15.01.22

  20:04:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 481 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Karmelreglan

Nýir meðlimir gáfu loforð til inngöngu í leikmannareglu Karmels

Nýir meðlimir gáfu loforð til inngöngu í leikmannareglu Karmels

Hafnarfjörður (kirkju.net) - Hinn 11. desember síðastliðinn gáfu sex nýir meðlimir loforð til inngöngu í leikmannareglu Karmels við hátíðlega athöfn í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Á myndinni eru þau frá vinstri Sigurður Stefán Helgason, Guðmundur Már Sigurðsson, Hildur Sigurbjörnsdóttir, Jónas Sen, Ragnar Geir Brynjólfsson og Ágúst Elvar Almy. Loforðið er hið fyrra af tveimur sem gefa þarf til inngöngu í regluna. 

Regludeildin hérlendis sem ber heitið „Regla Karmels hinnar heilögu Maríu meyjar frá Karmelfjalli“ var formlega stofnuð hinn 13. apríl 2019 í athöfn sem fólst í því að umsækjendurnir veittu viðtöku helgiklæði sem kallast „brúna skapúlarið“ auk þess að fá regluheiti að eigin vali. Hópurinn hafði þá hist reglulega undir leiðsögn systur Agnesar, Karmelnunnu í Hafnarfirði um árabil og naut hann þeirrar leiðsagnar einnig við undirbúning athafnarinnar sem hér er sagt frá. 

Karmelmunkurinn og presturinn Faðir Robert M. Marciniak OCD hinn ytri tengiliður regludeildarinnar við höfuðstöðvar reglunnar í Róm leiddi athöfnina sem fór fram í heilagri messu. Einnig var viðstaddur Karmelmunkurinn Faðir Jan Piotr Malicki OCD umdæmisstjóri leikmannareglunnar í Varsjá. Karmelnunnurnar í klaustrinu fluttu tónlist og aðstoðuðu á margvíslegan hátt. Þær höfðu til dæmis útbúið hvítar skikkjur sem meðlimir leikmannareglunnar klæddust í athöfninni sem fór þannig fram að hver og einn þeirra las upp loforð um að halda í heiðri fátækt, skírlífi og hlýðni sem og sæluboðorð Fjallræðunnar. Loforðið var síðan undirritað á altarinu. 

Elstu reglur Karmelreglunnar sem er íhugunar- og fyrirbænaregla voru settar snemma á 13. öld af hinum heilaga Albert patríarka af Jerúsalem fyrir einsetumunka sem höfðu komið sér fyrir á Karmelfjalli í Palestínu. Síðar á 13. öld settust munkarnir að í hinni kristnu Evrópu, einkum á Spáni. Á 16. öld stofnaði hl. Teresa frá Avíla með aðstoð hl. Jóhannesar af Krossi þá grein reglunnar sem nefnist „hin berfætta“ eða „óskóaða“. Á latínu er heiti hennar: Ordo Carmelitarum Discalceatorum; skammst.: OCD. Klaustrið í Hafnarfirði tilheyrir þeirri grein og er hún eina kaþólska klausturreglan fyrir bæði kyn sem stofnuð er af konu. 

Skammstöfunin OCDS vísar til leikmannareglunnar þannig að bókstafurinn S stendur fyrir latneska orðið „Saeculum“ sem þýðir  „af heiminum“. Á íslensku hefur orðið „leikmenn“ verið notað um þetta hugtak og vísar það til óvígðra karla og kvenna enda er loforð leikmannareglunnar ekki heiti eða vígsla í sama skilningi og klausturheiti og prestvígsla þó það sé af sama meiði. Hið ytra líf meðlima leikmannareglunnar er því eins og hjá almennum borgurum, þeir geta stofnað og átt fjölskyldu en regluloforðið felur í sér dýpkun á andlegum skuldbindingum eins og þeim sem felast í sakramentunum.   

Auk þess að biðja tíðabænir og íhuga daglega hver um sig hittast meðlimir regludeildarinnar einu sinni í mánuði í Karmelklaustrinu, biðja tíðabænir saman og lesa rit af andlegum toga. Fólk utan reglunnar sem áhugasamt er um andleg málefni getur verið með í tíðabænum reglunnar og reglufundum og er félagsaðild að reglunni eða kaþólsk trú ekki skilyrði fyrir þátttöku.  Þau sem áhugasöm eru um leikmannaregluna og vilja fá meiri upplýsingar um hana geta haft samband við undirritaðan.

Ragnar Geir Brynjólfsson

17.11.20

  17:30:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 315 orð  
Flokkur: Bænir

Hugvekja - íhugun

Mynd: pikist.com 

 1. Ég er í Guði og Guð er í mér. Ég skynja að öll sköpun heimsins, trén, blómin tilheyra Guði og ég er hluti af þeirri sköpun. Ég hef afsalað mér vilja mínum, hann tilheyrir Guði: „verði Guðs vilji svo á jörðu sem á himni“.  Ég er ein(n) í Guði.
 2. Kærleikurinn einn megnar að  seðja hjarta mannsins. Hinn réttláti maður jafnvel á sínum litla jarðarskika öðlast því  ómælda lífsfyllingu sína í krafti kærleikans, meðan hinn kærleikssnauði í öllum sínum lystisemdum, upphafningu og auðlegð, þreyir sífellt  hungur og þorsta. Síbylja ágirndar er hlutskipti hans.
 3. Á himnum ríkja þær sálir fegurstar sem  hvað mest höfðu syndgað en iðrast með þrotlausum yfirbótum líkt og áburður við rót trjáa.
 4. Ef þú elskar náunga þinn þá er það vísbending um kærleika þinn til Jesú. Hinsvegar, í hvert sinn sem þú beinir augum þínum til náunga þíns án þess að skynja návist Jesú í honum, þá er þinn eiginn kærleikur til Jesú að þrotum kominn. 
 5. Allur heimurinn er sem þrunginn af svefni svo ósnortinn af lofsverðri gæsku Guðs sem aðeins fáir leiða hugann að! Sjálf náttúran ber Honum vitni í allri sinni dýrð: himininn, stjörnurnar, trén, blómin grasið allt sköpunarverkið ber Honum vitni og kallar á lofgjörð til Hans. En maðurinn sem ber hinn mikla ávöxt Hans og ekkert getur „gjört án Hans“ (Jóh. 15:5) sefur svefni hins sjálfumglaða!  Vaknið þið sem sofið og veitið ákalli Drottins lið með söng, lofgjörð og kærleiksverkum. Jesús er fallinn í gleymsku og dá, Jesús er ekki lengur tilbeðinn og elskaður. Jesús sem fórnaði lífi sínu svo þeir sem í hans fótspor fylgja mættu öðlast eilíft líf.Verði Hans vilji á jörðu sem á Himni.
 6. Heilagur Andi, fyll mig andagift þinni.
 7. Kærleikur Guðs, gagntaki mig.
 8. Leiddu mig, um farveg þinn.
 9. María Guðs Móðir, gættu mín.
 10. Í krafti Jesú blessa þú mig.
 11. Frá öllu illu, frá öllum tálmyndum,
 12. Frá öllum hættum, vernda þú mig.

Ísl. þýðing dr. Gígja Gísladóttir.

09.04.20

  16:40:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1989 orð  
Flokkur: Bænir

Hin heilaga krossganga - krossferill Krists

Á föstudaginn langa er hefð fyrir því að biðja bænir hinnar heilögu krossgöngu sem gjarnan eru nefndar Krossferilsbænir eða Krossferill Krists. Bænunum er skipt í 14 kafla eða viðstöður þar sem við hverja viðstöðu er minnst viðburðar úr píslargöngu Krists og dauða hans á krossinum. Í kaþólskum kirkjum er komið fyrir 14 myndum af viðburðunum.  Bænin fer þannig fram að prestur leiðir bænina, gengur um kirkjuna og staðnæmist við myndirnar og fer með viðeigandi bænir.

 Eftirfarandi samantekt byggir á krossferilsbænum sem séra Lambert Terstroet SMM tók saman fyrir hóp sem fór í pílagrímsferð til Meðugorje í Bosníu-Herzegovinu árið 1989. Tilvitnanir merktar Meðugorje byggja á vitnunum í meintar vitranir Maríu meyjar til nokkurra þáverandi ungmenna í Meðugorje og hefjast því á ávarpinu "Kæru börn."

Þar sem vitranirnar í Meðugorje hafa ekki hlotið kirkjulega viðurkenningu er ekki heimilt að lesa tilvitnanirnar í Meðugorje við opinberar kirkjulegar athafnir en þær má biðja í einrúmi og á einkafundum.  Annað en tilvitnanir í viðstöðubænunum er að líkindum samið af séra Lambert.  Þar sem bænasamantekt séra Lamberts var ekki með undirbúningsbænir var einnig stuðst við Kaþólska bænabók sem gefin var út í Reykjavík 1922. Tengt er í krossferilsmyndir frá vefsetrinu ecatholic2000.com og opnumynd frá vatican.va. 

Undirbúningsbænir

Áður en gangan hefst er kropið fyrir framan altarið og farið með iðrunarbæn og undirbúningsbæn:

Iðrunarbæn: Guð minn, ég iðrast af öllu hjarta alls þess sem ég hef gjört rangt og harma vanrækslu mína. Drottinn vertu mér miskunnsamur. Amen. 

Undirbúningsbæn:  Guð minn, þú fullkomnasta og æðsta hnoss mitt. Sakir hinna óteljandi velgjörða sem þú á hverri stundu lífs míns hefur veitt mér, ert þú alls kærleika míns verðugur. Að vísu verða ekki afturtekin hin vondu verk sem ég hef drýgt, en ég hef andstyggð á þeim. Um leið og ég hér með einlægri iðrun fell á kné fyrir þínum heilögu fótum vil ég grátbæna þig um fyrirgefningu og einnig um kraft og styrk til þess að bæta alvarlega ráð mitt. 

1. Fyrsta viðstaða. Jesús er dæmdur til dauða. (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu ljúgvitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann" (Matt. 26,59).

Kæru börn, í dag bið ég ykkur að þið hættið að tala illa um aðra. (Meðugorje 12.04.'89).

Ranglæti lítur í byrjun oft sakleysislega út, en er þó alltaf eyðileggjandi. Drottinn vernda okkur frá lygum og hatri. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss.

2. Viðstaða. Jesús tekur á sig krossinn. (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði" (Jesaja 53,4).

Kæru börn, biðjið sérstaklega að þið getið tekið veikindum og þjáningum með þeim kærleika sem Jesús gerði (Meðugorje 11.09.'86). 

Hver þjáning hefur frelsandi mátt ef hún er borin með Kristi. Drottinn gef okkur hollustu við Guðs vilja. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

3. Viðstaða. Jesús hnígur í fyrsta sinni undir krossinum. (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf Guði til þægilegs ilms" (Efesusbréfið 5,2). 

Kæru börn, þegar þið þjáist þá færið það Guði sem fórn (Meðugorje 28.03.'84).

Svo mikið sem hver og einn gefur Guði lýsir trúnni og kærleikanum sem í honum býr. Drottinn hjálpa okkur öllum að yfirvinna hræðslu við fórnir. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

4. Viðstaða. Jesús mætir sinni heilögu móður.  (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Þessi er settur til tákns sem á móti verður mælt og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni" (Lúk. 2,34-35). 

Kæru börn, ég móðirin elska ykkur öll. Ég bið ykkur, leyfið ekki að hjarta mitt gráti blóðugum tárum yfir þeim sálum sem glatast í syndinni (Meðugorje 24.05.'84). 

María er athvarf syndugra manna. Hún yfirgefur engan sem setur traust sitt á Jesú. Drottinn, vek í okkur kærleika til móður þinnar. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

5. Viðstaða. Símon frá Kýrene hjálpar Jesú til þess að bera krossinn.  (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans" (I Péturs bréf 4,13).

Kæru börn, verið ekki hrædd við að bera krossinn. Það er sonur minn sem hjálpar ykkur (Meðugorje 05.04.'85).

Spurningin um tilganginn með margbreytilegum þjáningum í heiminum finnur aðeins eitt svar í trúnni: Við berum einnig krossinn sem leiðir til frelsunar heimsins. Drottinn gef okkur styrk í trúnni, svo að hver þjáning sameini okkur með þér. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

6. Viðstaða. Jesús tekur við sveitadúknum af Veróníku.  (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gjört mér (Matt. 25,40). 

Kæru börn. Ég kalla ykkur til stærstu fórnarinnar, fórnar kærleikans. Án kærleika getið þið hvorki tekið við mér, né syni mínum. Án kærleika getið þið ekki borið öðrum vitni um reynslu ykkar (Meðugorje 27.03.'86). 

Hvorki mannleg hræðsla, né umhyggja fyrir eigin vellíðan mega aftra okkur frá því að hjálpa þar sem neyð er. Drottinn, opna augu okkar fyrir neyð náungans. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

7. Viðstaða. Jesús hnígur í annað sinni undir krossinum.  (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið. Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! Hann frelsi hann því hann hefur þóknun á honum" (Sálmarnir 22,8-9). 

Vitið kæru börn, hann elskar ykkur og þess vegna prófar hann ykkur. Fórnið öllum byrðum ykkar til Guðs og verið ekki áhyggjufull (Meðugorje 11.10.'84). 

Aðeins krossinn sem borinn er af hugrekki gefur okkur örugga trú fyrir dómsdaginn (hl. Jóhann Vianney).  Drottinn kenn okkur að sýna þér sannanlegt göfuglyndi. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

8. Viðstaða. Jesú talar huggunarorð til hinna grátandi kvenna. (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar... Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?" (Lúk. 23,28. 31). 

Kæru börn, ég hvet ykkur hvert og eitt til að hefja nýtt líf. Ykkar tími er kominn. (Meðugorje 13.02.'86).

Guð hrekur engan frá sér. Kærleiksfull miskunn hans tekur við hverjum þeim, sem er tilbúinn til afturhvarfs. Drottinn, lít náðarsamlega til vor og fyrirgef oss vorar skuldir. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

9. Viðstaða. Jesús hnígur í þriðja sinni undir krossinum.  (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Mér förlast kraftur sakir sektar minnar og bein mín tærast. Ég er að spotti öllum óvinum mínum og skelfing kunningjum mínum" (Sálmarnir 31,11-12).

Kæru börn, lofið að þið niðurlægið hvorki Jesú, né krossinn né hæðið með lastmælum (Meðugorje 12.09.'85). 

Kristur tók á sig smán krossins okkur til endurlausnar. Þannig varð sá kross tákn frelsunarinnar. Drottinn, opinberaðu í niðurlægingu þinni almætti þitt. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

10. Viðstaða. Jesús er sviftur klæðum sínum og honum borinn beiskur svaladrykkur.  (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Þeir horfa á mig og hafa mig að augnagamni, þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn" (Sálmarnir 22,18-19).

Kæru börn, lítið í kringum ykkur og þið munuð sjá hvað syndin hefur náð miklum tökum á mannfólkinu. Biðjið þess vegna svo að Jesús sigri (Meðugorje 13.09.'84). 

Maðurinn verður þræll margra harðstjóra ef hann tekur við rógi. Drottinn, lát okkur losna undan öllum böndum syndanna. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

11. Viðstaða. Jesús er negldur á krossinn. (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. (Jesaja 53,5). 

Kæru börn, biðjið frammi fyrir krossinum, því frá honum kemur mikil náð. (Meðugorje 12.9.85). 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

12. Viðstaða. Jesús deyr á krossinum.  (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Einn af hermönnunum stakk spjóti í síðu hans og rann jafnskjótt út blóð og vatn" Jóh. 19,34).

Kæru börn, gerið yfirbót fyrir sárið, sem var veitt hjarta sonar míns. Ýmiskonar syndir hafa sært þetta hjarta (Meðugorje 5.4.'84).

Með því að heiðra hjarta Jesú snúum við okkur að óendanlegum kærleika frelsarans. Drottinn, leið okkur að leyndarmálum kærleika þíns og lát okkur hafa hlutdeild í ríkidæmi hjarta þíns. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

13. Viðstaða Jesús er tekinn af krossinum og lagður í skaut heilagrar móður sinnar.  (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Komið til mín allir þér, sem um veginn farið, sjáið og skoðið, hvort til sé önnur eins kvöl og mín, sú er mér hefir verið gjörð" Harmljóðin 1,12. 

Kæru börn, ég gef ykkur sérstaka náð og Jesús veitir einstakar gjafir frá krossinum. Takið við þeim og farið eftir þeim (Meðugorje 20,2'86).

Undir krossinum hefur María í trú og von þolað hörðustu raunir sínar. Drottinn, sýn okkur með fordæmi móður þinnar, veginn sem liggur gegnum þjáningu og kross til upprisu dýrðarinnar. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

14. Viðstaða. Jesús er lagður í gröfina.   (Hér er kropið á kné.)

P. Vér tilbiðjum þig, Jesú minn og vegsömum þig.

S. Því með hinum heilaga krossi hefur þú endurleyst heiminn.

(Hér er risið á fætur. )

"Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt". Jóh. 12,24. 

Kæru börn, ég óska þess að þið skiljið að jarðneska lífið er mjög stutt í samanburði við hið eilífa. Ákveðið þið þess vegna í dag að hefja nýtt líf fyrir Guð. (Meðugorje 27.11.'86)

Þjáning þessara tíma er ekkert í samanburði við dýrðina sem okkar bíður. Drottinn styrk von okkar á fyrirheiti þitt. 

Faðir vor ... Heil sért þú María ...

P. Miskunna þú oss, Drottinn.

S. Miskunna þú oss. 

Lokabæn

Guð þú hefur helgað merki hins náðarríka kross sökum blóðs þíns eingetna sonar. Veit oss því þá náð að allir þeir sem með guðrækni tigna heilagan kross megi og allsstaðar njóta verndar þinnar, fyrir hinn sama Drottin vorn Jesúm Krist. 

Amen. 

05.04.20

  06:42:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 5 orð  
Flokkur: Bænir

Beinar útsendingar frá messum í St. Jósefskirkju Hafnarfirði

Beinar útsendingar frá messum í St. Jósefskirkju Hafnarfirði
Heilagar messur í St. Jósefskirkju

30.03.20

  12:24:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 126 orð  
Flokkur: Bænir

Stella Caeli - 14. aldar bæn gegn farsótt

Stella Caeli - 14. aldar bæn gegn farsótt
14. aldar bæn gegn farsótt

Erindin í þessari fallegu 14. aldar bæn gegn farsótt eru úr jólapredikun hl. Peter Damascene sem var biskup í Damaskus á 8. öld. Samkvæmt frásögn var texti bænarinnar fluttur af heilögum Bartólómeusi þegar hann vitraðist nunnum af Reglu hl. Klöru í Coimbra í Portúgal þegar borgin var þjökuð af plágunni 1317. 

Frá Coimbra breiddist bænin út til Vesturlanda. Venjulega er bænin sungin með andstefjum og bænum til hl. Roch og hl. Sebastíans sem helst er leitað til á tímum farsótta. 

Á YouTube myndskeiðinu hér að framan má sjá nunnurnar úr klaustri Maríu meyjar af Aysen syngja erindið eins og þær gera dag hvern á eftir messu og ákalla sérstaklega miskunn Guðs og huggun hins flekklausa hjarta Maríu til handa þeim sem þjást. 

Heimild: http://www.infocatolica.com/blog/schola.php/2003271051-suplica-a-la-estrella-del-cie

29.03.20

  14:10:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 81 orð  
Flokkur: Bænir

Messur og helgiathafnir á netinu

Frans páfi

Á netinu eru margir möguleikar fyrir fólk í samkomubanni sem kýs að eiga heilaga og guðrækilega stund á heimilum sínum. Upptökur af messum Frans páfa má finna á eftirfarandi vefslóð: 

https://www.vaticannews.va/en/pope-francis/mass-casa-santa-marta.pagelist.html

Á eftirfarandi vefslóð er bein útsending bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar EWTN (Eternal Word Television Network):

https://www.ewtn.com/tv/watch-live

Sjónvarpsupptökur af daglegum messum úr kapellu Roberts Barron biskups er að finna hér: 

https://www.wordonfire.org/daily-mass/

Hlaðvörp Vatíkanútvarpsins (hljóðupptökur) má finna á eftirfarandi slóð. Þar eru t.d. fréttir Vatíkanútvarpsins sem enda á yfirliti yfir predikun páfa þann daginn: 

https://www.vaticannews.va/en/podcast.html

27.03.20

  14:16:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1398 orð  
Flokkur: Bænir

Rósakransinn - talnabandið - leiðbeiningar um notkun þess

Rósakransinn - talnabandið - leiðbeiningar um notkun þess
Talnabandsfesti - rósakrans

Algengur misskilningur er að talnaband sé hálsfesti með krossi, skartgripur eða skraut fyrir baksýnisspegla bifreiða en það er ekki svo. Talnaband er notað við helgiathöfn og það þarf ekki að vera úr dýru efni. 'Rósakransinn' eins og bæði helgiathöfnin og bænafestin er nefnd - er samt nokkuð vel þekkt hjá þeim sem dvalið hafa meðal kaþólskra.

Latneska orðið 'Rosarium' þýðir rósagarður, rósavöndur eða krans af rósum. Talnabandið fékk þetta nafn undir lok 15. aldar. Rósakransinn byggir á hugleiðingu valinna biblíutexta og því ættu allir sem játa kristna trú að geta lagt stund á bænina.  


Hér verður helgiathöfn rósakransins lýst og hvernig nota eigi talnabandið. Helgiathöfnin getur bæði verið persónuleg, beðin í einrúmi en einnig í hópi. Ef bænirnar eru beðnar í hópi tíðkast að sá sem leiðir bænina fari með fyrri helming bænanna en hópurinn síðari helminginn. Talnabandsfestin samanstendur af kúlum þræddum upp á band. Á enda festarinnar er krossmark. Fyrst er hér mynd af talnabandinu með númeruðum stöðum og á eftir koma skýringar á númerunum: 

 

Rósakransinn - talnabandið - leiðbeiningar um notkun þess
Talnaband

 
1. Þú signir þig og biður Postullega trúarjátningu.
2. Þú biður Faðir vor (á stakri perlu). 
3. Þú biður þrisvar Maríubæn (þrjár perlur í röð. Við þær er beðið um trú, von og kærleika, eitt atriði á hverri perlu). 
4. Þú biður Lofgerðarbæn.
5. Þú nefnir fyrsta leyndardóminn og biður Faðir vor (á stakri perlu). 
6. Þú biður tíu sinnum Maríubæn og hugleiðir fyrsta leyndardóminn* (tíu perlur). 
7. Þú biður Lofgerðarbæn og Fatíma bæn.
8. Þú nefnir annan leyndardóminn og biður bænirnar í sömu röð og áður. Því næst er haldið áfram og leyndardómarnir fimm kláraðir, einn leyndardómur á hverri talnadeild talnabandsins. Þegar leyndardómarnir eru kláraðir og búið er að íhuga alla fimm leyndardómana eru lokabænirnar Salve Regina og Bæn Leós páfa XIII beðnar. Ef um lengri helgiathöfn er að ræða og einnig í sumum löndum tíðkast að biðja Maríulitaníu á milli Salve Regina og Bæn Leós Páfa XIII

*Á meðan Maríubænirnar eru beðnar er venjan að íhuga atburði sem ritningartextar lýsa og eru þessi íhugunarefni nefnd „leyndardómar“ með tilvísan í það að persónuleg innsýn í boðskap trúarinnar opnast eða getur hlotnast fólki sem ígrundar þá. Vísað er í viðeigandi ritningartexta sem hugleiðingarefni.

Leyndardómar eða hugleiðingarefni rósakransins

A. Hinir fimm fagnaðarríku leyndardómar: Beðnir á mánudögum og laugardögum.

1. Engillinn flytur Maríu fagnaðarboðskapinn (Lúkasarguðspjall 1,26-38). Við biðjum um auðmýkt.
2. María heimsækir Elísabetu (Lúk. 1,39-56). Við biðjum um kærleika til náungans.
3. Jesús er fæddur í fjárhúsi í Betlehem (Lúk. 2,1-20). Við biðjum um að mega njóta gæða þessa heims með tilliti til hins komanda heims. 
4. Jesús er færður Drottni í musterinu (Lúk. 2,22-39). Við biðjum um hreinleika sálar og líkama. 
5. Jesús er fundinn aftur í musterinu (Lúk. 2,40-51). Við biðjum um hina sönnu visku. 

B. Hinir fimm kvalafullu leyndardómar: Beðnir á þriðjudögum og föstudögum.  

1. Jesús sveitist blóði í grasgarðinum (Matteusarguðspjall 26,36-44). Vér biðjum um iðrun syndanna.
2. Jesús er húðstrýktur (Jóhannesarguðspjall 19,1). Vér biðjum um krossfestingu skilningarvitanna. 
3. Jesús er þyrnikrýndur (Matt. 27, 27-30). Við biðjum um styrk til að snúa okkur frá heimshyggju.
4. Jesús ber hinn þunga kross (Jóh. 19,16-17). Við biðjum um þolinmæði undir krossi lífsins.
5. Jesús deyr á krossinum (Jóh. 19,25-30). Við biðjum um afturhvarf syndaranna, þolgæði réttlátra og svölun sálnanna í hreinsunareldinum. 

C. Hinir fimm dýrðlegu leyndardómar: Beðnir á sunnudögum og miðvikudögum.  

1. Jesús rís upp frá dauðum (Mark. 16,1-7). Við biðjum um kærleika til Guðs.
2. Jesús stígur upp til himna (Postulasagan 1,9-12). Við biðjum um þrá til hins eilífa föðurlands. 
3. Jesús sendir Heilagan Anda (Post. 2, 1-11). Við biðjum um að Heilagur Andi komi.
4. María er uppnumin til himna (Lúk 1,46-55). Við biðjum um að mega dýrka Maríu mey á réttan hátt. 
5. María er krýnd á himnum (Opinberunarbók Jóhannesar 12,1). Við biðjum um að mega alltaf njóta náðar og að lokum öðlast eilífa hamingju. 

D. Hinir fimm skíru leyndardómar: Beðnir á fimmtudögum. Þessum leyndardómum var bætt við af Jóhannesi Páli II páfa árið 2002. 

1. Skírn Drottins (Matt. 3, 13-17).
2. Brúðkaupið í Kana (Jóh. 2,1-9).
3. Jesús boðar fagnaðarerindið um Guðsríkið (Matt. 4,23-24).
4. Ummyndun Drottins á fjallinu (Markúsarguðspjall 9,2-7).
5. Jesús stofnar Altarissakramentið (Lúk. 22,14-20). 

------

Talnabandsbænirnar:

Postulleg trúarjátning

Ég trúi á Guð Föður almáttugan,
skapara himins og jarðar.
Og á Jesúm Krist, hans einkason, Drottin vorn;
sem getinn er af Heilögum Anda,
fæddur af Maríu mey;
leið undir valdi Pontíusar Pílatusar,
var krossfestur, dáinn og grafinn, sté niður til heljar,
reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, sté upp til himna,
situr við hægri hönd Guðs Föður almáttugs
og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á Heilagan Anda,
heilaga kaþólska kirkju, samfélag heilagra,
fyrirgefningu syndanna,
upprisu holdsins og eilíft líf.  Amen.


Faðir vor

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn; komi þitt ríki;
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð;
og fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum;
og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.  Amen.


Maríubæn

Heil sért þú María, full náðar.
Drottinn er með þér;
blessuð ert þú meðal kvenna;
og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús.
Heilaga María, Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum,
nú og á dauðastundu vorri.  Amen.


Lofgerðarbæn

Dýrð sé Föðurnum
og Syninum
og hinum Heilaga Anda.
Svo sem var í öndverðu,
er enn og verður ávallt
og um aldir alda. Amen.


Fatíma bæn

Ástkæri Jesús fyrirgef þú oss syndir vorar.
Forða oss frá logum heljar.
Leið allar sálir til himna,
sérstaklega þær sem þurfa mest á miskunn þinni að halda. Amen.


Salve Regina

Heil sért þú, drottning,
móðir miskunnarinnar,
lífs yndi og von vor, heil sért þú.
Til þín hrópum vér, útlæg börn Evu.
Til þín andvörpum vér,
stynjandi og grátandi í þessum táradal.
Talsmaður vor,
lít þú miskunnarríkum augum þínum til vor
og sýn þú oss,
eftir þennan útlegðartíma, Jesú,
hinn blessaða ávöxt lífs þíns,
milda, ástríka og ljúfa María mey.
Bið þú fyrir oss, heilaga Guðsmóðir.
Svo að vér verðum makleg fyrirheita Krists. Amen.

Bæn Leós páfa XIII

Ó, Guð, sem gafst oss þinn eingetinn Son sem með lífi sínu, dauða og upprisu hefur aflað oss umbunar eilífs lífs, vér sárbænum þig að með íhugun þessara helgu leyndardóma hins alhelga rósakrans sællar Maríu megum vér bæði líkja eftir inntaki þeirra og öðlast það sem þeir gefa fyrirheit um. Fyrir hinn sama Krist, Drottin vorn. Amen.

Maríulitanía

Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, miskunna þú oss.
Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, heyr þú oss.
Kristur, bænheyr þú oss.
Guð Faðir í himnaríki, miskunna þú oss.
Guð Sonur, Frelsari heimsins, miskunna þú oss.
Guð Heilagi Andi, miskunna þú oss.
Heilaga Þrenning, einn Guð, miskunna þú oss.
Heilaga María - bið þú fyrir oss.
Heilaga Guðs móðir - bið þú fyrir oss.
Heilaga mey, allra meyja æðst - bið þú fyrir oss.
Móðir Krists - bið þú fyrir oss.
Móðir hinnar guðdómlegu náðar - bið þú fyrir oss.
Alhreina móðir - bið þú fyrir oss.
Alskírlífa móðir - bið þú fyrir oss.
Ósaurgaða móðir - bið þú fyrir oss.
Óflekkaða móðir - bið þú fyrir oss.
Elskulega móðir - bið þú fyrir oss.
Dásamlega móðir - bið þú fyrir oss.
Móðir hins góða ráðs - bið þú fyrir oss.
Móðir skaparans - bið þú fyrir oss.
Móðir Frelsarans - bið þú fyrir oss.
Alvísa mey - bið þú fyrir oss.
Alæruverðuga mey - bið þú fyrir oss.
Alllofsamlega mey - bið þú fyrir oss.
Máttuga mey - bið þú fyrir oss.
Gæskuríka mey - bið þú fyrir oss.
Trúa mey - bið þú fyrir oss.
Spegill réttlætisins - bið þú fyrir oss.
Sæti viskunnar - bið þú fyrir oss.
Gleðiefni vort - bið þú fyrir oss.
Andlega ker - bið þú fyrir oss.
Æruverðuga ker - bið þú fyrir oss.
Útvalda guðræknisker - bið þú fyrir oss.
Leyndardómsfulla rós - bið þú fyrir oss.
Davíðsturn - bið þú fyrir oss.
Fílabeinsturn - bið þú fyrir oss.
Gullhús - bið þú fyrir oss.
Sáttmálans örk - bið þú fyrir oss.
Dyr himnaríkis - bið þú fyrir oss.
Morgunstjarna - bið þú fyrir oss.
Heilnæmi hinna sjúku - bið þú fyrir oss.
Athvarf syndaranna - bið þú fyrir oss.
Huggari hinna sorgmæddu - bið þú fyrir oss.
Hjálp hinna kristnu - bið þú fyrir oss.
Drottning englanna - bið þú fyrir oss.
Drottning patríarkanna - bið þú fyrir oss.
Drottning spámannanna - bið þú fyrir oss.
Drottning postulanna - bið þú fyrir oss.
Drottning píslarvottanna - bið þú fyrir oss.
Drottning játendanna - bið þú fyrir oss.
Drottning meyjanna - bið þú fyrir oss.
Drottning allra heilagra - bið þú fyrir oss.
Drottning getin án saurgunar erfðasyndarinnar - bið þú fyrir oss.
Drottning hins heilaga Rósakrans - bið þú fyrir oss.
Drottning friðarins - bið þú fyrir oss.
Guðs lamb, sem burtber heimsins syndir, væg þú oss Drottinn.
Guðs lamb, sem burtber heimsyns syndir, bænheyr þú oss Drottinn.
Guðs lamb, sem burtber heimsyns syndir, miskunna þú oss Drottinn.
Bið fyrir oss, Heilög Guðs móðir. Til þess að vér getum orðið verðug fyrirheita Krists.
Látum oss biðja. Vér biðjum þig Drottinn, úthell þú náð þinni í hjörtu vor, svo að vér, sem fyrir fagnaðarboðskap engilsins höfum orðið þess vísari, að Sonur þinn er maður orðinn, verðum fyrir þjáningar hans og kross leidd til upprisu dýrðarinnar.
Fyrir hinn sama Drottin vorn Jesúm Krist, Son þinn, sem lifir og ríkir með þér í einingu Heilags anda, Guð frá eilífð til eilífðar. 
Amen.

Á þessari YouTube vefslóð má heyra bænirnar beðnar. 

Heimildir: 
Rósakransinn. Hjalti Þorkelsson tók saman. Kaþ. kirkjan á Íslandi 1978.
The New Rosary with the Mysteries of Light. Fr. Paolo O. Pirlo SHMI. Útg. Sons of Holy Mary Immaculate - Quality Catholic Publications. Manila, Philippines 2002.
Kaþólsk bænabók. Félagsprentsmiðjan Reykjavík 1922.
Vefur Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi: http://www.catholica.is/rosakransbaenir28.02.20

  17:27:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 80 orð  
Flokkur: Stjórnmálarýni, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Kristin pakistönsk kona sækir um hæli í Frakklandi

Asia Bibi kristin pakistönsk kona sem sýknuð var af guðlastsákæru í heimalandinu hefur sótt um pólistískt hæli í Frakklandi. Hún var dæmd til hengingar fyrir guðlast árið 2010 og sat í fangelsi en hæstiréttur Pakistan tók mál hennar upp og sýknaði hana í janúar 2019. Hún flúði frá Pakistan í fyrra og fékk tímabundið hæli í Kanada. Í síðasta mánuði sat hún fyrir á mynd ásamt franska blaðamanninum Anne-Isabelle Tollet ævisöguritara sínum og baráttumanni fyrir frelsi hennar. AsiaNews greinir frá þessu: [Tengill]

27.02.20

  17:10:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 47 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Trúaðir í Singapore fylgjast með messum á netinu eða í útvarpi

14. febrúar sl. sendi Goh Seng Chye erkibiskup í Singapore frá sér hirðisbréf þar sem hann tilkynnti að allt messuhald yrði lagt niður um óákveðinn tíma til að hefta útbreiðslu Covid-19 veikinnar. Erkibiskupsdæmið sendir út messu daglega á YouTube og í útvarpi. AsiaNews greinir frá þessu hér: [Tengill]

26.02.20

  16:13:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 41 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

98 ára gamall biskup læknast af Covid-19

Biskupinn í Nanyang, msgr. Zhu Baoyu er elsti sjúklingurinn sem nær sér af kórónaveirunni. Hinn 98 ára gamli sálnahirðir veiktist 3. febrúar síðastliðinn af Covid-19 lungnabólgu. Hann losnaði við veiruna 12. febrúar og læknaðist af lungnasýkingunni 14. febrúar síðastliðinn. AsiaNews greinir frá þessu hér: [Tengill]

Baoyu biskup

24.02.20

  16:34:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 179 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Bænir

Öndunaræfingar af trúarlegum toga

Sum nútíma snjallúr innihalda smáforrit sem minna fólk á að slaka á í erli dagsins og gera róandi öndunaræfingar. Í þessu sambandi má minna á að sambærilegar öndunaræfingar í trúarlegum tilgangi eru vel þekktar í hinni kristnu trúarhefð. 

Jón Rafn Jóhannsson sem lést á árinu 2018, meðlimur í leikmannareglu Karmels, landmælingamaður, kortagerðarmaður og mikilvirkur þýðandi rita af trúarlegum toga skrifaði til dæmis árið 2006: 

„Mig langar að segja ykkur frá ákalli til hins Alhelga hjarta Jesú sem ávallt er unnt að grípa til í erli dagsins og þegar illar hugsanir og freistingar sækja á okkur. Það er svona:

Alhelga hjarta Jesú, miskunn!

Þegar við öndum að okkur segjum við: Alhelga hjarta Jesú. Síðan nemum við staðar í hjartanu nokkur andartök, og segjum síðan með útönduninni: Miskunn! Þannig streymir miskunn hans yfir líkama okkar, sál og anda. Þetta hefur gefist mér, bersyndugum manninum, afar vel. Öll verðum við iðulega að kjósa á milli góðs og ills á pílagrímsgöngu okkar á jörðinni. Slík áköll hjálpa okkur til að ganga Veg lífs og hlýðni boðorða Drottins."

Sjá pistil Jóns í heild sinni hér: [Tengill]. 

Alhelga hjarta Jesú, miskun!

04.02.20

  15:51:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 169 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúarleg tónlist og textar

Karmelsystur gefa út tvo geisladiska með aðstoð Jónasar Sen

Vefsíðan globalsistersreport.org sem gefin er út í Kansas greinir frá því að Karmelsystur í Hafnarfirði hyggist gefa út tvo geisladiska á árinu með aðstoð Jónasar Sen. í viðtali sem blaðamaður vefsíðunnar á við systur Miriam karmelnunnu í Hafnarfirði og Jónas Sen kemur fram að Jónas hefur samið 33 lög við ljóð spænska dýrlingsins og karmelmunksins hl. Jóhannesar af Krossi og einnig við ljóð franska dýrlingsins og karmelnunnunnar hl. Therese af Jesúbarninu, oft kenndri við heimabæ sinn Lisieux. Jónas kemur með tillögur að útsetningum fyrir hljóðfærin sem systurnar nota en þau eru aðallega hljómborð, fiðla, gítarar, mandólín, flauta, sópranblokkflauta, xylófónn auk fleiri. „Ég kem með tillögur að útsetningum en útfærslan er verk systranna" segir Jónas. „Þeim virðist falla lögin vel í geð og þær eru afar hvetjandi. Þakklæti þeirra hvetur mig til að semja meira. Söngur þeirra er einkar fallegur og söngurinn gefur messunum hátíðarblæ. " Tónlistarsamstarf systranna og Jónasar hefur haft góð áhrif á gesti sem koma til klaustrins segir systir Miriam í viðtalinu sem sjá má í heild sinni hér [Tengill].

Karmelsystur. Mynd globalsistersreport.org sem birt er með leyfi karmelsystra

27.01.20

  13:01:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1801 orð  
Flokkur: Philumena

Trúfræðsla „Faðir vor"

"Faðir vor"

Með skírninni erum við innlimuð í líkama Krists, kirkjuna og öðlumst þar með barnarétt sem systkini Jesú Krists. Með fermingunni staðfestum við trú okkar og vilja til að breyta í samræmi við vilja þess Guðs sem við köllum Föður okkar. Enda þótt við séum sköpuð í mynd hans erum við endurreist til líkingar við hann með náð, og við verðum að bregðast við þessari náð með því að haga okkur sem synir eða dætur Guðs. Barnarétturinn, sem er frí gjöf, krefst þess af okkur að við tökum stöðugum sinnaskiptum og lifum nýju lífi.Sá sem elur í brjósti sér miskunnarlaust og ómannlegt hjarta getur ekki kallað Guð allrar gæsku Föður sinn, því sá hinn sami hefur ekki lengur auðkenni himneskrar gæsku Föðurins. Það er hið auðmjúka treystandi hjarta sem gerir okkur kleift að biðja í samfélagi við Krist til Himnaföðurins með ávarpinu "Faðir vor". Þetta nafn vekur í okkur kærleikan og tiltrú að öðlast það sem við erum í þann mund að biðja um. (Tilvísun: Hl. Ágústínus, De serm.Dom.in monte 2, 4, 16: PL 34, 1276)

"Þú sem ert á himnum"

Þetta biblíulega orðalag "á himnum" táknar ekki stað (rúm), heldur tilveru, það vísar til samfélags hinna hjartahreinu, hinna hólpnu eða heilögu. Þetta samfélag eða föðurhús" á himnum" er hið endanlega föðurland þeirra sem hólpnir eru. Með því að úthýsa syndinni, sem ávallt ber hinn illa ávöxt óhamingjunnar, erum við smám saman að byggja okkur bólstað í sæluríki Guðs. Þannig mætti segja að "himnaríki" hefjist ekki við dauðann, heldur í  jarðnesku lífi hins hjartahreina. Þótt hið veraldlega bregðist okkur, gefst okkur kostur á með eftirbreytni eftir Kristi að upplifa þegar í þessu lífi hinn góða ávöxt kristins lífernis og gildismats," hamingjuna", sem felst í öryggi, von, gleði og friði. Sá einn getur með réttu beðið "Faðir vor, þú sem ert á himnum" sem vegna trúfestu er meðvitaður um að Guð sé þegar búin að taka sér bólfestu í hjartanu. Sá trúfasti hefur brugðist við kalli Guðs til góðra verka og því búið Honum heilagt musteri í hjarta sínu. Þess ber því að gæta að þótt kristnir menn séu holdi klæddir, ber þeim ekki að lifa samkvæmt holdinu, heldur í samræmi við andann sem í holdinu býr --vera Guði trú allt til dauða og þar með  kenningum þeim sem Postulunum og þeirra eftirmönnum var uppálagt að boða af Kristi sjálfum í orði og verki. Þær kenningar hafa haldist í samræmi við frumkirkjuna innan kaþólsku kirkjunnar, sem Kristur sjálfur stofnaði, tilnefndi og skipaði undir vald fyrsta Páfans Pétur Postula:. Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast..... (Jh 1:42; Mt 16:18-20). Ef við hagnýtum okkur þetta hjálpartæki, kenningar kaþólsku kirkjunnar, sem Kristur heitir að verði öllum trúföstum mönnum til bjargar allt til endurkomu Hans, þá er leiðin greið að loka takmarkinu--að gerast þegnar í himnaríku um alla eilífð í samfélagi við Guð og alla aðra kærleiksríka menn sem keppt hafa að sama marki. Með Kristi og Hans leiðsögn sigrumst við á öllu mótlæti sem okkur kann að henda í veröldinni, í skjóli Hans sköpum við okkar eigið himnaríki á jörðu þar sem ekkert skiptir máli nema endalokin sem engin getur umflúið en allir geta umbreytt með trúfestu í orði og verki. 

"Helgist þitt nafn"

Þetta ákall er lofgjörð sem beinist að því að nafn Guðs megi ávallt vera mönnum heilagt. Með því að skapa manninn í sinni líkingu krýndi Guð hann "með sæmd og heiðri," en maðurinn syndgaði og "skortir því Guðs dýrð." (S1 8:6;Rm 3:23;sbr. 1M 1:26) Frum-foreldrar okkar, Adam og Eva, féllu í þá freistni að vilja verða sem Guð --settu sinn vilja gegn vilja Guðs með því að óhlýðnast fyrirmælum Hans. Afleiðingin varð erfðasyndin, hin fallna náttúra mannsins, sem gerir það að verkum að eðlishneigð mannsins beinist að sjálfselsku. Eftir að maðurinn hins vegar var uppvakinn í Kristi og nafn Hins heilaga Guðs opinberað í Syninum, í holdinu, sem Frelsara, öðlaðist maðurinn lifandi fyrirmynd hlýðni í stað hins kalda bókstafs lögmálsins. Þessi lifandi fyrirmynd, sem helgaði sig fyrir okkur svo við séum einnig helguð í sannleika, auðveldar manninum að endurreisa þá ímynd sem hann í upphafi var skapaður til að gegna. --að yfirbuga sjálfselskuna og rækta með sér skilyrðislausa ást --kærleika til Guðs, og vina jafnt sem óvina. (Jh 17:11, 19) Holdtekja Krists boðaði þannig þau stakkaskifti á hinum kalda lagabókstaf, sem Gyðingum var boðið að fylgja og hinum lifandi syni Guðs, sem þjónaði því hlutverki að gerast fyrirmynd þeirra sem í Hans anda lofa nafn Guðs og þjóna honum einum. "Helgist þitt nafn" er lofgjörð til Guðs föðurins og áminning Krists um að við leitumst við að verða heilög og hæf til himnavistar. "Verið heilagir eins og Faðir yðar á himnum er heilagur," segir Kristur. (Kólossubréf 3:1-189. Í skírnarvatninu erum við "laugaðir...helgaðir" réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir Anda vors Guðs." (1Kor. 6:11) Í öllu lífi okkar erum við kölluð af Föður okkar til heilagleika og það er Honum "að þakka að við erum í samfélagi við Krist Jesúm. 

Komi þitt ríki

Ríki Guðs er ríki þeirra sem tilbiðja hinn þríeina Guð: Föðurinn, Soninn og Hinn Heilaga Anda. -Það er ríki þeirrar Heilögu Þrenningar sem við biðjum að komi og verði að veruleika við endanlega komu ríkis Guðs með endurkomu Krists til jarðar --ríki réttlætis friðar, og fögnuðar. En það skírskotar einnig til að í raun hefur ríki Guðs verið að koma allt frá boðskap Krists, sem kveður á um að: "Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu" (Mk 1, 15) Við síðustu kvöldmáltíðina staðfesti Kristur að tíminn væri fullnaður og að Guðs ríki hinna trúföstu væri í nánd: Hann væri og myndi ávallt vera mitt á meðal okkar allt til enda veraldar í evkaristíunni, sem við meðtökum í Heilagri Messu þ.e.a.s.  líkama, blóð, sál og guðdómleika Jesú Krists undir ásjónu brauðs og víns. Við sem enn lifum á tímum úthellingar Heilags Anda erum fyrir tilstuðlan Heilags Anda kölluð til leggja okkar að mörkum til að beita okkur fyrir því að lifa svo að við getum með hreinum huga og óttalaust beðið "komi þitt ríki". Með því að fylgja sæluboðunum (Ég trúi bls 132) gerumst við virkir þátttakendur í endursköpun okkar til hins nýja manns sem hlýðir hinum fagnaðarríka boðskap Jesú.  

Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

Faðir okkar á himnum "vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum." (1Tim 2:3-4) Þessvegna kennir Kristur okkur að leitast við að vilji okkar verði sem vilji Guðs Föðurs, sem ríkir á himni í samfélagi við hina heilögu og á því einnig að ríkja í hjörtum okkar ef við viljum teljast til Guðs barna og erfingja þess ríkis sem koma skal. Boðskapurinn um vilja Guðs er ekki langsóttur né torskilinn, hann er sameinaður í einu orði "kærleikanum" Í fyrsta lagi kærleikanum til Guðs, sem er algóður, og því ekki erfitt að elska Hann og í öðru lagi kærleika til allra manna. Þessi 2 kærleiks boðorð eru undirstaðan undir þeim friði og þeirri hamingju sem við strax á jarðríki búum okkur undir að njóta að eilífu. Og til áréttingar um annað boðorðið, sem okkur hugnast kannski ekki alltaf alveg eins vel, segir Hann: "Elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hver annan." (Joh. 13:34; 1Jh. 3; 4; Lk. 10:25-37) Takist okkur að halda þessi 2 kærleiksboðorð höfum við jafnframt haldið þau 10 boðorð sem Móse boðaði í GT og sem eiga að leiða mönnum fyrir sjónir hvað ber að varast til að syndga ekki gegn Guði. Í stað hins kalda bókstafs lögmálsins höfum við nú öðlast lifandi og holdi klædda fyrirmynd í Jesú Kristi sem sjálfur lét ekki deigan síga, en var trúr í hlýðni sinni við Guð föðurinn allt til dauða. Okkur til fyrirmyndar, sagði Jesú,  "Ég er kominn til að gjöra vilja þinn, Guð minn"...Og til frekari skýringa segir Páll postuli "og þótt hann Sonur væri, lærði (Jesú) hlýðni af því sem hann leið" líkt og við einnig eigum að læra af því mótlæti sem lífið óhjákvæmileg hefur upp á að bjóða. (Heb. 5:8) Með því að staðfesta trú okkar á Jesú Krist göngum við til liðs við Hann og gerum Hann að leiðarljósi okkar í viðleitni okkar til að þjóna kærleikanum í stað sjálfselskunni og að láta þar með alltaf gott af okkur leiða. Bænin er hjálpartæki okkar til að öðlast þennan nýja mann, en þó ber ávallt að gæta þess að orðin tóm megna lítils til að opna okkur dyr himneskrar sælu verkin eiga að staðfesta og fullkomna einlægni okkar í eftirbreytni eftir Kristi, líkt og Kristur sem kominn var til "að gjöra vilja Föður míns sem er á himnum" ekki bara í orðum heldur einnig í kærleiksverkum sem innsigluðu trúfestu Hans allt til dauða. (Mt. 7:21)

Vort daglegt brauð

"Gef oss í dag vort daglegt brauð" er ákall til Himnaföðurins, --bæn um  að okkur muni aldrei skorta neitt hvorki til líkama né sálar. Með þessari bæn er Jesú að áminna okkur á að þó að Himnaföðurinn elski okkur og Hans vilji sé að okkur skorti ekki neitt eins og góðu foreldri sæmir, þá ber okkur ekki að taka öllu sem sjálfsögðum hlut, heldur að biðja, því bænin kallar á þakklæti jafnvel fyrir það sem sjálfsagt er. Húsaskjól og fæði eru t.d. sjálfgefið í hugum margra barna, en samt er það ekki sjálfgefið að foreldrarnir geti ávallt veitt það eins og víða er dæmi um þar sem efnisleg gæði eru af skornum skammti. Því ber okkur öllum börnum sem fullorðnum að biðja og þakka jafnvel fyrir sjálfsagða hluti eins og hið daglega brauð eða hið daglega fæði. En til áréttingar um að biðja um og þakka jafnvel svo nauðsynleg gæði sem fæði, eins kemur fram í bæninni um daglegt brauð, þá minnir Kristur okkur einnig á andlegu hlið þessarar tilvitnunar í Faðirvorinu, nefnilega hið allra nauðsynlegasta, hið sanna keppikefli sem hefur forgang fram yfir allt hið efnislega, Guðs ríki, sem eitt getur veitt okkur þann styrk sem við þörfnumst til að þola þrengingar, allt annað er aukaatriði í samanburði við það að eiga trú á og styrk Heilags Anda, sem Guð sendir okkur til stuðnings þegar við biðjum. Skortur hvort sem er andlegur veikleiki eða efnislegur er okkur oftast til eflingar andlega, þar sem mótlæti en ekki meðlæti er aflvaki trúarstyrks okkar. Líkt og demantar sem myndast aðeins undan ógnar þrýstingi getur skortur eða mótlæti orðið okkur til eflingar í ásetningi okkar að eignast hlutdeild í Guðsríki og það eitt er andanum, sem lifir að eilífu, ómetanlegt. Þessu til áréttingar segir Jesú: Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum við að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning." (Mt 6:31-34)  

Philumena

17.01.20

  16:29:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 423 orð  
Flokkur: Minningar

Jón Valur Jensson minning

Mig langar að minnast vinar míns Jóns Vals Jenssonar sem lést 5. janúar á 71. aldursári. Útför hans fór fram frá Kristskirkju í Landakoti í gær 16. janúar og í dag 17. janúar 2020 var hann jarðsettur í Gufuneskirkjugarði.

Leiðir okkar lágu saman fyrir rúmum 30 árum í starfi kirkjunnar, við páfakomuna og í ritnefnd kirkjublaðsins. Við héldum vinskap okkar áfram á blogginu á kirkju.net og blog.is og síðar í málefnastarfi Kristilegra stjórnmálasamtaka sem hann stofnaði.

Jón var léttur í lund, það var stutt í brosið og spaugið. Hann var vel lesinn, fróður og hafði gott minni og frásagnargáfu. Það var því tilhlökkunarefni að hitta hann. Hann var fljótur að koma auga á röksemdir og sjónarhorn og hafði afar gott vald á rituðu máli. Textarýni hans var einstök.

Jón hafði mikinn áhuga á málefnum samfélags og kirkju. Hann var lífsverndarsinni og starfaði ötullega að þeim málum. Í þjóðfélagsumræðu liðinna ára sem einkenndist af örri þróun, var gjarnan gengið á hólm við ýmis ríkjandi viðhorf. Hann tók þeim áskorunum og tókst gjarnan á við sjónarmið sem gengu gegn hefðbundnum gildum. Á þessu sviði var hann mikilvirkur og kom víða við. Í skrifum hans endurspeglaðist mikill sannfæring á þeim málstað sem hann varði, sannfæring sem getur aðeins hafa sprottið af því að hann hafði helgað lífið baráttumálum sínum.

Hann lýsti sjálfum sér sem aðgerða- og umbótasinna og nýtti óspart bæði blogg og innhringiþætti til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Sum þeirra mála sem hann tjáði sig um voru eða eru hita- og átakamál. Það eru ekki allir tilbúnir til að opinbera afstöðu í slíkum málum, hvað þá ganga fram fyrir skjöldu á opinberum vettvangi og einkum og sér í lagi ekki ef sú frammistaða brýtur á meginstraumi. En við þetta var hann bæði duglegur og djarfur og hlaut fyrir bæði lof og last. Hann barðist samt málefnalega og drengilega og uppskar virðingu margra andstæðinga.

Hann fékkst við ljóðagerð og gaf út bækurnar Sumarljóð 1991, Hjartablóð 1995 og Melancholic Joy 2011. Ljóð og skrif á erlendum málum er einnig að finna á bloggsíðunni jonvalurjensson.livejournal.com.

Ég var svo lánsamur að vera í vinahópi Jóns og ég veit að ég á eftir að sakna hans. Reykjavíkurferðirnar verða ekki hinar sömu þegar hann er horfinn af sviðinu með glaðvært bros sitt, hlýlegt fas og fróðleik. Nú er langri vöku lokið. Mér er efst í hug þakklæti fyrir afar ánægjuleg kynni. Hvíl í friði vinur og ármaður Íslands. Megi ljósið eilífa lýsa þér. Aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Ragnar Geir Brynjólfsson


Þessi minningargrein birtist fyrst í Morgunblaðinu í gær 16. janúar. Hér er lítillega við þá grein aukið.

14.12.19

  07:45:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2626 orð  
Flokkur: Karmelnunnurnar Hafnarfirði

Heilagur Jóhannes af Krossi, vegvísir kærleikans

Í ritverkum sínum beinir Heilagur Jóhannes af Krossi, sem bar viðurnefnið hinn Dulræni Doktor eða Doktor hinnar myrku nætur, aðallega athygli sinni að: kærleika til Brúðgumans - Jesú Krists, og brúðarinnar- sem er sálin. Öll önnur efnistök sem hann tekur til umfjöllunar eru annaðhvort dregin af þessu megin efnisatriði eða þau vísa til þess. Jóhannes er djúpt snortinn af hinum óendanlega kærleika Guðs til manna, sem hann annaðhvort hafði sjálfur uppskorið í gleðivímu fyrir náð heitra bæna - eitthvað í líkingu við þá upplifun sem  ummyndun Krists á fjallinu framkallaði hjá postulunum (Mt 17:1-8), eða sem hann upplifði í myrkri sársaukafullrar reynslu.

Það var fyrir tilstilli þessarar formyrkvunar, að honum var endanlega gert kleift að skilja þá natni og umhyggju, sem Guð auðsýnir er Hann leitar mannsins til að leiða hann til þeirrar fullkomnunar að hann megi verða sem Guði líkastur. Það er endurlausnarverkum Jesú að þakka að gjáin, sem myndaðist fyrir tilstilli syndarinnar, var brúuð. Guð er óþreytandi að leitast við að beita menn margvíslegri lífsreynslu til að leiða menn til sín, en til þess þarf maðurinn sjálfur að hefja för sína í þeirri bjargföstu trú að Hann sé í raun og veru til. Í ritverkum sínum leitast Jóhannes ekki bara við að lýsa hinni sársaukafullu endurkomu úr myrkviði og efasemdum, heldur einnig gleðinni, sem er ávöxturinn. Í formálanum að hinum

Andlegu lofsöngum leggur hann hinsvegar sjálfur áherslu á að vera minnugur eftirfarandi: "Hver getur lýst með orðum þeim skilningi sem Hann veitir kærleiksríkum sálum, sem Hann dvelur í? Hver getur lýst með orðum þeirri reynslu, sem Hann miðlar viðkomandi? Hver getur, þegar allt kemur til alls, fyllilega lýst þeirri þrá, sem Hann kveikir í sálinni? Svo sannarlega getur það engin! Ekki einu sinni þær sálir sem verða fyrir upplifuninni. Af þeim sökum lýsa þessir einstaklingar eitthvað af reynslu sinni í orðaflaumi táknmynda til samanburðar og á líkingamáli, og úr auðlegð andans flæðir leynd og leyndardómar fremur en rökvís skilgreining.

Á íkoninu er heilögum Jóhannesi af Krossi lýst sem vegvísi á vegferð til Karmelfjalls. Karmelfjall er ekki bara ein af mörgum hæðum í Palestínu - það er vagga Reglu Hinnar Sælu Meyjar Maríu á Karmelfjalli. Öldum saman hefur það gegnt ákveðinni táknmynd, sem regla Karmels skilgreinir á dulrænan hátt. Í huga Jóhannesar af Krossi er Karmelfjall og leiðin upp á tind þess ímynd hinnar löngu vegferðar sálarinnar, sem hún þarf að þrauka til að samsamast  Guði - til algjörrar einingar Guðs og manna - hún leiðir til fullkomnun áætlunar Hans fyrir þann mann sem tekst hana á hendur. Jafnframt er þetta fjall táknmynd Jesú Krists sjálfs. Í anda þeirrar ímyndar snúa hinar berfættur Karmelnunnur sér að Maríu í heitri bæn og trausti þess að fyrir bænarstað hennar munu þær njóta velgjörða hennar á vegferð sinni upp á tindinn -"ad montem, qui Christus est" ("Megi hin ljúfa liðsemd hinnar sælu Meyjar Maríu Móður og Drottningu Karmels verða okkur til hjálpræðis, þess biðjum við Ó Drottinn, svo að styrktar af vernd hennar við megum megna að ná til fjallsins, sem er Kristur.")  

Með krossinn í hægri hendi sér, líkt og staf, bendir heilagur Jóhannes í átt að leiðarlokum -að tindi fjallsins. Á hraðri göngu í átt að tindinum, líkt og honum liggi mikið á, bendir hann áhorfanda með vinstri hendi á opna bók í hægri hendi, en á hana er letrað skírum stöfum boðskapur, sem ekki er hægt að misskilja: "Í óskilorðsbundinni ást/Gildir það lögmál/Að sá sem elskar verður/ Eins og sá sem hann elskar" (Romance The Incarnation, p. 66). Sem þýðir: Ef þú vilt öðlast fullkomnun kærleikans, þá er aðeins ein leið - Jesús Kristur. Jóhannes fer þó ekki í grafgötur með það að: leiðin til að endurskapa sál þ.e. brúðurina í anda Jesú Krists þ.e. Brúðgumans, þá leiðir Brúðguminn um vegferð, sem er Hans lífi líkast, og því líkust vegferð krossins. Í Guðspjöllunum minnir Jesús á: "Gangið inn um þrönga hliðið og þrönga veginn," sem er eini vegurinn sem leiðir til konungsdæmi Hans. (Mt 7:13-14).  Jóhannes fylgir í fótspor Hans: "Því á þessum vegi er aðeins rými fyrir sjálfsafneitun og krossinn. Krossinn er sá stuðningsstafur sem léttir og auðveldar ferðalagið." (The Ascent of Mount Carmel II 7:7, p. 171) . Já, krossinn er hinn stöðugi ferðafélagi á sama hátt og hann er ávallt til staðar í lífi hvers manns. En sá, sem viljandi axlar hann, mun upplifa þversögn krossins; hann mun verða hans björgun. (Mt 16:25), hann mun reynast harðræði hans, en þó léttur, hann mun reynast ok, en samt létt ok, (Mt 11:30) því hann býður upp á hlutdeild í lífi Jesú, sem þegar í þessu jarðneska lífi veitir okkur hamingju. Samskonar viska endurómar í riti Jóhannesar: "Ef einstaklingar taka ákvörðun um að bera kross sinn, ef þeir af sjálfsdáðum finna hjá sér hvöt til að þrauka gegn freistingum á öllum sviðum allt fyrir kærleika til Guðs, munu þeir hinir sömu verða áskynja mikillar huggunar og ljúfleika.." (The Ascent of Mount Carmel II 7:7, p. 171) 

Silfurlitur lýsir upp krossins á íkoninu -fyrir Jóhannesi er það litur trúarinnar. Trúin á viðveru Guðs í öllum raunum manna, sem gerir að verkum að krossinn verður að nokkurskonar vegvísi. Trúin og krossinn mynda sameiginlega myrkvan reynsluheim en þjóna um leið sem öruggur áttaviti.

Hjarta Jóhannesar er lýst upp af blóðrauðri eldtungu sem tekur á sig dúfulíki Heilags Anda. Í samræmi við sálina - brúður lofsöngs Hans - ber dýrlingurinn vitni um að slíkur ástareldur er verk Guðs sjálfs, og að sálin verði að hlýða kalli Guðdómsins, hlýðinn vilja Hans: "Með ekkert annað leiðarljós eða vegvísi /en það sem brann í hjarta mér." (The dark Night, Stanza 3, p. 359)

Öll líkamsstaða dýrlingsins ber vott um mann á hraðferð og stefnufestu hans - lífið er of dýrmætt til að eyða til einskis svo mikið sem einu augnabliki og það á vegi, sem þegar hefur verið lagður og þar sem Guð í allri sinni Gæsku bíður - æðsta þrá og gleði mannsins. Smá viðsnúningur Jóhannesar í átt að áhorfanda sýnir að augnaráðið sem hann sendir honum er barmafullt af hvatningu og ákveðni. Hann virðist segja: "Það er þess virði að þola allt harðræði, því Guð er þess virði. Eldtunga er þess megnug að kveikja svo í hjarta þínu að það fær þig til að yfirgefa hinn þrönga heim eigin hvata og gefa þig algjörlega á vald þeirrar fegurðar og eilífðar sem fyrirhuguð er í kærleiksáætlun Hans þér til handa."

"Ef einhver leitar Guðs, þá er Brúðguminn þegar að leita hans enn ákafar." (The Living Flame of Love 3:28, p. 684) Hann er ávallt Ljósið sem lýsir, jafnvel strax í upphafi vegferðar. (Jh 1:9). En augu sálarinnar þarfnast hreinsunar. Guð er "of" nálægur henni. Ljós Hans er of skært, að því marki að það byrgir jafnvel dapri sjón hennar sýn, þessvegna þrammar hún áfram í myrkri þar til sjónin hefur verið endurvakinn. Þessi leyndardómur Guðs, sem lýsir sér upphaflega í trúarlegri glámskyggni, er sýnt á táknrænan hátt með fölgulum lit stígsins upp á tindinn. Guli liturinn er svo nátengdur gyllta litnum að hann er stundum notaður í staðinn fyrir sjálft gullið. Gull á íkonum táknar hið Guðdómlega ljós. 

Karmelfjall er óvenjulega bratt og fullt af gjám. Við rætur þess eru þrjár uppgönguleiðir. Þær vísa til teikningar sem Jóhannes af Krossi notaði við kennslu sína. Teikningin sýnir þrjár leiðir til uppgöngu með eftirfarandi leiðbeiningum: leiðin til hægri vísar til þeirra sem leita veraldlegs ávinnings, sú til vinstri - leið þeirra sem leitast við að öðlast laun á himnum fyrir verk sín. Vegurinn í miðjunni - er vegur sjálfsafneitunar. Vegirnir tveir til hliðanna lokast og leiða ekki upp á tindinn. Þangað leiðir aðeins vegur þess sem leitar ekki "umbunar" krefst einskis, (The Ascent of Mount Carmel II 7:7, p. 171) sem í raun er einfaldlega eftirbreytni eftir Kristi: "sem, þótt Hann væri í Guðs mynd' (…)  svipti Hann sig öllu." (Phil. 2:6-7)

Krúna fjallsins er umvafin gullnum "bjarma." Tindurinn er flatneskja sem "teygir" sig í átt að hinni gullnu eilífð Guðs. Heilagur Jóhannes skýrir þetta með teikningu sinni: "Aðeins tignun Guðdómsins og heiður ríkir á því fjalli. Hér er enginn vegur lengur til staðar, því fyrir hinum réttláta ríkir ekkert lögmál; hann er orðinn eitt með lögmálinu." Margsinnis áréttar heilagur Jóhannes aðdáun sína á frelsi Guðs barna, sem þeir njóta sem hafa látið leiðast upp fjallið þar sem afneitun (hins veraldlega) verður að (andlegum) ávinningi, og af fúsum og frjálsum vilja tóku móti dauða (dauða sjálfselsku) - sem markast af byrjun á nýju lífi (í Guði). Hin Heilaga Guðs Móðir ríkir hér. Meðal skapaðra naut hún í fyllsta mæli frelsi í Guði fyrir tilstilli hins óskilorðsbundna "fiat,"-  "Sjá ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum." (Lk 1:38) Í  faðmi hins helga hjarta hennar ríkir Jesús alfarið - María er lifandi hásæti Hans - og á sama tíma, ríkir Hann sem hin æðsta ímynd mannlegrar náttúru. María er fyrir okkur ímynd móður, miðlari og jafnframt fyrirmynd okkar. Ásýnd hennar er mótuð eftir styttu af Maríu frá Stella Maris klaustrinu á Karmelfjalli í Haifa. Jesúbarnið heldur á Karmel skapular - táknmynd um vernd Guðsmóðurinnar og áhrifaríka aðstoð við þá sem takast á við það harðræði, sem er áskapað þeim er takast á hendur hið andlega ferðalag til hins fullkomna kærleika í Guði. Liturinn á klæði Jesúbarnsins er í samræmi við lit eldtungunnar sem prýðir hjarta heilags Jóhannesar. Það er táknrænt fyrir samsömun kærleika Jesú og sálarinnar. Í riti Jóhannesar segir: "Kærleikurinn kallar fram þvílíka samsvörun við samruna elskendanna að segja má að, þeir verða hvor um sig  eins, báðir samsamast í eina heild. Ástæðan er að í samrunanum og ummyndun í kærleika, þá gefast þeir hvor öðrum algjörlega, hvor um sig gefur sig alfarið hinum." (The Spiritual Canticle 12:7, p. 518)

Bláleit silfur uppspretta skýst upp frá hlíðum fjallsins og hverfur síðan niður í gjá. Íkonið afhjúpar þannig aftur fyrir ásjónu okkar takmarkaðan skilning okkar á víðfeðmi trúarinnar, sem Jóhannes líkir við "kristal uppsprettu - með silfruðu yfirborði." (comp. The Spiritual Canticle 12:4, p. 516) Í þessu lífi megnar þráin eftir að sameinast Guði aðeins að uppfyllast í trúnni. Hún "gefur og veitir okkur Guð sjálfan, sem er okkur hulinn af silfraðri slikju  trúarinnar…Því það sem við leggjum trúnað á núna í krafti silfurhjúpi trúarinnar, mun okkur opinberast að fullu við endurfæðingu til nýs lífs og við munum njóta hennar í krafti opinberunar hinnar gullnu trúar. (The Spiritual Canticle 12:4, p. 516)  Ímynd uppsprettunnar vísar einnig til ljóðs eftir heilagan Jóhannes af Krossi Ég þekki vel uppsprettuna. Það fjallar um "söng sálarinnar sem fagnar því að þekkja Guð fyrir trú." Guð sjálfur er Uppsprettan - hinn eilífi og órannsakanlegi leyndardómur, Upphaf og Endir allrar sköpunar, Óviðjafnanleg og Eilíf Fegurð - í stuttu máli: hinn eini og dýrmætasti fjársjóður sem sálinni getur hlotnast (Mt 13:44)  og sem njóta má og færa sér í nyt hér á jörðu niðri. En sálin nýtur hans einungis í hinni "leyndu uppsprettu" og "í miðri nóttu" trúarinnar, því hún þekkir Brúðguma sinn ekki aðeins að hluta til (comp. 1 Cor 13:12), heldur finnur hún  einnig oft fyrir fjarveru Hans. Þessvegna, eins og íkonið gefur í skyn, þá hverfur uppsprettan, sem áður skaust ríkulega  fram frá sprungu í kletti, aftur niður í hinar dularfullu gjár lífsins. Þessi ófullnægði reynsluheimur er okkur nauðsynlegur aflvaki til þess að við megum vaxa í kærleika, von og trú.

Plönturnar í hlíðum kærleiksfjallsins "sem teygja rætur sínar að uppsprettunni" (Jer 18:7-8) vísa til guðdómlegu dygðanna þriggja. Táknmyndir þeirra eru rósarunni, liljan og granattré.

Rósin er táknmynd kærleikans. Sálin, í magnþrungnum ljúfleika sínum, þráir að færa hana Brúðguma sínum í glæsilegum rósavendi. Þessi blóm eru sprottin af  gagnkvæmum kærleika þeirra hvors til annars - hollustu hennar og náðar Hans, "en án Hans náðar og velgjörðar hefði hún ekki megnað að efla með sér þessar dygðir og bera þær fram fyrir Hann." (The Spiritual Canticle 16:8, p. 541)

Liljan er táknmynd vonar um að tengjast Brúðgumanum. Vonin hvetur sálina til að ná því marki og örvar hana til að leggja allt sitt traust á Guð. Sá sem veitir fuglum jarðarinnar  fæði og klæðir liljur vallarins (Mt 6:26-28) mun einnig sjá sálinni fyrir fullkomnum samskiptum kærleikans. Vonin um fögnuð Hans hvetur sálina einnig áfram. Hann mun gleðjast í henni eins og garði skrýddum liljum dygðarinnar, sem Hann sjálfur hefur sáð. (The Spiritual Canticle 17:10, p. 545)

Að lokum eru Pomgranat eplin táknræn fyrir Guðlega leyndardóma og visku í dómum Guðs. (The Spiritual Canticle 37:7, p. 617) Sálin, sem öðlast hefur skilning á þeim fyrir trú, kynnist Guði sjálfum og það eflir í enn ríkara mæli kærleika hennar til Hans, þar af leiðir að hún megnar að upplifa kærleika Hans í á áhrifaríkari hátt líkt og þegar menn teygja safa úr pomgranat epli. (The Spiritual Canticles 37:8, p. 617)

Í öllum þessum táknmyndum undirstrikar Jóhannes samvinnuna milli sálarinnar og Guðs. Og þetta skýrir hinar fíngerðu skrautmyndir plantnanna í fjallshlíðinni, sem gefur um leið til kynna að á vegferð sálarinnar, starfar Jesús, smám saman, svo dyggilega í sálinni að það verður þeim báðum til ánægju.

