu greinir hann merki um sína andlegu sál. Sálin, sem er “frjókorn eilífðarinnar er við berum í okkur og er óumbreytanleg gagnvart því sem er efnislegt,” [9] getur einungis átt uppruna sinn í Guði.

34. (199) Heimurinn og maðurinn bera vott um það að hvorugir geyma þeir í sér upphaf sitt eða endalok en að þeir eigi hlut í Verunni sjálfri sem ein á hvorki uppruna né endi. Á þennan hátt, eftir ólíkum leiðum, getur maðurinn komist til þekkingar á því að til er veruleiki sem er frumorsök og endimark allra hluta, veruleiki “sem allir kalla Guð”. [10]

35. (50, 159) Skilningarvit mannsins gerir honum kleift að komast til þekkingar á tilveru hins persónulega Guðs. En Guð vildi opinbera sig manninum til að hann gæti gengið til náins samneytis við sig og hann gaf honum náðina til að taka á móti þessari opinberun í trú. Sönnun fyrir tilveru Guðs getur eigi að síður vakið manninn til trúar og hjálpað honum að sjá að trúin stríðir ekki gegn skynseminni.
__

7 Rm 1:19-20; sbr. P 14:15, 17; 17:27-28; SS 13:1-9.
8 Hl. Ágústínus, Sermo 241, 2..PL 38, 1134.
9 GS 18 § 1; sbr. 14 §2.
10 Hl. Tómas frá Akvínó, STh 1, 2, 3.

__

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

  22:55:05, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 446 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk

Skilningur á Ritningunni

115. Samkvæmt fornum trúarhefðum má hafa tvenns konar skilning á Ritningunni: bókstaflegan og andlegan. Sá andlegi greinist í allegórískan, siðferðilegan og anagógískan skilning. Hið djúpstæða samræmi sem er á milli þessara fjögurra skilninga tryggir hinni lifandi túlkun Ritningarinnar í kirkjunni alla auðlegð þeirra.

116. (110-114) Hinn bókstaflegi skilningur. Hann er merkingin sem orð Ritningarinnar hafa og biblíuskýrendur uppgötva eftir sönnum túlkunarreglum: “Allur annar skilningur á Heilagri Ritningu byggist á hinu bókstaflega.” [83]

117. (1101) Hinn andlegi skilningur. Þar eð fyrirætlun Guðs er ein, er það ekki einvörðungu texti Ritningarinnar sem getur verið tákn, heldur einnig þeir raunveruleikar og þeir atburðir sem hann fjallar um. 1. Hinn allegóríski skilningur. Við getum öðlast dýpri skilning á atburðum með því að þekkja merkingu þeirra í Kristi; þannig er gangan í gegnum Rauðahafið tákn um sigur Krists og einnig um kristna skírn. [84] 2. Hinn siðferðilegi skilningur. Atburðirnir sem Ritningin segir frá ætti að fá okkur til að breyta rétt. Eins og heilagur Páll segir voru þeir ritaðir “til viðvörunar oss”. [85] 3. Hinn anagósíski skilningur (gríska: anagoge, “leiðandi”). Við getum skoðað allan raunveruleika og atburði í ljósi eilífrar merkingar þeirra, að þeir leiði okkur í átt að sönnu föðurlandi okkar: þannig er kirkjan á jörðu tákn um hina himnesku Jerúsalem. [86]

118. Tvíhenda frá miðöldum dregur saman merkingu hinna fjögurra skilninga: Bókstafurinn talar um gjörðirnar; allegórían um hvað skal trúa; Hið siðferðilega um breytnina; anagógían um hlutskipti okkar. [87]

119. (94, 113) “Það er hlutverk biblíuskýrenda að starfa í samræmi við þessar reglur til að auka skilning og skýra betur merkingu Heilagrar Ritningar þannig að rannsóknir þeirra aðstoði kirkjuna við að kveða upp fastmótaðri dóma. Því að allt sem hefur með túlkun Ritningarinnar að gera er að endingu háð dómi kirkjunnar en hjá henni er hið guðdómlega umboð og þjónusta að hafa eftirlit með Orði Guðs og túlka það.” [88] Ég tryði ekki á guðspjallið hefði myndugleiki kaþólsku kirkjunnar ekki fengið mig til þess. [89]

______

83 Hl. Tómas frá Akvínó, Sth I, 1, 10, ad 1.
84 Sbr. 1Kor 10:2.
85 1Kor 10:11; sbr. Heb 3-4:11.
86 Sbr. Opb 21:1-22:5.
87 Lettera gesta docet, quid credas allegoria, moralis quid agas, quo tendas anagogia. Ágústínus frá Dacia, Rotulus pugillaris, I: útg. A. Walz: Angelicum 6 (1929) 256.
88 DV 12 § 3.
89 Hl. Ágústínus, Contra epistolam Manichaei, 5, 6: PL 42, 176.

______

Hérna er að finna Tkk.
http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

25.04.06

  16:30:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 169 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

“Ég hef mína barnatrú!”

Oft gerist það að fólk sem fann sterkan kærleika til Guðs sem börn, kemst að því sem fullorðið fólk að Guð er ekki lengur mikilvægur. Það sem gerist er að skilningur einstaklingsins á Guði vex ekki og þroskast í samræmi við hærri aldur. Þegar maðurinn nær svo fullorðinsaldri hefur hann enn hugmynd barnsins um Guð í huga sér og heldur að Guð sé einungis fyrir börn.

Heilagur Páll postuli segir: "Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn."

Við verðum að biðja Guð um að skilningur okkar á honum vaxi og þroskist. Sem fullorðnir einstaklingar eigum við að leggja barnslegar hugmyndir um Guð til hliðar og setja þroskaðar hugmyndir í þeirra stað. Því Guð er einnig mikilvægur fyrir okkur fullorðna fólkið!

  16:14:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1876 orð  
Flokkur: Fólksfækkunarvandamálið

Í skugga Hitlers og Himmlers: Um útrýmingu „undirmenna“ og ræktun „ofurmenna“

Hvernig er þetta annars, tapaði Hitler ekki stríðinu? Jú, að vissu leyti, en ekki öllu: Hugsjónin lifir áfram. Á Vesturlöndum birtist hún í saklausu orðasambandi sem stjórnmálamenn taka sér gjarnan í munn og heitir „undir sérstökum kringumstæðum. “ Á hinum tólf myrku árum valdaskeiðs Þriðja ríkisins nefndist þetta „sértækar aðgerðir“ sem fólust í fóstureyðingum, líknarmorðum, geldingum og þjóðarmorði. Meðal nautnasjúkra hedónista vestrænna velferðarríkja birtist hinar „sértæku aðgerðir“ nú um stund í mynd skefjalausra fóstureyðinga. Í reynd hafa þær gengið svo langt að þær hafa raskað öllum fólkspýramídanum, það er að segja þurrkað út heilu aldursflokkana. Þetta þýðir að brátt verður komið að öðru stigi hinna „sértæku aðgerða.“ Hér á ég við líknarmorðin. Til þess að nautnasjúk kynslóð hedónistanna geti keypt sér stundargrið, gæti þetta falist í því að byrja á að því að deyða ömmurnar og afanna – jú, sjáið þið til, skattabyrðin er orðin allt of þung og er bókstaflega að sliga okkur. Í reynd er þetta þegar byrjað í Hollandi, að sjálfsögðu allt undir merkjum manngæsku. Síðan mætti halda enn lengra áfram og „líkna“ veiku fólki og fötluðu og ef það hrekkur ekki til, þá foreldrunum þegar þau eru komin yfir ákveðið aldurstakmark (að sjálfsögðu allt samkvæmt laganna hljóðan, ekki ætlum við nú að fara að brjóta lög, er það?).