Blóm eru einnig táknræn fyrir alla þá auðlegð sem sálin getur notið jafnvel enn á jarðvistar sviði. Hinsvegar, þar sem hjartað er frjálst og uppfullt af hugrekki með augun vandlega beint að Brúðgumanum, þá segir hún: "Í leit minni að Ástinni minni mun ég ekki tefja við að safna að mér blómum, svo þau verði mér ekki til trafala á vegferð minni." (The Spiritual Canticle, Stanza 3)

Í einu horni íkonsins eru myndlíkingar af: doktorshöfuðfati og fjöðurstaf sem hvíla á kletti. Staðsetning þeirra eilítið til hliðar er engin tilviljun. Ritverk heilags Jóhannesar, sem liggja til grundvallar kirkjulegri doktorsnafnbót hans, voru honum ekki hugleiknust, heldur fremur léttvæg í hans huga. Honum lá meira á hjarta að sinna köllun sinni til munkalífernis,  sem fól í sér sameiginlegt bænahald og vinnusemi (ora pro nobis). Það var við daglega iðkun þessa hversdagslega lífernis sem honum opinberaðist ríkulega hin dulræna reynsla - Guð-Kærleikur, sem samverkaði í honum í þessu jarðneska lífi fyrir kraft Skaparans og Frelsara vors.

Nánari eftirgrennslan á ímynd hins heilaga Jóhannesar brýtur í bága við hina stöðluðu ímynd af honum sem ströngum, meinlæta manni, því umfram allt er hann Doktor í kærleiks sambandi  brúðar/brúðguma: Orðfæri hans "ekkert" vísar til eigin hollustu við Guðdóminn -að "Ekkert er þess megnugt að hindra sambandið, því ég elska þig af allri sálu minni og ég mun aldrei leyfa augnaráði mínu að víkja að neinu sem ekki  samræmist vilja þínum --ekki eitt einasta augnablik!"

Frá ritverkum hans, og einnig frá íkoni því, sem hér er lýst, streymir ímynd af hlýrri viðkvæmri sál, sem á í kærleikssambandi við Guð. Með kærleikshug sínum, sem beinist einnig til manna, þráir heilagur Jóhannes af öllu hjarta að öllum veitist sú náð að öðlast hlutdeild í Guðlegri visku - að þeir megni að nýta sér þá auðlegð sem hulin er í Kristi og upplifa þannig hans óviðjafnanlega kærleika. Og þetta er það sem maðurinn sífellt leitar að, þótt villist oft af vegi. Vitrun hans af áætlun Guðs, allur sannleikurinn um lífið, sem Jóhannes ber vitni um, er of magnaður, hrífandi og ómetanlegur til að eyða  lífinu til einskis í forgengilega hluti. Af þeim sökum nýtir hann sér öll þau tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða til að ná takmarki sínu. Á sama tíma er honum umhugað um að tendra eld í hjörtum eins margra og mögulegt er með kjarnyrtum orðum. Í þessari þrá sinni líkist hann þrá Jesú er hann biður: "Faðir ég vil að þeir sem þú gafst mér, séu hjá mér þar sem ég er." (Jh 17:24)

Trúboð heilags Jóhannesar af Krossi lifir með okkur enn í dag. Það mun vera okkur að liði allt til enda veraldar, og fyrir tilstilli fyrirbæna hans og ritverka, sem hann lét eftir sig, mun hann lýsa upp hjörtu manna með Guðlegum kærleika eins og orð hans á síðustu ævidögum ber vott um: "Ég leiddi þig inn í land Karmel  svo þú megir verða aðnjótandi bestu ávaxta þess." (Lýsing á teikningu Jóhannesar)

  Íkonið "Heilagur Jóhannes af Krossi, Vegvísir kærleikans," hannað í Karmel, Hafnarfirði, Íslandi. 

Ofanskráð er ritað árið 2009 af Berfættri Karmelnunnu frá Íslandi í tilefni af 70 ára minningarhátíð stofnunar klausturs í Hafnarfirði, á Ísland og 25. minningarhátíð í tilefni af komu pólskra nunna til Íslands.

.www.karmel.is

Þýðandi: Dr. Gígja Gísladóttir 18.10.19

  09:37:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 104 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net

Fróðleg grein um kaþólsku kirkjuna á Íslandi í vikublaðinu Mannlífi

Birna nokkur Stefánsdóttir er með ágæta, upplýsandi 3ja bls. grein um kaþólsku kirkjuna í Mannlífi, sem kom út í dag og er dreift frítt. Þetta er málefnaleg umfjöllun og kemur víða við, byggist umfram allt á viðtali við séra Jakob Rolland, kanzlara kirkjunnar, þ.e. biskupsritara. Greinin er m.a. fréttnæm í fróðleik um fjölda Pólverja og kaþólskra hér á landi, um hina mörgu söfnuði kirkjunnar o.fl., en hún er nú næststærsta kirkjufélag landsins. Það er helzt að það trufli augu undirritaðs að sjá þarna fegrunarhugtakið "þungunarrof" notað ítrekað. En hér er greinin á neti Kjarnans: https://kjarninn.is/skyring/2019-10-18-sivaxandi-sofnudur-katholsku-kirkjunnar/ (einnig í styttra formi á vef Mannlífs: https://www.mannlif.is/frettir/innlent/samfelag-innlent/uppgangur-katholsku-kirkjunnar-a-islandi/ ). ---jvj.

15.04.19

  08:03:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 91 orð  
Flokkur: Bænir

Köllunarbæn

Ó himneski Jesú, þú kenndir okkur að biðja til Drottins uppskerunnar til að senda verkafólk til uppskerunnar. 

Veittu kirkjunni í þessu biskupsdæmi og um allan heim, marga heilaga presta og nunnur. 

Samkvæmt [vilja] þínum megi þau gefa hæfileika sína, krafta, kapp og kærleika til vegsemdar föður þínum, til þjónustu við aðra og sáluhjálpar. 

Ef það mun þóknast þér að velja einhvern úr okkar fjölskyldu til að verða prestar eða nunnur, þá munum við þakka þér af öllu hjarta okkar, núna og ætíð. Amen. 

Bæn kirkjunnar fyrir köllunum, af lausu blaði. RGB.

25.03.19

  23:41:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 75 orð  
Flokkur: Ásgeir Jónsson hagfr.

Af læsi á kaþólskum síðmiðöldum

... Læsi virðist einnig hafa verið mjög almennt meðal almennings undir lok katólskunnar hérlendis ef marka má bréf Péturs Palladíus Sjálands-biskups, aðalforkólfs siðaskiptanna í Danmörku, frá árinu 1546 sem segist hafa frétt það að flestir landsmenn geti lesið og skrifað á sínu eigin móðurmáli. [DI XI, nr. 400]. Verður það að teljast mjög góð umsögn um menntunarstig þjóðarinnar áður en lútersku frumherjarnir komu til sögunnar.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur, úr inngangi hans að Ljóðmælum Jóns Arasonar biskups, Rvík, JPV-útgáfa, 2006, bls. 46.

17.03.19

  17:46:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 38 orð  
Flokkur: Bænir

Bæn hl. Teresu frá Avíla: Lát ekkert trufla þig (Nada de Turbe)

Bæn hl. Teresu frá Avíla: Lát ekkert trufla þig (Nada de Turbe)
Hl. Teresa frá Avíla

Lát ekkert trufla þig,
ekkert hræða þig;
allt er hverfult,
en Guð er ávallt óumbreytanlegur;
þrautseig þolinmæði nær hverju og einu marki;
þeim sem á Guð er í engu ávant;
Guð einn er nóg.

Úr trúfræðsluriti Kk: 1. hluti: Trúarjátningin. https://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/198.html

22.12.18

  13:47:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 360 orð  
Flokkur: Jólafasta (aðventa)

Barnið kennir okkur að lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega

Prédikun Séra Denis O'Leary á Selfossi, 3. sd. í aðventu 2018. Birt með leyfi. 
 1. sunnudagur í aðventu

Í dag er Gaudete Sunnudagur eða „gleði sunnudagur“ vegna þess að gleði er þema messunar í dag. Verið glaðir vegna þess að Jesús kemur til okkar!

Jesús er sonur Guðs. En meira en það, Jesús er Guð Sonurinn - önnur persóna hinnar heilögu þrenningar - Þess vegna er hann Guð! Jesús Kristur er guðleg persóna, ekki mannleg persóna. Jesús er guðleg persóna með tvö eðli: Guðlegt eðli og mannlegt eðli.

Um jól, eins og hirðarnir í Betlehem, megum við einnig, með undrun, horfa á barnið Jesú, son Guðs. Í návist hans megi bæn okkar vera: "Sýn þú oss, Drottinn, miskunn þína, og veit oss hjálpræði þitt."

Árið 2015 bauð Frans páfi öllum viðstöddum í heilagri messu aðfangardagskvöld í Pétursbasilíku í Rómaborg, að taka Jesúbarnið í arma sína. Frans páfi sagði: "Ef við látum Jesúbarnið umfaðma okkur, mun hann kenna okkur hvað það er sem er sannarlega nauðsynlegt í lífi okkar. Hann fæddist í fátækt þessum heimi. Það var ekkert pláss í gistihúsi fyrir hann og fjölskyldu hans. Hann fann skjól og stuðning í fjárhúsi og var lagður í jötu sem var ætluð dýrum. En samt úr þessum tómleika, skein dýrðarljós Guðs. Héðan í frá, er leið endurlausnar opin fyrir hverjum manni og konu sem er einfaldur í hjarta sér. Þetta barn kennir okkur, eins og Hl. Páll segir, "að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum" (Tit 2:12).

"Þetta barn kallar okkur til að gera hluti í hófi með því að hafna neysluhyggju og nautnahyggju, auð og óhóflegri eyðslusemi og sjálfsdýrkun. Með öðrum orðum, að lifa á þann hátt sem er einfaldur og í jafnvægi, sem gerir fært að sjá og gera það sem er nauðsynlegt."

Munið að ílát sem hefur verið fyllt með pipar hefur ekki pláss fyrir salt. Ef líf mitt er fullt af dóti verður ekkert pláss fyrir Guð. Hvað vil ég Guð mikið í lífi mínu? 10%, 50%, 100%? Aðeins Guð gefur okkur sanna gleði.

Gefum okkur frábæra jólagjöf, með því að uppgötva á nýjan leik fjársjóðinn sem Jesús býður okkur með lífi sínu, kennslu og sakramenti - einkum Altarissakramenti og skriftasakramenti.

 

27.08.18

  17:26:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 81 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net

Nýr vefur kirkjunnar á Facebók

Nýstofnaður er Snjáldurskinnu-vefur kaþólsku kirkjunnar, Diocese Reykjavik,* og þar er margar myndir að finna úr starfi kirkjunnar, til dæmis meðal ungmenna og annarra af erlendum uppruna, einnig myndir af biskupi okkar og prestum glöðum á góðri stund -- hér eru séra Patrick Brien, sóknarprestur Dómkirkju Krists konungs, og séra Jakob Rolland biskupsritari: https://www.facebook.com/photo.php?fbid=2054150664837939&set=a.2054152261504446&type=3&theater,, en ef smellt er á myndina, má sjá þar á undan og á eftir margar slíkar líflegar myndir úr ungmennastarfinu o.fl.
Til dæmis hér: https://www.facebook.com/photo.php?fbid=2054151031504569&set=a.2054152261504446&type=3&theater
og hér: https://www.facebook.com/photo.php?fbid=2054150991504573&set=a.2054152261504446&type=3&theater

19.07.18

  15:55:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 177 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net

Hjalti Magnússon: Bæn

við brottför mína úr Stykkishólmi í október 1896. Kringumstæðurnar voru bágar, jeg vildi komast að Djúpi, en átti þar þó enga nótt vísa. Varð að fara í vondri tíð, undir veturinn, bæði sjóveg og landveg.

Alvaldi faðir allra þjóða,
eilífa guðdóms þrenningin,
láttu nú haf og land mjer bjóða
liðugan þrautaferilinn.
Yfirbugað fær ekkert mig,
ef aðeins treysti´ eg fast á þig.

Láttu mótgerðir ljett mjer falla,
ljúfasti, góði frelsarinn !
og nær til dauða´ eg höfði halla,
hirtu þá sálarneistann minn,
oft sem jeg hef um æfiskeið
útfordjarfað á marga leið.

Þótt ófullkominn jeg sje nú svona,
samt flýgur til þín hugur minn,
og ávallt skal jeg á þig vona,
elskuríkasti græðarinn.
Hjá þjer einum er allra skjól
eilíf miskunnar náðarsól.

Heyr þú bæn mína, herra góði,
og hjástoð veit mjer, drottinn kær ;
af miskunar þinnar mæta sjóði
mjer veittu líkn, og vertu nær,
eg svo að þreifi´ um almátt þinn,
elskuríkasti faðir minn.

Drottinn heyrði þessa bæn mína. Mjer gekk ferðin vel, og jeg fjekk atvinnu um veturinn við barnakennslu, og hefi jeg verið við það síðan.

03.05.18

  13:08:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 461 orð  
Flokkur: Minningar

Jón Rafn Jóhannsson - minning

Mig langar að minnast vinar míns Jóns Rafns Jóhannssonar sem lést 13. apríl síðastliðinn. Í dag 3.5.2018 hefði hann orðið 73 ára gamall.
 
Ég minnist okkar fyrstu kynna vel en þau voru á Patrisíafundi sem Maríulegíónin hélt í Stigahlíð 63 um miðjan 9. áratuginn. Patrisíafundir voru spjall- og umræðufundir þar sem einn viðstaddra flutti framsöguerindi og síðan var spjallað saman á óformlegan hátt um málefnið. Ég man ekki lengur umræðuefni fundarins en ég man að Jón tók til máls um lífsvernd og sagði nokkur orð sem mér þóttu athyglisverð og eftirminnileg. Það var vitundarvakning fólgin í því að kynnast sjónarmiðum og skoðunum Jóns Rafns. Hann hafði sterkar og ákveðnar skoðanir á málefnum lífsverndar, siðgæðis og trúar,  tjáði þær ófeiminn og þarf vart að taka fram að hann var einlægur lífsverndarsinni.  
 
Leiðir okkar Jóns Rafns lágu ekki svo oft saman næstu árin. Við heilsuðumst þegar við hittumst í kirkjunni og í kirkjukaffinu. Síðar áttum við eftir að hafa meiri samskipti, en að vísu rafræn.  Það gerðist þegar við Jón Valur Jensson ásamt séra Denis ýttum vefritinu og bloggsíðunni Kirkju.net úr vör. Jóni Rafni var boðið að vera með og hann þáði það í ársbyrjun 2006. Hann varð fljótt áhugasamur og afkastamikill bloggari og liggja eftir hann vel á 7. hundrað bloggpistlar skrifaðir á frá því í janúar 2006 þangað til í maí 2009 og má sjá þá á vefslóðinni http://www.kirkju.net/index.php?blog=15
 
Jón var mikilvirkur þýðandi andlegra rita um helgunar- og dulúðarguðfræði kirkjunnar. Á vefslóð hjá bókaversluninni Lulu.com:   http://www.lulu.com/spotlight/jonrafn/ eru 18 rit skráð og til sölu. Þar af eru 16 þýðingar en tvö ritanna eru tekin saman af Jóni.  Það er ljóst að Jón hefur unnið gott verk í þágu trúarinnar og íslenskrar tungu með þessum þýðingum. Hér á eftir fylgir listi yfir ritin í stafrófsröð. Fyrst eru talin upp heiti, síðan kemur nafn höfundar og loks skráð útgáfuár. Allt eru þetta kiljur nema annað sé tekið fram:
 
Borgin hið innra. Hl. Teresa frá Avíla. 2009.
Bókin um líf mitt. Hl. Teresa frá Avíla. 2009.
Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú. Séra Walter Kern. 2009.
Haurietis aquas. Píus páfi XIII. 2009.
Heilög Fílómena – Litli katakompudýrlingurinn. Jón Rafn Jóhannsson. 2009. 
Hin myrka nótt sálarinnar. Hl. Jóhannes af Krossi. 2016.
Innheimar ljóss og elsku.Wilfrid Stinissen. 2009.
Íhuganir um Ljóðaljóðin. Hl. Teresa frá Avíla. 2009.
Ljóð andans. Hl. Jóhannes af Krossi. Kilja 2009, rafbók 2013.
Ljóð Jóhannesar af Krossi og minni skrif. Hl. Jóhannes af Krossi. 2009. 
Logi elsku – hins flekklausa Hjarta Maríu. Erzsebet Szanto OCDS. 2009.
Logi lifandi elsku. Hl. Jóhannes af Krossi. Kilja 2009, rafbók 2011. 
Nóttin er ljós mitt. Wilfrid Stinissen. 2009.
„Og þú skalt merja hæl þess“ - Jón Rafn Jóhannsson. 2009.
Padre Píó – presturinn heilagi. Jim Gallagher. 2009.
Regla Karmels Teresu – Saga, hin heilögu, andi. Ann-Elisabeth Steinemann O.C.D. 2009.
Uppgangan á Karmelfjall. Hl.Jóhannes af Krossi. 2009.
Vegurinn til fullkomleikans. Hl. Teresa frá Avíla. Kilja 2009, rafbók 2011.
 
Síðustu árin átti Jón við vanheilsu að stríða. Þegar ég heimsótti hann spjölluðum við um þýðingarnar, trúmálin og tilveruna, Jón var einkar víðlesinn og fróður og hafði frá mörgu að segja. Það voru ánægjulegar stundir. Ég minnist Jóns Rafns með þakklæti og virðingu og votta fjölskyldu hans innilega samúð. Megi hann hvíla í Guðs friði. 

30.12.17

  21:11:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 361 orð  
Flokkur: Bænir, Bænir sjúklinganna

Davíðssálmur 88 - bæn fársjúks manns

Sem hluti af tíðabænum kaþólsku kirkjunnar nánar tiltekið í náttsöng föstudaga er Davíðssálmur 88 lesinn. Undirtitill sálmsins í tíðabæninni er „Bæn fársjúks manns“. Á eftir er tilvitnun í orð Jesú í Lúkasarguðspjalli 22,53 við æðstu prestana, öldungana og varðforingja helgidómsins þegar þeir komu til að taka hann höndum í grasgarðinum : „En þetta er ykkar tími, nú ræður máttur myrkranna.“ Sálmurinn er svohljóðandi:

Andstef: Drottinn, Guð hjálpræðis míns, ég hrópa til þín um daga, um nætur er ég frammi fyrir þér.

Drottinn, Guð hjálpræðis míns,
ég hrópa til þín um daga,
um nætur er ég frammi fyrir þér,
lát bæn mína koma fyrir þig,
hneig eyra þitt að kveini mínu.

Ég er mettur af böli,
líf mitt nálægist hel,
ég er talinn með þeim sem gengnir eru til grafar,
ég er sem magnþrota maður.

Mér er fengin hvíla meðal dauðra,
eins og meðal fallinna sem liggja í gröf
og þú minnist ekki framar
því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.

Þú hefur lagt mig í dýpstu gröf,
í myrkasta djúpið.
Heift þín hvílir þungt á mér
og allir boðar þínir skella á mér.

Þú hefur fjarlægt vini mína frá mér,
gert mig að viðurstyggð í augum þeirra.
Ég er lokaður inni og kemst ekki út,
augu mín eru döpruð af harmi.

Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern,
lyfti höndum mínum til þín.
Gerir þú furðuverk vegna framliðinna
eða rísa skuggarnir á fætur til að lofa þig?

Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni,
frá trúfesti þinni í helju?
Birtist undramáttur þinn í myrkrinu
og réttlæti þitt í landi gleymskunnar?

En ég hrópa til þín, Drottinn,
bæn mín berst þér að morgni.
Hví útskúfar þú mér, Drottinn,
og hylur auglit þitt fyrir mér?

Ég var beygður og í dauðans greipum allt frá æsku,
áþján þín hvílir á mér, ég er örmagna orðinn.
Glóandi heift þín gengur yfir mig,
ógnir þínar gera út af við mig,

þær umlykja mig eins og vötn allan liðlangan daginn,
þrengja að mér úr öllum áttum.
Þú hefur gert vini mína og vandamenn fráhverfa mér,
myrkrið er minn nánasti vinur.

Andstef: Drottinn, Guð hjálpræðis míns, ég hrópa til þín um daga, um nætur er ég frammi fyrir þér.

23.12.17

Morgunmessa með Þorláki biskupi helga

Falleg var messan í morgun kl. 8 á Þorláksmessudegi í Dómkirkju Krists konungs. Séra Jakob Rolland las og söng þar messu með þremur tylftum kirkjugesta, en þetta hefur hann gert allt frá 1993 og er mikill Þorláksmaður í sér, það heyrist á öllu. Sungin var hefðbundin messa, en í predikun sinni las hann m.a. úr Þorláks sögu helga. Í lok messunnar sungum við sálm tileinkaðan Þorláki, eftir Stefán frá Hvítadal, og stóðum þá fyrir framan líkneski hins helga manns nærri inngangi kirkjunnar.

Eftir messuna var morgunverður í safnaðarheimilinu, kaffi og súkkulaði, rúnnstykki með osti og sultum og pönnukökur beggja gerða, ljúffengt mjög, og ágæt samvera fólks, sem hristist þarna saman með eilítið frábrugðnum hætti frá því sem vant er, því að hér voru líka í messu margir sem gjarnan mæta í ensku sunnudagsmessuna kl. 18 fremur en íslenzku hámessuna kl. hálfellefu, sem og ýmsir aðrir sem sjaldnar sjást eða í öðrum kirkjum.

Á morgun, aðfangadag, vill svo til, að þá er í raun 4. sunnudagur í aðventu, henni er sem sé ekki lokið fyrr en eftir það, og er hámessan í Landakoti kl. hálfellefu að vanda og þá kveikt á fjórða aðventukertinu. Jólavakan byrjar svo á miðnætti sama kvöld.

Gleðileg jól, allir lesendur hér nær og fjær!

PS. Hér á Björn Bjarnason, fyrrverandi. menntamálaráðherra, góða, fróðlega grein um Þorlák biskup í vefdagbók sinni á Moggabloggi í dag: Messa verndardýrlings Íslands = http://www.bjorn.is/dagbok/nr/8631

02.12.17

  11:02:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 551 orð  
Flokkur: Unnur Gunnarsdóttir

Heimsókn til Medjugorie

Endurbirtur pistill eftir Unni Gunnarsdóttur sem birtist í okt.-nóv. tölublaði Kaþólska kirkjublaðsins. 

Þúsundir kaþólskra pílagríma ferðast til Medjugorje í Bosníu-Herzegóvínu á hverju ári. María mey er talin hafa birst þar fyrst hinn 24. júní 1981 tveimur ungum stúlkum, sem hétu Mirjana Dragićević og Ivanka Ivanković, og næsta dag fjórum öðrum börnum og hefur haldið áfram að birtast fram til dagsins í dag. Páfagarður hefur ennþá ekki viðurkennt þessar birtingar opinberlega en sér þó um rekstur helgireitsins.

Boðskapur Maríu meyjar, Drottningar friðarins, eins og hún hefur nefnt sjálfa sig, hefur ávallt verið með svipuðu sniði, þ.e.a.s. að biðja okkur um að fasta, meðtaka skriftasakramentið og biðja Rósakransinn með hjartanu, þannig færumst við nær Jesú með hennar hjálp, „to Jesus through Mary“.

Nýlega dvaldi ég í Medjugorie í hópi danskra pílagríma og fararstjóri var sr. Benny Blumensaat, sóknarprestur í Esbjerg í Danmörku.

Ég fór ekki til Medjugorje til upplifa kraftaverk eða leggja dóm á hvort birtingar Maríu meyjar væru sannar. Ég fór til að leita friðar í hjarta og sál, og til að dýpka trú mína. Þar upplifir maður hina sönnu lifandi trú bæði með heimafólki og pílagrímum alls staðar að úr heiminum.

Flestir sem heimsækja staðinn vilja ganga á bæði fjöllin sem þar eru, hæðina sem María birtist á (Birtingarhæðina) og á Mount Krizevac (Fjall krossins). Þar er fallegur kross sem íbúar reistu 15. mars 1933 með flís af krossi Jesú sem Píus XI páfi lét koma fyrir. Á leið upp fjallið er pílagrímum ráðlagt að hugleiða samband sitt við Guð og hverju þurfi að breyta til að dýpka sambandið við hann. Oft á sér stað andleg hreinsun og pílagrímar upplifa mikinn innri frið, sérstaklega þegar þeir biðjast fyrir við krossinn. Einnig finna margir fyrir djúpri þrá eftir að ganga til skrifta. Við kirkju hl. Jakobs er hægt að skrifta á öllum stundum sólarhringsins á óteljandi tungumálum og þessari þjónustu sinna hundruð presta af mikilli þolinmæði.

Í Medjugorie eru í boði margvíslegir fyrirlestrar reglufólks og þeirra sem María birtist, um hin ýmsu andlegu málefni, trúna, bænina og fleira. Sjálf sótti ég fyrirlestur hjá sóknarprestinum í Medjugorje, sr. Marinko Sakotar, ásamt fleirum. Hann lagði áherslu á fimm mikilvægustu atriði trúar okkar til að öðlast sanna hamingju og samveru Guðs. Þau atriði eru að biðja með hjartanu, fasta, skrifta, lesa í Biblíunni og taka þátt í messu.

Dagskrá fyrir pílagríma er á opnu svæði fyrir aftan kirkju hl. Jakobs og stendur frá klukkan 16 á daginn fram eftir kvöldi. Þar er hið heilaga altarissakramenti tilbeðið, Rósakransinn beðinn á óteljandi tungumálum, lesin messa og blessaðir hlutir sem pílagrímar hafa meðferðis.

Medjugorje er staður friðar, bænar og trúariðkunar og þess vegna er María mey þaðan kölluð drottning friðarins. Heimsókn þangað er að vissu leyti eins og að fá að koma inn á heimili hennar í Nasaret þar sem hún færir okkur nær syni sínum. Margir sem þangað fara finna fyrir sterkri návist Guðs og fá staðfestingu á að þjáningar lífsins eru hluti af áætlun Guðs og þjóna því tilgangi. Þjáningar geta verið uppspretta stórkostlegrar andlegrar uppvakningar.

Það er ómögulegt að koma til Medjugorie án þess að finna fyrir friði, bæði í hjarta sínu og umhverfi og öðrum pílagrímum. Fyrir mig dvelur þessi friður og staður djúpt í hjartanu og get ég ekki beðið eftir að ferðast þangað aftur. Upplýsingar um pílagrímsferðir þangað er að finna meðal annars á http://www.medjugorjecenter.dk/

Unnur Gunnarsdóttir. 

16.09.17

  07:54:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 186 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Kristnir menn í Sýrlandi þjást enn og flýja land segir sendiherra páfa

Kristnir íbúar Sýrlands líða enn „miklar og víðtækar þjáningar,“ segir sendiherra páfa í landinu. Mario Zenari kardínáli greinir frá því að þótt átök hafi rénað nokkuð í nágrenni Damaskus þá sé enn hart barist í öðrum hlutum landsins „Augljóst er,“ segir hann, „að Sýrland hefur þjáðst um árabil sakir „staðgöngustríðs“ milli áhrifavalda á svæðinu og á heimsvísu.“ Zenari kardínáli sagði enn fremur að ávallt væri „erfitt að meta tölfræðileg gögn,“ en bestu fáanlegar tölur sýni þó að „nærri helmingur“ kristinna manna í Sýrlandi hefur flúið land. Hann sagði að fleiri en tveir þriðju hlutar kristinna fjölskyldna hafi flúið frá Aleppo, en gögn þaðan eru sögð tiltölulega áreiðanleg. Flóttamenn frá Sýrlandi eru „yfir 5 milljónir talsins,“ sagði hann, og af þeim hefði ein milljón haldið til Evrópu.

Kardínálinn sagði að kristnir menn um allan heim ættu að sjá sýrlenskum bræðrum sínum fyrir „tvöfaldri aðstoð“ – veita efnislega hjálp, og stuðning með bænum sínum. Þess skal getið að hér á landi eru nokkrir kristnir sýrlenskir flóttamenn. Hægt er að heyra einn þeirra syngja „Gloría“ á sinni tungu á Facebook-hópnum „Áhugamenn um kaþólska trú.“

Frétt úr Kaþólska kirkjublaðinu, 27. árg. 8.-9. tbl. bls. 10

09.09.17

  09:57:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 125 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Þrettán manns sem skipulögðu hryðjuverkaárás voru handteknir í Egyptalandi

Egypska lögreglan handtók [um miðjan apríl] þrettán manns sem áformuðu að gera árásir á kristna menn og opinberar stofnanir í landinu. Handtökurnar voru ekki síst mikilvægar með tilliti til þess að Frans páfi heimsótti Egyptaland í lok aprílmánaðar. Samkvæmt hjálparsamtökunum „Aid to the Church in Need“ leiddu handtökurnar í ljós „hvernig þessar öfgahópar halda áfram að beina spjótum sínum að hinu kristna samfélagi eftir árásirnar sem gerðar voru á kirkjurnar í Tanta og Alexandríu á pálmasunnudag.“ Samtökin „Íslamska ríkið“ lýsti árásunum, sem áttu sér stað þann 9. apríl, á hendur sér. Í þeim létu fjörutíu og fjórir kristnir menn lífið og fleiri en hundrað slösuðust. Í kjölfar tilræðanna hafa yfirvöld gripið til aukinna öryggisráðstafanna fyrir utan kirkjur landsins.

RGB. Úr Kaþólska kirkjublaðinu 27.árg. • 5.-7. tbl. • maí-júlí 2017. bls. 11

02.09.17

  17:34:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 186 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Nýr sendiherra páfa á Norðurlöndum James Patrick Green erkibiskup

Fimmtudaginn, 6. apríl 2017 skipaði Frans páfi James Patrick Green erkibiskup, nafnbiskup af Altinum, nýjan sendiherra páfa í Svíþjóð og á Íslandi. Gert er ráð fyrir að hann verði skipaður sendiherra páfa á hinum Norðurlöndunum innan tíðar. Green erkibiskup fæddist þann 30. maí 1950 í Fíladelfíu í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum. Hann lærði til prests og tók prestvígslu í erkibiskupsdæminu í Fíladelfíu þann 15. maí 1976. Á fyrstu árunum sem hann vann fyrir utanríkisþjónustu Páfagarðs starfaði hann í Papúa Nýju-Gíneu, Kóreu, Hollandi, Spáni og á skrifstofu sendiherra páfa á Norðurlöndum (í Kaupmanna höfn). Hann dvaldi síðan eitt ár í Taívan sem staðgengill sendiherra áður en hann var fl uttur til
Rómar í lok ársins 2002.

Ferill James Patrick Green í biskupsembætti.
Benedikt XVI páfi skipaði Green nafnbiskup af Altinum þann 17. ágúst 2006 og sama dag var hann skipaður sendiherra páfa í Suður-Afríku og Namibíu og fulltrúi páfa í Botswana. Hann var vígður biskup þann 6. september 2006 af utanríkisráðherra Páfagarðs, Angelo Sodano kardínála. Sama dag var hann skipaður fulltrúi páfa í Lesotho. Þann 23. september 2006 var hann skipaður fulltrúi páfa í Svasílandi. Þann 15. október 2011 var Green erkibiskup skipaður sendiherra páfa í Perú.

Frétt Kaþólska kirkjublaðsins 27.árg • 5.-7. tbl. • maí-júlí 2017. bls. 1

25.08.17

  18:18:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 215 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Sænski biskupinn Anders Arborelius OCD skipaður kardínáli

Í lok hádegisbænar sinnar á Péturstorginu sunnudaginn 21. maí 2017 upplýsti Frans páfi um útnefningu fimm nýrra kardínála. Meðal þeirra er Anders Arborelius OCD, Stokkhólmsbiskup. Það er fyrsta tilnefning sænsks kardínála í sögu Norðurlanda. Hinir kardínálarnir eru Jean Zerbo, erkibiskup í Bamako, Malí; Juan José Omella, erkibiskup í Barcelona, Spáni; Luis Marie-Ling Mangkhanekhoun, postullegur víkar í Pakse, Laos; Gregorio Rosa Chávez, vígslubiskup í erkibiskupsdæminu San Salvador í El Salvador.

Opinber embættistaka fór fram 28. júní og daginn eftir, á stórhátíð postulanna Péturs og Páls, las hinn heilagi faðir messu með hinum nýju félögum í samfélagi kardínálanna. Um 400 Svíar héldu til Rómar til að vera viðstaddir athöfnina, ekki aðeins kaþólskir heldur einnig fulltrúar annarra sænskra trúfélaga.

Í örstuttu samtali við sænska tímaritið Katolskt magasin eftir athöfnina sagðist Arborelius kardínáli vonast til þess að menn sjái að þótt kaþólski minnihlutinn búi í veraldlegu samfélagi þá sé samt hægt að lifa í trú og gleði. Þá telur hann einnig mikilvægt að finna bæði aðferðir og tungutak til að ná til fólks og færa því þann boðskap að trúarbrögðin geti skapað frið og sátt meðal manna. „Kannski verðum við nú einnig áhugaverðari og eftirsóttari, og sjálfsagt fylgjast menn þá líka betur með okkur,“ sagði hinn nýskipaði kardínáli.

Fréttin er stytt og unnin upp úr lengri frétt í Kaþólska kirkjublaðinu 27. árgangi 2017 8.-9. tbl. bls. 10.

21.08.17

  18:03:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 247 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúin og menningin

Að byrja með bæn

Við eigum að byrja mikilvæg verk með bæn og matmálstímana með borðbæn. Einnig í vinnu, skóla eða veitingastað því að byrjun með Guði er góð byrjun. Þetta kemur fram í nýju hirðisbréfi Davíðs biskups sem birtist í ágúst-sept. tölublaði Kaþólska kirkjublaðsins sem hægt er að ná í á eftirfarandi vefslóð [1].

"Það er eitt sem við gleymum stundum og því er nauðsynlegt að við minnum okkur á það enn og aftur. Við þurfum að læra aftur að byrja hvern dag með bæn, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Við eigum að byrja matmálstímana með borðbæn og gera það líka opinberlega, svo sem í matsalnum, í skólanum, á veitingastaðnum eða í vinnunni, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Alltaf þegar við byrjum mikilvægt verk er nauðsynlegt að við biðjum Guð um hjálp, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Allir góðir nemendur vita að áður en þeir taka próf eiga þeir að biðja Heilagan Anda um hjálp, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Við öll, sem ökum bifreiðum, vitum að það er bæði gott og gagnlegt að biðja Guð um hjálp og vernd áður en lagt er af stað, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Sumir segja kannski: „Við erum ekki vön að gera þetta, þetta er ekki hluti af menningu okkar.“ Það er ekki mikið vandamál, við getum þá bara byrjað á þessu í dag, því að byrjun með Guði er góð byrjun."

Kaþólska kirkjublaðið 27. árg. 8-9 tbl. bls. 1: https://drive.google.com/file/d/0B841NUGcQ8lAS3h4c1ZaY1FiN0QxbDgwaTN6RWxHOGdxS2M4/view

07.07.17

Vitnisburður með jákvæðri sköpun lífins og gegn dauðamenningunni

Það er ánægjulegt að fulltrúar kaþólsku kirkjunnar eru í vaxandi mæli farnir að beita sér gegn þeirri umturnun á siðagildum sem gætir svo mjög í samtíð okkar. Hér segir frá ræðu Carlos Caraffa kardínála um málið á ráðstefnu um lífsverndarmál í Róm. Um sé að ræða stórtækar árásir á manneðlið og mennskuna og tilgang hinnar góðu sköpunar Guðs, og birtist þær einkum í tvennu:

1) Kardínálinn fordæmdi það að verið sé að “breyta glæp í réttindi” í tilfelli fósturvíga. “þetta merkir, að farið sé að kalla það, sem er gott, illt, og það, sem er ljós, er kallað myrkur,” sagði hann. Caffarra lýsti því yfir, að fóstureyðing feli í sér “djúptæka afneitun á sannleikanum um manninn.”

2) Caffarra færði rök fyrir því, að með því “að hefja samkynhneigð til vegs og virðingar" (the ennoblement of homosexuality) hefði það þau áhrif að hafna “sannleikanum um hjónabandið.” Í huga Guðs hafi hjónabandið viðvarandi hlutverk, byggt á tvíeðli mannsins: hinu kvenlega og karllega (femininity and masculinity); þetta séu ekki tveir pólar, hvor öðrum andstæðir, heldur styðji hvort um sig hitt. "Only thus does man escape his original solitude,” sagði Caraffa, þ.e.a.s.: Aðeins með þessu móti losni manneðlið við sína einsemd.

Á vefslóðinni hér á eftir fjalla aðrir hæfir menn um sama efni og hvernig m.a. með kynskiptiaðgerðum sé verið að umturna sköpun Guðs (þessu sé svo hampað og hossað af ráðvilltum vinstrimönnum samtímans):
http://www.wnd.com/2017/07/top-vatican-official-satan-hurling-anti-creation-at-god/#KmUMCMOBcimWqzHp.99

Ennfremur sé þessi málflutningur kardínálans í fullu samræmi við það sem Franz páfi hafi rætt um þessi mál. En Caraffa var árið 1981 skipaður af Jóhannesi Páli II páfa sem yfirmaður stofnunar, sem hann kom á legg, um fjölskylduna og hjónabandið.

11.05.17

  10:11:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 56 orð  
Flokkur: Trúin og menningin

Jesúmynd birtist í Ingólfsfjalli

Dagskráin Fréttablað Suðurlands birti mynd á forsíðu 4. maí s.l. tekna af áhugaljósmyndaranum Hinriki Óskarssyni á Selfossi undir fyrirsögninni "Jesúmynd birtist í Ingólfsfjalli". Á myndinni má greinilega sjá útlínur mannsmyndar í fjallinu sem opnar faðminn til suðvesturs en á myndinni sýnist það vera í áttina að kirkjuturninum. Hægt er að sjá blaðið á vef Dagskrárinnar hér:
http://www.dfs.is/vefblod/2395/files/assets/basic-html/index.html#1

06.05.17

  18:28:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 119 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Rannsóknir á stofnfrumum úr fullorðnum lofa góðu

Þrívíddarprentun vefja í menn og líffæraígræðsla fyrir fórnarlömb krabbameins í mönnum (sem dregur úr dauðsföllum um 75 prósent), er þróun sem jafnast á við það besta sem stofnfrumur fullorðinna geta gert á sviði læknisfræðinnar. Kaþólska kirkjan styður þessar rannsóknir, enda skilar þetta siðferðilega form rannsókna vænlegustu niðurstöðunum. Á ráðstefnu í Vatíkaninu fyrr á þessu ári var lögð sérstök áhersla á siðferðileg form stofnfrumurannsókna með þátttöku fyrirtækja og leiðandi sérfræðinga, sem ræddu framtíð þessara rannsókna sem þróast hratt um þessar mundir. Kirkjan hefur ávallt reynt að tryggja að vísindamenn legðu alla áherslu á rannsóknir á stofnfrumum úr fullorðnum, en þar með er sneitt hjá siðferðilegum vandamálum sem koma upp við rannsóknir á stofnfrumum úr fósturvísum.

Úr Kaþólska kirkjublaðinu 27. árg. 1.-2. tbl. 2017 bls. 4. 

18.04.17

  13:50:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 121 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Frans páfi fer til Fatíma í tilefni af 100 ára afmæli birtinganna þar

Frans páfi mun fara til Fatíma í tilefni af 100 ára afmælinu Vatíkanið hefur staðfest að Frans páfi mun heimsækja Portúgal árið 2017 í tilefni af því að 100 ár eru síðan María birtist í Fatíma. Páfinn, sem tók boði forsetans, Marcelo Rebelo de Sousa, og biskupanna í Portúgal, „mun fara í pílagrímsferð til helgistaðar Maríu meyjar frá Fatíma dagana 12.-13. maí,“ segir í tilkynningu Vatíkansins frá 17. desember sl. Pílagrímsförin markar aldarafmæli birtingar Maríu, sem fyrst birtist þann 13. maí 1917, þegar þrjú börn sem voru þar að gæta hjarðar, sögðu að þau hefðu séð Maríu mey. Hún birtist áfram einu sinni í mánuði til 13. október 1917, og Kaþólska kirkjan lýsti því yfir árið 1930 að hér væri um trúverðugan atburð að ræða.

Úr Kaþólska kirkjublaðinu 27. árg. 1.-2. tbl. 2017 bls. 4. 

18.03.17

  18:44:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 254 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Píslarvottar nú á tímum eru fleiri en í frumkirkjunni

Frans páfi hefur hvatt kaþólskt fólk til muna eftir trúsystkinum sínum sem þjást daglega í ofsóknum vegna trúar sinnar. Í ræðu á Stefánsmessu, hátíð fyrsta kristna píslarvottsins – sagði páfi: „Þegar við lesum sögu fyrstu aldanna hér í Róm, kynnumst við mikilli grimmd í garð kristinna manna. Þetta gerist í dag líka, í jafnvel enn meira mæli. Ég skal segja ykkur nokkuð,“ sagði páfi við pílagríma sem safnast höfðu saman á Péturstorginu söfnuðust, „fjöldi píslarvotta í dag er meiri en í fyrstu öldunum. Heimurinn hatar kristna menn af sömu ástæðu sem hann hataði Krist,“ sagði Frans, „því að hann færði ljós Guðs, og heimurinn kýs skuggann til að fela sín vonda verk.“

Í nýrri skýrslu sem gefin var út í árslok 2016, er fullyrt að kristnir menn séu ofsóttasti trúflokkur á jörðinni. Samkvæmt tölum frá Center for Global Christianity, sem staðsett er á Ítalíu, voru um 90.000 kristnir menn drepnir fyrir trú sína árið 2016. Það þýðir að kristinn maður var myrtur sjöttu hverja mínútu á síðasta ári! Um 70 prósent þeirra sem drepnir voru árið 2016, liðu píslarvættisdauða í átökum ættbálka í Afríku, vegna þess að þeir neituðu að taka þátt í ofbeldi. „Hin 30 prósentin, eða 27.000, voru drepin í hryðjuverkaárásum, þegar þorp kristinna manna voru eyðilögð, eða vegna ofsókna af hendi stjórnvalda,“ sagði Massimo Introvigne, forstöðumaður Centre for Studies on New Religions, í samtali við útvarp Vatíkansins. Hann sagði einnig að Kaþólska kirkjan væri nú að íhuga möguleikann á því að taka þá upp í hóp dýrlinga sem fallið hafa fyrir Íslamska ríkinu.

Úr Kaþólska kirkjublaðinu 27. árg. 1.-2. tbl. 2017 bls. 4. 

 

12.03.17

  07:47:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1355 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Umsögn um lög nr. 25/1975

Vegna óskar nefndar heilbrigðisráðherra um umsagnir við gildandi löggjöf um lög nr. 25/1975 með tillögum að breytingum og hvatningar til þeirra sem láta sig málið varða um að senda inn ábendingar og athugasemdir.

1) Allt mannlegt líf á rétt til lífs af því að lífið er þegið að gjöf. Enginn maður getur skapað nýtt líf óháð sínu eigin lífi heldur getur hver maður aðeins stuðlað að framlengingu sinnar eigin lífskeðju sem hann er síðasti hlekkurinn í. Það er því ekki í verkahring manna að taka líf - þvert á móti og miklu frekar er það hlutverk okkar og skylda að tryggja tilveru og framgang lífsins.

2) Mannkynið er komið á þann stað sem það er núna vegna hæfileika sinna til samvinnu og samskipta og vegna þeirrar sameiginlegu ákvörðunar að verja lífi sínu í samfélagi og þar með að deila ábyrgð, réttindum og skyldum. Þess vegna eru það hagsmunir samfélagsins og því almennings að vernda tilveru, vöxt og viðgang mannlegs lífs á öllum stigum, allt frá fyrstu tilurð til síðasta andardráttar. Þau rök að lífið sé á einhvern hátt eða einhverjum tímapunkti veikburða eða eigi sér litla möguleika geta ekki gert þennan lífsrétt og þessa lífsverndarskyldu almennings að engu.

3) Þau rök að sumir einstaklingar séu minna verðir eða réttminni en aðrir eru veik, sérstaklega í samfélagi þar sem neyðin ríkir ekki. Það er hætta fólgin í því að takmarka lagalega vernd lífsins við ákveðna hópa því þegar byrjað er að feta þá braut getur verið erfitt að hætta og snúa til baka. Hætt er við að fram komi kröfur um víðtækari "lækningar" og í raun kynbætur mannsins því hvað eru það annað en kynbætur þegar þegjandi samkomulag verður um að tilteknir hópar sem hafa t.d. ákveðna þroskaskerðingu skuli hverfa úr samfélaginu? Sjá 7. lið hér að neðan um hóp sem er að hverfa vegna fóstureyðinga.

4) Sjálfstætt mannlegt líf verður til á því andartaki þegar sáðfruma rennur saman við eggfrumu og myndar okfrumu eða fósturvísi. [1]. Því má líta svo á að strax við þennan samruna myndist réttur til lífs - lífsréttur. Því miður er það sjónarmið einnig ríkjandi að ítrustu hagsmunir móður eða verðandi foreldra fari ekki ávallt saman við ítrustu hagsmuni fósturs/fóstra og því eru fóstureyðingar staðreynd.

5) Eðli málsins samkvæmt geta fósturvísar ekki myndað hagsmunasamtök eða túlkað hagsmuni sína og því má segja að hallað hafi á rétt þeirra til lífs því talsmenn gagnstæðra sjónarmiða eiga öflugar raddir og eiga gjarnan mikla hagsmuni að verja. Það hlýtur því að vera hlutverk áhugasamra einstaklinga, félagasamtaka og síðast en ekki síst ríkisvaldsins sem á að standa vörð um almannahagsmuni að tryggja og standa vörð um réttindi lífsins á öllum stigum þess og leggja á það atriði sérstaka áherslu vegna hópsins sem er horfinn og getur ekki tjáð sig.

6) 9. grein laga nr. 25/1975 heimilar fóstureyðingar af félagslegum ástæðum í liðum 1a til 1d. Undirritaður er þeirrar skoðunar að félagslegum vandamálum eigi frekar að mæta með félagslegum úrlausnarefnum en ekki með læknisaðgerð sem er tæknileg nálgun að viðfangsefninu og er langt frá því að ráðast að rótum vandans sem er í eðli sínu samfélagslegur. Í þessum liðum eru nefnd mörg börn, ómegð, heilsuleysi annarra á heimili, æska, þroskaleysi og einnig aðrar ástæður sambærilegar við þessar. Öllum þessum atriðum ætti að vera hægt að mæta með félagslegum aðgerðum og aðstoð. Í raun má líta svo á að ef beiðni berst um fóstureyðingu þurfi óháðir ráðgjafar að geta bent á tiltekna félagslega valkosti og samfélagið þarf að eiga í sínum handraða, auk öflugra forvarna, sérstök úrræði sem eiga að að vera í boði auk fóstureyðingarinnar, annars er ekki um val að ræða. Hér þarf þjóðfélagið og löggjafinn að vera tilbúið til að grípa inn í og verja hagsmuni sína og lífsins með auknum félagslegum úrræðum. Á þessu sviði er greinilega hægt að gera miklu betur en nú er gert. Ekki þarf annað en líta á tölur yfir fjölda fóstureyðinga til að sannfærast um það, en þær hafa verið yfir 900 á ári hin síðari ár. [6]

7) 9. grein laga 25/1975 heimilar fóstureyðingar af læknisfræðilegum ástæðum. Þar eru nefndar ástæður á borð við hættu á að barn fæðist vanskapað og ef um alvarlegan sjúkdóm vegna erfða er að ræða. Hér á landi hefur þessi grein haft þau áhrif að fækka fæðingum einstaklinga með Downs-heilkenni [2]. Annars staðar í heiminum hafa fóstureyðingar einnig haft svipuð áhrif þ.e. að fækka einstaklingum sem tilheyra tilteknum hópi. Sem dæmi má nefna fækkun stúlknafæðinga í Asíu [3]. Þessar alvarlegu afleiðingar fóstureyðinganna hér á landi þurfa ekki að koma á óvart því rökstuðninginn er auðvelt að sækja í orðalagið um vansköpun eða sjúkdóma vegna erfða. Vegna þessa ákvæðis eru mörg fóstur í lífshættu og þau af þeim sem lifa, lifa aðeins vegna þess að foreldrar þeirra ákveða það. Ákveðin áhætta fyrir öll fóstur sem prófið er gert fyrir fylgir líka framkvæmdinni sem gerð er til að greina erfðagallann. Ef tækni fleygir enn meira fram má hugsanlega greina enn fleiri sjúkdóma strax í móðurkviði. Þessi lagagrein hefur því í raun þau áhrif að fóstur með greiningu á erfðagalla eða sjúkdómi njóta ekki réttarverndar sem er alvarlegt mál.

8) Greinar 11 - 13 fjalla um fræðslu og ráðgjöf. Þar segir að alla ráðgjöf og fræðslu skuli veita á óhlutdrægan hátt en því miður er ekki mælt fyrir um hvernig sú óhlutdrægni sé tryggð og hvernig tryggt sé að óeðlileg hagsmunatengsl séu ekki til staðar. Það er í besta falli óeðlilegt og í raun líklega siðferðislega rangt að ráðgefandi aðilar tengist þeirri stofnun eða lækni sem framkvæmir fóstureyðingu. Sem dæmi um óeðlileg hagsmunatengsl má nefna ef bæði félagsráðgjafi og læknir sem framkvæmir fóstureyðingu þiggja laun frá sömu stofnun. Þær konur sem íhuga fóstureyðingu ættu að eiga kost á ráðgjöf óháðra sérfræðinga.

9) Í þeim ummælum sem viðhöfð hafa verið opinberlega um fyrirhugaða endurskoðun laganna kennir ýmissa sjónarmiða. Ég ætla að skoða nokkur þeirra hér. Vitnað er í Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á visir.is þar sem hann segir:

„Megináhersla mín í þessum efnum er að konur hafi ákvörðunarvald yfir eigin málum. Í mínum huga er þetta ákvörðun sem konan sjálf er best búin og fær um að taka og hún á að hafa ákvörðunarvaldið í þessu efni.“

Við þessi ummæli má gera þá athugasemd að hér virðist heilbrigðisráðherra ekki átta sig á því sem rökstutt er hér ofar, þ.e. að almannahagsmunir kalli á réttarvernd alls lífs. Hann virðist einnig ekki taka með í myndina réttindi feðra, sem hljóta að vera einhver sér í lagi ef konan er í hjónabandi eða sambúð. Vegna jafnréttissjónarmiða eru enn veigameiri rök fyrir því að feður hafi eitthvað um málið að segja heldur en þeir höfðu árið 1975.

10) Í nýlegri grein í Læknablaðinu varpa fjórir heilbrigðisstarfsmenn fram spurningunni "Þungunarrof á Íslandi í 80 ár. Góð reynsla en er þörf á að breyta?" [7] Þar segir um lögin frá 1975:

"Flestir eru sammála um að löggjöf sem þessi verndar heilsu og jafnvel líf kvenna. Dauði tengdur ólöglegum fóstureyðingum er enn raunverulegur þar sem þungunarrof er bannað. Þungunarrofi fylgja lítil vandkvæði eða áhættur ef rétt er staðið að framkvæmdinni".

Í þessu sambandi er ástæða til að minna á að lög hafa forvarnargildi. Flest fólk er löghlýðið og fer ekki á svig við lög og reglur. Þau lög sem hvað mest og oftast eru brotin og með banvænum afleiðingum í mörgum tilfellum um heim allan eru líklega ekki fóstureyðingarlögin heldur umferðarlögin. Fáir nota þá staðreynd sem rök fyrir því að rýmka þau í þágu hinna brotlegu. Fyrst rök fyrir lögleiðingu fóstureyðinga eru sótt í lífstjón kvenna þar sem fóstureyðing er bönnuð má allt eins ítreka ábendingu um afleiðingar fóstureyðinga í Asíu hér að framan:

"Talið er að árlega sé á milli þremur og fimm milljónum stúlknafóstra eytt á Indlandi; könnun á læknamiðstöð í Bombay sýndi fram á að af 8.000 fóstureyðingum hefðu 7.999 verið stúlknafóstur. " [3]

Ef ég ætti að svara spurningu greinarhöfunda þá hef ég efasemdir um að núverandi lög hámarki fjölda þeirra lífa sem hægt er að bjarga með löggjöf og visa í rökstuðninginn hér að ofan. Ég tel að löggjöf á þessu sviði verði að hafa það að markmiði sínu að varðveita sem flest líf. Ég tel jafnframt ólíklegt að það að fara eftir ýtrustu kröfum um frelsi í þessum efnum muni hafa þau áhrif.

Selfossi 26.04.2016
Ragnar Geir Brynjólfsson. Höfundur er áhugamaður um málefnið.

Heimildir:
[1] http://www.visindavefur.is/svar.php?id=3356
[2] http://www.downs.is/files/56673fe464af4.pdf
[3] http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1006294/
[4] http://www.visir.is/endurskoda-loggjof-um-fostureydingar/article/2015151208843
[5] http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1197099/
[6] http://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item13094/
[7] http://www.laeknabladid.is/tolublod/2015/12/nr/5676

05.03.17

  20:13:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1506 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Föstuboðskapur Frans páfa 2017

Orð Guðs er gjöf. Aðrir menn eru gjöf.

Kæru bræður og systur,

Föstutíminn markar nýtt upphaf, leið að öruggu marki: Til framhjágöngu upprisunnar, til sigurs Krists yfir dauðanum. Og ævinlega beinir þessi tími til okkar ákveðnu boði um afturhvarf: Hinn kristni maður er „af öllu hjarta“ (Jl 2,12) hvattur til að snúa sér til Guðs og láta sér ekki nægja að lifa lífi sínu í meðalmennsku, heldur vaxa í vináttunni við Drottin. Jesús er hinn trausti vinur sem yfirgefur okkur aldrei, því að einnig eftir að við höfum syndgað er hann reiðubúinn að fyrirgefa okkur (sbr. Prédikun, Domus Sanctae Marthae, 8. janúar 2016).

Föstutíminn er rétti tíminn til að styrkja líf andans með þeim helgu meðulum sem kirkjan býður okkur: Með föstum, bænum og ölmusugjöfum. Grundvöllur alls þessa er Guðs Orð, og á þessum tíma er okkur boðið að leggja enn betur við hlustir og stunda íhugun. Einkum vildi ég í þessu sambandi benda á dæmisöguna um ríka mann og Lasarus hinn fátæka (sbr. Lúk 16,19-31). Við skulum láta þessa þýðingarmiklu frásögn verða okkur til hvatningar: Hún færir okkur lykilinn svo að við fáum skilið hvað við verðum að gera til þess að öðlast hina sönnu hamingju og eilíft líf, og hvetur okkur til einlægra sinnaskipta.

1. Aðrir menn eru gjöf

Dæmisagan hefst á því kynntar eru til sögunnar báðar höfuðpersónurnar, en fátæka manninum er þó lýst mun nánar: Aðstæður hans eru hörmulegar og hann hefur ekki einu sinni kraft til að rísa á fætur. Hann liggur fyrir dyrum ríka mannsins og vill feginn seðja sig á því sem fellur af borði hans; líkami hans er hlaðinn kaunum og hundarnir koma og sleikja þau (sbr. vers 20-21). Þarna er því dregin upp dökk mynd af smánuðum og niðurlægðum manni.

Þessi sviðsmynd verður enn áhrifaríkari þegar við minnumst þess að fátæki maðurinn heitir Lasarus – en það er heillavænlegt nafn sem þýðir bókstaflega „Guð hjálpar“. Hann er því ekki nafnlaus persóna heldur er hann dreginn skörpum dráttum og á sér sína persónulegu sögu. Þó að hann sé ekki neitt í augum ríka mansins verður hann lifandi fyrir okkur og nánast kunnuglegur, hann öðlast eigið andlit; og sem slíkur verður hann að gjöf, að ómetanlegum fjársjóði, manni sem Guð vildi að birtist, sem hann elskar og hugsar um, jafnvel þó að raunverulegar aðstæður hans séu nánast hörmulegar (sbr. Prédikun, Domus Sanctae Marthae, 8. janúar 2016).

Lasarus kennir okkur að aðrir menn eru gjöf. Rétta sambandið við aðra menn felst í því að sjá með þakklæti hið sanna gildi þeirra. Einnig hinn fátæki maður frammi fyrir dyrum hins ríka er ekki óþægileg fyrirstaða heldur öllu fremur ákall um afturhvarf og breytingar á eigin lífi. Fyrsta ákallið sem þessi dæmisaga beinir til okkar er þetta, að við opnum hjarta okkar fyrir öðrum mönnum, því að sérhver maður er gjöf, bæði nágranar okkar sem og hinn óþekkti fátæklingur. Langafastan er hentugur tími til að opna dyrnar fyrir öllum þeim sem eru þurfandi og sjá í honum eða henni andlit Krists. Öll mætum við slíku fólki á vegferð okkar. Sérhver lifandi maður sem verður á vegi okkar er gjöf og á það skilið að tekið sé á móti honum með virðingu og ást. Orð Guðs hjálpar okkur við að opna augun, taka á móti lífinu og elska aðra, einkum þá sem veikburða eru. En til þess að við getum gert þetta verðum við einnig að taka það alvarlega sem fagnaðarerindið opinberar okkur í sambandi við ríka munaðarsegginn.

2. Syndin blindar okkur

Dæmisagan sýnir okkur á hlutlausan hátt andstæðurnar í lífi ríka mannsins (sbr. 19. vers). Íburðarmikill lífsstíll hans birtist í dýrlegum klæðnaði hans. Purpuraklæði voru nefnilega afar verðmæt, dýrari en gull og silfur og þess vegna var hann aðeins ætlaður yfirvöldunum (sbr. Jer 10,9) og hinum konungbornu (sbr. Dóm 8,26). Hið dýra lín var sérstakt og til þess ætlað að sýna menn næstum í heilögu ljósi. Ríkidæmi þessa manns er því næstum yfirgengilegt, einnig vegna þess að hann sýnir jafnan daglega auðlegð sína: Hann „lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði“ (19. vers). Í honum birtist á áhrifamikinn hátt sú spilling syndarinnar sem finna má í eftirtöldum þremur sjálfstæðu skrefum: Ástinni á peningum, hégómaskap og drambi (sbr. Prédikun, Domus Sanctae Marthae, 20. september 2013).

Páll postuli segir: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er“ (1Tím 6,10). Hún er meginástæða spillingar og ein uppspretta öfundar, ágreinings og grunsemda. Peningarnir geta að endingu náð slíkum tökum á okkur að þeir ráða yfir okkur eins og harðstjóri (sbr. Postullegt bréf Evangelii gaudium, 55). Í stað þess að vera meðal sem þjónar okkur við að gera gott og sýna öðrum mönnum samstöðu, geta peningarnir leitt til þess að hugsun okkar verði svo eigingjörn að hún veiti kærleikanum ekkert rými og komi í veg fyrir frið.

Dæmisagan sýnir okkur enn fremur að ágirnd ríka mannsins gerir hann hégómlegan. Persónuleiki hans gengur upp í sýndarmennskunni, í því að sýna öðrum hvað hann geti leyft sér. En þessi sýndarmynd hylur tómið hið innra. Líf hans er í fjötrum hins ytra útlits, yfirborðsins og forgengilegustu sviða tilverunnar (sbr. s.st., 62).

Neðsta stig þessarar siðferðislegu hnignunar er drambið. Ríki maðurinn klæðir sig eins og hann sé konungur, þykist vera Guð og gleymir að hann er bara venjulegur, dauðlegur maður. Hjá þeim sem hefur spillst vegna ástar sinnar á peningunum er ekkert annað til en hann sjálfur og þess vegna missir hann sjónar á þeim sem umgangast hann. Ávöxtur hollustunnar við peningana er því eins konar blinda: Ríki maðurinn sér alls ekki fátæka manninn þar sem hann liggur niðurlægður og máttvana, hlaðinn kaunum.

Þegar við skoðum þessa manngerð skiljum við hvers vegna fégirndin er svo harðlega gagnrýnd í guðspjallinu: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón“ (Matt 6,24).

3. Orð Guðs er gjöf

Guðspjallið um ríka manninn og hinn fátæka Lasarus hjálpar okkur að búa okkur vel undir páskahátíðina, sem nálgast nú óðfluga. Helgisiðir öskudagsins sýna okkur svið sem líkist því sem ríki maðurinn reyndi á svo áhrifamikinn hátt. Þegar presturinn útdeilir öskunni segir hann: „Minnst þú þess maður að þú ert mold og að mold munt þú aftur verða.“ Þeir báðir – ríki maðurinn og Lasarus – munu nefnilega deyja og meginhluti dæmisögunnar gerist handan þessa heims. Báðir uppgötva þeir skyndilega ákveðinn grundvallarsannleika: „Ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan“ (1Tím 6,7).

Augu okkar opnast einnig fyrir lífinu fyrir handan, þar sem ríki maðurinn á langt samtal við Abraham, sem hann kallar „föður“ (Lúk 16,24.27) og sýnir með því að hann tilheyrir Guðs lýð. Þetta atriði gerir líf hans enn mótsagnakenndara, því að fram að þessu andartaki hafði samband hans við Guð ekki borist í tal. Í rauninni átti Guð engan sess í lífi hans, því að eini guðinn sem hann átti var hann sjálfur.

Fyrst við kvalirnar í næsta lífi sér ríki maðurinn Lasarus og vill að fátæklingurinn svali þorsta hans með ofurlitlu vatni. Það sem hann biður Lasarus um jafngildir því sem ríki maðurinn hefði sjálfur getað gert, en gerði aldrei. En Abraham útskýrir málið fyrir honum: „Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst“ (25. vers). Í næsta lífi er réttlætið á vissan hátt endurreist og hið slæma í lífinu jafnað út með hinu góða.

Dæmisagan gengur enn lengra og miðlar þannig boðskap til allra kristinna manna. Því að ríki maðurinn, sem átti bræður sem enn voru á lífi, bað Abraham að senda Lasarus til þeirra að vara þá við. En Abraham svaraði: „Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum“ (31. vers).

Í þessu birtist hinn raunverulegi vandi ríka mannsins ljóslega: „Rætur vandans felast í því að hann hlustar ekki á Guðs orð; og það verður til þess að hann hættir að elska Guð og fer þess vegna að fyrirlíta náungann. Orð Guðs er lifandi kraftur sem er þess megnugur að leiða hjarta mannsins til afturhvarfs og beina honum aftur á vegu Guðs. Loki menn hjarta sínu fyrir þessari gjöf hins talandi Guðs, verður afleiðingin sú að þeir loka hjarta sínu einnig fyrir meðbræðrum sínum.

Kæru bræður og systur, langafasta er rétti tíminn til að endurnýja kynni sín af Kristi, sem er lifandi í Orði sínu, sakramentum og náunganum. Drottinn, sem sigraðist á tálsnörum freistarans í óbyggðinni á fjörutíu dögum, vísar okkur veginn sem við verðum að feta. Megi Heilagur Andi leiða okkur eftir brautum sannrar iðrunar, svo að við fáum enduruppgötvað gjöf Guðs Orðs, hreinsast af syndinni sem blindar okkur og þjónað Kristi í þurfandi meðsystkinum okkar. Ég hvet alla trúaða að sýna þetta afturhvarf með þátttöku í atburðum föstunnar, sem margar stofnanir kirkjunnar um heim allan standa fyrir í því skyni að styrkja þá menningu sem safnar öllum mönnum saman í eina fjölskyldu. Við skulum biðja hvert fyrir öðru, að við megum öðlast hlutdeild í sigri Krists og opnum dyr okkar fyrir þeim sem veikburða eru og fátækir. Þá getum við til fulls lifað gleði páskanna og borið henni vitni.

Úr Vatíkaninu, 18. október 2016, á hátíð heilags Lúkasar

Frans páfi

---

Efni af vefnum catholica.is. Birt með leyfi kaþólsku biskupsstofunnar. 

12.12.16

  00:30:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 99 orð  
Flokkur: Ljóð og kvæði / Poetry, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Trúarleg ljóð JVJ

Kirkjuferð og kaffistund

Dagvillumaðurinn
dettur hér glaður inn,
kærrar kirkjunnar son,
kallast J. V. Jensson.
Hyggur á helgistund,
hreinsast þar, sáttur í lund.
Hlýðir á sálmasöng
sætan, er fólksins þröng
altarið nálgast, nú
náðina þiggur í trú.
Hver þá með sjálfum sér
sæll með bænamál fer,
klerkur unz kveður, ber
krossmark að enni þér,
bræðurna yrðir á
upplífgast vinir þá.
Safnaðar halda í hús,
hver og einn næsta fús;
kaffi og kökur á borðum,
kliður af vinsemdarorðum.
Fólkið af framandi slóðum
fagnaði deilir hér góðum.
Blandast þar bræður og systur,
barnsvanginn stundum kysstur.
Biskup, sem ver gegn villum,
helgaðan loks við hyllum.

31.10.16

  19:39:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 217 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kirkjusaga nýaldar, alþjóðleg, Kaþólskir Íslendingar

30. ártíð Hinriks biskups Frehen

Ótrúlega hratt hefur tíminn liðið frá andláti þessa elskaða leiðtoga sem undirritaður eins og margir aðrir áttu að andlegum föður, hvetjandi og gefandi í tilverunni. Hann var frá okkur tekinn þremur árum fyrir páfaheimsóknina 1989. Um hann ritaði undirritaður á 20. ártíð hans 2006:

"Hinrik biskup var afskaplega hjartahlýr, laus við allt yfirlæti, en þeim mun sannari maður meðbræðrum sínum, það sást í öllu hans viðmóti. Margoft skildi ég við hann á tröppunum við hús hans í Egilsgötu, þar sem hann, brosandi og uppörvandi, bað mér og mínum blessunar og velfarnaðar í bak og fyrir. Það gerði hann líka, þegar ég var erlendis við nám, og þakka ég hér og nú fyrirbænir hans allar.

Hrífandi fagur þótti mér Gregorssöngur biskups, þegar hann hóf upp raust sína í messunni með orðum Níkeujátningarinnar: Credo in unum Deum ... Það var eitthvað innilega hreint og fallegt við tón hans og hreim, en hann lærði einnig allnokkuð í íslenzku og flutti predikanir sínar á því máli.

Trú hans var einlæg og fölskvalaus, hann verður jafnan lifandi dæmi og fyrirmynd um sannan og gefandi lærisvein Krists."

Sjá nánar hér: 20. ártíð Hinriks biskups Frehen – Persónuleg minning. Sjá einnig grein eftir Gunnar F. Guðmundsson, cand. mag., sem mikið starfaði fyrir biskupinn: Dr. Hinrik H. Frehen biskup – Minning.

Blessuð sé minning Hinriks biskups. Megi ljós Guðs lýsa honum. ––JVJ.

14.08.16

Á messudegi heil. Lárentíusar

Okkar vinsæli prestur séra Jürgen Jamin, sem þjónaði hér Kristskirkju um margra ára skeið sem sóknarprestur, unz hann hélt til doktorsnáms og mikil­vægra trúnaðarstarfa fyrir kirkjuna í Róm og Feneyjum, er nú staddur á Íslandi, messaði í Landakoti í dag og fagnaði gömlum vinum í kirkjukaffi í safnaðarhemilinu á eftir.

Predikun hans fjallaði um píslarvottinn heilagan Lárentíus (Laurentius, f. um 225 í Aragon á Spáni, d. 10. ágúst 258) og um auðæfi kirkjunnar, sem dýrlingurinn benti keisarans mönnum á, að væru fólgin í hinum mikla sæg meðlima kirkjunnar, fátækum, sjúkum, blindum og krypplingum.

Keisarinn Valerianus hafði áður látið taka páfann af lífi, hinn gagnmerka Sextus 2., biskup Rómaborgar, og fyrirskipað (í byrjun ágúst 258) aftöku allra biskupa, presta og djákna, og nú reiddist hann svo Lárentíusi, að hann lét húðstrýkja hann og steikja til dauðs á rist. Árið áður hafði Sextus páfi skipað hann fremstan sinna sjö djákna í Rómaborg og treyst honum þar fyrir fjársjóðum kirkjunnar og útdeilingu á ölmusu til fátækra.

Fyrir dauða sinn hafði Lárentíus fengið fyrirskipun veraldlega valdsins um að afhenda allar eigur kirkjunnar til keisarans innan þriggja daga, en í staðinn notaði hann tímann til að dreifa eignum kirkjunnar meðal fátækra og fá þá til að mæta frammi fyrir höll keisarans, og er Lárentíus í einni heimild sagður hafa mælt við umboðsmann Valeríans, bendandi á mannsöfnuðinn: "Kirkjan er sannarlega rík, mun ríkari en keisari yðar."

Lárentíus var höfuðdýrlingur í ekki færri en átta kirkjum hér á landi og auka­dýrlingur í nokkrum, að því er fram kemur í bók dr. Árna Björnssonar, Sögu daganna. Meðal kirkna, sem helgaðar voru honum, var Holtskirkja í Önund­ar­firði, Skálmarnes­múla­kirkja, Lundarkirkja í Lundarreykjadal, kirkjan í Görðum á Akranesi, Grundarkirkja í Eyjafirði og kirkjan í Reykjahlíð við Mývatn.

Einn af kaþólskum biskupum Íslands bar nafn þessa dýrlings, Lárentíus Kálfsson (f. 10. ágúst 1267, d. 16. apríl 1331), Hólabiskup 1324–31, og er af honum Lárentíus saga, sem talið er víst að sé eftir lærisvein hans og vin, sr. Einar Hafliðason (1307–1393), Hólaráðsmann og officialis á Breiðabólstað í Vesturhópi (var sonur hans Árni í Auðbrekku, faðir Þorleifs sýslumanns, föður Björns ríka, riddara og hirðstjóra á Skarði, og eru allir núlifandi menn af þjóðarstofninum af þeim langfeðgum komnir).

Eftir nafni píslarvottsins heita margir fyrr og nú, þeir sem nefnast Lárus, Lars, Lafranz, Lawrence, Lorenz, Laurent og ýmsum fleiri útgáfum af nafni hans.

07.03.16

  18:21:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 118 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Fjórar nunnur af reglu Kærleiksboðbera féllu í árás á hjúkrunarheimili í Jemen

Asianews greinir frá því að fjórar systur af reglu Kærleiksboðberanna hafi fallið í árás á hjúkrunarheimili sem þær ráku í Aden í Suður-Jemen. Árásarmennirnir drápu öryggisvörð og fimm aðra starfsmenn heimilisins, skutu síðan fjórar nunnur og rændu presti heimilisins. Systurnar hétu systir Anselm frá Indlandi, systir Marguerite frá Rúanda, systir Judit frá Kenía og systir Reginette líka frá Rúanda. Sendiherra páfagarðs á svæðinu segir að árásin hafi haft trúarlega ástæðu. Frans páfi tjáði djúpa sorg vegna atburðarins  og skoraði á vopnaðar fylkingar í Jemen að hafna ofbeldi. 

Systur af reglu Kærleiksboðbera hafa starfað hér á Íslandi síðan í árslok 1996. Þær reka eins og kunnugt er matstofu í Ingólfsstræti 12. Undirritaður vottar þeim samúð vegna þessa atburðar. 

Nunnurnar fjórar í í Jemen

Nunnurnar sem féllu í Aden. Ljósmynd: Asianews. 

Ragnar Geir Brynjólfsson.

Heimildir: [1], [2]

22.02.16

Guðs lýður, krossins tak þú tré

Langafasta stendur yfir, það er tími sjálfsafneitunar, ef vel á að vera, og ekki aðeins í mat og drykk. Gjafmildi er þörf, og lestur í Ritningunni og guðrækileg íhugun gagnast opnum huga.

Hér er birtur í fyrsta sinn á netinu fallegur sálmur Guðbrands Jónssonar, rit­höfundar og prófessors að nafnbót, en hann var sonur Jóns Þorkelssonar, mag­isters, dr. í ísl. fræðum, þjóðskjalavarðar (skáldsins Fornólfs), merkra ætta, og faðir Loga lögfræðings, fyrrv. frkvstj. St Jósefsspítala í Landakoti.

Guðbrandur var mikilvirkur rithöfundur og annálaður essayisti og hélt oft útvarpserindi um ferðir sínar og hugðarefni, og eru til allnokkur greinasöfn hans á bókum, t.d. Gyðingurinn gangandi, Að utan og sunnan og Sjö dauða­syndir. Ennfremur er hann höfundur mikillar ævisögu Jóns biskups Arasonar, sem út kom hjá Hlaðbúð á fjögurra alda ártíð herra Jóns og sona hans Ara og Björns, sem allir Íslendingar eru komnir af, en Guðbrandur var kaþólskur.

Mun fleira mætti skrifa um Guðbrand, sem var vel þekktur maður á sinni tíð, en vindum okkur að sálminum, sem er þýddur (frumhöfundur H. Vejser), en vel gerður og kom höf. þessara lína á óvart þennan sunnudag, því að fyrr hafði ég ekki séð kveðskap eftir Guðbrand, en sunginn er hann við fallegt lag:

 

Guðs lýður, krossins tak þú tré

trútt þér á herðar, þótt hann sé

þungur að bera, þessi raun

þiggur margföld og eilíf laun.

 

Í laun þér veitist vegsemd ein,

að verða´ að Kristí lærisvein;

speki og þróttur vaxa víst,

veita mun þér af slíku sízt.

 

Tak þér á herðar Herrans kross,

hljóta munt þá hið æðsta hnoss:

félag og sæta samanvist

sífellt við Drottin Jesúm Krist.

Samdægurs birt á Krist.blog.is

 

15.02.16

  18:42:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 37 orð  
Flokkur: Helgigöngur

Pílagrímaganga frá Strandarkirkju að Skálholti í sumar

Edda Laufey Pálsdóttir í Þorlákshöfn gekk Jakobsveginn árið 2014 og hefur nú hrint í framkvæmd hugmynd um pílagrímagöngu frá Strandarkirkju til Skálholts næsta sumar. Gengið verður 18-22 kílómetra hvern dag, 22. maí, 21. júní, 10. júlí og 24 júlí. Sjá nánar hér: http://www.sunnlenska.is/frettir/18399.html

10.02.16

  16:06:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 243 orð  
Flokkur: Fasta og yfirbót

Í dag, öskudag hefst fastan

Öskudagur og föstudagurinn langi eru sérstakir dagar föstu og yfirbótar. Samkvæmt kirkjulögum er rómversk-kaþólsku fólki frá 18 til 60 ára aldurs skylt að fasta á öskudag og föstudaginn langa sem er bindandi föstuboðsdagur. Sjúklingar eru undanþegnir föstu.
Fasta er það þegar aðeins er neytt einnar fullkominnar máltíðar á dag. Þó er ekki bannað að neyta smávegis af fæðu tvisvar að auki.

Allir trúaðir sem náð hafa 14 ára aldri eiga að gera yfirbót alla föstudaga, einkum á lönguföstu. Velja má um eftirtaldar leiðir:

Forðast neyslu kjöts eða annarrar fæðu.
Forðast áfenga drykki, reykingar eða skemmtanir.
Gera sérstakt átak til að biðja:
* Með þátttöku í heilagri messu.
* Með tilbeiðslu hins alhelga altarissakramentis.
* Með þátttöku í krossferilsbænum á föstudögum í lönguföstu.
Fasta algjörlega oftar en skylt er og gefa fé það sem þannig sparast til þeirra sem þess þurfa.
Sýna sérstaka umhyggju þeim sem fátækir eru, sjúkir, aldraðir, farlama eða einmana.

Í Mattheusarguðspjalli 6. kafla eru fyrirmæli Jesú Krists um föstu:

16Þegar þér fastið þá verið ekki döpur í bragði eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín svo að engum dyljist að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 17En þegar þú fastar þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt 18svo að menn verði ekki varir við að þú fastir heldur faðir þinn sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Á eftirfarandi vefslóð má sjá yfirlit yfir eldri pistla mína um föstuna:
http://www.kirkju.net/index.php/c58/c72/?blog=8

Heimildir:
https://en.wikipedia.org/wiki/Fasting_and_abstinence_in_the_Roman_Catholic_Church
http://www.biblian.is/Biblian/Default.aspx?Book=39&Chap=6

07.02.16

7. nóvember 1550 – eftir Pétur Sigurgeirsson biskup

   

Öxi´ og  jörðu eftirlátið

eldrautt þá var blóð.

Minningu um merka feðga

man vor frjálsa þjóð.

Biskupi var kær sín kirkja,

kær sem land og trú.

Fann í vanda frelsi Íslands

frelsishetja sú.

 

Ártíð þessi á oss minnir

afbrot framið mest.

Iðrun synda, sátt og mildi

sakir læknar best.

Þar er hjálpin þörfin mikla,

þá sem einnig nú.

Lifir kristin kirkja fyrir

kærleik, von og trú.

 

Þetta eru 2. og lokaerindið (4.) í ljóðinu 7. nóvember 1550 eftir herra Pétur Sigurgeirsson. Það birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 4. nóvember 2000, á kristnihátíðarárinu. Pétur heitinn biskup var norðanmaður eins og Jón biskup Arason, blessaðrar minningar.

02.02.16

  20:12:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 133 orð  
Flokkur: Biblían

Úr Kólossubréfinu: "Íklæðist góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi"

12Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. 13Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. 14En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.
15Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar því að Guð kallaði ykkur til að lifa saman í friði sem limi í einum líkama. Verið þakklát.
16Látið orð Krists búa með ykkur í allri sinni auðlegð og speki. Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. 17Hvað sem þið segið eða gerið, gerið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður með hjálp hans.

Kólossubréfið 3:12-17. Heimild biblian.is

 

01.02.16

  19:38:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 116 orð  
Flokkur: Biblían

Úr Filippíbréfinu: "Verið glaðir"

Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. 5Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 6Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 7Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.  8Að endingu, systkin, [2] allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. 9Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.

Filippíbréfið 4:4-8. Heimild: biblian.is

 

29.01.16

  18:49:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 209 orð  
Flokkur: Kenning kirkjunnar, Biblían

Úr Efesusbréfinu "Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni"

21Jesús er sannleikurinn og ég veit að þið hafið heyrt um hann og verið frædd um hann: 22Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum 23en endurnýjast í anda og hugsun og24íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.
25Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir. 26Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. 27Gefið djöflinum ekkert færi. 28Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er. 29Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra. 30Hryggið ekki Guðs heilaga anda sem þið eruð innsigluð með til endurlausnardagsins. 31Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt.32Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.

Efesusbréfið 4. kafli vers 21-31

18.01.16

  18:49:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 158 orð  
Flokkur: Kenning kirkjunnar

Úr Síraksbók: Heift og reiði eru andstyggð

Úr Síraksbók: (*)  "Heift og reiði eru andstyggð og eru ætíð í föruneyti með illum manni.
Sá sem hefnir sín hlýtur hefnd frá Drottni, er lætur syndir hans allar á honum hrína.
Fyrirgef öðrum mótgerðir, og þá munu þér fyrirgefin brot þín er þú biður. 
Menn geyma með sér reiði hver gegn öðrum, en svo ætlast þeir til líknar hjá Drottni! Þeir sýna enga miskunn jafningjum sínum, en beiðast þó vægðar á eigin syndum!
Þeir búa yfir hatri og eru þó aðeins hold. Hver mun biðja þeim vægðar með bænum sínum?
Minnstu endalokanna og láttu af fjandskap, hugðu að dauða og rotnun og vertu stöðugur við boðorðin.
Gættu lögmálsins og hataðu ekki náungann, minnstu sáttmála hins hæsta og taktu vægt á misbrestum. "

Sír. 27:33-28:9

Úr messublaði Kaþólsku kirkjunnar: 24. sunnudagur almennur í kirkjuári. Fyrsti ritningarlestur. Textaröð A. Merkt SV/8/90.

(*) Síraksbók er ein af hinum síð-kanónísku ritum Gamla testamentisins sem Marteinn Lúther tók úr hefðbundinni röð bóka í biblíunni og kom fyrir í viðauka sjá nánar hér

05.01.16

  03:56:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 118 orð  
Flokkur: Fornkirkjan

Brot af sögubroti

Úr athugun Harðar Ágústssonar á skrúða- og áhaldaeign Skálholtsdómkirkju frá miðöldum:

"... Hæstur meðalaldur er í flokknum helgidómar og skrín. Aldrinum veldur allt í senn helgi og dýrleiki. Þrátt fyrir að járntjald siðaskiptanna hafi verið dregið fyrir helgi Þorláks biskups Þórhallssonar, fyrsta dýrlings Íslendinga, þraukaði jarðneskur umbúnaður hans lengst allra kirkjugripa."

Skálholt. Skrúði og áhöld, eftir Kristján Eldjárn og Hörð Ágústsson. Hið ísl. bókmenntafélag 1992, bls. 116. – Þetta rit, alls 370 bls., er mikil upplýsinga-kista um Skálholtsdómkirkju, skrúða þar og áhöld, allt frá þeirri fyrstu kirkju þar, en þar á meðal um mikla bókaeign kirkjunnar, prentuð rit, handrit og skjöl. Væntanlega gefst síðar tími til að gera því efni nokkur skil. Og þetta er ekki eina bók þessara góðu félaga um Skálholt (nánar síðar).

28.12.15

  19:36:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 12 orð  
Flokkur: Bænir

Rósakransbænirnar á íslensku á YouTube

Nú eru rósakransbænir á íslensku aðgengilegar á YouTube, sjá nánar hér: https://www.youtube.com/channel/UCrBahFcNi36BIukJdlRf53Q

25.10.15

Minnt á biskupsvígslu 31. október 2015

Nú eru fimm dagar rúmir til hátíðlegrar biskupsvígslu í Kristskirkju í Landa­koti, öðru nafni Basiliku Krists konungs. Séra Jakob Rolland minnti á þetta í hámessu nýliðins sunnudags og hvatti alla kaþólska til að sækja þessa vígslumessu, sem verður nk. laugardag, 31. október, kl. 18.00.

Séra Davíð Tencer, kapúcínamunkur og sóknarprestur í sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði, hefur verið kallaður og útvalinn til að taka við af herra Pétri Bürcher sem biskup kaþólskra á Íslandi. Við fögnum þessu og biðjum fyrir því að hann fái þjónað sínu nýja embætti af sömu gleðinni og fúsleikanum sem hefur einkennt störf hans hingað til. Um lífshlaup hans og ævistarf var fjallað hér nýlega í þessum pistli (með mynd): Nýtt biskupsefni kaþólskra.

Svo vildi til, að þetta sunnudagskvöld var stutt, en mjög áhugaverð frétt í Sjónvarpinu frá Kollaleiru í Reyðarfirði, þar sem sagt var frá starfi munkanna þar, en einkum frá byggingu kaþólskrar kirkju, Þorlákskirkju, á staðnum, og hvernig hjálp margra hefur gert hana mögulega, einkum viðirnir í hana, en þar er um bjálkabyggingu að ræða, úr fallegum ljósum viði. Mest af bjálk­un­um er gefið af vinum munkanna í Slóvakíu. Einnig er sagt frá ýmsum helgi­gripum sem kirkjunni hafa borizt; – "eins og Davíð sagði: Guð undirbýr allt."

Sjón er sögu ríkari, því að þetta er á vef Sjónvarpsins, þar sem líka sést í séra Davíð fyrir altarinu (í eldra helgihúsi á staðnum) og ómur heyrist af tilbeiðslu­textum: Hér eru þessar kvöldfréttir Sjónvarpsins, umfjöllun um kaþólsku kirkjuna byrjar þar þegar um 20 mín. eru liðnar af fréttatímanum.

15.10.15

Grein í Mbl. um heil. Teresu frá Avila

Merka grein og vel ritaða eftir Jón Viðar Jónsson, rithöfund og leiklistar­gagnrýnanda, er að finna í Morgunblaðinu í dag: Á fimm hundruð ára afmæli heilagrar Teresu frá Avila (1515-1582) – en í dag er messudagur hennar. Jón Viðar, sem kynnir sig sem kaþólskan leikmann, segir frá henni á áhuga­verðan hátt og tengir það klaustri reglu hennar hér á Íslandi, Karmelklaustri í Hafnarfirði, segir frá erfiðri baráttu heil. Teresu (og samherja hennar, heil. Jóhannesar frá Krossi) og ritum þeirra, sem Jón Rafn Jóhannsson hefur þýtt á íslenzku og fáanleg eru í klaustrinu, sem og með pöntun gegnum þennan vef: http://www.lulu.com/spotlight/jonrafn/ – Þar geta menn kynnzt einhverj­um mestu auðæfum kaþólskrar dulspeki (mystíkurinnar). Teresa var ekki aðeins tekin í tölu heilagra, heldur einnig (árið 1970) í tölu kirkjufræðara (doctores Ecclesiæ).

01.10.15

  17:25:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 132 orð  
Flokkur: Önnur trúarbrögð

Múslimar verja frelsi kristinna í Beirút yfirlýsingunni

Asianews 25.08.2015.

Asianews greindi nýverið frá því að Makassed, góðgerðasamtök sem tengjast æðstaráði súnni múslima í Líbanon hafi gefið út yfirlýsingu um trúfrelsi 20. júní sl. Í þessari yfirlýsingu, sem kennd er við Beirút, ítreka samtökin vilja frjálslyndra múslima til að búa meðal kristinna. Tekið er fram að engan eigi að þvinga til trúskipta og engan megi ofsækja fyrir að vera annarrar trúar. Samkvæmt túlkun þessa hóps bannar íslam stríð, að hrekja fólk af landi sínu eða takmarka frelsi annarra í nafni trúarinnar.

Yfirlýsingunni er ætlað að skerpa á afstöðu líbanskra múslima gegn ofbeldi sem framið hefur verið í nafni trúar þeirra. Í yfirlýsingunni er grundvelli íslam teflt fram í andstöðu við þá sem halda trúnni í gíslingu í þágu valds.

Texta yfirlýsingarinnar er að finna á eftirfarandi tengli, ensk þýðing AsiaNews: [Tengill].

http://www.asianews.it/news-en/Muslims-defend-Christians%E2%80%99-freedom-in-Beirut-Declaration-35135.html

21.09.15

  02:07:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 362 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk

Nýtt biskupsefni kaþólskra

Dávid Bartimej Tencer.  Vinsæll prestur, Mgr. Davíð Tencer, hefur verið tilnefndur sem biskupsefni kaþólskra manna á Íslandi, þ.e. sem Reykjavíkurbiskup. Fer vígsla hans fram 31. október næstkomandi. Hann er slóvakískur að ætt og uppruna, þjónaði sem prestur þar í landi og gekk í reglu Kapúcína, en á Íslandi hefur hann þjónað frá 2004. Hann er vel lærður maður og hefur víða komið við, eins og lesa má í þessari tilkynningu á vef kaþólsku kirkjunnar á Íslandi:

"Hann heitir Dávid Bartimej Tencer, OFMCap. Hann fæddist 18. maí 1963 í Nová Baňa. Hann hlaut prestvígslu 15. júlí 1986 í Banská Bystrica í Slóvakíu fyrir biskupsdæmið Banská Bystrica, var aðstoðarsóknarprestur í Hriňova og síðar aðstoðarprestur í Zvolen. Hann varð stjórnandi prestakallsins í Sklenne Teplice árið 1989 og 1989 í Podkonice.

Hann bað biskup sinn að leysa sig undan embættisskyldum svo að hann gæti gengið í reglu kapúsína og árið 1990 hóf hann reynslutíma sinn. Hann vann fyrstu trúarheit sín árið 1991 í Podkonice. Árið 1992 hóf hann nám í trúarhefðum fransiskana í Antonianum-háskólanum í Róm og lauk því með lícentíatsprófi 1994. Hann vann hátíðlegt lokaheit í Fæðingarkirkju heilags Jóhannesar skírara í Kremmnické Bane – Johanesberg.

Hann varð stjórnandi prestakallsins í Holíč eftir að hann kom heim frá Róm, ráðgjafi nýmunka og félagi í ráðgjafanefnd stjórnanda reglunnar. Árið 1996 var hann fluttur til Raticovvrch í Hriňova þar sem hann var ráðgjafi nýmunka til 2000 og yfirmaður klaustursins til 2003. Hann hóf kennslu um áramótin 2001-2002 og kenndi predikunar- og andlega guðfræði til ársins 2004 í prestaskólanum í Badin. Hann varð forstöðumaður samfélagsins í Žilina 2003 og kenndi andlega guðfræði í Stofnun heilags Tómasar frá Akvínó til 2004.

Hann kom til Íslands árið 2004, var skipaður aðstoðarprestur í Maríu­­sókn í Breiðholti í Reykjavík og hóf um leið íslenskunám. Árið 2007 var hann skipaður sóknarprestur í sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði. Hann er félagi í prestaráði og ráðgjafanefnd Reykjavíkur­biskupsdæmis."

 

Séra Davíð hefur m.a. predikað í Kristskirkju í Landakoti á íslenzku og einnig á pólsku í messum fyrir Pólverja (kl. 1 á sunnudögum). Hann var við kirkjukaffi í Landakoti þennan sunnudag, hlýr og gefandi að vanda. Við fögnum vali hans sem biskups. Biðjum nú öll fyrir séra Davíð og biskupsstörfum hans fram undan, um leið og við þökkum Pétri biskupi fyrir hans góðu umsjón kirkjunnar síðastliðin átta ár og óskum honum fararheilla til Landsins helga.

27.06.15

Franskir sjómenn, franska kirkjan ... spítalar á Íslandi og sjálf kaþólska kirkjan og viðgangur hennar hér

Mjög athyglisverður var Skáldatími, þáttur Péturs Gunnarssonar rithöfundar, á Rás 1 í kvöld. Afar fróðlegur var hann um fiskveiðar Frakka í norðurhöfum og hvernig hinum mikla fjölda sjómanna þeirra hér við land var nauðsyn á tvenns konar liðsinni í landi: læknis- eða sjúkrahúsþjónustu og prestsþjón­ustu, fyrir utan aðstoð björgunarsveita bænda og annarra við Suðurlandið þegar skútur þeirra strönduðu og þeir komust nauðuglega af.

Pétur fjallar framan af um skrif tveggja rithöfunda um mál Franzmanna hér við land, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness, en síðan um erfiðar lífsaðstæður sjómannanna um borð og byggir þar ekki sízt á franskri skáldsögu, mjög vinsælli á 19. öld, Pecheur d'Islande, eftir Pierre Lothi. Vincent van Gogh og Paul Gaugain þekktu þá skáldsögu, og van Gogh hafði áhuga á að gera myndefni eftir sögunni ...

En frásögninni víkur svo tveimur prestum frönskum sem hingað komu til að þjónusta skútusjómennina og til trúboðs, sem raunar var þá ólöglegt, en Ísland varð síðast Norðurlandanna til að löggilda trúfrelsi  (með stjórnarskrá 1874). Þessir menn voru séra Baudoin og Djunkovski, og þeim að þakka voru kaupin á jörðinni Landakoti í vesturjaðri  Reykjavíkur. Framhaldinu er öllu  lýst í þættinum,  sem er hægt að hlusta  á hér: http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/skaldatimi/20150627

Eftir 20 ára hlé á veru kaþólskra presta hér var trúboð þeirra endurnýjað, og ótrúlega hröð verður svo atburðarásin hvað snertir uppbyggingu franskra manna á spítölum hér, m.a. með stofnun slíkra 1902 í Reykjavík, 1904 á Fáskrúðsfirði og 1905 í Vestmannaeyjum, og er þá ekki allt upp talið.

"Franski spítalinn (Lindargata 51) var byggður árið 1903 á Eyjólfsstaðabletti í Reykjavík.  ... Húsið var leigt borginni árið 1920, þegar veiðar Frakka við landið voru að mestu úr sögunni.  Spítalarekstri var hætt 1927.  Þá eignaðist borgin húsið og þar var m.a. mötuneyti fyrir atvinnulausa í kreppunni og barnaheimili.  Gagnfræðaskóli séra Ingimars Jónssonar var rekin í húsinu á árunum 1935-75."  Á seinni árum hefur Tónmenntaskóli Reykjavíkur verið í húsinu. [1]

Menn eru hvattir til að hlusta hér á þennan fjörlega þátt, og ekki spillir frönsk tónlistin fyrir, eftir sjálfan Rameau.

Pétur studdist í erindi sínu einkum við þrjár bækur:  Fransí biskví, eftir Elínu Pálmadóttur blaðamann,  sem  nýlega var sæmd  orðu  frönsku Heiðursfylk­ingarinnar, einnig bókina St Jósefssystur á Íslandi eftir Ólaf H. Torfason og Kaþólskt trúboð á Íslandi eftir Gunnar F. Guðmundsson, cand. mag. (höfund bókarinnar miklu  um Nonna).

[1] http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_reykjavik_meira.htm

06.06.15

  11:41:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 139 orð  
Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar, Friðarmál og stríðsátök, Páfadæmið í Róm

Páfinn í Sarajevo

Um hundrað þúsund manns er nú saman komið á íþróttaleikvangi í Sarajevó, höfuðborg Bosníu, til að hlýða á messu Franz páfa.

Með heimsókn sinni hyggst páfi boða frið í landinu sem enn er markað eftir borgarstríð sem lauk fyrir tuttugu árum. Í stríðinu börðust serbneskir meðlimir rétttrúnaðarkirkjunnar við bosníska múslima. Íbúar landsins halda sig enn í fylkingum eftir trúar­hópum og þjóðflokkum. Páfi hyggst funda með forsvarsmönnum múslima, réttrúnaðarkirkjunnar og gyðinga í landinu á meðan á heimsókninni stendur. Þannig vill hann boða frið og reyna að fá trúarhópa til að lifa í sátt og samlyndi. (Rúv í dag.)

Franz páfi hefur nú þegar öðlazt miklar vinsældir fyrir augljósan hug sinn til að nálgast og blanda geði við óbreytta meðlimi kirkjunnar víða um lönd, að vekja athygli á hlutskipti fátækra, vinna í þágu friðar og sýna samstöðu með bágstöddum og undirokuðum.

18.05.15

Kaþólska kirkjan um hjónabandið, hreinlífi og samkynhneigð

Öllum má vera ljóst, að kaþólska kirkjan stendur vörð um hjónabandið, eins og um það er fjallað í guðspjöllum og bréfum Nýja testamentisins. Ennfremur hvikar hún hvergi frá því, sem þar er sagt um kynferðislegt samband fólks af sama kyni, og hafnar því, að samband þeirra geti verið grundvöllur hjónabands. Í þremur greinum í  Trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar segir svo:

 • 2357. Samkynhneigð vísar til sambands milli karla og milli kvenna sem með algjörum eða ráðandi hætti laðast kynferðislega að persónum af sama kyni. Það hefur tekið á sig ýmsar myndir í aldanna rás og á hinum mismunandi menningarsvæðum. Sálræn tilurð þess hefur að mestu leyti verið óútskýrð. Með því að styðjast við heilaga Ritningu, er lýsir samkynhneigðum athöfnum sem alvarlegri siðspillingu, [141] hefur erfikenningin ávallt lýst því yfir að "samkynhneigð athöfn feli í sér eðlislæga röskun." [142] Hún stríðir gegn náttúrulögmálinu. Hún útilokar að kynlífið kveiki nýtt líf. Hún sprettur ekki af sannri gagnkvæmri fyllingu, tilfinningalegri og kynferðislegri. Hana má ekki undir nokkrum kringumstæðum viðurkenna.
 • 2358. Þeir karlar og konur sem hafa djúpstæða samkynhneigð eru ekki lítill hópur. Þessi tilhneiging, sem á hlutlægan hátt er röskun, er fyrir flest þeirra erfið raun. Þau ber að umgangast af virðingu, samúð og nærgætni. Sérhverja tilhneigingu til óréttmætrar mismununar gagnvart þeim ber að forðast. Þau eru kölluð til að uppfylla vilja Guðs í lífi sínu og, ef þau eru kristin, að sameina þá erfiðleika, sem skapast vegna ástands þeirra, fórn Drottins á krossinum. [Frh. hér neðar!]
 • 2359. Samkynhneigðar persónur eru kallaðar til hreinlífis. Með dyggð sjálfsögunar, sem kennir þeim innra frelsi, og stundum með stuðningi ósérplæginnar vináttu, með bænum og sakramentislegri náð, geta þær og eiga þær að ná smám saman og af öllum hug tökum á kristinni fullkomnun.
 • (https://docs.google.com/document/d/1otltDYfFJr-obIHfcbOl_BgOmM_P4kmnsM2__SUvjlI/edit# – Óopinber útgáfa Trúfræðsluritsins (TKK), Reynir K. Guðmundsson þýddi, bráðabirgðaþýðing. Hér er: Efnisyfirlit Trúfræðsluritsins)
 • Neðanmálsgreinar:
 • 141. Sbr. 1 Mós. 19:1-29; Róm. 1:24-27; 1Kor. 6:9; 1Tím. 1:10.
 • 142. CDF (Congregatio pro Doctrina Fidei, þ.e. stjórnardeild trúarkenninganna, Páfagarði): Persona humana, 8. 
 • Í Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar segir m.a. orðrétt um hjónabandið:

  • „Köllun til hjónabands er letruð í innsta eðli karls og konu eins og þau koma frá hendi skaparans. Heilög Ritning staðfestir að karl og kona voru sköpuð hvort fyrir annað: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall." Konan, „hold af hans holdi", jafningi hans og trúnaðarvinur, er gefin honum sem „meðhjálp"; þannig stendur hún fyrir Guð en frá honum kemur hjálp okkar. „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold." Drottinn sýndi sjálfur fram á að þetta þýddi órjúfanlega einingu þegar hann rifjaði upp hver fyrirætlun skaparans hefði verið „frá upphafi": „Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður"." (TKK 1605; miklu ýtarlegar er fjallað um hjónabandið í fleiri greinum úr TKK, sem lesa má á íslenzku á næsta veftengli hér fyrir neðan). 

  Umsögn Péturs Bürcher Reykjavíkurbiskups, dags. 5. maí 2010, um það frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum, sem gerði pörum af sama kyni heimilt að ganga í hjónaband, má nálgast í heild á pdf-formi á þessum tengli: http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=485&dbnr=2058&nefnd=a 

  Umsögninni fylgdu 6 fylgiskjöl, en þar vega m.a. þungt:

  • Réttindaskrá fjölskyldunnar, lögð fram af Páfastóli (1983). 
  • Útdráttur úr Trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar.(TKK, 1993). 
  • Bréf til fjölskyldna, eftir Jóhannes Pál páfa II (1994). 
  • Sannleikurinn um mannlegt kynferði og merking þess, frá Fjölskylduráði Páfastóls (1995). 

  Í lok eins fylgiskjalanna, þ.e. bréfs Péturs biskups til Björns Bjarnasonar, þáv. dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 28. júní 2008, segir svo: 

  • "Til að vera trú köllun sinni leggur kirkjan mikla áherslu á öll þau gildi sem liggja til grundvallar heilbrigðu og siðmenntuðu fjölskyldumunstri. Hún sættir sig engan veginn við rangar og óeðlilegar hugmyndir um kynlíf og fjölskyldumunstur, sem stangast á við boðskap kristilegs siðferðis. 
  • Enn fremur minnir hún ráðamenn í íslensku þjóðfélagi á kristilega arfleifð, sem í aldanna rás hefur mótað farsællega íslensku þjóðina og varar við röskun á fjölskylduímynd, sem téðar lagabreytingar hafa í för með sér. Íslenska þjóðin á betra skilið. 
  • Að lokum vil ég minna á að kirkjan er sjálfráð í trúmálum og meðhöndlun sakramentanna og lýtur engu öðru valdi í þeim efnum, hvorki Alþingis né stjórnvalda né nokkurra veraldlegra valdhafa. Þess vegna munu lögin 55/2008 ekki hafa nein áhrif á starfsemi Kaþólsku kirkjunnar."

  Þetta áréttar herra Pétur biskup með áðurnefndri umsögn sinni um nýja hjúskaparfrumvarpið til Alþingis 5.5. 2010, en hún endar þannig:

  • "Kaþólska kirkjan vonar að Alþingi muni ekki stíga þetta ógæfuspor, en haldi þess í stað verndarhendi yfir helgi fjölskyldunnar og hjúskaparins, og hún lofar að halda ótrauð áfram að bera fram bænir sínar í þágu þjóðarinnar og ráðamanna hennar. 
  • Sem svar við spumingu allsherjarnefndar Alþingis getur Kaþólska kirkjan þess vegna ekki samþykkt fyrirhugaðar breytingar á hjúskaparlögunum. Í raun hefur ekkert mannlegt yfirvald leyfi til þess að breyta þeim náttúrulegu lögmálum sem koma beint frá Skaparanum. Fyrir sitt leyti mun Kaþólska kirkjan á Íslandi halda sig við Guðs lög eins og henni ber, boða heilbrigð og eðlileg viðhorf um mannleg gildi og fara þar með eftir fordæmi Krists eins og hún hefur alltaf gert."

  09.05.15

    07:42:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 120 orð  
  Flokkur: Trúarpælingar

  Sigurður Nordal um möguleika annars lífs

  „Það er vissa, sem eg hef fengið staðfesta bæði af eigin reynd og öllu því, sem eg hef haft tækifæri til þess að athuga og kynnast, að okkur farnist svo bezt í þessu lífi, að við höfum sífellda hliðsjón af dauðanum, möguleika annars lífs og undirbúningi þess. Því fer mjög fjarri, að við með því móti færum okkur þetta líf verr í nýt, verðum dugminni eða hamingjusnauðari. Umhugsunin um annað líf er sjálf eitt af ævintýrum þessarar jarðnesku tilveru, en auk þess er hún bezta vegaljósið til þess að greina á milli sannra og falsaðra gæða lífsins.“

  Úr bókinni Líf og dauði eftir Sigurð Nordal. Sex útvarpserindi með eftirmála. Almenna bókafélagið gaf út árið 1966. Bls. 33-34. Útvarpserindin voru flutt 15. febrúar - 17. mars 1940.

  29.04.15

    17:42:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 79 orð  
  Flokkur: Trúarleg tónlist og textar

  Óður til heilagrar Sesselju - frumflutningur

  Föstudaginn 1. maí nk. mun Kór Öldutúnsskóla fagna 50 ára starfsafmæli sínu með tónleikum sem hefjast kl. 17 í Víðistaðakirkju, Hafnarfirði. Í tilkynningu kórsins um þennan viðburð segir m.a:

  "Á efnisskrá eru lög úr ýmsum áttum sem eiga það flest sameiginleg að hafa verið á efnisskrá kórsins í áranna rás.
  Að auki verður frumflutt verkið Sancta Caecilia sem er óður til Heilagrar Sesselju, verndardýrðlings tónlistarinnar. Flytjendur verða Kór Öldutúnsskóla og nokkrir fyrrverandi kórfélagar. Höfundur verksins er Bára Gísladóttir."

  Sjá nánar hér: http://heyevent.com/event/1213658502089951/kor-oldutunsskola-i-50-ar-tonleikar

  16.04.15

    19:57:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 158 orð  
  Flokkur: Helgir menn, Pílagrimsferðir

  Ferðir um slóðir Svörtu Madonnunnar og Jakobsveg til Compostela

  ÍT ferðir bjóða upp á sögu- og ævintýraferð fyrir konur um Frakkland og Spán á vit svörtu madonnunnar 22. ágúst til 5. september 2015. Þetta kemur fram á vef þeirra:

  "Ferðin hefst í París og lýkur í Barcelona. Ferðast er í þægilegri rútu á milli staða. Svartar madonnur eru fornar styttur og málverk af hinni helgu móður með barnið. Þær eru ólíkar hefðbundnum Maríu- og Kristsmyndum að því leyti að móðirin og barnið eru dökk á hörund og oft með andlitsfall sem bendir til að þær komi af fjarlægum slóðum. Talið er að sumar þeirra hafi komið til Evrópu með krossförunum, en uppruni flestra er óþekktur og hjúpaður hulu."

  Sjá nánar hér og hér.

  Sama ferðaskrifstofa býður næsta haust einnig upp á göngu eftir Jakobsveginum til hinnar fornfrægu borgar Santiago de Compostela. Í kynningu á ferðinni á vef skrifstofunnar segir: "Leiðin var öldum saman ein fjölfarnasta pílagrímaleið Evrópu, en dómkirkjan mikla í Santiago var sögð reist á gröf Jakobs Zebedeussonar postula".

  03.04.15

    17:30:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1 orð  
  Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Athyglisvert viðtal við stúlku í flóttamannabúðum í Kúrdistan

  [youtube]_ige6CcXuMg[/youtube]

  19.02.15

    19:04:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 251 orð  
  Flokkur: Trúarpælingar

  Guðhrædda konan

  Guðhrædda konan
  - saga fundin á netinu.

  Það var mikið flóð og verið var að flytja íbúa þorps nokkurs í burtu, þar sem fjöldi húsa var að fara á kaf. Lögreglumaður réri á bát að heimili guðhræddustu konunnar í þorpinu og sagði: „Frú, þú verður að yfirgefa húsið, fólk er að týna lífi sínu vegna flóðanna." Konan svaraði, „Nei, ég ætla ekki að fara, Guð hefur alltaf hjálpað mér og hann mun einnig gera það núna."

  Vatnið hélt áfram að rísa og náði að lokum upp á aðra hæð húss hennar. Annar bátur kom að húsinu hennar og stjórnandi hans hrópaði „Frú, þú verður að koma um borð í bátinn, annars muntu drukkna!" Enn svaraði konan, „Nei, Guð hefur hjálpað mér í öllum kringumstæðum og hann mun bjarga mér núna."

  Og enn reis vatnið, svo mikið að konan varð að fara út um þakglugga og koma sér fyrir á mæni hússins. Eftir litla stund kom þyrla fljúgandi og sveimaði yfir húsinu. Flugmaðurinn kallaði í hátalara þyrlunnar. „Frú má ég biðja þig um að klifra um borð, annars muntu drukkna." Konan saug upp í nefið og kallaði á mót, „Guð mun bjarga mér."

  En vatnið reis hærra og svo fór að konan drukknaði. Hún fór til himins og þar hitti hún Guð og spurði hann. „Hvers vegna bjargaðir þú mér ekki Drottinn?" Guð svaraði, „Hjálpaði ég þér ekki! Ég sendi tvo báta og eina þyrlu en þú þáðir ekki hjálp mína."

  Aths. RGB. Þetta er saga sem ég fann á netinu hér: https://bland.is/umraeda/eru-allir-jafnir-bibliusogur-/1327611/

  13.01.15

    00:00:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 155 orð  
  Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kirkjusaga nýaldar, alþjóðleg, Kaþólskir Íslendingar

  Pétur biskup biðst lausnar

  Í hámessunni sl. sunnudag las sr. Jakob Rollant biskupsritari upp bréf herra Péturs biskups Burcher, þar sem hann skýrir frá því, að hann hafi sent Franz páfa lausnarbeiðni sína frá biskupsembættinu. Hann er á sínu sjötugasta aldursári, en heilsa hans leyfir ekki, að hann gegni þessu starfi áfram í okkar kalda landi; hann er m.a. með mjög viðkvæm lungu og þolir ekki eldfjallaryk.

  Pétur Bürcher hefur gegnt biskupsembætti í tvo áratugi, fyrst sem aðstoðar­biskup í Sviss, en síðustu sjö árin sem Reykjavíkurbiskup og hefur notið bæði trausts og vinsælda safnaðarins, enda mikið ljúfmenni. Lausnar­beiðni hans liggur fyrir hjá páfanum; gera má ráð fyrir að hún verði samþykkt.

  Ekki mun biskupinn okkar sitja auðum höndum eftir það; hann mun áfram gegna ýmsum störfum, m.a. í Jerúsalem, fyrir hjálparsamtök sem hann áður starfaði fyrir.

  Biskupinum fylgja beztu árnaðaróskir frá söfnuði hans hér. Var bæði beðið fyrir honum og fyrir eftirmanni hans í hámessunni í Kristskirkju sl. sunnudag.

  10.01.15

  Ódæðisverk í nafni trúar

  Illt er í efni að islamstrú sé í vaxandi mæli notuð sem átylla og "réttlæting" mannvíga og verstu glæpa. Þetta gerist nú í stórum stíl á vegum Boko Haram-hreyfingar öfgamanna í Nígeríu og víðar, nú síðast með stórfelldri slátrun í þorpi einu, einnig milli hópa múslima í Mið-Austurlöndum og í morð-árásum og aftöku ISIS-manna á kristnu fólki og jazídum í Írak, en einn nýjasti atburðurinn er árásin á starfsmenn Charlie Hebdo-skopblaðsins í París, þar sem 12 lágu eftir í valnum og um fimm aðrir saklausir í eftirmálum þessa í gær, auk margra særðra. Ódæðisverkin voru fjár­mögnuð af al-Qaída í Jemen.

  Sumir leiðtogar múslima hafa fordæmt þessar árásir, og er mikilvægt, að sem flestir múslimar aðgreini sig algerlega frá slíkum grimmdarverkum gegn saklausum. Þeir, sem réttlæta þau, verðskulda ekki að fá að njóta óskertra borgararéttinda hér á Vesturlöndum.

  24.12.14

    20:43:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 200 orð  
  Flokkur: Helgir menn, Dulhyggja, Jólin

  Frásögn Brentano af fæðingu Drottins - heilagt innsæi eða tilfinningaþrunginn skáldskapur?

  Þýska skáldið Clemens Brentano tók að sér að skrifa niður frásagnir nunnunnar Anne Catherine Emmerich, þar sem hún lýsir sýnum þeim sem hún upplifði frá barnæsku og síðar meir sem nunna. Fyrir nokkrum árum þýtti ég stutta kafla úr enskri þýðingu bóka Brentano þar sem lýst er undirbúningi fæðingar Drottins. Þýðingar þessar er að finna hér og hér.

  Þegar systir Emmerich var tekin í blessaðra tölu af Jóhannesi Páli II páfa árið 2004 var tekið fram að þessi vegsauki hlotnaðist henni ekki vegna rita Brentano, sem sumir telja að stórum hluta vera skáldskap, heldur vegna helgi nunnunnar. Hvað svo sem segja má um rit Brentano þá er enn óútskýrt hvernig á því stóð að hægt var að nota kafla úr þessum ritum til að finna fornleifar skammt frá hinni fornu borg Efesus sem nú er í Tyrklandi, fornleifar sem kristnir menn telja að hafi verið dvalarstaður hinnar heilögu meyjar. En hvorki Brentano né Emmerich komu nokkru sinni til Tyrklands.

  Þótt menn efist um trúverðugleika rita Brentano verður að segjast að myndirnar sem dregnar eru upp af fæðingu Drottins gætu eins vel átt heima í vísindaskáldsögu eins og rómantísku verki frá 19. öld ef tilfinningaþrungnum lýsingarorðum væri fækkað aðeins.

  Endurbirtur pistill. Birtist áður 25.12.2013

  23.12.14

    10:49:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 552 orð  
  Flokkur: Helgir menn, Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Þorlákur helgi - verndardýrlingur Íslands

  Þorlákur helgi Þórhallsson.

  Hl. Þorlákur

  „Þorlákur biskup Þórhallsson hinn helgi fæddist á Hlíðarenda í Fljótshlíð árið 1133. Foreldrar hans voru Þórhallur Þorláksson bóndi þar og kona hans Halla Steinadóttir.

  Skólanám stundaði hann fyrst hjá Eyjólfi Sæmundssyni í Odda. Hann gekk í munkareglu hl. Ágústínusar og tók sínar fyrstu vígslur ungur að árum. Síðar nam hann í París og einnig í Lincoln á Englandi og varði útivist hans í sex ár. Heimkominn dvaldi hann tvö ár með frændum sínum en varð þá príor í Kirkjubæ önnur sex ár og eftir það ábóti í Þykkvabæ í Álftaveri í sjö ár, er hann var valinn til biskups í Skálholti og gengdi því embætti a.m.k. í fimmtán ár. Þorlákur andaðist 23. desember 1193 sextugur að aldri". [1]

  „Hann var svo var í sínum orðum að hann lastaði aldrei veður, sem margir gera. Hann kveið engu mjög nema Alþingi og imbrudögum, af því Alþingi að honum þótti margur maður þar verða villur vegar, en imbrudögum, að honum þótti það ábyrgðarráð mikið að vígja menn er til þess sóttu langan veg, og hann sá þá mjög vanfæra til. Hann söng hvern dag messu, bæði sér til hjálpar og öðrum og minntist í sífellu píningar guðssonar. Hann fastaði þá er hann var heima, vakti löngum um nætur og baðst fyrir. Hann var drykksæll svo ekki þraut drykki þá er hann blessaði í veislum. Hann lét kalla saman fátæka menn fyrir hinar hæstu hátíðir 12 eða 9 eða 7 og kom til leynilega að þvo fætur þeirra og þerrði síðan með hári sínu og gaf hverjum þeirra nokkra góða ölmusu áður á brott færi." [2]

  „Hinn 20. júlí árið 1198 voru bein Þorláks tekin úr jörðu og skrínlögð. Páll biskup Jónsson lýsti því þá yfir á Alþingi að leyfilegt væri að líta á Þorlák sem helgan mann. Árið eftir lýsti Alþingi hann svo helgan mann. 14. janúar 1984 lýsti Stjórnardeild sakramenta og guðsdýrkunar í Páfagarði því yfir að Þorlákur helgi væri verndardýrlingur Íslands, með samþykki Jóhannesar Páls II. páfa. Undirbúningsvinna og frumkvæði að viðurkenningu á helgi Þorláks var aðallega í höndum Hinriks biskups Frehens og Ágústínusarmunksins Brian McNeill." [3]

  Ekki er hægt að segja skilið við heilagan Þorlák án þess að minnast á Þorlákstíðir. Baldur Andrésson skrifar um þær á vefnum www.musik.is og segir þar m.a.:

  „Á Þorláki biskupi helga var hér fyrrum mikill átrúnaður, og eru til um hann mörg kvæði og lesmál. Langmerkast af öllu því er tíðasöngurinn á Þorláksmessu eða hinar svonefndu Þorlákstíðir.Tíðasöngurinn er varðveittur í skinnhandriti í Árnasafni, og er það messubók frá dómkirkjunni í Skálholti. Textinn er allur á latínu og rímaður, en söngurinn er einraddaður og allur með nótum. Tíðasöngurinn er allur prentaður í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar. Bjarni Þorsteinsson segir: „Söngur þessi er mjög merkilegur, ekki aðeins fyrir það, hve gamall hann er, heldur einkum fyrir hitt, að hann er orktur á Íslandi, eftir íslenzkum rímreglum og undir íslenzkum bragarháttum. Virðist því mjög líklegt, að lagið við tíðasöng þennan sé íslenzkt, tilbúið af einhverjum hinna kaþólsku klerka, og það því fremur, sem hvorki hefur tekist að finna textann né lagið í nokkrum útlendum nótnabókum frá þeim tíma".[4]

  RGB tók saman.

  Endurbirtur pistill sem birtist hér 22.12.2005, 23.12.2009, 20.07.2012 og 23.12.2013

  Heimildir:
  [1] Hreinn Erlendsson: „Þorlákssaga helga.“ Sérprent úr Árnesingi II. Útg. Sögufélag Árnesinga 1992.
  [2] Jón Helgason: „Byskupa sögur.“ 2. hæfte.
  [3] Ólafur H. Torfason: „Kaþólskur annáll Íslands.“ Handrit. Þorlákssjóður gaf út 1993.
  [4] Baldur Andrésson: „Tónlistarsaga Reykjavíkur
  með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist.“
  http://www.musik.is

  11.12.14

  Úr Lilju Eysteins munks

  Mikill er máttur Lilju. 62. og 69. erindi:

  • Hvað er tíðinda? Hjálpast lýðir. 
  • Hví nú? Því lét Jesús pínast.
  • Hvað er tíðinda? Hraktr er fjandinn. 
  • Hverr vann sigrinn? Skapari manna. 
  • Hvað er tíðinda? Helgir leiðast. 
  • Hvert? Ágæt í tígnarsæti. 
  • Hvað er tíðinda? Himnar bjóðast. 
  • Hverjum? Oss, er prísum krossinn. 
  • Máríu son, fyr miskunn dýra
  • manns náttúru og líkam sannan
  • kennstu við, að mín þú minnist,
  • mínn drottinn, í ríki þínu.
  • Ævinliga með lyktum lófum
  • lof ræðandi á kné sín bæði
  • skepnan öll er skyld að falla,
  • skapari minn, fyr ásjón þinni.
  Hér segja útgáfur reyndar ýmist: með lyktum lófum eða með lyftum lófum.
  Takið eftir, að hér er Jesús réttilega kallaður skapari manna (62,4; 69,8), sbr. Jóhannesarguðspjall, 1.3. – 'Skepnan öll': gervöll sköpunin, allt mannkyn.

  31.10.14

    17:22:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 38 orð  
  Flokkur: Helgir menn, Fasta og yfirbót, Kenning kirkjunnar

  Allra heilagra og allra sálna messur

  Allra heilagra messa er 1. nóvember og allra sálna messa er 2. nóvember. Á eftirfarandi YouTube myndskeiði er saga þessara kirkjuhátíða rakin í stuttu máli og þar eru einnig tilvísanir í heilaga ritningu sem setja hátíðirnar í biblíulegt samhengi.

  [youtube]jJBtcgFl0EM[/youtube]

  20.10.14

    03:40:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 621 orð  
  Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Unborn children – abortion

  Sinnaskipti fósturdeyðingarmanna, eftir Frank Pavone

  Frank Pavone, kaþólskur prestur, er leiðandi maður samtakanna Priests for Life um öll Bandaríkin. Jón Rafn hefur áður kynnt hér skrif hans, lesendur eiga að vera honum að góðu kunnir. Þessi grein var send út 3. júlí 2006.

  "Hundraðshöfðinginn, sem stóð við kross Krists, varð skyndilega altekinn hryllingi vegna krossfestingarinnar, sem honum hafði verið fyrirskipað að framkvæma. Þegar Kristur gaf upp andann, lét hundraðshöfðinginn sverð sitt falla, kraup á kné og hrópaði: "Sannarlega hefur þessi maður verið réttlátur!"

  Þau okkar, sem tekið hafa þátt í því að drepa ófædd börn, mætti kalla hundraðshöfðingja nútímans. Við höfum látið sverð okkar gegn hinu ófædda barni niður falla. Nú játum við sekt okkar í allri hennar dýpt og glímum við afleiðingar verknaðar okkar....

  Til þess að endurlífga mennsku okkar þurfum við að fyrirgefa og hlotnast fyrirgefning, að láta sættast og hljóta lækningu."

  Þessi orð er að finna í bæklingi frá 'Samtökum hundraðshöfðingja', sem eru félagsskapur fyrrverandi starfsmanna fósturdeyðingastöðva. Orð þeirra bera með sér á fallegan hátt og vekjandi það sem er að gerast víða á meðal bandarísku þjóðarinnar, þar sem hundruð fóstureyðingamanna og aðrir, sem hjá þeim starfa, upplifa nú iðrun, afturhvarf og lækningu.

  Í síðustu sjö vikulegu pistlum mínum hef ég verið að íhuga ævi og sálarlíf fóstureyðingarmanna. Ég hef vitnað til þeirra eigin orða, svo að þið megið fá innsýn í sársauka þeirra. Í þessum pistli get ég sagt ykkur það fagnandi, að þeir fyrrverandi fóstureyðingamenn, sem þið kunnið að þekkja til, svo sem Bernard Nathanson, Carol Everett og Tony Levatino, eru einungis "toppurinn á ísjakanum." Það er fjöldinn allur af öðrum í þessum hópi. Fleiri til viðbótar halda áfram að koma inn í ljós Krists nánast daglega.

  Þjónustusamtök okkar, Prestar með lífinu, starfrækja heimsins stærsta prógramm sem vinnur að endurhæfingu fólks eftir fóstureyðingar, en það kallast Víngarður Rakelar (Rachel´s Vineyard). Samtök okkar veita líka fyrrverandi fóstureyðingarmönnum aðstoð á leið þeirra til iðrunar. Ég mun aldrei gleyma því, er ég sat á tali við hóp þessara karla og kvenna um nokkurra daga skeið í dymbilviku og hlustaði á þau strengja þess heit, að heim komin myndu þau reyna að ná sambandi við hverja einustu konu, sem þau hefðu framkvæmt fóstureyðingu hjá, til að biðja hana fyrirgefningar. Ég heyrði þau einnig segja frá því, hvernig þau, eftir afturhvarfið, hygðust helga sérhvern dag einhverju barni sem þau hefðu drepið. Þau ætluðu að gefa þessum börnum nöfn, skrifa þeim bréf og biðjast fyrir í innilegri iðrunarbæn.

  Hver eru upptök þessa afturhvarfs? Reynsla mín staðfestir það, sem dr. Philip Ney komst að raun um. Hann skrifar: "Þau atriði, sem breyttu skoðun þeirra á því að framkvæma fóstureyðingu, voru eftirfarandi (talin upp í röð eftir því hvað algengast var): sannanir fyrir mennsku hins ófædda ungviðis, andleg reynsla, sálræn streita, sönnun fyrir sálrænni streitu móðurinnar, greinar um vísindaleg efni, það að vera meðtekinn sem persóna, persónuleg tengsl við einhvern lífsverndarsinna, mótmælastöður og hindrunartilraunir lífsverndarsinna fyrir utan fóstureyðingarstöðvar. Hjá flestum var um meira en einn áhrifaþátt að ræða. (The Centurion's Pathway, s. 77).

  Þessi leið er ekki auðveld. Hér er við svo mikinn sárauka og sektarkennd að glíma og svo margar afsakanir í röksemda-formi, sem komast þarf yfir, að hundraðshöfðinginn mun freistast til að segja: "Nú er allt í lagi – Jesús hefur læknað mig, og ég mun gleyma fortíðinni." En sá Jesús, sem læknar okkur, kallar okkur til þess að horfast í augu við sannleikann um það, sem við höfum gert, bæta fyrir þær gerðir okkar, þar sem það er mögulegt, og að gefa okkur í það erfiða verkefni að reyna að ráða bót á lemstruðum samböndum milli manna. Prestar með lífinu eru reiðubúnir til aðstoðar.

  Biðjum fyrir 'hundraðshöfðingjunum', og megi þeir verða sem flestir!

  –––––––––––––––––––––––––––––––––––––

  Hægt er að fá senda vikulega fréttapistla frá vefsetrinu www.priestsforlife.org eða skoða vefsetrið sjálft. Netfangið þar er mail@priestsforlife.org 

  28.08.14

    19:26:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 291 orð  
  Flokkur: Samkirkjuleg málefni, Önnur trúarbrögð

  Samtal um siðbót - athugasemd

  Í þættinum "Samtal um siðbót" [1] sem útvarpað var á RÚV rás 1 í gær, miðvikudag 27.8. 2014 féllu þau orð að kenning kaþólsku kirkjunnar um hreinsunareldinn væri ekki biblíuleg, þetta væri kenning sem fram hefði komið á 7. öld á tímum Gregors mikla. Sá sem svo mælti var gestur þáttarins dr. Gunnar Kristjánsson prófastur á Reynivöllum í Kjós.

  Í tilefni af þessu ummælum mætti benda hlustendum Rásar 1 á pistilinn: "Af hverju vitum við að Hreinsunareldurinn er til[2]" eftir kaþólsku fræðikonuna sem skrifar undir dulnefninu Philumena. Í pistli Philumenu kemur fram að tilvist hreinsunareldsins megi ráða bæði af orðum Páls og Jóhannesar í Nýja Testamentinu sem og af ákveðnum ritningartextum í Gamla Testamentinu en þó aðallega í síð-kanónísku ritunum.

  Vegna umræðunnar hefði einnig mátt koma fram að Marteinn Lúther tók nokkrar bækur út úr ritröð biblíunnar og kom þeim fyrir í viðauka. Þetta voru þó bækur sem samþykktar höfðu verið á kirkjuþingum sem hluti af biblíunni árin 393, 397 og 405. Vart þarf að taka fram að það voru helst bækur sem stönguðust á við kenningar Lúthers. Þetta voru hinar áðurnefndu síð-kanónísku bækur en þar á meðal voru einnig fjórar bækur Nýja Testamentisins, þetta voru Jakobsbréfið, Hebreabréfið, Jóhannesarbréfin og Opinberunarbókin. Sjá hér [3]. Sporgöngumenn Lúthers báru þó gæfu til að taka rit Nýja Testamentisins úr viðaukanum og koma þeim á sinn rétta stað að nýju.

  Í dag eru flestir kaþólikkar líklega sammála Lúther hvað aflátssöluna sjálfa varðar því innan kaþólsku kirkjunnar fór einnig fram siðbót eins og fram kom í þættinum. Kenningin um hreinsunareldinn hefur samt staðist tímans tönn líkt og margt annað sem Marteini Lúther hugnaðist ekki innan kirkjunnar.

  Heimildir:
  [1]Samtal um siðbót http://dagskra.ruv.is/nanar/19259/, þegar um 6 mín. og 40 sek. eru liðnar af þættinum.
  [2]Af hverju vitum við að Hreinsunareldurinn er til? http://www.kirkju.net/index.php/af-hverju-vitum-vie-ae?blog=14
  [3]The 7 books removed by Martin Luther. http://www.ewtn.com/vexperts/showmessage.asp?number=438095

  22.08.14

    22:06:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 121 orð  
  Flokkur: Dæmisögur og sögur II

  Að vigta börnin

  Trúboðshjón ásamt börnum sínum voru rekin í burtu frá stað nokkrum því kristni var ekki lengur leyfð þar. Hermenn komu skyndilega og sögðu: "Þið verðið að fara á morgun og þið megið aðeins taka hundrað kíló með ykkur, ekki meira! "
   
  Hjónin gáfu sér góðan tíma til að ákveða hvaða hluti þau ættu að taka með og hvað ekki. Börnin horfðu á.
   
  Daginn eftir komu hermennirnir og sögðu: "Eruð þið tilbúin?", "Já" svöruðu hjónin. 
  "Er þyngdin undir 100 kílóum" spurðu þeir og hjónin svöruðu játandi. "Eruð þið búnir að vigta börnin?" spurðu þá hermennirnir. Þetta kom flatt upp á hjónin, þau höfðu ekki einu sinni hugsað um börnin, bara hlutina. Strax fóru þau að hugsa öðruvísi, þau gætu sleppt hlutunum en ekki börnunum!

  13.05.14

    16:03:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 203 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Gekk Halldór Laxness í Benediktínaregluna?

  Svo virðist vera ef marka má bréf Þórbergs Þórðarsonar skrifað árið 1932 á Esperanto til rithandarfræðikonu sem fyrir tæpu ári var þýtt á íslensku af Kristjáni Eiríkssyni:

  "Á meðan dvöl hans í klaustrinu stóð gaf hann sig undir þá klausturgráðu sem á íslenska tungu nefnist því virðulega nafni heimsmunkur. Sagt er að hann sé neðsta þrep klausturlifnaðar. Og hef ég heyrt að hinir svonefndu heimsmunkar skeri sig einkum frá öðrum lifandi verum með því að klæðast sérstakri tegund nærbŭna. En um þetta skref sitt hefir Laxness alltaf verið þögull á landi voru." [1]

  Klaustrið sem Halldór dvaldi í er Benediktínaklaustrið Saint Maurice de Clervaux [2]. Sé frásögn Þórbergs rétt hefur Halldór tekið vígslu sem ætluð er fólki sem vill lifa andlegu lífi reglunnar án þess að ganga í klaustrið og er gjarnan nefnd þriðja regla. Lesa má um þriðju reglurnar almennt hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Third_order.

  Þriðjureglu Benediktínar eiga vefsíðu og er hana að finna hér: http://www.osb.org/obl/. Ég renndi yfir texta hjá þeim og finn ekkert um nærbuxur. Líklegast hefur Þórbergur ætlað að skopast að vígslunni með þessari athugasemd. Hitt er líklegra að þriðjureglu víxlunni hafi fylgt loforð um að ganga með men, nisti eða áletraðan klæðisbút (skapúlar) um hálsinn sem tákn vígslunnar.

  [1] http://esperanto.is/tradukoj/?id=26, ísl. þýð. Kristján Eiríksson.
  [2] http://abbaye-clervaux.lu/

  22.04.14

    16:46:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 242 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Krossinn á Úlfljótsvatni

  Hinn 4. júní 1989 blessaði Jóhannes Páll II páfi stóran kross úr límtré og málmi í hátíðlegri messu sem fram fór fyrir framan Basilíku Krists konungs í Reykjavík. Þessum krossi var síðar komið fyrir á Úlfljótsvatni til minningar um heimsókn páfa. Krossinn á að minna á þúsund ára kristinn sið á Íslandi sem páfi hvatti æsku Íslands til að varðveita. [1]

  Á sunnudaginn kemur, 27. apríl verður Jóhannes Páll II tekinn í tölu heilagra ásamt forvera sínum Jóhannesi 23. Gera má ráð fyrir að sú vegsemd hafi í för með sér að fleiri veiti krossinum á Úlfljótsvatni athygli og vilji leggja leið sína þangað í pílagrímsferð. Nýverið tilkynnti Pétur biskup um þá fyrirætlan sína að koma á fót munkaklaustri á Úlfljótsvatni. Ef sú áætlun gengur eftir má gera ráð fyrir að Úlfljótsvatn verði einhvern tíma í framtíðinni eftirsóttur staður til að heimsækja. Þar er nú þegar hægt að fara gönguferð í fagurri náttúru staðarins og eiga kyrrðarstund í einveru uppi við krossinn, og ef munkaklaustur verður staðsett þar má jafnvel gera ráð fyrir að munkarnir muni taka á móti gestum. Þeir sem notið hafa gestrisni klausturfólks og hlýlegrar nærveru þess vita að fátt jafnast á við slíkt. Slíkur staður gæti orðið staður íhugunar og andlegrar endurnýjunar fyrir neysluþreytt og ferðalúið nútímafólk sem orðið er leitt á innantómri afþreyingu.

  Ísland á ekki bara Úlfljótsvatn sem vakið gæti áhuga ferðamanna sem ferðast í trúarlegum tilgangi. Hér má sjá yfirlit yfir nokkra áhugaverða helgistaði kristninnar á okkar landi: http://www.kirkju.net/index.php/sumarie-er-timi-pilagrimsferea?blog=8

  [1] http://www.catholica.is/jpsun.html

  21.04.14

    13:43:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 148 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Ráðgert að stofna munkaklaustur á Úlfljótsvatni

  Þetta kom fram í hirðisbréfi Péturs Bürcher biskups fyrir sunnudaginn 23. febrúar 2014:

  "Kæru bræður og systur, ennfremur hef ég í hyggju að koma á fót klaustri fyrir karlmenn, helst af Benedikts- eða Ágústínusarreglu sem réðu reyndar á miðöldum yfir nokkrum klaustrum á Íslandi. Stórt land með húsakosti og upphitaðri kirkju er þegar fundið á Úlfljótsvatni. Nú þarf að finna klaustursamfélag! Ég hef þegar lagt mig mikið fram við að finna munka og vona að draumur minn verði brátt að veruleika, draumur sem einnig margir aðrir, jafnt hérlendis sem erlendis, deila orðið með mér! Við viljum á þessu Ári reglusamfélaga sérstaklega biðja fyrir því og það með tilstyrk heilags Jóhannesar Páls páfa II sem brátt verður tekinn í tölu heilagra. Krossinn sem minnir á hirðisheimsókn hans til Íslands og til Norðurlandanna stendur einmitt þegar á þessu landi! Á þessu ári verða tuttugu og fimm ár liðin frá heimsókninni!"

  Heimild: http://www.catholica.is/

  05.04.14

    02:36:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 47 orð  
  Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Ýmis skáld, Kaþólskir Íslendingar

  Mikil stoð og stytta kirkjustarfs kaþólskra, Torfi Ólafsson, látinn, nær hálfníræður, og honum sungin sálumessa

  Útför Torfa Ólafssonar, fyrrum formanns Félags kaþólskra leikmanna, var gerð í gær með sálumessu í Kristskirkju konungs í Landakoti að viðstöddu fjölmenni. Hans verður minnzt hér nánar síðar.

  Sjá á meðan um hann: 1) pistil hér: Torfi Ólafsson, sálmahöfundur og velgjörðarmaður kaþólskrar kirkju,

  2) Æviágrip og minningargreinar í Morgunblaðinu 4. apríl 2014.

  26.03.14

    19:35:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 138 orð  
  Flokkur: Lífsvernd

  Líkamsleifar fóstra hituðu upp breska spítala

  Rannsókn hefur leitt í ljós að líkamsleifar deyddra og látinna fóstra voru ásamt öðru notaðar til að hita upp breska spítala [1]. Breska heilbrigðisráðuneytið er búið að banna athæfið. Bill Donahue formaður Catholic League spyr bandaríska þingmanninn Nancy Pelosi af þessu tilefni hvort hún kjósi frekar að láta grafa fóstrin [2] en Pelosi, sem er þekktur stuðningsmaður hins svokallaða frjálsa vals (pro choice), mun veita Margaret Sanger verðlaununum viðtöku á morgun [3]. Ef hún kýs þann kost spyr Donahue hvort ekki sé rökrétt að gefið sé út fæðingarvottorð, (dánarvottorð sé aðeins gefið út í þeim tilfellum þegar manneskja deyr en ágreiningur er um hvort líkamsleifarnar séu leifar manneskju eða sé aðeins lífrænn massi/frumukökkur). Ef hún kjósi ekki þá leið þá spyr Donahue hvort Pelosi muni hafa eitthvað á móti því að skrifstofa hennar verði hituð upp með líkamsleifum.

  [1] http://www.washingtontimes.com/news/2014/mar/24/aborted-miscarried-babies-burned-heat-uk-hospitals/
  [2] http://www.catholicleague.org/disposing-aborted-babies/
  [3] http://www.catholicleague.org/pelosis-duplicity/

  10.03.14

    11:49:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 162 orð  
  Flokkur: Bænamál, Miðaldafræði íslenzk, Ýmis skáld, Guð-fræði (bæði kristin og heimspekileg), Klaustur

  Úr Lilju eftir Eystein munk (d. 1361)

   

  María, vertu mér í hjarta,

  mildin sjálf, því að gjarnan vilda' eg,

  blessuð, þér, ef mætta' eg meira,

  margfaldastan lofsöng gjalda;

  lofleg orð í ljóðagjörðum

  listilegri móður Christi

  öngum tjáir að auka lengra:

  Einn er drottinn Maríu hreinni.

   

  Rödd engilsins kvenmann kvaddi,

  kvadda af engli drottinn gladdi,

  gladdist mær, þá er föðurinn fæddi,

  fæddan sveininn reifum klæddi,

  klæddan með sér löngum leiddi,

  leiddr af móður faðminn breiddi,

  breiddr á krossinn gumna græddi,

  græddi hann oss, er helstríð mæddi.

   

  Þó grét hún nú sárra súta

  sverði nist í bringu og herðar,

  sitt einbernið, sjálfan drottin,

  sá hún hanganda' á nöglum stangast,

  armar svíddu af brýndum broddum,

  brjóst var mætt. Með þessum hætti

  særðist bæði sonur og móðir

  sannheilög fyrir græðing manna.

   

  Fyrir Maríu faðm inn dýra,

  fyrir Máríu grát inn sára

  lát mig þinnar lausnar njóta,

  lifandi guð með föður og anda.

  Ævinlega með lyktum lófum

  lof ræðandi á kné sín bæði

  skepnan öll er skyld að falla,

  skapari minn, fyrir ásján þinni.

        

  01.02.14

  Við þurfum nýjan Frans van Hooff fyrir sveltandi Sýrlendinga

  ,,Það verður auðveldara að svífa til himna ef vasarnir eru ekki fullir af gulli" (séra Frans van Hooff – dæmi um alvörugefna fyndni hans!).

  Einn var sá kaþólskur prestur hér á landi, hógvær og af hjarta lítillátur, sem nánast ekkert bar á nema fyrir tilviljun nánast þegar hann var að berjast fyrir hugsjón sinni, en sá var Frans van Hooff, þjónandi prestur á Akureyri og síðar í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði (d. 4. maí 1995 í Jerúsalem, 77 ára). Hann vann það kraftaverk að senda marga stærðarinnar gáma fulla af fötum og skóm (en einnig eldhúsáhöldum, reiðhjólum, verkfærum og ritvélum, m.a.) til þurfandi fólks í Póllandi, Afríku og Rússlandi. Sjá um fatasöfnun hans t.d. tilkynningu hans í Velvakanda 20. sept. 1988 hér, og HÉR! er afar falleg grein um hann eftir Karmelsystur á prestsvígsluafmæli hans 25.7. 1992. Stutt æviágrip hans er hér, og þetta eru minningarorð um hann eftir Jón Ágústsson og önnur og ennþá fróðlegri minningargrein í Mbl. 29. júlí 1995, hún er eftir Ragnar Geir Brynjólfsson á Selfossi, ritstjóra þessa Kirkjunets, og loks er hér falleg hugleiðing eftir sr. Frans á Kirkjunetinu: María og Eva.

  Greinilega vann séra Frans í sama anda og núverandi páfi, Franz I, og báðir líkja þeir með sínum hætti eftir andanum í lífsverki heilags Franz frá Assisi.

  Væri nú ekki full þörf á því, að kaþólska kirkjan á Íslandi beitti sér sérstaklega fyrir matarsöfnun vegna hins hræðilega ástands í Sýrlandi, þar sem konur jafnvel selja sig til að fá handfylli af hrísgrjónum til að börn þeirra verði ekki hungurmorða? Um það fjallar þessi hörmulega AFP-frétt á Mbl.is fyrir þremur dögum: Hungrað fólk selur sig fyrir bolla af grjónum.

  28.01.14

    23:23:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 194 orð  
  Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar, Ora et opera – Biðjandi og iðjandi kirkja

  Prestafundur og messa í dómkirkju Krists konungs

  Hún var falleg athöfnin þennan nýliðna þriðjudag, þegar 16 kaþólskir prestar á Íslandi með biskupinn þann sautjánda héldu hátíðlega messu í basilikunni, eins og Kristskirkja er einnig kölluð, eftir að Jóhannes Páll II páfi útnefndi hana sem slíka í heimsókn sinni hingað, og er það virðingarnafn meiri háttar kirkna. Kirkjugestir, aðrir en prestarnir, voru a.m.k. 45, mikill meirihluti leikmenn, en einnig allmargar reglusystur. 