Vitið þið elskurnar mínar að ég ráðlegg ykkur að kaupa ykkur fiðlu. Fiðlu, hvað kemur hún þessu máli við? Jú, nýlega birtist skopmynd af forsætisráðherra Lýðveldisins Íslands í miðjuopnu Blaðsins. Hann var afar þungbúinn á svipinn – en það er hann reyndar alltaf – og við hlið hans mátti sjá rauðan kassa með gleri og fiðlu fyrir innan. Á kassanum stóð: Notist einungis í neyðartilfelli. Þið munið jú eftir sögunni af Neró rómarkeisara sem lék á slaghörpu meðan Róm brann, er það ekki? Gleymið ekki að kaupa fiðlubogann, að öðrum kosti kemur fiðlan að litlum notum. Það er hollt fyrir sálina að leika á fiðlu þegar öll börnin, sjúkir og fatlaðir, pabbar og mömmur og afar og ömmur og allir þessir óæskilegu og skuggalegu útlendingar eru horfin af sjónarsviðinu til að vinna bug á tómleikatilfinningunni.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

24.04.06

  22:39:14, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 125 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Til hvers erum við hér á jörðunni?

Við erum hér á jörðunni til þess að þekkja Guð, elska hann og þjóna honum, þ.e.a.s. að við erum hér á jörðunni til þess að gera Guðs heilagan vilja; og komast á þann hátt til himnaríkis.

Einasta markmið okkar er: Að komast til himnaríkis, til Guðs, Föður vors.

Það var einmitt það, sem Frelsari okkar átti við, þegar hann sagði við Mörtu: "Eitt er nauðsynlegt" (Lúk. 10,42), og þegar hann sagði við lærisveina sína: "Því að hvað mun það stoða manninn, þótt hann vinni allan heiminn, en bíði tjón á sál sinni " (Matt. 16,26).

Vegurinn að þessu markmiði er að gera Guðs vilja.

  16:17:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 680 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna

Guðspjall Jesú Krists þann 25. apríl er úr Markúsarguðspjalli 16. 14-20

14 Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. 15 Hann sagði við þá: „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. 16 Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða. 17 En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, 18 taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.“ 19 Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði. 20 Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna, en Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum, sem henni fylgdu.]

Hugleiðing
Í mörgum kirkjum Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar er 25. apríl valinn til að heiðra minningu Markúsar guðspjallamanns. Guðspjall hans er styst þeirra allra og að mörgu leyti sérstakt og virðist vera þeirra elst. Það er ritað á grísku og líklega í Rómaborg þar sem Markús var samstarfsmaður Péturs. Það er þannig bæði skrifað fyrir frumkirkjuna í Róm og heiðna menn. Sumir hafa velt því fyrir sér hvers vegna guðspjallamennirnir voru fjórir, en ekki sex eða átta, eða þá bara tveir. Þegar á tímum hins Gamla sáttmála opinberaði Guð guðspjallamennina fjóra með hinum fjórum stólpum í innganginum að tjaldbúð Móse. Þetta hlið var að mörgu leyti einstakt í sinni röð:

Fyrir hliði forgarðsins skal vera tuttugu álna dúkbreiða af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, glitofin, með fjórum stólpum og fjórum undirstöðum (2 M 27. 16).

Breidd inngangsins gefur til kynna að enginn muni fara villu vegar sem gengur hingað inn ef hann fylgir boðorðum Guðs, hinn helga veg Guðs: „Þar skal vera braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er skal hana ganga. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki FÁRÁÐLINGUR“ (Jes 35. 8). Prestar Arons urðu að skríða á fjórum fótum undir dúkbreiðuna: Þetta er áminnin um auðmýktina frammi fyrir hinum Lifandi Guði.

Þessi helgi vegur er ekki fyrirhugaður hinum holdlega manni og vekur bæði meðaumkun og fyrirlitningu hins synduga eðlis sem er fjötrað í viðjar fáviskunnar, áhugaleysisins og gleymskunnar. Slíkar sálir hafa verið leiddar afvega í skóglendi skynrænna tálsýna og mennskra hugsmíða: Þær eru fórnardýr þessara þriggja miklu risa hjartans, eins og eyðimerkurfeðurnir nefndu þessa lesti sálarinnar: Fáviskuna, áhugaleysið og gleymskuna. Það er náðarkraftur guðspjallanna sem leggur þessa risa hjartans að velli og þá komum við auga á safírblámann, eins og Dante lýsti honum í hinum Guðdómlega gleðileik (Divina commedia):

Nú sá ég hvar úr sorta hátt sig teygði
hinn safírblái ljómi á himins enni
og dýrðarsviðið fyrsta augum eygði. [1]

Sú sál sem hefur verið leyst úr viðjum fáviskunnar, gleymskunnar og áhugaleysisins sér hinn helga veg þegar hún mænir til Síonar, borgar gleðinnar. Hún gerir sér ljóst að hún hefur þegar orðið aðnjótandi náðar og að það sé hér sem „hinn halti mun létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum“ (Jes 35. 6).

[1]. „Hreinsunareldurinn,“ I. 13-16. Í þýð. Guðmundar Böðvarssonar.

  05:42:28, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 150 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net

Gagnleg yfirlit vefsíðna á Kirkju.net

Skráasafn skjalageymslu nefnast nokkrar vefsíður hér á Kirkju.net. Þar er hægt að finna handhægan og (a.m.k. enn sem komið er) tæmandi lista yfir þær greinar, sem hver og einn meðlimur hópsins hefur lagt fram á vefsetur þetta (að undanskildum athugasemdum hjá hinum höfundunum). Yfirlitin eru hjá hverjum höfundi fyrir sig og ágætt að hafa aðgang að þeim hér, ýtarlegri en sést á spássíuyfirlitinu á þessari vefsíðu. Flettið upp við hvert nafn:

Sr. Denis O'Leary: http://www.kirkju.net/index.php/denis?disp=arcdir
Ragnar Brynjólfsson: http://www.kirkju.net/index.php/ragnar?disp=arcdir
Jón Valur Jensson: http://www.kirkju.net/index.php/jon?disp=arcdir
Jón Rafn Jóhannsson: http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn?disp=arcdir
Kirkju.net, allar greinar: http://www.kirkju.net/index.php?disp=arcdir

  00:33:05, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 23 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Biðjið eins og allt sé háð Guði en starfið eins og allt sé háð ykkur

"Biðjið eins og allt sé háð Guði en starfið eins og allt sé háð ykkur."
Eignað hl. Ignatíusi frá Loyola.

  00:08:37, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 74 orð  
Flokkur: Bænir

TIL HEILAGS JÓSEFS

Heilagur Jósef,
bið þú með oss fyrir söfnuði vorum,
að Guð gefi oss lifandi og sterka trú;
að vér störfum og stöndum saman í kærleika;
að allir þeir, sem tilheyra söfnuði vorum fyllist áhuga
og vilja til að sækja heilaga messu
og taka þátt í safnaðarlífinu,
svo að vér megum bera fagnaðarboðskap Krists verðugt vitni
í orðum og gerðum. Amen.

23.04.06

  16:08:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 730 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Yður ber að fæðast að nýju.

Guðspjall Jesú Krists þann 24 apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 3. 1-8

1 Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga. 2 Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: „Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum.“ 3 Jesús svaraði honum: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.“ 4 Nikódemus segir við hann: „Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“ 5 Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda. 6 Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi. 7 Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju. 8 Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur.“

Hugleiðing
Þessi ritningarkafli er í einstöku uppáhaldi hjá mér sjálfum. Ákveðnar ástæður búa þessu að baki. Fyrir tæpum 30 árum þegar ég var sjálfur að taka mín fyrstu skref í hugleiðslu dvaldi ég í fransiskanaklaustri í Þýskalandi í vikutíma. Tímanum var varið til að íhuga þennan kafla. Daglega komu síðan guðfræðiprófessorar héðan og þaðan frá ýmsum háskólum og vörpuðu ljósi á textann. Í klausturlandinu var yndislegur skógur sem menn gengu svo um og íhuguðu. Feðurnir sögðu okkur að mörg skáld hefðu „fæðst“ í þessum skógi, það er að segja fólk sem aldrei hafði gert sér ljóst að það væri þess umkomið að geta samið ljóð.

Setjum okkur fyrir sjónir hvernig þeir standa þarna saman í kvöldkyrrðinni, Drottinn og Nikódemus, og ræða saman um leyndardóm Guðsríkisins. Þrátt fyrir að Nikódemus sé ráðherra af flokki farísea mætir hann Frelsaranum með opnum huga og hlustar hugfanginn á það sem hann hefur fram að færa um hið nýja líf í Heilögum Anda. Það var síðar hann sem lagði til gröfina þar sem undur upprisunnar átti sér stað. Við skulum heyra hvernig hl. Jóhannes af Krossi vék að þessum leyndardómi:

„Þetta ber að skilja sem svo að það sem sálin nefnir hér dauða er allt það sem felst í hinum gamla manni, öll binding sálarkraftanna, það er að segja minnisins, skilningsins og viljans, við hluti þessa heims og gleði langananna í fullnægja hins skapaða [hedonisminn]. Allt er þetta ummerki um hið gamla líf sem hefur deyðandi áhrif á hið nýja og andlega líf. Sálin er þess ekki umkomin að lifa með fullkomnum hætti í þessu nýja og andlega lífi, ef hinn gamli maður deyr ekki fullkomlega. Postulinn flytur þessi varnaðarorð: Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni . . . og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er í Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans (Ef 4. 22, 24). Í þessu nýja lífi sem við erum að fjalla um hérna þegar sálin hefur öðlast hlutdeild í hinni fullkomnu sameiningu við Guð, eru allar tilhneigingar og hræringar sálarkraftanna og langananna orðnar guðdómlegar, en í eigin mætti er starfsemi þeirra dauðleg og án hins andlega lífs“ (Logi lifandi elsku 2. 33).

Við ættum öll að keppa eftir því að mæta Drottni í kvöldkyrrð bænarinnar og biðja hann um að gefa okkur hlutdeild í þessu nýja lífi. Það mun hann svo sannarlega gera eins og hl. Elísabet af Þrenningunni benti á: „Hin eina hræring hins Alhelga hjarta Jesú er að uppræta syndina og leiða okkur til síns himneska Föður.“ Það var af þessum sökum sem hann leið píslir og úthellti blóði sínu á fórnarhæð krossins. Amen.

  09:48:39, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2199 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju, Apologetica – kristin trúvörn

Smáborgara svarað um kröfur samkynhneigðra

Eftirfarandi grein sendi ég Blaðinu þann 27. janúar sl., en af einhverjum ástæðum hefur ekki þótt henta að birta greinina né að svara bréfi mínu. Er þetta alls ekkert einsdæmi, þegar um er að ræða skrif eða yfirlýsingar þar sem gagnrýni er haldið uppi á stefnuna í málum homma og lesbía, sbr. grein mína Af óhlutdrægni fjölmiðla um málefni samkynhneigðra [1]. ––JVJ.

'Smáborgari' Blaðsins tekur oft hressilega á málum. 16/1 kýs hann að ræða réttindakröfur samkynhneigðra – skoðar fyrst, um hvað deilurnar standi, og fer í gegnum það lið fyrir lið. Í 1. lagi segir hann um aukin réttindi þeirra skv. frumvarpi ríkisstjórnarinnar: "Sjálfsagt" [2]. Þetta var karlmannlega mælt og sjaldan verið beitt jafn-snaggaralegri röksemd. En meðal þeirra réttinda-tillagna, sem hann renndi svo léttilega fram hjá, eru frumættleiðing og tæknifrjóvgun lesbía, ásamt því ákvæði að þær fái að leyna börn sín faðerninu, þrátt fyrir sjálfa grundvallargrein Barnalaganna 2003 sem kveður á um rétt allra barna til að þekkja báða foreldra sína. En í EB-löndunum telja einungis 40% manna, að samkynhneigðir eigi að fá að ættleiða börn, en 60% ekki. Í Noregi vilja 39% leyfa það, en 61% ekki, þannig að ekki er þetta "sjálfsagt mál" í þeim löndum. [3]

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  07:06:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1094 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Annað opið bréf til Þórðar Sveinssonar, formanns ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði

Þórður, gleðilegt sumar. Sem verandi jafnaðarmaður sjálfur léttir mér að heyra að þú teljir einstaklinginn búa yfir siðferðiskennd. Þetta er það atriði sem hefur ávallt aðskilið lýðræðissinnaða jafnaðarmenn frá sósíalfasismanum. Það er vafalaust óþarft að minna þig á, hversu hörmulegar afleiðingar það hafði í Rússlandi, þegar kommúnistar sviptu þjóðina þeim lýðræðislegu réttindum sem jafnaðarmannastjórn Kerenskis hafði komið á eftir fall keisarastjórnarinnar forðum sem varð til þess að 200 milljónum mannslífa var fórnað undir ógnarstjórn Sovétfasismans. Þetta var sökum þess að jafnaðarmenn sofnuðu á verðinum.

Ég er líka hjartanlega sammála þér þegar þú víkur að mikilvægi þess að huga betur að félagslegri aðstoð við konur. Þetta er einmitt það sem olli straumhvörfum í Bandaríkjunum í umræðunni um fóstureyðingar. Það er heldur ekki rétt eins og svo iðulega er haldið fram hér heima, að umræðan um fóstureyðingar einskorðist við íhaldssama repúblikana. Umræðan gengur langt inn í raðir demókrata.

Fullyrðingar stuðningsmanna fóstureyðinga hefur grundvallast á tveimur lygum. Annar er sá að fóstureyðing feli einungis í sér að „vefjavöndull“ sé fjarlægður úr konunni. Hinn að þær séu öruggar. Staðreyndirnar tala þvert á móti sínu máli og eru studdar fjölda marktækra vísindalegra rannsókna.

Við fóstureyðingu ganga foreldrar í gegnum sorgarferli sem er áþekkt því þegar náinn ættingi andast snögglega. Þúsundir harmi lostinna mæðra og feðra eru þegar tekin að tjá afstöðu sína og andúð á „velgjörðarmönnum“ sínum. Ljóst er nú þegar að það eru ekki hin siðrænu rök gegn fóstureyðingum sem munu uppræta fóstureyðingarstórðiðjuna. Það er réttur konunnar sem þar mun ráða úrslitum. Hér er um dálitla kaldhæðni að ræða, þar sem stuðningsmenn fóstureyðinga hafa einmitt vísað mikið til þessa réttar. Fyrst og fremst felst þetta í því að konum verði ljós sú áhætta sem felst í fóstureyðingum, rétturinn til að hafa um fleiri valkosti að ræða og rétturinn til að höfða mál á hendur fóstureyðingarfyrirtækjum vegna þess að það eina sem þau hugsa um er bankainneignin.