  Þetta var falleg athöfn, með biskupinn okkar góða sem aðal-celebrant (þ.e. þann sem leiðir altaris- og helgiþjónustuna), en séra Edward Booth, enski presturinn í Stykkishólmi, predikaði og sagði m.a. frá heil. Tómasi af Aquino. Predikun hans mun verða aðgengileg í íslenzkri þýðingu von bráðar.

  En messan var í tengslum við reglulegan synodus (prestafund) kaþólska biskupsdæmisins, sem fram hefur farið þessa daga.

  Næsta sunnudag er kyndilmessa, ein af hinum aldagömlu Maríumessum ársins. Allir fá kerti í hönd við komuna í kirkju, og það er falleg stund í samfélagi trúaðra þegar ljósin eru tendruð. Einnig er fólk hvatt til þess að taka með sér kerti til að fá þau blessuð, til notkunar heima, og eins lét sóknarpresturinn séra Patrick vita af því við messu sl. sunnudag, að kirkjan þiggi kertagjafir frá fólki til notkunar í þjónustunni.

  19.01.14

    12:21:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 34 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Safnað fyrir kirkju á Selfossi

  Greint er frá því í síðasta tölublaði Kaþólska kirkjublaðsins [1], að búið sé að opna söfnunarreikning vegna fyrirhugaðrar kirkjubygginar á Selfossi. Reikningurinn er hjá Íslandsbanka og er númer 513-14-350024. Kennitala viðtakanda er 680169-4629.

  [1] Kaþólska kirkjublaðið nr. 1-2, 2014 bls. 4-5

  04.01.14

    08:51:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 93 orð  
  Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Friðarganga kristinna og múslima gegn öfgum í borgum Pakistan

  AsiaNews 1.jan: Fjöldi manna tók þátt í friðargöngu sem fram fór í nokkrum borgum Pakistan nýlega. Tilefnið var að mótmæla ofbeldi öfgamanna og styrkja einingu trúarhópa en ofbeldi í garð minnihlutahópa hefur farið vaxandi þar í landi. Í september var sjálfsmorðsárás gerð á kirkju í Peshawar þar sem yfir hundrað manns féllu og um 130 særðust.

  Meðal göngumanna í friðargöngunni voru leiðtogar kristinna manna og múslima. Fyrrum kristni þingmaðurinn George Clement skoraði á stjórnvöld að koma lögum yfir þá sem boða öfgar í orði eða verki í nafni trúar eða hugmyndafræði.
  Sjá nánar hér.

  28.12.13

    21:31:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 122 orð  
  Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Kenning kaþólskrar kirkju, Unborn children – abortion

  Móðir Teresa lýkur upp munni sínum fyrir hina ófæddu*

  Með því að taka við hverju barni meðtökum við Jesúm sjálfan (sjá Mt. 18.5,** sbr. Mt. 25.40) – og höfnum honum með því að hafna barninu, einnig hinu ófædda barni. "So every abortion is a denial of receiving Jesus, segir Móðir Teresa.

  Hér er myndband með Móður Teresu árið 1984 sem vert er að hlusta á. Það er mjög mikið efni á þessu litla myndbandi. Fósturdeyðing leysir engin vandamál, býður aðeins fleiri fósturdeyðingum heim (sjá myndbandið um rök þessa o.m.fl.). Þvert gegn þessu eigum við að sýna kærleika – að gefa af okkur, alveg þangað til það er farið að meiða okkur sjálf.

  * Sbr. Orðskv. 31.8: "Ljúk þú upp munni þínum fyrir hinn mállausa."

  ** "Hver sem tekur á móti einu slíku barni í mínu nafni, tekur á móti mér."

  11.12.13

    06:50:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 90 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Biskup þarf að ná sáttum við meinta þolendur

  Kaþólski biskupinn Herra Pétur Burcher þarf að ná sáttum við meinta þolendur kynferðisofbeldis af hálfu starfsfólks kirkjunnar. Ljóst er að sanngirnisbæturnar sem boðnar voru eru ekki háar og myndu þó þegnar væru líklega ekki nægja fyrir viðeigandi sálfræðimeðferð sem gæti bætt líðan fólksins, en kostnaður við viðeigandi meðferð þangað til fólkið býr við varanlegri betri líðan er að líkindum lágmarksboð. Í framhaldi af því þyrfti síðan að ræða bætur fyrir miska sem fólkið hefur orðið fyrir.

  Til að fjármagna þetta gæti kirkjan hugsanlega selt húseignir Landakotsskóla eða aðrar fasteignir sínar.

  14.11.13

  Skálholtsferð 16. nóvember vegna 463. ártíðar Jóns biskups og sona hans

  Hér skal enn minnt á pílagrímsferð til Skálholts nk. laugardag 16. nóvember á vegum Félags kaþólskra leikmanna. Farið verður 16. nóv. kl. 9.oo frá Landakoti. Ekið að Úlfljótsvatni og messað þar, síðan farið að Skálholti þar sem verður bænastund við minnisvarða herra Jóns Arasonar biskups. Komið verður við á Laugarvatni á heimleiðinni. Heimkoma er áætluð milli kl. 16.oo og 17.oo. Þátttaka tilkynnist í síma 552-5388.

  Verðið er 2500 kr. fyrir manninn, en 500 kr. fyrir börn upp að 16 ára aldri. Þetta er eingöngu fyrir rútuna.

  Heimild: vefsíða Facebókarhópsins Kaþólskir á Íslandi.

  02.11.13

    15:52:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 188 orð  
  Flokkur: Fasta og yfirbót, Altarissakramentið, Kenning kirkjunnar

  Allra sálna messa - eigum við að biðja fyrir framliðnum?

  „Biblían kennir að það sé rétt og hjálpsamlegt að biðja fyrir þeim sem dánir eru. Sálir þeirra sem deyja í náð Guðs en eiga eftir að hreinsast af syndum sínum dvelja um hríð í hreinsunareldi.

  1032. Þessi kenning er einnig byggð á þeirri iðju að biðja fyrir hinum látnu sem þegar er minnst á í Heilagri Ritningu: “Þess vegna lét [Júdas Makkabea] færa sáttarfórn fyrir hina látnu til að þeir leystust frá syndum sínum.” Frá fyrstu tímum hefur kirkjan heiðrað minningu hinna látnu og borið fram fyrirbænir fyrir þá, umfram allt í fórn evkaristíunnar, til að þannig hreinsaðir öðlist þeir hina sælu sýn á Guði. Kirkjan mælir einnig með ölmusugjöfum, afláti, og yfirbótarverkum til bóta fyrir hina látnu: Við skulum hjálpa og minnast þeirra. Ef synir Jobs voru hreinsaðir vegna brennifórnar föður þeirra, hvers vegna ættum við þá að efa að fórnfæring okkar fyrir hinum látnu færi þeim ekki neina huggun? Við skulum ekki hika við að hjálpa þeim sem hafa dáið og bera fram bænir okkar fyrir þá.“

  Samantekt úr Kaþólska kirkjublaðinu 18. árg. 11. tbl. bls. 2 og 16. Málsgreinin merkt 1032 er grein úr Trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar.

  Sjá einnig þennan pistil.

  30.10.13

  Af refsingum fyrr og síðar

  11282531 1589495121310922 376275531 o

  Miðaldir eiga meiri' en flestir hyggja

  málsbót og rómversk kirkjan af þar ber. [Frh. neðar]

  Refsingum hélt við aga*: Enginn hér

  aftöku sætti, fljóð sem kaus að liggja.

  Eins þótt menn spilltu annars konu, tryggja

  áttu þau Guðslög hverjum það, sem ber

  framast að hlýða': á frelsarans orðum byggja:

  "Far þú, án dóms, en brjót ei meira' af þér!"**

   

  Svo gekk það til á Íslands Rómar-öldum:

  engum var drekkt né höggvinn legorðssekur.

  Lútherskra beið það grimmra guðfræðinga***

  grálynda**** "speki" að sýna opnum tjöldum:

  Drekkingarhyl–––og víst á taugar tekur

  trúrof***** að þylja' upp slíkra vesalinga!

  28–30x13

  * Sbr. skriftaboð Þorláks biskups helga (pr. í Ísl. fornbréfasafni I, 240 o.áfr.). Vitnað hefur höf. þessarar veffærslu til þeirra hér (sjá nmgr. [2]).

  ** Sjá Jóhannesarguðspjall, 8.10–11, viðræðu Jesú við hórseku konuna (framhjáhaldskonuna) sem fræðimennirnir og Farísearnir vildu láta grýta (en áður hafði hann sagt við þá: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana"): "Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig? En hún sagði: Enginn, herra. Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."

  *** Þ.e.a.s. lútherskra guðfræðinga við Hafnarháskóla, sem höfðu áhrif mikil á refsilöggjöfina í Danmörku og hér á landi og íhaldssamir þar ótrúlega lengi. Sjá doktorsritgerð Más Jónssonar sagnfræðings, Blóðskömm á Íslandi 1270–1870, Rv. 1993. Ennfremur hafði Guðbrandur biskup, margfaldur forfaðir okkar flestra, sýnt mikla hörku í þessum málum á 16. öld, lagzt eindregið með því að afnema kirkjufrið (og var það gert 1587). "Hann hafði tileinkað sér hugmyndir áköfustu guðfræðinga í Norður-Evrópu um að allt sem Guð bannaði [þ.e. í legorðsmálum, innskot JVJ] væri dauðasök ..." (rit Más, s. 122), og notkun hans á 18. kafla 3. Mósebókar  var "gáleysisleg, því að þar er ekki orð um aftökur" (ibid.). "Líflát blóðskammara [þeirra sem framið höfðu frændsemisspell, óleyfileg kynmök náinna skyldmenna] var Guðbrandi réttlætismál og hann barðist gegn viðleitni veraldlegra ráðamanna til að gefa þeim líf. Má vera að hann hafi orðið fyrir áhrifum frá lærimeisturum sínum í Kaupmannahöfn, en þar var hann við nám um það bil sem verið var að setja dauðarefsingu fyrir blóðskömm í íslensk lög, meðal annars fyrir tilstilli Níelsar Hemmingsen og annarra guðfræðinga. Skoðun sinni hélt hann til æviloka [1627] ..." (rit Más, s. 118-19). Ennfremur áttu veraldlegir ráðamenn Íslendinga langtum virkari hlut að þessu máli – og setningu Stóradóms – heldur en ýmsir þjóðernissinnaðir 20. aldar fræðimenn okkar höfðu viljað vera láta (sjá sama rit Más, bls. 100 o.áfr., einkum bls. 102–107).

  **** "Grálynda" kalla ég þessi dauðaspeki þeirra og vil þar berlega minna á orð skáldsins mikla, Goethe: "Grau, teurer Freund, ist alle Theorie // Und grün des Lebens goldner Baum." – Já, var það ekki svo, að "allt hafði annan róm // áður í páfadóm: // kærleikur manna milli, // margt gekk þá vel með snilli," eins og Bjarni Jónsson Borgfirðingaskáld (1546–1626) kvað, og lífstré miðaldakirkjunnar grænna og gjöfulla en síðar varð?

  ***** Trúrof kallar höfundur (JVJ) það hér, að kristnir menn þverbrytu gegn orðum Jesú í Jóh. 8.11 og kölluðu smánarlegan dauðdaga yfir allt að eitt hundrað Íslendinga á tímum Stóradóms (1564–1838). Sjá um þau mál m.a. nefnt rit dr. Más; ritgerð Davíðs Björgvinssonar: 'Stóridómur', í Lúther og íslenskt þjóðlíf, Rvík, Hið íslenska Lúthersfélag, 1989, og bækur Páls Sigurðssonar lagaprófessors.

  Viðauki 10.1. 2019: Sjá einnig rit Más Jónssonar: Dulsmál 1600-1900. Fjórtán dómar og skrá. Reykjavík 2000, og grein hans á Vísindavefnum 2016: Hversu mörgum konum var drekkt í Drekkingarhyl og fyrir hvað?

   

  26.10.13

    04:19:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 533 orð  
  Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Kristindómur og menning, Kaþólskir Íslendingar, Jón Arason biskup

  Doktorsrit um Jón biskup Arason

  Frétt í dagblaðinu Vísi 27. október 1919:

  Tveir doktorar.

  Cand. jur. Páll Eggert Ólason vinnur doktorsnafnbót.

  Svo fór með það, sem vænta mátti, að mikið fjölmenni kom í alþingishúsið 24. þ.m., til að hlýða á athafnir þær, sem þar fóru fram.

  Meðal áheyrenda voru ráðherrar allir, háskólakennarar og kennarar mentaskólans, og fjöldi annara karla og kvenna.

  Athöfnin hófst kl. 1 e. h., og var tvískift: — Fyrst var prófessor Jón J. Aðils gerður að heiðursdoktor í heimspeki, en þá var gert stutt hlé, og að því loknu hófst doktorspróf Páls Eggerts Ólasonar. (Framhald ...)

  Háskólarektor S. P. Sívertsen stýrði fyrri hluta athafnarinnar, en prófessor Sigurður Nordal talaði af hálfu heimspekisdeildarinnar og lýsti yfir því, að deildin hefði kjörið prófessor Jón J. Aðils heiðursdoktor í heimspeki. Fór hann mörgum orðum og lofsamlegum um vísindalega starfsemi hans, en einkanlega hina miklu sögu hans, sem nú er nýútkomin, um einokunarverslunina á Íslandi.

  Þegar hann lauk máli sínu, afhenti háskólarektor heiðursdoktornum doktorsbréf hans, en prófessor J. J. Aðils þakkaði með fám orðum, kvað sér þessa sæmd kærkomnari en nokkra aðra, fyrir störf sín.

  Nú varð á stutt hlé, en þegar til var tekið á ný, sat prófessor Guðm. Finnbogason í forsetasæti, í forföllum Sig. Nordals, sem var annar andmælandi doktorsefnsins.

  Doktorsprófi þessu var hagað eins og títt er um slík próf í Danmörku.

  Doktorsefnið stóð í upphækkuðum ræðustól, sem settur var innan við suðurdyr neðrideildar-salsins, gegnt forsetastólnum, en andmælendur hans sátu sinn til hvorrar handar forseta, þar sem skrifarar neðri deildar (úr þingmannaflokki) eiga sæti.

  Heimspekideildin hafði skipað tvo andmælendur af sinni hálfu, en auk þess máttu menn tala úr áheyrendaflokki, ef um það höfðu beðið áður.

  Doktorsefnið, Páll E. Ólason tók fyrstur til máls og skýrði stuttlega frá efni rits síns og markmiði þess.

  Þá tók til máls aðalmótmælandi prófessor Jón J. Aðils og talaði góða klukkustund, hátt og skörulega, eins og honum er lagið. Hann lauk lofsorði á bókina í heild sinni og höfund hennar, en sagði síðan, hvað sér þætti helst mega að henni finna.

  Þótti honum sumstaðar mega betur fara í niðurröðun efnis, sumir kaflar — einkum þó einn — óþarflega nákvæmir. Þá mintist hann og á nokkra vafasama staði og atriði, sem hann vildi skýra á annan veg en doktorsefnið hafði gert. Flest af því var þó smávægilegt.

  Doktorsefnið svaraði flestu mjög stuttlega, en gerði góða grein fyrir sínum málstað. Greip prófessorinn iðulega framí, og var svo að sjá og heyra, sem áheyrendur skemtu sér best við þann hluta þessarar athafnar.

  Þegar Páll Eggert lauk máli sínu, varð enn 10 mínútna hlé.

  Þar næst tók til máls, úr áheyrendaflokki, docent Magnús Jónsson, kennari í íslenskri kirkjusögu. Hann lauk lofsorði á doktorsritgerðina, en var höfundinum þó ósamþykkur um sumt.

  Doktorsefnið svaraði þeirri ræðu með fám orðum, sem hinni fyrri.

  Þá talaði síðari andmælandi heimspekideildarinnar, prófessor Sig. Nordal, og fór mjög vinsamlegum orðum um doktorsritgerðina og höfund hennar, og gerði í sumu fremur að verja hann en sækja.

  Ekkert hafði doktorsefnið við ræðu hans að athuga, og var þá athöfninni slitið, eftir hér um bil 3½ kl.stund.

  Áheyrendur flyktust út, en d o k t o r Páll Eggert Ólason gekk með prófessorum heimspekideildarinnar inn í kennarastofu þeirra og tók þar við doktorsbréfi sínu.

  Hér er stafsetningu og greinarmerkjum haldið eins og í fréttinni.

  13.10.13

  Pílagrímsferð til Skálholts

  Ákveðin hefur verið minningarstund um píslarvotta trúarinnar, Jón biskup Arason og syni hans Ara og Björn, sem hálshöggnir voru við Skálholtskirkju 7. nóvember 1550. Athöfnin er í fullri samvinnu við vígslubiskupinn í Skálholti, herra Kristján Val Ingólfsson. Eru menn hvattir til að mæta, en rúta verður útveguð til ferðarinnar, og verður nánar sagt frá þessu hér bráðlega.

  Eftir hámessu í dag hélt Gunnar Eyjólfsson fallegt ávarp í safnaðarheimilinu, þar sem hann minntist þeirra feðga eftirminnilega og sagði frá einni slíkri pílagrímsferð að þeim helgistað, þar sem blóði þeirra var úthellt af þjónum konungsins danska. Gunnar hefur lengi verið hvatamaður þess, að kaþólska kirkjan taki biskup Jón í tölu heilagra. Og svo sannarlega eru full rök til þess.

  01.09.13

  Vanmetum ekki gildi skrifta í trúnaði, jafnvel fyrir glæpamenn og fórnarlömb þeirra

  Ef einstaklingur, sem vill skrifta, veit, að prestur hefur ekki þagnarskyldu gagnvart efni skriftanna, þá einfaldlega opnar sá einstaklingur sig ekki í skriftastóli um mál sem varða við lög. Þar með fer hinn sami einstaklingur á mis við þá leiðréttingu og hvatningu prestsins, sem hefði getað siðbætt viðkomandi og jafnvel örvað hann til að upplýsa lögreglu um brotið.

  Presturinn er þarna ennfremur í Krists stað. Skriftabarnið er að tala til Guðs í skriftastólnum. Presturinn er bundinn þagnareiði, en fær frá kirkjunni mikla hvatningu til að leiða slíka einstaklinga til fullrar iðrunar og þar með talið að bæta fyrir brot sín (þannig hefur það alltaf verið) og einnig að fara fyrir lögreglu með mál sín, af því að það sé samfélagsskylda (t.d. manns sem framið hefur morð – og allt eins barnaníðings).

  Ef þagnarskylda skrifta væri afnumin, myndi glatast gott tækifæri til betrunar.

  24.07.13

    16:51:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 210 orð  
  Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kristindómur og menning

  Vígsludagur Kristskirkju á Landakotshæð haldinn hátíðlegur

  Úr Dögum Íslands, fróðlegu riti eftir Jónas Ragnarsson:

  22. júlí 1929

  Landakotskirkja í Reykjavík var vígð með mikilli viðhöfn, en það gerði Vilhjálmur van Rossum kardínáli og sérlegur sendimaður Píusar páfa. Kardínálinn og fylgdarlið hans gekk tvívegis kringum kirkjuna rangsælis og einu sinni sólarsinnis. Þá voru 55 manns í kaþólska söfnuðinum, nú eru þeir um ellefu þúsund.

  Næstkomandi sunnudag, 28. júlí, verður haldið upp á 84 ára vígsluafmæli dómkirkju kaþólskra á Íslandi, Kristskirkju á Landakotshæð. Prestar og söfnuður vænta þess, að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í hátíðarmessunni kl. 10.30 að morgni. 

  Greinilega var hugsað til framtíðar við byggingu þessa reisulega Guðshúss á þriðja áratug 20. aldar. Fögur er Landakotskirkja utan sem innan og sómi safnaðarins. Sjálf byggingin mun hafa veitt mörgum vinnu á erfiðum tímum. Ennþá annar hún messusókn stórs hluta kaþólskra á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. í fjölsóttum pólskum messum kl. 13 á sunnudögum og enskum messum kl. 18, auk messu hvern virkan dag, en auk Kristskirkju eru fleiri kaþólskar kirkjur og kapellur á Suðvesturlandi (stærstar þeirra Maríukirkjan í Seljahverfi og St. Jósefskirkja í Hafnarfirði) og á ýmsum helztu stöðum úti á landi, s.s. í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri og Reyðarfirði.

  Við komu hins blessaða Jóhannesar Páls II páfa hingað til lands í júlí 1989 var Kristskirkju veittur heiður og staða basiliku, sem yfirleitt tíðkast aðeins að veita höfuðkirkjum.

  08.07.13

    11:55:00 pm, by Jon Valur Jensson   , 316 words  
  Categories: Sr. Patrick Breen

  Jóhannes biskup Gijsen látinn

  Úr predikun sr. Patricks Breen frá sunnudeginum 30. júní:

  Í dag minnumst við fyrrum Reykjavíkurbiskups, Jóhannesar Gijsen. Hann lést síðastliðinn mánudag, 24. júní, sem var einnig nafndagur hans, þar sem hann bar nafn Jóhannesar skírara. Eftir að hafa gegnt embætti biskups í Roermond-biskupsdæmi í suðurhluta Hollands árin 1972 til 1993, var hann sendur hingað 1995 og var biskup hér til október 2007.

  „Af ávöxtum þeirra skulið þér þekkja þá,“ sagði Jesús. Maður gæti spurt: Hvaða ávöxt hefur embættistíð Jóhannesar biskups borið? Án mikillar umhugsunar mætti nefna nokkrar kapellur, t.d. nýja kapellu á Ísafirði sem var blessuð 4. júlí 1999 og nýja kirkju á Akureyri, Péturskirkju, sem var blessuð 3. júní árið 2000. Loks má nefna nýja kapellu á Reyðarfirði sem var vígð 28. júlí 2007 og Dómkirkjan okkar var endurnýjuð árið 1999.

  Þegar Jóhannes biskup kom hingað voru kaþólskir hérlendis 2400 að tölu, en árið 2007 voru þeir líklega um 10.000.

  Til að mæta þörfum þessa aukna fjölda kaþólskra auðnaðist Jóhannesi biskupi að fá hingað bæði presta og systur. Í hans tíð komu hingað Kapúsínamunkar en einnig systur Móður Teresu, Karmelsystur á Akureyri, Margrétarsystur sem voru hér, Maríusystur sem byrjuðu í Hafnarfirði en eru nú einnig í Stykkishólmi. Einnig komu hingað prestar af reglu hins holdgaða orðs og síðast en ekki síst pólskir prestar sem tilheyra prestareglu Societas Christi.

  Við þökkum Guði fyrir verk Jóhannesar biskups. Þegar hann var að ljúka störfum sínum hér tók séra Denis viðtal við hann sem birtist í Kirkjublaðinu í október 2007. Hann var spurður: Hverju ert þú stoltastur yfir þegar þú lítur yfir tólf ára embættistíma þinn sem Reykjavíkurbiskup?

  Hann svaraði: „ Ég held að málið snúist ekki um stolt. En hins vegar hefur sú eining, sem ég hef fundið fyrir hér allt frá byrjun, fyllt mig mikilli gleði. Þá á ég við einingu prestanna, einingu systranna, einingu leikmanna. Eining í trúnni og eining í þránni eftir að byggja upp kirkjuna hér á landi. Ég held að hún sé alltaf mjög mikilvæg," sagði biskupinn m.a. í þessu viðtali.

  16.06.13

    19:08:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 139 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Sumarmót "Mariapoli" Focolare samtakanna 20.-23. júní

  Sumarmót Focolare samtakanna verður laldið í Reykjaskóla í Hrútafirði dagana 20.-23. júní næstkomandi. Mótið hefst 20. júní kl. 16:00 og stendur til 23. júní til kl. 13:00

  Verð fyrir fullorðna er kr. 18.000, fyrir börn til 11 ára kr. 9000. Nánari upplýsingar veita Wilma van Bussel s. 860 0271, Christina Attersperger s. 897 7325, Sebastian og Zosia Kaminscy s. 659 4415.

  Fokolare er hreyfing sem hefur að markmiði að stuðla að einingu og bróðerni á öllum sviðum lífsins; í persónulegum samböndum, innan fjölskyldunnar, í skóla og á vinnustöðum, innan kirkjunnar og í samfélaginu í heild.

  Stofnun Fokolare hreyfingarinnar má rekja til ársins 1943 þegar Chiara Lubich og vinkonur hennar í borginni Trent á Norður-Ítalíu uppgötvuðu Nýja testamentið sem lesefni til að lifa eftir. Þær tóku þá róttæku ákvörðun um að lifa eftir orðum Bíblíunnar í öllum kringumstæðum lífsins. Þær störfuðu eftir einkunnarorðunum:

  “Faðir, verði þeir allir eitt” (Jh, 17, 21)

  Tekið af heimasíðu Focolare samtakanna: www.fokolare.is

  09.06.13

    16:43:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 136 orð  
  Flokkur: Altarissakramentið

  Pílagrímsferð til Maríulindar 10. júlí

  Miðvikudaginn 10. júlí 2013 verður á ný farin pílagrímsferð til Maríulindar á Snæfellsnesi. Ferðin í ár verður með sama sniði og áður. Lagt verður af stað frá Landakoti, við Dómkirkju Krists konungs kl. 9 árdegis, komið við á planinu við Maríukirkju og fyllt á rútur og bíla og síðan lagt á Snæfellsnes með viðkomu í Borgarnesi. Á leiðinni njótum við útsýnisins og samverunnar í bæn. Þeir sem ætla með í ár eru beðnir um að skrá sig á eyðublöð sem munu liggja frammi í sóknarkirkjunum eða hafa samband við skrifstofuna á Hávallagötu 14-16 í Reykjavík í síma 552-5388 eða með tölvupósti á netfangið bokhald@catholica.is.

  Ferðin kostar 5000 krónur fyrir fullorðna og 1500 kr. fyrir börn. Innifalinn í verðinu er hádegisverður. Frásögn af ferðinni sem farin var í fyrra ásamt myndum er að finna á þessum tengli: [Tengill]

  Heimild: Kaþólska kirkjublaðið nr. 5-7, 2013 bls. 20 (baksíða).

  08.05.13

  Ný Messubók kirkjunnar

  Það var fögur og hrífandi stund í dómkirkju Krists konungs í gær, þegar í helgigöngu presta og leikmanna var borin inn ný Messubók kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, raunar sú eina í fullkominni mynd, og lögð á altarið. Biskup okkar, Pétur Bürcher, stýrði athöfninni og sjálfur forseti Íslands viðstaddur, einnig megnið af prestum biskupsdæmisins, enda eru þeir með synodus þessa dagana. Biskupinn, séra Jakob Rolland og séra Patrick Breen fluttu ávörp, og fagurlega spilaði kaþólsk nunna á fiðlu – og systurnar sungu fagra hymna, síðast Regina Coeli (Himnadrottningin) sem margir tóku undir.

  Meðal þess, sem séra Jakob vék að í ávarpi sínu, var hin gleðilega fjölgun kaþólskra hér á landi, en tala þeirra hefur ... [frh. neðar]

  þrefaldazt á síðustu 10 árum. Þá eru skírnir tíu sinnum fleiri en útfarir, og er það einnig órækt merki um, hve vel kirkjunni vegnar.

  Eftir athöfnina í dómkirkjunni var öllum, m.a. viðstöddum leikmönnum, boðið í aðra athöfn í safnaðarheimilinu. Þar var Messubókin kynnt frekar. Af henni eru aðeins prentuð 53 eintök, með afar fallegu sniði, eins og rómverska messubókin, sem kom út 1969 eftir Vatíkanþingið, og mestallt verkið handgert, bókbandið t.d. handsaumað, og unnið í Odda. Prentarar og aðrir starfsmenn þar voru viðstaddir athöfnina.

  Biskupinn hélt þar ávarp, bauð alla velkomna og gerði stutta grein fyrir verkinu, m.a. að páfinn okkar nýi, Franz I, fær eitt eintak af bókinni miklu, í hvítu skinnbandi, en annars eru eintökin í rauðu bandi. Biskupinn færði forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrsta eintakið að gjöf, til varðveizlu að Bessastöðum.

  Herra Ólafur Ragnar flutti ræðu bæði á ensku og íslenzku, þakkaði heiðurinn og fór yfir ýmislegt menningarsögulegt efni, m.a. hvernig í ljós hefur komið með fornleifauppgreftri, að kirkja hefur verið á Bessastöðum frá því um 1100 e.Kr., m.ö.o. kaþólsk kirkja verið þar í meira en fjórar aldir. Forsetinn sló einnig á létta strengi, og voru allir glaðir yfir líflegri ræðu hans.

  Síðan tók við kanzlari biskupsdæmisins, Jakob Rolland, sem hélt fræðandi ræðu um Messubókina og alla forvinnu hennar og forsögu. Það var árið 1959 sem ágrip af þáverandi messubók kaþólsku kirkjunnar, Missale Romanum, var gefið út á latínu og íslenzku, í fjórum heftum. En svo neyðarlega vildi til fyrir aðstandendur þess verks, að árið eftir var ákveðið af páfanum og á 2. Vatíkanþinginu, að gefin yrði út ný messubók (endanlega 1969), og þar með voru þessi hefti eiginlega gengin úr gildi, og er upplagið af þeim að mestu geymt í bókasafninu í Landakoti. Sr. Jakob rakti síðan stuttlega framhald þessara mála, en fáein hefti hafa komið út með messutextum, einkum stórhátíða, en mest verið notazt við ljósrituð blöð. Er nú mjög skipt um í þeim efnum. En hann vék einnig á athyglisverðan hátt að þeirri staðreynd, að messubækur voru mjög fyrirferðarmiklar meðal handrita hér á miðöldum; þar eru það ekki Íslendingasögur og verk manna eins og Snorra Sturlusonar, sem flest handritin eru af, heldur messu- og helgisiðabækur, sem eru jafnvel 90% alls skinnbókaefnis frá miðöldum.

  Færðar voru þakkir öllum þeim, sem að þessu verki hinnar nýju Messubókar komu, á yfir 40 ára tímabili. Þar má fyrsta telja Jóhannes Gunnarsson biskup, séra Sæmund Vigfússon, séra Hákon Loftsson og Hinrik biskup Frehen, sem allir eru látnir, en einnig starfaði með þeim Torfi Ólafsson, lengi formaður Félags kaþólskra leikmanna, sem enn er meðal okkar og fekk sitt lófatak við athöfnina, ennfremur seinna séra Jürgen Jamin (nú í Þýzkalandi) sem vann að verkinu með þeim, sem mesta þungann bar af því á síðustu árum, latínumanninum Svavari Hrafni Svavarssyni, prófessor við heimspekideild HÍ, sem viðtal var við í fréttatíma Sjónvarpsins þetta kvöld og einnig var klappað fyrir í gær.

  Þar bauð biskup síðan til kaffisamsætis og góðra veitinga. Meðal áður ónefndra gesta voru vígslubiskupinn í Skálholti, Kristján Valur Ingólfsson, fyrrverandi biskup Karl Sigurbjörnsson, séra Tímur Zolotuskiy, prestur rússnesk-orþódoxu kirkjunnar á Íslandi, sr. Gunnþór Ingason, prestur í Hafnarfirði, og forstjóri Odda, Þorgeir Baldursson, með sínum starfsmönnum að verkinu.

  Það var merkileg upplifun að blaða svolítið í Messubókinni og sjá fagurt yfirbragð vel unnins textans, með læsilega stóru letri og fallegu. Það gladdi þann, sem þetta ritar, að taka eftir, að þar er nafn Jesú Krists beygt eins og frá upphafi hafði verið gert hér á landi, ekki með nýju einföldunarsniði.

  Hér er frétt Rúv af þessum atburðum: Messubók afhent.

  HÉR, á Mbl.is, er svo hægt að sjá heila myndasýningu úr kirkjunni og safnaðarheimilinu, mjög fínar myndir af prócessíunni og hluta kirkjugesta, myndir af biskupinum við altarið og af forsetanum og séra Jakobi. Á einni þeirra setur hann Messubókina opna ofan á höfuð sér, en þar var hann að lýsa því, hvernig kórdrengir í Frakklandi þurfu að bera sig að til að presturinn gæti lesið texta guðspjallsins upp af bókinni. Hægt er að smella á stillingu (neðan við hægra horn myndanna) til að fá sjálfkrafa myndasýningu.

  20.04.13

    12:20:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 420 orð  
  Flokkur: Hugleiðingar

  Orígen (um 185-253), prestur og guðfræðingur: Hugleiðing

  „Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra,  svo að Faðirinn vegsamist í Syninum.“

  Orígen (um 185-253), prestur og guðfræðingur.

  Ég tel að sá sem er í þann veginn að hefja bænina ætti að fara afsíðis og undirbúa sjálfan sig og þannig verða árvökulli og virkari í allri bæninni. Hann ætti að hrekja allar freistingar og truflandi hugsanir frá sér og minna sjálfan sig eftir fremsta kosti á þá Hátign sem hann nálgast og það sé óguðrækilegt að nálgast hann af hirðuleysi, seinlæti og virðingarleysi. Hann ætti að snúa baki við öllu hið ytra. 

  Origen, prestur og guðfræðingur
  Þannig ætti hann að hefja bænina: Að hefja sálina til hæða líkt og um hendur hans væri að ræða og beina huga sínum til Guðs í stað augnanna. Hann ætti að hefja skilning sinn frá jörðu og láta hann standa frammi fyrir Drottni í stað þess að standa þar sjálfur. Hann ætti að láta allar misgjörðir þeirra sem gert hafa á hlut hans vera fjarri, með sama hætti og hann vill að Guð víki frá honum allri vanþóknun hans í garð, ef hann hefur drýgt óréttlæti og syndgað gegn náungum sínum eða gert eitthvað með meðvituðum hætti sem stangast á við rétta dómgreind. 

  Þótt unnt sé að láta líkamann vera í mörgum stöðum, þá ætti hann ekki að draga í efa að sú staða að hefja hendurnar og augun til himins sé æskilegri en allar aðrar vegna þess að þannig verður líkaminn tákn um það sem er sálinni við hæfi sem sjá má á líkamanum. Ég á við að þessa stöðu ber að tileinka sér og þannig útiloka öll truflandi áhrif umhverfisins. Stundum er við hæfi að biðja sitjandi við ákveðnar aðstæður . . . eða jafnvel að leggjast niður . . . 

  Að krjúpa er nauðsynlegt þegar einhver ætlar að mæla gegn syndum sínum frammi fyrir Guði vegna þess að hann beygir sig til að öðlast græðslu og fyrirgefningu. Okkur verður að vera ljóst að þetta táknar þann sem hefur hrasað og er orðinn hlýðinn, eins og Páll segir: „Þess vegna beygi ég kné mín fyrir Föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu“ (Ef 3. 14-15). Þetta er kallað andleg knébeygja vegna þess að sérhver vera sem er til á að falla fram fyrir Guði þegar nafn Jesú er nefnt og auðmýkja sig fyrir honum. Postulinn virðist víkja að þessu þegar hann segir: „Til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði Föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn“ (Fl. 2. 10).

  (Bænir 31. 2-3 (Classics of Western Spirituality).

  27.03.13

    19:53:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 252 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Fasta og yfirbót, Fastan

  Föstudagurinn langi - samstöðudagur með þjáðum

  Til eru þeir sem líta á Föstudaginn langa sem leiðinlegan dag því þá sé litla þjónustu eða skemmtanir að fá og storka jafnvel helgidagalöggjöfinni en hún er sett til að tryggja sem flestum næði og kyrrð þennan dag. Það er löng hefð fyrir því í okkar menningu að leita kyrrðarinnar til að leggja stund á innri skoðun. Þetta er fyrir trúarleg áhrif kristninnar en margir þekkja sögurnar af Kristi sem fór út í eyðimörkina til að fasta.

  Á föstudaginn langa er þess minnst að þann dag þjáðist Kristur á krossinum og því er tíminn notaður til að rannsaka hugann og samviskuna, horfa inn á við og reyna að finna það sem aflaga hefur farið í eigin ranni. Flestir ættu að hafa gott af þannig innri skoðun hvort sem hún er gerð á trúarlegum forsendum eða ekki. Þennan dag ganga menn því á hólm við vanræksluverk, lesti, stórar eða litlar yfirsjónir eða jafnvel afbrot og einsetja sér að gera betur.

  Frá sjónarhóli bæði trúaðra og trúleysingja má einnig allt eins líta á Föstudaginn langa sem samstöðudag með þeim sem þjást eða sem hafa þjáðst og þeirra þarf ekki að leita langt. Þjáning og sorg er víða í okkar samfélagi en margir bera harm sinn í hljóði. Út um víða veröld eru svo næg athugunarefni. Það er gott og sjálfsagt að taka frá einn dag á ári til að rannsaka samviskuna og sýna þeim sem þjást samstöðu. Allt víðsýnt og góðviljað fólk ætti að geta tekið undir nauðsyn þess að huga að þeim málum.

  25.03.13

    07:33:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 5076 orð  
  Flokkur: Philumena

  Hið alhelga Altarissakramenti

  Þessi fyrirlestur var haldinn á vegum Starfs- og leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar fyrir ekki svo löngu síðan

  Kæru bræður og systur í Kristi,

  Við erum hér saman komin til að skiptast á skoðunum og  miðla hvort öðru af trúarsannfæringu okkar og þekkingu. Fyrir hönd Kaþólsku kirkjunnar var mér falin sú óvænta ábyrgð að fjalla um og rekja sögulega slóð og skilgreiningu hins alhelga Altarissakramenti í ljósi kenninga Krists, postulanna og erfikenninga kaþólsku kirkjunnar, sem eiga sér frumgrundvöll í skráðum kenningum kirkjufeðranna. Upphaflega var ráðgert að sr. Jakob Rolland annaðist þennan fyrirlestur, en vegna skyndilegra og alvarlegra veikinda hans var mér falið fyrir 2 dögum síðan að gerast staðgengill hans.

  Þrátt fyrir stuttan undirbúningstíma mun ég leitast við eftir bestu vitund að gera þessu undraverða og undursamlega máttarverki Guðs verðug skil. Ég segi máttarverki, því hið alhelga Altarissakramenti á sér vart sinn líka í heimi kraftaverka Guðs. Það sem hér um ræðir er í raun hið lifandi hjarta Jesú Krists, -raunveruleg viðvera Hans í kaþólskri kirkju, líkami Hans, blóð, sál og guðdómleiki, --yfirnáttúruleg opinberun í myndum gjörbreytts brauðs og víns. Altarissakramentið er megininntak kaþólskrar Messu. Í Messunni er Guði færð heilög fórn í öllum kaþólskum kirkjum. Sú fórn er sýnileg gjöf, sem við færum Guði til þess að vegsama Hann, Drottinn allra hluta. Fórnin, eins og hún er skilgreind af kaþólskum kennimönnum á grundvelli nýja testamentisins og erfikenningu kirkjunnar, er Kristur sjálfur, sem með fórnardauða sínum fórnaði sjálfum sér himneskum Föður sínum fyrir okkur. Heilög messufórn er þannig ein og sama krossfórnin, því að í bæði skiptin er það Kristur, sem fórnar og er fórnað. En aðferðin er ekki hin sama. Kristur dó í raun og veru á krossinum; en Hann deyr ekki í heilagri Messu, heldur endurfórnar hann þar, vor vegna, sínum himneska Föður krossdauða sínum á undursamlegan hátt. Fórnin sem Kristur færði  í árdaga kristni á Golgata á föstudeginum langa, var sjáanleg öllum og var "blóðug fórn," Kristur úthellti blóði sínu fyrir syndaaflausn okkar og menn sáu blóðið streyma úr naglaförum Hans og menn sáu krossfestinguna eiga sér stað.  Í kaþólskri messu hins vegar er fórn Krists ósýnileg og óblóðug þar sem hann er raunverulega viðstaddur í gjörbreyttu formi brauðs og víns.  Þetta alhelga Altarissakramenti, eins og það er skilgreint á grundvelli postulanna og kenninga þeirra í frumkirkjunni, var formlega stofnað á skírdag við síðustu kvöldmáltíðina er Kristur tók brauðið, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: "Þetta

  er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn; gjörið þetta í mína minningu" eða minnist dauða míns er þið gjörið þetta, þ.e.a.s. á þeirri stundu er gjörbreytingin á sér stað og hinir trúuðu meðtaka hold Hans og blóð í formi brauðs og víns. Og á sama hátt tók hann eftir kvöldmáltíðina bikarinn og mælti: "Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt."  (Lúkas 22:19-24)


      Eins og Biblían rennir stoðum undir trúðu menn því jafnvel, fyrir formlega stofnun hins alhelga Altarissakramentis, að Kristur gæti breytt brauði og víni í líkama sinn og blóð.  Ekkert var hinum trúuðu Kristi ómögulegt því hann var í þeirra hugum bæði Guð og maður.  Í  Jóhannesarbréfi kemur berlega í ljós að margir þeirra sem skildu orð Krists réttilega og bókstaflega höfnuðu boðskap Hans um að eta hold Hans og drekka blóð Hans á þeirri forsendu að slíkt teldist til mannæta svo jafnvel lærisveinar hans hneyksluðust, yfirgáfu hann og spurðu: "Þunger þessi ræða hver getur hlustað á hana?"  Í Jóhannesarguðspjalli segir Kristur: "Sannlega, sannlega segi ég yður sá sem trúir, hefir eilíft líf.  Ég er brauð lífsins.  Feður yðar átu 'manna' í eyðimörkinni og dóu.  Þetta er brauðið, sem kemur niður af himni, til þess að maður neyti af því og deyi ekki.  Ég er hið lifandi brauð, sem kom niður af himni; ef nokkur etur af þessu brauði, mun hann lifa til eilífðar; og það brauð, sem ég mun gefa, er hold mitt heiminum til lífs."  (Jóhannesarguðspjall 6:47-52) Ef postularnir og áhangendur Krists, sem ekki yfirgáfu Hann við þessa yfirlýsingu þ.e.a.s. tóku Hann á orðinu, trúðu og báðu Hann að gefa sér þetta brauð, Jh 6:34, þá gerir Kaþólsk kirkja, sem byggir kenningar sínar á grundvallarkenningum frumkirkjunnar, það einnig. Frumkirkjan gekk ekki burt frá Kristi þótt orð Hans væru þung eða tormelt mannlegum skilningi.


        Þessi ummæli Krists, að hann gæfi líkama sinn og blóð í formi brauðs og víns heiminum til frelsunar, þ.e.a.s. þeim sem því tryðu, olli, eins og áður segir, miklum deilum meðal Gyðinganna. Eins og Heilög Ritning skýrir frá: "Þá þráttuðu Gyðingar sín á milli og sögðu: "Hvernig getur Hann gefið oss hold sitt að eta?" Til frekari áhersluauka um réttmæti og sannmæli hinna beru orða Jesú, sem þeir skildu reyndar réttilega eins og þau voru töluð, en var ofviða að játast,-- jafnvel lærisveinum Hans, sem hefði sannarlega ekki verið það ofviða hefðu þeir skilið orð Hans sem líkingarmynd.En í ljósi þess að hér var ekki um líkingarmynd að ræða, samkvæmt túlkun postulanna og arftaka þeirra, kaþólsku kirkjunnar, þá  dró Jesús ekki í land og kallaði á þá aftur til frekari skýringa á myndmáli sínu, heldur mælti Hann til frekari áhersluauka:  "Sannlega, sannlega segi ég yður ef þér etið ekki hold manns-sonarins og drekkið ekki blóð hans, hafið þér ekki líf í yður.  Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefir eilíft líf,og ég mun upp vekja hann á efsta degi; því að hold mitter sönn fæða og blóð mitter sannur drykkur.  Sá, sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, sá er í mér og ég í honum.  Eins og hinn lifandi Faðir sendi mig, og ég lifi fyrir Föðurinn, eins mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur."  (Jóhannesarguðspjall 6:52-59)  Þetta sagði Kristur er hann var að kenna í samkunduhúsinu í Kapernaum.  Þetta er sú harða ræða, sem mörgum þótti tormelt og vilja fremur skilja sem táknmynd, en Kristur, sem las hjörtu þeirra, lét ekki deigan síga, heldur spurði enn frekar um trú þeirra á mátt Hans: "Hvað þá, ef þér sjáið manns-soninn stíga upp þangað, sem hann áður var?"  Með öðrum orðum væri upprisan eitthvað skiljanlegri mannlegri vitund?


       Síðan ítrekar Kristur það og áréttar að hver sá sem velkist í vantrú á máttarverk Hans skuli biðja í einlægni til Föðurins að öðlast trú, því einsog Hann áminnir. "Enginn getur komið til mín nema honum sé það gefið af Föðurnum."  (Jóhannesar guðspjall. 6:65)  Af ofangreindri skilgreiningu má öðlast skilning á því hversvegna hið alhelga Altarissakramenti er hinn sanni fjársjóður kaþólskrar kirkju, og hversvegna kaþólskir beygja kné sín frammi fyrir því í guðslíkamahúsinu, sem hefur að geyma líkama og blóð, sál og guðdómleika Jesú Krists í formi brauðs og víns.  


  Á dögum Krists, sem og í dag, var þetta trúaratriði mörgum ofviða, menn gátu ekki fórnað sínu mannlega hyggjuviti á altari trúarinnar, þeir voru ekki börn Abrahams í skilyrðislausri trú á forsjá Guðs hversu sem hún svo hugnaðist þeim, heldur trúðu og treystu fremur á eigið hyggjuvit og mannasetningar takmarkaðar af hlutveruleika eigin skynjana og skynfæra líkt og hinir vantrúuðu Gyðingar sem snéru sér burt frá Frelsaranum um leið og þeir forviða spurðu:  "Hvernig getur þessi maður gefið oss hold sitt að eta?" Jh. 6:52 Jesús, hinsvegar, lætur ekki deigan síga, en kveður enn fastar að þeirri yfirlýsingu sinni að hér um raunverulegt hold og blóð Hans að ræða. Orðrétt segir Hann til áhersluauka: "Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur." Jh 6:55.


  Er fylgjendum Jesú tók að fækka til muna við þennan boðskap Hans, þá sneri Hann sér að lokum að lærisveinum sínum og spurði: "Ætlið þér að fara líka?" Símon Pétur, sem smurður hafði verið til forustu af Kristi sjálfum, sem hið væntanlega höfuð kirkjunnar, verður því fyrir svörum og talar fyrir munn þeirra allra: "Herra, til hvers ættum vér að fara?  Þú hefir orð eilífs lífs og vér höfum trúað og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs."  (Jóhannesar guðspjall. 6:66-70) Þau orð, sem Pétur hér skírskotar til, eru einmitt þau orð sem kaþólskir prestar endurtaka og hafa yfir brauðinu og víninu við gjörbreytingu í heilagri Messu. Krafturinn sem leysist úr læðingi við endurtekningu þessara orða Jesú, sem Hann viðhafði við síðustu kvöldmáltíðina, gjörbreytir efninu samkvæmt kenningu kaþólsku kirkjunnar og er því frá Guði sjálfum kominn. Handbendi Guðs við gjörbreytinguna er því presturinn, arftaki Jesú Krists í anda Melkisedeks, "Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkisedeks."  (Sálm 109) Þannig telja kennimenn kaþólsku kirkjunnar að spádómur  Malakíasar spámanns rætist: "Frá sólarupprás allt til niðurgöngu hennar mun nafn mitt mikið verða  meðal þjóðanna, og allstaðar er fórnað  nafni mínu til heiðurs og hrein matfórn framreidd." (Mal. 1:11) Tilgangurinn með Messufórninni er að heiðra hinn himneska Föður og að veita hinum trúuðu ávöxt hinnar miklu fórnar Jesú á krossinum. Heilög kaþólsk messufórn er því í einu fullkomin fórn lofgjörðar, þakkar, friðþægingar og bænar. Kaþólskir færa Guði einum heilaga messufórn, þótt þeir minnist einnig dýrlinga Hans, sem kirkjan hefur úrskurðað að séu örugglega í návist Guðs á himnum vegna þeirra verðleika er þeir auðsýndu á jörðu niðri í kærleika til Guðs og manna.


  Er við hyggjum að skilyrðislausri undirgefni Péturs og hinna postulanna, er kannski rétt að minnast aðeins á einn félaga þeirra, Júdas Símonarson Ískaríot, sem sveik Krist einmitt á sömu forsendu og þeir sem gengu burt og trúðu ekki á hið stórbrotna máttarverk sem gjörbreytingin felur í sér. Það má t.d. ráða af því að hann varð vitni að og þátttakandi í síðustu kvöldmáltíðinni. En þar sem hann meðtók líkama og blóð Krists óverðuglega af sviksömu hjarta, en ekki í náðarástandi, þá gagnaðist honum ekki sú náð, sem meðtaka hins alhelga Altarissakramentis veitir, heldur meðtók hann Altarissakramentið sjálfum sér til dóms og svipti sig lífi.  Því ólíkt Pétri, sem einnig brást Frelsara sínum á ögurstundu en iðraðist, þá gat Júdas ekki iðrast í formyrkvuðu hjarta sínu, því hann trúði ekki á skilyrðislausan kærleika Guðs, sem fyrirgefur iðrandi syndara líkt og Kristur á Krossinum, heldur örvinglaðist og tók sitt eigið líf. Ummæli Krists að meðal hinna 12 væri einn "djöfull" má því skilja sem svo að sá sem ánetjast hinu veraldlega valdi, t.d. peninga, eigi sér í raun annan guð heldur en Guð Abraham, Ísaks og Jakobs, sem krefst þeirrar skilyrðislausrar trúar og trausts, sem sannast íkærleiksverkum og athöfnum. (Jóhannesar. guðspjall. 6:70:71)


      Ef við skoðum þessi málsatvik eilítið nánar og í samhengi við hið alhelga Altarissakramenti, þá liggur í hlutarins eðli að Júdasi hafi ekki litist sem best á þessa náðargjöf Krists, Hið alhelga Altarissakramenti, því hann mun hafa séð fram á og varð reyndar vitni að, að það fældi fjöldann allan af áhangendum Jesú í burtu.  Og þar sem hann var fjárhaldsmaðurinn, þá sá hann fram á að fé það sem þeim áskotnaðist við frjáls framlög myndi rýrna til muna við hið fyrirsjáanlega mikla fráfall áhangenda, sem blasti við.  Það má því gera sér í hugarlund að Júdas hafi af þeim sökum farið að efast um guðlegt eðli Krists fyrst hann var svona lélegur markaðssetjari að sjá þennan fjárhagslega skaða ekki fyrir. Ágirnd hans, sem hann lét stjórnast af, varð því til þess að hin innri ásjóna Júdasar blindaðist og hann hætti að sjá Krist sem hinn fyrirheitna Messías og því var honum í lófa lagið að telja sér trú um að sér væri óhætt að ofurselja Jesúm fyrir þrjátíu silfurpeninga.  En þegar Júdasi varð ljóst að Kristur innsiglaði sannindi sín með dauða sínum, eins og spáð hafði verið fyrir um í Gamla Testamentinu, þá gerði hann sér grein fyrir að Kristur var í raun og sannleika Guðssonurinn, hinn fyrirheitni Messías og vildi því skila peningunum.  En ólíkt Pétri öðlaðist hann aldrei þá náð að skilja og trúa því að Guð er ekki hefnigjarn Guð, heldur góður og ástríkur Guð sem tekur "iðrandi" syndara opnum örmum eins og fyrstu orð Krists bera vott um er hann kom fram opinberlega sem Hinn fyrirheitni Messías og æðsti prestur: "iðrist, gerið yfirbót, því Guðs ríki er í nánd." (Mattheus. 4:17)  Þessum orðum Krists hlýða kaþólskir einnig skilyrðislaust er þeir ganga til skrifta, fara í andlega sturtu, eins og það er stundum kallað,áðuren þeir meðtaka hið alhelga Altarissakramenti þ.e.a.s. hafi þeir framið alvarlega synd, því engin kaþólikki vill meðtaka Altarissakramentið sér til dóms líkt og Júdas.


  Í því sambandi vil ég einnig nota tækifærið hér til að árétta þann algenga misskilning, sem oft ríkir meðal manna utan kaþólsku kirkjunnar, að það er ekki presturinn sem fyrirgefur í skriftasakramentinu, heldur sjálfur Kristur, sem ávallt er viðstaddur skriftir og horfir inn í hjarta mannsins og skannar hvort syndajátningin sé einlæg, svo fyrirgefning geti átt sér stað. Því eins og segir í Postulasögunni: "Það skuluð þér vita bræður, að yður er fyrir Hann boðuð fyrirgefning syndanna, Og að sérhver er trúir, réttlætist í honum af öllu því, er lögmál Móse gat ekki réttlætt yður af. Gætið þess, að eigi komi það fyrir yður, sem sagt er hjá spámönnunum: 'Sjáið þér spottarar, undrist, og verðið að engu, því að verk vinn ég á dögum yðar, verk, sem þér alls ekki munduð trúa, þótt einhver segði yður frá því.'" Postulasagan 13:38-39 ( "Sannlega segi ég yður: hvað sem þér bindið á jörðu mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni." Matt 18:18)


  Staðgenglar Krists á jörðu eru í frumkirkjunni postularnir, því eins og Kristur áréttar, er postularnir spurðu hversvegna hann talaði í dæmisögum? "Yður er gefið að þekkja leyndardóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið." Mattheus 13:11 með öðrum orðum postulunum var gefið að túlka og miðla hinum torskilda boðskap Hans, sem mönnum oft ekki hugnaðist og hefðu gjarnan í sjálfhverfu sinni viljað túlka á annan veg. Boðskapurinn og túlkanir á orðum Krists hljóta því ávallt að eiga að vera í samræmi við túlkun postulanna um aldur og ævi. Sá boðskapur, sem postulunum var gert að boða og þær túlkanir orða Krists, sem Hann sjálfur trúði þeim fyrir, varðveittust fyrir tilstilli rita Kirkjufeðranna, sem skráðu boðskap og túlkanir postulanna fyrstu tæp fjögur hundruð árin, meðan engin Biblía var til í heild. Þessar skrásetningar voru varðveittar í kaþólskri kirkju og kallast erfikenningar og til þeirra vísa kenningar kaþólskrar kirkju jafnt sem til Heilagrar ritningar.


  Til að forðast  misskilnings á túlkun kenninga kirkjunnar varðandi hold og blóð Jesú í hinu alhelga Altarissakramenti, misskilnings sem ég hef orðið vör við að gætir hjá sumum, þá vil ég árétta að hold og blóð Krists, sem hér um ræðir, á ekkert skylt við efnafræðilegt hold og blóð í almennum skilningi eins og það kemur mönnum fyrir sjónir, þótt það sé jafn raunverulegt samt sem áður, því það er af andlegum toga spunnið og því blæðir ekki úr hóstíunni þótt hún sé brotin. Jesús meinti það sem hann sagði að mönnum bæri að eta hold hans og blóð. Þótt ekki sé um beint mannát að ræða í þeirri merkingu sem við myndum leggja í mannát kannibala, þá er hold og blóð Krists í hóstíunni samt Hans raunverulega hold og blóð, --í því felst einmitt leyndardómur trúarinnar, Mysterium Fidei, sem  reynir á æðsta veldi trúar hvers og eins. Hér er um að ræða andlegan veruleika, leyndardóm Guðs, sem okkur er ætlað að trúa án áþreifanlegrar vissu, en um það snýst einmitt trúin. Ef veraldleg sönnunargildi væru fyrir hendi, þá væri það ekki lengur trú. Með trú á hið alhelga Altarissakramenti, í skilningi postulanna og kaþólskrar kirkju, reynir á trú mannsins til hins ýtrasta á þetta æðsta hjálpargagn Krists, ávöxt krossins. Sú bjargfasta trú, sem maðurinn getur óskað eftir að öðlast, gefur Guð einn. Hann gerir mönnum kleift að trúa á það sem skynseminni virðist ómögulegt að ná tökum á.

  Að lokum vil ég vitna í orð Páls postula, sem áminnir alla kristna menn að

  að neyta ekki þessa brauðs og víns óverðuglega, því að sá hinn sami "verður sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi því sjálfan sig, og síðan eti hann af brauðinu og drekki af bikarnum.  Því að sá sem etur og drekkur, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms, ef hann gjörir ekki greinamun á líkamanum" þ.e.a.s. líkama Krists.  1. Korintubréf 11:27-31  Ef um venjulegt brauð hefði verið að ræða, sem kristnir menn reyndar komu saman til þess að neyta við borðhald í frumkristni, hvernig gætu þeir þá etið sjálfum sér til dóms?  Enda hefst þessi málsgrein heilags Páls í Biblíunni einmitt með tilvitnun til síðustu kvöldmáltíðarinnar til þess að taka af allan vafa um að hér var ekki um að ræða hinar reglubundnu kvöldmáltíðir, sem kristnir menn komu saman til að neyta, heldur er hér um að ræða hið heilaga Altarissakramenti, sem Páll postuli var uppfræddur um af hinum upprisna Kristi sjálfum er Hann birtist honum, að því er hann sjálfur segir í sömu ritningagrein.


  Kirkja Krists þarf stöðugt að vera á varðbergi ekki síst innan sinna eigin vébanda, þar sem hin fallna náttúra í mannlegu eðli knýr stöðugt á og verður trúnni oft  yfirsterkari. Því er ekki vanþörf á að efla stöðugt  siðbót innan ramma kirkjunnar manna eins og margoft hefur sannast í kaþólskri kirkju, sem og í öðrum kirkjusöfnuðum, í aldanna rás. Og í þeim efnum er hið alhelga Altarissakramenti ein sterkasta vörnin, en jafnframt ein sú áhættumesta, þar sem, samkvæmt boðskap Jesú, menn geta átt á hættu að verða sekir við líkama og blóð Drottins, ef þeir eru ekki í náðarástandi er þeir meðtaka hið alhelga Altarissakramenti, eins og Páll postuli áminnir. Minnugir orða Páls postula "En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarefni en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður." (glataður)  (Galatabréf 1:8-9) Þessi áminningarorð hafa sjálfsagt verið síðasta biskupi kaþólsku kirkjunnar fyrir siðaskiptin, Jóni Arasyni og sonum hans, ofarlega í huga er trúfesta þeirra við kenningar Krists og postulanna varðandi hið alhelga Altarissakramenti voru í veði samkvæmt kennimönnum kirkju þeirra, því samkvæmt hinni nýju trúarkenningu var Altarissakramentið túlkað sem táknmynd um líkama Jesú eingöngu. Fyrir Jóni arasyni og sonum hans var hið alhelga Altarissakramenti náðarmeðal frelsunar. Minnugir orða Jesú létu þeir því sjálfviljugir lífið fyrir trú sína á orð Hans að "Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu" Jh 6:51 "Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið ekki blóð Hans, hafið þér ekki lífið í yður." Jh. 6:53

   

  Orð Jesú varðandi svokallaða gjörbreytingu eru sannarlega lítt skiljanleg mannlegum mætti og gætum við því í þeim efnum tekið undir orð Tertúllíans kirkjuföður, sem lýsti því yfir að trú hans væri grundvölluð á hinu ómögulega þ.e.a.s. því sem mannlegum skilningi væri ofviða eða  "Ég trúi af því það er ómögulegt." Hinsvegar þegar litið er til líffræðinnar og höfð er hliðsjón af starfsemi mannslíkamans,  þá má í vissum skilningi greina nokkurskonar hliðstæðu við gjörbreytinguna, þótt hún sé ekki algjör, en það er sú gjörbreyting sem á sér stað í holdinu er við neytum og meltum mat. Sá matur sem við neytum, hvort sem um er að ræða fisk, kjöt, grænmeti eða kökur, breytist í hold okkar og blóð án þess að við getum skynjað það með augunum. Hví skyldi Guð sjálfur, sem skapaði slíka gjörbreytingu með sköpun líkamsstarfseminnar, ekki geta gjörbreytt brauði í hold sitt og blóð, þótt við sjáum það ekki með berum augum?


       Að lokum vil ég tæpa aðeins á andmælum sem oftast heyrast beitt gegn Altarissakramentinu, sem raunverulegri óblóðugri fórn, en þau eru að Kristur hafi dáið og fórnað sér í eitt skipti fyrir öll á krossinum, en sá hængur er á að þegar Kristur boðaði hið alhelga Sakramenti, þá bað hann að það yrði framvegis gert í minningu um sig sem þýðir áframhaldandi fórn hans þótt óblóðug sé, því hér er um andlegan og yfirnáttúrulegan líkama Krists að ræða.  (Lúkas 22:19).  Enda áminnir Páll postuli í 1. Korintubréfi "því aðsvo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur." 1. Korintubréf. 11:26-27)

  Að lokum er ekki úr vegi að slá á léttari strengi og geta til gamans að sumir vantrúa gárungar hafa hent gaman að því hvað Guð okkar væri lítill að komast fyrir í einni hóstíu, en því er til að svara að líkt og sálin tekur ekkert pláss, þá tekur hinn upprisni líkami Krists heldur ekkert pláss og getur því verið viðstaddur í jafnvel minnstu ögn af gjörbreyttu brauði.

  Ég vona svo að þessi miðlun mín á kenningu kaþólsku kirkjunnar og forsendum hennar fyrir skilningi og túlkun hennar varðandi hið alhelga Altarissakramenti hafi a.m.k. að einhverju leyti skerpt skilning kristinna bræðra okkar og systra á afstöðu hennar og trúariðkun og að við, á grundvelli kærleika til Krists, getum rætt þessa afstöðu frekar á í krafti umburðarlyndis eins og í góðri fjölskyldu þar sem fjölskyldumeðlimir eru ekki alltaf á einu máli en virða samt og umbera skoðanir og trú hvers annars.

  Ég þakka góða áheyrn.             ------------------------------------------------------------


  Ein af ástæðunum fyrir þeirri fullvissu að ummæli Jesú skírskotuðu til raunverulegs holds og blóðs Jesú Krists, þótt í formi brauðs og víns væru, rekja sumir nútíma fræðimenn til þess að Jesús beitti svo lýsandi orðalagi um að eta að það tók af allan vafa, nefnilega, orðið "trogo" sem þýðir að tyggja og naga fremur en orðtakið "phago," sem þýðir að borða. Orðtakið "trogo" er aðeins notað á tveim öðrum stöðum í Biblíunni í Matt 24:38 og Jh. 13:18. Eins er því varið með orðið "sarx" sem þýðir hold, Hann notar ekki orðið "soma" sem þýðir líkami. Sarx er ávallt notað annarsstaðar í Biblíunni um hold. Sjá t.d. Jh 1:13,14; 3:8:15;17:2; Matt. 16:17; 19:5; 24:22; 26:41; Mark 10:8; 13:20; 14:38; Lk 3:6; 24:39  Kirkjufeður

  Til kirkjufeðra teljast allir þeir sem skrásettu erfikenningar eða þær hefðir og túlkanir sem postularnir kenndu í anda Krists í frumkirkjunni. Nafnbótin kirkjufaðir var tileinkuð þeim mönnum sem lifðu frá því á tímum postulanna og fram á 4. öld. Þeir höfðu náin tengsl við kirkjunnar menn og skráðu trúarsetningar og helgisiði undir umsjón biskupa og Páfa. Einnig varð líf þeirra að einkennast af helgum lifnaðarháttum til þess að þeir væru verðugir að bera titilinn kirkjufaðir. Meðal kirkjufeðra töldust t.d. Heilagur Clements frá Róm d. 97, Hl. Ignatius frá Antioch (50-107) Hl. Polycarp (69-155), Hl. Ambrosius frá Mílanó (d. 397), Hl. Ágústínus (d. 430), Hl. Jerome (d. 420) (Hann þýddi Heilaga Ritningu úr Aramósku og Grísku yfir á Latínu, sú Biblía nefnist Latin Vulgate og liggur til grundvallar Kaþólskri Biblíu), Hl. Gregory frá Nazianzen (d390), Hl Basil hinn mikli (d. 379), bróðir hans Gregory frá Nyssa (d.394), Hl. Jón Chrysostom (d. 407) og Hl. Athanasius (d. 373)

  Allir kirkjufeðurnir kenndu og skrásettu sömu túlkun og sama skilning á hinu alhelga Altarissakramenti og postularnir varðandi raunverulega viðveru Jesú Krists í mynd brauðs og víns í hinu alhelga Altarissakramenti. Sú túlkun og sá  sami skilningur á hinu alhelga Altarissakramenti er hluti af erfikenningu kaþólsku kirkjunnar allt frá stofnun hennar og því tilbiðja kaþólskir með dýpstu lotningu Jesú Krist í hinu alhelga Altarissakramenti --beygja kné sín, krjúpa, þakka Honum fyrir Hans óendanlega kærleika og biðja með öruggu trausti um náð Hans. Vald til að gjörbreyta gekk í frumkirkjunni frá postulunum til allra þeirra, sem kenndu í samræmi við kenningar  þeirra og túlkanir og taldir voru verðugir til að gerast boðberar Krists og svo koll af kolli innan kaþólsku kirkjunnar allt fram á þennan dag.

  Í lotningarskyni við hið heilaga Altarissakramenti og eilífa tilbeiðslu hefur kaþólska kirkjan stofnsett dýridag, hátíð Jesú Hjarta.

  Eftirfarandi eru fáein ummæli þeirra manna frumkirkjunnar, sem í anda postulanna tóku afstöðu með þeim og gengu heldur ekki burt frá Jesú við boðun viðveru Hans í formi brauðs og víns, í hinu alhelga Altarissakramenti.

  Hér er ekki um að ræða fræðilega framsetningu af minni hálfu hvað snertir tilvísanir, heldur aðeins ábendingar um heimildir, sem allir geta sannreynt í frumtextum og nýtt sér eftir þörfum. Hér er aðeins um að ræða persónulegt samsafn mitt, og  framsetning textans ýmist á ensku eða á íslensku eftir því sem verkast vildi of fyrir hendi var í fórum mínum.

  "Will you also go away?" Jn 6:67

  But first let us look at what Paul wrote to the Corinthians: "therefore whoever eats the bread or drinks the cup of the Lord unworthilywill have to answer for the body and blood of the Lord….For anyone who eats and drinks without discerning the body, eats and drinks judgment on himself." (1Cor. 11:27,29). "To answer for the body and blood" of someone meant to be guilty of a crime as serious as homicide. How could eating merebread and wine unworthily be so serious? Paul's comment makes sense only if the bread and wine became the real body and blood of Christ.

  Indeed, we might ask, would it not be absurd to say that a man would incur eternal damnation by merely eating a piece of bread or drinking a few drops of wine?

  Ignatius of Antioch, who had been a disciple of the apostle John and who wrote an epistle to the Smyrnaeans about A.D. 110, said, referring to "those who hold heterodox opinions," that "they abstain from the Eucharist and from prayer, because they do not confess that the Eucharist is the flesh of our Savior Jesus Christ, flesh which suffered for our sins and which the Father, in his goodness, raised up again." (cf. 6:2;7:1)

  St. Iranaeus 140-202 A.D. : "Again, giving counsel to His disciples to offer to God the first-fruits from among His creatures, not as if He needed them, but so that they themselves might be neither unfruitful nor ungrateful, He took from among creation that which is bread, and gave thanks, saying, 'This is my Body.' The cup likewise, which is from among the creation to which we belong, He confessed to be His blood.

  He taught the new sacrifice of the new covenant, of which Malachias, one of the twelve prophets, had signified beforehand: 'You do not do my will,' says the Lord Almighty, 'and I will not accept a sacrifice at your hands. For from the rising of the sun to its setting My name is glorified among the gentiles, and in every place incense is offered to My name, and a pure sacrifice; for great is my name among the gentiles,' says the Lord Almighty. By these words He makes it plain that the former people will cease to make offerings to God; but that in every place sacrifice will be offered to Him, and indeed, a pure one; for His name is glorified among the gentiles."

  "But what consistency is there in those who hold that the bread over which thanks have been given is the Body of their Lord, and the cup His Blood, if they do not acknowledge that He is the Son of the Creator of the world, that is, His word, through whom the wood bears fruit, and the fountains gush forth, and the earth gives first the blade, then the ear, then the full grain on the ear? How can they say that the flesh which has been nourished by the Body of the Lord and by His Blood gives way to corruption and does not partake of life? Let them either change their opinion, or else stop offering the things mentioned.

  For thanksgiving is consistent with our opinion; and the Eucharist confirms our opinion. For we offer to Him those things which are His, declaring in a fit manner the gift and the acceptance of flesh and spirit. For as the bread from the earth, receiving the invocation of God, is no longer common bread but the Eucharist, consisting of two elements, earthly and heavenly, so also our bodies, when they receive the Eucharist, are no longer corruptible but have the hope of resurrection into eternity."

  "If the Lord were from other than the Father, how could He rightly take bread, which is of the same creation as our own, and confess it to be His Body, and affirm that the mixture in the cup is His Blood?"

  About 150 A.D. Justin Martyr, called by many the first apologist, wrote, "Not as common bread or common drink do we receive these; but since Jesus Christ our Savior was made incarnate by the word of God and had both flesh and blood for our salvation, so too, as we have been taught, the food which has been made into Eucharist by the Eucharistic prayer set down by him, and by the change of which our blood and flesh is nourished, is both flesh and blood of that incarnated Jesus." (First Apology 66:1-20)

  Origen, in a homily written about A.D. 244, attested to belief in the Real Presence. "I wish to admonish you with examples from your religion. You are accustomed to take part in the divine mysteries, so you know how, when you have received the body of the Lord, you reverently exercise every care lest a particle of it fall and lest anything of the consecrated gift perish. You account yourselves guilty, and rightly do you so believe, if any of it be lost through negligence." (Homilies on Exodus 13:3)

  Cyril of Jerusalem, in a catechetical lecture presented in the middle of the fourth century, said: "Do not, therefore regard the bread and wine as simply that, for they are, according to the Master's declaration, the body and blood of Christ. Even though the senses suggest to you the other, let faith make you firm. Do not judge in this matter by taste, but be fully assured by faith, not doubting that you have been deemed worthy of the body and blood of Christ." (Catechetical Discourses: Mystagogic 4,22:9)

  In the fifth-century homily, Theodore of Mopsuestia seemed to be speaking to today's adherents to the one's who walked away from Christ: "when Christ gave the bread he did not say, "This is the symbol of my body,' but, "This is my blood,' for he wanted us to look upon the Eucharistic elements after their reception of grace and the coming of the Holy Spirit not according to their nature, but to receive them as they are, the body and blood of our Lord." (Catechetical Homilies 5:1)

  St. Ignatius, Bishop of Smyrna, who lived in the first century, wrote as follows to the faithful of that city: "Because the heretics refuse to acknowledge that the Holy Eucharist contains the same flesh which suffered for our sins and was raised again to life by God the Father, they die a miserable death and perish without hope."