Eins og ég sagði hafa fóstureyðingar á heimsvísu verið réttlættar með tveimur lygum. Víkjum örlítið nánar að fyrra atriðinu, að hér sé einungis um „vefjavöndul“ eða hvern annan ofvöxt í líkama sjálfrar konunnar að ræða, en ekki mannveru eða ófætt barn. Á síðustu tveimur áratugum hafa lífsverndarsinnar einbeitt sér að þessum fyrri lygum. Rannsóknir í Bandaríkjunum leiða í ljós að um 70% þeirra kvenna sem fara í fóstureyðingar telja að þær séu siðferðilega rangt athæfi, eða að minnsta kosti „óæskileg athöfn.“ (hér kemur siðferðiskenndin til málanna). Konurnar fara ekki í fóstureyðingu vegna þess að þær trúi því að hún sé rétt, heldur vegna þess að sökum þrýstings finnst þeim þetta eina leiðin sem þeim standi til boða. Ein af þeim „rangfærslum“ sem felast að baki „valfrelsisins“ felst í því að konunum finnst að ekki standi neitt annað til boða. Þær kjósa ekki fóstureyðingu í ljósi eigin samvisku, heldur þvert á móti í andstöðu við hana.

Víkjum að síðari lygunum: Öryggi fóstureyðinga. Hið andhverfa er þvert á móti raunin: Fóstureyðingar eru varhugaverðar. Meira en eitt hundrað alvarlegir fylgikvillar hafa verið raktir til fóstureyðinga sem rekja má til ólíkra þátta. Svo að einungis sé minnst á fátt eitt felst þetta í aukinni tíðni á brjóstakrabbameini, ófrjósemi, vandkvæðum á því að bindast síðari börnum tilfinningaböndum og alvarlegri röskun á kynlífi. Einnig má minnast á lifrarkrabbamein, hjálegsfóstur, sjálfsmorðsviðleitni og samskiptavandamál. Þetta síðast nefnda atriði hefur lamandi áhrif á konuna og gerir henni erfitt að umgangast ættingja, vini og jafnvel vinnufélaga. Allt hefur þetta orðið til þess að sýna fram á að „öryggi fóstureyðinga“ sé öfugmæli.

Þannig hefur almenningur í Bandaríkjunum smám saman vaknað til meðvitundar um það að fóstureyðingar séu ósættanlegur valkostur. Fólk trúði því lengi vel að sætta mætti sig við að deyða ófædd börn ef slíkt fæli í sér hjálp konunni til handa. Þegar þessir lygar lágu fyrir leiddi það til viðhorfsbreytingar hjá þeim „Jóni og Gunnu á götunni.“ EF FÓSTUREYÐINGAR VALDA KONUNNI SVONA MIKLUM ÞJÁNINGUM, HVERS VEGNA ERU ÞÆR ÞÁ FRAMKVÆMDAR Í SVO MIKLUM MÆLI? Ætli beinasta svarið felist ekki því að þannig velti ríkisvaldið af sér félagslegri ábyrgð sinni gagnvart velferð kvenna?

Þetta hefur orðið þess valdandi að viðhorfið til fóstureyðingarstóriðjunnar er orðið afar neikvætt eins og sjá má á skoðanakönnunum. Hér erum við komin að kjarna málsins sem allir sannir jafnaðarmenn ættu að bera fyrir brjósti: AÐ VERNDA BÆÐI KONUNA OG BARNIÐ. Höfum ávallt í huga að jafnaðarmönnum hefur auðnast að byggja upp mestu réttarríkin og velferðarríkin á jörðu: Hér á ég við Norðurlöndin og Þýskalandi. Norðurlöndin fimm nota krossfánann sem þjóðartákn. Höfum í huga að fjölmargir þeirra sem lögðu jafnaðarmannahreyfingunni lið í upphafi tuttugustu aldar komu úr kristinni kirkju, fólk sem hreifst af orðum Gamla testamentisins: „HANN REKUR RÉTTAR MUNAÐARLEYSINGJANS OG EKKJUNNAR OG ELSKAR ÚTLENDINGINN, SVO AÐ HANN GEFUR HONUM FÆÐI OG KLÆÐI“ (5 M 10. 18). Af þessum sökum er ég sjálfur jafnaðarmaður.

Ég bendi þér að lokum á eftirfarandi greinar máli mínu til stuðnings í skráarsafni mínu um Fóstureyðingar og vernd:

Fóstureyðingar hafa geðræn vandamál í för með sér
Níu rök gegn fóstureyðingum
Tíu svör til stjórnmálamanna sem styðja fóstureyðingar

22.04.06

  14:45:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 728 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, Sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.“

Guðspjall Jesú Krists sunnudaginn 23. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 20. 19-31

19 Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ 20 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin. 21 Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og Faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ 22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið Heilagan Anda. 23 Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.“ 24 En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. 25 Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Vér höfum séð Drottin.“ En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“ 26 Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ 27 Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“ 28 Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“ 29 Jesús segir við hann: „Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“ 30 Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. 31 En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.

Hugleiðing
Hér er okkur greint frá því hvernig Drottinn stofnaði kirkju sína á jörðu. Fyrst „andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið Heilagan Anda.“ „Lærisveinarnir voru saman,“ það er að segja EINING kirkjunnar er forsendan fyrir viðgangi og vexti kirkjunnar, Síðan segir hann: „Meðtakið Heilagan Anda.“ En Andinn kom ekki yfir þá með áþreifanlegum hætti fyrr en síðar, og enn er lögð áhersla á EINUNGUNA: „Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum.“ (P 1. 14). EININGIN er forsenda úthellingar Heilags Anda.

Drottinn felur þessu samfélagi einnig mikið vald á jörðu: „Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.“ Hann felur kirkju sinni lykla lífs og dauða. Enn í dag – tvö þúsund árum síðar er þessu varið með sama hætti. Sá sem lifir í EINUNGU samfélagsins er heimilt að þiggja sakramenti kirkjunnar vegna þess að hann hlýðir boðum hennar og trúarsetningum. Aðrir eru „settir út af sakramentinu“ sökum óhlýðni við lög kirkjunnar. Aðrir hafna þessu valdi kirkjunnar eða telja sig ekki þarfnast syndafyrirgefningar vegna þess að GUÐ SÉ DAUÐUR og þeir trúa ekki á gömul Gyðingaævintýri, eins og þeir komast að orði.

Þessu eiga fjölmargir nútímamenn erfitt með að trúa. Því er þeim leiddur efasemdamaðurinn Tómas fyrir augu. Tómas samþykkir ekki neitt nema það sem hann fær að snerta með eigin höndum og þreifa á. Hann lagði ekki trúnað á orð hinna lærisveinanna þegar þeir sögðust hafa séð Drottin. En Drottinn leyfir honum að snerta til að glæða trú þeirra um ókomna framtíð sem trúa einungis á það sem þeir geta þreifað á og þá fyrst trúði Tómas. Fyrir jarðneskum dómurum er vitnisburður vitna tekinn til greina í vitnaleiðslum og dómur kveðinn til samræmis við það. „En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, Sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.“

21.04.06

  20:34:56, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 450 orð  
Flokkur: Trúarbrögð í innbyrðis samskiptum og við veröldina, Islam og múslimar

Slæðubann í Frakklandi

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu á páskadag, 11. apríl 2004. Hún er að sjálfsögðu ekki ‘frétt’ tveimur árum seinna, og ekki greinir hún frá lyktum mála í þeim efnum sem hún fjallar um, né heldur núverandi ástandi. Engu að síður á þessi pistill, með fróðleiksmolum sínum, hér heima innan um greinar í möppunni 'Trúarbrögð í innbyrðis samskiptum og við veröldina'.