  Tertullian says: "Our flesh is nourished with the Body and Blood of Jesus Christ so that our souls are filled with God Himself."

  St. John Chrysostom asks "Who will give us of His flesh that we may be filled?"

  Cyrillus hinn helgi í Jerúsalem (dáinn árið 386) kemst svo að orði: "Fyrst Jesús segir sjálfur: 'þetta er líkami minn,' hver getur þá efast um, að það sé satt? Og fyrst Hann segir skýrt og skorinort: "Þetta er mitt blóð," hver getur þá efast um og haldið, að þetta sé ef til vill ekki blóð Hans? Hann breytti forðum vatni í vín, hversvegna skyldum við þá ekki trúa orðum Hans, er Hann segir, að nú ætli Hann að breyta víni í blóð sitt?" (Kaþólsk Fræði)
  23.03.13

    08:46:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 29 orð  
  Flokkur: Páfinn, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Frans páfi er saklaus af ásökunum um þjónkun við herforingjastjórnina

  Frans páfi er saklaus af ásökunum um þjónkun við herforingjastjórnina í Argentínu. Þetta kemur fram í nýrri yfirlýsingu annars Jesúítaprestanna sem rænt var af liðsmönnum herforingjanna. Sjá heimild hér.

  17.03.13

    13:22:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 208 orð  
  Flokkur: Páfinn, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Frans frá Assisi var maður friðar, fátæktar og umhyggju

  Á Asianews birtist athyglisverð frásögn hins nýja páfa af því hvernig það atvikaðist að hann valdi nafnið Frans:

  “Sumir vissu ekki af hverju Rómarbiskup [páfi] vildi velja nafnið Frans og vissu ekki hvort það vísaði til Frans Xavier, Frans frá Sales eða Frans frá Assisi. Ég skal segja ykkur frá því.

  Meðan á kosningunni stóð sat ég við hlið erkibiskupsins í São Paulo Cláudio Hummes kardínála góðum vini mínum. Þegar dró að úrslitastund hughreysti hann mig. Þegar atkvæðafjöldinn náði tveim þriðju byrjuðu kardínálarnir að klappa því að páfi hafði verið valinn. Þá huggaði Hummes kardínáli mig og sagði: “Gleymdu ekki hinum fátæku”. Það sló mig.

  Hinir fátæku, þegar ég hugsaði um þá, þá bar hugann strax til hl. Frans frá Assisi... Frans var maður friðarins, maður sem unni og bar umhyggju fyrir sköpunarverkinu. Á okkar tímum eru tengslin við sköpunarverkið ekki það góð. Frans var maður sem gaf okkur friðaranda, hann var fátækur maður. Ég þrái að sjá fátæka kirkju fyrir hina fátæku. “ [1]

  Hér á þessu bloggi eru tenglar þar sem vísað er í efni tengdum hl. Frans frá Assisi:
  Hér er Sólarsöngur hl. Frans frá Assisi:
  http://www.kirkju.net/index.php/solarsoengur-hl-frans-fra-assisi?blog=8

  Hér eru blessunarorð eignuð hl. Frans frá Assisi:
  http://www.kirkju.net/index.php/blessunarore-hl-frans-fra-assisi?blog=8

  Hér er friðarbæn hl. Frans frá Assisi:
  http://www.kirkju.net/index.php/friearban-eignue-hl-frans-fra-assisi?blog=8

  [1] Heimild: Asianews: http://www.asianews.it/news-en/Pope%3A-My-name-is-Francis-because-I-want-a-poor-Church-for-the-poor-27415.html

    13:02:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 156 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Á þriðja tug krafna bárust áður en frestur rann út

  Þetta kemur fram í viðtali sem RÚV átti við Eirík Elís Þorsteinsson formann fagráðs Kaþólsku kirkjunnar í gær:

  Eiríkur Elís Þorsteinsson, formaður fagráðs kaþólsku kirkjunnar, segir að nú sé ljóst að á þriðja tug krafna á hendur kaþólsku kirkjunni hafi borist, en frestur til að skila inn kröfum rann út í lok dags í gær [15. mars 2013]. ... Hann segir margar krafnanna lýsa ítarlega því ofbeldi sem fólkið hafi orðið fyrir. Hann segir flest málanna komin til ára sinna, en þó séu einhver þeirra nýleg, það er að segja frá því eftir síðustu aldamót. Í flestum tilfellum er farið fram á ákveðnar miskabætur, nokkrir vilji leggja það í dóm kirkjunnar að ákveða sanngjarnar bætur og einhverjir fara einungis fram á afsökunarbeiðni frá kirkjunni. Hæstu kröfurnar nema tugum milljóna króna segir Eiríkur. Hann segir að fagráð skili álitsgerð til kaþólsku kirkjunnar fyrir 1. júní og það verði síðan stjórnenda kirkjunnar að taka afstöðu til krafnanna.

  Heimild á vef RÚV: http://www.ruv.is/frett/krefja-katholsku-kirkjuna-um-tugi-milljona

  27.02.13

  Benedikt XVI páfi rýmir til fyrir nýjum páfa í Róm

  Benedikt 16. páfi hefur kosið að láta af störfum eftir um 8 ára styrka leiðsögn kirkjunnar, enda er hann á 86. aldursári, og heilsu hans hefur hrakað. Falleg var sú virðingarfulla biskupsmessa sem haldin var í Kristskirkju í Landakoti í gær, að viðstöddum flestum prestum kaþólsku kirkjunnar hér á landi.

  Farsæll hefur páfinn verið í samskiptum við bæði orþódoxu kirkjuna, Gyðinga og múslima og staðið trúan vörð um kaþólska kenningu. Var frá upphafi vitað, að hér var um einn mesta guðfræðing kirkjunnar að ræða, langsamlega afkastamesta rithöfund allra páfa sögunnar og vitmann flestum öðrum fremur. Ekki hlífði það honum við gagnrýni veraldar- og lausungarhyggjumanna, en kaþólska kirkjan er á bjargi byggð og fyrirheitum Frelsarans, ekki á tízkuvindum hverrar samtíðar.

  Í messunni í gær, rétt eins og á fjölmennri helgistund við Péturstogið í Róm í dag, var beðið fyrir hinum fráfarandi páfa Benedikt og fyrir því, að nýr eftirmaður hans megi verða kirkjunni til blessunar.

  24.02.13

    17:36:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 101 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Bæjarfulltrúi Samfylkingar í Árborg mótmælir staðsetningu kirkju

  Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Selfoss Eggert Valur Guðmundsson skrifaði grein í Sunnlenska fréttablaðið 20. febr. sl. og greindi frá mótmælum sínum gegn staðsetningu kirkjubyggingar Kaþólsku kirkjunnar en fyrirhugað er að hún rísi á Sýslumannstúninu svokallaða sem er við Austurveg á Selfossi.

  Bæjarfulltrúinn skrifar m.a:

  Undirritaður hefur mótmælt afgreiðslu málsins bæði á vettvangi bæjarráðs og bæjarstjórnar. Að sjálfsögðu eru þau mótmæli ekki tilkomin vegna þess að kaþólski söfnuðurinn með sína starfsemi sé ekki velkominn í Sveitarfélagið Árborg. Hins vegar hefur undirritaður áhyggjur af því að lóðin beri illa ofangreind mannvirki og þau umsvif sem þeim fylgja.

  Sjá nánar á vef Sunnlenska fréttablaðsins: http://www.sunnlenska.is/adsent/11512.html

  10.02.13

    20:37:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 200 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Fastan

  Föstuboð kirkjunnar

  „Samkvæmt kirkjulögum er öllu rómversk-kaþólsku fólki frá 18 til 60 ára aldurs skylt að fasta á bindandi föstuboðsdögum. Sjúklingar eru undanþegnir föstu. Bindandi föstuboðsdagar eru öskudagur og föstudagurinn langi. Fasta er það þegar aðeins er neytt einnar fullkominnar máltíðar á dag. Þó er ekki bannað að neyta smávegis af fæðu tvisvar að auki.“

  „Allir trúaðir sem náð hafa 14 ára aldri eiga að gera yfirbót alla föstudaga, einkum á lönguföstu. Velja má um eftirtaldar leiðir:

  * Forðast neyslu kjöts eða annarrar fæðu.
  * Forðast áfenga drykki, reykingar eða skemmtanir.

  Gera sérstakt átak til að biðja:

  * Með þátttöku í heilagri messu.
  * Með tilbeiðslu hins alhelga altarissakramentis.
  * Með þátttöku í krossferilsbænum á föstudögum í lönguföstu.

  Fasta algjörlega oftar en skylt er og gefa fé það sem þannig sparast til þeirra sem þess þurfa.

  Sýna sérstaka umhyggju þeim sem fátækir eru, sjúkir, aldraðir, farlama eða einmana.

  Ef föstuboð er vanrækt einn föstudag er ekki litið á það sem synd. Þó ber að minna á að yfirbót er hluti af lífi kristinna manna og þeim ber skylda til að ástunda hana, ekki hvað síst á föstutímanum.“

  Þetta er endurbirtur pistill frá því í febrúar 2007. Þá birtur undir fyrirsögninni Föstuboð.[2. birting 10.3.2011]
  Heimild: Kaþólska kirkjublaðið, nr. 2, 2007, bls. 18.[og blað nr. 1-2 2013 bls. 3]

  31.01.13

    19:41:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 267 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúin og menningin

  Saga og áhrif Jesúítareglunnar hér á landi

  Saga og áhrif Jesúítareglunnar eru töluverð hér á landi ef að er gáð. Jón Sveinsson (Nonni) var t.d. Jesúíti og hann kom hingað til lands 1894 að líkindum til að kanna endurreisn kaþólska trúboðsins. Árið 1896 beitir sr. Jón sér fyrir fjársöfnun erlendis til að byggja holdsveikraspítala hér. Söfnunarfé Nonna er svo síðar notað til byggingar Landakotsspítala og dugði það fyrir nær helmingi stofnkostnaðar. Árið 1896 koma svo fyrstu St. Jósefssysturnar til Íslands. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að St. Jósefsreglan er afsprengi Jesúítareglunnar því stofnandi hennar var Jesúítinn Jean Paul Médaille sem lesa má um hér:

  Um sögu St. Jósefsreglunnar á Íslandi þarf svo varla að fjölyrða en ég læt nægja að taka fram að reglusystur hófu starfsemi við hjúkrun og kennslu árið 1896. Þær komu á fót sjúkraskýlum á Fáskrúðsfirði og í Reykjavík (1897) og síðar sjúkrahúsum í Reykjavík (1902) og Hafnarfirði (1926) sem kennd voru við hl. Jósef. Systurnar byggðu Landakotsskóla 1909 og barnaskóla í Hafnarfirði 1938.

  Systurnar létu einnig byggja Holtsbúð 87 í Garðabæ sem enn er í eigu Kaþólsku kirkjunnar og þar sem núna er rekið heimili fyrir aldraða og lesa má um hér:

  Einnig ber að geta Jesúítans dr. Alfreðs Jolsons sem hingað kom og var vígður biskup kaþólskra í Landakotskirkju í fyrstu kaþólsku biskupsvígslu sem farið hefur fram hérlendis en það var 6. febrúar 1988.

  Það má því segja að ef vel er að gáð að áhrif Jesúítareglunnar séu all nokkur hér á landi og ættu þessi dæmi að nægja. En þau eru fengin úr ritinu "Kaþólskur annáll Íslands" sem Ólafur H. Torfason tók saman og gefið var út sem handrit af Þorlákssjóði 1993 auk heimildanna á netinu.

  27.01.13

    12:08:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 32 orð  
  Flokkur: Lífsvernd, Altarissakramentið, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Írland: Bænaákall gegn nýju frumvarpi um fósturdeyðingar

  Írlandsdeild EWTN sjónvarpsstöðvarinnar hefur hafið Novena (=níu daga) bænaátak til stuðnings lífsverndarhreyfingunni á Írlandi. Írska stjórnin er með frumvarp í undirbúningi sem lífsvernarsinnar óttast að muni lögleiða frjálsar fósturdeyðingar. Sjá nánar hér.

  20.01.13

  Fróðlegt sjónvarpsviðtal um Skriðuklaustur og kaþólsk áhrif á Íslandi

   Í nýrri Kilju Egils Helgasonar, endursýndri í gær, átti hann mjög gott viðtal við dr. Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing, sem staðið hefur fyrir víðtækum uppgreftri rústa Skriðuklausturs á Austurlandi, fyrsta heildar-uppgreftri klausturs á Norðurlöndum. Vegna þess að klaustrinu og hjúkrunar-húsnæði þess var einfaldlega lokað með siðaskiptunum og ábúendur á jörðinni (oft sýslumenn) tóku sér búsetu í bæjarhúsunum þar, þá hefur húsaskipan þarna, þótt grotnað hafi niður, varðveitzt í óbreyttri mynd að öðru leyti en því, hvernig náttúran braut þetta niður.

  Konungur lagði undir sig þessa klausturjörð eins og allar aðrar, ...

  gerði þær upptækar og lét tekjur af þeim renna í sinn eigin vasa, en skipaði klausturhaldara (veraldlega) til innheimtu teknanna, þ.m.t. af útjörðum og hjáleigum þeirra. Skriðuklaustur var hið langyngsta af 11 klaustrum á Íslandi í kaþólskri tíð, stofnað 1493 og var aflagt 1552. Það átti um 37 jarðir og tvær hjáleigur við siðaskiptin.*

  Ekki var Skriðuklaustur sett á fót til að skapa þar þægindaaðstöðu né forréttinda, heldur til helgiþjónustu og góðra verka. Þar var haldið uppi mikilli líknarþjónustu við sjúklinga, fatlaða menn, aldurhnigna og lasburða. Uppgröftur á kirkjugarði klaustursins hefur leitt í ljós, að meðal sjúklinga þar má greina alla helztu sjúkdóma sem herjuðu á Evrópumenn á ofanverðum miðöldum. Hafa ýtarlegar rannsóknir farið fram á beinum hinna látnu og margt mjög athyglisvert komið í ljós. Er gerð skýr grein fyrir þeim rannsóknum í hverju einstaklingstilfelli í sýningarsal í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri, í hinu fræga og mikla húsi Gunnars Gunnarssonar rithöfundar.

  Í viðtalinu við Steinunni var gengið þarna um garða og um sýningarsalinn og brugðið upp mjög áhugaverðum myndum ekki einasta af klaustrinu, kirkju þess og spítalanum, heldur og af almennum áhrifum kaþólskrar trúar á þessa starfsemi alla og á viðhorfin gagnvart meðferð brotamanna hér á landi. Sjálf tilurð klaustursins, gjöf jarðarinnar Skriðu í Fljótsdal til munklífis, kom til sem viðleitni auðugrar konu til að bæta fyrir að hafa gengið í hjónaband sem fjórmenningsmeinbugir voru á skv. lögum kirkjunnar. 

  Trúin í kaþólsku á hreinsunarástand (lat. purgatorium, sem oft er nefnt hreinsunareldurinn) eftir dauðann varð áhrifarík um viðhorf manna til refsinga að sögn Steinunnar. Margir líta nú á þessa trú sem neikvæða, en hún hafði einmitt þau áhrif, eins og Steinunn benti á, að draga úr áherzlu manna á harðar refsingar í þessu lífi. Skipti þar sköpum á verri veg, þegar lútherskan kom til. Ekki voru liðin heil 13 ár frá lokasigri siðskiptamanna hér á landi með aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans þegar Stóridómur var samþykktur á Alþingi 1563 að undirlagi guðfræðinga í Kaupmannahöfn og konungsvaldsins. Átti hann eftir að gilda hér í 275 ár sem lög okkar í kynferðismálum, nánar tiltekið um sifjaspell, hórdóm og frillulífi, allt þar til hann var hreinsaður úr íslenzkum rétti árið 1838.**

  Með Stóradómi hófust dauðadómar í stórum stíl um kynferðismál, þótt hægt hafi farið framan af: tvær persónur voru dæmdar til dauða í þessum sökum á Alþingi 1563–95 (þ.e. 1573, í sama málinu). En á 17. öld er refsigleðin komin í algleyming, t.d. greina Alþingisbækur og annálar frá 18 líflátum fyrir þessi brot á Alþingi á einum saman árunum 1641–1650, þar af níu fyrir skírlífisbrot, átta fyrir sifjaspell og einu fyrir hórdóm.*** Þessir dauðadómar voru, eins og Steinunn ræddi um í viðtalinu, stórfelld breyting frá kaþólskri tíð.

  Þetta, m.a., höfðu Íslendingar upp úr siðaskiptunum, en jafnframt, að sjúkraþjónusta klaustranna lagðist af með öllu, eins og dr. Steinunn talaði líka um í þessu afar fróðlega viðtali.****

  Ora et labora: biðstu fyrir og vinn þitt verk, þetta var boðorð margra munka á miðöldum, og það var svo sannarlega sýnt í verki á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Eru menn hvattir til að sækja staðinn heim til að kynnast þessu betur af eigin raun, og jafnframt má benda hér á þessi ritverk:

  • Hrafnkell Lárusson og Steinunn Kristjánsdóttir (ritstj.): Skriðuklaustur – evrópskt miðaldaklaustur í Fljótsdal. Rit Gunnarsstofnunar I, 2008.
  • Steinunn J. Kristjánsdóttir: Sagan af klaustrinu á Skriðu, Reykjavík: Sögufélag, 2012.

  Tengill inn á Kiljuviðtalið verður settur hér inn, þegar hann finnst á Rúv-vefnum! Myndin, sem hér fylgir, er af Steinunni á Skriðuklaustri, en sjálf er hún ættuð frá Breiðalæk á Barðaströnd. HÉR er ritskrá hennar, sem ber iðjusemi hennar, rannsóknarstarfsemi og afköstum ljóst vitni, og hér hennar háskólavefsíða.

  * Heimir Steinsson, „Jarðir Skriðuklausturs og efnahagur“. Múlaþing. Rit Sögufélags Austurlands. 1. hefti. (1966), bls. 74-103. 

  ** Sbr. Davíð Þór Björgvinsson: 'Stóridómur', í Lúther og íslenskt þjóðlíf, Rvík, Hið íslenska Lúthersfélag, 1989, bls. 119–140. Sbr. einnig hér: Af refsingum fyrr og síðar.

  *** Sama rit, bls. 133; nánar í ritgerð eftir Þorgeir Kjartansson: 'Stóridómur. Nokkur orð um siðferðishugsjónir Páls Stígssonar', í Sögnum 1982, s. 2–12.

  **** Holdsveikraspítalar í smáum stíl (eða öllu heldur athvarfsstaðir fyrir holdsveika) voru þó haldnir á Möðrufelli í Eyjafirði (elztur, stofnaður 1653), í Kaldaðarnesi, á Klausturhólum í Grímsnesi, Hörgslandi á Síðu og Hallbjarnareyri á Snæfellsnesi.

  19.01.13

    10:33:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 55 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Bæjarráð Árborgar fjallar um lóð handa Kaþólsku kirkjunni

  Héraðsblaðið Dagskráin á Selfossi greinir frá því að bæjarráð Árborgar hafi falið skipulags- og byggingarnefnd að úthluta lóðinni að Austurvegi 37, svokölluðu sýslumannstúni, til Kaþólsku kirkjunnar þegar deiliskipulag liggur fyrir. Sjá nánar hér.

  Síðastliðin ár hefur starfsemi kirkjunnar á svæðinu farið fram í gamla sumardvalarheimilinu að Riftúni í Ölfusi, en nú er sú eign til sölu.

  13.01.13

    19:51:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 114 orð  
  Flokkur: Kirkjuárið, Bænir, Biblían

  Ritningarlestrar og kirkjuhátíðir 20.-26. jan.

  Eftir hádegi 19. jan. hófst 4. vika saltara með fyrra aftansöng sunnudags sem er 2. sd. alm. í kirkjuári. Ritningarletrar og kirkjuhátíðir vikunnar eru:

  Sunnud. 20. jan.
  2. sunnud. alm. í kirkjuári, grænt, Gloria, Credo.
  1L Jes 62, 1-5
  2L 2 Kor 12,4-11
  G Jh 2, 1-11

  Mánud. 21. jan.
  L Heb 5, 1-10 G Mk 2, 18-22
  Minning hl. Agnesar, meyjar og píslarvotts. Rautt.

  Þriðjud. 22. jan.
  L Heb 6, 10-20 G Mk 2, 23-28. Grænt.

  Miðvíkud. 23. jan.
  L Heb 7,1-3. 15-17 G Mk 3,1-6. Grænt.

  Fimmtud. 24. jan.
  L Heb 7, 25-8,6 G Mk 3, 7-12. Hvítt.
  Minning hl. Frans frá Sales, biskups og kirkjufræðara. Hvítt.

  Föstud. 25. jan.
  Pálsmessa, hátíð sinnaskipta hl. Páls postula. Gloria.
  L P 22,3-16. G Mk 16,15-18. Hvítt.
  Valkvæm minning bl. Eysteins Erlendssonar, erkibiskups í Niðarósi +1188.

  Laugard. 26. jan.
  L 2 Tm 1,1-8 G Lk 10,1-9.
  Minning hl. Tímóteusar og Títusar, biskupa, hvítt.

  08.01.13

    18:24:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 132 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Fagráð Kaþólsku kirkjunnar innkallar kröfur vegna kynferðisbrota

  Fagráð Kaþólsku kirkjunnar um kynferðisbrot birti í dag tilkynningu á heimasíðu sinni catholica.is, í Fréttablaðinu og í Morgunblaðinu þar sem kröfur eða kvartanir vegna kynferðisbrota eru innkallaðar. Í tilkynningunni kemur eftirfarandi fram:

  Með birtingu á innköllun þessari er þeim, sem telja sig eiga kröfu eða vilja leggja fram kvörtun á hendur kaþólsku kirkjunni á Íslandi vegna hvers kyns ofbeldis eða misgjörða af hálfu kirkjunnar, hér með gefinn kostur á að lýsa þeim misgjörðum fyrir fagráði kirkjunnar og eftir atvikum gera kröfu vegna þessa.

  Frestur til að senda inn erindi er gefinn til og með 15. mars 2013. Í tilkynningunni kemur fram að stefnt er að því að fagráð ljúki sínum störfum með því að veita álit sitt í hverju og einu máli fyrir 1. júní 2013.

  Texti tilkynningarinnar: http://www.kirkju.net/media/INNKOLLUN.pdf
  Tengill á kröfuform á docx sniði: http://www.kirkju.net/media/KROFUFORM.docx

  05.01.13

    10:31:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1020 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Jólin

  Prédikun séra Jakobs Rollands í útvarpsmessu 30. des. 2012

  Útvarpsmessa sunnudaginn 30. desember 2012
  Dómkirkja Krists konungs
  Séra Jakob Rolland

  Kæru bræður og systur í Kristi,
  góðir hlustendur nær og fjær.

  Á þessum síðasta sunnudegi ársins er okkur ljúft að dveljast um hríð
  við jötu Frelsarans í fjárhúsinu í Betlehem. Við höldum jólahátíð ekki
  eingöngu á einum degi heldur í tvær vikur. Það er eins og heilög
  kirkja sé hugfangin af öllu því sem gerðist kringum fæðingu Drottins
  og hún veltir fyrir sér aftur og aftur þeim atburðum sem breyttu rás
  sögunnar og færðu mannheimi nýja von. Oss er Frelsari fæddur. Nafn
  hans er Immanúel, Guð með oss.

  Séra Jakob Rolland

  En í dag viljum við beina athygli okkar sérstaklega að heilagri
  fjölskyldu, að Jesú, Maríu og Jósef. Jesús hefði getað komið í heiminn
  sem fullvaxinn maður, en ekki sem barn. Hann hefði meira að segja
  getað endurleyst heiminn með einu bænarorði án þess að þurfa að taka á
  sig erfiði og þjáningar. Það hefði nægt að segja við Föðurinn á
  himnum: Faðir, fyrirgefðu þeim, þeir vita ekki hvað þeir gera. Með
  slíkri bæn hefði Jesús þegar fullnægt öllu réttlæti og komið á sáttum
  milli Guðs og manna. En Jesús valdi aðra leið. Hann gerðist lítið
  barn, hann fæddist í fjárhúsi, fátækur og umkomulaus, ósjálfbjarga
  eins og öll mannanna börn sem fæðast í þennan heim. Hann þurfti á
  skjóli fjölskyldunnar að halda, hann upplifði sjálfur allt það sem
  færir mannlegum fjölskyldum bæði gleði og sorg, hið blíða og hið
  stríða. Með því að lifa meginhluta ævi sinnar innan vébanda
  fjölskyldunnar helgaði hann fjölskyldulífið og setti þar með
  forgangsröð í endurlausnarverki sínu. Fjölskyldan er vettvangurinn þar
  sem Guð er með oss, þar sem Drottinn opinberar nærveru sína og
  kærleika, þar sem helgun mannssálarinnar á sér stað, þar sem dyggðir á
  borð við réttlæti, hófsemi, miskunn, fyrirgefningu og örlæti mega
  njóta sín og blómgast.

  Fyrsta verkefni Jesú hér á jörðu felst í því að
  helga fjölskyldulífið og það gerir hann ekki með einu orði eða einni
  setningu heldur með því að lifa í meira en þrjátíu ár í hljóði í sinni
  fjölskyldu. Forgangsröðin liggur þar, svo að ekki verður um villst. Og
  forgangsröðin liggur þar hjá okkur. Helgun fjölskyldunnar er allra
  fyrsta verkefnið sem kristnir menn taka á sig, umfram öll önnur. Ef
  friður jólanna á að færast inn í okkar heim, inn í landið okkar, inn á
  heimili okkar, þá verðum við að byrja á því að hlúa að fjölskyldunni
  og leggja rækt við það hugarfar og þá siði sem vernda og fóstra
  heilbrigt og hamingjusamt fjölskyldulíf. Allt hitt, sem við lesum um
  kristindóminn, svo sem bænin, guðræknin, hjálpsemin og
  mannkærleikurinn, sprettur af kærleikanum sem við fáum að gjöf í
  fjölskyldunni. Jesús færir heiminum frið, varanlegan frið, en þessi
  friður verður að veruleika eingöngu á vegum fjölskyldunnar. Þetta er
  leiðin sem Frelsarinn valdi.

  Því er í dag tilvalið að þakka Guði af öllu hjarta fyrir gjöf
  fjölskyldunnar. Við megum til með að þakka fyrir allt það sem
  fjölskyldur okkar hafa gefið okkur, allt frá fyrstu dögum ævinnar.
  Væntumþykja, umönnun og kærleikur eru vöggugjöf, bæði frá eigin
  fjölskyldu og einnig frá öðrum fjölskyldum kringum okkur. Ekki verður
  nógsamlega þakkað fyrir það sem feður, mæður og systkini gefa af sér
  til þess að hvert mannsbarn fái að alast upp í hlýju umhverfi og
  upplifi það andrúmsloft kærleikans sem eingöngu fjölskyldan veitir.

  En um leið og við þökkum fyrir það liðna verður okkur einnig hugsað
  til framtíðarinnar, og þar getum við ekki horft framhjá þeim hættum
  sem ógna friðhelgi fjölskyldunnar.

  Vantar ekki eitthvað upp á hjá okkur? Er ekki þörf fyrir það að við,
  sem myndum þetta þjóðfélag, vökum til meðvitundar og setjum aftur
  rétta forgangsröð í lífi okkar? Er ekki kominn tími til að hlúa að
  fjölskyldunni og kenna yngri kynslóðinni að bera djúpa virðingu fyrir
  öllum þeim dyggðum sem nauðsynlegar eru til þess að byggja upp farsælt
  fjölskyldusamfélag? Hvað um hjálpsemi, um fórnfýsi, um örlæti, um
  auðmýkt, um hreinlífi, um virðingu fyrir eigin líkama og líkama
  annarra? Því miður heyrum við miklu oftar að unga fólkið sé hvatt til
  þess að njóta lífsins, jafnvel á kostnað náungans ef þörf krefur, og
  það er blekkt með ýmsum fölskum fyrirheitum. Taumlausu lauslæti og
  lostafullri girnd er gert hátt undir höfði, oft með samþykki
  yfirvalda, án þess að nokkur maður þori að láta til sín heyra og
  mótmæla. Háar fjárhæðir eru lagðar í það að blekkja unga fólkið og
  spilla saklausum sálum.

  En er allt kærleikur sem fær nafnið ást? Lauslæti lítur út eins og
  ást, en er alls óskylt ástinni, rétt eins og falsaður dollaraseðill
  lítur út eins og dollaraseðill en er það ekki, heldur fölsun sem er
  einskis virði. Ást án ábyrgðar, án skuldbindingar, án virðingar
  náungans, er ekki ást heldur fölsun. Ást sem kostar ekki neitt er
  einskis virði, hún er eins og falsaðir peningar, og sá sem vill byggja
  ríkidæmi sitt á fölsuðum peningum er heimskur. Sá sem leitar
  hamingjunnar í taumlausri nautn líkama síns er heimskur, hann fær
  engan kærleika til baka og endar bláfátækur í einsemd sinni. Á ég að
  samþykkja þegjandi þessa fölsun? Nei, takk. Á ég að samþykkja að heil
  kynslóð fari vill vegar og sé vísvitandi svipt þeim réttindum að alast
  upp við dyggðir og virðingu? Nei, takk. Má ég þegja við unga fólkið um
  þau gildi sem mynda grunn fjölskyldunnar? Má ég bannfæra umræðuna um
  hreinlífið, um sakleysið, um það sem göfugt er og fallegt og byggir
  upp ungar sálir? Nei, takk.

  Boðskapur jólanna er skýr, í dag eins og fyrir 2000 árum. Við öll
  þráum frið innst í hjörtum okkar, en þessi friður byrjar í fjölskyldu
  okkar, alveg eins og Jesús Kristur byrjaði endurlausnarverk sitt í
  heilagri fjölskyldu. Móðir Teresa frá Kalkútta sagði oft: Friður í
  heiminum, friður í hjörtum yðar, friður í fjölskyldum yðar: elskið
  litlu börnin. Biðjum litla barnið í Betlehem að hjálpa okkur að opna
  hjörtu okkar fyrir nærveru hans og undrast þetta kraftaverk sem
  fjölskyldan er. Biðjum hann um að helga fjölskyldur okkar, að hjálpa
  þeim að yfirvinna erfiðleika líðandi stundar og láta ekki hugfallast
  þegar sorgin ber að dyrum. Biðjum innilega að nýja árið færi okkur
  hamingju og að fjölskyldur okkar megi vaxa í ást og samlyndi og vera
  okkur öllum griðastaður kærleikans.
  Amen.

  30.12.12

    21:26:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 88 orð  
  Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar, Trúin og menningin

  Stofnandi Domino's Pizza stofnaði kaþólskan háskóla

  Tom Monaghan byrjaði með tvær hendur tómar en er orðinn einn af auðugustu mönnum Bandaríkjanna. Hann stundar líkamsrækt á hverjum degi, fær sér eftirrétt aðeins 11 sinnum á ári og fjármagnaði byggingu Ave Maria háskólans. Um þetta má lesa í nýrri þýðingu Reynis K. Guðmundssonar á greininni "Leiðin til árangurs" sem finna má á vefsetrinu catholica.is, sjá hér: http://www.catholica.is/POLGR.html#LeidinTilArangurs

  Á eftirfarandi YouTube myndskeiði má sjá athyglisvert viðtal við Tom þar sem hann lýsir því hvernig líf hans umbreyttist eftir lestur á bók eftir C.S. Lewis:

  [youtube]BzcvsC-7JCU[/youtube]
  Beinn tengill: http://www.youtube.com/watch?v=BzcvsC-7JCU

    12:09:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 29 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Útvarpsmessa frá Dómkirkju Krists konungs Landakoti

  Í dag, sunnudaginn 30. desember 2012 á hátíð hinnar heilögu fjölskyldu var útvarpað heilagri messu frá Dómkirkju Krists konungs í Landakoti. Upptöku af útvarpsmessunni má finna á vef Ríkisútvarpsins hérna: http://www.ruv.is/sarpurinn/gudsthjonusta-i-domkirkju-krists-konungs-landakotskirkju/30122012-0

  29.12.12

    13:42:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 302 orð  
  Flokkur: Helgir menn

  Hl. Thomas Becket

  Hl. Thomas Becket (f. 1118) var erkibiskup Kantaraborgar frá 1162 til dauðadags, 29. desember 1170. Hann er dýrlingur og píslarvottur Rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem og Anglíkönsku kirkjunnar. Hann var mikill vinur Hinriks II. konungs Englands en eftir að Thomas varð biskup spruttu upp deilur milli þeirra.

  Víg Thomasar Becket

  Misskilin orð Hinriks II. sem hann lét falla í reiði urðu til þess að fjórir riddarar héldu til Kantaraborgar og réðu erkibiskupinum bana í Kantaraborgardómkirkju. Vígið olli mikilli hneykslan um alla hina kristnu Evrópu og var þegar litið svo á að um píslarvætti væri að ræða. Alexander páfi III. tók Thomas í tölu heilagra árið 1173. Konungurinn reyndi að bæta fyrir brot sitt með opinberri píslargöngu um götur Kantaraborgar að gröf píslarvottsins árið 1174.

  Gröfin varð fljótt einn helsti pílagrímastaður Englands á miðöldum. Síðasta ferð Becket til Kantaraborgar var frá Southwark í London og því varð þessi spölur milli borganna tveggja vinsæl pílagrímaleið einkum vegna þess að sama aflát og ívilnanir af kirkjunnar hálfu fengust fyrir hana og ef farið var til erlendra pílagrímastaða svo sem Santiago de Compostela, Landsins helga eða Rómar. Hinar kunnu Kantaraborgarsögur eftir Chaucer frá lokum 14. aldar eru sagðar af hópi pílagríma sem ferðast þessa leið.

  Árið 1220 voru jarðneskar leifar dýrlingsins skrínlagðar í hinni þá nýbyggðu Þrenningarkapellu (Trinity Chapel). Jarðneskar leifar hans voru síðan eyðilagðar árið 1538 samkvæmt fyrirmælum frá Hinriki VIII konungi sem jafnframt bannaði að minnst yrði á dýrlinginn.

  Bandaríska skáldið T.S. Eliot byggði á sögunni um Thomas Becket þegar hann samdi verkið Murder in the Cathedral. Texti sem Eliot var beðinn að fjarlægja úr verkinu var síðar birtur í kvæðinu Burnt Norton.

  [Á vefsíðunni YouTube má finna kvikmyndina St. Thomas a Becket í 15 bútum: http://www.youtube.com/playlist?list=PLECA3B5D22EC6BBD4 viðb. 29.11.2012]

  Endurbirtur pistill sem birtist fyrst á kirkju.net 29.12.2009. Orðalag endurbirtingar var lagfært. Síðari endurbirtingar: 29.12.2011, 29.12.2012.

  RGB tók saman. Heimildir: The Penguin Dictionary of Saints. Butler's Lives of the Saints. Concise Edition og WikiPedia.

  27.12.12

    21:12:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 34 orð  
  Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Bandarískir biskupar kalla á herta vopnalöggjöf og betri heilsugæslu

  Bandarískir biskupar hafa gefið út yfirlýsingar þar sem þeir ákalla löggjafavaldið um að herða skotvopnalöggjöfina þar í landi sem og að auka heilsugæslu fyrir fólk með geðræna erfiðleika. Zenit greinir frá þessu hér: http://www.zenit.org/article-36243?l=english

    21:11:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 6 orð  
  Flokkur: Páfinn

  Benedikt páfi skrifar grein í Financial Times

  25.12.12

    12:43:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 362 orð  
  Flokkur: Trúarleg tónlist og textar

  Nýr íslenskur texti við þekkt erlent lag

  Enska sálmaskáldið William Chatterton Dix (1837-1898) er talsvert þekktur í hinum enskumælandi heimi, kannski fyrst og fremst vegna sálms sem hann orti og sunginn hefur verið við hið þekkta lag Greensleeves. Sálminn orti Dix í kjölfar mikilla veikinda árið 1865 þegar hann var 29 ára gamall. Sálmurinn ber heitið What Child is This? og er hann einkum sunginn um jólaleytið, enda fjallar textinn um fæðingu Jesú Krists, englasöng og fjárhirða sem koma að hylla hið nýfædda barn og konung.

  Íslenski textinn sem hér fer á eftir er ekki sá fyrsti sem sunginn hefur verið við lagið því Frostrósir sungu það við íslenska textann Jólanótt eftir Unni Ösp Stefánsdóttur á hátíðartónleikum í Grafarvogskirkju á árunum 2003-2004 og má finna upptöku af þeim söng á plötunni: „Frostrósir - kirkjan ómar“ frá árinu 2009.

  Sá texti sem hér birtist er tilraun til að komast merkingarlega nær frumtextanum og þeirri hugsun sem birtist hjá William Dix og gæti því hugsanlega hentað til söngs við trúarlegar samkomur þar sem leggja á áherslu á frásögn jólaguðspjallsins. Fyrsta erindi íslenska textans sem hér fer á eftir var saminn nú á Þorláksmessu en síðari tvö erindin á aðfangadagskvöld sl. (2011). Innblástur og löngun til að þýða textann kom eftir að hafa séð sálminn fluttan af kaþólskum systkynahópi á sjónvarpsstöðinni EWTN.

  Í kjöltu móður

  Í kjöltu móður liggur lítið
  barn og höfugt sefur,
  og englakórinn ómþýtt skæra
  hljómaþræði vefur.
  Heill, heill þér Kristi sé
  sem hirðar gæta' og himins vé.
  Hátt, hátt nú hefjum róm
  þig hyllum með lofsöngshljóm.

  Í hreysi lágu hvílir hann
  með hirðum krjúpum, biðjum.
  Við lágan stall má ljóma sjá
  og lausn úr synda viðjum.
  Heill, heill þér aldna orð
  þú býrð oss máltíð
  við himna borð.
  Hátt, hátt þig hófu' á kross,
  þú endurleystir oss.

  Þín hjartans leið, sé honum greið
  þar herrann skaltu krýna.
  Um gæfujól með gulli' á stól
  þú Guði' ei muntu týna.
  Heill, heill þér himna hljóð
  mærin syngur vögguljóð.
  Hátt, hátt þinn heiður ber
  nú gleðin ríkir hér.

  Ísl. texti © Ragnar Geir Brynjólfsson 2011

  Ég óska að lokum lesendum kirkju.net gleðilegra jóla og þakka innlit og góðar kveðjur á árinu sem er að líða.

  [Viðbót við pistilinn á jóladag 2012. Ég breytti lítillega tveimur línum í 2. erindi.]

  Endurbirtur pistill: Birtingar 25.12.2011, 25.12.2012.

  22.12.12

    20:29:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 108 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúarleg tónlist og textar

  Geisladiskur með söngvum Karmelnunna í Hafnarfirði

  Geisladiskur Karmelsystra

  Nýr geisladiskur með söngvum fluttum af Karmelnunnunum í Hafnarfirði kom út s.l. sumar. Vinsamlega hlustið á sýnishorn:

  Sjá ég kem, Drottinn, að gjöra vilja þinn: http://www.karmel.is/audio/07%20Track%207.mp3

  Hræðstu eigi, leggðu á djúpið:
  http://www.karmel.is/audio/10%20Track%2010.mp3

  Tónlist úr myndinni Trúboðið:
  http://www.karmel.is/audio/13%20Track%2013.mp3

  Geisladiskarnir eru fáanlegir í verslun klaustursins sem staðsett er í klaustrinu á Ölduslóð 37 í Hafnarfirði. Þar eru einnig til sölu krossar og helgigripir. Opnunartímar verslunarinnar í klaustrinu eru mán. - laugard. frá 10.00 - 19.30. Einnig er hægt er að panta með tölvupósti eða með því að hringja í síma 555 0378 og fá vörur sendar í póstkröfu.

  Ef pantað er með tölvupósti þá vinsamlega sendið eftirfarandi upplýsingar:

  Fullt nafn móttakanda.
  Heimilisfang.
  Póstnúmer og aðsetur.
  Símanúmer.
  Vörunúmer.

  20.12.12

    17:42:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 11 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Jólin

  Messutímar í kaþólsku kirkjunum um jól og áramót

  Jólamessutímana í kaþólsku kirkjunum má finna á vef kirkjunnar hér: http://www.catholica.is/STimes.html

  19.12.12

    20:32:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 20 orð  
  Flokkur: Páfinn, Trúin og menningin

  Boðskapur páfa fyrir heimsfriðardaginn

  Boðskapur páfa fyrir heimsfriðardaginn 1. janúar 2013 var gerður opinber á Maríumessu, 8. desember sl. og er hann að finna á þessari vefsíðu.

  01.12.12

    19:28:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 96 orð  
  Flokkur: Dulhyggja, Önnur trúarbrögð, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Ástralskur munkur varar við Jóga, Tai Chi og Reiki

  Ástralskur La Salle munkur Max Sculley, hefur skrifað bók með titlinum "Yoga, Tai Chi, Reiki: A Guide for Christians". Í bókinni færir hann rök fyrir því að þessar leiðir geti verið varasamar því breytt stig meðvitundar geti opnað á undirliggjandi veilur og einnig fyrir hættum andaheimsins. Sjá frétt Zenit um bókina hér: http://www.zenit.org/article-36066?l=english og einnig ávarp bróður Sculley á vefsetrinu YouTube hér:

  [youtube]htK2lg-E6Rk[/youtube]
  Beinn tengill: http://www.youtube.com/watch?v=htK2lg-E6Rk

  Bókin er gefin út af Connor Court Publishing og hægt er að kaupa hana á vefsetrinu http://www.mustardseed.org.au. Á eftirfarandi tengli er hægt að sjá yfirlýsingu bandarískra biskupa um reiki: http://old.usccb.org/doctrine/Evaluation_Guidelines_finaltext_2009-03.pdf

  30.11.12

    19:15:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 144 orð  
  Flokkur: Lífsvernd, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Umræða á Írlandi vegna andláts móður í kjölfar fósturláts

  Mikil umræða hefur átt sér stað á Írlandi og víðar undanfarna daga vegna dauða ófrískrar konu Savita Halappanavar sem lést að sögn vegna þess að henni var neitað um fósturdeyðingu. The Irish Times greindi fyrst frá þessu máli í frétt 14. nóv. sl. Síðan þá hefur fréttin vakið mikil viðbrögð eins og sjá má hér. Írskir biskupar gáfu út yfirlýsingu vegna málsins þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram : "Kaþólska kirkjan hefur aldrei kennt að líf fósturs eigi að vera rétthærra en móðurinnar. Vegna mennsku sinnar njóta bæði móðir og ófætt barn hennar helgi og hafa jafnan rétt til lífs". Búið er að fyrirskipa rannsókn í málinu og beðið er niðurstaðna rannsóknarskýrslunnar.

  Í eftirfarandi sjónvarpsumræðu er m.a. tekist á um það hvort reglur um hvað gera skuli á Írlandi í tilfellum sem þessum séu nægilega skýrar.

  [youtube]w3eGa2YNAj0[/youtube]
  Beinn tengill: http://www.youtube.com/watch?v=w3eGa2YNAj0

  Yfirlýsing Írskra biskupa um málið:
  http://www.catholicbishops.ie/2012/11/19/statement-standing-committee-irish-catholic-bishops-conference-equal-inalienable-life-mother-unborn-child/

  29.11.12

    20:22:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 125 orð  
  Flokkur: Trúarleg tónlist og textar

  Nýr geisladiskur tileinkaður heilagri Maríu

  Geisladiskur helgaður hl. Maríu

  Sópransöngkonan Gréta Hergils Valdimarsdóttir hefur gefið út sólódisk sem tileinkaður er heilagri Maríu og móðurhlutverkinu. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins [1] 27. nóv. sl. á bls. 24 og einnig í þessari frétt DV[2]. Á diskinum eru ellefu lög tileinkuð hl. Maríu eftir Franz Schubert, Sigvalda Kaldalóns, Bach-Gounod, Mascagni, Vavilov, Jónas Þóri og Atla Heimi Sveinsson auk fleiri höfunda.

  Í fréttunum kemur fram að Gréta hefur haldið nokkra „Ave Maríutónleika“ í kirkjum landsins á undanförnum árum. Hún kveðst hafa fengið innblástur frá móður sinni, Fanný Jónmundsdóttur listakonu sem hélt sýningu á Maríumósaíkmyndum fyrir ellefu árum. Hægt er að sjá upplýsingar um nýja geisladiskinn á Facebook hér: http://www.facebook.com/GretaHergilsAveMaria?fref=ts.

  Hægt er að heyra tóndæmi af geisladiskinum á eftirfarandi YouTube tengli:

  [youtube]ic1QstVET3Y[/youtube]

  Bein slóð: http://www.youtube.com/watch?v=ic1QstVET3Y

  [1] http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/121127.pdf, bls. 24 undir Menning.
  [2] http://www.dv.is/menning/2012/11/22/helgar-gudsmodur-hljoddisk/
  [3] http://www.visir.is/greta-hergils-med-utgafutonleika-annad-kvold/article/2012121129245

  17.11.12

    06:01:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 53 orð  
  Flokkur: Helgir menn, Trúarleg tónlist og textar

  Caritas abundat: Hörpuleikur- og söngur

  Í síðasta mánuði var Hildegard frá Bingen formlega tekin í tölu heilagra og útnefnd kirkjufræðari af Benedikt páfa XVI. Finna má þýðingu af ávarpinu sem hann flutti við það tækifæri hér. Á eftirfarandi YouTube tengli er myndskeið þar sem Jillian LaDage syngur eigið lag við sálm Hildegard Caritas Abundat:

  [youtube]4fBv6_WlP_I[/youtube]
  Beinn tengill: http://www.youtube.com/watch?feature=endscreen&NR=1&v=4fBv6_WlP_I

  16.11.12

    19:07:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 48 orð  
  Flokkur: Lífsvernd, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  „Þögnin rofin“ - nokkrir vitnisburðir gegn fósturdeyðingum

  Hér eru nokkrir athyglisverðir vitnisburðir fólks sem hefur reynslu af fósturdeyðingum. Þetta eru persónulegar og áhrifamiklar frásagnir sem enginn sem hefur áhuga á þessu málefni ætti að láta framhjá sér fara. Sjá myndskeiðið:
  [youtube]q4zRz4IJK3A[/youtube]

  Bein vefslóð á YouTube: http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=q4zRz4IJK3A
  Vefslóð samtakanna „Þögnin rofin“ (e. Silent no more): http://www.silentnomoreawareness.org

  13.11.12

    20:25:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 226 orð  
  Flokkur: Fjölmiðlarýni, Helgir menn

  Bók um andlega hjálp vegna kynferðisníðs

  Áðan fylgdist ég með athyglisverðum þætti á EWTN sjónvarpsstöðinni en þar sagði bloggarinn og fyrrum gyðingurinn Dawn Eden frá leið sinni til Kaþólsku kirkjunnar. Hún sagði einnig frá bók sem hún hefur skrifað um
  andlega hjálp fyrir fullorðna sem hafa upplifað kynferðisníð í æsku eða aðra illa meðferð. Bókin heitir My Peace I Give You: Healing Sexual Wounds with the Help of the Saints og er fáanleg hjá bókaversluninni Amazon, en á vef Amazon er þessi umsögn um bók hennar sem hljóðar svo í lauslegri þýðingu:

  "Í bókinni notar Dawn sögu sína til að kynna fjölda heilags fólks eins og Laura Vicuna, Thomas Aquinas og Bernard frá Clairvaux sem þjáðust vegna kynferðisníðs- eða misnotkunar. Hún fjallar einnig um Ignatius Loyola sem þjáðist vegna illrar meðferðar og þess að vera yfirgefinn.

  Lesendur sem leita heilunar finna þar frásagnir af dýrlingum með sár eins og þeirra og kynnast sögum sem bera vitni umbreytandi náð. Eden kannar mismunandi víddir hinnar himnesku náðar, verndandi, sameinandi, hreinsandi, o.s.frv. til að hjálpa þeim sem þjáðust vegna kynferðisníðs í æsku að skilja sérkenni sín með hjálp kærleika Krists."

  Þegar þetta er skrifað er bók Eden númer tvö á metsölulista yfir best seldu bækurnar í flokknum "Gender & Sexuality in Religious Studies", sjá hér: http://www.amazon.com/gp/bestsellers/books/271630011

  Þáttinn með viðtalinu við Dawn Eden má finna í heild sinni á YouTube vefsetrinu hér:
  [youtube]GDep1lqPDs0[/youtube]
  Beinn tengill: http://www.youtube.com/watch?v=GDep1lqPDs0

  07.11.12

    05:35:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 80 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Fagráð gegn kynferðisofbeldi skipað

  Pétur Bürcher biskup hefur skipað fagráð sem á m.a. að veita álit um bótarétt þolenda kynferðisofbeldis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem gefin var út í fyrradag 5. nóv.

  Slóðin á fréttatilkynninguna er: http://www.kirkju.net/media/Fr.pdf.

  Í fagráðinu sitja Eiríkur Elís Þorláksson hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík en hann gegnir formennsku í ráðinu, April Frigge mannfræðingur og Skúli Guðmundsson lögfræðingur.

  Fagráðið á einnig að koma með tillögur um hvernig kirkjan geti breytt starfsháttum sínum í ljósi nýútkominnar skýrslu Rannsóknarnefndar kirkjunnar.

  03.11.12

    15:41:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 41 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Skýrsla Rannsóknarnefndarinnar komin á netið

  Skýrsla Rannsóknarnefndar Kaþólsku kirkjunnar er komin á netið og hægt er að nálgast hana hér á þessum tengli: http://kirkju.net/media/Skyrsla.pdf

  Vefur kirkjunnar var óvirkur vegna bilunar og ég bauð vefumsjónarmanninum að birta hana hér til að hún gæti komið fyrir almennings sjónir.

  02.11.12

    19:50:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 541 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Viðbrögð við birtingu skýrslu Rannsóknarnefndar Kaþólsku kirkjunnar

  Eftirfarandi pistill inniheldur óstytta yfirlýsingu Péturs Bürcher biskups kaþólsku kirkjunnar í tilefni af birtingu rannsóknarskýrslunnar og efni hennar:
  --
  "Skýrsla íslenskrar rannsóknarnefndar Kaþólsku kirkjunnar, sem Reykjavíkurbiskup stofnaði 29. ágúst 2011, í samræmi við verklagsreglur að tillögu Róberts Spanó prófessors, var birt í dag.

  Nefndin vann að þessu verki til októberloka 2012. Hlutverk hennar var að rannsaka á hlutlægan hátt hvernig yfirvöld Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hafa tekið á tilvikum um kynferðislega misnotkun og ofbeldi í fortíðinni og hvaða aðgerðum hún leggur til að beitt verði í framtíðinni. Frá því að nefndin tók til starfa árið 2011 og fram til þessa dags hafa biskupinn og samstarfsmenn hans, m.a. Séra Jakob Rolland, Friðjón Örn Friðjónsson hrl. Og Hjálmar Blöndal hdl., veitt nefndinni allar nauðsynlegar og umbeðnar upplýsingar. Enn fremur hefur nefndin haft fullkomið frelsi til að ræða við fjölda fólks. Skýrslan, eins og frá henni hefur verið gengið, er algerlega á ábyrgð nefndarinnar. Hún þiggur laun fyrir störf sín frá Kaþólsku kirkjunni samkvæmt undirrituðum samningi frá því í fyrra.

  Yfirvöld Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hafa í dag fengið í hendur skýrslu nefndarinnar. Þau munu kynna sér hana, einkum ásakanir um misnotkun sem talið er að orðið hafi frá árinu 1960, sem og það sem nefndin leggur til hvað framtíðina snertir. Biskuparnir hafa gripið til ýmissa aðgerða fyrr sem nú. Pétur biskup hefur einnig gripið til allra nauðsynlegra ráðstafana til að taka á móti þeim fórnarlömbum sem þess óska og fylgja þeim eftir. Biskupinn mun stofna fagráð sem sinna mun sérhverri skriflegri fyrirspurn. Allur sannleikurinn verður að koma í ljós. Pétur Bürcher biskup tók á móti ásakendum árið 2010, rannsakaði málin enn frekar og ritaði þeim einnig margsinnis perśónuleg bréf. Hann sendi fjölmiðlum einnig ýmsar upplýsingar árið 2011.

  Í nafni Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, sem og persónulega, leitar hugur minn til allra þeirra sem telja að á sér hafi verið brotið og einnig til fjölskyldna þeirra. Þá verður að veita okkur, og ef til vill réttarkerfinu, nauðsynlegan tíma og ráð til að komast að niðurstöðu. Enginn hefur rétt til að kveða fyrirfram upp dóma um sekt og sýknu manna. Hin hörmulega misnotkun á börnum frá hendi kristinna manna, einkum manna úr klerkastétt, veldur mikilli skömm og óskaplegri hneykslun. Forsvarsmönnum ber brýn nauðsyn og skylda til þess að biðjast afsökunar. Það geri ég hér með í fullkominni auðmýkt andspænis þeim persónum sem í raun eiga hér hlut að máli. Það sagði ég einnig opinberlega í fyrra.

  Kaþólska kirkjan á Íslandi mun grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir kynferðislega misnotkun í framtíðinni. Hún mun starfa samkvæmt gildandi reglum á Íslandi og í samræmi við alþjóðleg lög kirkjunnar. Hún hefur sett sérstakar forvarnarreglur og starfar að auki með íslenskum yfirvöldum sem og öðrum kirkjum í samkirkjulegum anda samstöðu og einingar. Loks ber að benda á sömu viðleitni Kaþólsku kirkjunnar um heim allan, einkum á síðustu árum, sem beinist að því að skapa öruggara umhverfi handa börnum. Einnig á Íslandi beinast gerðir og bænir kirknanna nú á tímum æ meir að því að skapa nýja menningu virðingar, heiðarleika og kærleika að fyrirmynd Krists meðal allra, og að það nái að breiðast út um allt hið íslenska samfélag. Það er mjög áríðandi og mikilvægt að við vinnum öll saman, biðjum, fyrirgefum og vonum. Til þess erum við reiðubúin.

  + Pétur Bürcher, biskup
  2. nóvember 2012"

  --
  Heimild: http://www.mbl.is/media/89/5489.pdf

    16:58:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 195 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Rannsóknarnefndin birtir skýrsluna - yfirlit yfir fréttir á vefmiðlum

  Greint hefur verið frá því í dag í fjölmiðlum að Rannsóknarnefnd Kaþólsku kirkjunnar sem skipuð var á síðasta ári hafi haldið blaðamannafund í dag kl. 10.30 og kynnt niðurstöður rannsókna sinna í skýrslu. Þar sem skýrslan var ekki birt á rafrænu formi og er ekki komin á netið eru hér tíndir til nokkrir tenglar þar sem greint er frá efni skýrslunnar:


  Morgunblaðið fjallar um þetta á sérstökum stað undir Málefni - Innlent: http://www.mbl.is/frettir/knippi/3020/. Þar er að finna eftirfarandi fyrirsagnir og fréttir:
  Kirkjan grípur til ráðstafana: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/11/02/kirkjan_gripur_til_radstafana/.
  Biskup kaþólskra lét eyðileggja bréf: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/11/02/biskup_let_eydileggja_bref/.
  Kaþólska kirkjan tók þátt í þöggun: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/11/02/katholska_kirkjan_tok_thatt_i_thoggun/. Leituðu til læknis vegna andlegs ofbeldis: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/11/02/leitudu_til_laeknis_vegna_andlegs_ofbeldis/.
  Hafa ekki birt skýrsluna á netinu: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/11/02/hafa_ekki_birt_skyrsluna_a_netinu/

  Yfirlýsing Péturs biskups Kaþólsku kirkjunnar vegna málsins er að finna hér: http://www.mbl.is/media/89/5489.pdf

  Í gær birtist þessi frétt á mbl.is: Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar skilar skýrslu:
  http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/11/01/rannsoknarnefnd_katholsku_kirkjunnar_skilar_skyrslu/

  RÚV greinir frá þessu í dag á eftirfarandi stöðum:
  Beittu nemendur grófu ofbeldi:
  http://www.ruv.is/frett/beittu-nemendur-grofu-ofbeldi
  Átta hafi sætt kynferðisofbeldi:
  http://www.ruv.is/frett/atta-hafi-saett-kynferdisofbeldi
  Áfellisdómur yfir kaþólsku kirkjunni:
  http://www.ruv.is/frett/afellisdomur-yfir-katholsku-kirkjunni
  Kirkjan vanrækti skyldur sínar:
  http://www.ruv.is/frett/kirkjan-vanraekti-skyldur-sinar
  Lýst sem sálarmorðingjum
  http://www.ruv.is/frett/lyst-sem-salarmordingjum

  Vefritið Smugan greinir frá þessu hér: Hörmuleg misnotkun á börnum:
  http://smugan.is/2012/11/hormuleg-misnotkun-a-bornum-skyrsla-rannsoknarnefndar-katholsku-kirkjunnar-gerd-opinber/

  DV greinir frá þessu hér:
  Þöggun innan kaþólsku kirkjunnar:
  http://www.dv.is/frettir/2012/11/2/thoggun-innan-katholsku-kirkjunnar/
  Margrét var "hreinræktaður sadisti":
  http://www.dv.is/frettir/2012/11/2/margret-var-hreinraektadur-sadisti/

  21.10.12

    07:27:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1679 orð  
  Flokkur: Helgir menn

  Hildegard frá Bingen tekin í tölu heilagra í dag 21. október

  Í dag, sunnudaginn 21. október 2012 verður Hildegard frá Bingen tekin í tölu heilagra. Af þessu tilefni er viðeigandi að minnast hennar með einhverju móti. Páfi útnefndi hana kirkjufræðara hinn 7. okt. síðastliðinn og flutti þá erindi þar sem hann fór yfir störf hennar. Hér á eftir fer útdráttur úr erindi Páfa þar sem helstu atriðin eru tekin saman.

  Hildegard frá Bingen

  Athugið að ekki er um samfellda og nákvæma textaþýðingu að ræða og á nokkrum stöðum eru innskot sett til að auðvelda íslenskum lesendum lesturinn og ná betra merkingarlegu samhengi. Um öll vafaatriði þýðingarinnar vísast að sjálfsögðu í frumtextann finna má á tengli neðarlega í færslunni. "Hildegard frá Bingen fæddist árið 1098 sennilega í Bermersheim í Rínarlöndum skammt frá Alzey. Hún náði 81 árs aldri og dó árið 1179 þrátt fyrir að hafa verið heilsuveil alla ævi. Hún fæddist inn í stóra aðalsmannafjölskyldu og foreldrar hennar tileinkuðu ævi hennar þjónustu við Guð. Þegar hún var átta ára gömul byrjaði formlegur undirbúningur hennar fyrir klausturlífið samkvæmt ákvæðum reglu Hl. Benedikts.

  Til að tryggja að hún fengi viðeigandi almenna og kristna menntun var henni komið fyrir í umsjón ekkjunnar Uda frá Gölklheim sem tekið hafði regluvígslu og síðar hjá Jutta frá Spanheim sem var nunna við Benediktínaklaustrið í St. Disibodenberg. Lítið nunnusamfélag var að þróast þar sem fylgdi reglu Hl. Benedikts. Hildegard var vígð af Otto biskupi af Bamberg og árið 1136 þegar Móðir Jutta, sem þá var orðin príorinna, dó kusu systurnar Hildegard príorinnu. Hún rækti skyldur sínar sem príorinna vel og hæfileikar hennar sem klausturstjórnanda komu fljótt í ljós.

  Nokkrum árum síðar, að hluta til vegna mikillar aðsóknar kvenna að reglunni, flutti hún nunnusamfélagið frá áhrifavaldi munkaklaustursins í Disibodenburg og fór með það til Bingen. Hún helgaði klaustrið þar hl. Rupert og dvaldi þar til æviloka. Stjórnunarstíll hennar gæti verið fyrirmynd hverrar trúarreglu. Hún var leiðarljós í heilagleika og góðverkum og kepptu nunnurnar hver við aðra í dyggðum og þjónustu hver við aðra.  

  Þegar hún var príorinna klaustursins í Disibodenberg byrjaði hún að segja frá dulrænni reynslu, vitrunum eða leiðslusýnum sem hún upplifði. Hún greindi aðeins munknum Volmar, andlegum leiðbeinanda sínum frá þessu sem og ritara sínum, nunnu að nafni Richardis di Strade sem hún treysti vel. Eins og gerist alltaf í lífi þeirra sem upplifa sanna dulræna reynslu vildi hún leggja frásögn sína í dóm yfirvalda kirkjunnar til að sannprófa uppruna fyrirbæranna. Hún óttaðist að um hugarburð væri að ræða og að þetta væri ekki frá Guði komið. Hún leitaði því til manns sem naut mikillar virðingar í kirkjunni á þessum tíma: Hl. Bernard af Clairvaux. Hl. Bernard róaði og hughreysti Hildegard.

  Árið 1147 fékk hún aðra og mjög mikilvæga viðurkenningu í kjölfar þess að Eugene III páfi, sem var viðstaddur kirkjuþing í Trier, fékk að sjá texta með frásögn af einni af leiðslusýnum hennar. Páfi gaf Hildegard fyrirmæli um að skrá sýnir sínar og að gera þær lýðum ljósar.

  Hildegard frá Bingen

  Frá þeirri stundu óx hið andlega álit hennar svo mjög að sumir samtímamanna hennar nefndu hana "Tevtónsku spákonuna". Þetta, kæru vinir, er innsigli sannrar upplifunar hins Heilaga Anda sem er uppruni allra náðargjafa: Manneskjan sem þiggur hinar yfirnáttúrulegu gjafir stærir sig aldrei af þeim, flíkar þeim ekki og framar öllu sýnir hinu kirkjulega yfirvaldi fulla hlýðni [því] sérhver gjöf sem gefin er af Heilögum Anda er ætluð til að styrkja kirkjuna og kirkjan í gegnum leiðtoga sína þekkir uppruna gjafanna. Þessi mikla kona, þessi "spámaður" talar líka til okkar í dag, í styrk sínum að greina tákn tímans, í kærleika sínum til sköpunarinnar, í læknislist sinni, í skáldskap sínum, í tónlist sinni sem í dag hefur verið endurgerð, í kærleika sínum til Krists og til kirkju hans, sem á þeim tíma þjáðist einnig vegna synda bæði presta og leikmanna. [...]

  Hinar dulrænu sýnir Hildegard líkjast sýnum spámanna Gamla Testamentisins. Hún tjáir sig innan menningarlegs og trúarlegs ramma samtíma síns, hún túlkar helga ritningu í ljósi Guðs og beitir túlkun sinni á aðstæður lífsins. Þetta hafði í för með sér að áheyrendur hennar fundu fyrir þörf að haga breytni sinni samkvæmt stöðugum og einbeittum kristnum lífsstíl. Í bréfi til Hl. Bernards játar hún: "Sýnin hrífur alla verund mína, ég sé ekki með augum líkamans en hún birtist mér í anda dulspeki ... Ég ber kennsl á hina djúpu merkingu þess sem er sett fram í Sálmunum, í Guðspjöllunum og í öðrum bókum [biblíunnar] sem mér hafa verið sýndar í sýninni. Sýnin brennur eins og eldur í brjósti mér og í sál minni og leiðbeinir mér til djúps skilnings á textanum." (Epistolarium pars prima I-XC: CCCM 91).

  Sýnir Hildegard hafa ríkar guðfræðilegar skírskotanir. Þær vísa til mikilvægra þátta í sögu frelsunarinnar og tungumál þeirra er ljóðrænt og táknrænt. Til dæmis í helsta verki hennar Scivias sem þýðir "Þú þekkir leiðirnar" tekur hún saman í 35 sýnum atburði úr frelsunarsögunni allt frá sköpun heimsins til endaloka tímans. Með kvenlegri næmni þróar Hildegard kjarna verks síns en það er leiðarstefið um hið leyndardómsfulla brúðkaup Guðs og mannkyns sem birtist í Holdtekjunni. [Holdtekju Krists Aths. þýð.] Á krosstrénu á sér stað brúðkaup Sonar Guðs og Kirkjunnar, brúðar hans, fyllt náð og þeim eiginleika að gefa Guði ný börn, í Heilögum Anda (Visio tertia: PL 197, 453c).

  Af þessum stuttu tilvísunum sjáum við að guðfræðin getur lært af framlagi kvenna því þær geta talað um Guð og leyndardóma trúarinnar í ljósi sinnar sérstöku greindar og næmleika. [...] Dulspekingurinn frá Rínarlöndum er líka höfundur annarra verka sem innihalda eins og Scivias frásagnir af dulsýnum hennar. Þau eru Liber vitae meritorum (Bók lífsdyggðanna) og Liber divinorum operum (Bók hinna himnesku verka), líka nefnd De operatione Dei. Í fyrra verkinu minnir hún okkur á að öll sköpunin þiggur líf frá Þrenningunni. Verkinu er beint að sambandinu milli dyggða og lasta og útskýrir af hverju menn verða að ganga á hólm við lestina dag hvern, lestina sem fjarlægja þá frá Guði og dyggðinni sem er þeim til góðs. Ávinningurinn er að fjarlægja sjálfa sig frá illu til þess að gefa Guði dýrð og eftir dyggðuga tilveru ganga inn í líf sem er fylling gleði.

  Í síðara verkinu sem margir álíta vera meistaraverk hennar lýsir hún á nýjan leik sköpunarverkinu og sambandi þess við Guð, hún lýsir þungamiðju mannlegrar tilveru og ber fram Krist-miðaða [guðfræði] með biblíulegum og fræðimannlegum blæ, þar segir frá fimm sýnum innblásnum af anda Jóhannesarguðspjalls. Í öðrum verkum sínum tekur Hildegard fyrir ýmisleg áhugaverð atriði og menningarlegan fjölbreytileika sem einkenndi nunnuklaustur miðalda. Þetta gerir hún á þann hátt að það myndar sterka andstæðu við fordóma sem enn eru til staðar gagnvart þessu tímabili.

  Hún hafði áhuga á læknislist, náttúruvísindum sem og tónlist því hún hafði listræna hæfileika. Hún orti lofgerðarsálma, víxlsöngva og söngva sem safnað var saman undir titlinum Symphonia Harmoniae Caelestium Revelationum (Samhljómssynfónía hinna himnesku opinberana). Tónlist þessi var flutt í klaustrum hennar og breiddi út anda friðsældar sem hefur borist til okkar. Fyrir hana sjálfa var allt sköpunarverkið symfónía hins Heilaga Anda sem í sjálfum sér er fögnuður og gleði. Vinsældirnar sem Hildegard naut urðu til þess að margir leituðu ráða hjá henni. Vegna þess eru mörg bréf frá henni varðveitt.

  Mörg karla- og kvennaklaustur leituðu til hennar, sem og biskupar og ábótar og mörg andsvara hennar geta átt við okkur. Til dæmis þessi orð sem hún skrifaði til nunnusamfélags: "Hið andlega líf verður að rækta af mikilli skyldurækni. Til að byrja með er það byrði því það kallar á afneitun lystisemda holdsins og þess háttar hluta. En ef hún [sál nunnunnar] lætur hrífast af heilagleikanum mun hinni heilögu sál finnast að jafnvel fyrirlitning á heiminum sé sæt og elskuverð. Allt sem þarf er að sjá um að sálin missi ekki kjarkinn. " (E. Gronau, Hildegard. Vita di una donna profetica alle origini dell'età moderna, Milan 1996, p. 402).  

  Þegar keisarinn Frederic Barbarossa kom af stað klofningi í kirkjunni með því að styðja þrjá andpáfa gegn Alexander III hinum lögmæta páfa, hikaði Hildegard ekki, hvött áfram af sýnum sínum að minna hann á að jafnvel hann, keisarinn væri undirorpinn dómi Guðs. Í algeru óttaleysi sem einkennir góða spámenn skrifaði hún þessi orð til hans, eins og þau væru töluð af Guði: "Þig mun iðra þessarar illu guðlausu hegðunar sem ég fyrirlít! Hlustaðu Ó þú konungur, ef þú vilt lifa! Ella mun sverð mitt nísta þig" (ibid., p. 412).

  Í krafti hina andlegu yfirburða sem henni voru gefnir lagði Hildegard upp í ferðir á síðustu árum ævinnar. Þetta gerði hún þrátt fyrir hækkandi aldur og það hve ferðalög voru óþægileg [á þessum tíma]. Tilgangurinn var að tala til þjóðar Guðs [kirkjunnar]. Fólkið hlustaði viljugt, jafnvel þegar orð hennar voru hörð. Hún var álitin sendiboði Guðs. Fyrst og fremst hvatti hún klausturreglurnar og klerkastéttina til að lifa í samræmi við köllun sína. Á sérstakan hátt stóð hún þannig í vegi fyrir hinni þýsku hreyfingu cátari [Katara]. Katari þýðir bókstaflega "hreinn" og hreyfing þeirra stefndi á róttæka umbyltingu kirkjunnar og henni var séstaklega beint gegn spillingu klerkastéttarinnar. Hildegard ávítaði þá fyrir að reyna að breyta grundvelli kirkjunnar og minnti þá á að sönn endurnýjun kirkjulegra samfélaga fæst aðeins með einlægum anda iðrunar og með því að fara fram á að fólk snúi sér til trúarinnar, fremur en með því að breyta forminu. Þetta eru boð sem við ættum aldrei að gleyma.

  Við skulum alltaf ákalla Heilagan Anda að hann uppljómi innan kirkjunnar heilagar og hugrakkar konur eins og heilaga Hildegard frá Bingen, sem eins og hún þrói gjafir Guðs og beri fram sitt eigið sérstaka og dýrmæta framlag til andlegrar þróunar samfélaga okkar og Kirkjunnar á okkar tímum. "

  Hér lýkur þessari lauslegu þýðingu á erindi Benedikts páfa sem finna má í heild sinni á eftirfarandi vefslóð. http://en.radiovaticana.va/articolo.asp?id=627721

  Áður en sagt er skilið við Hildegard frá Bingen er rétt að taka fram að tónsmíðar hennar sem Páfi minntist á hér að framan gerðu það að verkum að nafni hennar er haldið á lofti innan tónlistarsögunnar. Hún samdi langar sekvensur, bæði texta og tónlist og einnig helgileiki. Hún er eitt af fyrstu nafngreindu tónskáldum sem sögur fara af sem samdi sjálfstæða tónlist. Á undirsíðu vefsetursins www.hildegard.org má t.d. finna þessa síðu sem fjallar sérstaklega um tónsmíðar hennar: http://www.hildegard.org/music/music.html

  Á eftirfarandi YouTube tengli má finna upptöku af sálmi eftir Hildegard: Caritas abundat in omnia:

  [youtube]Vv3CDYpkrSw[/youtube]
  Beinn tengill: http://www.youtube.com/watch?v=Vv3CDYpkrSw

  RGB

  05.10.12

    16:46:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 74 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Kaþólsk kapella vígð á Höfn í Hornafirði

  Laugardaginn 8. september sl. var kaþólsk kapella við Hafnarbraut 40, Höfn í Hornafirði vígð. Myndir frá undirbúningnum sem og vígslunni sjálfri þar sem herra Pétur Burcher biskup leiðir athöfnina má finna á vefsetri Þorlákssóknar www.thorlakur.com, smellt er á "Myndir". Einnig er hægt að komast á myndasíðuna með því að smella á eftirfarandi tengil:

  http://www.thorlakur.com/src/themes/classic/galhorf.html

  Þessar fréttir og myndir frá Höfn eru gleðilegar og ég nota tækifærið og sendi kaþólskum á svæðinu hamingjuóskir með nýju kapelluna.

  RGB.

  25.08.12

    13:37:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 106 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Altarissakramentið

  Þátturinn "Bankað upp á" hjá Karmelsystrum í Hafnarfirði

  Þátturinn "Bankað upp á" á RÚV Rás 1 á þriðjudaginn var, 21. ágúst sl. var að þessu sinni helgaður heimsókn í Karmelklaustrið í Hafnarfirði. Í pistli sem ber heitið Köllunin er forsendan segir svo á vef RÚV:

  Köllunin er forsenda þess að ganga í klaustur og hana eiga Karmelsystur sameiginlega. Þær biðja fyrir fólki og margir hafa samband við þær og biðja systurnar um að biðja fyrir þeim sem eiga um sárt að binda. Í þættinum Bankað upp á heimsækir Erla Tryggvadóttir [..] vinnustaði af ýmsum stærðum og gerðum.

  Þar kemur einnig fram að þátturinn verður endurfluttur á mánudaginn kemur. Upptöku af þættinum má finna á eftirfarandi vefslóð:

  http://www.ruv.is/sarpurinn/bankad-upp-a/21082012-0

  10.08.12

    17:37:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 87 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  57% Íslendinga telja sig trúaða, 17% fækkun síðan 2005

  Í nýrri alþjóðlegri Gallup könnun, "Global index of religion and atheism" kom í ljós að 57% íslendinga telja sig trúaða og hefur þetta hlutfall minnkað um 17% hérlendis síðan 2005. Þetta er 6. mesta minnkun á fjölda trúaðra á heimsvísu. Ísland kemur þar á eftir Víetnam, Írlandi, Frakklandi, Sviss og Suður-Afríku.

  Á Írlandi er fækkun trúaðra 22% frá 2005. Erkibiskup Íra sagði að kaþólska kirkjan gæti ekki gert ráð fyrir því að trúin flyttist sjálfkrafa milli kynslóða og að könnunin minnti á nauðsyn öflugrar trúfræðslu í þessu sambandi. [1]

  Könnunin á pdf sniði: http://redcresearch.ie/wp-content/uploads/2012/08/RED-C-press-release-Religion-and-Atheism-25-7-12.pdf

  06.08.12

    18:41:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 224 orð  
  Flokkur: Helgir menn, Altarissakramentið, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Maríulegíónin og Frank Duff stofnandi hennar

  Áðan horfði ég á fróðlegt viðtal á EWTN sjónvarpsstöðinni við andlegan leiðtoga Maríulegíónarinnar sem er heiti samtaka sem störfuðu hérlendis, fyrst á 6. áratugnum líklega og svo aftur á 8.-10. áratugnum. Í síðara skiptið var helsta verkefni samtakanna að aðstoða föður Róbert Bradshaw og þá einkum við uppbyggingu Maríukirkjusóknar í Breiðholti en það starf náði hámarki um og eftir miðjan 9. áratuginn.

  Auk þess að stofna Maríulegíónina árið 1921 stofnaði Frank Duff tvö athvörf í Dublin á Írlandi. Eitt fyrir utangarðsfólk og annað fyrir einstæðar mæður. Hann stofnaði einnig tvö félög, eitt sem hafði samkirkjulegar viðræður við aðra kristna söfnuði að markmiði og annað sem hafði viðræður við gyðinga að markmiði.

  Guðfræði Frank Duff bar á góma. Hann aðhylltist guðfræði hl. Montforts og einnig hugmyndina um mögulegan heilagleika allra manna, sem er hugmynd sem síðar kom fram á 2. Vatíkanþinginu. Rit Franks "Can we be Saints?" var gefið út í Dublin árið 1958. Í þessu sambandi minnti viðmælandinn á að Jesús Kristur sjálfur tók fyrstur mann í heilagra manna tölu en það var góði ræninginn sem hann sagði að yrði með sér í Paradís. Fyrst ræninginn gat átt von á heilagleika hví ættu þá aðrir ekki að eiga von?

  Viðmælandinn minnti einnig á að í gangi er ferli sem hefur viðurkenningu á heilagleika Frank Duff að markmiði. Upplýsingar um Frank Duff má finna hér og heimasíða Maríulegíónarinnar er hér: http://www.legionofmary.ie/

  04.08.12

    07:36:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1254 orð  
  Flokkur: Helgir menn, Dulhyggja

  Hl. Jóhann María Vianney verndardýrlingur sóknarpresta

  Fjórða ágúst er minning hl. Jóhanns María Vianney prests en hann er verndardýrlingur sóknarpresta. Í því tilefni er hér endurbirtur pistill sem birtist áður þennan dag árið 2006:

  I
  Jóhann María Vianney fæddist í Dardilly nálægt Lyon árið 1786, sonur fátæks bónda. Prestsnám hans spannaði árin 1806 til 1815 að vísu með fjórtán mánaða hléi þegar hann fyrir mistök var eftirlýstur fyrir liðhlaup og varð að fara í felur. Oft lá nærri að hann næðist. Einu sinni faldi hann sig í heybing og sverðsoddur leitarmanns stakkst á milli rifja hans. Þetta mál komst á hreint og hann gat haldið áfram að læra. Námið sóttist honum mjög seint. Hann var ómögulegur í latínu og því fékk hann ekki inngöngu í prestaskólann í Lyon, en gamall sóknarprestur tók hann í einkakennslu, því guðsótti og góðmennska Jóhanns sannfærði gamla prestinn um hæfileika hans til prestsskapar.

  Tuttugu og níu ára var hann vígður, meira vegna grandvars lífernis, og persónulegra dyggða heldur en frammistöðu í námi. Fljótlega var hann sendur sem sóknarprestur til Ars-en-Dombes, tvö hundruð og fimmtíu manna sveitaþorps um það bil fjörutíu kílómetra fyrir norðan Lyon.

  Hann lifði miklu bæna- og meinlætalífi, auk þess sem hann þrælaði sér út í prestsstarfinu. Hann nærðist rétt nægilega mikið til að halda lífi. Fyrstu sex árin borðaði hann að sögn lítið annað en soðnar kartöflur. Í frítíma sínum fór hann út í kirkjuna. Ars hafði um tíma verið þjónað frá næstu sókn, og kirkjuna þar sóttu í byrjun aðeins nokkrar eldri konur. En smátt og smátt varð áhrifa sóknarprestsins vart. Óþörf sunnudagsvinna, drykkjuskapur, formælingar og dans heyrði brátt sögunni til. Á tíu árum gerbreyttist þorpslífið og sögur af ótrúlegum umskiptum til trúarinnar og kraftaverkum fóru að berast frá Ars um langan veg.

  Sögurnar ollu því að mikill fólksfjöldi streymdi þangað að ná fundi sóknarprestsins. Hann var sagður búa yfir dulargáfum og geta sagt fyrir um framtíð manna, lesið hugsanir og hjörtu. Næstu þrjátíu árin biðu að jafnaði um þrjú hundruð manns á hverjum degi eftir því að fá að skrifta hjá honum. Fólksstraumurinn til sveitaþorpsins Ars var svo mikill að járnbrautarfélagið varð að opna bókunarskrifstofu í Lyon vegna ferðanna til Ars og koma á sérstökum áætlunarferðum þangað. Farmiðinn til Ars gilti í átta daga, því að fólk þurfti að bíða svo dögum skipti til að komast í skriftastólinn hjá sóknarprestinum.

  Hann fór á fætur klukkan eitt að morgni gekk til kirkju, hringdi til angelusbænar til merkis um að skriftir gætu hafist. Klukkan sjö að morgni gerði hann hann hlé á skriftunum til að messa. Að lokinni þakkargjörð eftir messu fór hann aftur í skriftastólinn til klukkan ellefu en þá tók hann börn í kvertíma, að því búnu borðaði hann hádegismat, en tók sjaldnast meiri tíma til þess en fimmtán mínútur. Því næst heimsótti hann þá sem veikir voru en síðan fór hann aftur í skriftastólinn þangað til beðnar voru kvöldbænir. Að þeim loknum gekk hann til náða og svaf í um það bil þrjá til fjóra tíma.

  Talið er að hann hafi að jafnaði varið um átján klukkustundum í skriftastólnum á sólarhring. Til eru sögur um að hann hafi með bænagerð margfaldað korn fyrir áttatíu barna munaðarleysingjahæli sem hann kom á fót. Þann dag leit út fyrir að börnin yrðu að svelta, en ekkert varð af því. Talsvert var um að menn kæmu með peningagjafir til hælisins eða kirkjunnar, og oft fann sóknarpresturinn umtalsverðar fjárfúlgur í skrifborði sínu. Ótrúlegar sögur eru til um lækningakraftaverk hans. Sagt er að fólk sem var dauðveikt og læknar höfðu gefið upp alla von með hafi risið úr rekkju eins og ekkert hefði fyrir komið.

  Hann var gagnrýndur af klerkastéttinni fyrir meinlætalíf sitt, sem sumir töldu að gengi allt of langt, og jafnvel heyrðust ásakanir um að hann væri geðveikur. Þeim ásökunum svaraði biskupinn á þann veg að hann vildi að allir prestarnir sínir hefðu snert af þeirri sömu geðveiki.

  Það sem samt er einna ótrúlegast við sögu hl. Jóhanns eru meint fyrirbæri þau sem áttu að hafa gerst í húsi hans og víðar. Undarleg hljóð heyrðust um nætur, reiðilegar raddir heyrðust kalla nafn sóknarprestsins í prestsbústaðnum og á munaðarleysingjahælinu. Mynd af hl. Guðsmóður og stytta af hl. Fílúmenu uppáhaldsdýrlingi sóknarprestsins voru oft ataðar aur og drullu. Sóknarpresturinn var dreginn um herbergið í rúmi sínu. Eina nóttina kom upp eldur í rúminu og breiddist út til nærliggjandi hluta, en stöðvaðist síðan. Þessi undarlegu fyrirbæri voru að sögn prestsins öruggir fyrirboðar þess að næsta dag kæmi einhver sem hefði stórsyndir að játa.

  Prestarnir í nærliggjandi sóknum gerðu grín að þessum furðusögum og komu fram við Arsprest eins og hann væri truflaður á geði. Einn prestanna sem gert höfðu grín að þessu lenti þó í því að verða sjálfur vitni að fyrirbærum. Hann kom óttasleginn til sóknarprestsins og stundi því upp að prestsbústaðurinn í Ars væri að hrynja. Hl. Jóhann brosti aðeins. Presturinn, séra Chevalon, kallaði Drottin til vitnis eftir á og sagði að hann ætlaði ekki að hafa undrin í flimtingum framar og sóknarprestinn í Ars teldi hann heilagan mann. Sóknarpresturinn tók þessi fyrirbæri ekki sérlega nærri sér, hann sagði: „Það er krækirinn (grappin ) sem stendur fyrir þessu, hlæðu bara að honum.“ Hl. Jóhann Vianney dó árið 1859 þá 73 ára að aldri útslitinn eftir langa ævi meinlætalífs. Hann var tekinn í dýrlinga tölu 1925 og gerður að verndardýrlingi sóknarpresta.


  II
  Eftirfarandi kafli er útdráttur úr dagbók úr pílagrímsferð unglingafélags kaþólskra Píló, sem farin var sumarið 1989 til Meðugorje í Bosníu Herzegovinu. Á leiðinni frá Meðugorje var stansað í Ars í Frakklandi.

  Fimmtudaginn 29. júní 1989 lögðum af stað um 10 leytið og fórum til Ars, þar sem nítjándu aldar presturinn hl. Jóhann María Vianney, verndardýrlingur sóknarpresta þjónaði. Saga þessa franska sveitaprests frá 19. öldinni er fyrir margra hluta sakir athyglisverð. Ennþá er Ars sveitaþorp, sem byggir afkomu sína á landbúnaði og ferðamönnum. En ekki voru jafn margir ferðamenn á ferli í Ars þennan dag sem við vorum þar, og sagt er að hafi verið fyrir rúmum hundrað og þrjátíu árum. Sóknarprestinum hafa verið reist vegleg minnismerki. Meðal annars neðanjarðarkirkja sem tekur fjölda manns. Hún er sjálfsagt neðanjarðar til að spilla ekki ásjónu þorpsins sem er einföld og friðsæl.

  Hús sóknarprestsins stendur enn og er nú safn, þar eru hans persónulegu munir meðal annars rúmið fræga sem kveiknaði í og má enn glöggt sjá ummerki eldsins á því. Sama kirkjan stendur enn, og þar er skriftastóllinn frægi. En það sem allra mesta furðu vakti var að líkami sóknarprestsins er til sýnis í glerkistu fyrir ofan hliðaraltari í kirkjunni. Hann er skrýddur fullum prestsskrúða. Andlitið hafði verið vaxborið. Þarna lá þessi litli líkami, varla lengri en einn og hálfur metri og hallaðist andlitið í áttina til ferðafólksins. Það var mikill friður yfir ásjónunni og góðleiki.

  Á veggnum til vinstri hékk óskaplegur fjöldi gamalla heiðursmerkja. Þegar betur var skoðað kom í ljós að nafn sóknarprestsins sást ekki á þeim. Þetta virtust vera heiðursmerki þeirra sem höfðu skriftað, skilin eftir hjá sóknarprestinum. Þarna ægði öllu saman. Þeim sem unnið höfðu til heiðursmerkjanna fannst greinilega ekkert betra gert við þau en að gefa þau litla prestinum, manninum sem sumir þeirra efagjörnu álitu ruglaðan. Við skoðuðum staðinn og á eftir messaði séra Jakob í gömlu sóknarkirkjunni. Eftir messuna héldum við frá Ars eftir hraðbrautinni í áttina til Reims.

  --
  RGB/Kaflinn um ævi Hl. Jóhanns M. Vianney var skrifaður fyrir Sóknarblað Kristskirkju og birtist í því blaði líklega árið 1988 eða 9. Aðalheimild að honum var Butler's Lives of The Saints, gefin út af Burns and Oates, London 1985, endurprentuð 1988. Fleiri ritaðar heimildir voru einnig notaðar en hverjar þær voru er gleymt enda vægi þeirra í frásögninni minna. Frekari heimildir um þennan mann má finna á vefslóðinni http://www.newadvent.org/cathen/08326c.htm

  31.07.12

    07:02:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 79 orð  
  Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Fjöldi kaþólskra í Noregi og athyglisvert blogg um tíðabænir

  Ég var að renna yfir helstu fyrirsagnir hjá kaþólsku kirkjunni í Noregi og þaðan er helst að frétta að nú er talið að fjöldi kaþólskra þar sé um 200 þúsund, sjá þennan tengil.

  Einnig rakst ég á athyglisvert blogg frá manni sem heitir Helge Erik Solberg sem er þriðjureglu dóminíkani og fyrrverandi læknir. Hann bloggar m.a. um tíðabænirnar sem hann les reglulega. Sjá hér: http://somietspeil.wordpress.com/category/2-hjerte/2-7-tidebonner/

  Tengill á blogg Helge Erik er kominn á aðalsíðuna á kirkju.net undir liðnum "Erlend blogg".

  30.07.12

    07:27:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1506 orð  
  Flokkur: Philumena

  Brúna skapúlarið

  Kæru bræður og systur í Kristi,

  Þar sem ég hef nú notið þeirra sérstöku forréttinda að bera um háls mér táknmynd Maríu um sérstaka móðurást og vernd hennar, eða svonefnt skapúlar í hartnær 30 ár, þá fór systir Agnes þess á leit við mig að ég miðlaði eilítið af mínum eigin forsendum fyrir þeirri trúfestu sem auðsýnd er Maríu Mey með því að bera herklæði hennar. En fyrst langar mig til að rifja aðeins upp forsögu Karmelreglunnar og skapúlarsins, hvernig það er til komið og um leið að skyggnast eilítið inn í táknrænt gildi skapúlarsins.

  Eins og fram kom í grein sem birtist í Kirkjublaðinu í vetur, þá á Karmelreglan rætur sínar að rekja til einsetumanna, sem höfðu búsetu á Karmelfjalli á 13. öld, þar sem þeir byggðu sér snemma kapellu til heiðurs Himnadrottningarinnar, Maríu Meyjar, sem þeir voru reyndar einnig kenndir við. (The Brothers of Our Lady of Mount Karmel) Þar að auki helguðu þeir sérstakri messu Maríu. Nokkrum árum eftir að Karmelreglan var rituð í kringum 1209 brutust miklar óeirðir út í Palestínu og jafnframt ofsóknir gegn Karmel einsetumönnum. Þeir flýðu því til Evrópu þar sem þeim var ekki beinlínis tekið opnum örmum af öðrum reglum sem fyrir voru.

  Himnadrottningin, hinsvegar, lét það ekki óátalið og var, að því er sagan hermir, send af Guði til að boða blessun Hans yfir reglunni. Árið 1251 birtist hún því Simon Stock, sem var þá yfirmaður Karmelreglunnar, hún birtist íklædd hinum brúna kufli reglunnar og hélt í hendi sér annars vegar á talnabandi og hins vegar á bút af kufli sínum, sem táknmynd um ást hennar og vernd um leið og hún hét því að hver sá sem bæri þetta klæði hennar um háls sér og helgaði sig henni í lífi og starfi myndi njóta verndar hennar og hjálpræði á dauðastundu. Þetta loforð svipar mjög til loforðs sem heilög Katarína frá Siena (1347-1380) Dóminíkananna hafði einnig móttekið frá Guðsmóðurinni, það er að segja, að sérhver sá sem helgaði sig og virti Guðsmóðurina myndi aldrei verða hinum illa að bráð. Til frekari staðfestingar á þeirri sérstöku vernd, sem Karmelreglan nýtur undir verndarvæng Maríu, minnti hún á loforð sitt, þegar hún birtist börnunum þremur í Fatima árið 1917 íklædd Karmelbúningi.

  Himnadrottningin lá heldur ekki á liði sínu í árdaga reglunnar og brást ekki loforði sínu um vernd Karmelreglunnar árið 1274, þegar ágreiningur um réttindi reglunnar stóð sem hæst, því þá brá svo við, sennilega undir áhrifavaldi Maríu, að Páfinn sjálfur tók af skarið og lýsti yfir réttmæti reglunnar á kirkjuþinginu í Lyon.
  Karmelreglan skiptist í þrjá hluta og erum við sem hér erum saman komin umsækjendur um þriðja hluta hennar sem er þriðja regla Karmels, regla leikmanna ásamt systra- og bræðra reglu skapúlarsins. Hinar tvær eru í fyrsta lagi Karmelbræður, (stofnendur reglunnar), og í öðru lagi Karmelnunnur. Einnig er rétt að geta þess að Karmelreglan á sér auk þess aðrar systra reglur tengdar Karmelreglunni, en þær voru stofnaðar á 19. og 20 öld. Má þar til nefna Karmelsystur af hinu guðlega hjarta, en nokkrar þeirra starfa einnig hér á landi á Akureyri og á Egilsstöðum.

  Í framhaldi af þessum sagnfræðilega formála langar mig til þess að dýpka aðeins skilning á loforði Maríu um vernd í lífi og starfi og jafnvel hjálp á dauðastundu. Það loforð er ekki töfrasproti, sem víkur okkur undan eigin ábyrgð, heldur miklu fremur áeggjan um að líkjast henni sem mest í orði og verki og njóta þar með sérstakrar aðstoðar hennar svo við megnum að auðsýna einlægan vilja okkar, sem birtist á táknrænan hátt með því að bera herklæði hennar, skapúlarið. En til þess að okkur auðnist sem best að votta hollustu okkar og breyta eftir Maríu Guðsmóður, sem var Guði kærari en allar aðrar mannlegar verur, og því kjörin Guðsmóðir, þá þurfum við aðeins að skilgreina fyrir okkur sjálfum hvað felst í eftirbreytni eftir Maríu og eftir hverju við erum að sækjast til að líkjast henni sem mest, því fátt er um hana ritað í Heilagri ritningu og því felst gæða vottun á verund hennar, eða helgi, fyrst og fremst í hinu raunverulega lífi og starfi hennar.

  Sjálf sótti ég í fjársjóð eins fremsta Maríu sérfræðings Kaþólsku kirkjunnar Louis de Montford mér til halds og trausts, en hann teflir fram 10 gæðavottorðum hennar í riti sínu True Devotion to Mary, sem gott er að taka mið af, ef við höfum í hyggju að axla herklæði hennar, skapúlarið og gerast virkir þáttakendur í eftirbreytni eftir Guðsmóðurinni.

  1. Í fyrsta lagi áminnir Louis de Montford okkur um að forðast synd og að líkja eftir syndlausri breytni Maríu í allri hugsun og öllum okkar gerðum.

  2. Í öðru lagi að taka okkur auðmýkt hennar til fyrirmyndar, sem þýðir að falla ekki í þá freistni að miklast eða hreykja okkur yfir velgengni okkar um fram önnur meðsystkini, því eins og segir í Heilagri ritningu: "… án mín getið þér alls ekkert gjört." Jóh. (15.5) og öll velgengni okkar því til komin fyrir náð Guðs á meðan "drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað," eins og María áminnir í Lofsöng sínum. (Lk 1:46-55)

  3. Í þriðja lagi er María okkar guðdómlega fyrirmynd í trú og trausti þess að Drottinn muni vel fyrir sjá, eins og ritað stendur í Biblíunni og er orðrétt eftir henni haft er hún í fullkominni trú og trausti á Drottinn mælir: "Sjá ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum," eða verði þin vilji" eins og Jesús Sonur hennar áminnir okkur í Faðirvorinu. (Lk 1:38)

  4. Fjórða atriðið til eftirbreytni er skilyrðislaus hlýðni hennar við vilja Guðs --að Guðs vilji hafi ávallt forgang í lífi okkar og að við veljum því og höfnum í samræmi við það sem Guði er þóknanlegt, jafnvel þótt það samrýmist ekki í svipinn okkar eigin hentisemi og á það einnig við um val á maka og vinum --að við veljum okkur vini sem stuðla að trúrækni okkar og að við forðumst þá sem fæla okkur frá að iðka hana eða jafnvel gæða okkur á einhvern hátt sinnuleysi varðandi þjónustu okkar við Guð, eins og hl. Theresa af Jesúbarninu einnig leggur áherslu á í dagbókum sínum.

  5. Stöðugleiki í bæninni er fimmta atriðið sem Montford bendir á að hafi einkennt Maríu og er þá skemmst að minnast áréttingar Jesú um að biðja stöðugt og án afláts. Oft hefur heyrst að slíkt bænahald sé ekki gerlegt í amstri dagsins, en því er til að svara að bæn er ekki bara orðin tóm heldur stöðugt og lifandi samband við Guð í starfi og leik eins og Theresa, litla blómið, bendir einnig á.

  6. Í sjötta lagi er það hin almenna fórnarlund Maríu sem hvetur til eftirbreytni, það er að segja, fórnarlund sem kemur fram í kærleika til náungans í stað sjálfhverfu eins og annað kærleiks boðorð Jesú Krists býður.

  7. Sjöunda fyrirmyndin er hinn guðdómlegi hreinleiki Maríu í hug, hjarta, og líkamlegri verund hennar.

  8. Áttunda tilefnið til eftirbreytni er e.t.v. eitt hið allra mikilvægasta, því það uppfyllir bæði kærleiksboðorð Krists --að elska Guð og náungann, kærleikurinn í allri sinni heild, sem María uppfyllti á eins fullkominn hátt og mennskri manneskju er mögulegt --allt frá fæðingu Frelsarans til dauðastundu Hans á Krossi.

  9. Þá er komið að níunda hvata til eftirbreytni leiðarstjörnu Maríu en það er hin hetjulega þolinmæði hennar, sem við sjálf eigum svo oft í höggi við og því vekur þolinmæði hennar hjá okkur undrun. Hvaða kona t.d. hefði ekki orðið sæmilega pirruð á að þurfa að leita sér skjóls í fjárhúsi eða helli við fæðingu frumburðar síns, sem þó var væntanlegur konungur heimsins? Og mörgum hefði e.t.v. verið tamara að missa stjórn á skapi sínu þegar tólf ára sonur tekur sér það bessaleyfi að yfirgefa hóp skyldmenna á ferðalagi og ílengjast án vitundar foreldra til að taka þátt í hróka samræðum við æðstu presta? En þannig var því ekki varið með Maríu, af henni getum við því lært að taka jafnvel hinum óvæntustu atburðum af stakri rósemd, því reiði,eða það að missa taumhald á skapi að ósekju, sínu leysir engan vanda. Horfum því til Maríu næst þegar okkur er skapi næst að hella úr skálum reiði okkar.

  10. Að lokum er komið að tíunda og loka fyrirmyndinni, en það er hin engilblíða verund hennar, viðmót og viska, sú viska sem ein er fullgild í ljósi eilífðar, það er að segja, afrakstur leitar okkar á þekkingu á Guði, þekkingarleit sem aldrei má ljúka meðan við enn drögum andann, því það eru þau einu verðmæti, sem okkur leyfist að hafa meðferðis í vösum líkklæða okkar úr jarðnesku lífi.

  Þar með er þessari upptalningu á dyggðum Maríu lokið --upptalningu sem ég hef kosið að hagnýta mér í viðleitni minni til að skilgreina hvers vegna við klæðumst hertygjum Maríu. Og vonandi hefur þessi úttekt varpað einhverju ljósi á þá spurningu sem svo oft vefst fyrir utanaðkomandi, hvers vegna við berum þessa brúnu pjötlu um hálsinn eins og merkimiða. Svarið er í raun ofur einfalt, tilgangurinn helgar meðalið, nefnilega sá að brúna pjatlan minnir okkur stöðugt á dyggðir Maríu og því leitumst við enn ákafar við að vera henni samstíga í þeim efnum bæði í orði og verki fyrir tilstilli náðar þeirrar sem í gegnum Maríu flæðir frá Guði til allra sem hafa helgað sig henni.

  Philumena

  29.07.12

    18:37:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 391 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Er trú kaþólskra biblíuleg?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  10. Er trú kaþólskra biblíuleg?

  Trú kaþólskra á sér stoð jafnt í Biblíunni sem og í erfikenningu þeirri sem kaþólska frumkirkjan hlaut í arf á þeim tíma sem ekkert heildarrit, sem nefnist Biblía var til. Munnlegar heimildir voru hins vegar skráðar af svokölluðum kirkjufeðrum sem uppi voru frá 1. til 5. aldar. En slíkar heimildir munnlegar sem skriflegar nefnast erfikenningar (teknar að erfðum) og hefur kaþólska kirkjan ávallt hliðsjón af þeirri þekkingararfleifð í túlkun sinni á Heilagri Ritningu.

  Kaþólska kirkjan er sú stofnun, sem varðveitti og tók saman hinar helgu bækur sem Biblían samanstendur af, --varðveitti og fjölritaði (-faldaði ?) í 15 aldir fyrir tilstilli munka. Allar kristnar kirkjudeildir hafa því þegið Biblíuna úr hendi kaþólsku kirkjunnar. Biblían ein er þó aðeins hluti af þeirri kristnifræðslu sem til nútímans hefur borist, hinn hlutinn sem lýtur að túlkun bókarinnar og nefnist erfikenning (tradition) er sá hluti sem lýtur að þeirri munnlegu túlkun, sem Páll postuli áminnir að hafa í heiðri: „Bræður standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi.” (2Þess 2:15; Sjá einnig 1Kor 11:2; 2Þess 3:6; 2Tim 1:13-14, 2:2).

  Þegar meðlimir frumkirkjunnar áttu í erfiðleikum með skilgreiningu á boðskapi postulanna flettu þeir ekki bara upp í Biblíunni, því hún hafði enn ekki verið tekin saman af kaþólsku kirkjunni, það gerðist ekki fyrr en fjórum öldum síðar er þeir héldu kirkjuþing til varðveislu hinna ýmsu helgu rita, en kirkjuþing var og er ákvörðunarvald kaþólsku kirkjunnar. (P 15:1-29). Á þeim tíma, sem og í dag, var kennsluvaldið í höndum postulanna og síðar arftaka þeirra innan kaþólskrar kirkju og úrskurður kveðinn upp á grundvelli erfikenninga þeirra sem postularnir hlutu í arf frá Kristi og síðar gengu í arf til ráðamanna kaþólsku kirkjunnar og presta þeirra í gegnum aldirnar.

  Í ljósi þess að Biblían var upphaflega útgefin af kaþólsku kirkjunni og var varðveitt fyrir tilstilli kirkjunnar og munka hennar í gegnum 15 aldir uns prentverk var fundið upp, þá liggur það í hlutarins eðli að bókin Biblía er og hefur ávallt verið kaþólskri kirkju helg og í heiðri höfð sem tilvísun hvað varðar alla kennslu í kristinni trú og siðgæði, en, nota bene, einnig ávallt með hliðsjón af þeim erfikenningum sem Páll postuli biður okkur að varðveita og hafa ávallt í huga.

  Philumena

  27.07.12

    06:28:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 573 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Hvers vegna hlýða kaþólskir kennivaldi Páfa?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  9. Hvers vegna hlýða kaþólskir kennivaldi Páfa?

  Kaþólskir trúa á „eina heilaga kaþólska kirkju,” sem lýtur kennivaldi Páfa eins og boðað er í Biblíunni og segir fyrir um í hinni postullegu Trúarjátningu, sem postularnir sömdu og skráð er í Didache (Kenningar postulanna tólf, veitir innsæi og þekkingu á hefðum frumkirkjunnar þar á meðal hinu allra helgasta altarissakramenti. Ritað 65-80 e.Kr. og í hávegum haft af Kirkjufeðrunum). Kaþólska kirkjan rekur uppruna sinn, kennivald og sögu til þeirrar kirkju sem Jesús Kristur stofnaði og áskildi forystu Péturs, sem fyrirliða postulanna: „Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.” ( Mt 16:18-20).

  Arftakar Péturs eru titlaðir Páfar og eiga sér óslitna skráða sögu frá Pétri postula og fram á þennan dag. Pétur tilnefndi sjálfur sinn eftirmann Linus, sem við dauða Péturs ríkti frá árinu 67-76. Allir páfar fram á 4. öld dóu píslarvættisdauða. Höfuð kaþólsku kirkjunnar er Jesús Kristur sjálfur, en jarðneskur staðgengill Hans er fyrirliði postulanna, Páfinn, sem staðgenglar postulanna, biskuparnir, og prestar þeirra lúta ásamt söfnuði sínum, og sem heild myndar þannig líkama Krists, kaþólska kirkju. Kaþólsk kirkja, eins og kirkja Krists frá upphafi var nefnd, þýðir almenn eða alþjóðleg kirkja, þar sem henni er ætlað það hlutverk að breiða út trúna um allan heim: „Farið og kennið öllum þjóðum” voru fyrirmæli Krists til postulanna.

  Kennivald Páfans afmarkast og grundvallast á kenningum Krists, bæði munnlegum, eins og títt var í frumkirkjunni og varðveist hafa í skrifum kirkjufeðranna, en einnig skráðum heimildum Biblíunnar. Biblían er, eins og titillinn gefur til kynna, samsafn bóka, hún er heildarútgáfa helgra rita, sem kaþólska kirkjan taldi óvéfengjanlega innblásna af Heilögum Anda á kirkjuþinginu í Karþagóborg árið 397 undir forsæti Páfa. Sem jarðneskur staðgengill Jesú Krists, líkt og Pétur fyrsti Páfinn, hefur Páfinn m.a. vald til þess að skilgreina og lögfesta innan kirkjunnar trúaratriði, sem m.a. voru almennt viðtekin í frumkirkjunni. Sem dæmi má nefna: að María er Móðir Guðs, full náðar og því syndlaus, en þetta trúaratriði var skilgreint á kirkjuþinginu í Efesus árið 431. Í ljósi þess að Páfinn er hirðir allrar kirkjunnar, var hið óskeikula kennsluvald Hans, sem varðar ákvarðanir sem snerta trú og siðgæði, lögfest á fyrsta Vatikanþinginu árið 1870. Öllum kaþólskum er hins vegar ljóst að sem maður er Páfinn ekki alltaf óskeikull, heldur aðeins í því tilfelli þegar hann í nafni allrar kirkjunnar mælir ex cathedra, úr stóli Péturs, undir handleiðslu Heilags Anda, hvað kaþólskum ber að trúa.

  Aðeins einu sinni hefur slíku ex cathedra valdi verið beitt og þá í samráði við biskupa, en það var kenningin um uppnumningu Maríu árið 1950. Kaþólskir hlýða kennivaldi Páfa þar sem kennsluvald hans felur í sér að Páfi, í krafti síns embættis, lýtur vilja Drottins og vísar því rétta leið þrátt fyrir ófullkomleika mannsins. Til staðfestingar á að tilskipun Páfa, hvað varðar trú og siðgæði, sé vernduð af Heilögum Anda, má benda á að aldrei í sögu kirkjunnar hefur Páfi kennt í andstöðu við þá viðteknu trú og það siðgæði, sem Kristur sjálfur boðaði, þótt þeir sjálfir í sumum tilvikum hafi verið breyskir menn og sumir hverjir villst af vegi í persónulegum aðgerðum. (gerðum eða verkum ?)

  Philumena

  26.07.12

    06:38:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 530 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Hvað er þessi erfikenning, sem kaþólskir vitna í til viðbótar Heilagri ritningu?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  8. Hvað er þessi erfikenning, sem kaþólskir vitna í til viðbótar Heilagri ritningu?

  Erfikenningin er hin munnlega arfleifð Krists og postulanna sem varðveist hefur í kaþólskri kirkju mann fram af manni og skrásett er í ritum kirkjufeðranna, sem uppi voru frá fyrstu til fjórðu aldar. Meðal tilvitnanna í ritum kirkjufeðranna er m.a. að finna hina réttu skilgreiningu og skilning á Hinu Allra Helgasta Altarissakramenti, sem stofnsett var við síðustu kvöldmáltíðina. Biblían og erfikenningin eru því óaðskiljanleg eining. Frumkristni hófst með hinum munnlega boðskapi Krists ásamt skilgreiningu og skýringum Hans og síðar postulanna, sem hlutu þá þekkingu í arf frá Honum --og þessvegna hugtakið erfikenning. Frumkirkjan átti sér því aðeins munnlega hefð til skírskotunar og uppfræðslu á þeim tíma sem Nýja Testamentið var enn ekki skráð í eina bók. (P 2:42)

  Síðar var boðskapur Krists skráður af postulunum og lærisveinum Krists fyrir tilstilli Heilags Anda, meðan erfikenningin, skilgreining og skýringar textans varðveittust innan kaþólsku kirkjunnar bæði í munnlegu og skriflegu formi. Páll postuli áminnir því lærisveina Krists að varðveita vel erfikenningar --allt sem munnlega hefur borist frá postulunum jafnt sem því skriflega: „Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi.” 2Þ 2:15). Og Jóhannes postuli tekur í sama streng og áminnir að ekki sé allt skráð af því, sem munnlega var kennt, því „margt er það annað, sem Jesús gjörði, og yrði það hvað eina upp skrifað, ætla ég að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur, sem, þá yrðu ritaðar.” (Jh 21:25).

  Leyndardómar Krists voru opinberaðir postulunum og spámönnum Hans (Ef 3:5), sem ásamt Kristi mynda undirstöðu kirkju þeirrar sem Kristur stofnaði og byggði á Pétri postula,-- kirkjunni, sem undir stjórn og varðveislu Heilags Anda, nýtur verndar fyrir mistúlkun á orði Guðs og frá því að verða munaðarlaus. (Jh 14:16-19). Þessu til áréttingar áminnir Páll postuli Tímóteus, biskup og arftaka postulanna: „Ef einhver fer með annarlegar kenningar og fylgir ekki hinum heilnæmu orðum Drottins vors Jesú Krists og því, sem guðrækni vor kennir, þá hefur hann ofmetnast og veit ekki neitt.” (1Tm 5:3). Og til frekari áherslu á hið rétta kennivald bætir hann við: „Og það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum.” (2Tm 2:2). Í bréfi sínu til Tímóteusar lofar Páll postuli Tímóteus einmitt fyrir að halda í heiðri munnmælum postulanna, erfikenningunum, með eftirfarandi orðum: „Ég hrósa yður fyrir það að þér í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar, eins og ég flutti yður þær.” (1Kor 11:2)

  Það er því frumkirkjan og arftaki hennar, kaþólska kirkjan, sem í boðskapi sínum stendur traustum fótum bæði á heilagri ritningu og sönnum erfikenningunum, meðan hún hafnar þeim sem rangar eru, það er ábyrgðarhlutverk hennar, þess Guðs hús, þeirrar kirkju sem Kristur stofnaði og er „stólpi og grundvöllur sannleikans,” (1Tim 3:15). Þetta er hin kaþólska kirkja, sem tók saman hin helgu skrif Biblíunnar til útgáfu á kirkjuþinginu í Karþagóborg árið 397, varðveitti hana og afritaði fyrir tilstilli munka þar til á fimmtándu öld, þegar prentverkið var fundið upp.

  Philumena

  25.07.12

    08:24:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 252 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Af hverju biðja kaþólskir fyrir látnum?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  7. Af hverju biðja kaþólskir fyrir látnum?

  Gamla testamentið, sem Kristur sjálfur vitnar í, kennir að rétt sé að biðja fyrir hinum látnu. (2Makk 12:40; 42; 44-45) En þar segir: „Undir kyrtli sérhvers sem látinn var fundu menn helgitákn skurðgoða Jamnia, sem Gyðingum var bannað að bera. Öllum varð ljóst að það var af þessum sökum sem mennirnir höfðu fallið….og þeir snéru sér að bænahaldi, báðu þess að syndin sem framin hafði verið mætti vera fyrirgefin….Því ef hann ekki vænti þess að þeir sem fallið höfðu myndu rísa aftur, væri tilgangslaust og heimskulegt að biðja fyrir hinum látnu…Hann afplánaði friðþægingu fyrir þá látnu, að þeir mættu fá syndaaflausn.” Páll postuli tekur í sama streng er hann segir: „Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hversvegna láta menn þá skíra sig fyrir þá?” (1Kor 15:29)

  Þessi ummæli eru skírskotun til bæna og föstu fyrir hina látnu, en orðið að „skírast” merkir einnig oft að afplána friðþægingu samanber Markúsarguðspjall 10:38-39; og Lúkasarguðspjall 3:16 og 12:50. Páll postuli veitir einnig fordæmi er hann biður fyrir hinum látna Onesiphorus. (2Tim 1:6-18). Enn fremur skírskotar Trúarjátning okkar einnig til þess að við höfum samfélag við heilaga: „Ég trúi á samfélag heilagra,” sem felur í sér hina heilögu á jörðu niðri jafnt sem hólpna á himnum og sálirnar í hreinsunareldinum, sem við getum aðstoðað og aukið vellíðan hjá með bænum okkar..

  Philumena

  24.07.12

    08:36:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 415 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Af hverju biðja kaþólskir til skurðgoða (styttur, myndir t.d.)? eða dýrlinga?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  6. Af hverju biðja kaþólskir til skurðgoða (styttur, myndir t.d.)? eða dýrlinga?

  Enginn kaþólskur biður styttu ásjár (líkt og heiðingjar gera). Fyrir kaþólskum eru styttur eða helgimyndir aðeins hjálpartæki til einbeitingar í bæn og áminning um að biðja og heiðra þá sem ímyndin táknar.

  Til samanburðar má benda á að ef rétt er að heiðra einstaklinga, sem eiga heiður skilið á jörðu niðri líkt og opinberar hetjur jarðnesks samfélags, svo sem stjórnmála- og siðbótamenn, sem við reisum styttur af í heiðursskyni, þá er e.t.v. ekki síður ástæða til að heiðra þá einstaklinga, sem með heiðvirðu lífi sínu, höfðu í jarðnesku lífi sínu helgað krafta sína Guði með réttlætis- og kærleiksverkum. (1Pt 2:17, sjá einnig Rm 12:10; Heb 12:22-24) Kaþólsk kirkja kennir að slíkir helgir menn megi, vegna kærleiksríkra lifnaðarhátta á jörðu niðri, teljast örugglega á himnum og eru því úrskurðaðir sem svokallaðir dýrlingar öðrum til fyrirmyndar. (Heb 11; 2Kor 3:18).

  Á svipaðan hátt og Jesú Kristur, hin heilaga guðs móðir og dýrlingar eru heiðruð með afsteypum (styttum ?) og myndum, heiðra menn einnig og minnast fjölskyldumeðlima með myndum á heimilum sínum. Dýrlingar, sem með vissu hafa verið úrskurðaðir hólpnir, eru þannig hollvinir Guðs á himnum og samverkamenn okkar á jörðu niðri. Þeim var frá upphafi sköpunarverksins aldrei ætlað hlutleysi né afskiptaleysi af jarðneskum málefnum. (Op 6:10; sjá einnig Sálm 35:17). Hlutskipti þeirra á himnum er ekkert frábrugðið hlutskipti þeirra á jörðu niðri --að þjóna Guði og láta gott af sér leiða, eins og hl Teresa hafði á orði og lesa má í dagbókum hennar að æðsta ósk hennar sé að fá að þjóna mönnum líkt og englar á jörðu niðri um alla eilífð.

  Eins og Heilög ritning staðfestir mega jarðarbúar telja dýrlinga meðal hollvina sinna á himnum og leita stuðnings þeirra í bænum sínum til Guðs. Í yfirfærðri merkingu hins jarðneska lífs, má líkja málamiðlun og fyrirbænum vina á himnum við málamiðlun jarðneskra vina, sem einnig bregðast við til hjálpar á ögurstundu með bænum og samhjálp. Í heilagri ritningu er dýrlingum lýst sem slíkum „fjölda votta” sem rétt sé að gefa gaum að til eftirbreytni og láta af allri synd (Heb 12:1).

  Rétt er einnig að minna á að orðið skurðgoðadýrkun, sem Jóhannes postuli varar við, vísar í Biblíunni til skurðgoða af heiðnum goðum og á því ekki við afsteypur (styttur?) af heilögum né táknmyndir, sem þegar í frumkristni skreyttu katakómburnar í Róm m.a. af heilagri Guðs Móður Maríu. (1Jh 5:21).

  Philumena

  18.07.12

    12:24:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 697 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Hvers vegna játa kaþólskir syndir sínar fyrir presti?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  5. Hvers vegna játa kaþólskir syndir sínar fyrir presti?

  Jesús Kristur veitti postulum sínum þann kraft og það vald ekki aðeins til að afmá syndir (að fyrirgefa fyrir tilstilli Guðs syndir drýgðar eftir skírn), heldur einnig til að „binda“ þ.e.a.s. að synja fyrirgefningu nema að tilskilinni yfirbót.

  Í skriftasakramentinu afmáir Guð syndir okkar og gefur sál okkar aftur hið yfirnáttúrulega líf, hafi hún glatað því fyrir misgjörð. Annars vegar gegnir yfirbótin að loknum skriftum þeim tilgangi að efla iðrun hjá viðkomandi fyrir að hafa sært hinn himneska Föður og hins vegar er hún hvöt til að efla góðan ásetning til að syndga ekki framar og bæta líferni sitt með hjálp bæna og íhugunar.

  Skriftasakramentið hneigir huga mannsins til guðrækni og var stofnað af Jesúm Kristi sjálfum, er Hann andaði á postula sína og bað þá að meðtaka Heilagan Anda um leið og Hann mælti: „Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.“ (Mt 18:18, sjá einnig Mt 16:19). „Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.“ (Jh 20:23).

  Þetta vald postulanna var ekki bara ætlað sem náðargjöf til samtímamanna postulanna, heldur allt til enda veraldar og hefur því, allt frá tímum postulanna, gengið í erfðir til biskupa og presta í kaþólsku kirkjunni --þeirri kirkju sem Kristur stofnaði á klettinum Pétri. (Mt 16:18-19). Presturinn þjónar því sem umboðsmaður Guðs, eins og aflausn (?) synda ber vott um. Skriftir veita hinum iðrandi syndara nýjan kjark til að takast á við kristilegt líferni, auka sjálfstraust og skapa nýtt upphaf að betra lífi. Skriftirnar kenna mönnum auðmýkt, veita náð til að forðast syndugt líferni, og örugga vissu um fyrirgefningu synda, --fullvissu sem á sér stoð í meiru en að hafa einhverskonar tilfinningu fyrir sjálfgefinni fyrirgefningu. (Sjá einnig tilvísanir til skrifta í Mt. 3:5-6; P 19:18; 1 Jh 1:9)

  Frá því á dögum Krists og postulanna hefur það verið almennur siður í kaþólskri kirkju að skrifta. Til marks um það má geta þess að þegar Páll postuli var í Efesus, komu margir trúaðir til hans og játuðu syndir sínar. (P 19:13) Einnig má finna margar tilvitnanir til skrifta í verkum kirkjufeðranna, sem uppi voru á 1-5 öld og sem m.a. gegndu því hlutverki að skrá túlkanir postulanna á orðum Krists. Má þar til nefna Basilíus helga (dáinn árið 379) sem skrifaði: „Vér verðum að játa syndir vorar fyrir þeim, er hafa fengið það starf, að fara með hina guðdómlegu leyndardóma“ (þ.e.a.s. prestunum). Og hl. Ágústínus áminnir einnig að „Enginn segi: Ég iðrast í leyni, og Guð, sem þekkir mig, veit hvað gerðist í hjarta mínu. Eða skyldi það vera sagt út í bláinn: ’Hvað þér leysið á jörðu, skal leyst vera á himni’“ ?

  Ávallt ber hinum iðrandi syndara að hafa í huga einlægan ásetning að syndga ekki framar og að skriftir eru ógildar hafi viðkomandi skriftað án sannrar iðrunar og alvarlegs ásetnings um að fremja ekki synd sína eða yfirsjón aftur og minnast þannig orða Jesú í helgidómnum er hann hitti aftur manninn við Sauðahliðið í Jerúsalem, sem Jesús hafði læknað: „Sjá, nú ert þú orðinn heill, syndga þú ekki framar, til þess að þér vilji ekki annað verra til.“ (Jh 5:14). Einnig skal varast að meðtaka hið allrahelgasta sakramenti, líkama og blóð, sál og guðdómleika Jesú Krists, sé viðkomandi óverðugur, hafi framið eða hafi í hyggju að fremja dauðasynd líkt og þegar hinn óverðugi Júdas, hleypti sjálfum Satan inn í sálu sína með fyrirhuguðu meinsæri sínu. „Og eftir þann bita fór Satan inn í hann.“ (Jh 13:27)

  Þess ber að lokum að geta að skriftir í kaþólskri kirkju eru sakramenti og Guð því hluti af athöfninni, sem þýðir að þótt syndir séu játaðar fyrir presti, þá veitir presturinn aðeins lausnarorðin, meðan Guð horfir inn í hjartað og fullkomnar fyrirgefningu syndanna. Sakramentin í kaþólskri kirkju eru sjö og á Guð hlutdeild í þeim öllum og því er prestum fyrirmunað að taka á móti þóknun fyrir slíkar athafnir. Vilji menn styrkja kirkju sína hins vegar í þakkarskyni fyrir alla þá þjónustu sem hún veitir eru frjáls framlög þakkarverð.

  Philumena

  14.07.12

    18:14:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 525 orð  
  Flokkur: Pílagrimsferðir, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Helgir staðir á Íslandi

  Önnur pílagrímsferð Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar

  Önnur pílagrímsför Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar á Snæfellsnesi var farin miðvikudaginn 11. júlí 2012. Ekið var á einni rútu af stærstu gerð, smárútu biskupsdæmisins 'Bonibus' og nokkrir voru á einkabílum. Pílagrímar sunnan og austan af landinu lögðu af stað frá Landakoti og var stansað við Maríukirkju þar sem fleiri bættust í hópinn.

  Veðrið var eins og best varð á kosið, sól og blíða og vart sást ský á himni. Í rútunni leiddi séra Patrick Breen rósakransbænir og sálmasöng. Komið var að Hellnum skömmu eftir hádegi. Þangað komu svo á svipuðum tíma pílagrímar norðan af landinu. Ekki er gott að segja nákvæmlega hve margir voru samankomnir þarna en líklega höfum við verið á bilinu 80-100 manns. Við lindina var svo lesin heilög messa og leiddi herra Pétur Burcher Reykjavíkurbiskup athöfnina.

  Önnur pílagrímsferð Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar
  Maríustyttan við Maríulind
  Önnur pílagrímsferð Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar
  Þáttakendur í pílagrímsferðinni til Maríulindar 2012
  Önnur pílagrímsferð Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar
  Prestarnir ásamt Pétri biskupi

  Hér inni í bloggfærslunni eiga að sjást þrjár myndir úr pílagrímsferðinni. Á þeirri fyrstu er Maríustyttan, á þeirri næstu er mynd tekin af stórum hópi pílagríma sem stillti sér upp eftir messuna og á þeirri þriðju eru biskupinn og prestarnir að undirbúa messuna. Hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær.

  Fyrir messuna var dreift bæklingi til viðstaddra svo þeir gætu fylgt athöfninni eftir. Á annarri síðu bæklingsins stóð:

  Samkvæmt munnlegri helgisögn á Guðmundur Arason góði biskup að hafa komið að lindinni árið 1230 og þá birst honum og fylgdarmönnum hans alsæl María Guðsmóðir í fylgd þriggja engla og boðið honum að helga lindina sem hann gerði... Hér er um að ræða eina af fáum birtingum Maríu meyjar á Norðurlöndum og jafnvel þá einu ef frá er talið þegar María mey birtist heilagri Birgittu frá Svíþjóð.

  Á þriðju síðu bæklingsins var tveggja síðna pistill "Samantekt um Gvendarbrunn á Hellnum í Snæfellsnessýslu" með heimildaskrá og eru heimildirnar taldar hér aftar.

  Í predikun sinni þakkaði biskupinn þátttakendum fyrir komuna og sagði að allar sóknir biskupsdæmisins ættu fulltrúa sinn í ferðinni. Ég tók ræðu biskupsins ekki upp og get því ekki haft orðrétt eftir honum en meðal þess sem hann minntist á efnislega var að hann bað viðstadda og heilaga Guðsmóður um fyrirbænir fyrir kaþólsku kirkjunni á Íslandi og um heim allan að takast myndi að leiða til lykta hin erfiðu mál sem varða kynferðislega misnotkun.

  Eftir athöfnina við lindina var haldið að Hellnum og snæddur hádegisverður á hótelinu. Þaðan var haldið að Arnarstapa þar sem gert var stutt stopp. Síðan var haldið áleiðis til Reykjavíkur. Í rútunni leiddi séra Patrick rósakransbænina og síðan var sungið á íslensku, pólsku og filippseysku málunum cebuano og tagalog. Glatt var á hjalla og var ekki annað að heyra á ferðafólkinu en að mikil ánægja væri með ferðina.

  Heimildir sem vitnað er í, í samantekt bæklingsins sem dreift var í messunni:
  Sæbjörn Valdimarsson, "Blekkingar undir Jökli", Morgunblaðið 1. des. 1998, bls. 62 og "Hellnar í hálfa öld", Lesbók Morgunblaðsins 11. júlí 1998, bls. 6.
  Guðrún J. Bergmann, "Örnefni undir Jökli", Morgunblaðið 12. des. 1998, bls. 59.
  Kristinn Kristjánsson, "Hellnar fyrr og nú", Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998, bls. 11.
  Vegahandbókin, Ferðahandbókin þín (2004), s. 271.
  Helga Halldórsdóttir frá Dagverðará, "Lífslind Hellnamanna", Öll erum við menn, Reykjavík 1986, bls. 365-368.
  Ólafur Lárusson, "Guðmundur góði í þjóðtrú Íslendinga", Skírnir 1942 bls. 121.
  Sýslu og sóknalýsingar Hins Íslenska bókmenntafélags, Snæfellsnes, Reykjavík 1970 bls. 128 og 81-116.
  Biskupa sögur, gefnar út af Hinu íslenska bókmenntafélagi, Fyrsta bindi Kaupmannahöfn 1858 bls. 546.

  RGB.

    15:38:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 307 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Af hverju tilbiðja kaþólskir Maríu Mey?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  4. Af hverju tilbiðja kaþólskir Maríu Mey?

  Kaþólskir tilbiðja ekki Maríu Mey, heldur tigna hana sem móður Guðs, Sonarins Jesú Krists. Að tigna og að tilbiðja eru tvö ólík hugtök sem markast af því sem þau vísa til. Að tilbiðja vísar til Guðs almáttugs skapara himins og jarðar, að tilbiðja mannveru væri því brot á fyrsta boðorðinu „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.” Að tigna er að heiðra manneskju, sem á ekkert skylt við að tilbiðja Guð Almáttugan, Skapara okkar.

  Kaþólskir trúa því að María sé sérsköpun Guðs – „full náðar,” eins og hún er tilnefnd í Heilagri ritningu, þ.e.a.s. án syndar, enda bíður hennar hið stórfenglega hlutverk að fæða af sér, Son Guðs, fyrir tilstilli Heilags Anda. Líkt og aðrir menn skapaðir af Guði var María undirorpin náð Guðs eins og segir í Heilagri ritningu: „Önd mín miklar Drottin, og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.“ (Lk 1:47)

  Náð Drottins firrti Maríu allri synd strax í móðurkviði og greiddi þannig götu hennar til fyrirhugaðs móðurhlutverks og eilífs lífs á himnum. Sú staðreynd að Guð íklæddist holdi manna (Jh 1:1, 14) gefur til kynna að Guð ætlar mönnum að samverka með Kristi, og stefna þannig að eigin sáluhjálp í „ugg og ótta“ eins og hl. Páll áréttar. Í þessu ferli öllu, sem hefst með fæðingu frelsarans, gegnir María lykilhlutverki, þessvegna tigna kaþólskir Maríu Mey.

  María var Mey allt til dauða. Engir jarðarbúar geta státað af að vera afkomendur Heilagrar Guðsmóður, því Jesús átti hvorki systur né bræður. Bræður og systur Jesú Krists, sem vitnað er til í Biblíunni, voru blóðskyldmenni, en á þeim tíma tíðkaðist að kalla alla bræður og systur sem voru blóðskyld eins og hefð er enn fyrir meðal ættbálka í Afríku.

  Philumena

  13.07.12

    09:51:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1397 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Af hverju tilbiðja kaþólskir brauð?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  3. Af hverju tilbiðja kaþólskir brauð?

  Brauðið sem kaþólskir tilbiðja í heilagri Messu er, eftir gjörbreytingu, ekki lengur í eðli sínu brauð. Fyrir kraft Guðs og framburð sömu orða, sem Jesús sjálfur mælti við síðustu kvöldmáltíðina, hefur presturinn, sem staðgengill Krists á jörðu, verið kallaður til sömu starfa og postularnir tólf.

  Eitt meginhlutverk kaþólskra presta felst í því að bera fram einu og sömu krossfórnina, þar sem Kristur endurfórnar sínum himneska Föður krossdauða sínum í óblóðugri fórn, á sama hátt og Kristur sjálfur við síðustu kvöldmáltíðina er Hann gaf fyrirheit um Hið Allrahelgasta Altarissakramenti og gjörbreytti brauðinu og víninu í líkama sinn og blóð og mælti: „Takið og etið; þetta er minn líkami, sem (nú á þessu augnabliki) fyrir yður og fyrir marga verður útgefinn (fórnað).” Síðan tók Hann kaleikinn, blessaði hann, gaf postulum sínum og mælti: „Drekkið hér af allir; því þetta er mitt blóð, blóð hins nýja sáttmála, sem (nú á þessu augnabliki) verður úthelt fyrir yður og marga til fyrirgefningar syndanna. – Gjörið þetta í mína minningu.”

  Heilög messufórn er þannig ein og sama fórn og krossfórnin, því að bæði fyrr og nú og allt til enda veraldar er það Kristur, sem fórnar og er fórnað. En aðferðin er ekki hin sama. Kristur dó í raun og veru á krossinum; en hann deyr ekki í heilagri messu, heldur endurfórnar hann þar okkar vegna sínum himneska Föður krossdauða sínum á undursamlegan hátt. Með athöfn prestsins fórnar Kristur sjálfum sér himneskum Föður sínum í myndum brauðs og víns. Kristur dó í raun og veru á krossinum, en Hann deyr ekki í heilagri Messu, heldur endurnýjar Hann þar, okkar vegna, krossdauða sinn á óblóðugan hátt og biður söfnuðinn að minnast þess: „Gjörið þetta í mína minningu." segir Hann (sjá Mt 26:26-29; Lk 22:19-21).

  Til frekari áhersluauka og áminningar um það kraftaverk gjörbreytingar sem á sér stað í kaþólskri Messu, og hefur átt sér stað allt frá Síðustu kvöldmáltíðinni, áréttaði Jesús: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig sem mig etur.“Jh 6:53-58).

  Enn fremur gaf Hann Gyðingum hið sama fyrirheit er Hann á götum úti boðaði gjörbreytingu brauðs og víns í hold sitt og blóð og sagði: „Það brauð, sem ég mun gefa yður, er mitt hold, heiminum til lífs.” (6:51-52) Mörgum lærisveinum Hans og öðrum áheyrendum þótti þetta þung ræða og kurr varð meðal þeirra, og margir spurðu sömu spurningar og að ofan greinir „Hvernig getur Hann gefið oss hold sitt að eta?” Eða, eins og spurt er í dag, „af hverju tilbiðja kaþólskir brauð?” Líkt og í dag, og andstætt trú Abrahams, áttu áheyrendur Jesú erfitt með teygja trú sína út fyrir mannlegan skilning og því hurfu margir lærisveinar og Gyðingar frá, en þeir deildu sín á milli vegna þessa boðskapar Krists og voru ekki lengur með honum (Jh 6:66; 6:52).

  Þessi kurr meðal trúaðra og vantrúaðra gaf tilefni til að Kristur spurði lærisveina sína hvort þeir ætluðu einnig að yfirgefa Hann. Pétur, sem kjörinn hafði verið fyrirliði postulanna, varð fyrir svörum og mælti: „Herra til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs." (Jh 6:68-70).

  Þessi orð eilífs lífs, sem á dögum Krists ollu slíkum kurr að margir lærisveina Hans yfirgáfu Hann eru fyrirheit Hans um brauð lífsins, Hið gjörbreytta brauð í líkama Hans og blóði fyrirheitið, sem Hann bauð heiminum til lífs við sama tækifæri, er Hann mælti: „það brauð, sem ég mun gefa yður, er mitt hold heiminum til lífs.” Og til frekari áréttingar um þá andlegu lífgjöf, sem felst í hinu gjörbreytta brauði og víni áréttaði Hann: „Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið ekki blóð Hans, hafið þér ekki lífið í yður. Sá, sem etur mitt hold og drekkur mitt blóð, hefur eilíft líf og ég mun uppvekja hann á efsta degi; því að hold mitt er sannarlega fæða og blóð mitt sannarlega drykkur.” (Jóh. 6.52-56) Þessi orð Krists gáfu tilefni til að margir yfirgáfu Hann á Hans tíma og gera enn í dag.

  Krafan um að trúa út fyrir mannleg skynsemismörk, að trúa óskilyrt, er jafngild í dag meðal kristinna manna og hún var á dögum postulanna og því snúa kaþólskir ekki baki við þessum boðskapi Krists varðandi gjörbreytingu efnis í hold Hans og blóð, heldur beinist staðföst trú þeirra að Altari Guðs í heilagri Messu að þeir megi meðtaka hina guðdómlegu helgandi og styrkjandi náð, hinn sanna líkama og blóð Jesú Krists, í Hinu Allrahelgasta Altarissakramenti. Allt frá dögum postulanna til vorra daga, hefur heilög messufórn verið fram borin í kaþólskri kirkju.

  Staðfestingu á þessari staðreynd og þessum skilningi kaþólskra kennimanna á orðum Krists við Síðustu kvöldmáltíðina má sannreyna í ritum kirkjufeðranna, sem uppi voru frá 1.-5. öld. Þar á meðal er Irenæus biskup hinn helgi (dáinn árið 202), en hann ritar: „Kenning Jesú færði oss nýja fórn; kirkjan fékk hana í arf eftir postulana og ber hún hana fram um alla jörðina.“ Cyrillus hinn helgi í Jerúsalem (dáinn árið 386) kemst réttilega að orði, er hann segir: „Fyrst Jesús segir sjálfur: ´þetta er líkami minn,´ hver getur þá efast um, að það sé satt? Og fyrst hann segir skýrt og skorinort ´Þetta er mitt blóð’ hver getur þá efast og haldið, að þetta sé ef til vill ekki blóð hans? Hann breytti forðum vatni í vín, hví skyldum vér þá ekki trúa orðum hans, er hann segir, að nú ætli hann að breyta víni í blóð sitt?”

  Sömu skoðun hafa hinir kirkjufeðurnir og gjörvöll kaþólska kirkjan hefur frá fyrstu tímum trúað þessari skíru kenningu Jesú Krists um návist hans í Hinu Allra Helgasta Sakramenti. Hver sá, sem ekki trúir þessu, er því ekki hluti af þeirri kaþólsku frumkirkju sem Kristur stofnaði. (Kirkjuþingið í Trident) Þessi sama Messufórn hefur haldist óbreytt frá því á dögum Krists og postulanna, á meðan helgi hennar og hátíðleiki hefur í aldanna rás skrýðst æ fegurri lof-, þakkar-, friðþægingar- og bænargjöfum. Án Messunnar, hins lifandi brauðs, eins og Kristur nefnir sjálfan sig í Heilagri ritningu, væri heimurinn löngu liðinn undir lok.

  Þegar í Gamla Testamentinu boðar Guð heilaga Messufórn með orðum Malakíasar spámanns: „Frá upprás allt til sólarlags mun nafn mitt mikið verða meðal þjóðanna, og allsstaðar er fórnað nafni mínu til heiðurs og hrein matfórn framreidd.“ (Mal 1:11). Fórn Malakíasar er fyrirmynd heilagrar messufórnar. Aðeins í heilagri messufórn rætist spádómurinn: "Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks." (Sálm. 109) Hl. Páll postuli minnir enn fremur á að heilagleiki altaris kristinna manna, sé svo mikill að Gyðingar, sem afneitað hafa Kristi sem sínum Messías, hafi ekki leyfi til þess að neyta af því. Eða eins og segir í Heilagri ritningu: „Vér höfum altari (fórnarborð) og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna ekki leyfi til þess að eta af því“. (Heb 12:10)

  Einnig áminnir hl. Páll að séu menn ekki í náðarástandi, þá megi þeir ekki meðtaka líkama og blóð Jesú Krists í Hinu Allra Helgasta Altarissakramenti, því „Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óvirðulega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.“ (1 Kor 11:27-30) Varla þarf að árétta að enginn, sem etur venjulega brauðsneið etur sér til fordæmingar. (Sjá einnig Rm 11:25 ff. varðandi trúarsamskipti Gyðinga og kristinna manna).

  Náðaráhrif heilags Altarissakramentis:
  1. Það eykur hið yfirnáttúrulega líf í sál okkar;
  2. Það hreinsar oss frá smásyndum og verndar okkur frá stórsyndum;
  3. Það dregur úr illum tilhneigingum hjá okkur og veitir okkur löngun og þrek til að lifa guðrækilegu lífi;
  4. Það er okkur trygging dýrlegrar upprisu og sælu í himnaríki.
  Kristur segir: „Sá sem etur mitt hold og drekkur mitt blóð, sá er í mér og ég í honum.” (Jóh 6.57) „Sá sem etur hold mitt hefur eilíft líf og ég mun uppvekja hann á efsta degi.” (Jóh. 6.55)

  Philumena

  05.07.12

    20:40:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 420 orð  
  Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Miðaldafræði íslenzk, Kristindómur og menning, Klaustur

  Klaustrin á Íslandi og jarðeignir þeirra

  Klaustrin í tímaröð:                          Jarðir sem fylgdu þeim til konungs

   1. Þingeyraklaustur, um 1106–1551                Um 65 jarðir

   2. Munkaþverárklaustur, 1155–1551                57 jarðir

   3. Hítardalsklaustur, 1166–fyr.1270

   4. Þykkvabæjarklaustur í Veri, 1168–1550?     47 jarðir

   5. Flateyjar- & Helgafellsklaustur, 1172–1550   30 jarðir

   6. Kirkjubæjarklaustur, 1186–1542/51?            42 jarðir

   7. Saurbæjarklaustur, fyr.1200–um 1224

   8. Viðeyjarklaustur, 1226–1550                       (fjöldi jarða)

   9. Reynistaðaklaustur, 1295–1551                   46 jarðir

  10. Möðruvallaklaustur, 1295/6–1551                67 jarðir

  11. Skriðuklaustur, 1493–1552                         um 37 jarðir, 2 hjáleigur

  Nánar um kirkjulegar jarðeignir: hér neðar ("Öll færslan").

  Heimild:  Séra Janus Jónsson: Um klaustrin á Íslandi, langur þáttur, fyrst prentaður í Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags, VIII (1887), síðar sem sérprent, Rv. 1980, Endurprent offsetprentaði. – Heimild um Skriðuklaustur: Heimir Steinsson, „Jarðir Skriðuklausturs og efnahagur“. Múlaþing. Rit Sögufélags Austurlands. 1. hefti. (1966), bls. 74-103. 

  Nánari upplýsingar:  Um nr. 1 (Þingeyraklaustur): nefnt rit sr. Janusar, bls. 182–200. Um nr. 2: nefnt rit, 200–213. Um nr. 3: nefnt rit, 213–15. Um nr. 4: nefnt rit, 216–27. Um nr. 5: nefnt rit, 227–36. Um nr. 6: nefnt rit, 236–40. Um nr. 7: nefnt rit, 240–1. Um nr. 8: nefnt rit, 241–50. Um nr. 9: nefnt rit, 251–6. Um nr. 10: nefnt rit, 256–64. Um nr. 11: nefnt rit, 264–4. Á Skriðuklaustri hafa á síðustu árum farið fram gagngerar fornleifarannsóknir.

  Við siðaskiptin sló konungur eign sinni á öll þáverandi klaustur landsins og skipaði eftir það klausturhaldara á hvert þeirra (íslenzka oftast, af veraldlegu eigna- og valdastéttinni) til að annast tekjur hans af klausturjörðum. Hann tók einnig til sín yfirstjórn allra stólsjarða, þ.e. biskupsstólanna tveggja, og verulega hluta tekna þeirra.

  Um 1650 var þriðjungur jarðeigna í eigu kirkna, biskupsstóla, Kristfjárjarða og spítala, sjöttungur eign konungs og helmingur bændaeign.*

  Í kringum aldamótin 1800 var allmikið af stólsjörðunum selt og andvirðið látið ganga í ríkissjóð (konungsjötu); þó eru ýmsar af gömlu stólsjörðunum ennþá ríkisjarðir.

  Jarðeignir kirkna héldust í þeirra eigu og voru um 1907 nálægt því að vera sjötta hver jörð á landinu, en fóru þá flestar undir ráðsmennsku ríkisins, sem hirti af þeim tekjur, en galt í staðinn prestum Þjóðkirkjunnar laun. Það var þó ekki fyrr en á 21. öld, sem ríkið tók þær jarðir alfarið til sín, sem eignir sínar, gegn samkomulagi við Þjóðkirkjuna um að halda áfram að borga prestum hennar og starfsmönnum biskupsstofu laun. Þau laun eru þó mun meiri að raungildi nú en þau voru fyrir um 30–40 árum.