Viðhorfsgrein Kristjáns G. Arngrímssonar í Mbl. 31. marz 2004 um nýja löggjöf í Frakklandi var mjög upplýsandi. Því er ekki svo farið, sem margir hafa ímyndað sér, að verið sé að banna að bera islamskar slæður opinberlega, nei, ekki einu sinni í frönskum skólum almennt, heldur einungis í ríkisreknum barna- og unglingaskólum. Þar hafa múslimskar stúlkur flestar kosið að vera slæðulausar, en ofsatrúarmenn beitt þær móðgunum og líkamsmeiðingum til að þvinga þær til að bera slæðuna sem tákn trúar og undirgefni ....

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  15:11:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 551 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“

Guðspjall Jesú Krists þann 22. apríl er úr Markúsarguðspjalli 16. 9-15

9 Þegar hann var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar, birtist hann fyrst Maríu Magdalenu, en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. 10 Hún fór og kunngjörði þetta þeim, er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu. 11 Þá er þeir heyrðu, að hann væri lifandi og hún hefði séð hann, trúðu þeir ekki. 12 Eftir þetta birtist hann í annarri mynd tveimur þeirra, þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit. 13 Þeir sneru við og kunngjörðu hinum, en þeir trúðu þeim ekki heldur. 14 Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. 15 Hann sagði við þá: „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“

Hugleiðing
Veraldleg ríki koma sér upp sendiráðum, sendiherrum eða ræðismönnum í framandi löndum. Þeim er ætlað að standa vörð um hagsmuni ríkisins, veita upplýsingar og greiða götu þegna sinna á ókunnum slóðum og veita vegabréfsáritanir. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar sækja sérstök námskeið á vegum hennar til að geta gegnt stöðu sinni sem best og leitast er við að velja einungis hæfustu menn til starfsins.

Jesús fer svipað að í upphafi. Hann velur sér sína sendiherra í ljósi trúar þeirra og staðfestu. Það er kona sem hann velur sem sinn fyrsta sendiherra. Þetta er María frá Magdölum en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. Þessir sjö illu andar eru höfuðlestirnir sjö og þannig gat hún gegnt hlutverki sínu af trúmennsku. Því er miður að þetta er ekki sett sem skilyrði nú á dögum í mörgum kirkjudeildum. Menn geta gengið inn af götunni og hafið guðfræðinám á sínum eigin forsendum og án þess að hafa hina minnstu trú til að bera.

Þegar þeir svo hljóta „prestvígslu“ haldar þeir áfram að fara villu síns vegar og bera hinum trúuðu annarlegar kenningar sem eru þeirra eigin hugsmíðar og ófullkomleiki. Því miður eru fjölmörg dæmi um þetta á okkar dögum. Ef þeir störfuðu sem sendiherrar veraldlegra yfirvalda væru þeir ekki starfi sínu vaxnir og þeim væri vikið úr starfi fyrir afglöp. Nú á dögum opinberast Drottinn okkur í Heilögum Anda í fermingunni. Hlutverk allra kristinna manna er að boða fagnaðarerindið um allan heim. Þetta er það hlutverk sem Drottinn felur allri sinni stríðandi kirkju á jörðu. Þá sem eru lélegir eða óhæfir sendiherrar hans má auðveldlega þekkja úr vegna þess að þeir boða annarlegar kenningar sem eru ekki í neinni samhljóðan við kenningar heilagrar kirkju.

„Drottinn Jesús Kristur. Auk okkur trú á þér og krafti upprisu þinnar. Gef okkur náð til að verða að sönnum sendiherrum þínum á jörðu þangað til við förum heim til okkar sanna föðurlands“ (Fl 3. 20).

  12:02:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 738 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um kaþólska og lúterska dulúð

Hinn víðkunni, málglaði og orðhvati fríkirkjuprestur, séra Hjörtur Magni Jóhannsson, birtist á skjá NFS í gærkveldi (20. apríl) og lýsti með fögrum orðum ágætum og gildi hins gnóstíska rits Júdasarguðspjallsins, og taldi því einkum til ágætis að það væri dýrmætt kristinni kirkju sökum þess að það glæddi áhuga almennings á dulúðinni. Íreneus kirkjufaðir fjallaði sérstaklega um þetta rit í skrifum sínum sem dæmi um trúvillu gnóstikismans. Af orðum séra Hjarta Magna mátti skilja, að „stofnunarkirkjan“ hefði gengið að dulúðinni dauðri. Þvílík firra og rangfærslur.

Dulúðin er einhver dýrmætasti þáttur kristinnar trúararfleifðar sem hún hefur lagt rækt við frá upphafi vega og hefur alið af sér heilögustu menn og konur kristinnar kirkju í aldanna rás. Dulúðin er einnig það sem sameinar kaþólska menn og lúterska enn í dag með jafn afgerandi hætti og ávallt. Þannig hafa karmelítarnir í Svíþjóð mikið dálæti á lúterska djúphyggjumanninum og skósmiðnum Hjalmar Ekström og það er þeim að þakka, að ég komst sjálfur í kynni við rit hans sem standa karmelskri guðrækni afar nærri.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

20.04.06

  17:57:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 295 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Nýjar skoðanakannanir: Meirihluti Bandaríkjamanna vill gera fóstureyðingar ólöglegar

19. apríl 2006 (LifeSiteNews.com) – Meirihluti Bandaríkjamanna vill gera fóstureyðingar ólöglegar samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem gerð var fyrr í mánuðinum.

Þegar þeir voru spurðir að því hvort fóstureyðingar ættu ávallt að vera löglegar í flestum tilvikum, eða ólöglegar án undantekninga fyrir utan nauðganir, sifjaspell eða til að bjarga lífi móður, svöruðu 41% þessu svo, að fóstureyðingar ættu að vera ólöglegar með nokkrum undantekningum.

Einungis 27% svarenda sögðu að fóstureyðingar ættu „alltaf að vera löglegar,“ 19% svöruðu að fóstureyðingar ættu að vera löglegar í flestum tilvikum, en einungis 2% að þær ættu að vera ólöglegar undir öllum kringumstæðum, jafnvel þegar líf móðurinnar væri í hættu. 3% voru óákveðnir.

Bloomberg gerði könnunina fyrir Los Angeles Times, en hún fólst í símhringingum til 1357 fullorðinna Bandaríkjamanna frá 8. til 11. apríl 2006. Skekkjumörkin voru 3%

Niðurstöðurnar eru í samræmi við aðra nýlega könnun sem gaf til kynna að mikill meirihluti Bandaríkjamanna eru andvígir frjálsum fóstureyðingum.

Þessa umfangsmiklu skoðanakönnun gerði John Zogby og leiddi hún í ljós að 59% Bandaríkjamanna telja að fóstureyðing bindi enda á mannslíf. Einungis 29% voru þessu ekki samþykkir. Hjá svarendunum kom í ljós að lífsverndarsjónarmiðið varð ofan á í 16 af 20 spurningum.