  Kaþólska kirkjan hefur aldrei fengið neitt af jarðeignum sínum hér á landi til baka. Henni er hins vegar gert að greiða fasteignaskatta af kirkjubyggingum sínum, ólíkt því sem tíðkast í ýmsum öðrum löndum. Sóknargjöld fær hún frá meðlimum sínum, innheimt af ríkinu, en af þeim fyrir fram ákveðnu gjöldum hafa síðustu ríkisstjórnir þó klipið verulega í óþökk safnaðanna** og aukið þau undanskot sín með árunum. Mál er að linni.

  * Sjá grein JVJ í Mbl. 19. des. 2002: Gegn árásum á Þjóðkirkjuna.

  ** Sjá grein eftir séra Gísla Jónasson prófast í Mbl. 3. des. 2011: Ætla stjórnvöld að leggja starfsemi trúfélaganna í rúst? (sbr. og umræðu hér og einnig hér).

  27.06.12

    07:31:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 458 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Af hverju vitum við að Hreinsunareldurinn er til?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  2. Hreinsunareldurinn – Af hverju vitum við að Hreinsunareldurinn er til? Ef þú myndir deyja í nótt, myndir þú fara til himna?

  Kaþólskir eru öruggir um eilífa sáluhjálp, þ.e.a.s. ef þeir af trúfesti halda boðorð Guðs í orði og verki --eins og að ofan greinir. (1Jh 2:3). Ef þeir deyja í því andlega ásigkomulagi að hafa ekki drýgt dauðasynd og verið Kristi trúir í kærleika til Guðs og náungans, er víst að þeir eigi sér vísan stað á himnum að æviskeiði loknu. En eins og Páll postuli kveður á um í Biblíunni, verður viðkomandi að vera algjörlega hreinn í anda eða heilagur til þess að öðlast himnavist, dýrðina, í návist Guðs: “Því ekkert óhreint getur komist í himnaríki .”

  Með hliðsjón af náttúrulegum hvötum manna, sem hneigjast til sjálfselsku og eru ekki með öllu lausir við smásyndir né syndahegningu,(?) þá gefur augaleið að margur er hvorki nægilega ranglátur til að verða eilífum eldi að bráð, né nægilega réttlátur til að lifa að eilífu í samfélagi við þá sem lausir eru við allar syndir og syndagjöld. Af skrifum Páls og Jóhannesar má ráða að millistig sé fyrir hendi fyrir hina réttlátu, en þó „óhreinu,” og að hver sá sem áfátt er í dyggðum mun þó eiga sér bjargarvon. Páll postuli kemst t.d. þannig að orði að viðkomandi, sem skortir dyggðir, “mun ná frelsi, en sem í gegnum eld,” þ.e.a.s. eftir miklar þjáningar og Jóhannes bætir þar við að „alls ekkert óhreint skal inn í hana ganga né sá sem fremur viðurstyggð eða iðkar lygi...“ ( Op 21:27 Kor.I 3:15; sjá einnig Jes 4:4; Ml 3:2-4).

  Einnig rennir Biblían frekari stoðum undir þessa kenningu kaþólsku kirkjunnar með því hvetja til fyrirbæna fyrir hinum framliðnu, því „eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri” og því sé það góð og gagnleg hugsun að biðja fyrir framliðnum, svo að þeir „hreinsist af syndum sínum.” (Makk.II 12.46; Matth. 12.32; 5.25.26) Þetta milli stig milli himnaríkis og helvítis kalla kaþólskir hreinsunareldinn. Þessi sama skilgreining kemur einnig skýrt fram í skrifum Páls postula er hann mælir þau varnaðarorð að: „Þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers eins er. Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun. Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi." (1 Kor 3:13-16). „Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhæfst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt.“ (2Kor 5:10).

  Philumena

  24.06.12

    09:10:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 127 orð  
  Flokkur: Lífsvernd

  Þögn ei meir - af lífsverndarbaráttu Vestanhafs

  Einn af þeim hópum sem heyja baráttu í þágu lífsverndar Vestanhafs er hópur sem kallar sig Silent No More Awareness Campaign. Markmið þeirra er að ná til fólks sem er í sárum vegna fósturdeyðinga og hvetja það til að leita sér meðferðarúrræða.

  Þeim sem það kjósa er einnig boðið að tjá sig opinberlega um afleiðingar fósturdeyðinganna. Ég hef séð svona frásagnir á EWTN sjónvarpsstöðinni og það eru áhrifamiklar en jafnframt átakanlegar sögur. Sjá má dæmi um eina svona frásögn á YouTube tenglinum hér að neðan. Viðkvæmir eru samt varaðir við þessu efni sem inniheldur sársaukafulla upprifjun um fósturdeyðingu. Vefsíða samtakanna er http://www.silentnomoreawareness.org/

  YouTube tengillinn: http://www.youtube.com/watch?v=k-WhRuiSH5U

  Ef þessi tengill er kallaður fram koma fram til hægri á síðunni tenglar á fleiri áþekkar frásagnir sem eru inni á YouTube.

  21.06.12

    17:54:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 139 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Bæjarráð Árborgar gefur vilyrði fyrir lóð handa Kaþólsku kirkjunni á Selfossi

  Bæjarráð Árborgar hefur gefið Kaþólsku kirkjunni á Íslandi vilyrði fyrir lóðinni að Austurvegi 37 á Selfossi, eða sýslumannstúninu svokallaða undir byggingu kirkju, prestseturs og safnaðarheimilis. Þetta kemur fram á vef Dagskrárinnar dfs.is [1]

  Á vef dfs.is kemur einnig fram að vilyrðið er veitt til sex mánaða og kostnaður við hönnunar- og skipulagsvinnu verði á ábyrgð umsækjanda. Ekki er þvi um endanlega úthlutun að ræða.

  Lóðin er á að giska um 4.400 fermetrar og hún stendur við Austurveg sem er aðalgata bæjarins. Til vesturs afmarkast hún af Hörðuvöllum, til norðurs af húsum sýslumannsembættisins og til austurs af auðri lóð en austan við sýslumannshúsin eru þjónustuíbúðir aldraðra.

  Gegnt lóðinni sunnan við Austurveginn er Hvítasunnusöfnuðurinn á Selfossi með aðstöðu á uþb. 1000 fermetra svæði á að giska. Hnit sýslumannstúnsins eru 63°56'15.35" N 20°59'26.18" W og er hægt að skoða það bæði á Google Earth og kortavef ja.is.

  [1] http://www.dfs.is/frettir/2138-katolska-kirkjan-a-syslumannstunie-a-selfossi-

  19.06.12

    18:28:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 505 orð  
  Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

  Ert þú frelsaður/frelsuð? Hvað felst í hugtakinu trú? Hverju svara kaþólskir?

  Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

  “Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

  1. Ert þú frelsaður/frelsuð? Hvað felst í hugtakinu trú? Hverju svara kaþólskir?

  Jóhannes Postuli kveður svo á um í boðskap sínum, að hver sá, sem trúir á nafn Guðs sonar muni öðlast eilíft líf: „Þetta hef ég skrifað til þess að þér vitið, að þér hafið eilíft líf.“ (1 Jh 5:13, sjá einnig Jh 5:24).

  En þess ber að gæta að hugtakið trú felur ekki aðeins í sér að játa trú með vörunum, heldur þarf kærleikurinn ásamt skynseminni og vilja að vera virkir þátttakendur í þeirri trúarjátningu, en þannig skilgreinir hl. Jóhannes einmitt fyrrgreind ummæli sín í fyrsta Jóhannesarbréfi: „því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum Hans boðorð.“ (1 Jh 5:3 sjá einnig 1 Jh 2:3-6).

  Trú, eða elska til Guðs, á sér, samkvæmt þessari skilgreiningu Jóhannesar, birtingarmynd í verund okkar ekki bara í gjörðum, heldur ekki síður í því sem við gjörum ekki: „Vér vitum, að hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki, sá sem af Guði er fæddur varðveitir Hann og hinn vondi snertir hann ekki.“ (Jh 5: 18) „Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.“ (1 Jh 4:21) Og í framhaldi af því bætir hann við til frekari áréttingar að: „Hver sem drýgir synd heyrir djöflinum til, því að djöfullinn syndgar frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur, að Hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.“ (Jh 3:8, sjá einnig Kor 6:9).

  Páll postuli velkist heldur ekki í vafa um að það að trúa sé ekki staðlaus yfirlýsing um trú eins og ráða mætti af eftirfarandi tilvísun án frekari skilgreiningar: „Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi vakið hann uppfrá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis,” heldur felur hin fullburða trúarjátning í sér þá áskorun að elska Guð og náungann í orði og í verki og að afneita syndinni.

  Hjá heilögum Mattheusi kveður við sama tón en hann áréttar einnig að: „Ef þú vilt ganga inn til lífsins, þá haltu boðorðin.” (Matth. 19.17) Og hl. Jakob velkist heldur ekki í vafa um skilgreiningu trúarinnar er hann áminnir að: „Eins og líkaminn er dauður án andans, er trúin dauð án verkanna.” (Jak. 2.26) Páll postuli er ómyrkur í máli hvað varðar skilgreiningu trúarhugtaksins er hann minnir menn á að gæta þess að efla stöðugt trúfestina í ugg og ótta við að vanvirða þann Guð, sem sendi Son sinn eingetinn til að boða okkur hjálpræðið og vonina um upprisu að lokinni lífsgöngu. (Rm 10:9; Fl 2:12; Sjá einnig 1 Kor 9:27, 10:12;Gal 5:1, 4; Fl 3:11-14; 1Tim 4:1, 5:15).

  Samkvæmt ofangreindu er því ranghermt að menn vinni sér leið til himna, það er andstætt skilgreiningu kaþólsku kirkjunnar á skilgreiningu trúar og útfærslu hennar í lífi og starfi kaþólskra, heldur eigi verk kaþólskra, að endurvarpa þeirri trú sem inni fyrir býr og kristallast í kærleika og hlýðni við Guð, í því felst vonin um eilífa sáluhjálp samkvæmt kenningum kaþólsku kirkjunnar.

  Philumena

  18.06.12

    19:00:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 79 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Rannsóknarnefnd óskar eftir upplýsingum

  Hér er efni af vef Kaþólsku kirkjunnar catholica.is:

  „Eins og sagt var frá í Kaþólska kirkjublaðinu í september 2011, er að störfum nefnd til að rannsaka starfshætti og viðbrögð Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna ásakana um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot. Þeir sem kynnu að hafa frá einhverju að segja í því sambandi eru beðnir að hafa samband við nefndina á netfanginu

  rannsoknkk@gmail.com

  eða bréflega til

  Rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar,
  Pósthólf 5,
  121 Reykjavík.“

  Heimild: http://www.catholica.is/, til vinstri uþb. tvo skjái niður á síðunni.

  16.06.12

  Vaxandi andstaða við róttækni í siðferðismálum og upplausn í kenningarmálum kirkna erlendis

  'Klofningur yfirvofandi í dönsku kirkjunni' er fyrirsögn á frétt á Rúv-vefnum, lesinni þar í hádeginu í dag. Ástæðan? Gifting samkynhneigðra í lúthersku kirkjunni þar. Margir prestar og leikmenn eru þessu mjög andvígir. Síðasta örþrifaúrræðið er að sniðganga biskupinn á Fjóni með vali á öðrum nú síðdegis sem leiðbeinanda presta. Og enska kirkjan ólgar af mótmælum.

  Lengi sá ritari þessara orða það fyrir, að samkynhneigðramálin gætu reynzt kristnum kirkjum og kenningu mjög skeinuhætt. Allt er það komið fram, sem ég óttaðist, og meira til (nýjasta áhlaupið hér er fráleit kynbreytingarlöggjöf).

  Fréttin í dag á Rúv-vefnum er þannig:

  • Harðar deilur hafa blossað upp innan dönsku kirkjunnar. Fimmtíu prestar á Fjóni ætla síðar í dag að stofna nýtt embætti í trássi við biskup umdæmisins. Ástæðan er andstaða prestanna við giftingar samkynhneigðra. 
  • Það er ekki beinlínis góð spretta í kristilegu kærleiksblómunum á Fjóni þessa dagana. [Dæmigerður frásagnarmáti fréttamanns á Rúv; annars er fréttaflutningurinn ágætur hér. Innskot JVJ.] Í gær tóku gildi í Danmörku lög sem heimila kirkjubrúðkaup samkynhneigðra. Þessi lög höfðu verið lengi í undirbúningi og um þau risu miklar deilur, ekki síst um orðið ægtefælle, maki. Margir prestar eru andsnúnir lögunum og neita að gifta samkynhneigða. Sóknarprestar geta samkvæmt nýju lögunum neitað að gifta samkynhneigð pör. Þá skal prófastur eða biskup útvega prest til að annast vígsluna.
  • Prestlegur leiðbeinandi í stað biskups 
  • Nú hefur hópur um það bil 50 presta á Fjóni sem eru andsnúnir lögunum ákveðið að stofna nýtt embætti, sem þeir nefna prestlegan leiðbeinanda. Hann á, fyrir þennan hóp, að koma í stað biskups, og verða trúarlegur leiðtogi hópsins. Til stóð að setja leiðbeinandann í embætti í Óðinsvéum í dag en biskupinn á Fjóni bannaði að slíkt yrði gert. Engin lög heimiluðu stofnun þessa nýja embættis. Prestarnir hafa nú tilkynnt að leiðbeinandinn verði nú síðdegis settur í embætti í kirkjunni í Løsning á Suðaustur-Jótlandi. 
  • Prófessor í trúarbragðafræði við Kaupmannahafnarháskóla segir í blaðaviðtali í dag að þessar deilur geti reynst dönsku þjóðkirkjunni erfiðar og í versta falli leitt til klofnings innan hennar.

  mm

  07.06.12

    19:27:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 96 orð  
  Flokkur: Lífsvernd, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúin og menningin

  Athyglisverðar greinar á catholica.is

  Á vef Kaþólsku kirkjunnar, catholica.is er komið nýtt efni, þýðingar úr tímaritinu Love one another. Þar er efni um glasafrjóvganir og frásagnir tveggja kvenna sem losnuðu úr viðjum áfengis- og fíkniefna fyrir Guðs hjálp.

  Þar er einnig grein um bróður André Bessette sem tekinn var í tölu heilagra 2010 og önnur um Scott Hahn, mótmælendaprest sem gerðist kaþólskur og er nú einn af fremstu núlifandi kaþólskum guðfræðingum Bandaríkjanna. Hahn kemur oft fram á kaþólsku sjónvarpsstöðinni EWTN og það er því áhugavert fyrir áhorfendur hennar að fá þessa innsýn í líf hans.

  Þýðandi efnisins er Reynir K. Guðmundsson.

  04.06.12

    19:50:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 82 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Pílagrímsferð til Maríulindar 11. júlí

  Kaþólska kirkjublaðið greinir frá því að fyrirhugað sé að fara í pílagrímsferð til Maríulindar á Snæfellsnesi 11. júlí næstkomandi. Fyrsta pílagrímsferðin til þessa staðar var farin í fyrra og tóku á annað hundrað manns þátt í ferðinni. Að sögn blaðsins herma munnmæli að María mey hafi birst Guðmundi góða Hólabiskupi við lindina á 13. öld.

  Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í pílagrímsferðinni í ár eru beðnir að senda tölvupóst á bokasafn hjá catholica.is fyrir 25. þessa mánaðar.

  Heimild: Kaþólska kirkjublaðið nr. 5-7, 2012 bls. 11.

  23.05.12

    20:03:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 351 orð  
  Flokkur: Ýmsir höfundar

  Talnabandið

  María Guðsmóðir heitir því að uppfylla 15 loforð öllum þeim til handa sem daglega biðja talnabandið.

  1. Sá sem samviskusamlega biður talnabandið daglega mun öðlast örugga vissu um náð og miskunn Guðs.
  2. Hin heilaga Guðsmóðir heitir því að veita sérstaka vernd og náðargjafir öllum þeim sem biðja talnabandið af einlægni.

  3. Bænir Talnabandsins mynda þeim, sem það biðja, öfluga brynju gegn víti. Þær eyða illsku, og vinna gegn synd og villutrú.
  4. Bænir Talnabandsins efla dygðugt líferni og framgöngu til góðs. Viðkomandi mun njóta sérstakrar náðar Guðs og hjartað mun fjarlægjast fánýti og hégóma heimsins og laðast fremur að háleitum íhugunum um ævi og líf Jesú. María Guðsmóðir biður þess að við nýtum okkur þetta tækifæri til helgunar.
  5. Sú sál sem helgar sig Maríu með því að biðja Talnabandið, mun ekki glatast.
  6. Sá sem biður Talnabandið daglega af einlægni og íhugar leyndardóma Krists á meðan, mun aldrei láta bugast af ógæfu. Guð þarf ekki að tyfta þann sem þannig hreinsar huga sinn. Sá hinn sami mun aldrei mæta óvæntum dauða, heldur vera umvafinn náð og vernd Guðs alla sína ævidaga og að lokum njóta samvista við Hann og alla heilaga í Guðs ríki.
  7. Sá sem einlæglega og samviskusamlega biður talnabandið mun ekki deyja án síðustu smurningu.
  8. Sá sem daglega og trúfastlega biður talnabandið mun njóta leiðarljóss Guðs og helgandi náðar og á dauðastundu öðlast hlutdeild í lofgjörð heilagra á himnum.
  9. María Guðsmóðir mun sjálf leysa þá úr haldi hreinsunareldsins, sem beðið hafa talnabandið samviskulega.
  10. Þeir sem helga sig talnabandinu og biðja það reglulega munu hljóta æðri sess á himnum.
  11. Allt mun rætast á besta veg sem beðið er um á talnabandinu.
  12. Alla sem stuðla að útbreiðslu Talnabandsins mun hin Heilaga Guðsmóðir aðstoða eftir þörfum.
  13. Hin Heilaga Guðsmóðir hefur hlotið það loforð frá Syni sínum að allir, sem eru ákafir stuðningsmenn talnabandsins munu um alla ævi og á dauðastundu njóta verndar alls englaskarans á himnum.
  14. Allir sem biðja talnabandið skoðast sem bræður og systur sonarins Jesú Krists.
  15. Að helga sig Talnabandinu er ákveðin ábending um sáluhjálp.

  Ofangreint vitraðist hl. Dominic og bl. Alan.
  Imprimatur, Patrick J. Hayes, DD. Erkibiskup í New York.

  Þýðing: Dr. Gígja Gísladóttir

  21.05.12

    20:53:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 16 orð  
  Flokkur: Fjölmiðlarýni, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  EWTN í beinni á netinu

  Hægt er að horfa á kaþólsku sjónvarpsstöðina EWTN í beinni útsendingu á netinu. Slóðin er: http://www.ewtn.co.uk/content/live-tv

  20.05.12

    10:33:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 53 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Hópar á Fésbók

  Nýr hópur hefur verið stofnaður á Fésbók sem heitir „Kaþólskir á Íslandi“. Hann finnst ef heitið er slegið inn í leitarglugga bókarinnar. Slóðin er http://www.facebook.com/groups/41679134639/.

  Annar Fésbókarhópur stofnaður af kaþólskum og þar sem þeir eru fjölmennir er „Lífsvernd“. Slóðin þangað er http://www.facebook.com/groups/43408397067/

  Hægt er að sækja um aðild að hópunum á venjulegan hátt.

  18.05.12

    19:46:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 102 orð  
  Flokkur: Bænir

  BÆN

  Ó Heilaga þrenning! Við þökkum þér að þú gafst kirkjunni Jóhannes Pál páfa og fyrir að þú lést mildi þíns föðurlega kærleika, dýrð kross Krists og ljómann af anda kærleikans skína í honum. Hann fól sig algjörlega á vald ómælanlegri miskunnsemi þinni ásamt móðurlegri árnaðarbæn Maríu og gaf okkur með því lifandi mynd Jesú, Hirðisins góða. Hann setti okkur heilagleikann sem háan mælikvarða kristilegs hversdagslífs en það getur vísað okkur veginn til eilífs samfélags við þig. Veit þú okkur náð þína fyrir árnaðarbæn hans, ef það er vilji þinn og við biðjum þess vongóð að hann teljist brátt til þinna heilögu. Amen.

  16.05.12

    18:59:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 94 orð  
  Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  EWTN skiptir um rás

  Gervitunglið sem sendir út kaþólsku sjónvarpsstöðina EWTN til Vestur-Evrópu hefur skipt um nafn. Tunglið gekk áður undir nafninu Eurobird 1 en heitir núna Eutelsat 28A. Stöðin hefur einnig skipt um rás á þessu tungli. Hægt er að ná henni með því að fara í stillingar á móttakaranum og láta hann lesa rásirnar inn á nýjan leik. Fara síðan í stöðvalistann, eyða gömlu stillingunni fyrir EWTN og setja inn nýju stillinguna. Nánari tæknilegar upplýsingar er að finna á þessari síðu: http://www.ewtn.co.uk/satellite-signal-change

  Fyrir þá sem tengjast í fyrsta skipti þá er hér síða með gagnlegum upplýsingum: http://www.ewtn.co.uk/content/how-to-get-EWTN

  13.05.12

    20:16:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 37 orð  
  Flokkur: Opinberanir

  95 ára afmæli birtinganna í Fatíma

  Í dag eru 95 ár liðin frá upphafsdegi birtinganna í Fatíma í Portúgal. Hér er tengill á frétt af hátíðahöldum af því tilefni. Á þessari tilvísuðu vefsíðu er einnig hægt að finna frásagnir af atburðunum sem urðu þar 1917.

  16.04.12

    21:59:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 82 orð  
  Flokkur: Páfadæmið í Róm

  Páfinn varð 85 ára í dag

  Úr frétt á Mbl.is:

  Benedikt XVI páfi söng í dag ættjarðarsöng Bæjaralands, fæðingarstaðar síns, í Þýskalandi til að fagna 85 ára afmæli sínu. Hann er elsti páfinn síðan Leó XIII dó 93 ára gamall árið 1903.

  Páfinn hóf afmælisdag sinn með messu í Vatíkaninu með 88 ára bróður sínum, Georg Ratzinger, sem sjálfur er biskup.

  „Ég sé nú fram á lokaáfanga lífs míns og ég veit ekki hvað er framundan,“ sagði Benedikt í predikun sinni.

  Sjá framhald fréttarinnar hér.

  Við sendum okkar mikilhæfa páfa hjartans hamingjuósk.

  06.04.12

  Páfi þvær fætur tólf presta

  HÉR má sjá athöfn sem fer fram árlega á skírdag í Vatíkaninu og allvíða í kaþólskum  kirkjum: þvegnir fætur manna, gjarnan af biskupi og í þessu tilfelli af páfanum sjálfum, Benedikt 15, sem er nýkominn heim úr vel heppnaðri ferð til Mexíkó og Kúbu, en hann verður hálfníræður 16. þessa mánaðar. Þessi árlega athöfn er í minningu þess, að Jesús þvoði fætur lærisveinanna á skírdagskvöld, daginn fyrir krossfestingu sína.

  Hefur sá, sem þetta ritar, verið viðstaddur slíka athöfn í Dominikana-konventu* í Englandi, og hafði hún sterk áhrif á mann.

  Thumbnail

  Fallegar guðsþjónustur voru í dómkirkju Krists konungs í Landakoti á skírdagskvöld og föstudaginn langa og lesið úr píslarsögunni, auk annarra messuatriða og fallegs söngs. Á sama hátt er mikið messuhald í öðrum kirkjum landsins og allir hvattir til að sækja kirkju um páskana – sá dagur og sú páskanótt kemur ekki aftur!

  * Konventa: e.k. klaustur, en þó ekki, því að svartmunkar eru ekki innilokaðir frá heiminum, eins og t.d. Karmelsystur eru hér á landi – eins og annað klausturfólk í kaþólskum sið ... og biður þó jafnan fyrir heiminum.

  01.04.12

    15:00:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 96 orð  
  Flokkur: Nýbúar og innflytjendur, Úr lífi og starfi kirkjunnar

  Gefandi samvera kaþólskra unglinga á æskulýðsdeginum

  Í gær og í dag, pálmasunnudag, iðaði allt af lífi og fjöri í Landakotsskóla, þar sem saman voru komnir 60–70 unglingar víða að af landinu, til að halda upp á árlegan æskulýðsdag. Þar blönduðust saman ritningarlestrar í leikritsformi, trúarsöngvar og samvera við leiki inni sem úti, hópverkefni, keppnisgreinar, en fyrst og fremst lífleg samskipti, spjall og ný kynni og kátína. Kaþólsku reglusysturnar höfðu með hjálp leikfólks veg og vanda af skipulagi og skemmtiatriðum og fór það vel úr hendi. Meðal þess, sem lukku vakti, var fótboltaleikur, þar sem annað liðið var skipað reglusystrum og prestum, hitt unglingum.

  18.03.12

    13:33:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1738 orð  
  Flokkur: Ýmsir höfundar

  Heilagur Jósef - Verndari hinnar helgu fjölskyldu

  Heilagur Jósef - Verndari hinnar helgu fjölskyldu
  Æðstur dýrlinga á himnum
  Vitnisburður vina heilags Jósefs

  Heilagur Jósef stendur Himnadrottningunni næstur í vegsemd og virðingu, þar sem hann af Himnaföðurnum sjálfum var kjörinn verndari hennar og Sonar Guðs. Vegna þess heiðurs og þeirrar tignarstöðu sem hann gegndi í jarðnesku lífi, ber að heiðra hann og tigna meðal dýrlinga næst á eftir heilagri Guðsmóður.

  Í guðspjöllunum er heilögum Jósef lýst sem “grandvörum” manni, sem hlýddi í einu og öllu bæði lögmálum og boðorðum Guðs og var grandvar í orðum og ræðu, dómum sínum og verkum. Vegna sinna mannkosta var Jósef kjörinn til að uppfylla æðsta hugsanlega hlutskipti dýrlings Drottni til dýrðar. Og ef við viljum taka hann okkur til fyrirmyndar og leitast við að líkja eftir Jósef í viðleitni til að lifa líku lífi þóknanlegu guði, þá leitum árnaðarbæna hjá honum, að okkur megi einnig auðnast sú náð að greiða leiðina til heilagleika og verða grandvör eins og hann.

  Það er því í ljósi þess heilagleika, sem Jósef auðsýndi í orði og verki, að við hyllum þennan æðsta dýrling og biðjum að sú náð veitist okkur, að hann gerist verndari okkar og fjölskyldu. Í því tilefni helgum við honum einn dag í viku, miðvikudag í þeim mánuði sem við biðjum að verði helgaður honum líkt og við helgum maí mánuð heilagri Guðsmóður. Til þess að svo megi verða biðjum við hina hefðbundnu bæn: “Til þín Ó heilagur Jósef…” í kirkjunni okkar. Gefist ekki tækifæri til að biðja þessa bæn sameiginlega í kirkjunni, þá biðjum hana í einrúmi hvern dag í þessum mánuði, sem tileinkaður er heilögum Jósef.

  Í bænabókum kirkjunnar er að finna margar aflátsbænir helgaðar heilögum Jósef, en þeir, sem hafa þróað hjá sér persónulegt og innilegt samband við verndara kirkjunnar og fjölskyldunnar, eiga sín eigin bænaorð sem streyma fram í elsku til hans, en slíkar bænir eru honum ekki síður til dýrðar og þóknanlegar en hefðbundin bæn.

  Sem kjörinn verndari Jesúbarnsins, hyllum við hann einnig sem sérstakan verndara fjölskyldu okkar, því sem huggari og verndari stendur hann Drottningu huggunarinnar næst. Fjölmargar reglur og félagshópar hafa kjörið heilagan Jósef sem verndara sinn og eiga því velgengni sína honum að þakka. Enginn dýrlingur er honum ofar og því megnar enginn annar í þeirra röðum að hjálpa sem hann. Leggjum því öll okkar að mörkum að þessi mánuður, helgaður heilögum Jósef, verði okkur öllum til velfarnaðar. Til þess að svo megi verða biðjum öll níu daga bæn til heilags Jósefs, --höldum hátíð honum til heiðurs og verum staðföst í dyggðum og örlát á fórnir.

  Leggið traust ykkar á heilagan Jósef

  Næst á eftir bænastað til heilagrar Guðsmóður er ákall til heilags Jósefs um að mæta andlegum og veraldlegum þörfum okkar. Aðrir dýrlingar sinna tilteknum þörfum manna, sem milligöngumenn milli Guðs og manna, en heilagur Jósef hefur þá sérstöðu að hann geymir lykilinn að þeim andlega fjársjóði Jesú og Maríu, sem okkur á jörðu niðri stendur til boða að eignast hlutdeild í. Líkt og á jörðu niðri, þegar Jesús og María voru hjálparhellur Jósefs í lífi og starfi, þá eru Jesús og María reiðubúin að uppfylla óskir heilags Jósefs í hinu himneska veldi.

  Helgisaga segir að innan marka Paradísar séu fjölmargir, sem ekki var hleypt inn fyrir tilstilli Lykla Péturs, heldur áttu þeir inngöngu sína og sess í himnaríki að þakka hollustu sína og tignun bjargvættarins heilags Jósefs. Þetta er aðeins helgisaga, en hún endurspeglar samt tiltrú manna á kraft og mátt heilags Jósefs, sem í skjóli Jesú og Maríu, megnar að leysa jafnvel hið óleysanlega. Hver sá, sem á í andlegu sálar- og trúarstríði ætti því að fela sig í umsjón heilags Jósefs.

  Þótt heilagur Jósef sé sérstakur miðlari guðlegrar miskunnar, þá er hann einnig sértækur meðalgöngumaður góðrar heilsu og björgun úr lífsháska, eins og hans eigið líf bar vott um, er hann bjargaði lífi fóstursonar síns Drottins vors og móður Hans hinni Heilögu Guðsmóður. Hann er einnig verndardýrlingur námsmanna, enda kom í hans hlut og Móður Jesú að uppfræða drenginn, Jesú Krist.

  Heilagur Don Bosco sagði eitt sinn, er hann var ungur maður, að “Ef þig fýsir að halda góðri heilsu og verða farsæll í lífi og starfi, þá leggðu hald og traust þitt á heilagan Jósef,” því hjá Guði nýtur hann mikillar náðar sem milligöngumaður. Svo hafi þér verið falið trúboð, þá beindu árnaðarbænum þínum að heilögum Jósef, hvort sem um er að ræða andlegar eða líkamlegar þarfir.

  Segja má um heilagan Jósef, líkt og um heilaga Guðsmóður, að allt megna þau fyrir vilja og tilstilli Guðs. Við skulum því fela heilögum Jósef allar andlegu og veraldlegu þarfir okkar. Biðjum ekki bara okkur sjálfum til heilla, heldur einnig fyrir samfélagi okkar, trúboði og kirkjunni allri.

  Eftirbreytni eftir heilögum Jósef

  Ekki nægir að biðja árnaðar dýrlings einungis til að heiðra hann, því okkur ber einnig að leggja okkar að mörkum að við megum bænheyrð verða og leitast við að feta í fótspor hans með því að líkja eftir dygðum hans í orði og verki. Að undanskilinni Heilagri Guðsmóður, sem var sérstök sköpun Guðs án syndar, “full náðar,” eins og segir í Heilagri ritningu, þá bjó heilagur Jósef, eins og áður segir, yfir hvað mestum mætti til náðargjafa allra dýrlinga. Útvalinn að Guði, sem samboðinn eiginmaður og verndari Maríu Meyjar og Guðssonarins, var hann einnig sú fyrirmynd, sem veitir hvað styrkasta stoð öllum þeim sem leita framgöngu í dyggðum og andlegu lífi.

  Þar sem hans eigið líf var helgað innri íhugun, hefur margt reglufólk valið sér hann sér til verndar og fyrirmyndar eins og fjölmörg dæmi eru um. Sem dæmi má nefna hinn margrómaða heilaga Francis de Sales, sem kaus heilagan Jósef sem sértækan verndardýrling reglu sinnar, sem ber heitið: “Heimsókn Maríu til Elísabetar.” Hver sá, sem mikið mæðir á og á í erfiðleikum með bænahald, hugleiðslu eða íhugun ætti að leita sér aðstoðar hjá heilögum Jósef. Í trúboði t.d. er lífinu lifað á eilítið frábrugðin hátt frá því sem hinir veraldlegu eiga að venjast og getur það oft reynst mörgum erfitt, þrátt fyrir bænalíf, að viðhalda góðum mannlegum tengslum. En þá er gott að leita stuðnings og þrautseigju hjá heilögum Jósef, sem þrátt fyrir sína miklu og erfiðu vinnu, var óþreytandi í að efla sífellt góð tengsl sín við Jesúm og Maríu.

  Heilagur Jósef var auðmjúkur maður, sem okkur ber að taka til fyrirmyndar, því öll erum við, að meira eða minna leyti, undirorpin hroka. Einnig í þeim efnum getum við leitað fyrirmyndar Jósefs, sem sjálfur lifði fábrotnu lífi fátæks smiðs, sem vann í svita síns andlits að framfærslu fjölskyldunnar, þótt hann ætti ættir að rekja til tiginborins fólks. Tilvísun í heilagri ritningu til heilags Jósefs er af skornum skammti, einmitt af því hans hlutverk var að vera fyrirmynd þeirrar auðmýktar, sem er móðir allra dyggða, og sem ein varðar veginn til eilífs lífs --Via Humilitatis.

  Hlýðum því fyrirmynd heilags Jósefs og tökum okkur hið fábrotna en iðjusama líf hans okkur til fyrirmyndar. Hlutskipti heilags Jósefs var að vera fyrirmynd allra vinnandi manna og því eru það ekki kraftaverk sem bera brauð á borð hans og fjölskyldu, heldur iðjusemi í fórnfýsi og hógværð. Þar voru engir englar að verki, heldur fyrirmynd hins vinnandi manns, sem var einn í anda með Guði.

  Öllum hæfileikum heilags Jósefs var varið til umhyggju fyrir Jesú Drottni vorum og Guðsmóðurinni. Í þeirri helgu tileinkun hans og fórnfýsi, finnum við fyrirmynd að okkar guðssambandi, sem einnig á að endurspegla ást okkar á Guði og viðleitni til að heiðra Hann. Því er rétt, með hliðsjón af fyrirmynd heilags Jósefs, að við tökum til endurskoðunar endrum og eins, hvort við sýnum Guði sama áhuga og hann, sama kærleika í orði og verki, og sér í lagi hvort við helgum okkur Kristi Drottni vorum í hinu allra helgasta altarissakramenti í kirkjunni okkar, sem okkur ber að sækja reglulega í það minnsta á sunnudögum.

  Heilagur Jósef hafði að markmiði að leitast við að auka á velferð og hamingju Jesú og Maríu Meyjar í hvívetna. Á sama hátt ber okkur að leita fyrirmyndar heilags Jósefs og tigna þau og virða af sama eldmóði trúarinnar. Við skulum því biðja heilagan Jósef ásjár að við öðlumst guðrækilega ást á Móður Guðs og Syni hennar og hneigjumst til siðprýði og umhyggju fyrir þeim sem okkur er falið að annast eins og maka, börn og foreldra.

  Einnig á sviði skírlífis er heilagur Jósef mikil og góð ímynd, því honum var falin umsjón hinnar hreinu meyjar Maríu af Guði sjálfum. Sá sem, á þessu sama sviði, helgar sig heilögum Jósef, mun vissulega hljóta þann styrk, sem til þarf, til að efla þessa dygð og þroska hana með sér.

  Helgisaga ein segir að dag einn hafi prestur nokkur mætt hálf ótútlegum bónda, sem var þó mjög andlega og trúarlega þroskaður og vitur. Presturinn spurði hann, hvernig hann vissi svona mikið um Guð og trúarleg efni. Bóndinn svaraði því til, að hann hefði enga aðra kennslu hlotið en hjá heilögum Jósef, en fyrir bænastað hans, handleiðslu og innblástur hefði honum hlotnast viska og þekking.

  Heilagur Jósef verndari alheims

  Heilagur Jósef er aldrei of mikill heiður sýndur. Rétt eins og margir dagar eru helgaðir hátíðum tileinkuðum Maríu Guðsmóður, eru einnig fjölmargar hátíðir tileinkaðar heilögum Jósef.
  Minnisstætt er, þegar hinn heilagi faðir Pius IX lýsti heilagan Jósef verndardýrling allrar hinnar kaþólsku alheims kirkju. En það sama ár hafði Kirkjuþingi Vatikansins borist fjölda tilmæla frá öllum heiminum um að þetta yrði gert og varð sú tilskipun að veruleika á hátíðisdegi óflekkaðs getnaðs Maríu 8. desember árið 1870.

  Heilagur Jósef er verndardýrlingur allra vinnandi stétta þjóðfélagsins, en sér í lagi handverksmanna og þeirra klaustur reglna og kirkna, sem draga nafn sitt af honum og eru honum því sérstaklega kærar, en hann er einnig verndardýrlingur allra þeirra fjölmörgu einstaklinga sem kjósa hann sem sinn verndardýrling eða heiðra hann sérstaklega með bænum sínum og óspilltu, heiðvirðu líferni.

  Sem verndardýrlingur alheimskirkjunnar er heilagur Jósef einnig verndari trúboða í Kína, en hann var útnefndur sérstakur dýrlingur þeirra þegar árið 1678 af Innocent XI Páfa. Heilagur Jósef er einnig verndardýrlingur Afríku, en hugmyndin að þeirri ákvörðun á sér rætur að rekja til dvalar heilags Jósefs í Egyptalandi.

  Heilagur Jósef veitir vernd öllum sem til hans leita í vanmætti sínum og erfiðleikum. Látum oss biðja að hann veiti okkur ávallt og um alla framtíð vernd sína er við frá innstu hjartarótum áköllum hann: “Veit oss heilagur Jósef þá náð að lifa ávallt helgu lífi og megum við til þess njóta alltaf verndar þinnar.”

  Tilvísun í grein bl. Josephs Allamano (1851-1926)
  Þýtt og endursagt af Dr. Gígju Gísladóttur. [Birt með leyfi þýðanda. Aths. RGB]

  17.03.12

    21:39:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 804 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Séra Hubert Th. Oremus minning

  Í gær var jarðsunginn frá Basilikunni í Landakoti séra Hubert Theódór Óremus prestur sem fæddur var í Hollandi 20. júlí 1917. Hann fékk köllun til að gerast trúboði í Kína aðeins fjögurra ára gamall, gekk í reglu Lasarista árið 1936 og vígðist til prests 1944.

  Hann nam kínversk fræði en bylting kommúnista í Kína kom í veg fyrir að hann færi þangað og það gerði hann aldrei. Þess í stað kenndi hann latínu og íþróttir við skóla í Hollandi. Árið 1966 fór hann og kenndi fjögur ár við St. Georgs skólann í Istanbul. Þaðan fór hann til Alexandríu í Egyptalandi og kenndi. Árið 1978 sá hann auglýsingu frá kaþólska biskupinum í Reykjavík eftir presti og þar sem hann var orðinn þreyttur á kennslu ákvað hann að söðla um og gerast sálnahirðir á Íslandi.

  Hingað kom hann sama ár og hóf íslenskunám sem gekk afar vel og tók hann við starfi sóknarprests í Hafnarfirði. Árið 1987 var hann skipaður aðstoðarprestur við dómkirkju Krists konungs í Landakoti. Þar starfaði hann æ síðan eða nánast til dánardags sem var 6. mars síðastliðinn.

  Við jarðarförina í gær kom stjórnandi Lasaristareglunnar og flutti kveðjuorð og þakkir. Hann þakkaði m.a. fyrir hve vel séra Óremusi var tekið á Íslandi. Það sem skrifað er hér um æviágrip séra Óremusar er endursögn m.a. eftir minni af því sem hann sagði. Skólinn sem séra Óremus kenndi hjá í Tyrklandi var einnig fljótur til að minnast hans á vefsíðu sinni aðeins tveim dögum eftir andlát hans eins og sjá má hér: [Tengill]

  Ég var svo lánssamur að kynnast séra Óremusi á þeim árum sem ég vann að útgáfu Sóknarblaðs Kristskirkju og síðar Kaþólska kirkjublaðsins. Hann hafði að geyma sérstæðan, glaðlegan og því eftirminnilegan persónuleika og þegar horft er yfir minningarnar kemur í ljós að þær eru aðeins góðar. Fyrst sá ég hann við messu í kapellu St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Strax þá fékk ég að kynnast kímnigáfu hans, en einn mest áberandi persónueiginleiki hans var sá að hann naut þess að skemmta fólki.

  Vissulega getur verið að kímnin hafi stundum fallið í grýtta jörð hjá ókunnugum eins og útsæði sáðmannsins góða forðum en hitt er líklegra að flestir hafi kunnað að meta léttlyndi séra Óremusar og ég er viss um að allir sem fengu tækifæri til að kynnast honum gerðu það því hann hló með fólki en ekki að því og gerði sjálfan sig ósjaldan að skotspæni skopsins. Það er því við hæfi að koma með sýnishorn af kímni séra Óremusar þó þessi fáu orð jafnist að sjálfsögðu ekki á við látbragð hans sjálfs.

  Eina sögu sagði hann af sjálfum sér sem var svona: Á Hafnarfjarðarárunum ók séra Óremus á gulri Wolkswagen bjöllu. Eitt sinn á leið heim ók hann yfir nýja hraðahindrun sem var búið að koma fyrir á óvæntum stað. Eins og algengt var með fólksvagna eins og bjöllurnar voru kallaðar þá var botninn á þessum orðinn nokkuð ryðgaður. Á hraðahindruninni tókst fólksvagninn aðeins á loft og þegar hann lenti gekk sætisfesting bílstjórasætisins niður úr gólfinu og séra Óremus sat skakkur í bílstjórasætinu. „En ég lét þetta ekki stöðva mig og ók rammskakkur heim“ sagði hann kampakátur frá. Eftir þetta merkti hugtakið „Hollendingurinn fljúgandi“ í mínum huga því ekki draugaskip heldur glaðbeittan prest á fljúgandi gulri Wolkswagen bjöllu.

  Önnur saga af séra Óremusi gerðist í Landakoti. Þannig var á árunum uppúr 1990 að þar var símkerfi með 6 línum merktum A, B, C og D. Lína C var inn í biskupshúsið en hægt var að svara línum A, B og C í báðum húsununum, þ.e. Hávallagötu 14 og 16 - minnir mig. Þegar línu var svarað þá var viðkomandi takka ýtt niður og þá logaði ljósið á línunni. Í þetta skipti sat ég í við borðstofuborð biskupshússins að Hávallagötu 14 ásamt systur Immaculata frá Írlandi og líklega einhverjum fleirum. Þá heyrist að séra Óremus kemur hlaupandi inn í húsið og kallar hátt: "The sea is burning! - The sea is burning! (Sjórinn brennur - sjórinn brennur) Okkur hálfbrá og furðuðum okkur á því hvernig sjórinn gæti brunnið. En svo var ekki því hér var rómuð glettni séra Óremusar á ferðinni. Hann hafði svarað línu C inni í Hávallagötu 16, ýtt niður takkanum og því logaði ljósið á C-línunni, þ.e. C-ið (e: sí) hljómaði á enskunni eins og 'sea' eða sjórinn. Síðan hljóp hann yfir í biskupshúsið til að finna einhvern til að svara símtalinu með þessum sérstæða hætti.

  Ávallt var séra Óremus reiðubúinn að veita aðstoð við prófarkalestur og var ótrúlegt hvað þessi roskni maður hafði náð góðum tökum á íslenskri málfræði. Vandvirkur var hann með afbrigðum og nákvæmur. Hann var ágætur ræðumaður og flutti vandaðar predikanir. Sumir minnast hans einnig sem góðs skriftaföðurs.

  Ég hef þessi orð ekki fleiri en enda hér með bæninni á bænaspjaldinu sem dreift var í jarðarförinni í gær:

  Drottinn, þú gerðir séra Húbert Óremus að trúum þjóni kirkju þinnar. Megi hann öðlast hlutdeild með Kristi í gleði eilífs lífs. Hann hvíli í friði.

  02.03.12

    19:17:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 123 orð  
  Flokkur: Siðferði og samfélag, Kenning kaþólskrar kirkju, Líknardráp svokölluð

  Páfagarður gleðst yfir því að Evrópuþingið hafnaði líknardrápi

  Páfastóll gleðst yfir nýlegri samþykkt Evrópuþingsins sem vill láta banna líknardráp. "Líknardráp í þeim skilningi að í því felist að viljandi sé bundinn endi á líf persónu sem er öðrum háð, annaðhvort með verknaði eða athafnaleysi, viðkomandi til heilla, að því er sagt er, verður alltaf að vera óleyfilegt," segir í samþykktinni. Aldo Giordano,

  fastur áheyrnarfulltrúi Páfastóls hjá Evrópuráðinu í Strassburg, lagði áherslu á mikilvægi þessarar ákvörðunar í viðtali við útvarp Vatíkansins. Lífið ræður alltaf í vafatilfellum. Þessi ákvörðun Evrópuþingsins endurspeglar í grundvallaratriðum aldalanga reynslu, "lögmál sögu okkar," sagði fulltrúi Páfastóls. Hann sagðist vona að þessi höfnun líknardráps hjá Evrópuþinginu "verði einnig grundvallarviðmið í lagatúlkun Mannréttindadómstóls Evrópu". Giordano líur svo á að þarna sé um menningarlegan vendipunkt að ræða í álfunni.

  Kaþólska kirkjublaðið, marz/apr.2012.

  29.02.12

    12:07:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 133 orð  
  Flokkur: Bænamál, Trúarleg ljóð JVJ

  Kom þú, Faðir

   

  Komdu hér, Faðir, og faðma mig

  í faðminum þínum hlýja.

  Gefðu mér ást að elska þig –

  þú ávallt býður mér fría

  náð þína nýja.

  Láttu mig aldrei ásjónu þína flýja!

   

  Lygi og synd mig leystir frá

  þú lausnarinn, Jesú kæri.

  Ef þú ert mínum anda hjá,

  ég öðrum þjóna sem bæri.

  Þín náð mig næri !

  Af fordæmi þínu fagra breytni ég læri.

   

  Þú ert í lífi líknarráð,

  ég lofa þá blessun þína.

  Allt hefur skapað nýtt þín náð,

  þú neyðina þekktir mína.

  Úr skýjum skína

  geislar sem sendir Guð á ástvini sína.

   

  Loks er ég halla í hinzta sinn

  höfði, ég bið þig veita

  að líti ég dýrðarljómann þinn,

  það ljós, er mun öllu breyta

  í hamingju heita.

  Láttu mig ætíð ásjónu þinnar leita!

   

  Áður birt í Kirkjuritinu, 3.-4. hefti 1984, og í Heimilispóstinum, XXI/i-ii (1985)

  16.02.12

    03:50:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 53 orð  
  Flokkur: Ljóð og kvæði / Poetry, Trúarleg ljóð JVJ, Kenning kaþólskrar kirkju

  Af villu og sannleika

   

  Trú ber vitni, tiplar frá

  traustum engum sannleiksorðum.

  Heilt sé nei vort, heilt vort já,

  höfnum villu, játum þá

  kenninguna', er Kristur gaf oss forðum.


  Uppörvist þín ásjón hrygg:

  Í auðmýkt taktu Jesú bending;

  lífs í stríði' er leiðsögn trygg ––

  ljós á vegi'. Að þessu hygg,

  að hvert hans orð er himnasending.

  n16+n19ii12

  15.01.12

  Myrkar miðaldir?

  Þessi grein birtist í Morgunbl. 4. jan. 2001. Orðhvöss er hún, einkum framan af. Það skýrist af herskáum anda í blaðaskrifum um Þjóðkirkjuna og kristna trú árið 2000, er greinin var rituð; upp hafði því safnazt "réttlát gremja" hjá höf. þessarar greinar. Þótt í lófa lagið væri að lina hér tóninn, eins og betra hefði verið í upphafi, er ótrúverðugt að láta þetta líta neitt öðruvísi út en það gerði, þegar það birtist fyrir ellefu árum. Því er greinin hér óbreytt. –JVJ.

  Tilhæfulausar ásakanir á hendur kristindómi og kirkju eru orðnar næsta algengur lestur á síðum þessa blaðs á kristnihátíðarári. Þegar um þverbak keyrir, er ekki auðvelt að leggja frá sér blaðið, hristandi hausinn yfir fáfræði náungans, en umbera allt í nafni málfrelsis. Rennur mér blóðið til skyldunnar þar sem ég nam guðfræði og miðaldafræði við háskóla heima og heiman og get ekki endalaust horft upp á sögufalsanir manna sem hafa það mark og mið að gera aðra jafnfordómafulla og þeir eru sjálfir.

  Flosi Guðmundsson viðrar vanþekkingu sína í Mbl. 29. nóvember 2000 með blöskranlegu bulli um þessi mál. Ég hef aðeins rúm og tíma til að taka á fáeinum bábiljum.

  Aumt er að sjá menn lastmæla heil. Ágústínusi, sem er í röð merkustu hugsuða og rithöfunda allra tíma; FG kallar hann "hórkarlinn", talar þá eins og óupplýstur hneykslunarpredikari, ekki aftan úr miðöldum, heldur út frá eigin hvatvísi; engum presti hefur dottið í hug að kalla lausaleiksbarneign hórdóm [2], og sonur Ágústínusar var ekki hórgetinn (sbr. H. Marrou: Saint Augustine and his influence through the ages [3]). Yrði lítið gert úr íslenzkum afburðamönnum eins og Jóni Loftssyni í Odda [4] eða Snorra Sturlusyni [6], ef slíkir dómar sem FG leyfir sér væru almennt viðhafðir.

  Þá segir hann Ágústínus hafa "fundið upp" erfðasyndina. Það er firra, kenningin er í Rómverjabréfinu 5.12 o.áfr. og á sér jafnvel rætur í Gamla testamentinu. Ágústínus er aðeins einn margra í kirkjusögu fornaldar til að fjalla um upprunasyndina, eins og hún er réttar nefnd [7], þótt lagt hafi skýrar út frá kenningunni en fyrri kirkjufeður.

  3. bábilja Flosa er að á "myrkum miðöldum" hafi kirkjan bannað alla hugsun (!!) og lagt niður háskóla. Þessu var þveröfugt farið. Háskólar eiga upphaf sitt á 12. og 13. öld, þeir fyrstu flestir stofnaðir af klerkum og nutu tilstyrks páfabréfa, það á við um ítalska, franska og þýzka háskóla, þrátt fyrir hugmyndaáhrif víðar að. Guðfræði var fjarri því að vera eina greinin, og nemendur hennar voru lítill minnihlutahópur; hinar sjö "frjálsu listir" voru fornámið, heimspekin skipaði veglegan sess, einnig lögfræði, læknisfræði, náttúrufræði o.fl. Klerklærðir menn, munkar og kirkjan sjálf áttu meginþátt í æðri menntum Evrópu fram á 13. öld og lengur. Ísland er þar engin undantekning.

  Ekki gekk þróun háskólanna hljóðalaust fyrir sig, en oftar en ekki verndaði kirkjan skólahaldið og mátti heita ljósmóðir endurvakinna vísinda. Margvísleg deiluefni innan háskólanna sýndu merkilegt sjálfstæði þeirra. Sjálfir kennsluhættirnir báru vitni um djúpa rökhyggju og dirfsku í því að skoða hvert mál, jafnvel yfirlýst trúarsannindi, í ljósi eða öllu heldur undir skæðadrífu alhörðustu mótraka sem unnt var að hugsa sér. [8]

  "Myrkar miðaldir", þetta er margþvælt hrakyrði í munni manna sem þekkja söguna tæpast í raun, en leyfa sér að tengja þetta ofurvaldi kirkjunnar. Ætli myrkrið og fáfræðin sé ekki mest í hugarfylgsnum þeirra sjálfra?

  Voru þá engar myrkar miðaldir? Sagnfræðingar og hugmyndasögufræðingar einskorða það hugtak við (5. eða) 6.–10. öld, með u.þ.b. aldarhléi á 8.–9. öld þegar Karlamagnús náði með herförum sínum að sameina hluta álfunnar og "menntamálaráðherra" hans, enska klerkinum Alcuin, tókst að sá ómetanlegum fræjum menntunar og skólastarfs. Áður, frá hruni Rómaveldis og þjóðflutningatímanum, ríkti löngum samfélagsupplausn í Vestur-Evrópu, innrásir barbara, fátækt og lögleysa, yfirgangssemi þeirra sterkari, kirkjan veikburða og siðmenning öll að flosna upp, ólíkt því sem var í Býzanz og Islam. Klausturlífið var þá sá þráður, sem varðveitti bókmenntaarf fortíðar, kristinn og 'heiðinn', fyrst í Suður-Evrópu og svo ekki sízt á Írlandi; afraksturinn var trúboð víða á meginlandinu og fræðastarf sem breiddist út til Englands og þaðan m.a. til Frakklands og Norðurlanda. Einn áhrifa-þátturinn voru rit hins klassískt menntaða Ágústínusar (d. 430), sem mótaði hugsun næstu alda, með ívafi platónskra hugmynda í sínum kristnu fræðum.

  Sagnfræðingurinn Christopher Dawson kallar það "the second Dark Age" þegar herjað var á Vesturlönd úr öllum áttum á 9.–10. öld, Serkir úr suðri, Magjarar úr austri og þessir rómuðu forfeður okkar úr norðri og vestri. [9] Víkingar lögðu menningu Norðimbralands, Aust-Anglíu og Kelta að mestu í rúst, fóru ótrúlegum ógnarbrandi um Frakkland, Þýzkaland og víðar. Hvarvettna voru klaustrin rænd og oft brennd ásamt heilum borgarhverfum, fólk í munklífi drepið eða leitt í ánauð. [10] Hetjudýrkendum víkingaaldar væri hollt að lesa um þá eymd og þjáningu sem margar þjóðir urðu að þola af hendi norrænna manna. [11]

  Það var ekki fyrr en með stöðvun hersóknar Serkja og með kristnun Ungverja, Pólverja og umfram allt víkinga á 10. og 11. öld (í heimalöndum þeirra, en fyrst þó í nýlendum þeirra víða um álfuna, s.s. á Englandi, Normandí og Sikiley), sem jafnvægi og öryggi komst á í Evrópu. Konungarnir Knútur mikli á Englandi, Ólafur Tryggvason og Ólafur helgi voru meðal stærstu áhrifavalda í því efni á sínum umráðasvæðum. Ólíkt því, sem gerzt hafði við blóðuga 'kristnun' Saxa á meginlandinu og Slava í Austur-Þýzkalandi, var það því ekki utanaðkomandi hervald sem innleiddi kristni á Norðurlönd, með tilheyrandi sigri yfir þjóðlegri menningu, heldur varðveittu þessi lönd sjálfstæði sitt og gátu samtengt sitt þróttmikla samfélag og menningu við nýja strauma kristninnar. [12]

  Blómaskeið miðaldamenningar er um 1050–1350, stærstu áfangarnir 12. aldar renaissanzinn, ný vakning klausturreglna, fundur rita Aristotelesar [13], vöxtur skólaspekinnar og háskólanna, uppgangur byggingar- og ritlistar, sívaxandi vegur kaþólsku kirkjunnar í útbreiðslu og ríkidæmi norður og austur um álfuna jafnt sem í innra lífi hennar. Framhaldið, með ólíkum áherzlum, var fornmenntastefnan (húmanisminn) og renaissanz 14. og 15. aldar, en fór saman við ófriðaröld. Að tímanum til fellur blómaskeið skólaspekinnar æðivel saman við gullöld íslenzkra bókmennta og menningar á 13. öld. Innan beggja þrífast þá bæði veraldleg og andleg fræði.

  Eftir áróðurskennda grein Flosa Guðmundssonar var næsta heilnæmt að lesa í sama Mbl. (aftast í bókablaði) viðtal við Vilborgu Davíðsdóttur rithöfund. Eftir að hafa lagzt í heimildarannsóknir tekur hún tæpitungulaust á nokkrum firrum sem í gangi hafa verið um miðaldir á Íslandi. Hvet ég fólk til að lesa viðtalið, það losar kannski um nokkur steinbörnin. [14] En óneitanlega þurfa ýmsir að losna við þunga byrði af fordómum áður en þeir geta leyft sér þann munað að kynna sér hinn heillandi heim miðaldafræðinnar, umfram allt hugmyndasöguna.

  Höfundur er guðfræðingur og forstöðumaður Ættfræðiþjónustunnar.
  ––––––––––––––––––––––––

  Tilvísanir og athugasemdir

  [1] Þótt langt sé um liðið frá birtingu greinar þessarar og tilefni hennar í raun tímabundið, þá er ágætt að hafa þessa grein hér á Kirkjunetinu, enda heyrast og sjást þær missagnir um miðaldir, sem greinin tekur á, mjög oft í umræðu hér á landi. Hér er greinin birt óbreytt frá því, sem var í Mbl., fyrir utan örfáa ýtarlegri hluti, sem voru í fyrri gerð hennar sem ég sendi blaðinu (en varð að stytta eða skera burt til að fá birtingu), þ.m.t. það, sem hér er nmgr. [3], en öðrum neðanmálsgreinum hef ég bætt við í þessari netútgáfu.

  [2] Hórdómur (lat. adulterium) er samkvæmt skilgreiningu óleyfileg kynmök milli giftrar konu og karlmanns eða kvænts manns með konu. Ef báðir aðilar eru í hjónabandi, er það kallaður tvöfaldur hórdómur. Einfalt skírlífisbrot milli ógiftra er í íslenzkum heimildum kallað lausaleiks- eða frillulífisbrot, en í Ritningunni saurlífi (lat. fornicatio).

  [3] "Ef við lítum á ártöl [í ævi Ágústínusar], sjáum við að frá sautján ára aldri batzt hann böndum við konu með sambúð sem að siðvenju og lögum þess tíma, ef ekki kristnu siðferði, var talin fullkomlega eðlileg, og að upp frá því var hann aldrei í sambúð með annarri konu og að í rúm 14 ár var hann í þessu tryggðasambandi við hana, sem á fyrsta ári þeirra ól honum son, Adeodatus ('af Guði gefinn')." Formleg gifting var þeim sennilega forboðin vegna stéttarmunar að Rómarlögum á þeim tíma. Monica móðir hans lagði þó að honum að giftast, en trúarleg köllun höfðaði æ sterkar til hans; upp úr sambúðinni slitnaði; eftir víxlspor með annarri konu varð hvatning Páls postula um hreinlífi til þess, að hann tók ákvörðun um að verða kristinn og helga sig þeirri köllun í skírlífi, frá 31 árs aldri til æviloka (H. Marrou: Saint Augustine and his influence through the ages, 23-4). Hneykslist nú hver sem hneykslast vill.

  [4] Jón Loftsson (d. 1. nóv. 1197) átti þessa launsyni (frilluborna): Pál biskup í Skálholti, d. 29. nóv. 1211, Orm djákn Breiðbæling, d. 1218 (móðir þeirra beggja: Ragnheiður Þórhalladóttir, systir Þorláks biskups helga), Þorstein (móðir: Æsa Þorgeirsdóttir), Einar, sem er á lífi 1242 (móðir: Helga Þórisdóttir), Hallbjörn prest og Sigurð (móðir þeirra beggja: Valgerður Loftsdóttir). Með konu sinni Halldóru Skegg-Brandsdóttur átti Jón í Odda börnin Sæmund, djákn og goða í Odda, d. 7. nóv. 1222, og Solveigu, konu Guðmundar gríss Ámundasonar, goðorðsmanns á Þingvöllum, d. 22. febr. 1210 (Sturlunga saga II, Sturlunguútgáfan, Rvík 1946, í 4. og 3. ættskrá aftan við; Íslenzkar ártíðaskrár eða Obituaria Islandica, Kh. 1893–6, ættskrá I.) – Sjálfur átti Jón Loftsson óskilgetna móður, en mikillar ættar: Þóru dóttur Magnúsar berfætts, Noregskonungs árin 1093–1103, Ólafssonar kyrra, Noregskonungs 1066–1093, Haraldssonar harðráða, hins frækilega Væringjaforingja í Miklagarði, sem einnig var dróttkvæðaskáld [5] og konungur Noregs frá 1047, unz hann endaði ævi sína í fólkorrustunni við Stafnfurðubryggju 1066, í þeirri viðleitni að brjóta England undir Noreg. Hann var fjórmenningur við Ólaf konung helga að langfeðgatali frá Haraldi konungi hárfagra, en hálfbróðir Ólafs sammæðra (sjá Heimskringuútgáfu Hins ísl. fornritafélags, ættskrá II, 2. framhald).

  [5] Eftir Harald harðráða eru varðveittar ellefu heilar dróttkvæðar vísur, þrjár hálfar, tvær vísur undir öðrum háttum og fáein brot. Sjá Den norsk-isländska Skjaldediktningen, reviderad av Ernst A. Kock, första bandet, C.W.K. Gleerups förlag, Lund 1946, s. 165–8. Þar á meðal er þessi líflegi helmingur dróttkvæðis (sem minnir á íþróttavísur Páls Ólafssonar og fleiri skálda, 'Tafl emk örr at efla' o.s.frv.):

  Íþróttir kannk átta;
  Yggs fetk líð at smíða,
  [Yggs (Óðins) líð (skip; öl, drykkur) = skáldlistin]
  fœrr emk hvasst á hesti,
  hefk sund numit stundum.

  Annars er bezt að vísa í Haraldar sögu harðráða í Heimskringlu – afar fróðlegt og (l)æsilegt rit fyrir alla miðaldaáhugamenn!

  [6] Snorri Sturluson (d. 1241) átti tvö skilgetin börn með Herdísi Bersadóttur hins auðga á Borg á Mýrum: Jón murta og Hallberu, en þrjú launbörn: Órækju, Ingibjörgu (konu Gizurar, síðar jarls) og Þórdísi, konu Þorvalds Vatnsfirðings (sjá 19. ættskrá, b, í áðurnefndri Sturlunguútgáfu).

  [7] Aðal-fræðihugtakið á latínu er peccatum originale eða peccatum originis (það fyrra þekkt á miðöldum og það síðara a.m.k. frá 1562, sjá Revised Medieval Latin Word-List from British and Irish Sources, With Supplement, prepared by R.E. Latham, M.A., published for the British Academy by the Oxford University Press, 1980 (frumútg. 1965), s. 337), – ekki peccatum hereditarium, þótt það hugtak þekkist einnig á miðöldum, sbr. Alexander Souter: A Glossary of Later Latin, Oxford 1957 (frumútg. 1949), s. 172; en ekki er vitnað um það í Nucleus Latinitatis, hinni gömlu, íslenzku latínuorðabók Jóns biskups Árnasonar (þýðing á latnesk-danskri orðabók Hans Gram prófessors; útg. Orðabók háskólans, 1994), undir orðinu 'hæres', s. 108.

  [8] Sjálft formið á mörgum helztu fræði- og kennsluritum skólaspekinganna var einmitt ekki sízt fólgið í þessu: að setja fram margar sterkar mótbárur (lat. obiectiones) gegn þeirri thesu (setningu, trúarkenningu, heimspekilegri staðreynd/afstöðu), sem höfundurinn sjálfur taldi að lokum (og jafnvel mjög oft frá upphafi) hina sönnu. Þessar objectiones voru stundum gamlar, heimspekilegar eða (villu)trúarlegar frumhæfingar og stöku sinnum hægt að kenna þær við ákveðinn upphafsmann þeirra, en stundum voru þær teknar úr ritum viðurkenndra höfunda (auctoritates), en þá í einhæfri merkingu sem ekki reyndist, þegar upp var staðið (í lokaúrlausninni) hin rétta meining þeirra eða gilti aðeins um afmarkað svið eða í takmarkaðri merkingu; en einnig var það til, að höfundurinn sjálfur (t.d. iðulega Tómas Aquinas) byggi til eins sterka röksemd gegn eigin afstöðu eins og honum var frekast unnt. Þannig reyndi einmitt á þolrifin í hans eigin trú og veruleikaþekkingu, því að slíkri röksemd, ekkert síður en öðrum, varð að svara með skýrum rökum. – Ströng rökhyggja og fagleg beiting rökfræðinnar – einnar undirstöðugreinar vísindanna – er eitt megineinkenna skólaspekinnar.

  [9] Christopher Dawson: Religion and the Rise of Western Culture, Gifford Lectures, Delivered in the University of Edinburgh 1948–1949 (London: Sheed and Ward, 1950), Chapter V: The Second Dark Age and the Conversion of the North, s. 97 o.áfr. Þessir hörmungartímar fyrir vestræna menningu byrja á Bretlandseyjum skömmu fyrir árið 800 (hinum miklu munklífismiðstöðvum í Norðimbralandi og í keltneskri menningu eyddu víkingarnir í Lindisfarne 793, Jarrow 794 og Iona 802 og 806), en verst er ástandið um 850–900. – Tökum hérna tvær glefsur úr þessu verki Dawsons: "It is of these dark years that the chronicler of St. Vedast writes, "The Northmen cease not to slay and carry into captivity the Christian people, to destroy the churches and to burn the towns. Everywhere there is nothing but dead bodies––clergy and laymen, nobles and common people, women, and children. There is no road or place where the ground is not covered with corpses. We live in distress and anguish before this spectacle of the destruction of the Christian people." (Annal. Vedast. ann. 884.) – These years witnessed the final collapse of the Carolingian Empire ..." (Dawson, op.cit., 100). Lýsingu annálanna má þó ekki taka sem almenna lýsingu Vesturlanda á þeim tíma, heldur á þeim svæðum sem víkingar fóru um með brandi sínum – þó ótrúlega víða. – "There has never been a war which so directly threatened the existence of Western Christendom as a whole; indeed the Christian resistance has more right to the name of a crusade than the Crusades themselves. (The whole army that fell at Ebersdorf in 880 was canonized collectively by the German Church as the Martyrs of Ebersdorf.) It subjected the inchoate [byrjandi] order of Western Christendom to a terrible test which burnt away anything that was weak and superfluous and left only the hardest and most resistant elements which were inured to insecurity and violence. Thus these years saw the complete destruction of the monastic culture of Northumbria and East Anglia which had produced such rich fruits in the previous century. They marked the end of the great age of Celtic Christian culture, which survived only in a weakened and impoverished condition. They destroyed the Carolingian Empire itself and ended the intellectual revival when it was just reaching its creative period in the lifetime of John Scotus and Servatus Lupus." (ibid., 101).

  The Making of Europe [400–1000 A.D.]. An Introduction to the History of European Unity. London: Sheed and Ward, 1932, ........

  [10] Jón Jónsson: Víkingasaga, ...

  [11] Sjá ennfremur, um aðra óyndislega þætti í siðum norrænna manna, þessa grein á Moggabloggi mínu (Lífið og lífsgildin): Ásatrúin "friðsæl" að mati Mbl.?

  [12] Eftir að hafa sagt frá hlut Knúts mikla, konungs á Englandi, að því að senda enska biskupa og munka til Danmerkur og Noregs, segir Dawson (í sama riti, s. 109): "Thus the incorporation of Scandinavia into Western Christendom was due, not as in Central Europe to the power and prestige of the Western Empire, but to the conquest of Christian England by the barbarians who brought back Christianity to the North with the spoils [ránsfeng, herfangi] of invasion. – Hence the conversion of the Northern peoples did not mean the victory of an alien culture and the loss of national independence, as happened to the continental Saxons or the Slavs of Eastern Germany. The pagan North entered the society of Western Christendom at the very time when its social vitality was greatest and its culture most creative. It was the work of the greatest of their own rulers, kings like St. Vladimir in Russia, Canute the Mighty in Denmark and Olaf Tryg[g]vason and Olaf the Saint in Norway."

  [13] Þegar ég tala um 'fund' rita Aristotelesar, á ég við uppgötvun kristinna fræðimanna á tilvist margra meginrita hans á 12. og 13. öld. Fyrir þann tíma voru það einkum rökfræðirit hans, sem kunn voru meðal Evrópumanna á miðöldum. Rit hans voru þýdd af kristnum, sýrlenzkum fræðimönnum ....... úr grísku á sýrlenzku og persnesku, en síðan úr þeim tungum á arabísku. Þannig bárust þau til Spánar, þar sem múslimskir heimspekingar meðal Mára rannsökuðu þau og ritskýrðu. Heimspekingurinn Averroes öðlaðist þvílíka viðurkenningu sem ritskýrandi Aristotelesar, að hann var einfaldlega kallaður Commentator, rétt eins og Aristoteles sjálfur var kallaður Philosophus (heimspekingurinn, nánast eins og með ákveðnum greini), svo virtur var hann og settur í fremstu röð á sínu sviði meðal margra 13. aldar skólaspekinga. En úr arabísku voru rit hans þýdd á latínu...., unz þar kom, að fræðimenn komust yfir gríska frumtextann, einkum gegnum Sikileyjarríkið, og þá var það sem Vilhjálmur frá Moerbeke þýddi ..... rit, að beiðni hins fræga Tómasar af Aquino. Ekki var það í óþökk páfa, enda Tómas sjálfur starfandi um árabil á vegum páfa eða í þágu hans.