Í Zogbykönnuninni voru spurningarnar 30 og svarendurnir 117 í 48 ríkjum og fór hún fram þann 10. til 14 mars 2006. Skekkjumörkin voru 0.6%

Sjá aðra umfjöllun hjá LifeSiteNews:

Umfangsmikil skoðanakönnun sýnir að meirihluti Bandaríkjamanna er hlynntur takmörkunum á fóstureyðingum:
http://www.lifesite.net/ldn/2006/mar/06032205.html

  17:03:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 780 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Drengir, hafið þér nokkurn fisk?“

Guðspjall Jesú Krists þann 21. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 21. 1-14

1 Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: 2 Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. 3 Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“ Þeir segja við hann: „Vér komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert. 4 Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús. 5 Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þér nokkurn fisk?“ Þeir svöruðu: „Nei.“ 6 Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir.“ Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. 7 Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík - hann var fáklæddur - og stökk út í vatnið. 8 En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum. 9 Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð. 10 Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða.“ 11 Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir. 12 Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir, að það var Drottinn. 13 Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. 14 Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.

Hugleiðing
Í arfsögnum Gyðinga voru þjóðir heimsins 153 að tölu. Fiskarnir tákna því þjóðir heimsins sem postulunum var fyrirhugað að veiða í net fagnaðarerindisins. Þegar hl. Silúan frá Aþosfjalli hugleiddi þennan texta á einni næturvaka sinna komst hann svo að orði:

Drottinn sagði við lærisveina sína: „Drengir, hafið þér nokkra fiska!“ (Jh 21. 5). Hvílík elska býr ekki að baki þessum ljúfu orðum: Drottinn kallar okkur „drengina“ sína. Hvað getur orðið okkur til meiri gleði? Við ættum að íhuga þessi orð með djúpstæðum hætti auk písla Drottins á krossinum sem hann tók á sínar herðar sökum okkar.
Æ, hversu mjög elskar ekki Drottinn sköpun sína!

Jóhannes veitir okkur dýrmæta innsýn inn í fyrirætlun Drottins í textanum. Pétur sem var óbreyttur fiskimaður var orðinn þreyttur á þessu öllu saman og hafði ákveðið að snúa heim til Galíleu að sinni fyrri iðju. Hann var sem sagt ráðvilltur og vissi ekki hvað hann átti að gera nú þegar Jesús var dáinn. Hérna sjáum við af hversu mikilli kostgæfni Drottinn hefur valið lærisveinana. Hvenær var það sem Pétri var boðið að snúa baki við netum sínum eftir aflalausa nótt og erfiði? Það var þegar Jesús hóf boðunarstarf sitt í Galíleu og kom til Péturs og bauð honum að fylgja sér (sjá Lk 5. 4-11).

Aflinn sem Pétur veiðir núna vex Íslendingum sem eru fiskveiðiþjóð ekki í augum, en í augum þessara fiskimanna var hann geysimikill. Það er núna sem Jesús opinberar honum köllun fyrirhugunar sinnar, að „veiða menn“ fyrir konungsríki Guðs. Eins og í upphafi hleypur Pétur umsvifalaust til Jesú. Guðspjallið greinir okkur frá því að Drottinn hefur fyrirhugað okkur öllum, hverju og einu, ákveðið hlutverk á pílagrímsgöngu okkar á jörðinni. Berð þú kennsl á Drottinn í þolraunum daglegs lífs, gleði og vonbrigðum? Drottinn er ætíð reiðubúinn til að endurnýja og styrkja trú okkar. Drottinn, auk okkur trú, gerðu okkur að trúföstum fiskimönnum ríkis þíns, að miklum aflamönnum. Okkar himneski Faðir væntir þess afla sem við færum honum í hendur, en nú á tímum fráfallsins mikla eru fiskimennirnir svo fáir og sá afli sem berst á land liggur undir skemmdum vegna þess að saltið hefur dofnað og glatað krafti sínum. Ég á við trú manna.

  06:29:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1756 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Opið bréf til Þórðar Sveinssonar, formanns Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði

Þórður Sveinsson sem kynnir sig með höfundarheitinu „Þórfreður“ á bloggsíðu sem „eldheitan félagshyggju-, lífsnautna- og gleðimann með brennandi áhuga á víni og konum,“ skrifar grein á bloggsíðu sína sunnudaginn 16. apríl s. l. sem hann nefnir „Sorglegt hugarfar.“ Greinin birtist einnig á mir.is sem er vefsíða Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði.

Þórður er augljóslega kurteis maður og orðfæri hans er allt annað en við höfum átt að venjast hér á vefsíðunni frá samkynhneigðum og stuðningsmönnum þeirra sem einkennst hefur af gífuryrðun og „slæmum munnsöfnuði.“ Í gamla daga hefðu kerlingarnar norður á honum Siglufirði sagt: Sveiattan bara! [1] Jón Valur Jensson hefur þegar svarað Þórði með málefnalegum rökum, þannig að ég sleppi því hér. Það sem vekur athygli mína fyrst og fremst hjá þessum orðprúða manni er það sem ég myndi vilja kalla „tregablandna undrun!“

Það kemur Þórði bókstaflega í opna skjöldu að einhverjir kunni að vera á annarri skoðun en hann sem „rétthugsandi maður,“ það er að segja sá sem tileinkað hefur sér „rétthugsunina,“ það sjónarmið eða afstöðu sem er ríkjandi nú um stundir í þjóðfélaginu, eða eigum við að segja er tískusveiflan eða „inni.“ Stundum höfum við ganntast með þetta og vitnað til „newspeak“ Georges Orwells hér á vefsíðunni. Vitaskuld er hér átt við samkynhneigð sem varð að tískusveiflu í upphafi nýrrar aldar á Íslandi.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  02:05:23, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 302 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Fólksfækkunarhættan

Barnaborg? – já, ef rétt er stjórnað!

Eftirfarandi grein sendi ég Fréttablaðinu 30. marz sl., en hún hefur ekki fengizt þar birt. Því er hún nú, 3 vikum síðar, sett á Kirkjunetið. – JVJ.

Það er rétt hjá Svandísi Svavarsdóttur (Fréttabl. 30/3), að “Reykjavík á að vera barnaborg”. Kjörið væri fyrir þennan upprennandi stjórnmálamann að byrja á því að beita sér gegn fósturdeyðingunum, sem á rúmum þremur áratugum hafa svipt um 11.000 hérlendar kynsystur hennar lífinu. Hefði Reykjavík ekki misst af þessum meybörnum og jafnmörgum sveinum til, væru þar sennilega a.m.k. 8.000 fleiri einstaklingar í aldursflokknum 0–30 ára, en ekki færri utan borgarinnar. Þetta var þjóðarauður, sem við fórum á mis við – m.a. vegna stefnu föður hennar, harðskeyttra samherja hans og pólitíkusa sem brugðust í þessu máli í öllum flokkum. Í staðinn höfum við hér fátæka austantjaldsmenn sem látnir eru sofa í skúrum eða á steingólfinu þar sem þeir vinna sína byggingarvinnu. Það er þó einungis forsmekkurinn af þeim vandræðum sem Vesturlandamenn eiga eftir að upplifa, þegar afleiðingar fólksfækkunarstefnunnar hitta þá sjálfa harðast fyrir í sívaxandi mæli á næstu fimm áratugum.

Vinstri jafnt sem hægri menn, sem áður fundu sinn blóraböggul í þeim ófæddu, ættu að huga að þessu, vilji þeir barnvæna borg og sjálfbæra þjóð í sjálfstæðu landi.

Ég hef samúð með hugmyndum Svandísar um gjaldfrjálsan leikskóla, en teldi heilbrigðara að fólk yrði látið borga nákvæmlega 10% kostnaðar (rúml. 9.000 krónur á barn á mánuði) til að varðveita kostnaðarvitund okkar – og þakkarskuld – í allri velferðinni. – En gleymum ekki okkar minnstu bræðrum og systrum!

19.04.06

  17:07:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 651 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar

Guðspjall Jesú Krists þann 20. apríl er úr Lúkasarguðspjalli 24. 35-48

35 Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið. 36 Nú voru þeir að tala um þetta, og þá stendur hann sjálfur meðal þeirra og segir við þá: „Friður sé með yður!“ 37 En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda. 38 Hann sagði við þá: „Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar? 39 Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef.“ 40 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og fætur. 41 Enn gátu þeir ekki trúað fyrir fögnuði og voru furðu lostnir. Þá sagði hann við þá: „Hafið þér hér nokkuð til matar?“ 42 Þeir fengu honum stykki af steiktum fiski, 43 og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim. 44 Og hann sagði við þá: „Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum.“ 45 Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar. 46 Og hann sagði við þá: „Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, 47 og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. 48 Þér eruð vottar þessa.

Hugleiðing
„Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar.“ Okkur er um megn að skilja boðskap hl. Ritninga (líka Gamla testamentisins) án þess að Jesú ljúki upp huga okkar til að skilja þær. Því liggur beinast við að biðja hann um að gefa okkur þennan skilning ef við höfum hann ekki til að bera og þá verður okkur speki þeirra ljós, einnig Gamla testamentisins.

Hlustum á hl. Pétur Chrysologus (um 406-450), biskup í Ravenna og kirkjufræðara: „Uppreisnargjarnir menn höfðu spillt friðnum á jörðu . . . og varpað niður í óreiðu frumsköpunarinnar. Stríð geisaði einnig meðal lærisveinanna. Trú og efasemdir háðu miskunnarlaust stríð á hendur hvort öðru. Þar sem stórviðrið geisaði fundu þeir hvergi fríðarhöfn, hvergi skjól fyrir vindum.

Þegar þeir sáu Krist sem kannar djúp hjartnanna, sem stjórnar vindum loftsins, sem er Herra freistinganna og umbreytir ólgusjó í blíðviðri, styrkti hann þá með friði og sagði: „Friður sé með yður! Það er ég, óttist ekki. Það var ég sem var krossfestur, sem var dáinn, sem var grafinn. Það er ég sem er Guð ykkar sem varð maður. Það er ég sem lifi meðal hinna dauðu, sá sem kom af himnum í hjörtu vítis. Það var mig sem dauðinn flúði, sem víti stendur ógn af. Í skelfingu sinni sagði víti að ég væri Guð. Óttast ekki Pétur, þú sem afneitaðir mér, eða þú Jóhannes, sem lagðir á flótta eða allir þíð sem yfirgáfuð mig, Þið sem hugsuðuð ekki um neitt annað en að framselja mig og trúið ekki á mig, þrátt fyrir að þið sjáið mig. Óttist ekki, þetta er ég í raun og veru. Ég hef kallað á ykkur í náð minni, Ég hef útvalið ykkur! Ég hef útvalið ykkur með fyrirgefningu minni. Ég hef borið ykkur á höndum mér með samúð minni. Ég hef borið ykkur í elsku minni og í dag tek ég á móti ykkur sökum gæsku minnar“ (Hugvekja 81).

  14:42:11, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 313 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju

Leiðréttingar rangmæla um skrif okkar Jóns Rafns um mál samkynhneigðra

Lesendum vefsíðunnar www.mir.is , sem hingað leita vegna vísunar Þórðar Sveinssonar á greinar okkar Jóns Rafns um málefni samkynhneigðra, skal á það bent, að pistill Þórðar birtist einnig á hans eigin bloggsetri – á vefsíðunni http://thorfredur.blogspot.com/2006/04/sorglegt-hugarfar.html – og að þar hef ég svarað ummælum hans í allýtarlegu bréfi og svo aftur veitt andsvör við svarbréfi hans sl. nótt. Notendur Macintosh/Apple--tölvu sjá kannski þá sömu vefsíðu í annarri og skírari uppsetningu, með 100% læsilegri stafagerð, á annarri vefslóð: http://www.blogger.com/publish-comment.do?blogID=8982198&postID=114520810661087511&r=ok – Vísa ég hér með til þeirra raka minna, sem þar birtast.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  07:33:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2420 orð  
Flokkur: Fólksfækkunarvandamálið

Refsivöndur Evrópu? - Hvernig brotthvarfið frá kristindóminum mun leiða til upplausnar

Greinarhöfundar: Ed Vitagliano, Greinin er samin 12. apríl s. l. og er birt með vinsamlegu leyfi AgapePress.

Veit einhver hvar við getum fundið Etrúska? Þið vitið, einhverja sem tilheyrðu hinni fornu menningu Etrúska á Ítalíu til forna sem voru forverar Rómverja?

Jæja, þeir eru víst ekki til lengur. Etrúskarnir runnu saman við rómverska menningu og hættu að vera til sem sjálfstæð menningarheild.

Ef vaxandi fjöldi sérfræðinga og menningarsögufræðinga hafa á réttu að standa, þá er afar líklegt að sömu spurningunni verði varpað fram eftir hundrað ár, en nú einungis hvað áhrærir Ítali, Spánverja eða Rússa.

Eða eins og Mark Steyn orðar þetta með svo dapurlegum hætti í „The New Criterion:“ „Stór hluti þess sem við nefnum hinn Vestræna heim í dag mun ekki lifa þessa öld af og í reynd mun hann hverfa með áþreifanlegum hætti á okkar eigin tímum, meðal annars flest lönd Vesturevrópu.“

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

18.04.06

  16:42:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 941 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Brann ekki hjartað í okkur?“

Guðspjall Jesú Krists þann 19. apríl er úr Lúkasarguðspjalli 24. 13-35

13 Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. 14 Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði. 15 Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. 16 En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki. 17 Og hann sagði við þá: „Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?“ Þeir námu staðar, daprir í bragði, 18 og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: „Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana.“ 19 Hann spurði: „Hvað þá?" Þeir svöruðu: „Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð, 20 hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann. 21 Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við. 22 Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar, 23 en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa. 24 Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki.“ 25 Þá sagði hann við þá: „Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað! 26 Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?“ 27 Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

17.04.06

  15:04:12, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 793 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Ég hef séð Drottin.“

Guðspjall Jesú Krists þann 18. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 20. 11-18

11 En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina 12 og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. 13 Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“ Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann.“ 14 Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús. 15 Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“ Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.“ 16 Jesús segir við hana: „María!“ Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.) 17 Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.'“ 18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.

Hugleiðing
Hvað er það sem kemur í veg fyrir að við sjáum Jesú? Hvert er það bjarg sem kemur í veg fyrir að við getum gengið út úr grafhýsi okkar eiginn takmarkanleika? Hverjar eru þær líkblæjur sem umvefja okkur, þrátt fyrir að við teljum sjálf að við séum á lífi? Fjölmargt af þessu er „made in me“ framleiðsla. Rétt eins og mikil iðnríki flytja framleiðslu sína út til annarra landa þurfum við að losna við þessa framleiðslu okkar sem byrgir okkur alla sín. En meinið er að okkur er þetta um megn í eigin mætti. Páskarnir eru ekki einungis tími gleði, heldur marka þeir einnig NÝTT UPPHAF í okkar eigin lífi vegna þess að þetta grafhýsi okkar og líkblæjur hefta vöxt kærleikans. Við skulum því biðja Drottin um það á þessum Páskum að velta bjarginu frá þessu grafhýsi sem sviptir okkur frelsinu og svipta af okkur þessum líkblæjum mennsk ófullkomleika.