  [14] Morgunblaðið 29. nóv. 2000 (frír netaðgangur), en þar segir m.a.:

  Vilborg segir miklar ranghugmyndir ríkjandi um Ísland á miðöldum. ,,Fólk stendur í þeirri trú að miðaldamenn hafi upp til hópa lifað við sult og seyru og búið í andlegu og tilfinningalegu myrkri, ekki þvegið sér nema í mesta lagi upp úr keytu, verið fáfróðir og heimskir og velt sér upp úr skít, og helsta afþreyingin hafi verið að telja á sér lýs og flær. Þessar hugmyndir hafa orðið til bæði í skólastofunum fyrr á tíð, þar sem Íslandssögukennslan fólst aðallega í utanbókarlærdómi um ártöl á hafísaárum og plágum og stórubólum, sem og í afar myrkum kvikmyndum um fortíð Íslendinga. Þar birtist alþýða manna óhrein að utan sem innan, klædd í strigaræfla og tennurnar brunnar og svartar. Fornleifarannsóknir sýna hins vegar að norrænt fólk á miðöldum klæddi sig samkvæmt sömu litríku tískunni og fólk á meginlandi Evrópu og tannskemmdir þekktust ekki hér á landi fyrr en á 17. öld. Við höfum þá heldur engar forsendur til að ætla að andlegt líf miðaldafólks hafi verið rýrara en okkar nútímafólks. 15. öldin var nefnilega um margt blómatími á Íslandi, hér var uppsveifla í efnahagslífinu, næg atvinna, árferði var betra en á öldinni á undan og yfirstéttin sótti sér menntun til evrópskra háskóla. Dans, leikir, söngur og hljóðfæraleikur var í hávegum hafður allt þar til öll slík ,,lausung" var bönnuð við siðaskiptin. Vitaskuld var gríðarlegur stéttamunur ríkjandi og siðalögmál kirkjunnar giltu um allt mögulegt. Hins vegar sýna heimildir að þeim var nú ekki fylgt út í ystu æsar. Þorkell Guðbjartsson var til að mynda mikill kvennamaður og á að hafa átt tugi barna í lausaleik þrátt fyrir skírlífsheit sín sem kaþólskur prestur. Munurinn á veröldinni árið 1431 og árið 2000 er kannski mestur sá að hömlur á tilfinningar og hegðun voru aðrar og meiri, og kirkjan og trúin höfðu áhrif á allt daglegt líf, ytri umgjörð lífsins var önnur. En manneskjan er alltaf söm við sig hið innra, sama á hvaða öld hún lifir. Við þráum öll að elska og vera elskuð og við erum gráðug og breysk og við eigum það til að bregðast þeim sem við ættum síst að bregðast," segir Vilborg Davíðsdóttir.

  Taka ber fram, að Vilborg hefur sett sig vel inn í sögu miðalda á Íslandi, m.a. notið ráðgjafar sagnfræðinganna Gunnars F. Guðmundssonar (höf. verksins Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. Kristni á Íslandi II, Rv. 2000) og Láru Magnúsardóttur.

  12.11.11

    19:16:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 142 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Nýtt vefsetur: www.fokolare.is

  Fokolarehreyfingin á Íslandi hefur opnað vefsetur: http://www.fokolare.is. Á vefnum kemur eftirfarandi fram: „Fokolare er hreyfing sem hefur að markmiði að stuðla að einingu og bróðerni á öllum sviðum lífsins; í persónulegum samböndum, innan fjölskyldunnar, í skóla og á vinnustöðum, innan kirkjunnar og í samfélaginu í heild.

  Stofnun Fokolare hreyfingarinnar má rekja til ársins 1943 þegar Chiara Lubich og vinkonur hennar í borginni Trent á Norður-Ítalíu uppgötvuðu Nýja testamentið sem lesefni til að lifa eftir. Þær tóku þá róttæku ákvörðun um að lifa eftir orðum Bíblíunnar í öllum kringumstæðum lífsins. Þær störfuðu eftir einkunnarorðunum:

  “Faðir, verði þeir allir eitt” (Jh, 17, 21)

  Fljótt tók fjöldi fólks konurnar til fyrirmyndar og ákváðu að lifa eftir orðum Nýja testamentsins. Síðan hefur Fokolare-hreyfingin vaxið jafnt og þétt og starfar nú í öllum heimsálfum.“

  Meðal efnis á vef Fokolare má finna hugmynd um hagkerfi í þágu allra: Sjá hér: http://www.fokolare.is/index.php?option=com_content&view=article&id=72&Itemid=78

  14.10.11

    21:18:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 163 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Kaþólska kirkjublaðið 20 ára

  Um þessar mundir eru 20 ár liðin síðan Kaþólska kirkjublaðið kom út í fyrsta sinn, í júní 1991. Á þeim tíma hafa komið út 196 tölublöð. Með tilkomu Kirkjublaðsins var útgáfu Sóknarblaðs Kristskirkju hætt en Sóknarblaðið hafði verið gefið út frá október 1980. Af sumarhefti blaðsins á þessu ári 2011 voru prentuð 4200 eintök. Kostnaður við eitt tölublað er um 570 þús. krónur. Þetta kemur fram í pistli sem séra Denis O'Leary skrifar í septemberhefti blaðsins.

  „Megi Kirkjublaðið halda áfram að koma út á ókomnum árum og skýra frá lífi kirkjunnar innanlands sem utan“, skrifar séra Denis og bætir við: „Megi það einnig halda áfram að styrkja eininguna og sambandið milli safnaðanna og hópanna í biskupsdæmi okkar og annars staðar ... Til hamingju með afmælið.“[1]

  Kaþólska kirkjublaðið er sent heim til meðlima kaþólsku kirkjunnar og þeirra sem þess óska. Áskriftarsími blaðsins er 552 5388 og netfang catholica@catholica.is. Kirkjublaðið er fjármagnað með frjálsum framlögum. Þeir sem vilja styrkja útgáfu blaðsins geta lagt inn á reikning 513-26-3143, kt. 681069-4629. [2].

  [1] Kaþólska kirkjublaðið, bls. 14, 9. tbl. 2011.
  [2] Kaþólska kirkjublaðið, bls. 22, 8.-9. tbl. 2009.

  04.10.11

    15:43:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 104 orð  
  Flokkur: Altarissakramentið

  Fréttatilkynning frá Kaþólsku kirkjunni

  Úr Kaþólska kirkjublaðinu:

  „Herra Pétur Bürcher, biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, þakkar Róbert Spanó lagaprófessor fyrir að hafa komið á laggirnar rannsóknarnefnd, sem óskað var eftir í sambandi við ásakanir um kynferðisleg brot á hendur tveimur prestum og einum starfsmanni kirkjunnar, sem í dag eru dánir. Til þess að virða fyllilega störf nefndarinnar mun biskupinn, prestarnir, reglusysturnar og starfsmenn Kaþólsku kirkjunnar ekki tjá sig opinberlega um málið á meðan rannsóknin stendur. Biskupinn þakkar jafnframt nefndarmönnum fyrir að taka, umfram sín mörgu mikilvægu trúnaðarstörf, þetta verkefni að sér og býður þá velkomna til starfa.

  Séra Jakob Rolland, kanslari
  Reykjavík, 29. ágúst 2011“

  Heimild: Kaþólska kirkjublaðið bls. 3, nr. 9, 2011

  04.09.11

    17:09:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 140 orð  
  Flokkur: About our website. Kirkju.net, Kirkjusaga, íslenzk, Kristindómur og menning, Lúthersk kristni

  Nýr vígslubiskup í Skálholti

  Kristján Valur Ingólfsson hefur verið kosinn vígslubiskup í Skálholti, þar sem hann var áður rektor, en var nú síðast verkefnisstjóri helgisiða og kirkjutónlistar á Biskupsstofu, auk prestsþjónustu á Þingvöllum. Hann er grandvar maður og gegn, einstaklega hæfur í helgiþjónustunni, enda með góða menntun á því sviði, og mun reyndari en mótframbjóðendur hans. Vel er hann fallinn til þessa embættis, sem honum er veitt að verðleikum. Óskum honum alls góðs og fararheilla, er hann tekur að sér þetta nýja hlutverk. Megi vegsemd Skálholtsstaðar eflast meðal Þjóðkirkjumanna og annarra sem þangað sækja. Kona Kristjáns er Margrét Bóasdóttir, vel lærð og fjölhæf söngkona, sem mikið hefur gefið af sér í tónlistarstarfi. Eru þau bæði höfðingleg og ljúfmannleg í viðkynningu.

  Viðauki 17. sept.: Sr. Kristján Valur verður vígður biskupsvígslu í Skálholti á morgun, sunnudag, við hátíðlega athöfn, sjá nánar þessa frétt í Mbl. í dag.

  01.08.11

    12:43:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 337 orð  
  Flokkur: Trúarleg tónlist og textar, Trúin og menningin

  „Óttastu ei“ - nýr íslenskur texti við þekktan erlendan sálm

  Sumir lesenda kannast kannski við sálm sunginn á ensku sem heitir Be Not Afraid. Á eftirfarandi YouTube tengli er hann fluttur af bandaríska munknum John Michael Talbot, fyrrum liðsmanni hljómsveitarinnar Mason Proffit:

  http://www.youtube.com/watch?v=m37WWOYvesk

  Þó Talbot sé á ýmsum stöðum á netinu eignaður þessi sálmur er það líklega á misskilningi byggt því heimildir benda til þess að höfundur sálmsins sé Jesúítapresturinn Robert J. Dufford og að hann hafi samið lagið og textann árið 1975.

  Ég heyrði þennan sálm fyrst sunginn í upptöku á segulbandsspólu sem ég keypti í Meðugorje í Bosníu-Herzegovinu árið 1989 en þangað komu margir bandarískir pílagrímar og því ekki ólíklegt að sálmurinn hafi verið sunginn þar. Í tilefni af og vegna hvatningarorða Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs 22. júlí sl. [1] fannst mér viðeigandi að búa til íslenskan texta við sálminn því hann er hvatning til kristinna manna um að láta ótta ekki buga sig. Íslenska heiti sálmsins er „Óttastu ei“:

  Óttastu ei

  Þó um eyðimörk þú ferðist, þér ei þorstinn grandað fær.
  Þó að leið þín liggi um óravegu, ætíð er ég nær.
  Þó í öðrum löndum orð þú mælir, allir skilja ná.
  Auglit Guðs þú síðar meir munt sjá.

  Viðlag:
  Óttastu ei, ávallt á undan geng ég, komdu – fylgdu mér
  og hvíld ég færi þér.

  Þó að boðaföll þín bíði, og bráður ægi sjór.
  Þó þú farir meðal funa, feta muntu rór.
  Þó þér óvinarins ógni máttur, og að þér dauðinn rær
  Veistu að ég stend þér alltaf nær.

  Viðlag

  Sælir eru snauðir, því himnaríki þeirra er.
  Þeir sem syrgja eru sælir, því að huggast munu hér.
  Og ef vondir menn þig víta og hata, vegna bara mín.
  Blessun, já blessun er þín.

  Viðlag

  1975, Robert J. Dufford, SJ. Ísl. texti RGB.

  Gítargrip við lagið má finna hér: http://www.chordie.com/chord.pere/www.gospelmusic.org.uk/a-g/be_not_afraid.htm

  [1] »Det er vigtigt ikke at lade frygten tage overhånd. Vi ønsker netop i en time som denne at stille op for det, vi tror på: et åbent samfund, et samfund hvor politisk virksomhed kan drives i tryghed uden trusler, og hvor vold ikke skal skræmme os.«
  Jens Stoltenberg 22. júlí 2011. http://www.information.dk/274117

  30.07.11

    00:28:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 225 orð  
  Flokkur: Kristindómur og menning, Messu- og tíðasöngur, Tónlist

  Frægur, þýzkur organisti spilar í Hallgrímskirkju um helgina

  Morgunblaðið greinir frá því að í dag, laugardag 30. júlí, og á morgun verður kirkjutónlistarstjóri St. Michaelis-höfuðkirkjunnar í Hamborg, Christoph Schoener, sem er einn fremsti organisti Þýzkalands, boðsgestur á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju. Þar leikur Schoener verk eftir Bach, Alain, Liszt og Gulimant.

  Christoph Schoener Tónleikar laugardagsins hefjast klukkan 12:00 og miðaverð er 1500 kr. og tónleikar sunnudagsins hefjast klukkan 17:00 og miðaverð er 2500 kr. Tónleikarnir verða sem fyrr segir haldnir í Hallgrímskirkju. Schoener hefur um árabil átt góðu gengi að fagna sem konsertorganisti og hefur leikið á tónleikum um alla Evrópu, í Ísrael og í Bandaríkjunum. Auk þess stjórnar hann kórum St. Michaelis-kirkjunnar og hefur flutt fjölmargar óratóríur.

  Þá segir frá því, að þetta er 19. sumarið sem orgelhátíð er haldin yfir sumartímann, en slíkar hátíðir hófust þegar Klais-orgel kirkjunnar var vígt árið 1992. Margt fleira er á dagskránni, því að hátíðin hófst 19. júní sl. og stendur til 14. ágúst nk.

  Hér má sjá á netinu stutt viðtal við Christoph Schoener og við annan organleikara sömu kirkju, Manuel Gera, og stutta tónbúta þar sem þeir leika á orgelið fallega í St Michaelis-kirkjunni:

  Hér má svo benda á enn einn afar góðan organista, Olivier Latry, einn þriggja fastra organleikara við Nôtre-Dame-dómkirkjuna í París, en á vefsíðu Krist.blog.istónlistar-efnisflokki þar) verða á næstu dögum væntanlega birtir fleiri tenglar á falleg kirkjulistaverk. Á nefndri vefslóð er unnt að komast inn á tvö lítil sýnishorn um snilld Latrys.

  26.07.11

    15:59:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 91 orð  
  Flokkur: Páfinn

  Benedikt páfi biður fyrir fórnalömbum hryðjuverkanna í Noregi

  Zenit.org greinir frá því að í ávarpi eftir Angelusbæn sunnudagsins hafi Benedikt XVI páfi beðið fyrir fórnarlömbum hryðjuverkanna í Noregi og ástvinum þeirra. Hann hvatti einnig alla til að snúa af vegi haturs og illsku. Á laugardaginn sendi Bertone kardínáli og ríkisritari Páfagarðs einnig samúðarskeyti til Haraldar Noregskonungs. Þar sagði m.a: „Í djúpri hryggð vegna frétta af tilgangslausum ofbeldisverkum í Ósló og Utoya biður Benedikt páfi XVI sérstakra bæna fyrir fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra. Megi Guðs friður vera með hinum látnu og guðleg huggun koma til þeirra sem þjást“.

  Heimild: http://www.zenit.org/article-33150?l=english

  18.07.11

    10:41:57, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 94 orð  
  Flokkur: Fjölmiðlarýni, Helgir menn

  Athyglisverð umfjöllun á Rás 1 um Hildegard frá Bingen

  Á Þemakvöldi Rásar 1 sem var á dagskrá laugardagskvöldið 16. júlí sl. var athyglisverð umfjöllun um Hildegard frá Bingen sem var abbadís í klaustri á Rínarbökkum á 12. öld. Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan. Um er að ræða langan þátt og er umfjöllunin um Hildegaard aftarlega í hljóðskránni. Hægt er að fletta aftast með því að draga flettisleðann til hægri. Viðmælendur þáttarins eru Anna Margrét Magnúsdóttir, Ásdís Egilsdóttir og Hildur Hákonardóttir. Þessi hluti þemakvöldsins virðist vera upptaka frá 1998.

  Tengill á þáttinn: http://dagskra.ruv.is/ras1/4578908/2011/07/16/
  Umfjöllun vísindavefsins um Hildegard: http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=58448

  12.07.11

    09:11:34, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 383 orð  
  Flokkur: Fjölmiðlarýni

  Enn um heiti pólitískra fylkinga á Norður-Írlandi

  Upp á síðkastið hafa verið að berast fréttir af aukinni pólitískri ólgu á Norður-Írlandi.[1] Í fyrra bloggaði ég og gagnrýndi orðanotkun RÚV og mbl.is þegar fjallað var um þær fylkingar sem tókust á. [2] Frá því það blogg var skrifað virðist lítið hafa breyst hvað varðar þá venju íslenskra fjölmiðla að nefna fylkingarnar sem þar takast á „kaþólska“ og „mótmælendur“. Þeir sem kasta grjóti, henda bensínsprengjum í lögreglubíla og hleypa af byssum geta vart talist vera neitt annað en pólitískir aðgerðasinnar eða vígamenn stríðandi fylkinga. Ég geri ráð fyrir að trúuðu fólki hér á landi, án tillits til þess hvernig það skilgreinir trú sína, ofbjóði að vera óumbeðið dregið í þennan dilk ofbeldismanna af fjölmiðlinum sem lögum samkvæmt á að gæta hlutleysis.

  Þróun síðustu ára og reyndar sagan öll sýnir að fólk með önnur markmið en trúarleg leitar inn í trúarhópana til að ná í hluta af þeirri athygli sem fólk sýnir trúnni. Á sama hátt má einnig gera ráð fyrir að fólk með trúarleg markmið leiti inn í stjórmálahópa og geri þá á köflum líka trúarhreyfingum. Gera má ráð fyrir að sum þessara annarlegu markmiða séu öfgakennd eða leiði til óhamingju af einhverju tagi.

  Það fer ekki á milli mála þegar deilurnar á Norður-Írlandi eru skoðaðar að þar takast á tvær stjórnmálafylkingar. Þrátt fyrir að meirihluti lýðveldissinna séu kaþólskir og að meirihluti sambandssinna séu mótmælendur þá finnast samt undantekningar þar á. Um það má lesa á Wikipedia hér. Ég sé ekki ástæðu til að draga þær upplýsingar í efa fyrir það eitt að heimildin er Wikipedia.

  Ég hef á liðnu ári frá því ég skrifaði fyrri pistilinn fylgst með því hvernig erlendir fjölmiðlar fjalla um þessi mál og flestir nefna stjórnmálahreyfingarnar nöfnum á borð við „lýðveldissinnar“ eða „sambandssinnar“. Ég rakst þó á eina undantekningu en það var á franskri fréttastöð sem sjónvarpar á ensku. Getur hugsast að þar sem áhrifa ágengrar veraldarhyggju gæti hvað mest falli menn í þá gryfju að koma höggi á trú og trúarbrögð almennt með svona orðanotkun? Það er auðvelt að afsaka sig með því að svona hafi þetta alltaf verið orðað og því sé sjálfsagt að orða það svona áfram. Trúarhóparnir liggja vel við því höggi að um trúarbragðadeilur sé að ræða og alltaf er nóg af Þorgeirum Hávarssonum sem njóta þess að taka gott högg.

  [1] http://www.ruv.is/frett/oeirdir-a-gotum-belfast
  [2] http://www.kirkju.net/index.php/2010/07/13/ruv-og-mbl-is-spyrea-oeireaseggi-vie-truarbroege?blog=8

  07.07.11

    22:42:03, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 114 orð  
  Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kirkjusaga nýaldar, alþjóðleg, Kaþólskir Íslendingar

  Leiðrétting um Hinrik biskup Frehen

  Í Fréttatímanum 8.–10. júlí (nýútkomnum) er að finna ofurlitla klausu á bls. 2:

  "Leiðrétting

  Í umfjöllun Fréttatímans 24. júní um kynferðisbrot í Landakotsskóla var ranglega sagt að Hinrik Frehen hefði verið sá biskup kaþólsku kirkjunnar sem fékk ábendingar um kynferðisbrot árið 1963. Hið rétta er að þá var annar maður biskup kaþólskra á Íslandi. Hinrik Frehen tók ekki við sem biskup fyrr en 1968. Beðist er afsökunar á þessum mistökum. Þau voru blaðsins en ekki viðmælandans."

  Við þessa frétt í blaðinu má bæta, að þá fyrst kom Hinrik Frehen til Íslands, er hann hafði verið valinn biskup kaþólskra. Hann gegndi aldrei neinu öðru embætti hér, fyrr en hann var kallaður til biskupsdóms.

  Blessuð sé minning þessa mæta manns. –JVJ.

    15:54:43, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 152 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Orgelandakt í Dómkirkju Krists konungs í júlí og ágúst 2011

  Greint er frá því á vef Kaþólsku kirkjunnar að alla miðvikudaga í júlí og ágúst 2011 verði haldin orgelandakt kl. 12.00-12.30 í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti í Reykjavík (Kristskirkju). Ýmsir organistar koma þar fram en þessi andakt verður haldin níu miðvikudaga, frá 6. júlí til 31. ágúst 2011 og verður megináhersla lögð á trúarlega orgeltónlist.

  Tónleikaröðin hefst miðvikudaginn 6. júlí en þá leikur Iveta Licha á hið danska Frobenius-orgel kirkjunnar. Þetta er þriðja sumarið sem þessi tónleikaröð er haldin og er aðgangur ókeypis og öllum frjáls. Hér að neðan er skrá um þá organista sem leika hverju sinni í sumar:

  Júlí 2011
  Miðvikud. 6. júlí kl. 12.00: Iveta Licha
  Miðvikud. 13. júlí kl. 12.00: Lára Bryndís Eggertsdóttir
  Miðvikud. 20. júlí kl. 12.00: Ágúst Ingi Ágústsson
  Miðvikud. 27. júlí kl. 12.00: Haukur Guðlaugsson

  Ágúst 2011
  Miðvikud. 3. ágúst kl. 12.00: Friðrik Vignir Stefánsson
  Miðvikud. 10. ágúst kl. 12.00: Kári Allansson
  Miðvikud. 17. ágúst kl. 12.00: Kjartan Sigurjónsson
  Miðvikud. 24. ágúst kl. 12.00: Sergio Militello frá Flórens
  Miðvikud. 31. ágúst kl. 12.00: Zbigniew Zuchowicz

  Heimild: Vefur Kaþólsku kirkjunnar; http://www.catholica.is

  05.07.11

    21:01:04, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 82 orð  
  Flokkur: Pílagrimsferðir, Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Pílagrímsferð til Maríulindar á Snæfellsnesi

  Til undirbúnings Heimsæskulýðsdags Kaþólsku kirkjunnar verður farin pílagrímsför til Maríulindar á Snæfellsnesi þriðjudaginn 19. júlí nk. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í kirkjunum og á heimasíðu kirkjunnar: www.catholica.is. [1]

  Um Maríulind má fræðast á eftirfarandi vefslóð: http://helgisetur.wordpress.com/2010/08/06/hellnar-snfellsnesi/ Þar segir m.a. „Svo gerð­ist það fyr­ir ekki svo mörg­um ár­um, að al­mennt var far­ið að kalla þessa upp­sprettu Lífs­lind en litlu síð­ar Maríu­lind, því að Guðs­móð­ir hefði birzt Guð­mundi bisk­upi á þess­um stað, að sögn ár­ið 1230.“ [2]

  Endurbirtur pistill frá 9.6. 2011

  [1] Úr Kaþólska kirkjublaðinu nr. 6-8, 2011
  [2] http://helgisetur.wordpress.com/2010/08/06/hellnar-snfellsnesi/

  01.07.11

    09:19:21, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 182 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Þungbært að fá nöfnin ekki fyrst frá kirkjunni

  Í dag birti Fréttatíminn nafn Sæmundar F. Vigfússonar, prestsins sem liggur undir grun um kynferðisafbrot kynferðislega áreitni*. [1] Áður hafði sama blað riðið á vaðið og birt nöfn Georgs skólastjóra og Margrétar. Það er þungbært að fá ekki þessar slæmu fréttir og nafnbirtingar frá kirkjustjórninni fyrst. Almennt má segja að ef ætlunin er að byggja upp traust milli kirkjustjórnarinnar og safnaðarfólks þá verður kirkjustjórnin að láta safnaðarfólk njóta forgangs hvað varðar upplýsingar af þessu tagi. Það helgast af því að þau börn sem verið er að reyna að vernda í málum af þessu tagi eru velflest börn safnaðarfólks.

  Það þarf að birta nafn/nöfn þeirra sem ásakaðir hafa verið, ásamt afsökunarbeiðni, einlægum huggunarorðum og upplýsingum um til hvaða ráðstafana hafi verið gripið. Einnig þarf að birta hvatningu um að fólk gefi sig fram og láti vita ef ske kynni að einhverjir fleiri búi yfir upplýsingum sem skipt geta máli.

  Sama má reyndar segja um allt sem skiptir máli í starfsemi hennar. Safnaðarfólk á að fregna það fyrst frá kirkjunni og úr málgögnum hennar og miðlum en ekki úr almennum fjölmiðlum.

  [1] Sjá bls. 2:
  http://www.frettatiminn.is/images/uploads/tolublod/01_Juli_2011.pdf
  * Leiðr. 2.7.2011.

  29.06.11

    07:53:37, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 345 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Hvað geta kirkjur gert til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi?

  Kirkjur sem ætla sér að vera leiðandi siðferðislegt afl í samfélaginu verða að setja sér strangari viðmið m.t.t. starfsmanna en þeirra sem almennt gilda í þjóðfélaginu. Geri þær það ekki þurfa þær að hætta að gera ráð fyrir að geta haft nokkur siðbætandi áhrif á samfélagið. Þær þurfa því að taka á málum af festu, áræðni og starfa eftir fyrirfram ákveðinni áætlun. Slík áætlun og festa er líkleg bæði til að fæla hugsanlega gerendur sem þegar kynnu að vera starfandi í kirkjunni frá því að beita ofbeldi og einnig er líklegt að hún dragi úr líkum á því að menn með þessa eða aðra glæpahneigð líti á kirkjuna sem álitlegan starfsvettvang.

  Mér koma í hug nokkur atriði til að opna umræðuna með:

  1. Kæra þarf grunaðan afbrotamann til lögreglu sem rannsakar og sendir mál til saksóknara sem ákvarðar hvort gefin er út ákæra. Þetta er hinn eðlilegi farvegur fyrir öll kynferðisafbrotamál sem koma upp í þjóðfélaginu.

  2. Einnig þarf að fara fram innri rannsókn og skoðun. Liður í þessu væri að birta opinberlega nöfn þeirra aðila sem sæta rannsókn til að óska eftir frekari ábendingum um afbrot. Slík nafnbirting gæti því bæði styrkt málstað hinna saklausu auk þess að veikja málstað hinna seku. Nafnbirtingar koma í veg fyrir að aðrir starfsmenn kirkjunnar lifandi eða látnir þurfi að þola sögusagnir og getgátur um sekt.

  3. Þegar starfsmenn koma erlendis frá þyrftu þeir að opinbera ferilskrá sína frá upphafi ásamt nöfnum og netföngum hjá þeim stofnunum sem þeir hafa starfað hjá áður. Þetta myndi gera hverjum sem er færi á að hafa samband við þessar stofnanir og kanna feril þeirra.

  4. Hafna þeim starfsmönnum sem ekki hafa hreint sakavottorð og þeim sem liggja undir grun annarsstaðar.

  5. Yfirmenn þeirra kirkna þar sem grunsemdir koma upp þurfa að bregðast fljótt við og biðja meinta þolendur strax afsökunar. Einnig þarf að gæta þess að þeir beiti frá fyrsta degi þeim sálgæsluaðferðum sem þeir eiga völ á til að græða þau sár sem þegar hafa myndast. Mæla huggunarorð til þeirra sem eru í sárum og hvetja fleiri þolendur til að stíga fram ef einhverjir eru.

  28.06.11

    10:03:19, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 168 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Biskupinn biðst afsökunar og leggur drög að rannsóknarnefnd

  Pétur biskup hefur beðið fórnarlömb kynferðisofbeldis afsökunar og lagt drög að rannsóknarnefnd. Þetta kemur fram á mbl.is. Kirkjan hefur sent frá sér tilkynningu þar sem eftirfarandi kemur fram:

  „Til ráðgjafar í þessu erfiða máli hefur biskup kallað á Róbert R. Spanó lagaprófessor, en eins og kunnugt er, var hann í forsæti rannsóknarnefndar um sambærileg mál innan þjóðkirkjunnar.

  Hefur þess verið farið á leit við Róbert að hann velji fulltrúa í rannsóknarnefndina og setji henni starfsreglur og markmið. Stefnt verði að því að ljúka undirbúningi að stofnun rannsóknarnefndarinnar sem fyrst þannig að hún geti hafið störf eigi síðar en 1. september nk.

  Hún skuli skila biskupi skýrslu um störf sín en helstu niðurstöður og tillögur rannsóknarnefndarinnar verði birtar opinberlega. Innanríkisráðherra verður tilkynnt um skipan nefndarinnar og honum kynntar starfsreglur hennar strax og þær liggja fyrir.

  Að lokum vil ég, sem biskup kaþólsku kirkjunnar, feta í fótspor Benedikts páfa og biðja alla þá afsökunar og fyrirgefningar sem kunna að hafa orðið fyrir kynferðislegum brotum af hálfu presta eða starfsmanna kirkjunnar," [1]

  [1] http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/06/28/rannsoknarnefnd_skipud/

  26.06.11

    08:26:23, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 612 orð  
  Flokkur: Pjetur Hafstein Lárusson

  Kynferðisglæpir innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi

  Pjetur Hafstein Lárusson skrifar

  Í gærkvöldi birti ég hér á kirkju.net hugleiðingar varðandi þá stöðu, sem nú er komin upp innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, vegna kynferðisglæpa gegn börnum. Því miður urðu mér á þau leiðu mistök, að nefna nöfn í því sambandi. Eins og staðan er nú, er það í raun ekki mitt, að birta þau. Hugleiðingar mínar snúa að viðbrögðum kirkjuforystunnar. Birti ég því greinina hér aftur, með breytingum á því atriði, sem hér er fjallað um, um leið og ég biðst velvirðingar á mistökum mínum.

  Fyrir tæpum tuttugu árum bjó ég steinsnar frá Maríukirkju, kirkju kaþólikka í Seljahverfi í Reykjavík. Ég hafði lengi haft áhuga á kaþólsku kirkjunni og tók því að sækja guðþjónustu í umræddri kirkju.. Þar var og er enn til siðs, að kirkjugestir komi saman í safnaðarheimilinu að lokinni messu.

  Mér leið vel í þessum félagsskap. Þarna kynntist ég einlægu og elskulegu fólki af ýmsu þjóðerni. Það tók trú sína alvarlega en án fordóma gagnvart þeim, sem aðrar trúarskoðanir höfðu. Og ekki spillti presturinn, séra Denis O’ Leary fyrir, með sinn írskra húmor og sína hleypidómalausu trú. Er ekki að orðlengja það, að ég gerðist kaþólskur.

  Fljótlega eftir að ég gerðist kaþólikki, tók ég að heyra ýmsar sögur af ónefndum klerki, sem gengdi stöðu skólastjóra Landakotsskóla. Þær voru fæstar fagrar, þó ekki væri þar minnst á þau stórmæli, sem nú eru lýðum ljós. Auðvitað vissi ég, að meðal kaþólskra leikmanna voru sumir, sem töldu sig standa trúbræðrum og systrum sínum skör hærra. Annað hvort væri nú; slíkt gerist í hvaða félagsskap, sem vera skal og þarf ekki trúfélög til. Ég leiddi þetta hjá mér, sem og það sem ég heyrði um skólastjórann enda hafði ég ekki hugsað mér, að gerast félagsmálanaut innan kirkjunnar.

  Nýustu tíðinda af ofbeldisverkum umrædds skólastjóra og kennslukonu einnar við skólann, sem og prests nokkurs, sem beindust gegn börnum, knýja mig hins vegar til að fjalla um þau mál á þessum vettvangi.

  Sadismi og kynferðisleg brenglun eru einstaklingsbundin fyrirbæri. Þannig segir það t.d. ekkert um menntakerfið, þótt stöku kennar fullnægi fýsnum sínum á nemendum. Kaþólska kirkjan á Íslandi á heldur ekki að þurfa að líða fyrir brenglun umræddra einstaklinga.

  En því miður er málið ekki svona einfalt. Í ljós hefur komið, að allar götur frá árinu 1963, eða í hartnær hálfa öld, vissu a.m.k. prelátar kaþólsku kirkjunnar hér á landi um glæpsamlegt athæfi skólastjórans og kennslukonunnar og þögðu þunnu hljóði. Hve langt niður eftir virðingarstiga kaþólsku kirkjunnar þessi vitneskja náði veit ég ekki.

  Með þögn sinni hylmdu biskupar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og í það minnsta aðrir prelátar yfir glæpastarfsemi gegn börnum. Þar með urðu þeir ekki aðeins sjálfir samsekir; þeir gerðu kirkjuna sem stofnun einnig samseka þessu fólki.

  Nú virðist það vefjast fyrir prelátunum, að biðja það fólk, sem þeir áratugum saman beittu ofbeldi þagnarinnar, afsökunar á því níðingsverki, sem í þögninni felst.

  Skyldu eftirfarandi orð Krists aldrei koma þessum mönnum í hug: “Allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér og mér gjört”.

  Við skulum ekki gleyma því, að eftir að þáverandi biskup fékk upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum innan kirkjunnar árið 1963 og kaus að þegja, hvílir ábyrgðin á herðum kirkjunnar. Þeirri ábyrgð verður ekki af henni létt, fyrr en prelátarnir sjálfir og aðrir innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, leiknir sem lærðir, sem hugsanlega vissu hvað var að gerast, hafa leitt þjóðina í allan sannleika þessa máls, undanbragðalaust og leitast fölskvalaust eftir fyrirgefningu fórnarlambanna.

  Það liggur svo í hlutarins eðli, að íslenskir dómstólar fjalli um mál þeirra, sem hylmdu yfir með barnaníðingunum, sem dauðinn hefur frelsað undan armi laganna. Þeir, sem fyrir dómstólum reynast sýknir saka geta þá að sjálfsögðu haldið áfram störfum sínum innan kirkjunnar, hinir ekki.

  24.06.11

    17:17:30, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 40 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Iðunn Angela: Nauðynlegt að kirkjan biðjist afsökunar

  Iðunn Angela var í fréttatíma RÚV Sjónvarpsins í kvöld. Hér er frétt af vef RÚV um málið og hér er upptaka af viðtali síðdegisútvarpsins við hana.

  Nú þyrfti herra Pétur biskup að gefa út afsökunarbeiðni og það sem allra fyrst.

    16:12:29, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 38 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Mál tengt Margréti komið til ákæruvaldsins

  Þetta kemur fram á visir.is:

  Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er búin að rannsaka kynferðisbrot, sem beinist að Margréti Müller heitinni, þegar hún var kennari við Landakotsskóla. Málið hefur verið sent ákærusviði að sögn Björgvins Björgvinssonar, yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar. [1]

  [1] http://www.visir.is/mal-m%C3%BCller-til-akaeruvaldsins/article/2011110629858

    15:25:50, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 251 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Mætum í messur - sýnum samstöðu

  Í kjölfar nýlegra og fram kominna alvarlegra ásakana um meint afbrot starfsfólks Kaþólsku kirkjunnar má gera ráð fyrir að tíminn framundan verði erfiður mörgum. Hann verður erfiður öllum þolendum kynferðisofbeldis, án tillits til trúfélags, lífs- eða trúarskoðana.

  Hann verður einnig erfiður þeim aðilum sem nú hafa stigið fram og sagt sínar sögur, jafnvel þó að þessir aðilar njóti nafnleyndar. Hann verður erfiður fyrir vini og ættingja þeirra aðila sem bornir eru sökum. Síðast en ekki síst verður þessi tími erfiður fyrir Kaþólsku kirkjuna á Íslandi. Mörg okkar þekktu þá einstaklinga sem um er rætt og allir munu fara yfir samskipti sín við þá í huganum. Slík sjálfsskoðun er ekki alltaf sársaukalaus.

  Á meðan þessar aðstæður eru til staðar er nauðsynlegt að við mætum í messur, hittumst og tölum saman til að sýna að við viljum sýna samstöðu með öllum aðilum sem hlut eiga að máli og við viljum fá skýra heildarmynd af því sem gerðist. Þetta er nauðsynlegt í því ferli að græða þau sár sem þegar hafa myndast og til að hægt sé að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi, einelti eða skírlífisbrot. Það er án efa vilji allra og það er það sem fólk getur sameinast um. Ekki yfirgefa vandræðin þau hverfa ekki við það. Mætum í messur og sýnum með því að við viljum horfast í augu við erfiðleikana, takast á við þá og leggja okkar af mörkum til betra samfélags.

  Endurbirtur pistill sem birtist áður hér á vefsetrinu 22.06.2011 kl. 10.24

    13:27:11, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 121 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Altarissakramentið

  Svar Innanríkisráðherra við bréfi Biskups

  RÚV greinir frá þessu:

  Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að sér hafi verið greint frá kynferðisafbrotum innan kaþólsku kirkjunnar síðastliðið haust. Hann lagði þá til að málinu yrði vísað til lögreglunnar. Það var gert. Eftir það óskaði hann eftir fundi með biskupi kaþólsku kirkjunnar. Á honum voru fulltrúar í fagráði sem ráðherra hefur komið á laggirnar til að fást við kynferðisafbrotamál, auk innanríkisráðherra og biskups.

  Ögmundur segir að biskup haldi því fram að hann verið að bíða eftir frekari upplýsingum frá ráðuneytinu. Hann kveðst ekki kannast við það. Biskup hafi ekki kallað eftir neinu slíku.

  Ráðherra fagnar því að þessi mál skuli vera komin til umræðu í þjóðfélaginu. Hann segist bíða eftir því að kaþólska kirkjan taki af festu á þeim.

  [1] http://www.ruv.is/frett/vissu-en-thogdu-i-48-ar

    13:22:17, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 269 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Fréttatilkynning frá Landakotsskóla

  RÚV greinir frá þessu og birtir tilkynninguna:

  Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarna daga eiga ýmsir fyrrum nemendur við Landakotsskóla um sárt að binda vegna kynferðilegs ofbeldis sem þeir urðu fyrir af hendi tiltekinna starfsmanna kaþólsku kirkjunnar sem störfuðu við Landakotsskóla á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  Það má öllum vera ljóst að núverandi stjórn og starfsfólk Landakotsskóla taka málið afar nærri sér og finnst þetta mál óendanlega sorglegt. Það veldur óhug meðal skjólstæðinga skólans, foreldra og nemenda. Við vonum að fórnalömbin fái að upplifa eitthvert réttlæti af hendi þeirra sem teljast ábyrgir að lokinni rannsókn opinberra aðila.

  Rétt er að árétta það að Landakotsskóli ses. er ekki kaþólskur skóli í dag heldur sjálfstæð menntastofnun sem rekur í húsakynnum í Landakoti forskóla-og grunnskóladeildir. Hjá skólanum starfa eingöngu kennarar með menntun frá Kennaraháskóla Íslands. Enginn kennari eða leiðbeinandi starfar þar á vegum kirkjunnar enda skólinn einkarekin sjálfseignarstofnun og hefur verið það síðastliðin 7 ár. Það eina sem er sameiginlegt með skólanum í dag og þeim skóla sem starfaði á þeim tíma sem þessir hræðilegu atburðir áttu sér stað, er nafnið og staðsetningin.

  Í vetur var starf Landakotsskóla ses. tekið út af Menntasviði Reykjavíkurborgar og fékk skólinn bestu niðurstöðu sem grunnskóli hefur
  fengið í þannig úttekt til þess. Meðfylgjandi er skýrsla Menntasviðs.
  Menntasvið hefur nú metið 27 skóla og enginn annar skóli hefur fengið viðlíka góða umsögn og Landakotsskóli fékk í vetur.

  Stjórn og starfsfólk Landakotsskóla harmar að starfsemi skólans nú skuli þurfa bíða hnekki fyrir misyndisverk einstaklinga við skólann á fyrri tíð.

  Hugur starfsfólks Landakotsskóla er hjá þeim sem eiga um sárt að binda í þessu sorglega máli. [1]

  [1] http://www.ruv.is/frett/harma-misyndisverk-fyrri-ara

    13:13:59, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 58 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Fimmtán rúður brotnar á heimili Biskupsins

  Svo greinir Morgunblaðið frá sem og fréttastofa RÚV:

  Fimmtán rúður voru brotnar í bústað kaþókska biskupsins í Landakoti í nótt. Lögreglan var kölluð á staðinn um tvöleytið og handtók karlmann á staðnum sem viðurkenndi verknaðinn.

  Málið telst upplýst, að sögn lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

  Fréttastofa RÚV greinir frá því að verknaðurinn tengdist umfjöllun fjölmiðla um meint kynferðisbrot í Landakotsskóla.[1]

  [1] http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/06/24/rudur_brotnar_i_biskupsbustad/

  Enn frekari brot Georgs skólastjóra gerð opinber

  Í frásögn Iðunnar Angelu Andrésdóttur í Fréttatímanum í dag sakar hún séra Georg, skólastjóra Landakotsskóla, um kynferðislega barnaáníðslu. Samkvæmt hennar hlið málsins hafa brot hans gagnvart henni verið margítrekuð og alvarleg, um nokkurra ára skeið, svo að skipti tugum tilfella, fyrst og fremst í húsnæði skólastjórans, 1960–63, en áreitnisögunni hafi loks lokið í Stykkishólmi; ef allt er það satt, er aðdáunarvert að lesa um frammistöðu þessarar stúlku sem hafði enga vörn átt sér, meðfram vegna hótana Georgs. Önnur nafngreind kona, Rut Martine Unnarsdóttir, ber þar einnig vitni um gróft blygðunarbrot, áníðslu séra Georgs. Þá fylgja frásögnunum upplýsingar um viðbrögð foreldra Iðunnar og fleira sem snertir trúverðugleika kvennanna, þannig að gamlir vitnisburðir annarra en þeirra einna eiga að vera tiltækir. – [Viðauki 4.8. 2011: Þetta er sett hér fram með fyrirvara, enda hafa vissar mótsagnir reynzt vera í vitnisburði Iðunnar og hlutir, sem ganga ekki auðveldlega upp, eins og frá þeim vitnisburði var sagt í blaðinu.] – Þetta eru umfram allt óskaplega sorgleg mál og hræðilegt að þetta hafi viðgengizt í barnaskóla kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Viðbrögð biskups, sem þá var, kaþólskrar nunnu og sóknarprests í Landakoti virðast einnig, skv. vitnisburði Iðunnar, hafa verið gagnslaus og óverjandi: henni helzt ráðlagt að fyrirgefa ofbeldismanninum! – Gleymum þó ekki (má bæta við, 27/6), að málið er enn í rannsókn. Það er of snemmt að gefa sér neitt öruggt um jafnvel þessi mál ; það á líka við um vitnisburð tveggja manna, sem hafa ekki komið fram opinberlega undir nafni.

  Eitt, sem ekki hefur verið dregið fram í umræðunni, en mér þykir full ástæða til að hyggja að, er sú staðreynd, að séra Georg hafði afar sterka stöðu til að þurrka út slóð sína, ef skólanum eða kaþólsku kirkjunni á Íslandi kann að hafa borizt bréfleg kvörtun eða ef eitthvað hefur verið skjalfest, t.d. í biskupsstofu, um fundi með þeim sem hugsanlega hafa ákært eða ásakað séra Georg og Margréti fyrir framferði þeirra gagnvart börnum. Georg var þarna ekki aðeins skólastjórinn um 34 ára bil, 1964–98, og þar með sá sem hafði yfirumsjón með öllum gögnum skólans, heldur var hann einnig "postullegur umsjónarmaður" biskupsdæmisins árin 1986-88 (eftir andlát dr. Hinriks biskups Frehen) og 1994-95 (eftir andlát dr. Alfreðs Jolson biskups, unz Jóhannes Gijsen tók við sem biskup). Frá árinu 1998 var séra Georg einnig fjármálastjóri biskupsdæmisins.

  Af þessu leiðir, að þessi sami meinti barnaníðingur hafði alla aðstöðu til að komast í öll gögn biskupsdæmisins og þar með að eyða þeim, sem hann hefði viljað láta hverfa. Hann hefði þá sömuleiðis getað kynnzt því, af hvaða safnaðarmönnum eða foreldrum barna hann hefði hugsanlega mátt vænta opinberra ásakana, sem og hinu, hvaða prestar eða starfsmenn skólans hafa hugsanlega tekið létt – eða eindregið! – á málum hans.

  Um langt árabil voru vissar væringar taldar vera í Landakoti og rafmagnað andrúmsloft milli vissra presta og biskupa, en sumt af því (eins og togstreita séra Sæmundar eða hans stuðningsmanna við Hinrik biskup) væntanlega ekki í neinum tengslum við þessi ljótu mál.

  Séra Georg var uppsigað við Maríulegíónina, sem hingað kom á vegum hins írska prests Roberts Bradshaw, manns með mikinn trúboðsvilja – og vann reyndar síðast á þeim akri í Rússlandi. Maríulegíónin var vinsæl hér meðal margra og vann gott starf í Breiðholti og víða um borgina, kannski með einföldum aðferðum, að taka fólk tali á götu og með því að banka upp á og gjarnan með afhendingu Maríu-bænarmens og fyrirbænum, auk helgistunda með þeim, sem þáðu að kynnast því samfélagi. Alltaf þótti mér undarleg fordæming séra Georgs á þessum saklausu aðferðum. Mjög fjölmennum fundi í safnaðarheimilinu fyrir kannski tveimur áratugum var beinlínis stefnt gegn þessari Maríulegíón og augljóst, að séra Georg og hans fylgjendur vildu helzt gera hana brottræka frá Íslandi og fá tilstyrk biskups til þess. Það er eins og mig minni, að þeim hafi tekizt að svipta séra Róbert starfsleyfi eða hrekja hann héðan, en það leiðréttist, ef rangt er með farið – Ragnar Brynjólfsson (hér á Kirkjunetinu) getur upplýst betur um það.

  Kann þessi andstaða sr. Georgs að hafa verið af fleiri ástæðum en okkur hugkvæmdust þá? Var þetta afbrýðisemi vegna þess að skuggi gæti fallið á það frábæra skólastarf sem hann vildi telja okkur trú um að hann hefði unnið og myndi ávinna kirkjunni meira traust og tiltrúnað en "Votta Jehóva-aðferðir" í trúboði? – Þetta er nú bara hugmynd, og fleiri tilgátur kunna að eiga eftir að sýna sig.

  Á fjölmennum fundi í safnaðarheimilinu (e.t.v. þeim sama og gat um hér á undan, ég man það ekki skýrt) sór séra Georg og sárt við lagði, að aldrei hefði verið neitt ástarsamband milli hans og Margrétar Müller. Trúverðugleiki þess eiginvitnisburðar hans er nú augljóslega enginn orðinn.

  Fullkomlega ljós var mér og mörgum andstaða séra Georgs við herra Alfreð Jolson, sem hér sat á biskupsstóli 1988–1994. Séra Georg var greinilega orðinn héraðsríkur í Landakoti, þótt ég fullyrði hér ekkert um, hverjir bandamenn hans hafi verið. Taugatitringur virðist hafa verið meðal sumra Monfort-presta og annarra síðar aðkominna presta, og voru þó í hópi hinna fyrrnefndu ýmsir afar andlegir menn – bezt kynntist ég þar séra Jan Habets í Stykkishólmi, sem var hollenzkur eins og séra Georg, að ógleymdum herra Hinriki biskupi Frehen. (Sjá einnig hér, mjög þungvægan vitnisburð: Dr. Hinrik H. Frehen biskup – Minning, eftir Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðing.)

  Viðauki: Rangt er farið með það í Fréttatímanum, að það hafi verið Hinrik biskup Frehen, sem hafi ekki brugðizt við eindreginni kvörtun föður Iðunnar Angelu, sem vildi afgerandi viðbrögð biskupsins:

  Pabbi krafðist þess að biskupinn sendi séra Georg aftur til Hollands. Það voru auðvitað engin viðbrögð að fá við því og pabbi kom til baka brotinn maður. Hann varð svo reiður að hann fór aldrei í kirkju eftir þetta.

  Eins og Sigurður Ragnarsson bendir á í athugasemd hér neðar, var Hinrik biskup ekki kominn til landsins fyrr en um hálfum áratug eftir að faðir Iðunnar Angelu átti, skv. Fréttatímanum, að hafa krafizt þess í samtali við biskup kaþólsku kirkjunnar, að hann sendi séra Georg til baka til Hollands.

  En gerandi ráð fyrir, að það sé rétt, að Andrés, faðir Iðunnar, hafi lagt fram kröfu sína fyrir biskup (Jóhannes Gunnarsson?), þá hefði verið óskandi, að Andrés hefði farið beint til lögreglu með málið. En hann var ungverskur og hefur e.t.v. talið erfitt að sækja á hendur hinum "virta skólastjóra" og jafnvel talið sig eiga bágt með að bera málið upp við lögreglu, enda var lítið farið að gera í slíkum málum á þeim tíma. Sjálfur hefði biskupinn getað tekið á málinu með því að leggja til við lögreglu að rannsaka það eða hvetja foreldra Iðunnar til að kæra það.

  Mínar eða annarra grunsemdir um andúð séra Georgs á Alfreð biskupi vakna hér aftur á ný, en ég læt þessi viðbrögð mín nægja að sinni. Eitt er þó víst, að hér erum við í raun farin að fjalla um afbrotasögu þar sem sízt skyldi, við hjartastað móðurkirkjunnar á Íslandi, já, hreina glæpasögu og hana af óhugnanlegra taginu.

  Einu verð ég að bæta við: Yfirlit Þóru Tómasdóttur um öll þessi mál í kirkju okkar, á bls. 18–19 í Fréttatímanum í dag, er ýtarlegt, en eitt þykir mér þó vanta: að karlmaðurinn, sem Fréttatíminn skrifaði um í síðustu viku, með alvarlegasta kynferðisbrotamálið, var af herra Pétri biskupi Bürcher "hvattur til að leita til lögreglu eða annarra yfirvalda vegna málsins. Kaþólska kirkjan myndi í hvívetna aðstoða yfirvöld við að upplýsa málið," eins og segir í bréfi lögfræðings kirkjunnar. Þetta felur í sér, að biskup okkar, herra Pétur, hefur ekki reynt að hindra framgang þessa máls.

  22.06.11

    09:20:50, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 710 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Opið bréf til Innanríkisráðherra

  Í dag er komið á vef Kaþólsku kirkjunnar bréf til Ögmundar Jónassonar Innanríkisráðherra. Bréfritari er Friðjón Örn Friðjónsson hrl. lögmaður Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi fyrir hönd Péturs Bürcher, biskups. Afrit bréfsins fer hér á eftir:

  Bréf

  Reykjavík, 21. júní 2011.

  Innanríkisráðuneytið
  b.t. ráðherra
  Ögmundar Jónassonar.


  Um helgina birtist í Fréttatímanum grein undir fyrirsögninni “Kynferðisleg misnotkun innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.” Af því tilefni sendi Kaþólska kirkjan frá sér hjálagða fréttatilkynningu.

  Einnig hefur blaðið birt viðtöl við Guðrúnu Ögmundsdóttur sem stýrir nýju fagráði á vegum ráðuneytisins um kynferðisbrot. Gerir hún m.a. að umtalsefni fund sem ráðuneytið boðaði biskup Kaþólsku kirkjunnar til fyrir skömmu. Með biskupi kom til fundarins lögmaður kirkjunnar en auk ráðherra og aðstoðarmanns hans og ráðuneytisstjóra sátu fundinn Bragi Guðbrandsson frá Barnaverndarstofu og Björgvin Björgvinsson frá Lögreglunni í Reykjavík.

  Á fundinum gerði ráðherra grein fyrir því að einstaklingur hefði komið að máli við sig og rætt um kynferðislegt áreitni sem hann hafi orðið fyrir af hálfu prests innan Kaþólsku kirkjunnar. Ennfremur hafi bróðir hans lýst misnotkun sem hann hafi orðið fyrir sem barn af hendi þáverandi skólastjóra Landakotsskóla sem var prestur innan Kaþólsku kirkjunnar og samstarfskonu hans.

  Á fundinum var einnig fjallað almennt um mál af þessu tagi og viðbrögð við þeim þ.m.t. mikilvægi þess að hafa verklagsreglur og viðbragðsáætlun tilbúna kæmu svona mál upp.

  Af hálfu Kaþólsku kirkjunnar var fundarmönnum gerð grein fyrir því að síðastliðinn vetur hafi biskupi borist erindi frá einstaklingi er varðaði kynferðislegt áreitni prests innan kirkjunnar og skýrt frá viðbrögðum biskups við því.

  Að gefnu tilefni skal áréttað að biskup Kaþólsku kirkjunnar brást án tafar við bréfinu. Viðkomandi var boðaður til fundar með biskupi og í kjölfar var málið rannsakað innan kirkjunnar að því marki sem hægt var, en viðkomandi prestur var látinn og mörg ár liðin frá atvikinu. Leitað var álits og ráðgjafar frá lögmanni Kaþólsku kirkjunnar við umfjöllun málsins.

  Fyrir liggja bréfaskipti aðila vegna málsins og af hálfu kirkjunnar er ekkert því til fyrirstöðu að ráðherra og/eða önnur yfirvöld fá afrit þeirra. Eðli málsins samkvæmt er þó rétt að samþykki hlutaðeigandi einstaklings þar að lútandi liggi fyrir.

  Af hálfu kirkjunnar var ekki tekin afstaða til ásakana um kynferðislega áreitni starfsmanns kirkjunnar en viðkomandi einstaklingur var hvattur til að leita til lögreglu eða annarra yfirvalda vegna málsins. Kaþólska kirkjan myndi í hvívetna aðstoða yfirvöld við að upplýsa málið.

  Biskup tekur mjög alvarlega þær ásakanir sem fram eru bornar um kynferðislegt áreiti innan vébanda Kaþólsku kirkjunnar. Vill kirkjan af öllum mætti styðja við þá einstaklinga sem hlut eiga að máli og stendur öll sú þjónusta sem kirkjan hefur fram að bjóða þeim opin. Þá skal áréttað það sem fram kom á fundinum með ráðherra, að Kaþólska kirkjan vinnur í samvinnu við biskupdæmin á Norðurlöndum að setningu samræmdra vinnureglna og viðbragðsáætlunar komi upp tilvik af þessu tagi.

  Ráðherra eða fagráði fyrir hans hönd er velkomið að fylgjast með þeirri vinnu sem hér um ræðir. Þá væri Kaþólsku kirkjunni akkur í því að fá gögn og upplýsingar um skipan þessara mála hjá öðrum aðilum svo sem þjóðkirkjunni. Af hálfu kirkjunnar er sérstaklega óskað eftir fundi með fagráði í þessu skyni.

  Af hálfu Kaþólsku kirkjunnar er þess óskað, að fagráð um kynferðisbrot leiti eftir upplýsingum og beini fyrirspurnum bréflega til biskups Kaþólsku kirkjunnar í stað þess að ásaka biskup um aðgerðarleysi og þögn í fjölmiðlum. Reyndar var um það rætt á fyrrnefndum fundi með ráðherra að lögmanni Kaþólsku kirkjunnar yrði sendar upplýsingar sem ekki hafa enn borist.

  Kaþólska kirkjan er trúfélag og heldur uppi öflugu mannúðar- og menningarstarfi innan sinna vébanda. Það er ekki hlutverk stjórnvalda að grafa undan því trausti sem kirkjan nýtur meðal almennings heldur styðja kirkjuna og styrkja í starfsemi sinni. Kaþólska kirkjan er sammála ráðherra um nauðsyn þess að setja vinnu- og verklagsreglur vakni grunur um kynferðisbrot innan kirkjunnar. Slík vinna á sér stað innan kirkjunnar og er einboðið að vinna að því máli í samvinnu við yfirvöld.

  Það er hvorki hlutverk stjórnvalda né kirkjunnar heldur dómstóla að undangenginni lögreglurannsókn að skera úr um sekt eða sakleysi þeirra sem sökum eru bornir. Umfjöllun í fjölmiðlum um kynferðisbrot innan Kaþólsku kirkjunnar gefur tilefni til að árétta þetta og jafnframt að spyrja hver sé réttur þeirra látnu einstaklinga sem ásakanirnar beinast að.

  Virðingarfyllst

  Fyrir hönd Péturs Bürcher, biskups

  Friðjón Örn Friðjónsson hrl
  Lögmaður Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi

    06:18:19, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 129 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Látinn sóknarprestur borinn þungum sökum

  Af umfjöllun Fréttatímans um meint kynferðisofbeldi innan Kaþólsku kirkjunnar er ljóst að um nokkur mál er að ræða sem betra er að halda aðskildum í umræðunni. Þar kemur að fjallað er um málefni látins sóknarprests:

  Eftir þetta fór presturinn að stinga upp á því að maðurinn reyndi að öðlast frelsi frá umheiminum. Til þess að það mætti verða gæti hann afklæðst fyrir prestinn.
  „Ég sagði bara bíddu nú við, nú væri hann kominn að einhverri línu. Þetta væri ekki inni í myndinni.“[1]

  Á þessum þræði er fjallað um meint kynferðisbrot sóknarprests. Þeim sem vilja ræða það mál er bent á að leggja athugasemdir inn í athugasemdakerfinu hér á eftir.

  Hér er fjallað um meint ástarsamband og einelti í Landakotsskóla.

  Hér er fjallað um meint kynferðisbrot Georgs og Margrétar.

  [1] http://frettatiminn.is/index.php/frettir/kynferdisleg_misnotkun_innan_katholsku_kirkjunnar_a_islandi

  20.06.11

    07:59:40, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 164 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Frásagnir af skírlífisbrotum kaþólsks prests og einelti

  Í DV í dag er greint frá því að heimildir séu um að séra Águst George fyrrum skólastjóri Landakotsskóla og Margrét Müller starfsmaður við skólann hafi átt í ástarsambandi:

  Samkvæmt heimildum blaðsins voru þau elskendur en Margrét bjó í turni Landakotsskóla frá því hún byrjaði að kenna þar og allt til 1.september árið 2008. Þá svipti hún sig lífi með því að henda sér út um glugga á turninum snemma morguns, rétt áður en börn komu til skóla. [1]

  Einnig eru frásagnir af alvarlegu einelti sem hafi viðgengist yfir lengri tíma við skólann:

  Andlega ofbeldið viðgekkst í skólanum, samkvæmt viðmælendum DV, og nemendurnir tala um að margir hafi vitað af því en ekkert hafi verið að gert. „Hún niðurlægði oft nemendur fyrir framan alla. Ákveðna einstaklinga. Oft þá sem áttu erfitt uppdráttar. Allir vissu hvernig hún var en enginn gerði neitt,“[1]

  Þessar frásagnir koma fram stuttu eftir að fram komu heimildir um alvarlegt kynferðisofbeldi af hálfu parsins eins og bloggað var um hér fyrir helgi.

  [1] http://www.dv.is/frettir/2011/6/20/allir-vissu-hvernig-hun-var-en-enginn-gerdi-neitt/

  17.06.11

    08:56:15, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 276 orð  
  Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

  Frásagnir af alvarlegu kynferðisofbeldi - nauðsynlegt að kirkjan bregðist við

  Fréttatíminn greinir í dag frá frásögnum um kynferðisbrot innan Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Greint er frá alvarlegum kynferðisbrotum fyrrum skólastjóra Landakotsskóla séra A. George, Margétar Müller, kennslukonu við skólann og fyrrum sóknarprests sem ekki er nafngreindur, en fram kemur að þetta fólk er látið núna.[1] Í viðtali við Guðrúnu Ögmundsdóttur fulltrúa í fagráði Innanríkisráðuneytisins um kynferðisofbeldi kemur eftirfarandi fram:

  „Málin tvö varða alvarlegt kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum innan kaþólska safnaðarins í Reykjavík. Ofbeldið átti sér stað bæði í Landakotsskóla og í Riftúni sem var sumardvalarstaður þeirra kaþólikka. Þetta eru gömul og fyrnd mál og gerendur eru látnir. Það þýðir ekki að málin þurfi kyrr að liggja. Af og frá. Einstaklingunum sem urðu fyrir ofbeldinu var bent á að fara til lögreglu og gefa skýrslu. Komið var á fundi með fagráðinu, ráðherra og biskupi kaþólsku kirkjunnar til að gera biskupi grein fyrir málinu. Síðan eru liðnir tveir mánuðir og ekkert viðbragð hefur komið frá kirkjunni.“

  „Kirkjan hefði getað sýnt margs konar viðbrögð við þessu. Stundum vilja þolendur bara það eitt að fá afsökunarbeiðni. Uppreisn æru. Það er aldrei verið að tala um peninga í þessum málum heldur að fólki sé trúað. Yfirleitt er það mikilvægast. Kirkjan hefði getað kallað einstaklingana sem málið snertir á sinn fund, beðist afsökunar á því sem gerðist eða sýnt að hún taki þetta alvarlega. Kirkjan hefur ekkert brugðist við þessu máli,“ segir Guðrún og viðurkennir að hún sé hissa á dræmum undirtektum. Hún segir ástæðu til að fylgjast með trúarsöfnuðum á Íslandi. „Það má vel búast við fleiri málum frá kaþólsku kirkjunni. Við höfum heyrt af tveimur málum til viðbótar sem við eigum von á inn á borð til okkar.“ [2]

  [1] http://frettatiminn.is/index.php/frettir/kynferdisleg_misnotkun_innan_katholsku_kirkjunnar_a_islandi
  [2] http://www.frettatiminn.is/index.php/frettir/nu_er_folki_truad

  11.06.11

    13:24:42, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 111 orð  
  Flokkur: Kristindómur og menning, Kaþólskir Íslendingar

  Nonna minnzt í Köln

  Mbl.is segir frá þessu í dag: "Sýning til heiðurs Nonna, Jóni Sveinssyni rithöfundi og Jesúítapresti, verður haldin í Köln 18.-30. júní næstkomandi. Sýningin verður í Domforum, upplýsinga- og menningarmiðstöð í miðborg Kölnar. Sýningin heitir Nonni, líf og störf (Nonni, Leben und Werk)."

  Á Mbl.is (HÉR) má lesa nánar um sýninguna, og þar er einnig mynd Skapta Hallgrímssonar af styttu af Jóni Sveinssyni við Nonnasafn á Akureyri.

  Nánar um Nonna, sjá hér á Kirkjunetinu.

  Og hér er grein um hann á íslenzku á Wikipediu. Eins og þar segir, hafa bækur hans "verið þýddar á 30-40 tungumál og gefnar út í milljónum eintaka. Þar að auki skrifaði hann að minnsta kosti eina landkynningarbók um Ísland á þýsku."

  05.06.11

    10:48:21, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 308 orð  
  Flokkur: Pílagrimsferðir, Helgir staðir á Íslandi

  Sumarið er tími pílagrímsferða

  Ein er tegund ferðamennsku sem lítið hefur borið á hérlendis, en það er trúarleg ferðamennska. Þetta er samt ein elsta tegund ferðamennsku. Íslendingar og aðrir Vestur-Evrópubúar fóru í trúarlegar ferðir, svokallaðar pílagrímsferðir, bæði hérlendis og erlendis um aldir löngu áður en nútíma ferðamennska varð að sjálfsagðri neysluvöru. Í dag er ekki síður mikilvægt að gera ráð fyrir að til sé fólk sem vilji ferðast um landið og líta á það sem vettvang pílagrímsferðar og í kynningarstarfi þyrfti því að gera sögu staðanna skil á erlendum málum með tilliti til þessa mögulega áhugasviðs.

  Einhver kann að ætla að Ísland hefði ekki upp á mikið að bjóða sem áfangastaður fyrir pílagríma en það er ekki svo. Fyrst má nefna Skálholt sem um aldir geymdi Þorláksskrínið fræga. Fólk streymdi þangað á hverju sumri allt frá upphafi 13. aldar og þangað til um siðaskipti. Í öðru lagi er Hólastaður sem geymir ekki síðri sögu merkra Hólabiskupa. Á Hólum er enn að finna stórmerkileg menningarverðmæti, svo sem Altarisbrík Jóns Arasonar auk fleiri hluta. Á Hólum væri hægt að skipuleggja pílagrímsgöngu t.d. yfir Heljardalsheiði til Hólastaðar.

  Í þriðja lagi mætti nefna Kaldaðarnes í Flóa en þangað streymdu pílagrímar hvaðanæva að af landinu. Í fjórða lagi má nefna helga staði og laugar sem Guðmundur góði vígði, svo sem Vígðulaug á Laugarvatni. Í fimmta lagi aðra staði og krossa sem voru sérstaklega helgaðir. Svo sem krossinn frægi í Njarðvíkurskriðum á Austurlandi, krossinn á Úlfljótsvatni sem hinn blessaði Jóhannes Páll II. páfi blessaði þegar hann kom hingað til lands 1989 eða krossinn í biskupsbrekku á Uxahryggjarleið þar sem Jón Vídalín biskup andaðist. Einnig Krosshólaborg í Dalasýslu þar sem Auður djúpúðga baðst fyrir.

  Hér hef ég í stuttum pistli nefnt nokkra áfangastaði sem fólk gæti heimsótt á trúarlegri pílagrímsferð sinni í kringum landið. Kannski detta lesendum í hug fleiri staðir og gaman væri að fá ábendingar um þá í athugasemdum.

  01.05.11

    20:30:19, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 256 orð  
  Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kirkjusaga nýaldar, alþjóðleg, Páfadæmið í Róm

  Jóhannes Páll II páfi lýstur blessaður í morgunmessu í dag

  See full size image

  Hátíðarandi var ríkjandi í blíðskaparveðri í Rómaborg í dag, þegar því var lýst yfir, að pólski páfinn Jóhannes Páll 2., fæddur Karol Józef Wojtyła, væri kominn í tölu blessaðra. Péturstorgið í Vatíkaninu og allar nærliggjandi götur voru yfirfullar af pílagrímum, m.a. frá Póllandi. Meira en milljón manns tók þátt í gleðinni sem þarna ríkti, og heima í hverju kaþólsku landi var gerla fylgzt með atburðunum í sjónvarpi.

  Íslenzk trúsystkini þess, sem þetta ritar, fylgdust t.d. með beinni útsendingu þýzks sjónvarps, sænska sjónvarpsins og EWTN-stöðvarinnar bandarísku.

  Öllu pólsku fólki á Íslandi er hjartanlega óskað til hamingju af þessu tilefni, sem og öllum trúsystkinum okkar og öðrum Íslendingum sem báru mikinn hlýhug til Jóhannesar Páls páfa eftir heimsókn hans hingað til lands árið 1989. Hún er okkur öllum ógleymanleg, m.a. hin fagra stund í Kristskirkju, þegar pólsku Karmel-nunnurnar auðsýndu honum kærleika sinn og gleði með því skyndilega að varpa fram á hápallinn fyrir framan altarið ótal rósum.

  Jóhannes Páll varð þjóð sinni blessun og kirkjunni sá styrkur frá Guði, sem hún þarfnaðist svo átakanlega á ofanverðri 20. öld. Hann var andstæðingur allra alræðisstefna og átti sinn dýrmæta þátt í falli kommúnismans í Evrópu, en á innra sviði kirkjunnar var hann eins og lýsandi viti sem beindi mönnum að bæninni, að Maríu, móður frelsarans, og að því að helgast Jesú sjálfum trúfastlega í andlegu lífi og í köllun til siðferðis. Eins og í frumkirkjunni rækti hann trúlega "uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar" (Post. 2.42) og varð ótalmörgum fyrirmynd og hvatning til kristins lífernis. Af honum stafaði sannarlega ljómi hins kærleiksríka fræðara.

  25.04.11

    08:19:21, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 260 orð  
  Flokkur: Fjölmiðlarýni, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

  Kaþólskan í fjölmiðlum fyrr og nú

  Í sjónvarpsfréttum RÚV að kvöldi föstudagsins langa var landsmönnum greint frá því að „kaþólska kirkjan [væri] íhaldssöm stofnun og færi sér hægt að tileinka sér nýjungar á borð við sjónvarp“. [1].

  Fréttamanninum og áheyrendum hans má í þessu sambandi benda á útvarpsstöð Páfagarðs sem stofnsett var 1931 og sett upp af Guglielmo Marconi upphafsmanni útvarpsins. Ágrip af sögu stöðvarinnar er að finna hér. Sú útvarpsstöð sendir í dag út á 45 tungumálum. Útvarpsstöð Páfagarðs er því aðeins einu ári yngri en elsti hluti RÚV er.

  Fréttamanni RÚV mun líklega einnig koma á óvart að fregna af starfi bandaríska kaþólska biskupsins Fulton J. Sheen sem á árunum 1930-1950 hafði umsjón með útvarpsþættinum The Catholic Hour. Síðar flutti Sheen biskup sig yfir í sjónvarpið og sá um þættina Life Is Worth Living (1951–1957) og The Fulton Sheen Program (1961–1968). Í þessu samhengi má rifja upp að RÚV - Sjónvarp hóf starfsemi sína árið 1966 eða um það leyti sem Sheen biskup var að ljúka sínum sjónvarpsferli.

  Í nútímanum má einnig benda á kaþólsku sjónvarpsstöðina EWTN sem sendir út um gervinhetti til margra landa sem og útvarpsstöðina Radio Maria. Í víðu samhengi má benda á vefi sem annað hvort eru reknir beint af kaþólsku kirkjunni, sjálfstæðum stofnunum eða einstaklingum.

  Vissulega má halda því fram með nokkrum þunga að lítið hafi borið á kaþólsku kirkjunni í íslensku sjónvarpi svo sem sjónvarpsfréttum. Þessi litla athygli sem kaþólska kirkjan, og ekki bara hún heldur t.d. litlu kristnu söfnuðirnir fá í RÚV á sér eflaust ýmsar skýringar en sú skýring að hún og þeir forðist fjölmiðlana sökum íhaldssemi er ekki sú sennilegasta.

  [1] http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547321/2011/04/22/7/

  23.04.11

    04:29:15, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 105 orð  
  Flokkur: Fjölmiðlarýni

  EWTN sjónvarpsstöðin næst best á Eurobird 1 gervitunglinu

  Áhorfendur kaþólsku sjónvarpsstöðvarinnar EWTN hér á landi hafa sumir hverjir eflaust tekið á móti útsendingum hennar frá HotBird 6 gervitunglinu. Gallinn við þær útsendingar er að styrkur þeirra er lítill hérlendis og eru veðuráhrif fljót að spilla móttökuskilyrðum. En EWTN hefur einnig hafið útsendingar í gegnum Eurobird 1 gervitunglið sem er á 28,5° austlægrar lengdar. Það er skammt frá Astra 2 tunglinu sem er á 28,2° og því hægt að nota sama disk fyrir báða hnettina. Merkið frá Eurobird 1 er sterkara en frá HotBird 6 og veðuráhrif hafa mun minna að segja.

  --
  Tæknilegar upplýsingar: Merkið frá Eurobird er á 12523 Mhz. Symbol Rate er 27500 og Polarity Horizontal.

  Heimildir :
  http://www.ewtn.co.uk/bysatellite.html
  http://www.fjarskiptahandbokin.is

  22.04.11