Hversu auðveldlega missum við ekki sjónar af Drottni þegar við einblínum til okkar sjálfra og mennskra aðstæðna okkar. Í fyrstu þekkti María ekki Jesú vegna þess að öll athygli hennar beindist að gröfinni og hún var umvafin líkblæjum eigin sorgar. Þessu var á öfugan veg farið með Pétur á vatninu sem tók að sökkva um leið og hann beindi athygli sinni frá Jesú til öldurótsins. En þegar Jesú kallaði hana með nafni þekkti hún hann samstundis. Hann þekkir okkur öll persónulega með nafni. Það er ekki nægilegt að vita eitthvað um Krist ef við þekkjum hann ekki persónulega. Orð Maríu: „Ég hef séð Drottin“ eru kjarni kristindómsins. Hl. Silúan frá Aþosfjalli sagði:

Við getum lært eins mikið og okkur þóknast, en þrátt fyrir það munum við ekki læra að þekkja Drottin fyrr en okkur lærist að lifa til samræmis við BOÐORÐ hans vegna þess að Drottinn verður ekki þekktur með lærdómi, heldur í Heilögum Anda. Margir heimspekingar og fræðimenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að Guð sé til, en þeim hefur ekki auðnast að læra að þekkja Guð. Að trúa á Guð er eitt, að þekkja hann annað.

Hér erum við komin að kjarna málsins: BOÐORÐUM Guðs. Þeir sem hlíta ekki BOÐORÐUM Guðs munu aldrei læra að þekkja hann. Guð „upplýsir sálarsjón okkar“ og því bað hl. Páll: „Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, Föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann“ (Ef 3. 17, 18). Þessi andi speki og opinberunar er sá andi sem hvíldi yfir Guðsyninum sem var HLÝÐINN allt til dauða á krossi. Grafhýsið og líkblæjurnar eru því ANDI ÓHLÝÐNINNAR GAGNVART BOÐORÐUM DROTTINS. Við göngum ekki út úr grafhýsi mennsks takmarkanleika okkar nema EFTIR VEGI HLÝÐNINNAR!

  10:42:10, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 525 orð  
Flokkur: Dymbilvika og páskar

Páskarnir eru hátíð gleðinnar

Jóhannes biskup Gijsen skrifaði grein í Kaþólska kirkjublaðið sem kom út fyrir páskana 2006 sem bar heitið „Páskar: Hátíð gleðinnar“. Þar sagði hann m.a.

Á páskadag óskum við hvert öðru gleðilegra páska. Hvað merkir það? Páll postuli segir: „Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er. Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði“ (Kól. 3, 1-3). [1]

Í predikun sinni í páskavökunni aðfaranótt 16. apríl 2006 gerði Benedikt páfi XVI. andlega hugleiðingu Páls postula úr Galatabréfinu að þungamiðju máls síns: „Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.“ (Gal. 2.20) og sagði m.a:

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

16.04.06

  16:14:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 540 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Chairete – Heilar þið!“

Guðspjall Jesú Krists á öðrum degi Páska er úr Matteusarguðspjalli 28. 8-15

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. 9 Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. 10 Þá segir Jesús við þær: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig.“ 11 Meðan þær voru á leiðinni komu nokkrir varðmenn til borgarinnar og sögðu æðstu prestunum allt, sem gjörst hafði. 12 En þeir kvöddu saman öldungana og tóku það ráð með þeim að bera mikið fé á hermennina og mæltu við þá: 13 „Segið þetta: ,Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.' 14 Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér sefa hann, svo að þér getið verið áhyggjulausir.“ 15 Þeir tóku við fénu og gjörðu sem þeim var sagt. Þessi sögusögn hefur verið borin út meðal Gyðinga allt til þessa dags.

Hugleiðing
„Chairete – Heilar þið!“ Jesús opnar augu kvennanna og þær sjá hann. Við sjáum annað dæmi um þetta í Lúkasarguðspjalli: „Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann“ (Lk 24. 31). Lúkasi er svo mikið í mun að okkur skiljist þetta að hann endurtekur skömmu síðar: „Síðan lauk hann upp huga þeirra“ (Lk 24. 45). Í fyrri setningunni eru það augu, í því síðara hið andlega auga eða nous á grísku, þessi innsti og dýpsti verundarkjarni mannsins sem gerir honum kleift að sjá Guð og er kallaður hreinleiki hjartans í Matteusarguðspjalli: Sælir eru hjartahreinir. því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8). Þetta andlega innsæi er eitt og hið sama og trúin og hún er Guðs gjöf ætluð okkur til handa. Trúin gerir okkur kleift að nema allan þann sannleika sem Guð opinberar okkur í guðspjöllum sínum og öllum Ritningunum. Trúin er FULLVISSA vegna þess að hún grundvallast á orði Guðs og hann getur ekki logið. En trúin er einnig SKILNINGUR og því uppljómar Guð „augu hjartans.“ Sökum náðargjafar trúarinnar opinberast Drottinn þeim sem trúa á orð hans og gefur þeim hlutdeild í nýju lífi í Heilögum Anda. Lærisveinarnir sáu Drottinn þegar hann braut brauðið og þetta á við okkur öll sem meðtökum evkaristíuna í trú í kirkjunni. Þessum sannindum afneituðu musterisprestar Gyðingdómsins og gengu enn lengra og báru fé á varðmennina til að bera ljúgvitni. Enn í dag gerist þetta vegna þess að dauðamenning fóstureyðingarstóriðjunnar verður að réttlæta verk sín með því að bera út sögusagnir um Drottin sem gera lítið úr hjálpræði hans og helgun á öllu lífi, einkum lífi ófæddra barna. Einungis á þeim tíma sem ég skrifa þessar línur hafa 6000 börn látið lífið í tryllingaræði fóstureyðinganna: „Segið þeim að boðskapur hans sé ósannur!“

1 ... 33 34 35 ...36 ... 38 ...40 ...41 42 43 ... 46

Síðustu athugasemdir

Síðustu pistlar

Kirkju.net er óháð vefrit sem inniheldur aðallega efni tengt kaþólskri trú en einnig um trúmál almennt. Markmiðið er að miðla fróðleik og stuðla að skoðanaskiptum og umræðu innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi sem og að kynna kaþólsku kirkjuna fyrir þeim sem utan hennar eru. Aðalsíða vefritsins sækir pistla inn á bloggsíður og skrifa höfundar hvers bloggs pistla sem hafa kaþólskt eða annað trúarlegt efni sem meginþema. Skoðanir settar fram í pistlunum eru höfundanna sjálfra og ber ekki að túlka þær sem skoðanir trúfélaga eða annarra bloggara. Höfundar bera ábyrgð á efni sem þeir birta á sínu bloggi. Athugasemdir við pistlana eiga að vera á íslensku, málefnalegar og fullt nafn höfundar á að koma fram. Athugasemdum er ritstýrt af höfundi hvers bloggs fyrir sig. Gestapennar innan eða utan kaþólsku kirkjunnar eru einnig velkomnir að senda inn greinar sem eru birtar undir „Ýmsir höfundar.“

Leit

Flokkur

Sr. Denis O'Leary

Kirkjuvefbók Ragnars

Jón Valur Jensson

Ýmsir höfundar

Jón Rafn Jóhannsson

Kirkju.net

No Item object found. Cannot display widget "Item Info Line".
blog engine